Samráð fyrirhugað 17.03.2020—31.03.2020
Til umsagnar 17.03.2020—31.03.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 31.03.2020
Niðurstöður birtar 16.10.2020

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (Félagsdómur).

Mál nr. 76/2020 Birt: 17.03.2020 Síðast uppfært: 16.10.2020
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Vinnumarkaður og atvinnuleysi
  • Dómstólar

Niðurstöður birtar

Tvær umsagnir bárust í samráðsgáttina þar sem komið var á framfæri athugasemdum við frumvarpið. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 9. október 2020.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.03.2020–31.03.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 16.10.2020.

Málsefni

Félags- og barnamálaráðherra birtir til umsagnar drög að frumvarpi um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á IV. kafla laganna, sem fjallar um Félagsdóm.

Með frumvarpinu er lagt til breytt fyrirkomulag við tilhögun skipunar dómara í Félagsdóm. Eru breytingarnar meðal annars lagðar til í því skyni að bregðast við athugasemdum ríkjahóps Evrópuráðsins gegn spillingu (GRECO). Lagt er til að ráðherra skipi fimm dómara í félagsdóm. Þrír dómarar verði skipaðir ótímabundið samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar en þar af skuli einn skipaður forseti dómsins samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar og annar varaforseti dómsins samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherra skipi tvo dómara til vara samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Þá er lagt til að ráðherra skipi tvo dómara og jafn marga til vara til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambands Íslands hins vegar. Þá er lagt til að gerð verði frekari hæfisskilyrði til dómara við Félagsdóm en samkvæmt gildandi lögum eru gerðar talsvert minni kröfur til dómara við Félagsdóm en gerðar eru til dómara við almenna dómstóla. Lagt er til að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar skuli vera skipaðir dómarar við Hæstarétt, Landsrétt eða héraðsdómstól á meðan þeir gegna embætti dómara við Félagsdóm. Enn fremur er gert ráð fyrir að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambands Íslands hins vegar skuli uppfylla hæfisskilyrði 1.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla.

Við samningu frumvarpsins ákveðið að leggja til breytingar á öðrum ákvæðum IV. kafla laganna en aðeins þeim sem varða skipun og hæfisskilyrði dómara. Er meðal annars lagt til að skýrt verði kveðið á um að dómarar við Félagsdóm séu sjálfstæðir í dómstörfum og að þeir leysi þau af hendi á eigin ábyrgð. Jafnframt er gert ráð fyrir að við úrlausn máls fari dómarar við Félagsdóm eingöngu eftir lögum og lúti þar aldrei boðvaldi annarra. Lagt er til að gerðar verði auknar kröfur til þeirra sem mega flytja mál fyrir Félagsdómi en þó þannig að áfram verði gerðar minni kröfur en gerðar eru fyrir almennum dómstólum. Lagt er til að forseta Félagsdóms verði veitt heimild til að ákveða að einn dómari eða fleiri haldi dómþing til að þingfesta mál, taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm. Þá eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum sem kveða á um stefnufresti sem og þann tíma sem líða má milli dómtöku máls til uppkvaðningar dóms.

Enn fremur er lagt til að gerðar verði ýmsar orðalagsbreytingar og að ákvæði sem kveða á um efnislega skyld atriði verði sameinuð en slíkar breytingar þykja til þess fallnar að auka skýrleika laganna sem staðið hafa að mestu óbreytt frá setningu laganna árið 1938.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jón Sigurðsson - 23.03.2020

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Lögmannafélag Íslands - 30.03.2020

Efni: Mál nr. 76/2020: frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938.

Laganefnd Lögmannafélags Íslands (LMFÍ) gerir eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að Hæstiréttur Íslands tilnefni dómara í Félagsdóm. Þá er gert ráð fyrir því að bæði forseti- og varaforseti Félagsdóms séu tilnefndir af Hæstarétti og tveir varadómarar séu einnig tilnefndir af Hæstarétti. Þá séu þeir dómarar sem Hæstaréttur tilnefnir skipaðir ótímabundið af ráðherra, ólíkt öðrum dómurum Félagsdóms.

Í fyrsta lagi, athugast að tilteknir dómar, kærur og ákvarðanir Félagsdóms sæta kæru til Hæstaréttar skv. 67. gr. l. nr. 80/1938. Öll afskipti Hæstaréttar, bein eða óbein, af skipan dómara við Félagsdóm, virðast þannig til þess fallin að draga úr ásýnd um sjálfstæði Félagsdóms gagnvart Hæstarétti. Þá virðist breytingin ekki vera til þess fallin að skapa þá ásýnd að Hæstiréttur sjálfur sé sjálfstæður og óvilhallur við úrlausn kærumála frá Félagsdómi. Fyrirkomulagið við skipan dómara við Félagsdóm virðist þannig vera andstætt markmiði frumvarpsins um að tryggja sjálfstæði dómstólsins.

Í öðru lagi, er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að þeir dómarar sem skipaðir eru við Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar, séu embættisdómarar við Hæstarétt, Landsrétt eða héraðsdómstóla. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins segir að sú breyting sé lögð til „til að tryggja að meirihluti dómara við Félagsdóm í hverju máli uppfylli sömu hæfisskilyrði og gerð eru til dómara við almenna dómstóla hér á landi“. Þannig er m.a. gert ráð fyrir því að embættisdómarar við Hæstarétt Íslands, geti verið skipaðir í Félagsdóm, þrátt fyrir fyrrnefnda kærumöguleika til Hæstaréttar. Það fyrirkomulag að sömu dómarar geti starfað við báða dómstóla er af augljósum ástæðum einnig til þess fallið að draga úr ásýnd um sjálfstæði þeirra. Þá mætti ætla að það væri einfalt að tryggja að dómarar við Félagsdóm uppfylltu sömu hæfisskilyrði og embættisdómarar, án þess að gera það að beinu skilyrði hinir fyrrnefndu þurfi að koma úr röðum hinnar síðarnefndu. Um þetta vísast t.d. til orðalags 6. gr. laga um samningsbundna gerðardóma nr. 53/1989.

Í þriðja lagi, virðist óheppilegt að þeir dómarar sem tilnefndir eru af Hæstarétti Íslands séu skipaðir ótímabundið í Félagsdóm, en aðrir dómarar séu einungis skipaðir til þriggja ára í senn. Augljós hætta virðist á því að vægi sjónarmiða hinna síðarnefndu verði minna en hinna fyrrnefndu í úrlausnum dómstólsins. Ætla má að æskilegt sé að gæta samræmis í reglum um skipunartíma dómara.

Í fjórða lagi, hefur Félagsdómur m.a. það verkefni með höndum að skera úr um ágreiningsmál um vinnudeilur ríkisstarfsmanna. Óheppilegt kann að vera, út frá ásýnd dómstólsins, að binda í lög að 3 af 5 skipuðum dómurum við Félagsdóm séu ávallt starfsmenn ríkisins og komi úr röðum embættisdómara.

Í fimmta lagi, er með ofangreindu skipunarfyrirkomulagi verið að takmarka möguleika annarra lögfræðinga en embættisdómara, t.d. lögmanna, prófessora eða fræðimanna, á því að taka sæti í Félagsdómi. Um getur verið að ræða lögfræðinga sem búa yfir sérmenntun á sviði vinnuréttar, hafa áratuga reynslu á sviðinu og uppfylla jafnframt hæfisskilyrði embættisdómara. Draga má í efa að embættisdómarar hafi slíka sérþekkingu á sviðinu umfram aðra sérfræðinga, að réttlætanlegt sé að þeir séu ávallt í meirihluta skipaðra dómara. Á það sérstaklega við þegar einfalt virðist að orða lagaákvæðið þannig að dómarar við Félagsdóm skuli uppfylla sömu hæfisskilyrði og embættisdómarar, sbr. 6. gr. l. nr. 53/1989.

Laganefnd leggur skv. þessu til að frumvarpið verði skoðað betur.

Virðingarfyllst,

f.h. laganefndar LMFÍ

Geir Gestsson, lögmaður

Viðhengi