Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 26.5.–24.6.2020

2

Í vinnslu

  • 25.6.–6.8.2020

3

Samráði lokið

  • 7.8.2020

Mál nr. S-106/2020

Birt: 26.5.2020

Fjöldi umsagna: 22

Áform um lagasetningu

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjölskyldumál

Áform um samþættingu þjónustu í þágu barna

Niðurstöður

Alls bárust 22 umsagnir frá stofnunum, sveitarfélögum, samtökum, háskólasamfélaginu og einstaklingum. Umsagnirnar eru almennt jákvæðar og samstaða um mikilvægi þess að frumvörpin nái fram að ganga. Unnið verður nánar úr öllum athugasemdum sem bárust og afstaða tekin til þeirra við áframhaldandi vinnslu frumvarpanna.

Málsefni

Undanfarin tvö ár hefur farið fram margþætt vinna við endurskoðun á félagslegri umgjörð um málefni barna. Áformað er að leggja fram frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna síðar á árinu auk tveggja frumvarpa vegna breytinga á stofnanafyrirkomulagi á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins. Frumvörpin eru hér kynnt sem áform um lagasetningu en samhliða er unnið að mati á áhrifum þeirra.

Nánari upplýsingar

Áformin eru afurð vinnu sem hófst vorið 2018 með ráðstefnu og vinnufundi sem þáverandi velferðarráðuneyti boðaði til um snemmtæka íhlutun í málefnum barna.

Þann 7. september 2018 rituðu ráðherrar félags- og jafnréttismála, heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Samband íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu um að afnema hindranir milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag. Í kjölfarið tók stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna til starfa. Jafnframt tók til starfa þingmannanefnd um málefni barna sem er skipuð fulltrúum allra þingflokka. Margvísleg vinna hefur verið unnin í þingmannanefndinni, stýrihópi Stjórnarráðsins í málefnum barna og í átta hliðarhópum þingmannanefndarinnar sem skipaðir voru í tengslum við vinnuna.

Vinna þessara aðila hefur m.a. verið efniviður fyrir smíði þeirra frumvarpa sem hér eru kynnt. Drögin að frumvörpunum hafa verið í undirbúningi um nokkurra mánaða skeið og hafa fengið umfjöllun aðila á vettvangi ríkis, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka. Vinnan við frumvörpin er komin á það stig að rétt þykir að veita almenningi færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Drögum að frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er ætlað að stuðla að samvinnu aðila. Þar er fjallað um samþættingu þjónustu margra þjónustukerfa sem starfa með stoð í lögum og veita þjónustu sem skiptir máli fyrir farsæld barns, þ.m.t. menntun, heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta og löggæsla.

Þjónustu verður stigskipt í þrjú þjónustustig samkvæmt samræmdum mælikvörðum sem koma fram í frumvarpinu. Ítarlegri útfærsla stigskiptingarinnar verður í höndum ráðherra sem fara með viðkomandi málefnasvið.

Lagðar eru skyldur á þjónustuveitendur að fylgjast með barni og bregðast við ef þeir verða varir við að þörfum barns sé ekki mætt.

Lagt er til að tryggja öllum börnum aðgang að tengilið á heilsugæslu, í leik-, grunn- eða framhaldsskóla eða hjá félagsþjónustu sveitarfélags. Hann veitir barni og foreldrum leiðbeiningar og aðstoð vegna þjónustu á fyrsta stigi. Ef þess er óskað aflar tengiliður upplýsinga frá öðrum sem veita barni þjónustu og getur skipulagt og fylgt eftir samþættingu þjónustunnar.

Ef barn þarf frekari eða sérhæfðari þjónustu en er veitt á fyrsta stigi tilnefnir sveitarfélag málstjóra annars og/eða þriðja þjónustu í þágu barnsins. Málstjóri kemur á fót stuðningsteymi með þeim sem veita barni þjónustu. Stuðningsteymi vinnur stuðningsáætlun þar sem þjónusta sem barnið og foreldrar þess þurfa á að halda er samþætt.

Jafnframt er lagt til að komið verði á fót almennum samráðsvettvangi á vegum ríkisins þar sem fulltrúar ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga móta stefnu og framkvæmdaáætlun um farsæld barna með þátttöku barna. Þá verða svæðisbundin ráð vettvangur formlegs samráðs þar sem fulltrúar þjónustukerfa sem bera ábyrgð á farsæld barna á tilteknu svæði koma saman.

Í því skyni að stjórnsýsla velferðarmála á vegum ríkisins sé í stakk búin til að styðja við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er gert ráð fyrir að samhliða verði gerðar breytingar á stofnanafyrirkomulagi á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins. Breytingarnar fela í sér að tvær nýjar stofnanir, Barna- og fjölskyldustofa og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, koma í stað Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar, sem í dag er starfrækt sem ráðuneytisstofnun, sbr. 17. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands. Markmið breytinga á stofnanafyrirkomulagi er að styðja við samþættingu þjónustu í þágu barna og jafnframt að skapa forsendur til að styrkja þjónustu ríkis og sveitarfélaga við börn og barnafjölskyldur, styrkja eftirlit og samræma reglur um barnavernd, félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu við viðkvæma hópa.

Hér fylgja drög að þremur frumvörpum til kynningar, þ.e. drög að frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, drög að frumvarpi til laga um Barna- og fjölskyldustofu og drög að frumvarpi til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Umsagnir sem berast verða grundvöllur áframhaldandi vinnu við frumvörpin þrjú og við frekari umbætur sem eru fyrirhugaðar á þjónustu í þágu barna.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (3)

Umsjónaraðili

Skrifstofa barna- og fjölskyldumála

frn@frn.is