Málinu lauk með setningu reglugerðar um neyslurými nr. 170/2021, að hafðri hliðsjón af umsögnum sem bárust um gáttina.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 02.06.2020–30.06.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 09.07.2021.
Nýsamþykkt lög um breytingu á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni heimila sveitarfélögum að stofna og reka neyslurými. Samkvæmt þeim ber ráðherra að setja reglugerð um neyslurými þar sem skal meðal annars kveðið á um stofnun, rekstur og þjónustu í neyslurými.
Nú á vordögum samþykkti Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, sem heimilar sveitarfélögum að stofna og reka neyslurými. Í neyslurými verður einstaklingum heimilt að neyta ávana- og fíkniefnum í æð. Markmiðið með neyslurýmum, sem er skaðaminnkandi aðgerð, er að koma í veg fyrir frekari óafturkræfan skaða, auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem neyta efnanna með þessum hætti.
Á grundvelli laganna ber heilbrigðisráðherra að setja reglugerð um stofnun og rekstur neyslurýma þar sem meðal annars skal kveðið á um þjónustu sem veita skal í neyslurými, um hollustuhætti, um verkefni, öryggi og hæfni starfsfólks, um upplýsingaskyldu rekstraraðila gagnvart Embætti landlæknis, setningu húsreglna og eftirlit með starfsemi neyslurýmis.
Í heilbrigðisráðuneytinu hefur undanfarið verið unnið að samningu þessarar reglugerðar um neyslurými. Við þá vinnu hafa verið hafðar til hliðsjónar þær ábendingar sem bárust í tengslum við vinnu að frumvarpinu, meðal annars frá Embætti landlæknis, Rauða krossi Íslands og Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess hafa verið hafðar til hliðsjónar reglugerðir um neyslurými í Noregi og Danmörku.
Ég fagna nýsamþykktri breytingu á lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni sem heimila sveitarfélögum að stofna og reka neyslurými. Ég hef gaumgæft drög að reglugerð ráðherra og komist að því að þau eru vönduð og til þess gerð að stuðla að faglegum starfsháttum í neyslurýmunum..
Ég hef eina ábendingu. Mér finnst að hugleiða þurfi hvort setja ætti nákvæmari hæfniskröfur í reglugerðina. Þá er ég einkum að velta fyrir mér hvort setja ætti inn ákvæði um að yfirstjórn neyslurýma sé að jafnaði í höndum hjúkrunarfræðinga og/eða bráðatækna. Ég geri mér grein fyrir að ekki er raunhæft að skilyrða starfsemina við þessar hæfniskröfur því sennilega er eftirspurnin eftir þessum stéttum mun meiri en sem nemur framboði þeirra. Því finnst mér að stefna skuli að því, ef mögulegt er, að hafa yfirstjórnir neyslurýma mannaðar fólki með sérþekkingu og faglega færni þessara stétta.
Kristinn Ágúst Friðfinnsson.
Hér meðfylgjandi er umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um drög að reglugerð um neyslurými
ViðhengiSæl,
Á fundi mannréttinda -, nýsköpunar- og lýðræðisráðs þann 25. júní 2020, samþykkti ráðið meðfylgjandi umsögn sbr. 2. lið fundargerðar sama dag.
Með bestu kveðju Elísabet Pétursdóttir
mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu
ViðhengiUndirrituð skrifar þessa umsögn f.h. göngudeildar geðþjónustu Landspítala.
Fyrst ber að taka fram að geðþjónusta Landspítala fagnar því að frumvarp um neyslurými hafi verið samþykkt á Alþingi og telur að það muni skipta sköpum fyrir marga af okkar þjónustuþegum.
Að því sögðu viljum við hér með leggja til inn í kafla II, 4.gr verði bætt ákvæði sem heimilar Embætti landlæknis að veita heilbrigðisstofnun (til viðbótar við sveitafélög) leyfi til að stofna og reka neyslurými. Ef fallist verður á þá breytingu þarf að aðlaga aðrar greinar sem á eftir koma. Fyrirmynd að slíku neyslurými sem rekið er innan heilbrigðisstofnunar/sjúkrahúss má finna í París sem dæmi. Rannsóknir hafa sýnt að heildræn þjónusta í nærumhverfi hóps sem notar vímuefni um æð dregur úr líkum á skaða og bjargar mannslífum og því er mikilvægt fyrir Landspítala, þriðja stigs heilbrigðisstofnun að hafa möguleika á því að setja upp og reka neyslurými sem hluta af heildstæðri en sértækri heilbrigðisþjónustu fyrir fólk sem notar vímuefni í æð.
Með vinsemd og virðingu
Dr. Helga Sif Friðjónsdóttir,
Hjúkrunardeildarstjóri
Göngudeild geðsviðs, Landspitala
Sérfræðingur í geðhjúkrun með áherslu á fíknisjúkdóma
Sjá umsögn embættis landlæknis í viðhengi.
ViðhengiUmsögn um reglugerð um neyslurými
Viðhengi