Samráð fyrirhugað 06.03.2018—05.04.2018
Til umsagnar 06.03.2018—05.04.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 05.04.2018
Niðurstöður birtar 04.07.2019

Drög að reglugerð um losun frá atvinnurekstri og umhverfiseftirlit

Mál nr. 27/2018 Birt: 06.03.2018 Síðast uppfært: 04.07.2019
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður birtar

Reglugerðin var lögð í samráðsgátt Stjórnarráðsins til umsagnar hagsmunaaðila frá 6. mars 2018 til 5. apríl 2018. Alls bárust átta umsagnir um reglugerðardrögin. Tekið var tillit til umsagnanna eins og frekast var unnt við lokafrágang reglugerðarinnar. Reglugerðin var birt í Stjórnartíðindum 30. maí 2018. Reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 06.03.2018–05.04.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 04.07.2019.

Málsefni

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að reglugerð um losun frá atvinnurekstri og umhverfiseftirlit.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að reglugerð um losun frá atvinnurekstri og umhverfiseftirlit vegna innleiðingar á tilskipun 2010/75/ESB um losun frá iðnaði.

Tilskipun 2010/75/ESB um losun frá iðnaði er endurskoðun og endurútgáfa á sjö eldri EES-gerðum um samþættar mengunarvarnir. Tilskipunin byggir á heildstæðri nálgun þar sem taka skal tillit til umhverfisins í heild, þ.e. mengunar í lofti, vatni og jarðvegi. Markmið tilskipunarinnar er að koma í veg fyrir og takmarka mengun frá tiltekinni starfsemi, svo sem með því að setja losunarmörk vegna mengandi efna. Starfsemi sem fellur undir tilskipunina er m.a. stór málmiðnaður, álver, járnblendi, stórir urðunarstaðir, sláturhús og eldi alifugla og svína af tiltekinni stærð.

Í maí 2017 voru samþykkt lög um breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem innleiddu tilskipunina að hluta. Til þess að ljúka við innleiðingu tilskipunarinnar þarf að gera viðamiklar breytingar á núgildandi regluverki, einkum reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnareftirlit. Lagt er til að framangreindar reglugerðir verði felldar úr gildi og í stað þeirra komi ný reglugerð um losun frá iðnaði og umhverfiseftirlit.

Í reglugerðinni er m.a. fjallað um útgáfu starfsleyfa fyrir tiltekinn atvinnurekstur, starfsleyfisskilyrði, viðmiðunarmörk fyrir losun og eftirlit með atvinnurekstrinum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Sigurjón Þórðarson - 04.04.2018

Sauðárkróki, 4. apríl 2018

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Kjartan Ingvarsson

Efni: Umsögn um drög að reglugerð um losun frá atvinnurekstri og umhverfiseftirlit.

Drögin að nýrri reglugerð eru stórt og mikið plagg eða 74 bls. sem tekur nokkurn tíma og yfirlegu að rýna. Það er því æskilegt að haldinn verði kynningarfundur með heilbrigðiseftirlitum um innihald og væntanleg framkvæmd. Eftir slíkan fund væri SHÍ væntanlega betur í stakk búin til þess að koma með ábendingar um drögin.

Það eru þrjár athugasemdir sem SHÍ vill koma á framfæri á þessu stigi málsins.

A. Skráningarskylda hjá UST sbr. 5. gr.

Athugasemd er gerð við að setja inn í reglugerð ákvæði um skráningaskyldu sem ekki er enn mögulegt að uppfylla. Það er hvorki til hugbúnaður né verkferlar um hvernig þessi skráning eigi að fara fram. Það kom fram á fundi framkvæmdastjóra HES og UST fyrir skömmu að það stæði jafnvel til að útbúa nýjan hugbúnað fyrir UST, til þess að uppfylla ákvæðið!

Rétt er að huga að því áður en farið væri í að hanna nýtt kerfi, hvort að núverandi eftirlitskerfi, sem stofnunin og mörg eftirlitssvæði nota, sem byggir á forritinu filmaker gæti gagnast. Sagan segir að kostnaður hins opinbera við gerð nýs hugbúnaðar hleypur á mjög háum fjárhæðum.

Eðlilegt er að ákvæði um skráningaskyldu komi fyrst fram, þegar hægt verður að hrinda skráningu í framkvæmd.

B. 6. gr. gögn með umsóknum um starfsleyfi

Skilaboð sérfræðinga umhverfisráðuneytisins hafa á síðustu árum verið á þá leið, að stefna að því að einfalda leyfisveitingaferlið. Ef drögin að reglugerð verða staðfest óbreytt, þá mun

leyfisveitingaferlið þyngjast fyrir flest minni fyrirtæki og markast það fyrst og fremst af 6 gr. grein draganna sem gerir fortakslausa kröfu um að lýsing á liðum frá; 6 gr.; a liðar til l liðar, fylgi umsókn, að vísu er sagt að gefa eigi upplýsingar samkv. e - liði eftir atvikum.

Í núgildandi reglugerð 10. gr. reglugerðar 785/1999, er orðalagið að veita eigi sambærilegar upplýsingar um fyrirhugaða starfsemi, eftir eftir því sem við á hverju sinni. Ef orðalagið yrði óbreytt miðað við núgildandi reglugerð, þá gæti heilbrigðisnefnd metið hvort að umsækjandi um starfrækslu minkabús eða hestahalds, sé nauðsyn, að uppfylla t.d. kröfu liðar k, helstu valkostum, sem umsækjandinn hefur rannsakað, í stað áformaðrar tækni, aðferða og ráðstafana, í formi yfirlits.

C. Skemmri skírn - auglýsing 582/2000

Heilbrigðisnefndir hafa beitt þekkingu á staðháttum og auglýst einungis lítinn hluta af starfsleyfisskilyrðum fyrir atvinnurekstur fyrirtækja sem fylla viðauka X og XI. Það hefur verið gert í skjóli auglýsingar umhverfisráðuneytisins nr. 582/2000, um almenn skilyrði fyrir mengandi atvinnurekstur. Ekki verður séð að drög að nýrri reglugerð geri ráð fyrir þessari málsmeðferð og ef sú verður niðurstaðan, þá mun breytingin þyngja mjög leyfisveitingarferilinn frá því sem nú er fyrir fjölda fyrirtækja sem er að finna á lista sem fylgir auglýsingunni.

f.h. SHÍ

_________________________

ritari

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök atvinnulífsins - 05.04.2018

Samtök atvinnulífsins skila hér umsögn um fyrirhugaða reglugerð.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Samband íslenskra sveitarfélaga - 05.04.2018

Samantekin niðurstaða þessarar umsagnar er að Samband íslenskra sveitarfélaga leggst gegn útgáfu reglugerðar um losun frá atvinnurekstri og umhverfiseftirlit. Afstaða sambandsins er sú að alls ekki sé til bóta að búa til svo viðamikla reglugerð þar sem blandað er saman lítt skyldum efnisreglum og leitast þurfi við að halda reglum um starfsleyfisútgáfu eins einföldum og aðgengilegum og frekast er kostur. Sérhæfðari reglur um losun frá atvinnurekstri séu betur komnar í sérstakri reglugerð. Þá sé óþarft að fella úr gildi reglugerð um brennslustöðvar.

Rík ástæða hefði verið til þess að bjóða upp á kynningu af hálfu ráðuneytisins á þeim breytingum sem reglugerðin felur í sér eða gera aðgengilega samantekt á helstu breytingum. Jafnframt mælir sambandið með því að þeir sem senda inn umsagnir um málið verði boðaðir til fundar þar sem hægt er að rökræða einstök atriði sem fram koma í umsögnum. Um nánari athugasemdir vísast til meðfylgjandi umsagnar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Bryndís Skúladóttir - 05.04.2018

Meðfylgjandi er umsögn SI um drög að reglugerð um losun frá atvinnustarfsemi og umhverfiseftirlit

Viðhengi