Samráð fyrirhugað 26.05.2020—24.06.2020
Til umsagnar 26.05.2020—24.06.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 24.06.2020
Niðurstöður birtar 07.08.2020

Áform um samþættingu þjónustu í þágu barna

Mál nr. 106/2020 Birt: 26.05.2020 Síðast uppfært: 07.08.2020
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál

Niðurstöður birtar

Alls bárust 22 umsagnir frá stofnunum, sveitarfélögum, samtökum, háskólasamfélaginu og einstaklingum. Umsagnirnar eru almennt jákvæðar og samstaða um mikilvægi þess að frumvörpin nái fram að ganga. Unnið verður nánar úr öllum athugasemdum sem bárust og afstaða tekin til þeirra við áframhaldandi vinnslu frumvarpanna.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 26.05.2020–24.06.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 07.08.2020.

Málsefni

Undanfarin tvö ár hefur farið fram margþætt vinna við endurskoðun á félagslegri umgjörð um málefni barna. Áformað er að leggja fram frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna síðar á árinu auk tveggja frumvarpa vegna breytinga á stofnanafyrirkomulagi á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins. Frumvörpin eru hér kynnt sem áform um lagasetningu en samhliða er unnið að mati á áhrifum þeirra.

Áformin eru afurð vinnu sem hófst vorið 2018 með ráðstefnu og vinnufundi sem þáverandi velferðarráðuneyti boðaði til um snemmtæka íhlutun í málefnum barna.

Þann 7. september 2018 rituðu ráðherrar félags- og jafnréttismála, heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Samband íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu um að afnema hindranir milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag. Í kjölfarið tók stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna til starfa. Jafnframt tók til starfa þingmannanefnd um málefni barna sem er skipuð fulltrúum allra þingflokka. Margvísleg vinna hefur verið unnin í þingmannanefndinni, stýrihópi Stjórnarráðsins í málefnum barna og í átta hliðarhópum þingmannanefndarinnar sem skipaðir voru í tengslum við vinnuna.

Vinna þessara aðila hefur m.a. verið efniviður fyrir smíði þeirra frumvarpa sem hér eru kynnt. Drögin að frumvörpunum hafa verið í undirbúningi um nokkurra mánaða skeið og hafa fengið umfjöllun aðila á vettvangi ríkis, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka. Vinnan við frumvörpin er komin á það stig að rétt þykir að veita almenningi færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Drögum að frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er ætlað að stuðla að samvinnu aðila. Þar er fjallað um samþættingu þjónustu margra þjónustukerfa sem starfa með stoð í lögum og veita þjónustu sem skiptir máli fyrir farsæld barns, þ.m.t. menntun, heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta og löggæsla.

Þjónustu verður stigskipt í þrjú þjónustustig samkvæmt samræmdum mælikvörðum sem koma fram í frumvarpinu. Ítarlegri útfærsla stigskiptingarinnar verður í höndum ráðherra sem fara með viðkomandi málefnasvið.

Lagðar eru skyldur á þjónustuveitendur að fylgjast með barni og bregðast við ef þeir verða varir við að þörfum barns sé ekki mætt.

Lagt er til að tryggja öllum börnum aðgang að tengilið á heilsugæslu, í leik-, grunn- eða framhaldsskóla eða hjá félagsþjónustu sveitarfélags. Hann veitir barni og foreldrum leiðbeiningar og aðstoð vegna þjónustu á fyrsta stigi. Ef þess er óskað aflar tengiliður upplýsinga frá öðrum sem veita barni þjónustu og getur skipulagt og fylgt eftir samþættingu þjónustunnar.

Ef barn þarf frekari eða sérhæfðari þjónustu en er veitt á fyrsta stigi tilnefnir sveitarfélag málstjóra annars og/eða þriðja þjónustu í þágu barnsins. Málstjóri kemur á fót stuðningsteymi með þeim sem veita barni þjónustu. Stuðningsteymi vinnur stuðningsáætlun þar sem þjónusta sem barnið og foreldrar þess þurfa á að halda er samþætt.

Jafnframt er lagt til að komið verði á fót almennum samráðsvettvangi á vegum ríkisins þar sem fulltrúar ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga móta stefnu og framkvæmdaáætlun um farsæld barna með þátttöku barna. Þá verða svæðisbundin ráð vettvangur formlegs samráðs þar sem fulltrúar þjónustukerfa sem bera ábyrgð á farsæld barna á tilteknu svæði koma saman.

Í því skyni að stjórnsýsla velferðarmála á vegum ríkisins sé í stakk búin til að styðja við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er gert ráð fyrir að samhliða verði gerðar breytingar á stofnanafyrirkomulagi á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins. Breytingarnar fela í sér að tvær nýjar stofnanir, Barna- og fjölskyldustofa og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, koma í stað Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar, sem í dag er starfrækt sem ráðuneytisstofnun, sbr. 17. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands. Markmið breytinga á stofnanafyrirkomulagi er að styðja við samþættingu þjónustu í þágu barna og jafnframt að skapa forsendur til að styrkja þjónustu ríkis og sveitarfélaga við börn og barnafjölskyldur, styrkja eftirlit og samræma reglur um barnavernd, félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu við viðkvæma hópa.

Hér fylgja drög að þremur frumvörpum til kynningar, þ.e. drög að frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, drög að frumvarpi til laga um Barna- og fjölskyldustofu og drög að frumvarpi til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Umsagnir sem berast verða grundvöllur áframhaldandi vinnu við frumvörpin þrjú og við frekari umbætur sem eru fyrirhugaðar á þjónustu í þágu barna.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Eyjólfur Kjalar Emilsson - 02.06.2020

Að mínum dómi er farsæld ekki hugak sem á við um börn, sérstaklega ekki við ung börn. Það er röng hugtakanotkun. Til manneskja geti talist farsæl verður hún sjálf að taka mikilvægar ákvarðanir, taka ábyrgð á eigin lífi. Það krefst vits og reynslu sem börn hafa ekki. Hins er ekkert að því að tala um velferð barna, sem vondandi býr þau undir að verða farsæl síðar.

Afrita slóð á umsögn

#2 Þroskahjálp,landssamtök - 15.06.2020

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um samþættingu þjónustu í þágu barna.

Hvað varðar drög að frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna vísa Landssamtökin Þroskahjálp til sameiginlegrar umsagnar samtakanna, Sjónarhóls ráðgjafamiðstöðvar, ADHD samtakanna, Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og Umhyggju, félags langveikra barna.

Samtökin vilja koma eftirfarandi athugasemdum / ábendingum /spruningum á framfæri varðandi drög að frumvarpi til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

• Ekkert kemur fram um hvernig tengslum við réttindagæsluna verður háttað verði frumvarpið að lögum. Réttindagæslan er afar mikilvægur þáttur í eftirliti með réttindum fatlaðs fólks. Þá skal í þessu sambandi áréttað að nauðsynlegt er og mjög tímabært að fram fari heildarskoðun á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Milli verkefna Gæða- og eftirlitsstofnunar skv. frumvarpinu og réttindaæslunnar eru veruleg og augljós tengsl og skörun verkefna, s.s. hvað varðar móttöku kvartana. Nauðsynlegt er að skýrt sé samkvæmt lögum hver verka- og ábyrgðarskipting er og hvert fatlað fólk og aðrir eiga að leita með kvartanir aðfinnslur o.þ.h. Einnig er nauðsynlegt að skýrt verði hver staða réttindagæslunnar í stjórnkerfinu verður verði frumvarpið að lögum

Þá er óhjákvæmilegt að gera alvarlega athugsemd við að í frumvarpinu skuli ekkert minnst á sjálfstæða óháða mannréttindastofnun sem uppfyllir kröfur og skilyrði Parísar-meginreglnanna (Paris Principles) og hefur eftirlit með að mannréttindi fatlaðs fólks séu virt þó að íslenska ríkið hafi skuldbundið sig til að setja á fót slíka stofnun þegar það fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins.

• Töluvert vald er tekið frá félagsmálaráðherra, s.s. til afturköllunar starfsleyfa skv. 7. gr. laga nr. 38/2008, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Þá er í 7. gr. frumvarpsins fellt út ákvæði sem er nú í 8. gr. laga nr. 38/2008 um að aflað skuli umsagnar notendaráðs, án þess að í fumvarpinu sé að finna önnur ákvæði sem mæta þeim hagsmunum sem ætla verður að þessu ákvæði laganna sé ætlað að verja m.t.t. samráðs við fatlað fólk. Nauðsynlegt er að þessi breyting sé skýrð með einhverjum málefnalegum rökum

• Ákvæði í 12. gr. um „ skráningu óvæntra atvik“ eru til bóta. Hér vaknar sú spurning hvort í lögum séu ákvæði sem ná til sambærilegra tilvika í skólum sem börn sækja.

• Ákvæði 13. gr. frumvarpsins um „ábendingar“ eru mun veikari en skyldur til að tilkynna um brot gegn réttindum fatlaðs fólks samkvæmt 27. gr. laga 38/2018 og 6. gr. laga nr. um réttidnagæslu. Mikilvægt að þetta sé skýrt og ekkert gert til að veikja þá mikilvægu lagalegu vernd sem felst í umræddum ákvæðum laga nr. 38/2018 og laga nr. 88/2011, um réttindagæslu.

• Ákvæði 15. gr. vekja spurningar um virðingu fyrir friðhelgi heimila fatlaðs fólks. Þá er sérstakt orðalag í 3. mgr. greinarinnar „skal leitast við að gefa notendum kost á að koma sjónarmiðum ...“. Veigamikil rök verða að vera fyrir því að orða þetta ekki sem fortakslausa skyldu.

• Óljóst er hvort og að hvaða leyti ákvæði 18. og 19. gr. frumvarpsins eigi við þegar aðili vanrækir að starfrækja þá þjónustu sem honum ber að veita samkvæmt lögum eða hvort ákvæðið nái einvörðungu til þess þegar starfsemi sem er veitt er ófullnægjandi.

Afrita slóð á umsögn

#3 Bryndís Snæbjörnsdóttir - 16.06.2020

Í meðfylgjandi viðhengi er sameiginleg umsögn frá Sjónarhóli, ADHD samtökunum, Styrktarfélagi Lamaðra og fatlaðra, Umhyggju og Landssamtökunum Þroskahjálp

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Katrín Davíðsdóttir - 16.06.2020

Umsögn frá Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðis:

Okkur sýnist að það verklag sem ráðgert er í frumvarpinu þegar þörf er á stuðningi (grunn-, markvissari eða sérhæfðari) þá sé leið notenda að þjónustu lengri en er í núverandi kerfi, þar sem milliliðir verða fleiri. Ekki kemur fram hvernig eigi að tryggja þjónustu „án hindrana“. Hindranir nú eru ekki skortur á skipulagi eða samvinnu milli stofnana heldur ónóg fjármögnun úrræða. Stigskipting þjónustunnar er óljós og óvíst hvar (hjá hvaða stofnunum) eigi að koma verkefnunum fyrir. Það vantar áætlun um hve mörg börn þurfa 2. og 3. stigs þjónustu og það vantar að fjármagna þjónustuna miðað við þörf. Einnig vantar áætlun um hvernig eigi að tryggja að ekki myndist biðlistar á öllum stigum.

Frumvarpið er í heild sinni mjög félags- og barnaverndarmiðað, vantar að taka meira mið af hlutverki heilbrigðisþjónustunnar.

"Farsæld" ekki gott orð. "Velferð" væri heppilegra.

Afrita slóð á umsögn

#5 Embætti landlæknis - 16.06.2020

Sjá umsögn embættis landlæknis í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Kristinn Ágúst Friðfinnsson - 17.06.2020

Við gildistöku þessara laga verður stigið heillaspor í þágu barna og fjölskyldna. Ég hef tvær athugasemdir.

1. Ég tek af heilum huga undir sjónarmið Eyjólfs Kjalars Emilssonar um að farsæld sé ekki hugak sem eigi við um börn, sérstaklega ekki ung börn, til að manneskja geti talist farsæl verði hún sjálf að taka mikilvægar ákvarðanir, taka ábyrgð á eigin lífi sem krefjist vits og reynslu sem börn hafi ekki. Hins vegar sé ekkert að því að tala um velferð barna, sem vondandi búi þau undir að verða farsæl síðar.

2. Í 5. gr. frumvarpsins til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna eru taldir upp þeir sem sitja eiga í svæðisbundnum farsældarráðum barna. Ég tel að enn og aftur sé hér litið fram hjá einni stétt sem hefur að jafnaði mun meiri yfirsýn um hagi og líðan barna og fjölskyldna en almennt er gert ráð fyrir. Ég á hér við presta. Ekki bara í þessu máli heldur í svo fjölmörgum málum sem varða málefni almennings í þessu landi hefur mér virst að í auknum mæli sé skautað fram hjá þessari stétt sem oftast býr yfir meiri þekkingu á högum og líðan fólks en margar aðrar stéttir. Þó ekki sé blásið í lúðra eða trommusóló tekin þegar prestar sinna viðkvæmum og vandmeðförnum málum fólks hafa þeir samt oft nána tengingu við flest hið viðkvæmasta í lífi almennings. Allir prestar eru stöðugt reiðubúnir til að veita öllu fólki, líka þeim sem ekki eru skráðir félagar í Þjóðkirkjunni, aðstoð, stuðning og sálgæslu. Slíkt gerist flesta daga ársins og er sjálfsagt. Stjórnvöld missa af mjög dýrmætri reynslu og þekkingu vel menntaðra og vel tengdra presta þegar sjónarmiða og ábendingu þeirra er ekki óskað í málefnum sem varða velferð og lífsgæði almennings. Það er alls ekki nóg að líta svo á að til presta hljóti nærsamfélög að leita til að sitja í hinum svæðisbundnu farsældarráðum. Því legg ég til að lögin mæli fyrir um að prestur/ar skuli sitja í farsældarráðum barna. Þessi ábending á einnig við um nefndir, ráð og samstarfshópa sem vinna að velferð og vellíðan almennings. Það er léleg hagfræði að virkja ekki dýrmæta þekkingar- og reynslufjársjóði þjóðarinnar.

Kristinn Ágúst Friðfinnsson.

Afrita slóð á umsögn

#7 Embætti landlæknis - 22.06.2020

Sjá umsögn embættis landlæknis í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Þorsteinn Hjartarson - 22.06.2020

Umsögn Þorsteins Hjartarsonar, sviðsstjóra fjölskyldusviðs Árborgar

Frumvarpið er fagnaðarefni enda löngu tímbært. Mikið vatn runnið til sjávar frá 1994 þegar við undirrituðum SALAMANCA- YFIRLÝSINGUNA – rammaáætlun um aðgerðir v/nemenda með sérþarfir. Þar kemur m.a. fram að virkasta leiðin til þess að tryggja menntun fyrir alla sé skóli án aðgreiningar. Í þessari sömu áætlun er talað um að efla beri samstarf milli stjórnar menntamála, heilbrigðis-, atvinnu- og félagsmála. Því miður hefur gengið allt of hægt að ná fram þessum markmiðum hér á landi og úttekt nýleg Evrópumiðstöðvarinnar sýnir að við þurfum að gera betur á mörgum sviðum og er þetta frumvarp skref í rétta átt – aukið samstarf ráðuneyta er nauðsynlegt. Með því að brjóta niður fagmúra, eins og frumvarpið gerir kröfu um, verður auðveldara að koma til móts við þarfir allra barna og sjá til þess að þau hafi tækifæri til að spjara sig í menntakerfinu sem gerir þeim kleift að ná árangri í námi og hindrar félagslega útskúfun. Til að það takist þurfa margir að koma að borðinu utan skólanna þar sem barnið er alltaf haft í brennidepli á kostnað kerfis- og eða stofnanahugsunar.

Réttilega er bent á að barnið eigi að vera í öndvegi og foreldrar þess. Hins vegar kemur fram í áðurnefndri Salamanca yfirlýsingu að tvær lykilstofnanir í lífi hvers barns er annars vegar fjölskyldan og hins vegar skólinn. Margir aðilar veita samþætta þjónustu í þágu farsældar barnsins og að því að styrkja aðstæður barnsins heima. Þeir þurfa einnig koma að því að styrkja aðstæður og starfshætti í skólanum í anda skóla án aðgreiningar, sbr. Salamanca. Þar kemur ekki bara skólaþjónusta við sögu. Einnig öflug stuðningsþjónusta, félagsleg ráðgjöf og ýmis félagsleg úrræði, heilbrigðisþjónusta (þ.m.t. geðheilbrigðisþjónusta), lögregla o.fl. Því leggur undirritaður til að tvær nýjar greinar verði settar inn í markmiðskaflann.

d. Veita skólum og stofnunum sem þjónusta börn og foreldra nauðsynlegar bjargir svo starfsemin komi til móts við þarfir þeirra.

e. Fagráðuneyti sem koma að málefnum barna og sveitarfélög tryggi að nauðsynleg þjónusta og úrræði fyrir börn séu alltaf til staðar og fjármögnuð.

Þá þarf mjög líklega að endurskoða fyrirkomulag fjárveitinga í málaflokka er snúa að börnum? Form fjárveitinga þarf m.a. að fela í sér fjárhagslega hvata til umbóta- og þróunarstarf í velferðar- og skólamálum. Efast má stórlega um að núverandi fyrirkomulag t.a.m. Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga geri það? Kannski ætti frumvarpið ekki að taka eitthvað á þessum málum? Ef það verður ekki gert er hætt við að það geti farið fyrir þessu frumvarpi eins og mörgum öðrum lagafrumvörpum og reglugerðum sem snúa að börnum, svo sem reglugerð um skólaþjónustu sem gerir kröfu um mikið og gott þverfaglegt samstarf.

Mikilvægt að fara í breytingar- og umbótastarf þarf sem dregið er úr öllu flækjustigi. Vinna þarf sem mest með framlínufólki (straumlínulöguð stjórnun). Frumvarpið virðist við fyrstu sýn gera ráð fyrir gamaldags og þunglamalegum stjórnunarstrúktúr. Hægt er að fara aðrar leiðir sem stuðla að því að ná betur fram markmiðum laga á sviði skóla og velferðarmála, sbr. Finnland og Eistland. Skoða þarf m.a. áherslur sjóða sem veita styrki. Þar þarf að gera meiri ráð fyrir þverfaglegri nálgun og samstarfi.

Undirritaður setur stórt spurningamerki við svæðabundin farsældarráð barna. Er verið að stofna þriðja stjórnsýslustigið eða stuðla að fjölgun byggðasamlaga? Held að þarna sé verið að auka flækjustigið og draga úr áhrifum notenda og starfsfólks? Slík áhersla stuðlar varla að skilvirkni og snemmtækri þjónustu. Í stærri sveitarfélögum er mikilvægt að þróunar- og umbótastarf í skóla- og fjölskyldumálum fari fram í góðu samstarfi notenda, allra lykilaðila sem veita þjónustuna og ráðamanna. Það getur verið afar misjafnt hvernig sveitarfélög standa að þessum málum og nýtt svæðabundið ráð gæti gert allt þyngra. Í frumvarpinu ætti áherslan e.t.v. frekar að vera á það að ef aðstæður eru þannig geti fámennari sveitarfélög komið sem sér saman um þessa hluti. Hins vegar getur faglegt samstarf á svæðum og milli sveitarfélaga og stofnana, án þunglamalegs kerfis, verið gagnlegt og eru mörg dæmi til um slíkt, sbr. samstarf Árborgar, Hafnarfjarðar og Reykjnesbæjar um Stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna.

Loks vakna spurningar um miðlun persónuupplýsinga og tengiliða- og málastjórakerfið. Tryggja þarf góða miðlun persónuupplýsinga milli fagaðila í þverfaglegu samstarfi. Er e.t.v verið að gera þessa hluti þyngri í vöfum en við búum við í dag? Við höfum m.a. góðar fyrirmyndir í nemendaverndarráðum grunnskóla. Ætti ekki að nægja að tilkynna foreldrum að mál barnsins verði tekið fyrir. Þá þarf að ígrunda betur tengiliða og málstjórakerfið. Kerfið virðist í fyrstu kalla á mikið fjármagn. Óljós rammi gæti stuðlað að núningi milli stofnana/málaflokka ef þeir hlutir eru ekki á hreinu og/eða illa fjármagnaðir. Í greinargerð frumvarpinu er m.a. lögð áhersla á að stjórnsýsla og eftirfylgni mála sé skilvirk og eins einföld í framkvæmd og mögulegt er út frá sjónarhorni barna og foreldra. Þar þurfa bæði ríki og sveitarfélög að líta í eigin barm, m.a. í allri stefnumótun. Frumvarpið viriðist þvert á móti gera alla stjórnsýslu þunglamalegri en það er ekki það sem við höfum þörf fyrir.

Þrátt fyrir einhverja hnökra, sem þarf að sníða af, er frumvarpið löngu tímabært og örugglega skref í rétta átt.

Þorsteinn Hjartarson

Afrita slóð á umsögn

#9 Samband íslenskra sveitarfélaga - 23.06.2020

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frv. um samþættingu í þágu farsældar barna.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Reykjavíkurborg - 24.06.2020

Meðfylgjandi er umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um frumvörp er varða áform um samþættingu þjónustu í þágu barna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Greiningar-/ráðgjafarstöð ríkis - 24.06.2020

Í meðfylgjandi viðhengi er umsögn Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins

Með kveðju

Soffía Lárusdóttir

forstöðumaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Stjórn samtaka stjórnenda í velferðarþjónustu - 24.06.2020

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Mosfellsbær - 24.06.2020

Félagsmálaráðuneytið

Skógarhlíð 6

105 Reykjavík

Mosfellsbæ, 24. júní 2020

Erindi nr. 202006511/- uvi

Efni: Umsögn um drög að frumvarpi til laga um samþættingu í þágu farsældar barna-

mál 106/2020

Í Samráðsgátt dags. 26. maí 2020 er óskað eftir umsögnum um frumvarp til laga um

samþættingu í þágu farsældar barna.

Undirritaðar taka undir markmið 1. gr. frumvarpsins sem kveða á um

að fylgst sé með velferð og farsæld barna, þörf fyrir þjónustu sé metin og brugðist skuli við

með skilvirkum hætti þannig að þjónustan sé samfelld og samþætt.

Fyrir liggur umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 23. júní 2020 um

frumvarpsdrögin. Undirritaðar taka heilshugar undir þau sjónarmið sem þar koma fram

Virðingarfyllst,

Linda Udengard

Framkvæmdastjóri fræðslusviðs

Unnur V. Ingólfsdóttir

framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Fjölskylduráð Hafnarfjarðar - 24.06.2020

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Akureyrarbær - 24.06.2020

Umsögn frá velferðarráði Akureyrarbæjar um drög að frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna - Mál nr. 106/2020.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Samband íslenskra sveitarfélaga - 24.06.2020

Sjá umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Þóra Jónsdóttir - 24.06.2020

Umsögn send fyrir hönd Barnaheilla - Save the Children á Íslandi. Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Öryrkjabandalag Íslands - 24.06.2020

Umsögn ÖBÍ um áform um samþættingu þjónustu í þágu barna

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#19 Júlía Sæmundsdóttir - 24.06.2020

F.h. Fjölskyldusviðs Fljótsdalshéraðs

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Steinunn Jóhanna Bergmann - 24.06.2020

Meðfylgjandi eru umsagnir um drög að frumvörpum til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, Barna- og fjölskyldustofu og Gæða og eftirlitsstofnun velferðarmála

Viðhengi Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Steinunn Jóhanna Bergmann - 25.06.2020

Meðfylgjandi er umsögn Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands

Viðhengi Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar - 25.06.2020

Sjá umsögn í viðhengi.

Viðhengi