Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 3.7.–7.8.2020

2

Í vinnslu

  • 8.8.2020–24.2.2021

3

Samráði lokið

  • 25.2.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-127/2020

Birt: 3.7.2020

Fjöldi umsagna: 14

Drög að frumvarpi til laga

Forsætisráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála

Málsefni

Frumvarp þetta gildir um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála, m.a. um Jafnréttisstofu og kærunefnd jafnréttismála. Lagt fram samhliða frumvarpi forsætisráðherra til nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Nánari upplýsingar

Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi forsætisráðherra til nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Verði það frumvarp að lögum falla úr gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Lagt er til að frumvarp þetta gildi um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, taka til. Tillögurnar ná meðal annars til starfsemi Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála. Með hugtakinu jafnréttismál í frumvarpi þessu er átt við mál sem varða jafna meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldri, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Meginmarkmið frumvarpsins er að gera stjórnsýslu jafnréttismála skýrari og öflugri. Lagt er til að fjallað verði um stjórnsýslu jafnréttismála í sérstökum lögum í stað þess að einungis sé fjallað um stjórnsýslu jafnréttismála í lögum sem varða jafna meðferð á grundvelli kyns. Eftirlitsþáttur Jafnréttisstofu við framkvæmd laganna hefur verið gerður skýrari með tillögum í frumvarpinu, meðal annars með sérstöku ákvæði um álagningu dagsekta í nánar tilgreindum tilvikum. Lagt er til að auka við kröfur um sérþekkingu innan kærunefndar jafnréttismála á jafnréttismálum. Þannig er lagt til að a. m. k. tveir nefndarmenn, þ. á m. formaður, skuli hafa sérþekkingu á sviði jafnréttismála. Einnig er lagt til að einn þeirra skuli hafa sérþekkingu á jafnrétti kynjanna og einn á jafnrétti í víðtækari merkingu. Enn fremur er lagt til að allir fulltrúar kærunefndarinnar verði ekki skipaðir til sama tíma. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja eins vel og unnt er að ávallt verði til staðar tiltekin þekking hjá skipuðum fulltrúum í kærunefndinni þrátt fyrir að skipt verði um fulltrúa. Gert er ráð fyrir að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála feli áfram í sér bindandi niðurstöðu fyrir málsaðila um hvort þau lög sem heyra undir kærunefndina hafi verið brotin en nú er lagt til það nýmæli að bætt verði við með skýrum hætti að þegar við á geti kærunefndin beint þeim fyrirmælum til hins brotlega að gera viðeigandi ráðstafanir til að bæta úr þannig að hinn brotlegi geti ekki mætt úrskurði með algeru athafnaleysi. Þannig verður jafnframt skýrara fyrir Jafnréttisstofu að framfylgja því hlutverki sínu að fylgja úrskurðum kærunefndarinnar eftir að viðlögðum dagsektum. Áfram er gert ráð fyrir að hafi úrskurður kærunefndar jafnréttismála verið kæranda í hag en gagnaðili ekki viljað una honum og höfði mál til ógildingar úrskurðinum fyrir dómstólum fái kærandi greiddan málskostnað úr ríkissjóði fyrir héraðsdómi, Landsrétti og fyrir Hæstarétti eftir því sem við á. Tilgangur þessa er einkum sá að koma í veg fyrir að einstaklingur beri mál sín síður undir kærunefndina af ótta við þann tilkostnað sem kann að hljótast af því að gagnaðili freisti þess að fá úrskurði nefndarinnar ógilda fyrir dómstólum. Lagt er til það nýmæli í frumvarpi þessu að við slíka málssókn skuli kærunefnd jafnréttismála jafnframt stefnt til varnar í málinu. Enginn þekkir betur á hvaða grunni úrskurður nefndarinnar er byggður en nefndin sjálf og því er rétt að hún sjái um að færa fram málsástæður og lagarök fyrir því af hverju úrskurðurinn sé löglegur og réttur, en ekki kærandi einn eins og núverandi skipan mála er hagað. Þessi skipan er til þess fallinn að fæla einstaklinga frá því að bera mál sín undir kærunefnd jafnréttismála. Rétt er að taka fram að eftir sem áður hefur kærandi kost á í slíkum dómsmálum að koma að öllum viðhorfum sínum varðandi málið þar sem hann telst einnig til varnaraðila málsins. Áfram er gert ráð fyrir að ráðherra leggi fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála en sú breyting er lögð til að ráðherra skuli gera það einu sinni á kjörtímabili en ekki á jafnréttisþingi líkt og kveðið er á um í gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en jafnréttisþingið er haldið á tveggja ára fresti. Lögð er til sú breyting að jafnréttisáætlun hjá sveitarfélögum sem tekur til jafnréttis kynjanna eingöngu verði nú áætlun um að gæta þurfi að fleiri mismununarástæðum en kyni í áætlun sveitarfélagsins, þ.e. einnig kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Ekki er lengur gert ráð fyrir skipan sérstakra jafnréttisnefnda sveitarfélaga heldur þess í stað að sveitastjórn skuli fela byggðaráði eða annarri fastanefnd sveitarfélags að fara með jafnréttismál innan sveitarfélagsins og hafa, með stuðningi starfsfólks, umsjón með undirbúningi áætlunar og framkvæmd hennar. Að lokum eru lagðar eru til nauðsynlegar breytingar á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, í því skyni að tryggja samræmi milli þeirra laga og frumvarps þessa sem og til samræmis við frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Enn fremur eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sem þykja nauðsynlegar til samræmis við lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, og til samræmis við framangreint frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og varða starfsauglýsingar.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (3)

Umsjónaraðili

Skrifstofa jafnréttismála

postur@for.is