Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 16.3.–13.4.2020

2

Í vinnslu

  • 14.4.2020–15.9.2021

3

Samráði lokið

  • 16.9.2021

Mál nr. S-72/2020

Birt: 16.3.2020

Fjöldi umsagna: 9

Drög að reglugerð

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um skráningu ökutækja og drög að reglugerð um skoðun ökutækja

Niðurstöður

Í samráðsgáttina bárust 9 umsagnir. Tekið var tillit til athugasemda eftir því sem kostur var. Reglugerð um skoðun ökutækja hefur verið gefin út og fengið númerið 414/2021. Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 751/2003 um skráningu ökutækja hefur einnig verið gefin út og fengið númerið 1515/2020.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir til umsagnar drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003 og drög að nýrri reglugerð um skoðun ökutækja.

Nánari upplýsingar

Helstu breytingar sem lagðar eru til með drögum að reglugerð um breytingu á reglugerð um skráningu ökutækja eru eftirfarandi:

• Gert er ráð fyrir að vinnuvélar sem notaðar eru í almennri umferð verði skráningarskyldar í samræmi við ákvæði umferðarlaga

• Ákvæði um útgáfu bráðabirgðaskráningarskírteina er fellt brott en Samgöngustofa hefur ekki gefið út slík skírteini

• Samgöngustofu er veitt heimild til að afskrá einhliða ökutæki sem ekki hefur verið fært til skoðunar í 10 ár

• Skýrt verður tekið fram að eigendaskipti og almenn umsýsla önnur en skráning og afskráning í ökutækjaskrá sé áfram hlutverk Vinnueftirlitsins

• Sett eru inn ákvæði um heimildir til skráningar breytingalása í samræmi við ákvæði nýrra umferðarlaga. Breytingalásar takmarka skráningar sem hægt er að framkvæma vegna ökutækis eða eiganda í ökutækjaskrá

• Sett eru inn ákvæði um útlit og staðsetningu skráningarmerkja léttra bifhjóla í flokki I sem gerð eru skráningarskyld í samræmi við ákvæði umferðarlaga

• Sett er inn bráðabirgðaákvæði skv. heimild í d-lið 3. mgr. 72. gr. umferðarlaga til að setja reglur um tímabundinn akstur skráningarskylds ökutækis án skráningar. Ákveðið kveður á um að ekki skuli skrá vinnuvélar. Þá segir að ekki skuli skrá eftirvagna sem gerðir eru fyrir 750 kg eða minna að heildarþyngd fyrr en 1. janúar 2021. Ákvæðið fellur úr gildi 1. júlí 2021.

Með drögum að nýrri reglugerð um skoðun ökutækja eru m.a. innleidd efnislega ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/45/ESB frá 3. apríl 2014 um reglubundnar prófanir á aksturshæfni vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra og um niðurfellingu á tilskipun 2009/40/EB. Tilskipunin hefur verið innleidd hér á landi með tilvísunaraðferð en rétt þykir að innleiða kröfur hennar efnislega í nýrri reglugerð um skoðun ökutækja. Þá eru einnig lagðar til frekari breytingar frá reglum gildandi reglugerðar.

Helstu breytingar sem lagðar eru til með drögum að reglugerð um skoðun ökutækja eru eftirfarandi:

• Dráttarvélar með hönnunarhraða yfir 40/km á klst. eru gerðar skoðunarskyldar í samræmi við kröfur tilskipunarinnar og nýrra umferðarlaga. Þá eru eftirvagnar dráttarvéla sem hannaðir eru til aksturs yfir 40 km á klst. og ætlaðir til notkunar á opinberum vegum gerðir skoðunarskyldir

• Rafknúin dráttartæki og létt bifhjól í flokki I eru gerð skoðunarskyld í samræmi við kröfur umferðarlaga

• Lagt er til að sett verði inn ný heimild til undanþágu ökutækja frá skoðun sem staðsett eru á tilteknum eyjum, þ.e. Flatey á Breiðafirði, Grímsey og Hrísey

• Í stað þess að heimilt sé að færa ökutæki til aðalskoðunar allt að 6 og 10 mánuðum fyrir áætlaðan skoðunardag er lagt til að heimilt verði að færa ökutæki til aðalskoðunar 1 mánuði fyrir áætlaðan skoðunardag. Slíkt er gert heimilt óháð almanaksári en hingað til hefur ekki mátt gera slíkt á öðru almanaksári en því sem skoðun skal fara fram á

• Lagt er til að svokallaður varahlutafrestur verði felldur brott. Skv. gildandi reglum hafa þeir sem búa lengra en 80 km frá skoðunarstofu getað fengið 2 mánaða frest til viðbótar við almennan frest hafi þeir ekki átt kost á að færa ökutæki til skoðunar

• Lagt er til að skoðunarstofur verði ekki lengur flokkaðar í skoðunarstofu I og II heldur miðist viðurkenning við þann búnað sem er til staðar

• Lagt er til að ökutæki sem færa skal til skoðunar óháð endastaf fyrir 1. ágúst skv. gildandi reglugerð skuli nú færa til skoðunar fyrir 1. júlí. Um er að ræða fornbifreiðar, húsbifreiðar, bifhjól, hjólhýsi og tjaldvagna sem eru fyrst og fremst notuð yfir sumartímann og því þykir rétt að þau verði skoðuð á fyrri hluta sumars

• Bætt er við nýju ákvæði um að skoðun skuli ljúka með niðurstöðu og tilkynnt skuli um það þegar komið er með ökutæki til skoðunar. Þannig verður ökumanni ekki heimilt að hætta við skoðun sem er hafin og leita annað til að fá ökutæki skoðað

• Sett er inn nýtt ákvæði í samræmi við kröfur tilskipunarinnar um að athuga skuli hvort óeðlileg breyting hafi orðið á stöðu akstursmælis ökutækis

• Nýtt ákvæði fjallar um skyldur skoðunarstöðva og endurskoðunarverkstæða

• Ákvæði um kröfur til tæknilegs stjórnanda er gert ítarlegra en ákvæði gildandi reglugerðar og fært til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru í nágrannaríkjum og þær kröfur sem gerðar eru til skoðunarmanna skv. tilskipuninni

• Gerðar eru breytingar á kröfum til skoðunarmanna. Skv. gildandi reglugerð er aðeins gert ráð fyrir að bifvélavirkjar geti verið skoðunarmenn. Lagt er til að bifreiðasmiðir og vélvirkjar geti einnig verið skoðunarmenn. Skoðunarmenn skulu hafa lokið grunnþjálfun eða endurmenntun í skoðun ökutækja og lagt er til að skoðunarmaður hafi nægan skilning á íslensku til að geta sinnt starfinu

• Sett er inn ákvæði sem leggur þær kröfur á skoðunarstofur að setja reglur sem tryggja hlutleysi þeirra þegar ökutæki stofunnar eða starfsmanna hennar eru skoðuð

• Lagt er til nýmæli um að ekki megi afhenda skráningarmerki ökutækis ef niðurstaða síðustu skoðunar var notkun bönnuð

Skoðunartíðni

Lagt er til að skólabifreiðar og bifreiðar sem flytja hreyfihamlaða verði skoðaðar árlega líkt og leigubifreiðar og ökutæki ætluð til neyðaraksturs. Þá er lagt til að ökutæki í notkunarflokknum ökutæki í ökutækjaleigu verði fyrst skoðuð innan þriggja ára frá því að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu. Síðan á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og eftir það á 12 mánaða fresti.

Vanrækslugjald

Lagt er til að almennt vanrækslugjald verði hækkað úr 15.000 kr. í 20.000. Þá er lagt til að vanrækslugjald vegna hópbifreiða og vörubifreiða verði 40.000 kr. til að tryggja enn frekar varnaðaráhrif þess að stórar og þungar bifreiðar séu ekki óskoðaðar á vegum landsins og auka þannig umferðaröryggi.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Engin skráður umsjónaraðili.