Samráð fyrirhugað 07.05.2020—22.05.2020
Til umsagnar 07.05.2020—22.05.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 22.05.2020
Niðurstöður birtar 25.11.2021

Reglugerð um próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa

Mál nr. 97/2020 Birt: 07.05.2020 Síðast uppfært: 25.11.2021
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála

Niðurstöður birtar

Eftir að drög að reglugerð voru birt í samráðsgáttinni var farið yfir umsagnir sem bárust og voru gerðar breytingar á drögunum. Endanleg reglugerð nr. 595/2020 var birt á vef Stjórnartíðinda þann 15. júní 2020.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 07.05.2020–22.05.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.11.2021.

Málsefni

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birtir til umsagnar drög að reglugerð um próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa.

Þann 1. janúar sl. tóku í gildi ný lög um endurskoðendur og endurskoðun nr. 94/2019. Samkvæmt 7. gr. laganna skal endurskoðendaráð skipa þriggja manna prófnefnd endurskoðenda sem heldur próf fyrir þá sem sækja um löggildingu til endurskoðunarstarfa. Próf til löggildingar skal ná til þeirra greina bóknáms og verkmenntunar sem helst varða endurskoðendur og störf þeirra.

Með reglugerð um um próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa er kveðið nánar á um skilyrði til próftöku, grófgreinar, framkvæmd prófa og lágmarksárangur til að standast þau.

Með reglugerðinni er jafnframt feld úr gildi reglugerð um sama efni nr. 589/2009.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Guðmundur Óli Magnússon - 12.05.2020

Meðfylgjandi er umsögn mín og tillögur til úrbóta.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Sigurður B Arnþórsson - 20.05.2020

Reykjavík 20. Maí 2020

Tilvísun FLE 9-2020

Samráðsgáttin

Málefni: Reglugerð um próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa.

Framangreind reglugerð hefur verið lögð fram á samráðsgátt stjórnvalda. Álitsnefnd Félags Löggiltra endurskoðenda (FLE) hefur tekið reglugerðina til skoðunar og vill koma eftirfarandi á framfæri.

Það er samfélagslega mikilvægt að á hverjum tíma séu starfandi nægilega margir endurskoðendur í landinu og það krefst þess að nýliðun í stétt endurskoðenda sé stöðug. Próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa er mikilvægur lokaáfangi langrar og strangrar leiðar í námi endurskoðenda. Próftökunni og undirbúningi hennar fylgir oft á tíðum mikið álag á fjölskyldulíf og fjárhag þeirra sem prófið þreyta og því mikilvægt að ramminn um prófin sé skýrt skilgreindur í reglugerð og hægt sé að ganga að því vísu hvenær próf eru og hvað þau fela í sér. Álitsnefndin telur því að gæta þurfi sérstaklega að því að sá rammi sé ekki til þess fallinn að draga úr ásókn í að fá löggildingu sem endurskoðendur með tilheyrandi skaða fyrir samfélagið. Þær athugasemdir sem hér á eftir koma grundvallast að flestu leyti af framangreindum röksemdum.

1. Í 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er prófnefnd veitt heimild til að fella niður próf ef tilteknum lágmarksfjölda prófmanna er ekki náð. Álitsnefndin mótmælir því að settar verði slíkar takmarkanir og telur að próf skuli haldin árlega án tillits til þess hversu margir skrá sig hverju sinni.

2. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir að prófhlutar skuli vera a.m.k. tveir. Ekki er þó ljóst hver taki ákvörðun um fjölda prófhluta. Álitsnefndin fagnar þeim áformum sem reglugerðin felur í sér um að unnt verði að þreyta próf til löggildingar í fleiri aðskildum hlutum. Nefndin telur þó mikilvægt að fjöldi prófhluta sé festur í reglugerðinni, hvort sem það yrðu þá tveir prófhlutar eða fleiri.

3. Í sömu málsgrein er gert ráð fyrir að prófnefnd taki hverju sinni ákvörðun um m.a. efnissvið hvers prófhluta. Álitsnefndin telur mikilvægt að fastsett sé í reglugerðinni til hvaða efnis hver prófhluti tekur. Sem dæmi um slíkt skipulag má nefna 11. gr. dönsku reglugerðarinnar um löggildingarpróf sem finna má á slóðinni https://www.retsinformation.dk/eli/lta/2016/1045

4. Í 2. mgr. 3. gr. er tiltekið hvaða viðfangsefni það eru helst sem falla undir efnissvið prófanna. Þessi listi er óbreyttur frá þeim lista sem er í núgildandi reglugerð. Álitsnefndin telur mikilvægt að slíkur listi endurspegli þá staðreynd að um er að ræða próf til löggildingar í endurskoðun en ekki með önnur störf í huga sem endurskoðendur annast. Nefndin leggur því til að listinn verði endurgerður út frá því sjónarhorni. Fyrsta áhersla ætti þá að vera á alþjóðlega endurskoðunarstaðla og aðra þá staðla sem gefnir eru út af IAASB, sem er sú nefnd inna Alþjóðasambands endurskoðenda (IFAC) sem setur staðla um endurskoðun, aðrar staðfestingar og gæðastjórnun, auk laga um endurskoðendur og siðareglna. Önnur svið þeirrar fræðilegu þekkingar sem endurskoðandi þarf að búa yfir, svo sem á sviði reikningsskila, félaga- og skattaréttar og fjölmargra annarra sviða, yrðu þá talin upp í kjölfarið.

5. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að skriflegar prófúrlausnir skuli merktar prófnúmerum. Nauðsynlegt er að samsvarandi ákvæði um nafnleynd verði sett um rafrænar prófúrlausnir.

6. Í 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir „… ráða í sameiningu úrlausnarefni í hverjum prófhluta…“ Álitsnefnd telur ekki skýrt hvað hér er átt við.

7. Í 7. gr. segir að ef prófmaður nái ekki tilskilinni lágmarkseinkunn sé honum heimilt að þreyta próf að nýju. Álitsnefnd telur að skýrara orðalag væri “ … sé honum heimilt að þreyta prófi í viðkomandi prófhluta að nýju“.

Virðingarfyllst,

f.h. Félags löggiltra endurskoðenda

Sigurður B. Arnþórsson

Framkvæmdastjóri FLE