Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 17.–31.3.2020

2

Í vinnslu

  • 1.4.–15.10.2020

3

Samráði lokið

  • 16.10.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-76/2020

Birt: 17.3.2020

Fjöldi umsagna: 2

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (Félagsdómur).

Niðurstöður

Tvær umsagnir bárust í samráðsgáttina þar sem komið var á framfæri athugasemdum við frumvarpið. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 9. október 2020.

Málsefni

Félags- og barnamálaráðherra birtir til umsagnar drög að frumvarpi um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á IV. kafla laganna, sem fjallar um Félagsdóm.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpinu er lagt til breytt fyrirkomulag við tilhögun skipunar dómara í Félagsdóm. Eru breytingarnar meðal annars lagðar til í því skyni að bregðast við athugasemdum ríkjahóps Evrópuráðsins gegn spillingu (GRECO). Lagt er til að ráðherra skipi fimm dómara í félagsdóm. Þrír dómarar verði skipaðir ótímabundið samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar en þar af skuli einn skipaður forseti dómsins samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar og annar varaforseti dómsins samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherra skipi tvo dómara til vara samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Þá er lagt til að ráðherra skipi tvo dómara og jafn marga til vara til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambands Íslands hins vegar. Þá er lagt til að gerð verði frekari hæfisskilyrði til dómara við Félagsdóm en samkvæmt gildandi lögum eru gerðar talsvert minni kröfur til dómara við Félagsdóm en gerðar eru til dómara við almenna dómstóla. Lagt er til að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar skuli vera skipaðir dómarar við Hæstarétt, Landsrétt eða héraðsdómstól á meðan þeir gegna embætti dómara við Félagsdóm. Enn fremur er gert ráð fyrir að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambands Íslands hins vegar skuli uppfylla hæfisskilyrði 1.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla.

Við samningu frumvarpsins ákveðið að leggja til breytingar á öðrum ákvæðum IV. kafla laganna en aðeins þeim sem varða skipun og hæfisskilyrði dómara. Er meðal annars lagt til að skýrt verði kveðið á um að dómarar við Félagsdóm séu sjálfstæðir í dómstörfum og að þeir leysi þau af hendi á eigin ábyrgð. Jafnframt er gert ráð fyrir að við úrlausn máls fari dómarar við Félagsdóm eingöngu eftir lögum og lúti þar aldrei boðvaldi annarra. Lagt er til að gerðar verði auknar kröfur til þeirra sem mega flytja mál fyrir Félagsdómi en þó þannig að áfram verði gerðar minni kröfur en gerðar eru fyrir almennum dómstólum. Lagt er til að forseta Félagsdóms verði veitt heimild til að ákveða að einn dómari eða fleiri haldi dómþing til að þingfesta mál, taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm. Þá eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum sem kveða á um stefnufresti sem og þann tíma sem líða má milli dómtöku máls til uppkvaðningar dóms.

Enn fremur er lagt til að gerðar verði ýmsar orðalagsbreytingar og að ákvæði sem kveða á um efnislega skyld atriði verði sameinuð en slíkar breytingar þykja til þess fallnar að auka skýrleika laganna sem staðið hafa að mestu óbreytt frá setningu laganna árið 1938.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa vinnumarkaðar og starfsendurhæfingar

frn@frn.is