Samráð fyrirhugað 04.06.2020—05.08.2020
Til umsagnar 04.06.2020—05.08.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 05.08.2020
Niðurstöður birtar

Drög að stefnu um barnvænt Ísland

Mál nr. 109/2020 Birt: 04.06.2020 Síðast uppfært: 01.07.2020
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 04.06.2020–05.08.2020. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Unnin hafa verið drög að stefnu um barnvænt Ísland. Markmið stefnunnar er að innleiða verklag og ferla sem tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar, auka samstarf milli opinberra aðila, með farsæld og velferð barna að leiðarljósi, tryggja markvisst verklag við hagsmunamat út frá réttindum barna og heildstæða innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Undanfarin tvö ár hefur farið fram margþætt vinna við endurskoðun á félagslegri umgjörð um málefni barna. Samhliða hefur verið unnið að því að þróa heildstæða stefnu um aukna aðkomu og þátttöku barna og ungmenna í opinberri stefnumótun og lagasetningu með hliðsjón af Barnasáttmálanum.

Þann 7. september 2018 rituðu ráðherrar félags- og jafnréttismála, heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Samband íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu um að afnema hindranir milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag. Í kjölfarið tók stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna til starfa.

Vorið 2019 samþykkti ríkisstjórn Íslands tillögu félags- og barnamálaráðherra um að fela stýrihópnum að móta stefnu um aukna þátttöku barna og ungmenna við stefnumótun stjórnvalda. Vinna stýrihópsins hefur frá þeim tíma m.a. beinst að því að skoða hvernig hægt sé að tryggja heildstæða innleiðingu á réttindum barna, aukið samráð stjórnvalda við börn og ungmenni og markvisst hagsmunamat út frá réttindum barna.

Við mótun stefnunnar var m.a. horft til tilmæla Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna en einnig til þeirra fjölbreyttu verkefna sem stjórnvöld hafa þegar sett af stað til að efla þátttöku, velferð og réttindi barna hér á landi. Byggja drögin sem hér fylgja til kynningar þannig m.a. á tillögum sem embætti umboðsmanns barna skilaði félagsmálaráðuneytinu í desember árið 2019.

Helstu efnisatriði stefnunnar miða að því að fela tilteknum aðila það hlutverk að halda utan um samræmingu stefnunnar, innleiða markvisst hagsmunamat út frá réttindum barnsins (CRIA), fullgilda þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmálann og tryggja aukna þekkingu barna, almennings og opinberra starfsmanna á þátttöku og réttindum barna. Lagt er upp með að komið verði á laggirnar samráðsvettvangi stjórnvalda við ungmennaráð, ráðgjafarhópa og ungmennasamtök á landsvísu, að tilnefndur verði tiltekinn þátttöku-/barnaréttindafulltrúi innan opinberra stofnana og að aukið aðgengi barna að samráðsgátt stjórnvalda verði tryggt. Þá felur stefnan í sér að þróað verði mælaborð sem tekur til helstu velferðarvísa og tölfræðigagna um stöðu barna og að litið sé til velferðar og réttinda barna við greiningu á útgjöldum hins opinbera. Einnig gera tillögurnar ráð fyrir því að með stefnunni standi sveitarfélögum til boða stuðningur við innleiðingu Barnasáttmálans með markvissum hætti og að Barnasáttmálinn verði innleiddur með markvissum hætti í skóla- og frístundastarf.

Stefnan er í samræmi við 2., 3., 4., 6. og 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna auk þess sem hún kallar á að horft sé heildstætt á þær kröfur sem Barnasáttmálinn gerir til ríkja.

Hér fylgja drög að stefnunni til kynningar. Umsagnir sem berast verða grundvöllur áframhaldandi vinnu við mótun stefnunnar og verða jafnframt nýttar sem grundvöllur fyrir þróun aðgerðaáætlunar um framkvæmd og innleiðingu hennar.

Tengd mál

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.