Samráð fyrirhugað 17.03.2020—20.03.2020
Til umsagnar 17.03.2020—20.03.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 20.03.2020
Niðurstöður birtar 26.03.2020

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun og lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara (niðurlagning flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara).

Mál nr. 73/2020 Birt: 17.03.2020 Síðast uppfært: 26.03.2020
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Sveitarfélög og byggðamál

Niðurstöður birtar

Sjá niðurstöðu samráðs í meðfylgjandi skjali.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.03.2020–20.03.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 26.03.2020.

Málsefni

Frumvarpið kveður á um brottfall laga um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994, með síðari breytingum, og breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011.

Frumvarpið felur í sér tvennskonar breytingar. Annars vegar eru lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara felld úr gildi. Með því móti er það stjórnskipulag sem byggt hefur verið upp í kringum sjóðinn afnumið og hætt verður að leggja sérstakt flutningsjöfnunargjald á allar olíuvörur, sem fluttar eru til landsins og ætlaðar eru til nota innanlands. Hins vegar er lagt til að breyting verði gerð á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun sem feli í sér fyrirkomulag um stuðning við flutning á olíuvörum til svæða sem standa höllum fæti í byggðalegu tilliti og búa við skerta samkeppni af landfræðilegum og lýðfræðilegum ástæðum.

Sú aðferð sem lögð er til í frumvarpinu felur í sér mun einfaldari leið til jöfnunar á olíuvörum en verið hefur. Frumvarpið miðar að því að einfalda regluverk og álögur á atvinnulífið en tryggir jafnframt að áfram verði aðgengi að eldsneyti í strjálbýli.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Markaðsstofa Norðurlands - 19.03.2020

Markaðsstofa Norðurlands (MN) gerir alvarlega athugasemd við að í þessu frumvarpi sé hvergi minnst á flutningsjöfnun á flugvélaeldsneyti.

Um langt árabil hefur MN, Flugklasinn Air 66N, Isavia, Íslandsstofa, sveitarfélög, samtök sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélög og fyrirtæki á Norðurlandi ásamt fleiri aðilum unnið að því að markaðssetja áfangastaðinn Norðurland og Akureyrarflugvöll sem aðra gátt inn í landið. Það er jafnframt yfirlýst stefna stjórnvalda að vinna að því markmiði og hefur Akureyrarflugvöllur verið settur þar í forgrunn. Flugþróunarsjóður var stofnaður til þess að skapa hvata fyrir flugrekendur til að fljúga beint til Akureyrar eða Egilsstaða og Isavia hefur sett upp afsláttarkerfi af sínum gjöldum fyrir beint millilandaflug inn á þessa flugvelli.

Staðan er samt sem áður sú, að samkeppnishæfi þessara flugvalla er mjög skekkt borið saman við Keflavíkurflugvöll – ekki hvað síst er varðar eldsneytisverð. Öllu flugvélaeldsneyti fyrir millilandaflug er landað á sama stað, í Helguvík, og dreift þaðan. Það þýðir að án flutningsjöfnunar, verður eldsneytið mun dýrara á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík. Þetta þýðir jafnframt að hvatinn sem búinn var til með styrkjum Flugþróunarsjóðs (leiðaþróunardeild sjóðsins, þar sem í boði er ákveðin fjárhæð fyrir hvern farþega sem lendir á viðkomandi flugvöllum) hverfur í það að greiða niður hærra eldsneytisverð á þessum flugvöllum – og dugir ekki alltaf til. Það hlýtur að vera markmið stjórnvalda að leiðrétta þennan mun, fella þotueldsneyti undir lög um flutningsjöfnun og virkja þannig hvatann sem Flugþróunarsjóði var ætlað að skapa.

MN skorar á stjórnvöld að leiðrétta aðstöðumun á alþjóðaflugvöllum landsins með því að fella flugvélaeldsneyti undir lög um flutningsjöfnun með einum eða öðrum hætti.

Afrita slóð á umsögn

#2 Fljótsdalshérað - 20.03.2020

Umsögn Fljótsdalshéraðs við frumvarpi til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun og lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

Vísað er til tilkynningar í samráðsgátt dags. 17. mars sl. þar sem óskað er eftir umsögnum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun og lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara.

Til að byrja með er vakin athygli á þeim skamma fresti sem veittur var til umsagnar um þetta frumvarp. Ljóst er á tímum þegar öll áhersla er á viðbrögð almannavarna þá getur reynst erfitt að fylgja eftir áherslumálum með umsagnarfrest sem telur þrjá daga.

Fljótsdalshérað hefur nokkrum sinnum og í langan tíma ályktað um mikilvægi jöfnunar á verði flugvélaeldsneytis og hversu samkeppnishamlandi núverandi fyrirkomulag er fyrir uppbyggingu millilandaflugs um Egilsstaðaflugvöll.

Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs 3. febrúar 2015 var eftirfarandi bókað þegar sveitarfélögum var gefið tækifæri til að koma fram sjónarmiðum og athugasemdum við Frummatsskýrslu vegna markaðsrannsókna á eldsneytismarkaðnum frá Samkeppnisstofnun:

„Bæjarstjórn leggur sérstaka áherslu á að Samkeppniseftirlitið skoði í markaðsrannsókn sinni þau samkeppnishindrandi áhrif sem hærra eldsneytisverð á Egilsstaðaflugvelli hefur á millilandaflug um völlinn, ef miðað er við eldsneytisverð á öðrum millilandaflugvöllum hérlendis. Nefndin leggur jafnframt til að útfærðar verði leiðir til að jafna verð á flugvélaeldsneyti sem selt er á flugvöllum landsins þannig að eldsneytisverð og eldsneytisbúnaður sé ekki þáttur sem hafi neikvæð áhrif á þróun millilandaflugs um aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll.“

Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur ítrekað ályktað um jöfnun aðstöðumunar á kaupum á flugvélaeldsneyti á Egilsstaðaflugvelli samanborið við Keflavíkurflugvöll og nú síðast á haustþingi SSA þann 11. og 12. október 2019.

Egilsstaðaflugvöllur – önnur fluggátt inn í landið

Haustþing SSA, haldið á Borgarfirði eystri 11. og 12. október 2019, hvetur hið opinbera að tryggja nægt fjármagn til flugþróunarsjóðs sem ætlað er að styðja flugrekstraraðila sem hyggja á flug til áfangastaða utan höfuðborgarsvæðisins. Aðeins þannig sýnir hið opinbera í verki vilja sinn til að opnaðar verði aðrar fluggáttir inn í landið. Þingið krefst þess að Isavia verði sett eigendastefna sem felur í sér að félagið taki yfir rekstur allra millilandaflugvalla landsins þ.m.t. Egilsstaðaflugvallar. Reynslan af millilandaflugi sýnir að Egilsstaðaflugvöllur stendur fyllilega undir slíkri starfsemi. Áfram verði unnið af fullum þunga að markaðssetningu Egilsstaðaflugvallar af hálfu hagsmunaaðila, s.s. Isavia, ríkis, fyrirtækja í ferðaþjónustu og sveitarfélaga á Austurlandi. Jafna verður aðstöðu flugrekstraraðila til kaupa á eldsneyti, hvar sem er á landinu.

Öllu flugvélaeldsneyti er landað í Helguvík og dreift þaðan með bílum. Án flutningsjöfnunar verður eldsneytið umtalsvert dýrara á Egilsstöðum og Akureyri en í Keflavík. Fljótsdalshérað og önnur sveitarfélög á Austurlandi hafa um árabil unnið að markaðssetningu flugvallarins á Egilsstöðum fyrir millilandaflug og hefur skert samkeppnisstaða vallarins m.t.t. eldsneytisverðs verið hindrun sem vonað var að rutt yrði úr vegi með breytingum á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun og lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara.

Í ofangreindu frumvarpi er hvergi minnst á flutningsjöfnun sem styður við markmið um opnun annarra alþjóðlegra fluggátta til landsins. Gengur það beint gegn stefnu stjórnvalda um aukna dreifingu ferðamanna um landið sem talin er mikilvæg bæði með hliðsjón af náttúruvernd sem og byggðasjónarmiðum skv. stjórnarsáttmálanum.

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hvetur samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið til að gera breytingar á frumvarpinu svo þessari hindrun, sem hærra eldsneytisverð er á uppbyggingu millilandaflugs á Egilsstaði og Akureyri, verði rutt úr vegi.

Afrita slóð á umsögn

#3 N1 ehf. - 20.03.2020

Samgöngu og sveitastjórnarráðuneytið

Reykjavík, 20. mars 2020

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun og lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara (niðurlagning flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara).

Vísað er til draga að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun og lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara (niðurlagning flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara) (hér frumvarpið) sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda hinn 17. mars 2020.

N1 ehf. (hér N1 eða félagið) telur rétt að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi lagafrumvarpið og fylgja þær hér á eftir. Áður en fjallað er efnislega um frumvarpið telur félagið rétt að taka það fram að meðferð málsins hefur fram að þessu verið undarleg þar sem mjög takmarkað samráð virðist hafa verið haft við helstu hagsmunaaðila við mótun frumvarpsins. Hefur N1 þannig ekki haft sérstakt tækifæri fram til þessa til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um efnisatriði þessa frumvarps og hefur N1 í reynd ekki haft pata af vinnu við frumvarpið síðan snemma árs 2019. Voru þá nokkuð ólíkar hugmyndir að breytingum á flutningsjöfnun til umræðu.

Þá dregur N1 í efa að haft hafi verið samráð við þau sveitarfélög sem eiga hagsmuna að gæta varðandi flutningsjöfnun á olíuvörum. Er ekki fjallað um slíkt samráð í þeim drögum sem fyrir liggja. Verður að ætla að frumvarpið skipti verulegu máli fyrir hagsmuni þeirra byggðalaga sem nú njóta og/eða myndu njóta flutningsjöfnunar samkvæmt frumvarpinu.

Í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem nú eru uppi hér á landi og erlendis fær N1 ennfremur ekki séð hvaða röksemdir búa að baki því að veita aðeins þriggja daga umsagnarfrest í samráðsgátt stjórnvalda. Eru athugasemdir N1 öllu takmarkaðri en ella vegna hins skamma frests. Þá mættu einnig skýrslur og önnur gögn sem vísað er til í frumvarpinu liggja fyrir svo umsagnaraðilum sé hægara um vik að móta sér afstöðu til frumvarpsins.

N1 er ósammála efni frumvarpsins í grundvallaratriðum. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað sérstaklega til minnisblaðs frá Flutningsjöfnunarsjóði dags. 4. nóvember 2019. Hefur N1 ekki séð þetta minnisblað en fékk hins vegar bréf frá sjóðnum töluvert áður. Að sama skapi hefur N1 ekki séð þá samantekt Capacent sem skilað var 3. janúar 2020 og innihélt frekari greiningu á markaðnum. Ekki er útilokað að N1 myndi taka undir eftirfarandi niðurstöðu skýrslunnar sem birtist í frumvarpinu:

„að [aflagning flutningsjöfnunar] gæti haft þau áhrif að viðkomandi félag þyrfti að hækka verð hjá sér umfram önnur félög en líklegra væri að staðir legðust af sem hefðu minnst umfang og hæstan flutningskostnað.“

Einnig sagði í skýrslunni:

„Vegna þess að sölustaðir olíufélaganna eru misjafnt dreifðir um landið gætu afleiðingarnar orðið að sölustöðum mundi fækka og aðgengi að eldsneyti þar með versna. Til að koma í veg fyrir það gætu stjórnvöld gripið til sams konar aðgerða og gagnvart dagvöruverslun í mesta strjálbýlinu og beint stuðningi sem ekki væri háður seldu magni eldsneytis til aðila sem væru tilbúnir að veita þjónustu þar sem hana yrði ekki að finna að öðrum kosti. Þennan stuðning mætti fjármagna óbeint með gjaldi á jarðefnaeldsneyti.“

Benda þessi ummæli eindregið til þess að rétt sé það sem N1 hefur bent á að tillögur að breyttu kerfi muni hafa neikvæð áhrif á verslun með eldsneyti í ákveðnum sveitarfélögum. Ekki kemur fram í tilvitnuðum texta hvað átt er við með aðgerðum stjórnvalda til þess að styrkja dagvöruverslun en N1 er ekki kunnugt um almennar niðurgreiðslur íslenska ríkisins til slíkra verslana. Liggur ekkert fyrir um hvers konar stuðning þar yrði um að ræða en að mati N1 hefur gildandi kerfi flutningsjöfnunar reynst vel til þess að styrkja mesta strjálbýlið.

N1 telur sennilegt að rétt sé að aðgengi að eldsneyti myndi víða versna verði frumvarpið samþykkt. Á það sérstaklega við á stöðum þar sem flutningskostnaður vegur mjög þungt í endanlegu söluverði. Þar sem saman fer mikill flutningskostnaður og lítil velta getur stuðningur flutningsjöfnunarsjóðs skipt sköpum um að mögulegt sé að bjóða þjónustu á eðlilegum verðum. Að mati N1 er núverandi kerfi með þeim hætti að tekið er eðlilegt tillit til kostnaðar við flutning olíuvara sem undir kerfið falla. Hefur félagið þó bent á að gildandi reikningsformúlu mætti uppfæra með tilliti til aðstæðna dagsins í dag.

Rétt er að taka það fram að dýrt er að dreifa olíu með olíuflutningabílum. Getur það því verið kostnaðarsamt að dreifa olíu, jafnvel til svæða sem eru tiltölulega þéttbýl, ef þau eru langt frá olíubirgðastöðvum. Getur kostnaður reyndar orðið til þess að gera hátt hlutfall útsöluverðs þó að flutt sé um skamma vegalengd.

Í frumvarpinu er ekki tekið tillit til þess hvernig kostnaður eldsneytissala kunni að vera vegna þjónustu við einstök byggðalög. Er aðeins gert ráð fyrir því að styrkur skiptist á milli styrkþægra staða með tilliti til veltu staðanna. Að mati N1 getur slík úthlutunarregla falið í sér að markmiði flutningsjöfnunar verði ekki náð. Flutningsjöfnun er ætlað að styðja við útsölustaði þar sem rekstrargrundvöllur er veikur. Sé miðað við veltu útsölustaða er hætt við því að þorri styrksins renni til staða þar sem rekstrargrundvöllur er sterkur og velta því hærri. Myndi frumvarpið óbreytt því hafa í för með sér hættu á að hærra hlutfall flutningsjöfnunarstyrks færi til staða sem ekki þyrftu sérstaklega á styrk að halda.

Þar sem til stendur að breyta flutningsjöfnun með þeim hætti að heildarfjárhæð til flutningsjöfnunar verði háð vilja Alþingis er auk þess óvíst hvernig fara muni um flutningsjöfnun til frambúðar. Má ætla að það dragi úr fyrirsjáanleika séu söluaðilar háðir vilja fjárlagavaldsins ár hvert en gjöld og greiðslur úr flutningsjöfnunarsjóð hafa alla tíð verið til þess að gera svipuð frá ári til árs. Skapar þetta sérstök vandkvæði í sölu til útgerða þar sem gjarnan er samið um eldsneytiskaup til lengri tíma en eins árs í senn.

Ekki kemur fram á hvaða forsendum flutningsjöfnun er takmörkuð við sölu til innlendra aðila. Virðist það vera í andstöðu við þá viðbót sem lögð er til við markmiðsákvæði laganna í frumvarpinu. Segir í 1. gr. frumvarpsins að ætlunin sé að veita styrk til svæða sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna landfræðilegra aðstæðna. Virðist sem hér sé ekki fullt samræmi á milli enda má ætla að aukin heildarvelta almennt vera til þess fallin að styrkja samkeppnisstöðu vegna landfræðilegra aðstæðna. Þá má einnig velta því upp hvort takmörkun af þessum toga myndi ganga gegn banni samningsins um evrópska efnahagssvæðið við mismun.

Hefur N1 ekki talið ástæðu til þess að gera breytingar á flutningsjöfnun olíu þar sem núverandi fyrirkomulagi hefur í meginatriðum tryggt það að markmið flutningsjöfnunar náist og að ekki sé ýtt undir byggðaröskun. N1 hefur hins vegar stutt það að grunnur úthlutunar sé uppfærður þannig að stuðst sé við ný gögn við úthlutun. Vegna hins skamma tíma sem gefst til þess að leggja mat á frumvarpið í samráðsgáttinni er vandasamt að leggja mat á það hvort frumvarpið sé líklegt til þess að ná markmiðum sínum. Telur N1 eðlilegt að nánari skoðun fari fram á því hvernig best sé að haga flutningsjöfnun til frambúðar og að öll gögn sem aflað hefur verið um málið verði lögð fram til upplýsingar fyrir haghafa.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Samtök atvinnulífsins - 20.03.2020

Í viðhengi má finna umsögn Samtaka atvinnulífsins.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra - 20.03.2020

Hjálögð er umsögn stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Samband sveitarfélaga á Austurlandi - 20.03.2020

Hjálögð er umsögn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Akureyrarbær - 20.03.2020

Meðfylgjandi er umsögn frá Akureyrarbæ.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Þröstur Friðfinnsson - 20.03.2020

Fyrir hönd sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps er send inn eftirfarandi umsögn:

„Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps tekur heilshugar undir umsögn Markaðsstofu Norðurlands, athafnir verða að fylgja góðum orðum stjórnvalda.“

Afrita slóð á umsögn

#9 Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson - 20.03.2020

Umsögn send f.h. undirbúningshóps um mililandaflug um Akureyrarflugvöll.

Flutningsjöfnun flugvélaeldsneytis verður að koma á.

Viðhengi