Samráð fyrirhugað 03.07.2020—07.08.2020
Til umsagnar 03.07.2020—07.08.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 07.08.2020
Niðurstöður birtar 25.02.2021

Frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Mál nr. 126/2020 Birt: 03.07.2020 Síðast uppfært: 25.02.2021
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 03.07.2020–07.08.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.02.2021.

Málsefni

Ný heildarlög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. M.a. er lagt til að lögin taki til kvenna, karla og fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Þá verði fjölþætt mismunun óheimil. Lagt fram samhliða frumvarpi um stjórnsýslu jafnréttismála þar sem fjallað er um Jafnréttisstofu og kærunefnd jafnréttismála.

Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi forsætisráðherra um stjórnsýslu jafnréttismála. Það frumvarp lýtur að skipulagi á þeirri stjórnsýslu sem lögð er til að gildi á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. frumvarp þetta, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Tillögurnar ná meðal annars til starfsemi Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála. Verði frumvarp þetta að lögum falla úr gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Í frumvarpi þessu er lagt til það nýmæli að fjölþætt mismunun verði óheimil en með því er átt við þegar manneskju er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt frumvarpi þessu, sem og lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Með setningu laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, var hlutlaus skráning kyns í þjóðskrá heimiluð. Breytingin felur í sér að þrír möguleikar eru á kynskráningu í stað tveggja áður, þ.e. karl, kona og hlutlaus kynskráning. Frumvarp þetta tekur mið af þessari breytingu. Orðanotkun í frumvarpinu tekur mið af þessu og lagt er til að heiti laganna verði lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, en yfirskrift gildandi laga er lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Lagt er til að ákvæði um vinnumarkað og launajafnrétti, eins og þau eru í gildandi lögum, verði skipt niður í fleiri ákvæði með fyrirsögnum til skýringar og lögð er til sú breyting að ekki verði lengur gert að skilyrði að miða skuli við störf hjá sama atvinnurekanda í almenna ákvæðinu um launajafnrétti. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu. Aðrar breytingar sem lagðar eru til eru m.a. að ákvæði um bann við mismunun í skólum á grundvelli kyns nái yfir frístunda- og æskulýðsstarf með skýrari hætti en áður, fulltrúum í Jafnréttisráði verði fækkað til að tryggja skilvirkni og markvissara starf og að miðað verði við að boða til Jafnréttisþings annað hvert ár í stað innan árs frá alþingiskosningu til að tryggja að þingið verði haldið með reglubundnum hætti óháð alþingiskosningum hverju sinni.

Lagt er til að færa orðalag jafnréttislaga til nútímalegra horfs og að orðanotkun verði ekki kynjuð. Þannig er leitast við að nota frekar orðið ,,fólk“ í stað ,,menn“, svo dæmi sé tekið.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jónas Bragi Hallgrímsson - 12.07.2020

Skiptir þetta máli núna? Af öllu sem Alþingi þarf að gera og klára.

Hvað mun þetta nýtast mörgum miðað við aðrar lagabreytingar? Hvað eru margir Íslendingar sem vilja vera skráðir kyn hlutlausir? Er líka vera að gefa í skyn að það séu fleiri en tvö kyn? Á að vera fé skattborgara í að breyta þeim orðum sem notuð eru í lögum landsins? Ef maður fær kyn skráningu sinni breyt hvernig mun það hafa áhrif á lagalegan rétt hans?

Á fólk að geta valið hvort kynið það sé? Á að refsa fólki fyrir að brjóta þessi lög? Getur maður brotið þessi lög með að nota ekki rétt orðalag?

Styðjast þessi lög við það sem er kennt í læknisfræði? Ef breyta á stjórnsýslu lögum hvað varðar kyn fólks á þá að breyta hvernig kyn er notuð í heilbrigðiskerfinu eða skólakerfinu?

Hvaða kynja mismunun er líka verið að vitna í?

Afrita slóð á umsögn

#2 Samband íslenskra sveitarfélaga - 17.07.2020

Hjálagt sendast ábendingar Sambands íslenskra sveitarfélaga við frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

F.h. sambandsins

Valgerður Rún Benediktsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Margrét Steinarsdóttir - 06.08.2020

Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um drög að frumvarpi til laga um jafnan rétt og jafna stöðuog jafnan rétt kynjanna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Þroskahjálp,landssamtök - 06.08.2020

Umsögn landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum samningsins, eins og mælt er sérstaklega fyrir um í 4. gr. hans, sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“. Þar segir m.a.:

1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.

Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

a) að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika,

b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...

Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks nær til allra sviða samfélagsins og hefur það meginmarkmið að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og jöfn tækifæri á við aðra á öllum sviðum og að verja það fyrir mismunun af öllu tagi. Sérstaklega er kveðið á um þessar skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki jafnrétti í 5. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Jafnrétti og bann við mismunun“ og hljóðar svo:

1. Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar.

2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.

3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.

4. Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa.

Í samningnum er einnig kveðið á um skyldur ríkja til að líta sérstaklega til aðstæðna og þarfa fatlaðra kvenna og til að gera nauðsynlegar ráðstafanir, þ.mt. á sviði laggasetningar, til að tryggja þeim jafnrétti og fullnægjandi vernd fyrir mismunun. Í formálsorðum samningsins segir:

Ríkin, sem eiga aðild að samningi þessum, ...

p) sem hafa áhyggjur af erfiðum aðstæðum fatlaðs fólks sem sætir margþættri eða síaukinni mismunun vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmála¬skoðana eða annarra skoðana, þjóðlegs, þjóðernislegs eða félagslegs uppruna eða frum¬byggjauppruna, eigna, ætternis, aldurs eða annarrar stöðu, ...

q) sem viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, að verða þolendur ofbeldis, áverka eða misþyrminga, vanrækslu eða hirðuleysis, illrar meðferðar eða misneytingar, ...

s) sem leggja áherslu á nauðsyn þess að ávallt sé tekið mið af kynjasjónarmiðum í þeirri viðleitni að stuðla að því að fatlað fólk njóti fullra mannréttinda og mannfrelsis, ...

6. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Fatlaðar konur“ og hljóðar svo:

1. Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur margþættrar mismun¬unar og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannrétt¬inda og mannfrelsis til jafns við aðra.

2. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þróun, framgang og valdeflingu kvenna til fulls í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og mannfrelsis sem sett eru fram í samningi þessum.

Í 16. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum“, segir:

1. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, einnig með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna. (Feitletr. þroskahj.)

2. gr. þessa laga frumvarps, sme hér er til umsaganr, hefur yfirskritina „Orðskýringar“. Þar segir:

3. Fjölþætt mismunun: Þegar manneskju er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt lögum þessum, lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði. Fjölþætt mismunun getur annaðhvort verið samtvinnuð þannig að tvær eða fleiri mismununarástæður skapi sérstakan grundvöll mismununar eða verið tvöföld/margföld þannig að mismununin sé vegna tveggja eða fleiri sjálfstæðra mismununarástæðna.

Í 1. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, sem hefur yfirskriftina „Gildissvið“, segir:

Lög þessi gilda um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, ...“ (Feitletr. Þroskahj.)

Eins og fyrr sagði fullgilti íslenska ríkið samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans hér á landi, m.a. og ekki síst með því að „að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði“ í því skyni. Af því og öðru sem hér að framan er rakið hvílir sú mikilvæga, skýra og augljósa skylda á íslenska ríkinu, að mati Landssamtakanna Þroskahjálpar, þegar það semur og setur lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, að fara sérstaklega yfir hvaða ákvæði þarf að hafa í lögunum til að að tryggja fötluðum konum jafnrétti í reynd og fullnægjandi og virka vernd gegn mismunun, eins og mælt er fyrir um að ríkinu sé skylt að gera í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Í þessu sambandi vilja samtökin sérstaklega vekja athygli á skyldu ríkisins til að tryggja með lögum rétt fatlaðra kvenna til „viðeigandi aðlögunar“, sbr. 3. mgr. 5. gr. samningsins. Réttur til viðeigandi aðlögunar er algjör forsenda þess að fatlað fólk fái í raun notið jafnréttis og jafnra tækifæra á við aðra.

Í 2. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Skilgreiningar“ er viðeigandi aðlögun skilgreind svo:

„viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi,

Landssamtökin Þroskahjálp telja ástæðu til að ætla að við samningu þessa lagafrumvarps hafi verulega skort á að litið hafi verið til lagalegra réttinda og verndar sem fatlaðar konur eiga að njóta samkvæmt samningi SÞ um réttndi fatlaðs fólks og skyldna íslenska ríkisins til að tryggja það samkvæmt samningnum. Samtökin skora því á forsætisráðuneytið að láta fara sérstaklega yfir frumvarpið m.t.t. þess að tryggja að það uppfylli kröfur sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Landssamtökin þroskahjálp lýsa miklum áhuga og vilja til að koma að því verkefni og vísa í því sambandi til 3. mg. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks þar sem segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Reykjavík, 6. ágúst 2020.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Reykjavíkurborg - 07.08.2020

Reykjavík, 6. ágúst 2020

Samráðsgátt

Mál nr. 126/2020

Ábyrgðaraðili: Skrifstofa jafnréttismála

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla

Almennt:

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar telur að vinna hefði átt frumvarp að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem hefði haft útvíkkun jafnréttishugtaksins að leiðarljósi. Skrifstofan vísar í því sambandi til mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar en hún byggir á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs-, stjórnmálaskoðana, trúleysis, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu. Með þessum hætti er unnið gegn margþættri mismunun og lögð áhersla á heildstæða sýn í þágu borgarbúa þar sem margir tilheyra fleiri en einum þeirra hópa sem stefnan nær til. Þessi nálgun hefur ekki orðið til þess að kynjajafnrétti hverfi í skuggann af öðrum þáttum, þvert á móti hefur verið lögð áhersla á að kynjajafnrétti sé rauði þráðurinn í stefnunni og tekið sé mið af stöðu kynja innan þeirra hópa sem hún nær til.

Gildissvið frumvarps laganna um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna snýst um að koma í veg fyrir mismunun og tryggja jafnrétti á grundvelli kyns en stjórnsýsla jafnréttismála tekur til fleiri þátta. Eðlilegt væri að þetta héldist í hendur þ.e. rétt væri að samræma þá lagabálka sem taka til mismununar. Bæði væri aðgengilegra fyrir fólk að nálgast lögin með þeim hætti og það myndi ná betur yfir veruleika þess þar sem einstaklingar geta orðið fyrir margþættri/fjölþættri mismunun. Það er þó kostur að „vinna gegn fjölþættri mismunun“ sé tiltekið sem leið að markmiðum laganna.

Í lagafrumvarpinu vantar grein eða umfjöllun um kynjaða fjárlagagerð/fjárhagsáætlun/hagstjórn. Í 18. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123 frá 2015 segir: „Ráðherra, í samráði við ráðherra jafnréttismála, hefur forustu um að gerð verði áætlun um kynjaða fjárlagagerð sem höfð skal til hliðsjónar við gerð frumvarps til fjárlaga. Í frumvarpi til fjárlaga skal gerð grein fyrir áhrifum þess á markmið um jafna stöðu karla og kvenna.“ Lagt er til að í frumvarpinu komi fram að með samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða sé einnig átt við kynjaða fjárlagagerð/fjármál/hagstjórn. T.d. væri hægt að tilgreina það sem eina leið til að ná markmiðum laganna (1. grein).

Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um samráð við gerð frumvarpsins. Það skal tekið fram að það fór af stað með miklum ágætum með samráðsfundi og skipan starfshópa. Hins vegar þá var hætt að kalla til fundar í þeim hópi sem mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa átti fulltrúa í og eru þessi drög því ekki nema að litlu leyti afurð þeirrar vinnu.

1. gr.

Í greinargerð kemur fram að leitast sé við að brjóta upp karllægt orðalag í lögunum. Í þeim anda er lagt til að konur séu taldar upp fyrst í þessari grein.

Í stað: „Með kyni í lögum þessum er átt við karla, konur og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá nema annars sé sérstaklega getið“, verði: Með kyni í lögum þessum er átt við konur, karla og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá nema annars sé sérstaklega getið.

K liður. Hér þarf að stíga fastar til jarðar t.d. með því að hafa „vinna markvisst gegn kynskiptum vinnumarkaði“ í stað „stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.“

L liður. „Gæta sérstaklega að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.“ Til að þetta gangi eftir leggur mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa til að lög um stjórnsýslu jafnréttismála gildi einnig um stjórnsýslu á sviði laga um kynrænt sjálfræði, sjá umsögn skrifstofunnar um frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála.

2. gr.

7. liður

Í núgildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10 frá 2008 er fjallað um kynjasamþættingu. Í þessu lagafrumvarpi er fjallað um „samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða“. Í orðskýringum frumvarpsins segir: „Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða: Að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn jafnréttis kynja sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.“ Þetta er skilgreining á samþættingu kynjasjónarmiða en ekki kynja- og jafnréttissjónarmiða og þarf að færa til betri vegar.

8. liður

Sértækar aðgerðir: Skrifa „veita öðru kyni forgang“ í stað „að veita öðru kyninu forgang.“ Það er viðurkenning á því að til séu fleiri en tvö kyn.

Lagt er til að bætt verði við í orðskýringar skilgreiningum á hugtökunum jafnrétti og jafnræði.

4. gr.

Í stað: „Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa 25 eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli skulu setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína.“ Hér sé bætt við og, það standi: Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa 25 eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli skulu setja sér jafnréttisáætlun og/eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Raunveruleg kynja- og jafnréttissamþætting nær til allrar stefnumótunar.

Tilgreint er í þessari grein að jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu skuli endurskoða á þriggja ára fresti. Fara þarf betur yfir þessar tímasetningar með sveitarfélög í huga. Í 13. gr. frumvarps til laga um stjórnsýslu jafnréttismála segir að áætlun sveitarfélags um jafnréttismál skuli lögð fram eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar. Af þessu leiðir að endurskoðun færi fram rétt fyrir næstu kosningar sem er ekki vænlegt til árangurs.

7. gr.

Í lið 2 sé bætt við og þ.e. Jafnréttisáætlun og/eða samþætting jafnréttissjónarmiða í starfsmannastefnu skv. 4. gr.

8. og 9. gr

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa vísar í umsögn sína um stjórnsýslu jafnréttismála þar sem lögð er áhersla á að Jafnréttisstofu sé tryggt fjármagn/mannafli til að taka við nýjum og umfangsmiklum verkefnum.

13. gr.

Nota annað orð í stað skjólstæðingur t.d. notandi þjónustu. Þarna hlýtur að vera átt við alla sem nota þjónustu fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.

Hér þarf að bæta við að atvinnurekendur, yfirmenn stofnana og félagasamtaka vinni, í samráði við t.d. Jafnréttisstofu verkferla í tengslum við kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni. Það er ekki nóg að eingöngu sé fjallað um að yfirmaður sem er kærður vegna ætlaðs kynbundins ofbeldis, ætlaðrar kynbundinnar áreitni eða ætlaðrar kynferðislegrar áreitni sé vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir. Starfsfólki þarf að vera ljóst hvaða leiðir sé hægt að fara og hvernig sé tekið á slíkum málum.

14. gr.

„Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi þar sem m.a. er kennt um kynjaðar staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval og málefni fatlaðs fólks og hinsegin fólks.“ Hér ætti að bæta við málefnum fólks af erlendum uppruna.

Hér þarf að bæta við einhverri leið til eftirfylgni t.d. að Jafnréttisstofa geti óskað eftir upplýsingum um það með hvaða hætti þetta sé gert.

Í fimmtu málsgrein er fjallað um að efla skuli rannsóknir á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi. Þetta á heima í sér grein en ekki undir menntun og skólastarf.

15. gr.

Hér segir m.a.„Það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna meðgöngu og barnsburðar.“ Lagt er til að hérna standi: Það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til einstaklinga vegna meðgöngu og barnsburðar og sleppa setningunni „Það sama á við um annað fólk sem gengur með eða fæðir barn.“

20. gr.

Þar sem vinna á gegn fjölþættri mismunun til að ná markmiði laganna ætti að standa hér: Í skólum, öðrum menntastofnunum, frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er hvers konar mismunun á grundvelli kyns eða annarra þátta óheimil s.s. vegna uppruna, fötlunar, kynhneigðar, kyntjáningar og kynvitundar.

23. til og með 25. gr.

Þessar greinar eiga frekar heima í frumvarpi um stjórnsýslu jafnréttismála.

23. gr.

Með fjölþætta mismunun í huga ættu innflytjendur að eiga fulltrúa í jafnréttisráði.

Gerð er athugasemd við að fulltrúi fjármálaráðuneytisins eigi ekki lengur sæti í jafnréttisráði. Mikilvægt er að lögð sé áhersla á kynjaða hagstjórn/fjárlagagerð þar sem um öflugt samþættingartæki er að ræða og að vera með fulltrúa ráðuneytisins í ráðinu er ein leið til þess að tryggja framgang þess.

24. gr.

Það er mat mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að jafnréttisþing séu ekki gagnleg. Finna ætti aðrar og áhrifaríkari leiðir til að vinna að jafnréttismálum.

27. gr.

Fara þarf yfir þessa grein með hliðsjón af 44. grein sveitastjórnarlaga en þar segir í lið 2: „Ef velja á tvo eða þrjá fulltrúa í nefnd skal a.m.k. einn af hvoru kyni vera á lista. Ef velja á fjóra eða fimm fulltrúa skulu a.m.k. tveir af hvoru kyni vera á lista. Ef velja á sex til átta í nefnd skulu a.m.k. þrír af hvoru kyni vera á lista. Ef velja á níu fulltrúa skulu a.m.k. fjórir af hvoru kyni vera á lista. Ef velja á fleiri í nefnd skulu a.m.k. 40% af hvoru kyni vera á lista. Ef kjörgengi í nefnd er bundið við sveitarstjórnarmenn eða varamenn þeirra á þessi regla þó ekki við. Hið sama á við ef kjörgengi í nefnd er bundið með þeim hætti að ekki er fært að fullnægja kröfum samkvæmt þessum lið.“ (Feitletrun er okkar)

28. gr.

Taka út „leitast við að“ í síðustu málsgrein. Hún verði: Þá skulu opinberir aðilar greina á milli kynja við alla tölfræðivinnslu nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því.

29. gr.

Ef að samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða er skilgreind með þeim hætti að hún nái til fleiri þátta en kynjajafnréttis þá á þessi grein heima í frumvarpi til laga um stjórnsýslu jafnréttismála.

Hér þarf að tilgreina sérstaklega fjárhagsáætlunargerð.

Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Staðlaráð Íslands - 07.08.2020

Meðfylgjandi er umsögn Staðlaráðs Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Kvenréttindafélag Íslands - 07.08.2020

Hér í viðhengi er umsögn Kvenréttindafélags Íslands um drög að frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Fyrir hönd stjórnar félagsins, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Samtök atvinnulífsins - 07.08.2020

Góðan dag,

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarpið.

virðingarfyllst,

Heiðrún Björk Gísladóttir

f.h. Samtaka atvinnulífsins

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Jafnréttisstofa - 07.08.2020

Meðfylgjandi er umsögn Jafnréttisstofu vegna ofangreinds máls

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Alþýðusamband Íslands - 07.08.2020

Meðfylgjandi er umsögn Alþýðusambands Íslands um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Kveðja,

Maríanna Traustadóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Samtökin '78,félag hinsegin fólks á Íslandi - 07.08.2020

Meðfylgjandi er umsögn Samtakanna '78.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Arnar Gíslason - 07.08.2020

Umsögn samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Mikil vinna liggur að baki frumvarpinu og hefur verið vel staðið að þeirri vinnu. Frumvarpið er tímabært og er mjög til bóta fyrir málaflokkinn. Mjög jákvætt er að frumvarpið taki mið af fjölþættri mismunun svo hægt sé að þróa málaflokkinn betur áfram í þá átt og tvinna hinar mörgu víddir jafnréttis betur við kynjajafnrétti, sem verið hefur akkeri jafnréttismála á Íslandi.

Jafnréttissjóður

Vísað er til Jafnréttissjóðs í inngangi greinargerðar með frumvarpi, en ekkert lagaákvæði um sjóðinn er að finna í frumvarpinu sjálfu. Lagt er til að sjóðurinn, sem starfað hefur á tímabundnum grundvelli, verði festur í sessi og honum tryggt fjármagn til frambúðar. Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir framþróun jafnréttismála á Íslandi og nauðsynlegt er að tryggja slíkan sjóð sem styrkt getur verkefni og ekki síst rannsóknir á sviði jafnréttismála.

Holdafar og líkamsgerð

Í greinargerð segir að með hugtakinu jafnréttismál sé „átt við mál sem varða jafna meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldri, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.“ Lagt er til að í þessari upptalningu sé einnig vísað til holdafars og líkamsgerðar. Fordómar og mismunun á grundvelli holdafars og líkamsgerðar eru vel þekktir og má finna dæmi um að fjallað sé um holdafar og líkamsgerð í jafnréttis- og mannréttindastefnum opinberra aðila á Íslandi.

Jafnréttisáætlanir

Lagt er til að þeir aðilar sem gera skulu jafnréttisáætlanir geti óskað eftir heimild til að setja sér jafnréttisáætlanir sem gildi í allt að fimm ár. Slíkt sé háð því að skýr tenging sé á milli jafnréttisáætlunar og heildarstefnu viðkomandi skipulagsheildar og að í heildarstefnu sé lögð greinileg áhersla á jafnréttismál. Markmiðið er að jafnréttisáætlun geti verið öflugra tæki til að koma markmiðum heildarstefnu í framkvæmd og fylgi sama tímaramma (en oft gilda slíkar stefnur í fjögur til fimm ár) og einfaldi þannig skipulagsheildum sem geta haft markviss áhrif á framþróun jafnréttis að samþætta málaflokkinn betur við heildarstarfsemi sína.

Jafnréttisráð

Gerð er athugasemd við að ekki sé gert ráð fyrir fulltrúa tilnefndum af fræðasamfélaginu í Jafnréttisráði. Mikilvægi rannsókna og fræðilegrar þekkingar fyrir málaflokkinn er ótvírætt og styrkir það starfsemi ráðsins að í því sitji fulltrúi tilnefndur af fræðasamfélaginu. Því er lagt til að háskólarnir tilnefni sameiginlega einn fulltrúa í Jafnréttisráð.

Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera.

Lagt er til að lögin skýri hvernig beita eigi ákvæði 27. gr. um að að hlutfall karla og kvenna skuli vera sem jafnast skuli þegar tilnefning er háð þáttum á borð við að fulltrúar séu kjörnir til starfa á tilteknum vettvangi eða að fulltrúaréttur á einum vettvangi sé bundinn við tiltekið starf, stöðu eða formennsku á öðrum vettvangi. Ennfremur er lagt til að undanþágur, ef nokkrar, séu skilgreindar með sem þrengstum hætti, enda mikilvægt að hlutfall karla og kvenna sé sem jafnast í hvívetna.

Í sömu grein segir ennfremur að ákvæðið komi „ekki í veg fyrir tilnefningu og skipun fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá“. Óskað er eftir að nánar sé skýrt í lögunum hvernig þetta skuli vera í framkvæmd. Eindregið er tekið undir það sjónarmið að mikilvægt sé að lögin hindri ekki þátttöku fólks með hlutlausa skráningu kyns og er lagt til að besta leiðin til að tryggja um leið aðkomu kvenna að ákvarðanatöku sé að hlutfall kvenna sé eigi lægra en 40%, í þeim tilvikum þar sem skipun aðila með hlutlausa skráningu kyns gerir það að verkum að ekki sé hægt að tryggja að hlutfall bæði karla og kvenna sé 40%. Sem dæmi um slíkt tilvik má nefna að ef um er að ræða nefnd sem í sitja átta manns og einn aðili er með hlutlausa skráningu kyns, þá er eingöngu hægt að tryggja að hlutfall annaðhvort karla eða kvenna sé yfir 40% en ekki bæði þar sem þrjú sæti eða færri í nefnd sem átta manns sitja í duga ekki til að hlutfallið nái 40%. Því er lagt til að í slíkum tilvikum sé hlutfall kvenna eigi lægra en 40%.

F.h. samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna

Arnar Gíslason