Samráð fyrirhugað 04.06.2020—05.08.2020
Til umsagnar 04.06.2020—05.08.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 05.08.2020
Niðurstöður birtar 21.09.2021

Drög að stefnu um barnvænt Ísland

Mál nr. 109/2020 Birt: 04.06.2020 Síðast uppfært: 21.09.2021
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál

Niðurstöður birtar

Níu umsagnir bárust í tengslum við samráð í samráðsagátt. Nánar er gerð grein fyrir niðurstöðum samráðs í hjálögðu skjali. Þingsályktun um Barnvænt Ísland - framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna var samþykkt á Alþingi hinn 10. júní 2021.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 04.06.2020–05.08.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 21.09.2021.

Málsefni

Unnin hafa verið drög að stefnu um barnvænt Ísland. Markmið stefnunnar er að innleiða verklag og ferla sem tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar, auka samstarf milli opinberra aðila, með farsæld og velferð barna að leiðarljósi, tryggja markvisst verklag við hagsmunamat út frá réttindum barna og heildstæða innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Undanfarin tvö ár hefur farið fram margþætt vinna við endurskoðun á félagslegri umgjörð um málefni barna. Samhliða hefur verið unnið að því að þróa heildstæða stefnu um aukna aðkomu og þátttöku barna og ungmenna í opinberri stefnumótun og lagasetningu með hliðsjón af Barnasáttmálanum.

Þann 7. september 2018 rituðu ráðherrar félags- og jafnréttismála, heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Samband íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu um að afnema hindranir milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag. Í kjölfarið tók stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna til starfa.

Vorið 2019 samþykkti ríkisstjórn Íslands tillögu félags- og barnamálaráðherra um að fela stýrihópnum að móta stefnu um aukna þátttöku barna og ungmenna við stefnumótun stjórnvalda. Vinna stýrihópsins hefur frá þeim tíma m.a. beinst að því að skoða hvernig hægt sé að tryggja heildstæða innleiðingu á réttindum barna, aukið samráð stjórnvalda við börn og ungmenni og markvisst hagsmunamat út frá réttindum barna.

Við mótun stefnunnar var m.a. horft til tilmæla Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna en einnig til þeirra fjölbreyttu verkefna sem stjórnvöld hafa þegar sett af stað til að efla þátttöku, velferð og réttindi barna hér á landi. Byggja drögin sem hér fylgja til kynningar þannig m.a. á tillögum sem embætti umboðsmanns barna skilaði félagsmálaráðuneytinu í desember árið 2019.

Helstu efnisatriði stefnunnar miða að því að fela tilteknum aðila það hlutverk að halda utan um samræmingu stefnunnar, innleiða markvisst hagsmunamat út frá réttindum barnsins (CRIA), fullgilda þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmálann og tryggja aukna þekkingu barna, almennings og opinberra starfsmanna á þátttöku og réttindum barna. Lagt er upp með að komið verði á laggirnar samráðsvettvangi stjórnvalda við ungmennaráð, ráðgjafarhópa og ungmennasamtök á landsvísu, að tilnefndur verði tiltekinn þátttöku-/barnaréttindafulltrúi innan opinberra stofnana og að aukið aðgengi barna að samráðsgátt stjórnvalda verði tryggt. Þá felur stefnan í sér að þróað verði mælaborð sem tekur til helstu velferðarvísa og tölfræðigagna um stöðu barna og að litið sé til velferðar og réttinda barna við greiningu á útgjöldum hins opinbera. Einnig gera tillögurnar ráð fyrir því að með stefnunni standi sveitarfélögum til boða stuðningur við innleiðingu Barnasáttmálans með markvissum hætti og að Barnasáttmálinn verði innleiddur með markvissum hætti í skóla- og frístundastarf.

Stefnan er í samræmi við 2., 3., 4., 6. og 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna auk þess sem hún kallar á að horft sé heildstætt á þær kröfur sem Barnasáttmálinn gerir til ríkja.

Hér fylgja drög að stefnunni til kynningar. Umsagnir sem berast verða grundvöllur áframhaldandi vinnu við mótun stefnunnar og verða jafnframt nýttar sem grundvöllur fyrir þróun aðgerðaáætlunar um framkvæmd og innleiðingu hennar.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Þroskahjálp,landssamtök - 24.06.2020

Meðfylgjandi er umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Öryrkjabandalag Íslands - 24.06.2020

Umsögn ÖBÍ um drög að stefnu um barnvænt Ísland

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Umboðsmaður barna - 25.06.2020

Umsögn um drög að stefnu um barnvænt Ísland

Umboðsmaður barna fagnar því að til standi að leggja fram stefnu um málefni barna í íslensku samfélagi og telur brýnt að heildarstefna um málefni barna, ásamt aðgerðaáætlun, verði lögð fram á Alþingi og í kjölfarið hrint í framkvæmd. Þó vill umboðsmaður barna árétta að stefnudrögin sem eru til kynningar og samráðs taka fyrst og fremst til aðgerða sem miða að aukinni þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku opinberra aðila en ekki er um að ræða heildarstefnu um barnvænt samfélag, enda ljóst að slík stefna þarf að taka til mun fleiri þátta.

Í inngangi stefnunnar kemur fram að markmið tillagnanna sem þar eru settar fram sé að tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar. Með hliðsjón af því markmiði er það miður að ekkert samráð var haft við börn við vinnslu stefnunnar. Vill umboðsmaður barna því hvetja félagsmálaráðuneytið sem og stýrihóp stjórnarráðsins í málefnum barna til þess leita allra leiða til þess að tryggja virkt og nauðsynlegt samráð við börn við áframhaldandi vinnu við mótun stefnunnar.

Ljóst er að um er að ræða fyrstu drög að stefnu sem væntanlega mun taka miklum breytingum áður en hún verður lögð fram á Alþingi. Með hliðsjón af því vill umboðsmaður barna hvetja ábyrgðaraðila stefnunnar til þess að skýra nánar þær aðgerðir sem þar eru settar fram enda eru þær um margt óljósar og óútfærðar. Einnig er bagalegt að ekki er búið að tryggja fjármagn til þess að hrinda tillögum stefnunnar í framkvæmd en ljóst er að töluverða fjárfestingu þarf til þess að stefnan og markmið hennar nái fram að ganga.

Í stefnunni kemur fram að leggja eigi áherslu á að ná markvisst til jaðarsettra og viðkvæmra hópa barna og stuðla að aukinni þátttöku þeirra. Þrátt fyrir það er ekki að finna neinar aðgerðir í stefnunni sem miða sérstaklega að því markmiði heldur er megináherslan á félagslega virk börn sem taka nú þegar þátt í starfi ungmennaráða og samtaka. Að tryggja þátttöku barna með fjölbreytta reynslu og bakgrunn er flókið og viðvarandi verkefni sem krefst ýmissa lausna. Í stefnunni er þó hvergi að finna aðgerðir sem miða að því að efla sérstaklega þátttöku fatlaðra barna, barna af erlendum uppruna eða annarra barna sem af ýmsum ástæðum eru ekki virk í félagastarfi eða samfélagslegri umræðu.

Að mati umboðsmanns barna þarf einnig að taka til sérstakrar skoðunar tillögur stefnunnar um skyldubundið samráð stjórnvalda og stofnana við fyrirhugaðan samráðsvettvang ungmennaráða og fyrirhugaða gjaldtöku vegna þess. Telur umboðsmaður að með umræddri tillögu verði samráð opinberra aðila við börn eftir sem áður takmarkað við börn sem taka þátt í skipulögðu félagastarfi. Þá telur umboðsmaður barna að gjalda eigi varhug við hugmyndum um gjaldtöku vegna samráðs við börn enda er það fyrirkomulag ekki til þess fallið að auka skilning eða áhuga stofnana á mikilvægi samráðs við börn.

Samkvæmt upplýsingum umboðsmanns barna er ráðgert að stýrihópur stjórnarráðsins í málefnum barna taki við stefnudrögunum og framkomnum athugasemdum til frekari vinnslu að loknu samráði í samráðsgátt stjórnvalda. Umboðsmaður barna hyggst því afhenda stýrihópnum ítarlega greinargerð með ábendingum um stefnudrögin og þær tillögur sem þar eru settar fram enda snúa allmargar aðgerðir að verkefnum sem umboðsmaður barna hefur nú þegar með höndum. Þá vill umboðsmaður barna bjóða fram liðsinni sitt við áframhaldandi vinnu við mótun stefnu í málefnum barna.

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

Umboðsmaður barna

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Heiða Vigdís Sigfúsdóttir - 26.06.2020

Efni: Umsögn Landssambands ungmennafélaga um drög að stefnu um barnvænt Ísland, mál nr. 109/2020

Landssamband ungmennafélaga (LUF) fagnar ofangreindu frumvarpi og þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í að móta stefnu um aukna þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda innan barna- og félagsmálaráðuneytisins.

LUF tekur heilshugar undir áherslur stefnunnar, sér í lagi þeirrar nauðsynlegu nálgunar að aukin þátttaka barna og ungs fólks í ákvörðunartöku stjórnvalda verði markviss, regluleg og raunveruleg. Þá telur LUF markmið stefnunnar sem fram kemur í 10. tillögu verðugt og aðgerðir sem efla samráð barna og ungmenna við stjórnvöld á Íslandi af hinu góða. Hér er þó vakin sérstök athygli á að hér skipta aðferðir mestu máli.

LUF styður megininntak tillögu 10, „að skapa vettvang sem tryggir markvisst samráð stjórnvalda við ungmennaráð, ráðgjafahópa og ungmennasamtök á landsvísu.“ LUF fagnar einnig formfestu samstarfi LUF og ráðuneytisins. LUF telur mikilvægt að vettvangurinn sem um er ræðir í stefnu sé byggður á þeim grunnstoðum sem þegar eru til staðar á Íslandi. Því er lagt til að LUF verði viðurkennt formlega sem Landssamband barna- og ungmennafélaga að fyrirmynd annarra Norðurlanda og þar með viðurkennt sem samráðsvettvangurinn sem lagður er til í tillögu 10.

LUF leggur áherslu á mikilvægi þess að samráðsvettvangur barna og ungs fólks sé mótaður að þörfum barna og ungs fólks, að honum sé stýrt af börnum og ungu fólki og að hann verði starfræktur utan hefðbundinnar stjórnsýslu. Með því telur LUF að frekar sé tryggt sjálfstæði vettvangsins og að samráðið verði þeim mun réttmætara, árangursríkara og gjöfulla.

Ein megináhersla LUF er að auka sjálfstæði ungs fólks (e. youth autonomy.) Hugtakið er fremur nýtt af nálinni á Íslandi en mikið hefur verið skrifað um það erlendis og er sjálfstæði ungs fólks jafnframt megin áhersla Evrópska ungmennavettvangsins (e. National Youth Council). Þá er þar sérstaklega átt við mikilvægi þess að stjórnvöld bregðist við breyttum aðstæðum ungs fólks í dag með því að styðji við hagsmuna- og félagsstörf ungs fólks, jafnt laga-, félags- og fjárhagslega. Í því ljósi er mikilvægt að samráðsvettvangur starfi sjálfstætt, óháð pólitískum áhrifum og þvert á hinu ólíku hópa ungs fólks, líkt og LUF gerir.

Ljóst er að til þess að fulltrúar samráðsvettvangsins hljóti raunverulegt umboð ungs fólks á Íslandi þarf að ganga úr skugga um að verkferlar við skipun fulltrúa séu jafnt lýðræðislegir og gagnsæir. Í tillögu 10 segir að ungt fólk geti skráð sig til þátttöku á vefsíðu ráðsins og er það jákvætt markmið til að fá sem flesta að borði. Reynsla LUF sýnir þó að miklir hvatar þurfa að vera til staðar til þess að viðhalda þátttöku í slíku starfi og felur það í sér mikla viðvarandi vinnu. Jafnframt þarf að ganga úr skugga um að kynning á slíku ráði nái til allra hópa, veki áhuga þeirra og sé þannig búinn að allir hafi jöfn tækifæri til þátttöku með tilheyrandi aðstoð.

Með því að tryggja LUF það hlutverk sem það var stofnað til að gegna er unnt að nýta þá verkferla sem þegar eru til staðar við skipan fulltrúa í Leiðtogaráði LUF. Eins og fram kemur í 2.gr. samþykkta LUF starfar landssambandið „að sameiginlegum hagsmunamálum frjálsra ungmennafélaga og er málsvari þeirra gagnvart opinberum aðilum. LUF vinnur að því að efla ungmennastarf og umræðu um málefni ungs fólks á Íslandi og er fulltrúi aðildarfélaga í margvíslegu erlendu samstarfi.“

Leiðtogaráðið er skipað þeim aðila sem er í forsvari (formaður/forseti/oddviti) fyrir hvert aðildarfélag og hefur fulltrúinn því lýðræðislegt umboð frá hverju og einu félagi, með fjölda ungs fólks að baki hverri skipan. Ráðið fer með æðsta vald í málefnum LUF á milli þinga skv. 20.gr. samþykkta LUF. Þannig hefur LUF náð að tryggja þátttöku fjölbreytts hóps ungs fólks sem berst fyrir hagsmunum ungs fólks út frá ólíkum sjónarhornum. Leiðtogaráðið er skipað ungu fólki með í mismunandi aðstöðu, m.a. af landsbyggðinni. Þess má geta að í framkvæmdaráætlun LUF árið 2020-2021 er eitt markmiða að vinna þarfagreiningu á starfsemi félaga ungs fólks utan höfuðborgasvæðisins þar sem reynt verður að meta hvaða aðgerðir geta eflt þáttöku þeirra. Leiðtogaráðið skipar einnig fulltrúa frá öðrum jaðarsettum hópum, m.a. innflytjendur og ungt fólk með þroskahömlun. Með verkferlum sem standast strangar kröfur Evrópska ungmennavettvangsins hefur LUF þróað samráðsvettvang ólíkra hópa ungs fólks sem hafa raunverulegt, lýðræðislegt, umboð ungs fólks á Íslandi. Auk þess vinnur LUF hörðum höndum að frekari samstarfi við fleiri félög ungs fólks til þess að endurspegla heildina.

Í tengslum við tillögur að lagabreytingum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar er varðar börn bendir LUF á mikilvægi þess að formfesta aðgengi barna til að sitja í forsvari félaga- og hagsmunasamtaka með lögum - sem gera þeim kleift að koma baráttumálum sínum á framfæri. Í því samhengi bendir LUF á að Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra stendur í vegi fyrir stjórnarsetu barna undir 18 ára aldri. Krafa um aðgengi barna að stjórnum félaga ungs fólks er í samræmi við 12. til 17. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem réttindi barna til tjáningar og þátttöku í samfélaginu eru tryggð. Auk þess eiga mannréttindaákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um félagafrelsi og jafnræði jafnt við um börn og fullorðna. Þá nær funda- og félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, til fullrar þátttöku í almennum félögum og þar með ákvörðunarvalds og stjórnarsetu. Önnur túlkun gerir stofnrétt ákvæðisins marklausan enda rökleysa að einstaklingum sé tryggður réttur til að stofna félög en þeim svo meinað að hafa áhrif á starfsemi þess. Eiga börn því sjálfstæðan rétt til þess að stofna félög og taka virkan þátt í starfsemi þeirra. Sú afstaða stjórnvalda að útiloka ungmenni frá raunverulegri þátttöku og að njóta réttinda í starfi félaga telst því til mismununar á grundvelli aldurs, sem andstæð er jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá felst í slíkum lögum ólögmæt skerðing á félagafrelsi ungmenna.

Í nokkur ár hefur LUF barist fyrir því að ung fólki, undir 18 ára aldri, geti löglega setið í stjórnum í samræmi við samþykktir hvers og eins félags. Meðal aðildarfélaga LUF er fjöldi félaga undir 18 ára aldri og flest þeirra gera ráð fyrir að börn undir 18 ára aldri geti gefið kost á sér til stjórnarsetu. Til þess að LUF geti sinnt hlutverki sínu í samræmi við samþykktir félagsins er nauðsynlegt að ungt fólk og börn undir 18 ára aldri geti setið í stjórnum félaga.

Til þess að tryggja börnum og ungu fólki samráðsvettvang sem getur starfað óháð pólitískum áhrifum og þar með eflt sjálfstæði barna og ungs fólks mælist LUF til þess að ráðið verði skipað fulltrúum á aldrinum 6 - 35 ára, en skipt eftir aldurshópum. Góð reynsla hefur gefist af samstarfi ungs fólks á breiðu aldursbili á Nágrannalöndum Íslands og með slíku fyrirkomulagi má tryggja aðkomu og aðgengi yngri hópa sem nýtt geta reynslu þeirra sem eldri eru. Þó er mikilvægt að gera greinarmun á að t.d. þarfir barna á grunnskólaaldri geta verið afar ólíkar hagsmunum ungs fólki á vinnumarkaði. Þá samræmist þetta fyrirkomulag Barnasáttmálanum þar sem gerð er krafa um stigvaxandi áhrifum og ákvarðanatöku barna að teknu tilliti til aldurs og þroska.

Virðingarfyllst f.h. stjórnar,

Una Hildardóttir

Forseti Landsambands Ungmennafélaga

una@youth.is

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Samband íslenskra sveitarfélaga - 26.06.2020

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um stefnu um barnvænt Ísland.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Þórey Guðmundsdóttir - 26.06.2020

Umsögn um drög að frumvarpi til laga

um samþættingu þjónustu í þágu frasældar barna

Frá félags- og barnamálaráðherra

Það er mál til komið, að gerðar verði lagabreytingar til að auka mannréttindi barna. Nokkrar tilraunir haf verið gerðar áður og margar farið vel af stað, en alltaf fundist glufur er á reynir, glufur sem í raun hafa skert mannréttindi og lífsgæði barna. Það er ógnvekjandi, að á einum mánuði í vetur, komu inn á borð samtakanna 3 sjálfsvíg ungmenna og ein sjálfsvígstilraun mjög ungs barns. Þetta voru allt börn úr langvarandi alvarlegum ofbeldissamböndum, varanlega sköðuð af ofbeldi, í öllum tilfellum feðra sinna, gegn börnunum og mæðrum þeirra.

Hvað þetta frumvarp varðar er margt gott. Hins vegar eru hugmyndir feðraréttindahreyfinganna undirliggjandi og svo kallaðar jafnréttishugmyndir um jafnrétti forledra, þar sem börn eru eign og /eða bardagatæki í illvígum deilum foreldra oft að finna. Með ákvæðum um leyfi til reglugerða hér og þar, er opnað fyrir pólitískan leik með mannréttindi barna. Í raun og veru má biðja um færri orð og skýrari merkingu.

Það er hægt að koma því svo fyrir, að börn fái friðhelgi við illvíga skilnaði foreldra og annað ofbeldi. Þannig var það við upphaf gildistöku sáttameðferðar barnalaganna 2002. Síðan rann það út í sandinn, sökum of margra möguleika til mismunadi reglugerða og ,,vinnureglna" hvað svo sem vinnureglur eru lagalega séð. Fórnarlömbin verða ævinlega börnin.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

Markmið

Ad:

1. gr. Góð.

2.gr.

b. ,,Barn" í lögunum þarf að ná yfir öll börn, sem eru ísl. ríkisborgarar hvar sem þau dvelja.

c. Gott.

d. Of óljóst.

e. Í lagi.

f. Fyrri setning í lagi. Seinni setning býður upp á að svo kölluð ,,réttindi foreldra" geri réttindi barna að engu.

g. Bæta þarf við setn.: Málstjóri skal hafa lögformleg réttindi, sérþekkingu og reynslu afmálefnum barna.

h. Nothæf.

i. Gott.

j. Nothæft.

k. Gott.

l. Dálítið óljóst. Þyrfti að standa ,,ber ábyrgð á" í stað ,,styður við"

m. Nothæft.

II KAFLI.

Ad:

3. gr. Góð.

4. gr. Mjög varhugavert er, að skipa pólitískt Farsældarráð án þess að gera kröfu til ráðsfólks, að það hafi viðurkennda og/eða löggilt nám/ þekkingu og reynslu (ekki síður) af málefnum barna.

5. Gott.

6. Þarf að taka skýrt fram, að barna og fjölskyldustofa hafi ekki úrskurðarvald.

7. Góð.

8. Mjög varhugaverð grein. Þyrfti að sleppa henni. Eins og hún stendur er opnað fyrir huglægt mat og íhlutun, sem ekki er af hinu góða fyrir barnið. Reynsla undirritaðra sýnir, að einmitt við aðstæður eins og greinin kveður á um hefur vald verið misnotað barni/börnum til skaða. Í ljósi þess, að aldrei voru sett sérlög um núverandi Barnaverndarstofu, heldur einungis bætt inn í barnalög og barnaverndarlög hér og þar ,,Barnaverndarstofa skal", er brýn þörf á að þessari grein verði hér sleppt og stutt og hnitmiðuð sérlög sett jum fyrirbærið eins og aðrar opinberar stofnanir.

III KAFLI.

Ad:

9. gr. Gott með 3 þjónustustig.

En brýn nauðsyn er að sleppa öðru í þessari grein. Reglugerðafargan býður upp á aukin réttindi hins/hinna sterkustu á kostnað barna. Reglugerðir eru oftar en ekki mjög huglægar og lítt faglegar. Reynslan er, að á eftir reglugerðum koma svokallaðar vinnureglur, sem allt of oft eru andstæðar grundvallarlögum um réttindi barna, almenn mannréttindi og jafnvel stjórnarskrárbrot. Dæmi um tilraunir til stjórnarskrárbrota: Oftar en einu sinni hefur verið reynt og er nú um stundir verið að vísa börnum, sem eru ísl. ríkisborgarar úr landi með dómi andstætt Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Hæstiréttur stöðvaði slíkt 2014, en enn er verið að reyna að vísa börnum, sem eru ísl. ríkisborgarar úr landi.

10.gr. Góð.

11.gr. Góð.

12.gr. Góð.

IV KAFLI.

Ad:

13.gr. Góð.

14.gr. Ónauðsynleg. 13. gr. dugar.

15.gr. Varhugaverð. Stenst hún persónuverndarlög?

16. Nauðsyn er á ákvæði um þagnarskyldu. Spurning hvort ekki ætti að vísa í þagnarskyldu lækna, en þeirri þagnarskyldu verða bæði læknar og félagsráðgjafar að hlíta.

V. KAFLI.

Ad:

17.gr. Í lagi.

18.gr. Í 1. mgr. mætti kveða sterkara að orði og skrifa T. hefur hagsmuni barns FYRST OG FREMST að leiðarljósi. Þarna kemur inn hið mjög svo aukna ofbeldi, sem beitt er nú um stundir í deilum foreldra um börn. Ofbeldismenn/fólk ( sjá ágæta grein Magdalenu Ásgeirsdóttur læknis í Læknablaðinu, 7-8/2016, 102. árg.: 317-368. ), en þeir sem beita ofbeldi eru oftast karlmenn. Ofbeldismenn/konur beita langvarandi ofbeldi, öllum tegundum þess (líkamlegu-, andlegu-, kynferðislegu-, fjárhagslegu-, kerfisofbeldi og stafrænu ofbeldi). Markmiðið er að brjóta niður lögheimilisforeldri (oftast móður) og þar með barnið. Við viljum líka benda á, að skýrara orðalag um að barnið ætti að vera rétthæst þarna gæti (við skrifum gæti með íhugun) komið í veg fyrir einhver af hinum sífjölgandi sjálfsvígum ungmenna.

Við höfum líka efasemdir um að þessi grein standist stjórnsýslulög.

19.gr. Stenzt hún stjórnsýslulög?

20.gr. Spyrjum enn: Stenzt greinin stjórnsýslulög? Þarna er líka foreldraréttur fremri rétti barns, en það er hættulegt. Reglugerðum getur hver ráðherra sem er breytt e. eigin höfði og pólitískri skoðun. Hættulegt.

21.gr. Gott, en gefur e.t.v. helzt til mikið vald.

22.gr. Margt gott þarna. EN viljum benda á, að enn eru foreldrar nefndir á undan barni í greininni, sem er andstætt anda laganna.

VI. KAFLI.

23.gr.Góð.

24.gr.Góð.

Við kjósum að fjalla ekki um greinagerðina. Okkur finnst hún of orðmörg, of mikið um endurtekningar og jafnvel sjálfsréttlætingar höfunda.

Í drögunum að lögunum hefði mát taka sá ofbeldi/brotum gegn börnum með sérstökum hætti í skólum, frístundastarfi o.s.frv

F.h. Íslandsdeildar alþjóðasamtaka gegn ofbeldi gegn minni máttar.

Þórey Guðmundsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Aðalsteinn Gunnarsson - 26.06.2020

Æskan barnahreyfing IOGT á Íslandi hvetur til þess að forvarnir séu settar í þann forgang sem þær eiga skilið. Allar forvarnir sem fjalla um áfengi eða önnur vímuefni snúast um börn og ungmenni. Áfengisiðnaðurinn þreytist ekki á að ná sér í fleiri viðskiptavini og notar til þess óforskammaðar aðferðir sem snúast að börnum og ungu fólki. Það er okkar að tryggja þeim öruggt umhverfi og stysta leiðin til að bæta þeirra líf er að draga úr neyslu áfengis.

Aðalsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#8 Þóra Jónsdóttir - 03.07.2020

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um drög að stefnu um barnvænt Ísland

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir tækifærið til að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.

Samtökin fagna því heilshugar að unnið sé að því að íslenska ríkið setji sér stefnu um að Ísland verði barnvænt land með barnvænt stjórnkerfi.

Tillögur þær sem fram koma í drögunum að stefnu um barnvænt Ísland bera að mati samtakanna merki hugrekkis og framsýni og nýrrar nálgunar þegar kemur að málefnum barna og þátttöku þeirra í samfélaginu. Barnaheill binda vonir við að stefnudrögin séu til marks um ríkan vilja stjórnvalda til raunverulegra breytinga öllum börnum til heilla á Íslandi.

Samtökin álíta tillögurnar spennandi og raunhæfar ef tekst að sameina og sætta sjónarmið ef einhver skarast, en vitanlega þurfa þær dýpra samtal og mótun áður en þær verða afgreiddar frá Alþingi, væntanlega sem tillaga til þingsályktunar. Jafnframt verður að mati samtakanna að vinna aðgerðaáætlun í góðu samráði við stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök sem vinna að hagsmunum barna. Barnaheill hvetja til samráðs og samtals við alla hagsmunaaðila, þar á meðal börn, áður en stefnan verður unnin frekar.

Barnaheill leggja til að bætt verði við drögin tillögum um stuðning og fræðslu til foreldra og forsjárfólks barna. Að mati samtakanna er afar mikilvægt að hlúa að grunnstoðum í lífi barna, tengslum foreldra og barna, umbúnaði og ákvarðanatöku á heimilum barna, barnvænum samskiptum og vernd gegn ofbeldi.

Að verða foreldri er stærsta og oftast besta en einnig erfiðasta hlutverk sem einstaklingar takast á hendur. Að mati Barnaheilla þarf að tryggja öllum tilvonandi foreldrum aðgang að foreldrafærninámskeiðum og fræðslu um Barnasáttmálann og réttindi barna. Jafnframt þarf að tryggja þeim ráðgjöf og stuðning við uppeldi barna sinna.

Samtökin vilja hvetja til þess að verkefni sem lúta að útgáfu fræðsluefnis um virðingarríkar uppeldisaðferðir fái góðan stuðning og meðbyr til útbreiðslu í samfélaginu því slíkar aðferðir eru líklegar til að vera í góðu samræmi við ákvæði Barnasáttmálans um vernd og þátttöku barna.

Mikilvægt er að hvetja einstaklinga sem hyggja á barneignir til að styrkja andlega heilsu sína og til að vinna úr áföllum barnæsku sinnar, takast á við óunnar neikvæðar tilfinningar, svo minni líkur séu á að uppeldisaðferðir þeirra litist af gömlum og óviðeigandi gildum fyrri tíma. Hvetja skal til jákvæðra uppeldisaðferða sem hafa í heiðri virðingu gagnvart barninu frá fyrstu stundu, sem einstaklings með sjálfstæð réttindi og þarfir sem mikilvægt er að hlusta á og leitast við að uppfylla á besta mögulega hátt. Mikilvægt er að mati samtakanna að leggja af aðferðir sem byggjast á skömm, ótta og skortshugsun og hvetja til aðferða sem styrkja sjálfsmynd barna, hvetja þau til dáða og efla þeim trú.

Mikilvægt er að mati Barnaheilla að foreldrar fái stuðning til að vera góðar fyrirmyndir í lífi barna sinna og aðstoð við að styrkja eigin sjálfsmynd og andlega heilsu, ekki síður en líkamlega. Svo tillögur stefnudraganna nái fram að ganga og gagnist öllum börnum án mismununar, þarf að skapa jarðveg á heimilum barna fyrir þátttöku þeirra í ákvörðunum um þeirra eigin líf. Til þess þarf fræðslu og hvatningu til foreldra að tileinka sér nýja hugsun og uppeldisaðferðir, þar sem þess þarf með. Aðgengi að sálfræðiaðstoð og markþjálfun er mikilvægt svo foreldrar geti unnið markvisst að því að styrkja og byggja upp jákvæðar uppeldisaðferðir. Að mati Barnaheilla er þörf á að fræða foreldra um rétt barna til þátttöku um allar ákvarðanir sem þau varða, líka og ekki síst á heimilum sínum.

Samtökin taka gjarnan þátt í þróun fræðsluefnis fyrir foreldra og aðstandendur barna um mannréttindi barna og jákvæða innleiðingu Barnasáttmálans inn á heimili barna.

Barnaheill leggja ennfremur til að í stefnuna verði bætt áformum um að vinna að því að fá atvinnulífið til þátttöku um stefnumótun í málefnum barna. Að mati Barnaheilla er atvinnulífið stór áhrifavaldur í lífi barna og ábyrgðaraðili í verkefninu við að byggja upp barnvænt samfélag. Atvinnulífið þarf að byggja upp sveigjanleika fyrir foreldra til að geta tekið þátt í lífi barna sinna eins og þörf er á, tryggja þarf foreldrum laun sem duga til að búa börnum og fjölskyldum þeirra góð lífsskilyrði, þar með talið að tryggja börnum öruggt og heilnæmt umhverfi og húsnæði. Hvetja þarf fyrirtæki og vinnustaði til að innleiða stefnu um samfélagslega ábyrgð sem gerir ráð fyrir að ákvarðanir séu teknar á grunni mats á áhrifum á líf barna og með það sem börnum er fyrir bestu að leiðarljósi.

Barnaheill fagna og taka eindregið þátt í frekara samtali um mótun stefnu um barnvænt Ísland.

Barnaheill vinna að bættum mannréttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Viðhengi