Samráð fyrirhugað 29.06.2020—10.08.2020
Til umsagnar 29.06.2020—10.08.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 10.08.2020
Niðurstöður birtar 25.02.2021

Endurskoðuð reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi.

Mál nr. 123/2020 Birt: 29.06.2020 Síðast uppfært: 25.02.2021
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Leikskólar, grunnskólar, framhaldsfræðsla og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Niðurstöður birtar

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 29.06.2020–10.08.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.02.2021.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnir til samráðs endurskoðaða reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi.

Með lögum um grunnskóla nr. 91/2008 var í fyrsta sinn sett ákvæði í lög um heimakennslu á grunnskólastigi með undanþáguheimild í 46. gr. en á þeim tíma var þrýstingur á stjórnvöld að opna fyrir heimakennslu með lagaheimild. Árið 2009 var sett ítarleg reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi þar sem sett voru ýmis skilyrði um fyrirkomulag og framkvæmd heimakennslu, m.a. ákvæði um að foreldrar þyrftu að hafa kennsluréttindi til að fá heimild til að annast heimakennslu. Árið 2019 var sett af stað vinna við endurskoðun reglugerðarinnar í ljósi beiðna frá foreldrum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga við vinnslu reglugerðarinnar og leitað einnig eftir sjónarmiðum foreldra sem hafa óskað eftir breytingum á reglugerðinni. Stærsta breytingin er sú að opnað er á að hægt er að sækja um heimild til heimakennslu á grunnskólastigi fyrir foreldra sem ekki hafa kennsluréttindi.

Helstu breytingar frá reglugerðinni frá 2009:

1. Áfram er sett skilyrði um að sá sem annast heimakennsluna hafi leyfi ráðherra til að nota starfsheitið kennari, en bætt er við sambærilegri undanþáguheimild og sett er í lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019. Menntamálastofnun gefi út slíka heimild að fenginni tillögu undanþágunefndar kennara.

2. Nokkrar breytingar eru gerðar um gögn sem þurfa að fylgja með umsókninni, annars vegar skýrari ákvæði um rökstuðning fyrir beiðni um heimakennslu en hins vegar almennari skilyrði um starfs- og kennsluáætlun.

3. Nýmæli er að gert er ráð fyrir að skólastjóri þjónustuskóla beri ábyrgð á því að námskrá heimakennslu sé unnin í samráði við foreldra en í eldri reglugerð var ábyrgðin alfarið í höndum foreldra.

4. Bætt er við ákvæði um í leyfi til heimakennslu sé kveðið á um aðgang að frístundaheimili í samræmi við nýtt ákvæði um frístundaheimili fyrir börn í yngri árgöngum grunnskóla sem varð að lögum 2016 með breytingu á grunnskólalögum.

5. Sett inn ákvæði að þegar foreldrar fara með sameiginlega forsjá skuli liggja fyrir samþykki beggja foreldra fyrir heimakennslu barnsins.

6. Öll samskipti við stjórnvöld verði við Menntamálastofnun en þegar reglugerðin var samin var sú stofnun ekki til. Eðlilegt er að stofnunin annist slíkt.

7. Sett er ákvæði um að umsókn til sveitarstjórnar vegna heimildar fyrir heimakennslu berist eigi síðar en 1. febrúar ár hvert vegna komandi skólaárs. Í gildandi reglugerð eru engin ákvæði um umsóknarfrest.

8. Bætt er við ákvæði um að foreldrar skulu eiga þess kost að tjá sig um efni greinargerðar um aðstæður á heimilinu vegna fyrirhugaðrar heimakennslu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samband íslenskra sveitarfélaga - 09.07.2020

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um drög að reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi.

F.h. sambandsins

Valgerður Rún Benediktsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Elísa Elíasdóttir - 09.08.2020

Sjá umsögn í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Vigfús Hallgrímsson - 10.08.2020

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Helgi Rafn Guðmundsson - 10.08.2020

Það er frábært að það sé verið að gefa ókennaramentuðum aðilum möguleika á að sinna heimakennslu að fenginni undanþágu. Eftir situr tvennt að mínu mati sem er mikilvægt fyrir þá sem kjósa að velja þessa leið að fengnu leyfi.

1. Að kennari (með menntun og leyfisbréf sem kennari) geti sinnt fámennum hópum (4-6) barna í heimakennslu sem þurfa ekki að vera undir hans/hennar forræði. Það er að segja að það sé möguleiki fyrir kennara að kenna nokkrum börnum í hóp. Þetta fyrirkomulag þekkist erlendis og hefur gefið góða raun. Þá er þetta einnig möguleikar fyrir kennara til að afla sér tekna sem og að öll börn geta haft það úrræði að sækja nám í fámennum eingum óháð menntun foreldra þeirra.

2. Að sá sem sinni heimakennslunni geti fengið að hluta til það fjárframlag sem þjónustuskólinn fær til sín fyrir þann nemanda sem er ekki að sækja skólann. Það eða önnur úrræði fyrir heimakennara til að afla tekna enda er það gífurleg tímaskuldbinding að vera með heimakennslu og af því eru engar tekjur.

Heimakennsla sem og aðrir fjölbreyttir kostir við skólahald er gífurlega mikilvægur kostur. Hefðbundið skólastarf hentar ekki öllum og fjölbreytt val til menntunar getur hjálpað við fjölbreytta flóru nemenda og því mikilvægt að geta boðið upp á fleiri leiðir fyrir einstaklinga. Það er öllum til haga. Það að það skuli vera háð því að foreldri hafi kennaramenntun hvort barni hljóti ákveðna viðeigandi menntun er auðvitað alls ekki sanngjarnt, enda á menntun barns ekki að líða fyrir hvaða menntun foreldri þess hefur.

Afrita slóð á umsögn

#5 Rut Sigurðardóttir - 10.08.2020

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Guðrún Sigtryggsdóttir - 10.08.2020

Hjálagt sendist umsögn skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um drög að reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Elías Theódórsson - 10.08.2020

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Menntamálastofnun - 09.09.2020

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Félag grunnskólakennara - 09.09.2020

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Skólastjórafélag Íslands - 09.09.2020

Málið var rætt á síðasta fundi í stjórnar Skólastjórafélags íslands en ljóst var að tíminn til athugasemda í Samráðsgátt var þá runninn út.

Á fundinum kom fram að stjórnarmenn gerðu alvarlegar athugasemdir við það nýmæli að skólastjóra svokallaðs „þjónustuskóla“ væri falið að bera ábyrgð á því að námskrá heimakennslu væri unnin í samráði við foreldra.

Einnig var rætt um það hlutverk skólastjóra að veita heimild til heimakennslu sem að mati stjórnarmanna ætti ekki að liggja hjá skólastjóra heldur fremur sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags eða ráðuneyti.

Einnig var í umræðunni komið inn á þá heimild að einstaklingar án réttinda til kennslu sinntu slíkri kennslu og hver væri í raun mælikvarðinn sem ganga ætti út frá til að veita slíkar heimildir.

Þá veltu menn einnig upp hvernig farið væri með lögboðna skólaskyldu og viðmiðunarstundaskrá gagnvart þeim einstaklingum sem nytu heimakennslu.

Vonandi undirstrikar þetta að einhverju leiti viðhorf stjórnar félagsins til þeirrar endurskoðunar á reglugerð um heimakennslu sem unnið er að.

Kv.

Þorsteinn Sæberg.