Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 20.3.–8.4.2020

2

Í vinnslu

  • 9.4.–22.6.2020

3

Samráði lokið

  • 23.6.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-80/2020

Birt: 20.3.2020

Fjöldi umsagna: 3

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Æðsta stjórnsýsla

Drög að frumvarpi til kosningalaga

Niðurstöður

Frumvarpið ásamt umsögnum er til meðferðar hjá Alþingi.

Málsefni

Drög að frumvarpi til kosningalaga.

Nánari upplýsingar

Í október 2018 skipaði forseti Alþingis starfshóp um endurskoðun kosningalaga til að fara yfir fyrri tillögur um efnið með tilliti til hagkvæmni og skilvirkni. Jafnhliða skyldi starfshópurinn kanna kosti þess að setja heildarlöggjöf um framkvæmd allra almennra kosninga og skoða eftir því sem tími og aðstæður leyfa kosti rafrænnar kjörskrár. Í starfshópnum sitja fulltrúar landskjörstjórnar, dómsmálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Þjóðskrár Íslands auk fulltrúa forseta Alþingis.

Starfshópurinn hefur nú útbúið drög að frumvarpi til kosningalaga. Lagt er til að lögin gildi um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, um framboð og kjör forseta Ísland og um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Markmið frumvarpsins er að styrkja lýðræði með því að viðhalda trausti á framkvæmd kosninga og tryggja að beinar, frjálsar og leynilegar kosningar séu haldnar reglulega. Meginefni frumvarpsins lúta að breyttri stjórnsýslu kosninga og einföldun regluverks.

Að loknu samráðsferli mun starfshópurinn fara yfir athugasemdir sem berast og í kjölfarið skila forseta Alþingis fullbúnu frumvarpi. Umsagnir má setja inn hér að neðan eða senda á netfangið kosningalog@althingi.is eigi síðar en 8. apríl 2020.

Helstu nýmæli sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi:

1. Einn lagabálkur mun gilda um kosningar í stað fjögurra áður. Lög um kosningar til Alþingis, lög um kosningar til sveitarstjórna, lög um framboð og kjör forseta Íslands og lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna falla brott.

2. Stjórnsýsla kosningamála verður einfölduð og samræmd og einum aðila, landskjörstjórn, falið skýrt samræmingar- og yfirstjórnarhlutverk. Yfirkjörstjórnir kjördæma verða lagðar niður og landskjörstjórn tekur við hlutverki Hæstaréttar við forsetakjör.

3. Yfirstjórn kosningamála verður færð frá dómsmálaráðuneyti til sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar (landskjörstjórnar) sem, auk þess að bera ábyrgð á framkvæmd kosninga, sinnir viðvarandi verkefnum milli kosninga. Komið verður á fót úrskurðarnefnd kosningamála sem tekur til úrskurðar ýmsar kærur á þessu sviði, m.a. um lögmæti forsetakjörs, sveitarstjórnarkosninga og þjóðaratkvæðagreiðslna.

4. Miðlæg vinnsla kjörskrár mun fara fram hjá Þjóðskrá Íslands og rafræn kjörskrá verður meginregla. Stjórnmálasamtök og frambjóðendur í forsetakjöri munu geta óskað eftir rafrænum aðgangi að kjörskrá.

5. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar mun ekki geta hafist fyrr en öll framboð hafa komið fram og heimilað verður að viðhafa bréfkosningu þegar greidd eru atkvæði utan kjörfundar. Henni lýkur erlendis daginn fyrir kjördag og kl. 17 innan lands á kjördag. Framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar verður einfölduð sem og utanumhald kjörstjóra.

6. Kjósandi mun eingöngu geta greitt atkvæði einu sinni í hverjum kosningum; annaðhvort utan kjörfundar eða á kjörfundi.

7. Kosningaathöfnin verður einfaldari og öruggari með því að kjörstjórn stimplar kjörseðil áður en kjósandi leggur hann í atkvæðakassa. Ekki verði haldið sérstakt bókhald eða uppgjör um fjölda notaðra og ónotaðra kjörseðla.

8. Talning mun fara fram á kjörstöðum í því skyni að einfalda talningu og auka öryggi í meðferð atkvæða.

9. Öllum sem þess þurfa verður heimilað að fá aðstoð við kosningar hvort sem er vegna fötlunar, veikinda, elli eða af öðrum ástæðum.

10. Kosningaréttur þeirra sem búsettir eru erlendis verður rýmkaður verulega í alþingiskosningum, forsetakjöri og þjóðaratkvæðagreiðslum. Fólk mun geta kosið í 16 ár eftir að það flytur lögheimili sitt af landinu, í stað átta ára nú, en á móti er lagt til að rétturinn falli niður að þeim tíma liðnum. Rétturinn endurnýjast aftur við flutning lögheimilis til landsins.

11. Útgáfu kjörbréfa verður hætt.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Dómsmálaráðuneytið

dmr@dmr.is