Samráð fyrirhugað 24.04.2020—08.05.2020
Til umsagnar 24.04.2020—08.05.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 08.05.2020
Niðurstöður birtar 19.04.2021

Drög að reglugerð um undanþágunefnd kennara

Mál nr. 89/2020 Birt: 24.04.2020 Síðast uppfært: 19.04.2021
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Háskólastig
  • Leikskólar, grunnskólar, framhaldsfræðsla og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Niðurstöður birtar

Alls bárust tvær umsagnir við drögum að reglugerð um störf og starfshætti undanþágunefndar kennara. Annars vegar frá Guðbjörgu Pálsdóttur, brautarformanni deildar faggreinakennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Jónínu Völu Kristinsdóttur, deildarforseta deildar kennslu- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hins vegar frá Kristínu Jónsdóttur, formanni fagráðs um kennaramenntun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 24.04.2020–08.05.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 19.04.2021.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að reglugerð sem hefur stoð í 19. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 95/2019.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að reglugerð sem byggir á 19. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 95/2019.

Lögin kveða á um að gefið er út eitt leyfisbréf til kennslu sem byggir á almennri hæfni og sérhæfðri hæfni kennara. Í samræmi verður ein undanþágunefnd kennara, í stað tveggja undanþágunefnda, sem kveðið var á um fyrri lögum.

Í 19. gr. laganna er fjallað um undanþáguheimild fyrir lausráðningu starfsfólks þegar enginn kennari sækir um kennslustarf við grunn- eða framhaldsskóla, þrátt fyrir endurtekna auglýsingu. Í slíkum tilvikum geta skólastjórnendur sótt um heimild til Menntamálastofnunar til að lausráða starfsmann til kennslustarfa til eins árs í senn, eða til allt að tveggja ára liggi fyrir staðfesting um að viðkomandi starfsmaður sé í námi til kennsluréttinda. Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um að Menntamálastofnun gefi út heimild til að lausráða starfsmann til kennslustarfa að fenginni tillögu undanþágunefndar kennara, sem skipuð er af Menntamálastofnun. Jafnframt er í 10. mgr. kveðið á um að starfsreglur undanþágunefndar kennara skuli ákveðnar í reglugerð.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jónína Vala Kristinsdóttir - 07.05.2020

Mikilvægt er að fá reglugerð fyrir undanþágunefnd.

Gerð er athugasemd við grein 3 um skipan í nefndina. Nauðsynlegt er að tveir fulltrúar verði tilefndir af samstarfsnefd um háskólastigið.

Athugasemd við grein 4, c - lið. Skerpa þarf orðalag. Of þunglamalegt er ef koma þarf skriflegur rökstuðningur bæði skólastjórnanada og tveggja skólanefndarmanna eins og ráð má af orðalagi. Einnig þarf að athuga að ekki eru skólanefndir við hvern einstakan grunnskóla.

Guðbjörg Pálsdóttir, brautarformaður í Deild Faggreinakennslu, Menntavísindasviði Háskóla Íslands

Jónína Vala Kristinsdóttir, deildarforseti Deild kennslu- og menntunarfræði, Menntavísindasviði Háskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#2 Kristín Jónsdóttir - 08.05.2020

Umsögn frá Kristínu Jónsdóttur, formanni fagráðs um kennaramenntun

Menntavísindasviði Háskóla Íslands

Ég legg til að í reglugerðina verði bætt grein sem rúmar framfaraskref og gæti hljóðað svo:

Ef kennaranemi er ráðinn í sérstaka nemastöðu við leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla þá þarf ekki að sækja um undanþágu fyrir hann vegna þess. Skólastjórnendum ber að tilkynna til Menntamálastofnunar þegar ráðið er í starf á grundvelli þessarar heimildar.

Greinargerð

Það er óumdeilt að þjálfun er dýrmætur þáttur í kennaranámi. Fjöldi kennaranema er nú í leiðbeinendastörfum í leik- og grunnskólum og hlýtur þar ágæta þjálfun en þó við misgóð skilyrði þar sem sumir hverjir bera fulla ábyrgð sem kennarar væru. Það getur verið mjög erfitt og viðbúið að bæði námið og starfið líði fyrir eða námið dragist á langinn sem er ókostur fyrir alla aðila.

Á þessu skólaári, 2019-2020, var gerð merk tilraun með fyrirkomulag sem kallast launað starfsnám í leikskólum og grunnskólum. Um það gilti að kennaranemar á lokaári, sem voru í leiðbeinendastörfum, fengu sitt launaða starf metið jafngilt vettvangsnámi sem er ólaunað. Þannig tókst að samþætta betur en áður nám og starf á vettvangi. Það jók hæfni kennaranemanna þar sem verkefni í náminu voru nátengd viðfangsefnum í starfinu. Má ætla að fyrirkomulagið hafi líka minnkað álag á a.m.k. hluta kennaranemahópsins en gert var ráð fyrir að 50% starf jafngilti fullu vettvangsnámi. Kennaranemarnir í launaða starfsnáminu voru ráðnir í leiðbeinendastöður. Þó fyrsta árið með launaða starfsnáminu hafi tekist prýðilega eru flestir þeir sem leiða þróun vettvangsnáms á einu máli um að best væri að stíga ný skref; aðgreina kennarastöður og nemastöður og færa kennaranema úr hlutverkum leiðbeinanda með tilheyrandi undanþágubeiðnum, auglýsingum o.s.frv.

Æskileg þróun er í þá átt að til verði sérstakar nemastöður fyrir kennaranema í þjálfun; við kennslu og önnur störf sem kennarar sinna. Kennaranemi í nemastöðu fái formlega leiðsögn reynds kennara á vettvangi og viðurkenningu á að hann sé námsins vegna hvorki fullgildur kennari né leiðbeinandi. Ég er vongóð um að fljótt verði stigin skref í þá átt að til verði nemastöður á þessum nótum.

Ég endurtek tillögu mína um að í reglugerðina verði bætt grein sem rúmar slík framfaraskref og gæti hljóðað svo:

Ef kennaranemi er ráðinn í sérstaka nemastöðu við leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla þá þarf ekki að sækja um undanþágu fyrir hann vegna þess. Skólastjórnendum ber að tilkynna til Menntamálastofnunar þegar ráðið er í starf á grundvelli þessarar heimildar.

Reykjavík, 8. maí 2020

Með góðri kveðju,

Kristín Jónsdóttir