Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 3.7.–7.8.2020

2

Í vinnslu

  • 8.8.2020–24.2.2021

3

Samráði lokið

  • 25.2.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-126/2020

Birt: 3.7.2020

Fjöldi umsagna: 12

Drög að frumvarpi til laga

Forsætisráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Málsefni

Ný heildarlög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. M.a. er lagt til að lögin taki til kvenna, karla og fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Þá verði fjölþætt mismunun óheimil. Lagt fram samhliða frumvarpi um stjórnsýslu jafnréttismála þar sem fjallað er um Jafnréttisstofu og kærunefnd jafnréttismála.

Nánari upplýsingar

Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi forsætisráðherra um stjórnsýslu jafnréttismála. Það frumvarp lýtur að skipulagi á þeirri stjórnsýslu sem lögð er til að gildi á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. frumvarp þetta, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Tillögurnar ná meðal annars til starfsemi Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála. Verði frumvarp þetta að lögum falla úr gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Í frumvarpi þessu er lagt til það nýmæli að fjölþætt mismunun verði óheimil en með því er átt við þegar manneskju er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt frumvarpi þessu, sem og lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Með setningu laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, var hlutlaus skráning kyns í þjóðskrá heimiluð. Breytingin felur í sér að þrír möguleikar eru á kynskráningu í stað tveggja áður, þ.e. karl, kona og hlutlaus kynskráning. Frumvarp þetta tekur mið af þessari breytingu. Orðanotkun í frumvarpinu tekur mið af þessu og lagt er til að heiti laganna verði lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, en yfirskrift gildandi laga er lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Lagt er til að ákvæði um vinnumarkað og launajafnrétti, eins og þau eru í gildandi lögum, verði skipt niður í fleiri ákvæði með fyrirsögnum til skýringar og lögð er til sú breyting að ekki verði lengur gert að skilyrði að miða skuli við störf hjá sama atvinnurekanda í almenna ákvæðinu um launajafnrétti. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu. Aðrar breytingar sem lagðar eru til eru m.a. að ákvæði um bann við mismunun í skólum á grundvelli kyns nái yfir frístunda- og æskulýðsstarf með skýrari hætti en áður, fulltrúum í Jafnréttisráði verði fækkað til að tryggja skilvirkni og markvissara starf og að miðað verði við að boða til Jafnréttisþings annað hvert ár í stað innan árs frá alþingiskosningu til að tryggja að þingið verði haldið með reglubundnum hætti óháð alþingiskosningum hverju sinni.

Lagt er til að færa orðalag jafnréttislaga til nútímalegra horfs og að orðanotkun verði ekki kynjuð. Þannig er leitast við að nota frekar orðið ,,fólk“ í stað ,,menn“, svo dæmi sé tekið.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Skrifstofa jafnréttismála

postur@for.is