Tillögurnar urðu hluti af frumvarpi forsætisráðherra til stjórnarskipunarlaga sem lagt var fram á 151. löggjafarþingi.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 11.05.2020–25.05.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 14.09.2021.
Frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (íslensk tunga).
Formenn þeirra flokka sem nú sitja á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar hafa ýmis ákvæði komið til skoðunar. Vinna við þetta frumvarp sem hér eru birt til samráðs er nú komin það langt áleiðis að rétt er að leita álits og athugasemda frá almenningi um efni þess í samráðsgátt stjórnvalda.
Áréttað er að birting í samráðsgátt á þessu stigi felur ekki í sér skuldbindingu af hálfu formanna flokkanna til að standa að framlagningu frumvarpanna í þessari mynd á Alþingi.
Held að væri betra að tala um opinbert mál frekar en ríkismál. Ríkis- forskeytið gæti farið fyrir brjóstið á mörgum. Merkingin gæti þó verið alveg sú sama og ákvæðið að öðru leyti alveg nákvæmlega eins.
Tilburðir þingflokka við endurskoðun stjórnarskrárinnar afhjúpa fyrirlitlega spillingu Alþingis eina ferðina enn.
Fyrst var auðlindaákvæði sem 83% kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 úrbeinað í þeim auðsæja tilgangi að festa í sessi óbreytt ástand fiskveiðistjórnarinnar til að tryggja hag útvegsmanna og erindreka þeirra meðal stjórnmálamanna gegn vilja fólksins í landinu.
Þá voru umhverfisverndarákvæðin í frumvarpi Stjórnlagaráðs frá 2011 sem 67% kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni með líku lagi veikt og þynnt.
Nú tekur steininn úr þegar þingflokkar koma sér saman um nýtt ákvæði um íslenzku sem ríkismál Íslands, atriði sem enginn ágreiningur hefur verið um. Stjórnlagaráð valdi tungunni hinn virðulegasta stað í nýju stjórnarskránni í aðfaraorðunum sem leggja línurnar að öllu sem á eftir kemur. Þau hefjast svo:
"Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu."
Með þessu móti var talið óþarft að hafa sérstakt ákvæði í frumvarpinu um tunguna.
Ákvæði 6. greinar um jafnræði hnykkir á stöðu tungunnar en þar segir: "Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti." Í þessu felst vernd tungunnar einnig sem táknmáls, sem og réttarvernd þeirra sem eiga sér önnur móðurmál.
Tillaga þingflokkanna um nýja grein hljóðar svo: "Íslenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda. Íslenskt táknmál er tungumál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Skal ríkisvaldið styðja það og vernda."
Þessi tillaga er óþörf enda bætir hún engu efnislega við frumvarp Stjórnlagaráðs sem lagt var í dóm kjósenda 2012. Tillögunni er bersýnilega ætlað að slá ryki í augu fólksins í landinu með því að búa til ágreining sem enginn hefur verið um þetta atriði til að dreifa athyglinni frá spilltri þjónkun Alþingis við harðsvíraða sérhagsmunahópa, einkum í sjávarútvegi.
Framferði Alþingis í stjórnarskrármálinu allar götur frá 2013 lýsir grófu virðingarleysi þingmanna gagnvart lýðræðislegum stjórnarháttum og þeim 115.890 kjósendum sem greiddu atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem Alþingi efndi til 2012. Framferði Alþingis lýsir einnig grófu virðingarleysi þingmanna gagnvart stjórnarskrárferlinu sjálfu sem hófst 2009 og hefur vakið athygli og aðdáun víða um heim sem eitt lýðræðislegasta ferli við endurskoðun stjórnarskrár í gjörvallri sögu stjórnskipunarréttar.
Alþingi grefur með framferði sínu undan trausti og þá um leið undan áliti Íslands úti í heimi.
Umsögn Íslenskrar málnefndar um drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (íslensk tunga).
ViðhengiAllir sannir íslendingar vita að innihaldi og almennri uppbyggingu hátíðarræðna og ávarpa til þjóðarinnar er stórlega ábótavant. Þar er farið um allt of víðan völl - náttúran dásömuð, mikilfengleiki og samstaða þjóðarinnar (miðað við höfðatölu að sjálfsögðu), fjallað um lítið smáblóm og þegar allt þrýtur er gripið til torkennilegra líkinga sem eiga uppruna sinn í sjómennsku. Stöku sinnum er þó fjallað um þá gullbrydduðu sameign þjóðarinnar sem hin hljómfagra, stílhreina og ævaforna tunga vor er, og er þá helst að það skorti lýsingar- og atviksorð til að ná þeirri dýpt og mikilfengleika sem þessi tiltekni hljóðastrúktúr inniber.
Hátíðarræður eru með öðrum orðum hvergi nægilega fyrirsjáanlegar og mætti allteins búast við að leiðtogar vorir færu að tala um lýðræði, gegnsæi eða eitthvað álíka þvaður sem enginn skilur, við þessi dásamlegu tækifæri. Það er alltaf reiðarslag þegar í neyð er fjallað um svo ógeðfeld málefni, því ef almúginn á eitthvað skilið yfir höfuð, þá er það sá heiður að fá að hlýða fyrirmælum þeirra göfugugu leiðtoga sem verma hásæti yfirboðara hvurju sinni. Það er þó til marks um ást vorra ástsælu leiðtoga á þegnum sínum (og yfirþyrmandi aumingjagæsku) að við, hin valdalausu, fáum náðugsamlegast að tjá skoðanir okkar hér á þessum vettvangi. Að sama skapi lýsir það visku þeirra og dýrðlegri yfirsýn að ekkert sem fer fram á þessum vettvangi (eða nokkrum sem snýr að almenningi) feli í sér minnstu skuldbindingu af hálfu formanna eða annarra alvöru manna. Hreinlegra væri þó að banna þeim að lesa þetta, enda bara samfélagsleikur fyrir börn og fullorðnu fólki í besta falli til góðlátlegrar skemmtunar.
Það er sem sagt bjargföst trú þess sem hér stingur auðmjúkur niður penna að þetta frumvarp væri einungis það fyrsta í að geirnegla hátíðarræður til frambúðar. Héðan í frá væri fásinna að tala ekki í slíkum ræðum um hina dúnmjúku íslensku tungu og þá alltumlykjandi vernd sem stjórnvöld hafa að gæsku sinni ákveðið að megi umljúka hana. Í næstu yfirferð færi vel á því að þjóðarleiðtogar væru skyldaðir til að byrja allar hátíðarræður á sérhljóðanum "Ó", helst með tilfinningaþrunginni handasveiflu (að því marki sem hægt er að setja kóríógrafíu í stjórnarskrá), og enda annað hvort á "Íslandi allt" eða "Guð blessi Ísland" eftir því hvort það sé oddatölumánuður eða febrúar.
Í kjölfarið* skyldi tafarlaust leita til Sameinuðu þjóðanna staðfestingar á að íslenska sé sannarleg besta tungumál í heimi (miðað við höfðatölu) og krafa um endurupptöku takkasíma á alþjóðlega vísu væri gerð að forgangsmáli, því útlenskan bókstaflega vellur úr öllum þessum nýmóðins tortímingarmaskínum.
Það gleður þennan pennavin ríkisstjórnarinnar einnig átakanlega að hæstvirtur forsætisráðherra fær að koma fagi sínu í stjórnarskrá lýðveldisins, og sérstaklega að eldri bróðir ráðherrans sé rosalega (mjög) sammála í sinni umsögn um frumvarpið. Þannig er öruggt að ekki hljótist vandræði í framtíðarmatarboðum fjölskyldunnar. Það segir sig sjálft að slíkt þarf að hafa forgang fram yfir hinn svokallaða vilja þjóðarinnar, sem ekkert endurspeglar nema skoðanir þeirra sem ekki mæta á kjörstað, eins og sá þingmaður sem mestan skilning hefur á þjóðarsálinni hefur góðfúslega ælt úr skálum visku sinnar.
Því er óhætt að styðja frumvarpið með einlægri gleði hins ómálga barns og með mikilli tilhlökkun til allra hátíðarávarpa framtíðarinnar, sem eðli málsins samkvæmt fjalla að stórum hluta um það afrek að setja tungumál þjóðar í stjórnarskrá sömu þjóðar, því ef eitthvað má vera öllum ljóst - er að hér hefur enginn hugmynd um frá degi til dags hvaða tungumál hér á að tala. Nægir hér að benda á Dóru landkönnuð sem víti til varnarðar.
*Í anda fulls gegnsæis skal tekið fram að undirritaður hefur ekki hugmynd um hvað þetta fasta orðtiltæki þýðir, en hefur orðið var við að sjómannamál undirstriki alvöru allra viðfangsefna, eins og farið er í hér að ofan, og leyfir því herlegheitunum að standa.
Rosalega virðingarfyllst (því miður er ekki hægt að hneigja sig rafrænt)
Daði Áslaugarson
Íslendingur og andleg holtasóley
Sjá viðhengi - þar sem línubil virðast hafa tortímst í fyrri sendingu.
Þar sem ekki er hægt að leiðrétta innsent erindi eru tæknitröll Stjórnarráðsins hér vinsamlegast beðnir um að laga línubil og eyða þessari færslu, ekki endilega í þessari röð (þó mælt með þessari röð, hún er betri).
D
ViðhengiEfni: Umsögn við drög að stjórnarákvæði um íslenska tungu, mál nr. 98/2020.
Félag heyrnarlausra vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum um fyrirliggjandi drög að stjórnarákvæði um íslenska tungu sem var birt á samráðsgátt stjórnvalda þann 11.maí 2020, auðkennt með málsúmerinu 98/2020.
Félag heyrnarlausra þakkar þeim sem unnu að drögum að stjórnarákvæðinu að hafa samband við félagið til að fá álit og greinargerð frá félaginu við árslok 2019. Félagið fagnar frumvarpinu en vill koma nokkrum athugasemdum á framfæri.
1. Núverandi heiti frumvarpsins er ,,Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1994 með síðari breytingum (íslensk tunga)“ . Félagið vill benda á að í lögum nr. 61/2011 um íslenska tungu og íslenskt táknmál eru tungumálin bæði tekin fram og því viljum við árétta að hafa bæði tungumálin á skjalinu.
2. Í greinargerðinni með frumvarpsdrögunum kemur þetta fram ,,Með ákvæðinu er lögð áhersla á rétt heyrnarlausra, herynarskertra og daufblindra Íslendinga til þess að nota móðurmál sitt [...].“ Félag heyrnarlausra leggur til að þessu yrði breytt í: ,,Með ákvæðinu er lögð áhersla á rétt þeirra sem reiða sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta til þess að nota íslenska táknmálið [...]. Með þessu erum við að tryggja betur rétt barna foreldra sem reiða sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta og foreldra þeirra barna sem reiða sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra um drög að
stjórnarskrárákvæði um íslenska tungu, mál nr. 98/2020.
Viðhengi