Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 24.5.–5.6.2020

2

Í vinnslu

  • 6.6.–9.8.2020

3

Samráði lokið

  • 10.8.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-105/2020

Birt: 24.5.2020

Fjöldi umsagna: 10

Drög að reglugerð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Drög að reglugerð um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna

Niðurstöður

Alls bárust 10 umsagnir frá hagsmunaaðilum. Tekið var tillit til þeirra eins og kostur var. Með lögum nr. 73/2020, um breytingu á lögum um virðisaukskatt nr. 50/1988, var íþróttafélögum, heildarsamtökum á sviði íþrótta, héraðs- og sérsamböndum, félögum og félagasamtökum sem sinna æskulýðsmálum og Þjóðkirkjunni, þjóðkirkjusöfnuðum o.fl., gert kleyft að óska eftir tímabundinni 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna o.fl. Gerðar voru breytingar á reglugerðinni vegna þessa. Reglugerðin var birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 3. júlí sl. og er nr. 690/2020.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðuneytið birtir til umsagnar drög að nýrri reglugerð um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna.

Nánari upplýsingar

Fjármála- og efnahagsráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að nýrri reglugerð um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna.

Reglugerðin er sett í kjölfar samþykktar laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Með lögunum voru lögfest bráðabirgðaákvæði nr. XXXIII og XXXIV við lög um virðisaukaskatt, þar sem m.a. var heimiluð 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts á tímabilinu 1. mars til og með 31. desember 2020 vegna vinnu manna á byggingarstað við byggingu, endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði o.fl. Þá er reglugerðin sett í kjölfar samþykktar laga nr. 37/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, (frekari aðgerðir), þar sem sveitarfélögum, eða stofnunum og félögum sem alfarið eru í eigu þeirra, var veitt heimild til endurgreiðslu 100% virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað vegna byggingar annars húsnæðis en íbúðar- og frístundahúsnæðis.

Reglugerðinni er skipt upp í þrjá kafla.

- Í fyrsta kafla er að finna almenn ákvæði um gildissvið og skilgreiningar/orðskýringar.

- Í öðrum kafla er fjallað um skilyrði fyrir endurgreiðslu o.fl. Þar er m.a. að finna umfjöllun um almenn og sérstök skilyrði fyrir endurgreiðslu, virðisaukaskatt sem telst ekki endurgreiðsluhæfur og leiðréttingarskyldu innskatts vegna mannvirkja.

- Í þriðja kafla er að finna ýmis ákvæði, m.a. umfjöllun um kæruleið, gildistöku og lagastoð.

Umsögnum skal skilað eigi síðar en föstudaginn 5. júní 2020 í samráðsgátt

https://samradsgatt.island.is/

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa skattamála

postur@fjr.is