Samráð fyrirhugað 29.06.2020—10.08.2020
Til umsagnar 29.06.2020—10.08.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 10.08.2020
Niðurstöður birtar

Endurskoðuð reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi.

Mál nr. 123/2020 Birt: 29.06.2020
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Leikskólar, grunnskólar, starfsnám og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 29.06.2020–10.08.2020. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnir til samráðs endurskoðaða reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi.

Með lögum um grunnskóla nr. 91/2008 var í fyrsta sinn sett ákvæði í lög um heimakennslu á grunnskólastigi með undanþáguheimild í 46. gr. en á þeim tíma var þrýstingur á stjórnvöld að opna fyrir heimakennslu með lagaheimild. Árið 2009 var sett ítarleg reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi þar sem sett voru ýmis skilyrði um fyrirkomulag og framkvæmd heimakennslu, m.a. ákvæði um að foreldrar þyrftu að hafa kennsluréttindi til að fá heimild til að annast heimakennslu. Árið 2019 var sett af stað vinna við endurskoðun reglugerðarinnar í ljósi beiðna frá foreldrum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga við vinnslu reglugerðarinnar og leitað einnig eftir sjónarmiðum foreldra sem hafa óskað eftir breytingum á reglugerðinni. Stærsta breytingin er sú að opnað er á að hægt er að sækja um heimild til heimakennslu á grunnskólastigi fyrir foreldra sem ekki hafa kennsluréttindi.

Helstu breytingar frá reglugerðinni frá 2009:

1. Áfram er sett skilyrði um að sá sem annast heimakennsluna hafi leyfi ráðherra til að nota starfsheitið kennari, en bætt er við sambærilegri undanþáguheimild og sett er í lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019. Menntamálastofnun gefi út slíka heimild að fenginni tillögu undanþágunefndar kennara.

2. Nokkrar breytingar eru gerðar um gögn sem þurfa að fylgja með umsókninni, annars vegar skýrari ákvæði um rökstuðning fyrir beiðni um heimakennslu en hins vegar almennari skilyrði um starfs- og kennsluáætlun.

3. Nýmæli er að gert er ráð fyrir að skólastjóri þjónustuskóla beri ábyrgð á því að námskrá heimakennslu sé unnin í samráði við foreldra en í eldri reglugerð var ábyrgðin alfarið í höndum foreldra.

4. Bætt er við ákvæði um í leyfi til heimakennslu sé kveðið á um aðgang að frístundaheimili í samræmi við nýtt ákvæði um frístundaheimili fyrir börn í yngri árgöngum grunnskóla sem varð að lögum 2016 með breytingu á grunnskólalögum.

5. Sett inn ákvæði að þegar foreldrar fara með sameiginlega forsjá skuli liggja fyrir samþykki beggja foreldra fyrir heimakennslu barnsins.

6. Öll samskipti við stjórnvöld verði við Menntamálastofnun en þegar reglugerðin var samin var sú stofnun ekki til. Eðlilegt er að stofnunin annist slíkt.

7. Sett er ákvæði um að umsókn til sveitarstjórnar vegna heimildar fyrir heimakennslu berist eigi síðar en 1. febrúar ár hvert vegna komandi skólaárs. Í gildandi reglugerð eru engin ákvæði um umsóknarfrest.

8. Bætt er við ákvæði um að foreldrar skulu eiga þess kost að tjá sig um efni greinargerðar um aðstæður á heimilinu vegna fyrirhugaðrar heimakennslu.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.