Frumvarpið varð að lögum nr. 65/2020.
Í samráðskafla greinargerðar frumvarpsins er að finna viðbrögð við umsögnum sem bárust í samráðinu. Umsagnirnar leiddu ekki til efnislegra breytinga á frumvarpinu.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 19.03.2020–29.03.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 15.12.2021.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
Frumvarpið felur í sér að stofnaður verði snýr sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins, Kría – Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Sjóðnum er ætlað að gegna því hlutverki að fjárfesta í öðrum sérhæfðum sjóðum sem fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, svokölluðum venture capital sjóðum. Markmið frumvarpsins er að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.
Með frumvarpinu er hrint í framkvæmd aðgerðum í fjármálaáætlun 2020 – 2024 og Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland til ársins 2030 – Nýsköpunarlandið Ísland. Í fjármálaáætluninni kemur fram að það sé eftirsóknarvert að stuðla að því að á Íslandi styrkist grundvöllur undir fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og að alls staðar þar sem tekist hefur að koma á fót slíkri starfsemi sem fjármagnar áhættusöm sprota- og nýsköpunarfyrirtæki hafi þurft umtalsverða aðkomu frá hinu opinbera. Í fjármálaáætlun er miðað við að fjárfestingarsjóðir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum geti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, óskað eftir mótframlagi frá stjórnvöldum og að tilgangurinn með slíkri aðkomu sé að stórauka aðgengi sprotafyrirtækja að áhættufjármagni á fyrstu stigum vaxtar. Í Nýsköpunarstefnu til ársins 2030 er sett fram það markmið að hér á landi verði byggt upp þroskað umhverfi fyrir nýsköpunarfjárfestingar og að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki hafi aðgang að sérhæfðum fjárfestingarsjóðum fyrir nýsköpun á sprotastigi og á fyrstu stigum vaxtar. Það leiðir til öflugra atvinnulífs og eykur aðgengi fyrirtækja sem byggja á hugviti að fjármagni til vaxtar.
Um leið og ég þakka fyrir gott frumvarp vil ég koma tveimur ábendingum á framfæri.
Tíðni stjórnarfunda
Það verður takmarkandi fyrir fjárfestaumhverfið að stjórn Kríu hittist einungis einu sinni á ári til að taka ákvarðanir. Nær væri að hittast fjórum sinnum á ári, þó einungis ef sjóðnum hafa borist formleg erindi. Sjóðsstjórar vísisjóða þurfa einfaldlega meira öryggi í sínum rekstri og að þurfa að bíða nokkra mánuði getur haft úrslitaáhrif á það hvort sjóði verður komið á koppinn eða hvort hann nái ekki tilætlaðri stærð. Í grein 3 segir í efnisatriðum frumvarpsins: „…aðeins verður mögulegt að taka þátt í nýstofnuðum, lokuðum sjóðum. Sjóðirnir mega þannig ekki hafa hafið fjárfestingar en verða að hafa safnað skuldbindingum frá fjárfestum fyrir ákveðinni fjárhæð sem ákveðin verður í reglugerð en lagt er upp með að verði að lágmarki 4 milljarða kr. Þá mun hlutur Kríu aðeins geta numið allt að ákveðnu hlutfalli eignarhluta viðkomandi sjóðs og að ákveðinni hámarksupphæð.“ Fræðilega séð gæti nýr vísisjóður hafa lokað einum mánuði eftir að stjórn hittist síðast m.v. að fundur sé haldinn einu sinni á ári og kosið alla jafna að hefja fjárfestingar fljótlega í kjölfarið. Það orkar tvímælis að Kría eigi að styðja við bætt fjárfestinga- og frumkvöðlaumhverfi en í dæminu hér að ofan væri slíkur sjóður sjálfkrafa útilokaður. Því er mikilvægt að stjórn hittist allt að fjórum sinnum á ári, en einungis eftir þörfum hverju sinni, þ.e. hvort erindi hafa borist stjórn.
Staðfesti á Íslandi
Það getur verið skiljanlegt að núverandi drög miði við að vísisjóður hafi staðfesti á Íslandi til að vera gjaldgengur í mótframlag frá Kríu. Í því felst þó sú meining að sjóðurinn muni eða skuli eingöngu ætla sér að fjárfesta á Íslandi. Í raunheimi þarf það alls ekki að vera svo. Þannig getur það verið takmarkandi fyrir vísisjóð að þurfa að fjárfesta einvörðungu á Íslandi út frá ávöxtunarkröfu sjóðsins og smæð íslensks sprotaumhverfis. Tvö dæmi til útskýringar:
a) Nýr sjóður tekur til starfa og hefur Norðurlöndin sem skilyrði fyrir fjárfestingarþátttöku í sprotafyrirtækjum. Stærð sjóðs er 10 milljarðar íslenskra króna. Sjóðurinn hefur ekki valið sér staðfesti en hefur yfirlýst markmið í fjárfestingaáætlun að fjárfesta ekki minna en 40% í íslenskum fyrirtækjum.
Í þessu dæmi yrði slíkur sjóður útilokaður frá þátttöku Kríu nema að staðfesti yrði á Íslandi þó svo að önnur skilyrði séu uppfyllt, s.s. upphæð.
b) Að minnsta kosti einn starfandi vísisjóður á Íslandi í dag horfir á Norðurlöndin sem sitt fjárfestingasvæði og hefur m.a. fjárfest í ekki-íslenskum fyrirtækjum. Önnur skilyrði eru uppfyllt, s.s. stærð og staðfesti.
Í núverandi drögum er ekki skýrt hvort slíkur sjóður yrði gjaldgengur fyrir þátttöku Kríu.
Þannig mæli ég með að ákvæði um staðfesti verði ekki endilega skilyrði heldur verði fjárfestingarþátttaka á Íslandi, t.d. miðað við upphæð, útgangspunkturinn. Kosturinn við það að hafa stærra fjárfestingarsvæði en einungis Ísland þýðir einfaldlega fleiri valkosti fyrir sjóðsstjóra og þ.a.l. ætti að auka líkurnar á „betri“ fjárfestingum. Fjárfestingarþátttaka í bæði innlendum og erlendum mun jafnframt auka við og styðja við frekari þroska fjárfestingarsamfélagsins.
Að öðru leyti fagna ég þessum lögum og tel þau til mikilla hagsbóta fyrir íslenskt fjárfestingar- og nýsköpunarumhverfi.
Virðingarfyllst,
Einar Gunnar Guðmundsson
ViðhengiHáskóli Íslands fagnar frumvarpi til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og að settur verði að laggirnar sjóðurinn Kría – Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
Háskóli Íslands er einn af lykilaðilum í nýsköpunarumhverfi Íslands. Rannsóknir úr háskólasamfélaginu eru yfirfærða til samfélagsins m.a. með samstarfi við rannsóknarstofnanir og atvinnulífið, nytjaleyfissamningum á einkaleyfum og stofnun sprotafyrirtækja. Það er vel þekkt að það er erfitt fyrir sprotafyrirtæki háskóla og rannsóknarstofnana að fá inn fjárfesta og fjármagn, þar sem akademískar rannsóknir eru taldar vera of snemma í þróunarferlinu eða of áhættusamar, þrátt fyrir mikilvægt samfélagslegt gildi. Er þetta vandamál m.a. viðurkennt af Evrópska fjárfestingarbankanum (EIF) sem hefur komið að stofnun sjóða sem fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem byggja á akademískum rannsóknum.
Háskóli Íslands telur mikilvægt að þeir fjármunir ríkisins sem nýttir verða til fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum hér á landi skili sér einnig til sprotafyrirtækja sem byggja á tæknilega flóknum verkefnum og taka lengri tíma hvað varðar útgöngu. Þetta eru þau verkefni sem munu umbylta samfélaginu og mæta stóru áskorunum.
Til að þetta geti gengið eftir þarf að tryggja í reglugerð um Kríu að þeir sjóðir sem fá fjármagn frá ríkinu fjárfesti í fjölbreyttum verkefnum (þ.m.t. háskólaverkefnum), ef að ekki verður settur á laggirnar sér sjóður til að fjárfesta í sprotafyrirtækjum frá háskólum og rannsóknarstofnunum hér á landi, að öðrum kosti er marksbresti sprotafyrirtækja úr háskóla- og rannsóknarsamfélaginu ekki mætt. Sé ekki gætt að þessu munu sjóðirnir fjárfesta í þeim verkefnum sem skila þeim sem mestum ávinningi á hvað skemmstum tíma, en undir slík verkefni falla t.d. upplýsingatækniverkefni í innviðauppbyggingu.
Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þeirra verkefna sem spretta úr háskóla- og rannsóknarsamfélaginu en til staðar þarf að vera umhverfi sem styður þá ákvörðun að stofnað sé sprotafyrirtæki utan um verkefnið. Að öðrum kosti eru meiri líkur á að þekkingin fari úr landi og skili sér jú til samfélagsins en megin fjárhagslegur ávinningur af hagnýtingu hennar fari þá jafnframt úr landi.
Virðingarfyllst,
Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir, verkefnastjóri nýsköpunar hjá Háskóla Íslands
Meðfylgjandi er umsögn Verkfræðingafélags Íslands.
ViðhengiUmsögn um Frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum
Mál nr. 79/2020 Reykjavík 25.03.2020
Eins og fram kemur í skýringum við frumvarpið þarf umtalsverða aðkomu hins opinbera að fjármögnun áhættusamra sprota og nýsköpunarfyrirtækja eins og alsiða er í nágrannalöndum okkar austan hafs og vestan. Því ber að fagna að með Kríu sé verið að leggja til slíkan stuðning við fjármögnun sprota og nýsköpunar.
Vakin er athygli á mikilvægi þess að því sé fylgt eftir að þessi aðgerð gagnist og stuðli að fjáfestingum í vísindalegri nýsköpun sem byggir á rannsóknum og þróunarstarfi íslensks vísindasamfélags.
Stjórnvöld hafa fjárfest í vaxandi mæli í rannsóknum og þróunarstarfi á undanförnum árum með því að auka framlög til samkeppnissjóða og hér er komið tækifæri til að hjálpa þeirri fjárfestingu að komast á næsta stig verðmætasköpunar og skila sér til samfélagsins. Með því að bæta fjármögnunarumhverfi vísindalegra sprota og hvetja venture capital (vísi-)sjóði til fjárfestinga í þeim er hægt að bæta úr brýnni þörf- ef ekki hreinlega markaðsbresti.
Hreinir vísisjóðir hafa afmarkað fjárfestingartímabil innan hvers sjóðirnir fjárfesta, eru virkir í fyrirtækjunum og þurfa að losa um sína fjárfestingu. Án hvata er hætt við að slíkir vísissjóðir fjárfesti fyrst og fremst áhættuminni sprotum á sviðum þar sem vöruþróun gengur hratt fyrir sig og stutt er á markað en þar sem markaðstækifærin standa tiltölulega stutt yfir. Þetta á sjaldnast við um vísindalega sprota.
Fjárfesting í djúptækni – eða djúpvísindasprotum er vissulega áhættusöm og krefst þolinmóðrar fjármögnunar en á sama tíma eru slíkir sprotar að kljást við margar af þeim stóru áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir, s.s. loftslagsmál, málefni hafsins, heilbrigðismál og önnur sjálfbærnimarkmið SÞ. Lausnir þeirra eru líklegri til að hafa langtímaáhrif til góðs fyrir samfélagið, og þar sem þau hvíla á margra ára rannsóknar- og þróunarstarfi er samkeppnisstaða þeirra sterk, sé hugverkavernd til staðar. Djúpvísindasprotar skila jafnframt hálaunastörfum og miklum verðmætum eins og við þekkjum úr lyfjaþróun, líftæknifyrirtækjum, heilbrigðistækni og verkfræðigeirum.
Hugverkavernd er oft á tíðum forsenda fjárfestingar fyrir árangri tímafrekra djúptækni verkefna til að verja fjárfestinguna. Á tíma þessarrar ríkisstjórnar hafa forsendur fyrir hugverkavernd djúptækni- og vísindaverkefna stórbatnað með tilkomu Auðnu tæknitorgs sem þjónar helstu háskólum og rannsóknastofnunum landsins á því sviði. Það hafa aldrei verið betri forsendur til að koma því hágæða vísindastarfi sem fram fer hérlendis áleiðis til verðmætasköpunar út í samfélaginu.
Tryggja þarf að starfsemi og tilgangur Kríu-sjóðsins gagnist og skili sér sem hvati til fjárfestinga í djúpvísinda og djúptækni sprotum á Íslandi. Tilkoma Kríu gæti einnig verið hvati fyrir erlenda meðfjárfestingu meðfram íslenskum vísi-sjóðum í íslenskri nýsköpun og þannig laðað meira fjármagn inn í íslenskt nýsköpunar umhverfi. Komum vísindunum í vinnu.
Virðingarfyllst,
Einar Mäntylä f.h. Auðnu tæknitorgs ehf.
ViðhengiAtvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
postur@anr.is
Sent í Samráðsgátt
Vestmannaeyjar 25. mars 2020
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Mál nr. 79/2020
Það hefur ítrekað komið fram undanfarin ár að tvö svið aftri vexti í tækni- og hugverkaiðnaðinum á Íslandi að miklu leyti. Það fyrra er aðgangur að fjármögnun á ákveðnum stigum rekstrar og þá helst hinu svokallaða vaxtarstigi og það seinna er aðgangur að erlendum mörkuðum og sérfræðiþekkingu. Það er margrannsakað að eitt mikilvægasta skrefið í að ná mikilli ávöxtun og stórum lokasölum í þessum greinum byggir á fullnægjandi fjármögnun á fyrri stigum og þá sérstaklega vaxtastiginu.
Reynsla annarra ríkja sýnir að það er áskorun að leysa þessi vandamál en þó eru til mjög farsæl dæmi um framkvæmd þar sem ríkið með kröftugri aðkomu stuðlaði að gjörbreytingu á þessum sviðum. Farsælasta dæmið um slíka framkvæmd er frá Ísrael. Ísrael stóð frammi fyrir framangreindum áskorunum en þess utan var það að mörgu leyti í svipaðri stöðu og Ísland, verandi „eyland“ landfræðilega með lokuð landamæri allt í kringum sig og lítil þjóð sem þurfti að tryggja að í landinu byggðist upp öflugur vísisfjárfestingargeiri ásamt því að tryggja kröftugan aðgang að stærri mörkuðum og sérfræðiþekkingu.
Kría hefur alla burði til að verða lykilverkfæri til árangurs á þessum sviðum og er framsýni ráðherra og ríkisstjórnarinnar í þessum efnum því innilega fagnað. Miðað við fyrirliggjandi frumvarp virðist þó liggja fyrir að enn vantar lykilþætti í útfærslu ef við ætlum að læra af farsælli reynslu annarra ríkja og hámarka líkurnar á að íslenskt hugvit hafi öflugan aðgang að fjármagni, mörkuðum og þekkingu til að geta vaxið í burðug fyrirtæki sem tryggja í vaxandi mæli hagvöxt og gjaldeyristekjur þjóðarinnar.
Lagt er til að útfærsla Kríu taki mið af eftirfarandi athugasemdum:
Athugasemd 1: Lykil hvatar við að hefja og loka sjóðum
Flestir greiningaraðilar eru sammála um að lykilaðdráttaraflið í útfærslu Ísraela fyrir framtaksfjárfesta sem komu og tóku þátt í að setja á laggirnar nýja sjóði í gegnum hvatakerfið YOZMA var uppsetning kerfisins við að tryggja hagstæða leið inn og út úr fjárfestingum. Ríkið kom með eina krónu á móti hverjum tveimur sem komið var með að borðinu fyrir eignarhlut í sjóðunum en bauð síðan hluthöfum að kaupa ríkið út á hagstæðum kjörum ásamt hagstæðu vaxtafyrirkomulagi eftir fimm ár ef sjóðurinn skilaði hagnaði. Þetta voru mjög góð kjör út frá fjárfestingarsjónarhóli. Það er samdóma álit þeirra sem til þekkja að þetta hafi verið lykillinn að árangri Yozma verkefnisins þ.e.a.s. að það voru innbyggðir valkostir um að komast auðveldlega inn og út.
Það er stór munur á því að bjóða t.d. einungis krónu í hlutfalli við fé sem safnast hefur eða að bjóða að sú króna taki lykil áhættu til að byrja með og hægt sé að kaupa hana út á hagstæðum vöxtum seinna með. Það að lækka áhættuna svona er talið vera lykilatriði í farsælli framkvæmd.
Athugasemd 2: Tryggjum tengslamyndun
Ísraelar prófuðu ýmsar nálganir áður en þeir fundu farsælan farveg og eitt af því sem skipti sköpum var að öflugur tengslaaðili leiddi það verkefni að stuðla að og tryggja tengingar inn á lykilmarkaði og para saman innlenda aðila við erlenda reynda aðila sem höfðu staðfesta getu til að byggja upp í takt við þau markmið sem Ísraelar settu sér sem voru þrenns konar: 1) Að efla rannsóknir og þróun í einkageiranum í Ísrael; 2) Að byggja upp vísisfjárfestingariðnað í Ísrael 3) Að mynda öflugar tengingar inn á stærsta og þroskaðasta hátæknimarkað í heimi, Bandaríkjamarkað.
Ísraelar fengu Yigal Erlich til að leiða YOZMA verkefnið og hann beitti sér af krafti í að draga bandarísk fyrirtæki og fjárfestingarsjóði að borðinu og byggði þá á verðmætu tengslaneti og langri reynslu sem „Chief of Scientist“ í Ísrael.
Þegar eins kröftugu fyrirbæri og YOZMA var komið á laggirnar var engum tíma sóað í að bíða heldur var lagst í kröftuga markaðssetningu á tækifærunum sem væru nú að bjóðast inn í Ísrael og lykil tengslanet virkjuð. Það er mat aðila sem hafa komið að verkefninu og undirritaður hefur rætt við í persónu að það sé mikilvægt að tryggja „sendiherra“ eða „stefnumótunaraðila“ sem hefur sambönd til að draga aðila að borðinu með þekkingu á því sem þarf að byggja upp á Íslandi, sem leiðir að næstu athugasemd.
Athugasemd 3: Setjum skýr skilyrði og markmið með Kríu
Ef ríkið stillir upp hvatakerfi sem minnkar áhættu inn í sjóð og tryggir einnig væna ávöxtun ef vel gengur sbr. athugasemd eitt hér að framan ásamt því að hafa tryggt öflugan umsjónaraðila tengslamyndunar á milli innlendra frumkvöðla og fjármagns, markaða og þekkingar, þá eiga stjórnvöld ekki að veigra sér við því að stilla upp skilyðum fyrir þátttöku í takti við markmið um hvaða getu við viljum byggja upp í íslenska hagkerfinu. Mikilvægt er að hafa einhverskonar gæðastöðlun á því hvenær fjármagn er greitt út. Í takti við nýsköpunarstefnu ríkisstjórnarinnar og umfangsmikla kortlagningu undanfarinna ára er lagt til að eftirfarandi skilyrði verði lögð til grundvallar þess að Kría komi með fjármagn inn í vísísjóði:
1. Fjármagnið þarf að nýtast til uppbyggingar á Íslandi
a. Þrengra skilyrði til umhugsunar hér væri að fjármagnið þarf að nýtast til að efla rannsóknir og þróun á Íslandi
2. Fjármagnið skal einungis nýtt til fjárfestinga í fyrirtækjum sem hafa skalanleg viðskiptamódel
3. Sjóður þarf að hafa a.m.k. einn samstarfsaðila sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
a. Geta sýnt fram á árangur á eftirfarandi sviðum, amk. tveimur af þremur:
i. Byggt upp farsælan vísífjárfestingarsjóð yfir tiltekinni stærð
ii. Þekking á markaði X (tekur hugsanlega mið af ákvæðum 4.a)
iii. Farsælar fjárfestingar
4. Valkvæð ákvæði sem tryggja að auka x prósent fjármögnun eða x% hagstæðari skilyrði fást ef:
a. Fjármagnið byggir upp lykilþekkingu svo íslenskt hagkerfi geti dafnað til framtíðar. Eftirfarandi kerfi eru valin því þau eru hæstu útgjaldaliðir ríkisins ár hvert eða samfélagsleg sátt er um mikilvægi þess að tryggja skilvirk afköst á þeim sviðum:
i. Heilbrigðis- og líftækni
ii. Menntatækni
iii. Umhverfistækni
Tryggvi Hjaltason
ViðhengiFyrir hönd J. Heath Cardie og Arrowhead ehf.
ViðhengiUppfærð umsögn Samtaka íslenskra leikjafyrirtækja (IGI
ViðhengiÍ fylgiskjali má finna sameiginlega umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
ViðhengiSamtök sprotafyrirtækja (SSP) taka til umsagnar frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
ViðhengiAtvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
Skúlagötu 1
101 Reykjavík
postur@anr.is
Reykjavík, 25. mars 2020
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum
Vísað er til draga að fumvarpi til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem birtist í samráðsgátt 19. mars sl.
Brunnur Ventures GP ehf. Frumtak Ventures GP ehf. gera eftirfarandi athugasemd við drögin að frumvarpinu:
1) Skilyrði fyrir því að Kría fjárfesti í vísisjóði er að a.m.k. einn erlendur aðili verði meðal hlutahafa í sjóðnum til að hún fjárfesti.
Þótt ekkert segi um það í frumvarpstextanum sjálfum kemur fram í athugasemdum við 3. gr. að gerð verði krafa um að „hinir íslensku sjóðir hafi að minnsta kosti einn erlendan aðila meðal hluthafa“. Rökin sem eru gefin fyrir því eru mikilvægi „þess að íslenskt umhverfi nýsköpunarfjárfestinga þroskist í samræmi við það sem tíðkast á alþjóðlegum mörkuðum, mikilvægi þekkingar og alþjóðlegs tengslanets“. Auk þess kemur fram að þessari kröfu sé „ætlað að tryggja að sjóðirnir þurfi að öðlast tiltrú á breiðari grundvelli en gagnvart hinu smáa og einsleita fjárfestingarumhverfi á Íslandi“.
Í fyrsta lagi er þessi krafa í mótsögn við frumvarp til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, sem ætlað er að innleiða tilskipun ESB nr. 2011/61. Í því frumvarpi er ekki heimilt að markaðssetja fyrir erlendum fjárfestum Íslenska vísisjóði ef sjóðirnir eru einungis skráningarskyldir en hafa ekki starfsleyfi. Einungis sjóðir með starfsleyfi geta markaðssett sig erlendis gagnvart fjárfestum.
Í frumvarpinu er vísað til þess að íslensku sjóðirnir þurfi að öðlast tiltrú “á breiðari grundvelli”. Í þessu sambandi vilja umsagnaraðilar koma á framfæri að á Íslandi eru nú þegar mikil tengsl við erlenda fjárfesta í nýsköpun en íslenski markaðurinn hefur þroskast mikið á síðustu misserum hvað það varðar.
i) Það eru tugir þekktra vísi- og tæknifjárfesta sem hafa fjárfest í íslenskum sprotum á síðasta áratug með íslenskum vísisjóðum, m.a. Novartis Venture Fund, Bay City Capital, Pivotal bioVenture, Tekla Capital Management, Nan Fung Life Sciences, Earlybird, Slack, Blueyard, Sequoia, Andreessen Horowitz, Tencent, Index Ventures, Atomico, Maki, BlueYard og Polaris.
ii) Íslenskir vísifjárfestar í samvinnu við íslenska ráðgjafa í ráðgjafaráðum, stjórnum og í samvinnu við íslenska athafnamenn erlendis, hafa verið farsælir í að koma á tengslum við erlenda vísifjárfesta þegar þörf krefur – og sýnir að það er ekki skortur á tengslaneti eða þekkingu við að laða að erlenda fjárfestingu vegna fjárfestingar í íslenskum sprotafyrirtækjum.
Vissulega væri jákvætt ef stór erlendur fjárfestir fjárfesti í íslenskum vísisjóð. Þó að slíkur fjárfestir komi inn í íslenkan vísisjóð væri samt alls óvíst að hann myndi beita sér fyrir að sjóðurinn eða umhverfið á Íslandi eða eins og segir í greinagerðinni „þroskist í samræmi við það sem tíðkast á alþjóðlegum mörkuðum“, eða innleiði þekkingu og komi með alþjóðlegt tengslanet fyrir sjóðinn. Það er miklu frekar að samstarf við erlendan vísisjóð sem fjárfestir í íslensku fyrirtæki sem íslenskur vísisjóð hefur fjárfest í, sem skapar slíka tiltrú. Það er vegna þess að hluthafi í vísisjóð hefur enga aðkomu að sjóðnum eða samtal sem hluthafi nema í gegnum hluthafaráð, sem hann jafnvel situr ekki í. Meðfjárfestir úr hópi erlendra vísisjóða hefur hins vegar mikið fram að færa þegar kemur að því að veita íslensku nýsköpunarfyrirtæki brautargengi á erlendri grund því auk fjármagns hefur hann yfirleitt mikla þekkingu og tengslanet á þeim markaði sem íslenska fyrirtækið ætlar að hasla sér völl á. Þess vegna er mun líklegra að slíkt samstarf skili sér í breiðari tiltrú á fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum hér á landi. Það leggja allir vísisjóðir hér á landi áherslu á að fá sérhæfða (sector specific) vísisjóði inn í þau félög sem fjárfest hefur verið í. Undirritaðir vísisjóðir eru til að mynda í samstarfi við fjölda sérhæfða erlendra vísisjóða í gegnum sínar fjárfestingar.
Um uppsetningu, skilmála og kjör íslenskra vísisjóða verður heldur ekki séð að erlendur aðili veiti þekkingu umfram það sem nú þegar tíðkast á meðal íslenskra vísisjóða. Það varð stór breyting á síðasta áratug þegar núverandi starfandi vísisjóðir og ábyrgðaraðilar þeirra og fjárfestar, innleiddu skilmála sem eru í takt við það sem tíðkast erlendis. Þessi þekking er nú þegar til staðar hér á landi.
Krafa um erlendan fjárfesti vegna fjárfestingar frá Kríu mun bæði bæði flækja fjármögnunarferlið og tefja tilurð nýrra vísisjóða, með mögulegum neikvæðum afleiðingum fyrir sprotaumhverfið og því leggja umsagnaraðilar til að henni verði sleppt.
Virðingarfyllst,
F.h. Brunns Ventures GP ehf.
Sigurður Arnljótsson
Virðingarfyllst,
F.h. Frumtaks Ventures GP ehf.
Svana Gunnarsdóttir
ViðhengiReon hefur frá stofnun 2011 tekið virkan þátt í frumkvöðlastarfi á Íslandi og það hefur ávallt verið stefna félagsins að styðja eftir besta megni við nýsköpunar- og frumkvöðlastarf enda hefur öflug nýsköpun jákvæð áhrif á allt efnahagslífið og þar af leiðandi okkar rekstur. Sem liður í þessari stefnu okkar rekum við nýsköpunarsetrið Musterið ásamt KPMG, þar sem fjöldi fyrirtækja hefur átt aðsetur í gegnum árin ásamt því að standa að Frumgerðinni, fullbúnu verkstæði til frumgerðasmíðar sem opið er fyrir frumkvöðla og hefur aðstöðu í húsnæði NMI.
Við hjá Reon fögnum því að lagt sé fram frumvarp sem ýtir undir aukið framboð fjárfestingakosta fyrir efnileg nýsköpunarfyrirtæki, sem klárlega hefur verið vöntun á. Á sama tíma viljum við koma fram nokkrum ábendingum við fyrirlagt frumvarp.
1. Hæfni og vanhæfni stjórnarmanna
Stjórn Kríu, sem mun taka loka ákvörðun um fjárfestingar sjóðsins, þarf að vera hafin yfir allan vafa um hæfni þeirra til ákvörðunartöku um meðferð og ráðstöfun fjármuna skattgreiðenda. Vænlegt væri að tilvonandi reglugerð taki á hæfniskröfum stjórnarmanna sem og hagsmunatengslum við stofnendur tilvonandi sjóða sem sækjast eftir ríkisfjármagni.
Að mati Reon þarf að vera tryggt að komið sé í veg fyrir að fjármunir sjóðsins verði nýttir til að fjármagna verkefni sem tengjast stjórnarmönnum eða þeim er tengjast rekstri Kríu Þá þarf að tryggja að ekki séu hagsmunaárekstrar á milli Kríu, sjóða sem Kría fjárfestir í, eigendur þeirra sjóða og þeirra verkefna sem fjárfest er í.
2. Að Kría ýti undir fjölbreytileika í nýsköpun í landinu
Við myndum vilja sjá útfært að Kría ýti undir fjölbreytileika nýsköpunar og verkefna sem fjárfest er í meðal annars með því að haga ávöxtunarstefnu sjóðsins þannig að fjármagnið geti verið þolinmótt. Þannig megi með réttari áherslu stjórnar sjóðsins auka flóru tæknilegra og flókinna verkefna byggð á langtíma rannsóknum sem almennt hafa átt erfitt uppdrátta hérlendis.
Það er okkar skoðun að auka þurfi fjölbreytni í íslensku nýsköpunarumhverfi. Til þess þyrfti útbúa umhverfi þar sem að nýsköpunarfyrirtæki sem ekki munu klára þróun á hefðbundnu 1-3ja ára plani sem ríkjandi hefur verið á íslandi hafi tækifæri á fjármögnun. Til þeirra nýsköpunarfyrirtækja teljast oft þau sem ekki starfa innan upplýsingatækni. En sá geiri hefur náð góðum árangri og því er tækifæri hér fyrir Kríu að styrkja uppbyggingu annara sviða svo sem heilbrigðis-, efnis-, umhverfis- og líftækni.
Við tökum því undir umsögn frá Háskóla Íslands og Auðnu tæknitorgs um mikilvægi þess að sjóðurinn ýti undir umhverfi þar sem fjölbreytt verkefni byggð meðal annars á háskólarannsóknum eigi möguleika á langtímafjármögnun.
3. Fela þriðja aðila umsýslu sjóðsins
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilt sé að semja við þriðju aðila um rekstur Kríu. Um leið og slíkt kann að virðast skynsamlegt við fyrstu sýn þá þarf að huga að hagsmunaárekstrum við slíka útvistun reksturs.
Í dæmaskyni má nefna að ef samið er við fjármálafyrirtæki um rekstur sjóðsins þá kann það að hafa áhrif á fjárfestingar sjóðsins, þ.m.t. tregðu að fjárfesta í sjóðum í rekstri annarra fjármálafyrirtækja, auk þess sem hagsmunaárekstrar kunna að koma upp, t.d.ef viðkomandi fjármálafyrirtæki er falið að greina fjárfestingartækifæri.
Telur Reon miklu skipta að hugað verði vel að slíkri útfærslu og hvort nauðsynlegt sé að útvista rekstri, sérstaklega þar sem hugað er að stjórn hafi virku hlutverki að gegna.
4. Krafan um að hafa erlenda aðila í sjóðunum
Okkur þykir einkennileg krafan um aðkomu erlendra aðila í sérhæfðum sjóðum. Stjórn Kríu, ef valin er rétt, ætti að vera fullfær um að leggja mat á þá sjóði sem hún kýs að taka þátt í og samsetningu þeirra. Fyrir okkur verkar þetta ákvæði eingöngu til þess að skerða þá valmöguleika sem eru í boði og tökum við því undir með umsögn IGI um að falla ætti frá þessari kröfu.
5. Tíðni fjárfestinga
Að okkar mati ætti ekki að skilyrða fjárfestingar sjóðsins við ákveðna tíðni á ári. Góðar hugmyndir og góð tækifæri skjóta ekki upp kollinum á ákveðnum tíma ársins og því mikilvægt að stjórn sjóðsins hafi tækifæri til þess að taka ákvarðanir og hafa seglum eftir vindi hverjum sinni.
6. Úttektir ríkisins úr sjóðnum
Það mætti setja ramma utan um hvernig arði úr sjóðnum er útdeilt. Er stefnan að ríkið taki fjármuni úr sjónum eða er fyrirséð að allur arður úr sjóðnum fari aftur í fjárfestingar? Teljum við miklu skipta að fjármunum Kríu verði öllum endurfjárfest.
Við teljum miklivægt að sjóðurinn hafi opnar heimildir til fjárfestingar en þó þannig að sjóðurinn skuli fjárfesta að minnsta kosti einu sinni á ári og að stjórn skuli setja sér starfsreglur þar sem fjallað sé um fjárfestingar og ákvarðanatöku við fjárfestingar.
7. Hlutverk sjóðsins
Mikilvægt að hugmyndin með sjóðnum sé ekki að leysa af hólmi önnur úrræði heldur að hann sé hugsaður sem viðbót í það stuðningsumhverfi sem nú þegar er virkt.
Til að mynda að uppsetning sjóðsins ætti ekki að skerða eða hafa áhrif á störf Tækniþróunarsjóðs hjá Rannís líkt og kom fram í umsögn Verkfræðingafélag Íslands.
Að þessu sögðu er frumvarpið stórt skref í rétta átt til að auka við og efla nýsköpun í landinu á skynsaman og markvissan hátt en vanda þarf til verka.
Fh. stjórnar Reon ehf.
Ásþór Tryggvi Steinþórsson & Elvar Örn Þormar
ViðhengiMeðfylgjandi umsögn er frá stjórn Framís - Samtaka vísifjárfesta á Íslandi. Í stjórn eru Helga Valfells, Sigurður Arnljótsson, Örn Valdimarsson, Svana Gunnarsdóttir og Kjartan Ólafsson.
ViðhengiReykjavík 29. mars 2020
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
postur@anr.is
Sent í Samráðsgátt
Umsögn um frumvarp til laga, mál nr. 79/2020, um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum
Þjóðarskútan er að sigla inn í mikinn öldudal en Ísland á góða möguleika að vinna sig út úr honum ef vel er hugað að útsæðinu, sem eru sprotafyrirtæki landsins. Aðgangur að fjármagni skiptir þau öllu máli, en í fjármálahremmingum halda menn frekar að sér höndum varðandi áhættufjárfestingar og þá sérstaklega á milli landa. Hérlendir vísisjóðir eru því miður með nánast tóma vasa og því er afar brýnt að nýir sjóðir verði stofnaðir án tafar.
Höfundar frumvarpsins vilja stuðla að breyttu landslagi í nýsköpunarfjárfestingum á Íslandi og er sú hugsun góðra gjalda verð í venjulegu árferði. Núna er aftur á móti svo mikið undir að ekki er forsvaranlegt að fara í tilraunastarfsemi með líf sprotafyrirtækja og brauðfæði fólks þegar búast má við miklum þrengingum og atvinnuleysi.
Verði Kría sett upp með óþarflega flóknum skilyrðum eins og kröfu um erlendan fjárfestingu eða að aðeins einn aðili verði valinn til að hneppa fjárfestingu frá Kríu, þá gæti það leitt til þess að einungis einn eða jafnvel enginn nýr sjóður verði stofnaður á næstu misserum. Sú niðurstaða yrði mikið áfall fyrir nýsköpun í landinu. Það gæti þýtt algjöra fjárþurrð hjá íslenskum sprotafyrirtæki næstu tvö árin. Markmið laganna ætti og hlýtur að vera að auka fjárfestingu í sprotafyrirtækjum. Ef lögin eru rétt upp sett væri líklega hægt að ýta undir stofnun allt að þriggja nýrra sjóða með samtals 12-15 ma.kr. fjárfestingargetu. Ef það yrði niðurstaðan væri hægt að koma um 30 sprotafyrirtækjum á legg, sem gæti verið mjög mikilvægur þáttur í að koma landinu í gegnum veirukreppuna. Einföld og fyrirsjáanleg skilyrði eru lykilforsenda þess að Kría flýti fyrir stofnun nýrra sjóða, fremur en að tefja eða koma í veg fyrir stofnun þeirra.
Umsagnaraðilar álíta skynsamlegast að byggja ofan á núverandi vísisjóðakerfi, sem hefur sannað getu sína með því að hafa fengið þekkta erlenda meðfjárfesta inn í íslensk nýsköpunarfyrirtæki og með því að hafa komið upp öflugum sprotafyrirtækjum. Auk þess þarf að tryggja að ríkið styrki Kríu til lengri tíma.
Aðalatriðið er að Kría auki til lengri tíma það fjármagn sem í boði er fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki í einföldu, faglegu og fyrirsjáanlegu kerfi og að hún stuðli helst að stofnun þriggja nýrra vísisjóða næstu tvö árin með samtals 12-15 milljarða fjárfestingargetu.
Út frá ofangreindum markmiðum og eftir að aðrar umsagnir hafa verið lesnar vandlega eru hér lagðar til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu.
1. Markmið laganna
Það væri til bóta ef að það kæmi fram í tilgangi laganna að eitt af markmiðum þeirra væri að auka fjármagn til fjárfestingar í nýsköpun á Íslandi. Hér er lagt til að 1. mgr. 1. gr. laganna falli á brott „Markmið laga þessara er að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki“ og í stað þess komi „Markmið laga þessara er að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir íslensk sprotafyrirtæki auk þess sem að fjárfesting í þeim aukist.“
2. Orðskýringar
Skynsamlegt er að í lögunum komi fram skilgreining á sprotafyrirtæki og væri í því sambandi hægt að líta til skilgreiningar Samtaka iðnaðarins á sprotafyrirtæki í frumvarpinu. Hér er lagt til að aftan við 1. gr. frumvarpsins bætist við a. liður sem hljóði með þessum hætti: „Sprotafyrirtæki eru sprottin upp úr rannsókna- eða þróunarverkefnum einstaklinga, þróunarhópa, háskóla, rannsóknastofnana eða annarra fyrirtækja og byggjast á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi. Gengið er út frá því viðmiði að árlegur þróunarkostnaður sprotafyrirtækja sé að jafnaði yfir 10% af veltu. Fyrirtæki hættir að teljast sprotafyrirtæki þegar það hefur verið skráð í kauphöll eða náð árlegri veltu sem nemur einum milljarði íslenskra króna“
3. Stjórn Kríu
Það skiptir miklu máli að stjórn Kríu sé skipuð af fagfólki sem þekkir til umhverfis sprotafyrirtækja og þar sem raddir þeirra sem til þekkja fái að heyrast. Hér er lagt til að 1. mgr. í 4. gr. laganna falli á brott, þ.e. „Ráðherra skipar fimm menn í stjórn Kríu - Markáætlunar um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum til fjögurra ára í senn“ og í stað þess komi: „Ráðherra nýsköpunar skipar formann Kríu – Markáætlunar um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum til fjögurra ára í senn án tilnefningar. Þá skal ráðherra skipa fjóra fulltrúar í stjórn tilnefnda af Samtökum sprotafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.“
4. Fjármögnun Kríu og skilyrði
Það er æskilegt að það fjármagn sem ríkið setur í Kríu virki sem raunverulegur hvati til þess að fjöldi nýrra íslenskra vísisjóða verði stofnaðir. Mikilvægur viðbótarhvati er því að einkafjárfestar í vísisjóð geti keypt út hlut Kríu á hagstæðum kjörum. Eins og frumvarpið er núna er ekki víst að fjárfesting Kríu í sérhæfðum sjóði virki sem hvati til fjárfestinga í sérhæfðum sjóði, heldur eflir aðeins sjóði sem hafa þegar fjármagnað sig. Hér væri æskilegt að gefin væru loforð sem hvetja til sjóðamyndunar. Það getur verið erfitt að ljúka fjármögnun vísisjóða og til þess að auðvelda fjármögnun þeirra er lagt til að lágmarks einkafjármögnun vísisjóðs sé 3,5 ma.kr. en með fjárfestingu frá Kríu færi viðkomandi sjóður yfir 4 ma.kr. Hér er lagt til að bætt verði við nýrri grein í frumvarpið á eftir 3. gr. sem væri með eftirfarandi hætti:
„Kría - Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum býður fjárfestum í sérhæfða sjóðnum að kaupa hlut Kríu á fyrirfram ákveðnum kjörum að ákveðnum tíma liðnum, þegar frumfjárfestingartímabili sjóðsins er lokið, að jafnaði þegar líftími sérhæfða sjóðsins er hálfnaður. Það fjármagn sem skilar sér til baka úr fjárfestingum Kríu - Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum skal renna aftur til nýrra fjárfestinga í sérhæfðum sjóðum. Þeim aðilum sem hafa safnað að lágmarki 3,5 milljörðum frá einkafjárfestum og sem geta sýnt fram á haldbæra reynslu af fjárfestingum i nýsköpunarfyrirtækjum skulu fá fjárfestingu frá Kríu Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum svo lengi að til staðar sé fjármagn í sjóðnum.“
5. Tímasetning stjórnar Kríu ákvörðunar um fjárfestingu
Ákvörðun stjórnar Kríu um fjárfestingar þarf að vera fljót og skilvirk og ekki tefja stofnun nýrra vísisjóða. Hér er lagt til að 2. mgr. í 3. gr. laganna falli á brott, þ.e. „Að jafnaði skal stjórn taka ákvarðanir um fjárfestingu í sérhæfðum sjóðum einu sinni á ári.“ og í stað þess komi: „Stjórn skal taka ákvörðun um fjárfestingu í sérhæfðum sjóðum eins fljótt og auðið er eftir að umsókn hefur borist “.
6. Aðferðarfræði stjórnar Kríu og stærð fjárfestingar
Eins og áður hefur komið fram er mikilvægt að vísisjóðir sem sækjast eftir fjármagni frá Kríu viti að hverju þeir gangi auk þess sem að Kría stuðli að stofnun helst þriggja nýrra vísisjóða frekar en að aðeins einn sjóður hljóti náð fyrir augum stjórnar Kríu, sem gæti gert það að verkum að einkafjárfestar vilji bara fjárfesta í þeim sjóði sem fær fjárfestingu frá Kríu. Hér er lagt að 2. mgr. 3. gr (4. gr. ef fallist er á aðrar breytingar) falli á brott, þ.e. „Að hámarki getur eignarhluturinn numið 30% af viðkomandi sérhæfðum sjóði eða 2 milljörðum króna.“ og í stað þess komi: „Að hámarki getur eignarhluturinn numið 20% af viðkomandi sérhæfðum sjóði eða 1 milljarði króna.“
7. Áhersla á fjárfestingu í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum
Með stofnun Kríu vilja stjórnvöld styðja við innlenda nýsköpun og í því ljósi er eðlilegt að gera kröfu um að Kría fjárfesti í íslenskum vísisjóðum sem hafa það að meginmarkmiði að fjárfesta í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum. Hér er lagt til að 1. mgr. í 3. gr. (4. gr. ef fallist er á aðrar breytingar) laganna falli á brott, þ.e „Kría - Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum er heimilt að fjárfesta í sérhæfðum sjóðum, sem hafa þann tilgang að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, og sem uppfylla skilyrði laga þessara og reglna settra á grundvelli þeirra og í stað þess komi: „Kría - Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum er heimilt að fjárfesta í íslenskum sérhæfðum sjóðum, sem hafa þann megintilgang að fjárfesta í íslenskum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
Frumvarpið verði þá með eftirfarandi hætti:
1. gr.
Markmið.
Markmið laga þessara er að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir íslensk sprotafyrirtæki auk þess sem að fjárfesting í þeim aukist.
1. gr. a.
Orðskýringar
Sprotafyrirtæki eru sprottin upp úr rannsókna- eða þróunarverkefnum einstaklinga, þróunarhópa, háskóla, rannsóknastofnana eða annarra fyrirtækja og byggjast á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi. Gengið er út frá því viðmiði að árlegur þróunarkostnaður sprotafyrirtækja sé að jafnaði yfir 10% af veltu. Fyrirtæki hættir að teljast sprotafyrirtæki þegar það hefur verið skráð í kauphöll sem öflugt tæknifyrirtæki eða náð árlegri veltu sem nemur einum milljarði íslenskra króna.
2. gr.
Sérstakur sjóður.
Stofna skal sérstakan sjóð, Kría - Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, sem er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins sem heyrir stjórnarfarslega undir ráðherra.
Ráðherra er heimilt að fela þriðja aðila með samningi faglega umsýslu Kríu - Markáætlunar um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
3. gr.
Hlutverk.
Kría - Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum er heimilt að fjárfesta í íslenskum sérhæfðum sjóðum, sem hafa þann megintilgang að fjárfesta í íslenskum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, og sem uppfylla skilyrði laga þessara og reglna settra á grundvelli þeirra. Að hámarki getur eignarhluturinn numið 20% af viðkomandi sérhæfðum sjóði eða 1 milljarði króna.
Stjórn skal taka ákvörðun um fjárfestingu í sérhæfðum sjóðum eins fljótt og auðið er eftir að umsókn hefur borist.
4.gr
Fjárfesting Kríu - Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum
Kría - Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum býður fjárfestum í sérhæfða sjóðnum að kaupa hlut Kríu á fyrirfram ákveðnum kjörum að ákveðnum tíma liðnum, þegar frumfjárfestingartímabili sjóðsins er lokið, að jafnaði þegar líftími sérhæfða sjóðsins er hálfnaður. Það fjármagn sem skilar sér til baka úr fjárfestingum Kríu - Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum skal renna aftur til nýrra fjárfestinga í sérhæfðum sjóðum. Þeim aðilum sem hafa safnað að lágmarki 3,5 milljörðum frá einkafjárfestum og sem geta sýnt fram á haldbæra reynslu af fjárfestingum i nýsköpunarfyrirtækjum skulu fá fjárfestingu frá Kríu Markáætlun um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum svo lengi að til staðar sé fjármagn í sjóðnum.
5. gr.
Ráðherra nýsköpunar skipar formann Kríu – Markáætlunar um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum til fjögurra ára í senn án tilnefningar. Þá skal ráðherra skipa fjóra fulltrúar í stjórn tilnefnda af Samtökum sprotafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Stjórnarmenn skulu hafa haldgóða þekkingu á fjárfestingarstarfsemi og/eða rekstri sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.
Stjórn hefur yfirumsjón með starfsemi Kríu - Markáætlunar um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Verkefni stjórnar eru m.a.:
1. gerð starfsreglna sem staðfestar skulu af ráðherra,
2. hafa yfirumsjón með rekstri og umsýslu sjóðsins,
3. að auglýsa eftir umsóknum um þátttöku í sérhæfðum sjóðum,
4. mat á umsóknum um þátttöku í sérhæfðum sjóðum,
5. ákvarðanir um þátttöku í sérhæfðum sjóðum og samningagerð varðandi slíka þátttöku,
6. gerð ársreiknings og ársskýrslu um starfsemi og fjárfestingar sjóðsins til ráðherra,
7. ávöxtun eigin fjár.
Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna.
Ákvarðanir Kríu - Markáætlunar um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
6. gr.
Rekstur.
Ráðstöfunarfé Kríu - Markáætlunar um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum er:
1. framlag úr ríkissjóði sem veitt er á fjárlögum hverju sinni,
2. arður af fé sjóðsins,
3. aðrar tekjur.
Allur kostnaður af rekstri Kríu - Markáætlunar um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum greiðist af fé sjóðsins.
7. gr.
Endurskoðun reikninga.
Stjórn Kríu - Markáætlunar um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum skal láta semja ársreikning í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga. Ríkisendurskoðun annast árlega endurskoðun ársreiknings Markáætlunar.
7. gr.
Þagnarskylda.
Stjórnarmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk samkvæmt lögum þessum eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.
Sá sem veitir viðtöku upplýsinga í tengslum við verk sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir.
8. gr.
Reglugerð.
Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, m.a. um skilyrði fyrir fjárfestingum og framkvæmd þeirra, undirbúning ákvarðana, ávöxtun eigin fjár sem er ekki bundið í fjárfestingum og önnur atriði.
Umsagnaðaraðilar reka báðir sprotafyrirtæki og hafa stuðlað að umbótum í nýsköpunarumhverfi Íslands til fjölda ára. Það er trú okkar að sé rétt staðið að breytingum á frumvarpinu geti það orðið mikill hvalreki fyrir nýsköpun og stuðlað að fjölda nýrra starfa og verðmætasköpum til framtíðar.
Virðingarfyllst
Stefán Björnsson
Erlendur Steinn Guðnason
Viðhengi