Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 30.4.–14.5.2020

2

Í vinnslu

  • 15.5.2020–16.9.2021

3

Samráði lokið

  • 17.9.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-90/2020

Birt: 30.4.2020

Fjöldi umsagna: 14

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Húsnæðis- og skipulagsmál

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum (flokkun mannvirkja og eftirlit með mannvirkjagerð)

Niðurstöður

Samráði um drögin að frumvarpinu er lokið. Alls bárust 14 umsagnir um frumvarpsdrögin. Tekið var tillit til athugasemda eftir því sem kostur var. Jákvæðar umsagnir bárust m.a. um styrkingu rafrænnar stjórnsýslu byggingarmála, einföldun byggingarleyfisferlis og eftirlits með innleiðingu flokkunar mannvirkja. Nokkrir umsagnaraðilar lýstu yfir áhyggjum af því að hverfa eigi frá því að byggja eftirlitskerfi byggingariðnaðarins á faggiltum skoðunarstofum. Þá voru frekari skýringar m.a. gerðar við 3. gr. og bráðabirgðaákvæði. Frumvarpið hefur nú verið samþykkt sem lög nr. 134/2020.

Málsefni

Frumvarpinu er ætlað að einfalda regluverk byggingarmála og gera það skilvirkara sem hefur í för með sér lægri byggingarkostnað, aukið framboð á íbúðum og bætta stöðu á húsnæðismarkaði.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpi þessu eru gerðar breytingar á lögunum í því skyni að einfalda regluverk byggingarmála og gera það skilvirkara sem hefur í för með sér lægri byggingarkostnað. Talið er að með því að efla og auka þátt rafrænnar stjórnsýslu, koma á flokkun mannvirkja og falla frá kröfu um að allir skoðunaraðilar séu faggiltir sé stigið ákveðið skref í þá átt.

Fram hefur komið á vettvangi byggingariðnaðarins að nauðsynlegt sé að efla og auka þátt rafrænnar stjórnsýslu í öllum ferlum til þess að auka skilvirkni og gagnsæi. Því sé mikilvægt að innleiða rafræn gagnaskil og rafrænar undirskriftir í öllum ferlum. Þannig er lagt til að hnykkt verði á því að rafræn skil á hönnunargögnum og rafrænar undirskriftir og samþykki vegna umsóknarferlis og skil á gögnum vegna mannvirkjagerðar verði að meginreglu og er það mikilvægur þáttur í því að ná fram þeim markmiðum stjórnvalda að minnka sóun með því að stuðla að rafrænni stjórnsýslu.

Þá hefur verið bent á að nauðsynlegt sé að innleiða flokkun mannvirkja eftir umfangi og eðli þeirra, að fyrirmynd annarra Norðurlandaþjóða, í þeim tilgangi að einfalda og efla eftirlit með mannvirkjum og gera það skilvirkara. Slíka flokkun mætti nýta til að stytta umsóknarferli vegna einfaldari framkvæmda. Jafnframt hefur verið talið að með slíkri breytingu yrði auðveldara að stýra eftirliti með mannvirkjagerð og að greina hvar þurfi að auka og efla eftirlit. Af þessu leiðir að núgildandi krafa um að allir skoðunaraðilar hafi faggildingu er ekki lengur talin fýsileg.

Í ljósi þessa er lagt til að ráðherra skuli í reglugerð flokka mannvirki eftir stærð, vandastigi, fyrirhugaðri notkun og samfélagslegu mikilvægi með það að markmiði að hægt sé að aðlaga umsóknarferli og eftirlit að eðli og umfangi framkvæmda. Jafnframt er lögð til breyting á 19. gr. laganna þannig að faggildingarkrafa fyrir byggingarfulltrúaembætti sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skv. 19. gr. laganna verði felld niður.

Loks er lagt til að stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnun setji stofnuninni gjaldskrá án birtingar í B-deild Stjórnartíðinda né staðfestingar ráðherra, líkt og núgildandi ákvæði kveður á um.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa húsnæðis- og lífeyrismála

frn@frn.is