Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 14.5.–5.6.2020

2

Í vinnslu

  • 6.6.2020–8.2.2021

3

Samráði lokið

  • 9.2.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-99/2020

Birt: 14.5.2020

Fjöldi umsagna: 6

Drög að reglugerð

Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkrahúsþjónusta

Drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð

Niðurstöður

Birtingu reglugerðar frestað, þarf frekari vinnslu. Vinna í gangi í ráðuneytinu.

Málsefni

Drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð byggir á tillögum starfshóps. Í drögunum er lögð áhersla á virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti sjúklings. Leitast er við að setja skýrari ramma og auka eftirlit með beitingu þvingaðrar meðferðar.

Nánari upplýsingar

Hinn 30. júlí 2019 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp sem meta átti hvort þörf væri á því að setja frekari leiðbeiningar um útfærslur á þvingunarúrræðum en felast í lögræðislögum, nr. 71/1997. Í 28. gr. lögræðislaganna er fjallað um meðferð nauðungarvistaðs einstaklings á sjúkrahúsi auk þess sem þar er að finna heimild til handa heilbrigðisráðherra til að setja nánari reglur í reglugerð um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð.

Eftirtaldir sérfræðingar skipuðu starfshópinn:

Helga Baldvins Bjargardóttir, lögmaður og þroskaþjálfi sem jafnframt var formaður

Halldóra Jónsdóttir, geðlæknir á Landspítala

Sigrún Ingvarsdóttir, félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg

Sveinn Rúnar Hauksson, lælknir, tilnefndur af Geðhjálp

Megin niðurstaða starfshópsins var sú að allt vald yfir öðrum einstaklingum fæli í sér hættu á misnotkun. Það væri því knýjandi þörf á skýrum reglum um þvingaða meðferð. Í slíkum reglum þyrfti að koma skýrt fram að sjálfsákvörðunarréttur sjúklings til að þiggja eða hafna meðferð sé meginregla sem byggja þurfi alla meðferð á. Sé þörf á undanþágu frá þeirri meginreglu verði sú undanþága að uppfylla skilyrði um nauðsyn og meðalhóf auk þess sem lög eða reglur þurfi að kveða skýrt á um hvers konar þvinganir eru heimilar, í hvaða tilvikum, hvernig skuli skrásetja þær og hvernig haga skuli eftirliti með framfylgd þeirra. Leggja þurfi áherslu á virðingu fyrir réttindum, vilja og séróskum sjúklings í stað forræðishyggju og ákvarðanatöku fyrir hönd sjúklings út frá því hvað honum er talið fyrir bestu.

Þann 19. júní 2019 var samþykkt þingsályktunartillaga um heildarendurskoðun á lögræðislögum nr. 71/1997. Í skýrslu starfshópsins kemur fram að hann fagni því mikilvæga verkefni en að mati hans er nauðsynlegt að fram fari heildarendurskoðun á stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi og lögræðislögin öll tekin til endurskoðunar. Það var þó niðurstaða hópsins að brýnt væri, þrátt fyrir endurskoðun á lögræðislögum, að heilbrigðisráðherra tæki af skarið sem fyrst og gæfi út reglugerð með nánari leiðbeiningum um framkvæmd þvingaðrar lyfjagjafar. Þar sem í lögræðislögunum er ekki að finna skilgreiningu á því hvað telst "önnur þvinguð meðferð" var það mat starfshópsins að honum væri ekki heimilt að útfæra slíkt með reglugerð með tilliti til lögmætisreglunnar.

Starfshópurinn setti saman drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð. Í drögunum er lögð áhersla á virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti sjúklings. Þannig sé markmiðið að tryggja að virðing sé borin fyrir mannlegri reisn og sjálfsákvörðunarrétti allra sem þiggja heilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsi og sá réttur sé tryggður án mismununar þegar kemur að þvingaðri lyfjagjöf. Í reglugerðinni eru settar fram meginreglur þegar kemur að þvingaðri lyfjameðferð auk þess sem leitast er við að setja skýrari ramma og auka eftirlit með beitingu þvingaðrar meðferðar.

Starfshópurinn lagði áherslu á að fá raddir sem flestra að borðinu við vinnuna. Í því skyni útbjó hópurinn sérstakt tölvupóstfang fyrir verkefnið þar sem hægt var að senda inn erindi en þangað barst 21 erindi frá 11 aðilum. Þá voru haldnir tveir opnir vinnufundir í samstarfi við Geðhjálp, með notendum, aðstandendum, fagfólki og öðrum áhugasömum. Auk þess sem formaður starfshópsins fundaði með fulltrúum ráðuneyta sem vinna að reglum um öryggisvistun og þingmannanefnd um endurskoðun lögræðislaga.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Anna Birgit Ómarsdóttir

hrn@hrn.is