Samráð fyrirhugað 03.07.2020—07.08.2020
Til umsagnar 03.07.2020—07.08.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 07.08.2020
Niðurstöður birtar 25.02.2021

Frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála

Mál nr. 127/2020 Birt: 03.07.2020 Síðast uppfært: 25.02.2021
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 03.07.2020–07.08.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.02.2021.

Málsefni

Frumvarp þetta gildir um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála, m.a. um Jafnréttisstofu og kærunefnd jafnréttismála. Lagt fram samhliða frumvarpi forsætisráðherra til nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi forsætisráðherra til nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Verði það frumvarp að lögum falla úr gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Lagt er til að frumvarp þetta gildi um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, taka til. Tillögurnar ná meðal annars til starfsemi Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála. Með hugtakinu jafnréttismál í frumvarpi þessu er átt við mál sem varða jafna meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldri, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Meginmarkmið frumvarpsins er að gera stjórnsýslu jafnréttismála skýrari og öflugri. Lagt er til að fjallað verði um stjórnsýslu jafnréttismála í sérstökum lögum í stað þess að einungis sé fjallað um stjórnsýslu jafnréttismála í lögum sem varða jafna meðferð á grundvelli kyns. Eftirlitsþáttur Jafnréttisstofu við framkvæmd laganna hefur verið gerður skýrari með tillögum í frumvarpinu, meðal annars með sérstöku ákvæði um álagningu dagsekta í nánar tilgreindum tilvikum. Lagt er til að auka við kröfur um sérþekkingu innan kærunefndar jafnréttismála á jafnréttismálum. Þannig er lagt til að a. m. k. tveir nefndarmenn, þ. á m. formaður, skuli hafa sérþekkingu á sviði jafnréttismála. Einnig er lagt til að einn þeirra skuli hafa sérþekkingu á jafnrétti kynjanna og einn á jafnrétti í víðtækari merkingu. Enn fremur er lagt til að allir fulltrúar kærunefndarinnar verði ekki skipaðir til sama tíma. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja eins vel og unnt er að ávallt verði til staðar tiltekin þekking hjá skipuðum fulltrúum í kærunefndinni þrátt fyrir að skipt verði um fulltrúa. Gert er ráð fyrir að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála feli áfram í sér bindandi niðurstöðu fyrir málsaðila um hvort þau lög sem heyra undir kærunefndina hafi verið brotin en nú er lagt til það nýmæli að bætt verði við með skýrum hætti að þegar við á geti kærunefndin beint þeim fyrirmælum til hins brotlega að gera viðeigandi ráðstafanir til að bæta úr þannig að hinn brotlegi geti ekki mætt úrskurði með algeru athafnaleysi. Þannig verður jafnframt skýrara fyrir Jafnréttisstofu að framfylgja því hlutverki sínu að fylgja úrskurðum kærunefndarinnar eftir að viðlögðum dagsektum. Áfram er gert ráð fyrir að hafi úrskurður kærunefndar jafnréttismála verið kæranda í hag en gagnaðili ekki viljað una honum og höfði mál til ógildingar úrskurðinum fyrir dómstólum fái kærandi greiddan málskostnað úr ríkissjóði fyrir héraðsdómi, Landsrétti og fyrir Hæstarétti eftir því sem við á. Tilgangur þessa er einkum sá að koma í veg fyrir að einstaklingur beri mál sín síður undir kærunefndina af ótta við þann tilkostnað sem kann að hljótast af því að gagnaðili freisti þess að fá úrskurði nefndarinnar ógilda fyrir dómstólum. Lagt er til það nýmæli í frumvarpi þessu að við slíka málssókn skuli kærunefnd jafnréttismála jafnframt stefnt til varnar í málinu. Enginn þekkir betur á hvaða grunni úrskurður nefndarinnar er byggður en nefndin sjálf og því er rétt að hún sjái um að færa fram málsástæður og lagarök fyrir því af hverju úrskurðurinn sé löglegur og réttur, en ekki kærandi einn eins og núverandi skipan mála er hagað. Þessi skipan er til þess fallinn að fæla einstaklinga frá því að bera mál sín undir kærunefnd jafnréttismála. Rétt er að taka fram að eftir sem áður hefur kærandi kost á í slíkum dómsmálum að koma að öllum viðhorfum sínum varðandi málið þar sem hann telst einnig til varnaraðila málsins. Áfram er gert ráð fyrir að ráðherra leggi fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála en sú breyting er lögð til að ráðherra skuli gera það einu sinni á kjörtímabili en ekki á jafnréttisþingi líkt og kveðið er á um í gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en jafnréttisþingið er haldið á tveggja ára fresti. Lögð er til sú breyting að jafnréttisáætlun hjá sveitarfélögum sem tekur til jafnréttis kynjanna eingöngu verði nú áætlun um að gæta þurfi að fleiri mismununarástæðum en kyni í áætlun sveitarfélagsins, þ.e. einnig kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Ekki er lengur gert ráð fyrir skipan sérstakra jafnréttisnefnda sveitarfélaga heldur þess í stað að sveitastjórn skuli fela byggðaráði eða annarri fastanefnd sveitarfélags að fara með jafnréttismál innan sveitarfélagsins og hafa, með stuðningi starfsfólks, umsjón með undirbúningi áætlunar og framkvæmd hennar. Að lokum eru lagðar eru til nauðsynlegar breytingar á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, í því skyni að tryggja samræmi milli þeirra laga og frumvarps þessa sem og til samræmis við frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Enn fremur eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sem þykja nauðsynlegar til samræmis við lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, og til samræmis við framangreint frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og varða starfsauglýsingar.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Kristín Sigrún Guðmundsdóttir - 08.07.2020

Tel það mistök að aðeins lögfræðingar gefi álit sitt á mál er koma fyrir nefndina. Mikilvægt að mannauðssérfræðingar komi einnig að málum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Samband íslenskra sveitarfélaga - 16.07.2020

Hjálagt sendast ábendingar Sambands íslenskra sveitarfélaga við frumvarp um stjórnsýslu jafnréttismála.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Eirný Valsdóttir - 20.07.2020

Undirrituð telur að 6. mgr. 5. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla lög nr. 10/2008 sé barns síns tíma og hafi verið sett sett inn fyrir misskilning. Að gleymst hefði að huga að samræmi við aðrar úrskurðarnefndir.

Sjá frekar í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Margrét Steinarsdóttir - 06.08.2020

Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um drög að frumvarpi um stjórnsýslu jafnréttismála.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Mannauður, félag mannauðsfólks á Íslandi - 06.08.2020

Hjálagt er umsögn Mannauðs, félags mannauðsfólk á Íslandi.

Virðingarfyllst, f.h. stjórnar,

Ásdís Eir Símonardóttir

Formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Þroskahjálp,landssamtök - 07.08.2020

Meðfylgjandi er umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Reykjavíkurborg - 07.08.2020

Reykjavík, 5. ágúst 2020

Samráðsgátt

Mál nr. 127/2020

Ábyrgðaraðili: Skrifstofa jafnréttismála

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um jafna stjórnsýslu jafnréttismála

Almennt:

Það er ljóst að hlutverk Jafnréttisstofu er mjög viðamikið verði frumvarpið að lögum og það kallar á sérþekkingu á ýmsum sviðum þar sem henni er falin stjórnsýsla vegna laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Það er lykilatriði að veita Jafnréttisstofu fjármagn/mannafla til þess að hún geti sinnt þessum verkefnum með sóma.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu sé ætlað að gegna miðlægu hlutverki við að leiða og samhæfa jafnréttisstarf stjórnvalda. Í þessu frumvarpi kemur fram að verkefni Jafnréttisstofu séu m.a. að veita ráðgjöf og aðstoð á sviði jafnréttismála, koma á framfæri við ráðherra og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir til að stuðla að auknu jafnrétti og sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi á sviði jafnréttismála. Það er því ljóst að Jafnréttisstofu er einnig ætlað leiðandi hlutverki á sviði jafnréttismála. Þörf er á að skilgreina með skýrum hætti hvert er hlutverk annars vegar Jafnréttisstofu og hins vegar skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu.

Athugasemdir mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu við einstakar greinar frumvarpsins:

1. gr

Lagt er til að lög um kynrænt sjálfræði nr. 80 frá 2019 falli þarna undir enda er með kyni í frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna „átt við karla, konur og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá nema annars sé sérstaklega getið“.

4. gr.

Tiltekin eru í greininni fjölmörg verkefni sem Jafnréttisstofa ber ábyrgð á. Ítrekað er mikilvægi þess, sem fram kemur hér að ofan, að Jafnréttisstofu sé tryggt það fjármagn/mannafli sem hún þarf á að halda til að geta sinnt þessum verkefnum.

7. gr.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa leggur til að tveir af þremur fulltrúum hafi lokið embættisprófi eða meistaraprófi í lögfræði og einn af þremur sé kynjafræðingur. Með þessu er tryggt að innan kærunefndarinnar sé haldgóð þekking á jafnréttismálum en kynjafræði er þverfaglegt nám þar sem lögð er áhersla á kyn en jafnframt aðrar þætti s.s. kyngervi, uppruna, hinseginleika, fötlun og aldur.

13. gr.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa tekur undir að ræða þurfi framvindu jafnréttisáætlunar í sveitarstjórn árlega og hún endurskoðuð eftir þörfum. Þetta tryggir að sveitarstjórn sé með jafnréttismál á dagskrá og endurskoðun eigi sér stað komi í ljós að þörf sé á því.

Í núgildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10 frá 2008 er tilgreint að sveitarstjórnir skulu að loknum sveitarstjórnarkosningum skipa jafnréttisnefndir sem fjalla um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla innan viðkomandi sveitarfélags. Í sveitarstjórnarlögum nr. 138 frá 2011, sjá 37. grein, er sveitarstjórnum gefin heimild til að sameina nefndir þó að svo sé kveðið á í lögum að kjósa skuli sérstaka nefnd til að fara með tiltekin verkefni.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa telur hættu fólgna í því að ekki sé tilgreint að skipa þurfi jafnréttisnefnd innan sveitarfélagsins þar sem hætta er á að jafnréttismálum sé ýtt til hliðar við þær aðstæður. Það má vera að það henti í einhverjum sveitarfélögum og við ákveðnar aðstæður að sameina hlutverk nefnda eða fela byggðarráði jafnréttismál en þá er nauðsynlegt að við þá ákvarðanatöku sé farið yfir rök með og á móti og hún tekin með upplýstum hætti.

Það kemur fram í greininni að jafnréttisáætlun sveitarfélags skuli m.a. hafa að markmiði að stuðla að jafnri meðferð við ráðstöfun fjármangs, í þjónustu sveitarfélagsins og starfsmannamálum. Hér er lagt til að kynjuð fjárhagsáætlun sé sérstaklega tilgreind og sterkara að orði kveðið, þ.e. að aðferðarfræði kynjaðar fjárhagsáætlunar sé nýtt til að tryggja jafnrétti og jafnari meðferð við ráðstöfun fjármagns.

Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir

Mannréttinda- og lýðræðisskrifsstofu Reykjavíkurborgar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Kærunefnd jafnréttismála - 07.08.2020

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Kvenréttindafélag Íslands - 07.08.2020

Hér í viðhengi er umsögn Kvenréttindafélags Íslands um drög að frumvarpi til laga um stjórnsýslu jafnréttismála.

Fyrir hönd stjórnar félagsins, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Jafnréttisstofa - 07.08.2020

Meðfylgjandi er umsögn Jafnréttisstofu vegna ofangreinds máls

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Arnar Gíslason - 07.08.2020

Umsögn samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna um frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála

Mikil vinna liggur að baki frumvarpinu og hefur verið vel staðið að þeirri vinnu. Frumvarpið er tímabært og er mjög til bóta fyrir málaflokkinn. Mjög jákvætt er að frumvarpið taki mið af fjölþættri mismunun svo hægt sé að þróa málaflokkinn betur áfram í þá átt og tvinna hinar mörgu víddir jafnréttis betur við kynjajafnrétti, sem verið hefur akkeri jafnréttismála á Íslandi.

Jafnréttissjóður

Vísað er til Jafnréttissjóðs í inngangi greinargerðar með frumvarpi, en ekkert lagaákvæði um sjóðinn er að finna í frumvarpinu sjálfu. Lagt er til að sjóðurinn, sem starfað hefur á tímabundnum grundvelli, verði festur í sessi og honum tryggt fjármagn til frambúðar. Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir framþróun jafnréttismála á Íslandi og nauðsynlegt er að tryggja slíkan sjóð sem styrkt getur verkefni og ekki síst rannsóknir á sviði jafnréttismála.

Holdafar og líkamsgerð

Í greinargerð segir að með hugtakinu jafnréttismál sé „átt við mál sem varða jafna meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldri, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.“ Lagt er til að í þessari upptalningu sé einnig vísað til holdafars og líkamsgerðar. Fordómar og mismunun á grundvelli holdafars og líkamsgerðar eru vel þekktir og má finna dæmi um að fjallað sé um holdafar og líkamsgerð í jafnréttis- og mannréttindastefnum opinberra aðila á Íslandi.

F.h. samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna

Arnar Gíslason

Afrita slóð á umsögn

#12 Ragnar S Ragnarsson - 07.08.2020

Ég bið ykkur um að í lögunum verði aukinn réttur þeirra sem jafnréttisnefndin fjallar um en eru í dag ekki skilgreindir sem "aðilar máls." Ég hef beina reynslu af því að hafa sótt um starf og fengið það. Keppinautur minn um starfið kærði. Keppinauturinn fékk í hendur öll gögn um umsóknina mína, fékk að skila skriflegri gagnrýni um hana. Á sama tíma fékk ég ekki aðgang að starfsumsókn keppinautarins og enga leið til að benda á galla í fari hennar, OG það sem verst var, ekki tækifæri til að andmæla villum og lítilsvirðingu í skrifum keppinautarins um mína umsókn. Ég kvartaði yfir þessu til Umboðsmanns (þetta var 2003) og svarið sem ég fékk var að þar sem ég væri ekki talinn aðili máls, hefði ég engan rétt til afskipta af málsmeðferðinni. Ég óska eftir að réttur fólks í sambærilegri stöðu og ég hef lýst verði jafn mikill og kærenda.

Afrita slóð á umsögn

#13 Alþýðusamband Íslands (ASÍ) - 13.08.2020

Viðhengi