Samráð fyrirhugað 14.05.2020—05.06.2020
Til umsagnar 14.05.2020—05.06.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 05.06.2020
Niðurstöður birtar

Drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð

Mál nr. 99/2020 Birt: 14.05.2020 Síðast uppfært: 26.05.2020
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Sjúkrahúsþjónusta

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (14.05.2020–05.06.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð byggir á tillögum starfshóps. Í drögunum er lögð áhersla á virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti sjúklings. Leitast er við að setja skýrari ramma og auka eftirlit með beitingu þvingaðrar meðferðar.

Hinn 30. júlí 2019 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp sem meta átti hvort þörf væri á því að setja frekari leiðbeiningar um útfærslur á þvingunarúrræðum en felast í lögræðislögum, nr. 71/1997. Í 28. gr. lögræðislaganna er fjallað um meðferð nauðungarvistaðs einstaklings á sjúkrahúsi auk þess sem þar er að finna heimild til handa heilbrigðisráðherra til að setja nánari reglur í reglugerð um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð.

Eftirtaldir sérfræðingar skipuðu starfshópinn:

Helga Baldvins Bjargardóttir, lögmaður og þroskaþjálfi sem jafnframt var formaður

Halldóra Jónsdóttir, geðlæknir á Landspítala

Sigrún Ingvarsdóttir, félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg

Sveinn Rúnar Hauksson, lælknir, tilnefndur af Geðhjálp

Megin niðurstaða starfshópsins var sú að allt vald yfir öðrum einstaklingum fæli í sér hættu á misnotkun. Það væri því knýjandi þörf á skýrum reglum um þvingaða meðferð. Í slíkum reglum þyrfti að koma skýrt fram að sjálfsákvörðunarréttur sjúklings til að þiggja eða hafna meðferð sé meginregla sem byggja þurfi alla meðferð á. Sé þörf á undanþágu frá þeirri meginreglu verði sú undanþága að uppfylla skilyrði um nauðsyn og meðalhóf auk þess sem lög eða reglur þurfi að kveða skýrt á um hvers konar þvinganir eru heimilar, í hvaða tilvikum, hvernig skuli skrásetja þær og hvernig haga skuli eftirliti með framfylgd þeirra. Leggja þurfi áherslu á virðingu fyrir réttindum, vilja og séróskum sjúklings í stað forræðishyggju og ákvarðanatöku fyrir hönd sjúklings út frá því hvað honum er talið fyrir bestu.

Þann 19. júní 2019 var samþykkt þingsályktunartillaga um heildarendurskoðun á lögræðislögum nr. 71/1997. Í skýrslu starfshópsins kemur fram að hann fagni því mikilvæga verkefni en að mati hans er nauðsynlegt að fram fari heildarendurskoðun á stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi og lögræðislögin öll tekin til endurskoðunar. Það var þó niðurstaða hópsins að brýnt væri, þrátt fyrir endurskoðun á lögræðislögum, að heilbrigðisráðherra tæki af skarið sem fyrst og gæfi út reglugerð með nánari leiðbeiningum um framkvæmd þvingaðrar lyfjagjafar. Þar sem í lögræðislögunum er ekki að finna skilgreiningu á því hvað telst "önnur þvinguð meðferð" var það mat starfshópsins að honum væri ekki heimilt að útfæra slíkt með reglugerð með tilliti til lögmætisreglunnar.

Starfshópurinn setti saman drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð. Í drögunum er lögð áhersla á virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti sjúklings. Þannig sé markmiðið að tryggja að virðing sé borin fyrir mannlegri reisn og sjálfsákvörðunarrétti allra sem þiggja heilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsi og sá réttur sé tryggður án mismununar þegar kemur að þvingaðri lyfjagjöf. Í reglugerðinni eru settar fram meginreglur þegar kemur að þvingaðri lyfjameðferð auk þess sem leitast er við að setja skýrari ramma og auka eftirlit með beitingu þvingaðrar meðferðar.

Starfshópurinn lagði áherslu á að fá raddir sem flestra að borðinu við vinnuna. Í því skyni útbjó hópurinn sérstakt tölvupóstfang fyrir verkefnið þar sem hægt var að senda inn erindi en þangað barst 21 erindi frá 11 aðilum. Þá voru haldnir tveir opnir vinnufundir í samstarfi við Geðhjálp, með notendum, aðstandendum, fagfólki og öðrum áhugasömum. Auk þess sem formaður starfshópsins fundaði með fulltrúum ráðuneyta sem vinna að reglum um öryggisvistun og þingmannanefnd um endurskoðun lögræðislaga.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Þroskahjálp,landssamtök - 26.05.2020

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að til standi að setja þessa reglugerð.

Sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks er einn af meginþáttum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Íslenska ríkið fullgilti samninginn árið 2016 og skulbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans meðal annars með því að tryggja að lög og reglur væru í fullu samræmi við skyldur sem af samningnum leiða. Sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks á öllum sviðum er sérstaklega áréttaður í 12. gr. samningsins sem og skyldur ríkja til að veita fötluðu fólki nauðsynlega vernd og viðeigandi stuðning til að tryggja að það fá notið þeirra mannréttinda til jafns við aðra.

Sjálfsákvörðunarrétturinn nær einnig til ákvarðana um heilbrigðsisþjónustu, eins og fram kemur í 25. gr. samningsins sem hefur yfirskiftina „Heilsa“ en þar segir m.a.:

„Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki eins og frekast er unnt án mismununar vegna fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af kyni, einnig að heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu einkum:

...

gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, meðal annars á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, með því, auk annars, að vekja til vitundar um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilsugæslu, og með útbreiðslu siðferðislegra viðmiðana meðal þeirra.“ (Undirstr. Þroskahj.)

Landssamtökin Þroskahjálp taka heilshugar undir að brýnt er að lögræðislög verði endurskoðuð til að tryggja að þau verði í fullu samræmi við ákvæði samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Samtökin árétta og ítreka hér þá áskorun sína til hlutaðeigandi stjórnvalda að einnig fari sem fyrst fram vönduð heildarendurskoðun á lögum nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk en ákvæði þeirra laga eru afar mikilvæg m.t.t. stuðnings við fatlað fólk til að það geti notið sjálfsákvörðunarréttar til jafns við annað fólk sem og að haft sé fullnægjandi og markvisst eftirlit með að þau mannréttindi fatlaðs fólks séu virt á öllum sviðum samfélagsins.

Þá vilja samtökin benda heilbrigðisyfirvöldum á skyldu þeirra til að stuðla að vitundarvakningu meðal heilbrigðisstarfsfólks um mannréttindi fatlaðs fólks, sbr. ákvæði 25. gr. samningsins sem vitnað er til hér að framan og 8. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Vitundarvakning“.

Afrita slóð á umsögn

#2 Ólafur Helgi Samúelsson - 27.05.2020

Athugasemdri frá öldrunarlæknum

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Páll Matthíasson - 01.06.2020

Vinsamlegast sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Geðhjálp - 04.06.2020

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Öryrkjabandalag Íslands - 04.06.2020

Meðfylgjandi er umsögn Öryrkjabandalags Íslands um drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð.

Afrita slóð á umsögn

#6 Helga Þórðardóttir - 05.06.2020

Meðfyljgandi í viðhengi er umsögn lögfræðideildar Landspítala um drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð.

Viðhengi