Samráð fyrirhugað 10.07.2020—31.07.2020
Til umsagnar 10.07.2020—31.07.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 31.07.2020
Niðurstöður birtar

Drög að reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla

Mál nr. 135/2020 Birt: 10.07.2020
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (10.07.2020–31.07.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir til umsagnar drög að nýrri reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla.

Með drögunum er lagt til að sett verði ný heildarreglugerð um gerð og búnað reiðhjóla sem felli úr gildi reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla nr. 57/1994.

Með drögunum eru lagðar til eftirfarandi breytingar frá gildandi reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla:

• Gildissvið reglugerðarinnar verði skýrt og taki almennt aðeins til hefðbundinna fótstiginna reiðhjóla. Þó taki tiltekin ákvæði einnig til lítilla vélknúinna ökutækja á borð við vélknúin hlaupahjól og tvíhjóla ökutæki á einum öxli sem skilgreind eru sem reiðhjól skv. c-lið 30. tölul. 2. gr. umferðarlaga

• Nýtt ákvæði um gerð og eiginleika rafdrifinna reiðhjóla í samræmi við ákvæði umferðarlaga

• Ákvæði um lýsingu og glitmerki skýrð og settar inn lágmarkskröfur til ljósabúnaðar sem skylt er skv. umferðarlögum að notast við í myrkri eða við aðstæður þar sem skyggni er skert

• Ákvæði um hliðar- og eftirvagna bætt við í samræmi við ákvæði umferðarlaga, m.a. um fjölda leyfilegra vagna og um hámarkslengd og -breidd reiðhjóls með áföstum vögnum.

• Ákvæði um flutning farþega bætt við. Lagt til að flytja megi einn farþega auk ökumanns eða allt að þrjá farþega og tvö börn undir 7 ára aldri sé reiðhjól sérstaklega útbúið til þess. Með hliðar- eða eftirvagni megi flytja allt að tvo farþega. Lagt er til að gerð verði krafa um sérstök sæti fyrir börn sem hæfa þyngd og hæð barns auk þess sem börn sem flutt eru með reiðhjóli skuli fest með öryggisbelti. Þá skuli allir farþegar í hliðar- eða eftirvögnum festir með öryggisbelti nema vagnarnir séu útbúnir með hnakki, handföngum og fótstigi fyrir farþega. Ákvæði um fjölda farþega á sérstaklega útbúnum reiðhjólum og í vögnum, auk ákvæða um öryggisbelti eiga sér fyrirmynd í dönskum reglum.

• Í ákvæði um hemla er lagt til að gerð verði krafa til þess að hemlar skuli virka án þess að veður eða aðrir utanaðkomandi þættir hafi afgerandi áhrif á virkni þeirra og að reiðhjól með fleiri en tvö hjól skuli búin stöðuhemli að danskri fyrirmynd.

• Ákvæði bætt við um lítil vélknúin ökutæki sem teljast til reiðhjóla. Lagt er til að slík tæki skuli búin glitmerkjum og ljósum. Þá sé óheimilt að flytja farþega á tækjunum nema þau séu sérstaklega útbúin til þess.

• Lagt er til að Samgöngustofu verði veitt heimild til að veita undanþágur frá ákvæðum reglugerðarinnar þegar sérstakar ástæður mæla með því og slíkt er talið forsvaranlegt með tilliti til öryggis.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Björn Arnar Hauksson - 10.07.2020

Samantekt:

Lagt er til að ákvæði um glitaugu og bjöllu séu fjarlægð.

Ágætis reglugerð en reglurnar eru of sértækar og valda þannig óþarfa veseni og kostnaði fyrir fólk sem vill hjóla. Glitaugu eru til dæmis að miklu leyti úrelt og bjöllur eru oft á tíðum gagnslausar og passa illa á hjól. Svona íþyngjandi og óhagnýtar reglur geta dregið úr noktum hjóla og gengið þannig gegn markmiðum Íslands í umhverfismálum.

Nánar:

4. gr.

Glitaugu eru að mörgu leyti úrelt tækni og fá hjól í hærri gæðaflokkum sem eru með glitaugu. Nærri lagi væri að segja að í umferð eigi hjólreiðafólk að vera með endurskin eða glit eða í skærum litum af einhverju tagi á hjólinu eða klæðnaði sem sjást vel þegar lýst á þau í myrkri.

Bjöllur eru yfirleitt frekar gagnslausar því margir vegfarandur taka ekkert mark á þeim eða heyra ekkert í þeim ef þeir eru með tónlist í eyrunum. Það gagnast alveg jafn vel að kalla til annarra vegfarenda og láta vita af sér þannig. Og sumir hjóla svo hægt að þeir þurfa ekkert að nota bjöllu. Mörg hjól eru ekki með pláss fyrir bjöllur eða hægt er að setja bara litla bjöllu sem ekkert heyrist í.

Afrita slóð á umsögn

#2 Hjólafærni á Íslandi - 13.07.2020

Almennt er margt gott í þessari reglugerð. Takk fyrir hana.

9. gr veitir þakklátt svigrúm til handa Samgöngustofu og er það vel.

Það sem kannski helst vantar, er að tala um nytjahjól - Cargo/boxter/flutninga- og fjölskylduhjól og ætti kannski heima undir 5. gr. Nú þegar eru nokkur hjól á hjúkrunarheimilum sem eru meira en 100 cm að breidd. Þessi hjól eru hvorki með hliðar- né eftirvagni.

Svo eru til heilar ölstofur á hjólum samanber það sem kemur upp ef gúgglað er "bike beer" myndir.

Líka Bike bus þar sem mörgum börnum er safnað saman og þau hjálpast að við að hjóla í skólann. Gúgla "Bike bus" myndir.

Flutningsgeta slíkra hjóla, lengd og breidd, ætti mögulega að vera skilgreind í reglunum.

Algengt er að frá framleiðendum sé gert ráð fyrir allt upp undir 300 kg farmflutningum.

Fjölskylduhjól flytja auðveldlega 4 börn á öruggan og umhverfisvænan hátt, jafnvel fleiri.

Því ætti að fella út þessa setningu í 6. gr. reglugerðarinnar:

"Með reiðhjóli er heimilt að flytja einn farþega auk ökumanns, eða allt að þrjá farþega og tvö börn undir 7 ára aldri sé reiðhjólið sérstaklega útbúið til þess".

Í sömu grein segir:

"Á reiðhjóli, sem hannað er til að flytja farþega, eða í hliðar- eða eftirvagni sem ætlaður er til slíkra

nota, skal vera sérstakt sæti fyrir hvern farþega og hlíf sem skýlir farþegum fyrir hjólum og hjólateinum.

Allir farþegar í hliðar- eða eftirvagni skulu vera festir með öryggisbelti. Ef hliðar- eða eftirvagn er búinn

hnakki, handföngum og fótstigi fyrir farþega, er ekki gerð krafa um öryggisbelti."

Þetta er það sem skiptir raunverulegu máli og skapar svigrúm fyrir alls konar hjól sem við eigum eftir að sjá í íslensku umferðaumhverfi í náinni framtíð.

Afrita slóð á umsögn

#3 Eyþór Máni Steinarsson - 21.07.2020

Sem einstaklingur, og rekstrarstjóri Hopp fagna ég þessari reglugerð.

Einstaklega gott að sjá fyrstu skref í átt að skilgreiningu örflæðis í lögum. Sérstaklega má fagna 2. mgr 8. gr reglugerðarinnar, en öll 8. gr og 3. til 6. mgr. 4. gr er sömuleiðis góð, en þetta er nauðsynlegur öryggisbúnaður á farartækjum sem þessum. Reksturinn og búnaður okkar stenst þessa reglugerð, og hefur gert frá upphafi.

Þrátt fyrir að reglugerðin sé góð, þarf ennþá að laga vanhanka í kerfinu sem gera ekki ráð fyrir þessum farartækjum. Til að mynda mætti búa til í kringum rafhlaupahjól sinn eigin flokk, frekar en að hólfa þau í flokk "Reiðhjóla C". En þetta eru fararæki sem eiga auðveldlega heima á akbrautum, sérstaklega 30 götum.

Takk Samgöngustofa fyrir að taka þetta þarfa skref.

Afrita slóð á umsögn

#4 Sesselja Traustadóttir - 22.07.2020

Góðan daginn

Í regluverkinu er ítrekað talað um hliðarvagna. Fáir sem hjóla, kannast við það hugtak þegar kemur að reiðhjólum. Við erum hins vegar mikið að vinna með nytjahjól, fjölskylduhjól, farþegahjól og kassahjól - vinnuþjarka af ýmsu tagi. Getur verið að það sé einhver ónákvæmni í þessu tali um hliðarvagnana?

Bara vinsamleg ábending.

Takk, Sesselja T.

Afrita slóð á umsögn

#5 Gylfi Ólafsson - 23.07.2020

Í reglugerðinni er margt til bóta sem ég tiltek þó ekki sérstaklega.

Reiðhjól eiga sér langa sögu og eru afar fjölbreytt. Það er því vandasamt að semja reglur sem taka tillit til allra tegunda. Upp á síðkastið hefur fjölbreytileiki þeirra aukist afar hratt, meðal annars með tilkomu skilvirkra og ódýrra rafmagnsmótora.

Ég á hjól sem er fremur nýlegt á markaði. Það heitir Urban Arrow Family. Það er búið kassa fyrir framan hjólreiðamanninn sjálfan, og þar ofaní er hægt að flytja bæði vörur en einnig 3-4 börn ef aukabekkur sem hægt er að kaupa aukalega er settur í. Á bögglabera er hægt að fjölga enn börnum sem flutt eru á þessum kostagrip.

Mínar athugasemdir snúa að því að tryggja að þessar reglugerðabreytingar hamli því ekki að hjól af þessari tegund nýtist sem best og mest. Með fjölgun fjölskylduhjóla er hægt að fækka bílum í umferðinni, sem bæði eru hættulegir farþegum þeirra en þó sérstaklega öðrum í umferðinni.

Í 5. grein er fjallað um hliðar- og eftirvagna. Greinin heimilar slíka vagna. Ánægjulegt er að tveir vagnar eru leyfðir aftaní hjóli. Þeir auka getu hjólsins til að flytja farþega á öruggan hátt. Ekki er fjallað um áfasta kassa, hvort sem þeir eru fyrir aftan eða framan þann hjólandi. Þó eru slík hjól til, til dæmis hjólið mitt. Ef vilji stendur til að hafa þetta heimildarákvæði, legg ég til að það verði orðað almennar. Aðrar greinar reglugerðarinnar ættu að taka breytingum til samræmis.

Í 6. grein er kveðið á um fjölda farþega sem leyfilegt er að flytja. Ákvæðið er ruglingslegt (er leyfður fjöldi farþega samtals 5, þ.e. 3 fullorðnir og 2 börn?) og býr til flækjur um hliðar- og eftirvagna.

Eins og áður segir virðist kassi framaná hjóli ekki teljast til tengi- eða hliðarvagns. Þá er í hjólinu pláss fyrir þrjú til fjögur börn, og væri þá þriðja og fjórða barnið ólöglegt skv. greininni eins og ég skil hana.

Til einföldunar legg ég því til að eftirfarandi málsgreinar falli brott: „Með reiðhjóli er heimilt að flytja einn farþega auk ökumanns, eða allt að þrjá farþega og tvö börn undir 7 ára aldri sé reiðhjólið sérstaklega útbúið til þess. Með sérstökum hliðar- eða eftirvagni sem festur er við reiðhjólið má flytja allt að tvo farþega.“ Önnur ákvæði greinarinnar kveða á um að allir farþegar skulu hafa sérstök sæti og að öryggi þeirra skuli tryggt með ýmsum hætti. Það ætti að vera nægjanlegt til að ná fram vilja yfirvalda.

Til vara legg ég til að 5. greinin verði uppfærð til að innihalda einnig kassa eða palla áfasta hjólinu (hvort sem þeir eru framan eða aftaná) og að samanlagður hámarksfjöldi barna sem flytja megi verði að minnsta kosti fimm.

Þá legg ég til að lengdartakmarkanir sem settar eru í 5. grein verði rýmkaðar. Urban Arrow og hjól af því tagi eru 260 cm. Algengt er að aftanívagn sé 120-150 cm. Ákvæðið mætti helst falla niður, en til vara miðast við 4,5 metra.

Afrita slóð á umsögn

#6 Reykjavíkurborg - 28.07.2020

Meðfylgjandi er umsögn Samgöngustjóra fyrir Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Vinnueftirlit ríkisins - 28.07.2020

Umsögn Vinnueftirlitsins, um drög að reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla, er í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Kristmundur Helgi Guðmundsson - 30.07.2020

Ef ekki er enn til lög sem skikka reiðhjólafólk á umferðagötum til að vera með dagljósabúnað, þá er ekki seinna vænna en að bæta úr því núna.

Skær klæðnaður er kostur, en fólk þ.m.t. undirritaður erum á ferð í kannti þjóðvegar á lægri hraða en t.d. dráttarvél sumir hjólreiðamenn fara hraðar.

En í landi þar sem óll önnur faratæki eru skikkuð til þessa og skyggni oft misjafnt þá eru ljós gríðarlegt öryggisatriði og hjálpar til við að sjá hjólreiðamann mikið fyrr.

Ég hef sjálfur verið rétt búinn að keyra 2x á hjólreiðamann á götuhjólum (racerum) sem hjóluðu á miðjum akreinum, svartklæddir frá toppi til táar án ljósa.

Fyrra tilfellið var á fallegum sumarmorgni á leið upp Vaðlaheiði, þar var morgunsólin í augunum á mér og það varð hjólreiðamanninum til happs að ég keyrði inn í skugga og varð hans þess vegna var.

Hitt tilfellið var í úrhelli og grámyglu á milli hringtorga á milli Grafarholts og Mosfellsbæjar.

Mér hefur alltaf þótt það skjóta skökku við að hjól í umferð, sem eru hægfara og smá á ótrúlegustu stöðum séu undanskilin. Nú þegar hjólaeign hefur margfaldast ætti þetta að vera skráð í lög með samskonar sektarkerfi og hjá bifreiðum.

Afrita slóð á umsögn

#9 Erlendur Smári Þorsteinsson - 30.07.2020

Samantekt:

Undirritaður leggur til að ákvæði um glit og bjöllu verði endurskrifuð.

Glit: Lögð verði áhersla á ljós og ljósanotkun, svo glit í fatnaði til vara, og loks föst glit á hjóli einungis til þrautavara. Ástæður eru fyrst og fremst tvennskonar: Í myrkri og rigningu sést glit hvort eð er ekki og kröfur um glit veita því falskt öryggi. Hluti hjóla í hærri gæðaflokki uppfyllir ekki og getur ekki uppfyllt kröfur um glit en er með ljósabúnað, sem er langt umfram kröfur.

Bjalla: Margar betri leiðir eru til að gera vart við sig heldur en með bjöllu. Skýran tón, eins og krafist er í reglugerðardrögunum, er erfitt fyrir mannsheyrnina að staðsetja.

Nánar er fjallað um þessi atriði í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Birgir Fannar Birgisson - 31.07.2020

Í þessum drögum að reglugerð skortir verulega á að ýmis skilyrði fylgi tæknilegri þróun farartækja sem falla undir skilgreininguna "Reiðhjól", þ.e. farartækja sem knúin eru af stig- eða sveifarbúnaði en líta að miklu leyti ekki út eins og hefðbundin reiðhjól.

Það er ákaflega bagalegt þegar stjórnvöld vilja hvetja fólk til orkuskipta og virkra samgöngumáta að fólki sé svo gert óþarflega erfitt fyrir að nýta á öruggan hátt þau farartæki sem í boði eru.

Ný reglugerð verður að taka mið af þeirri tæknilegu þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár og styðja þá jákvæðu þróun sem er hafin og vel á veg komin þar sem fólk leitar annarra leiða í samgöngum en að fjölga mengandi bifreiðum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Landssamtök hjólreiðamanna - 31.07.2020

Meðfylgjandi er umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Jens Kristinn Gíslason - 31.07.2020

1. Allar takmarkanir á notkun reiðhjóla í almennri umferð kosta heilbrigðiskerfið útgjöld og hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu. Því þurfa takmarkanirnar að standast skoðun og vera byggðar á málefnalegum grunni.

2. Reglur og lög sem ekki er fylgt eftir, annað hvort vegna þess að þær eru óskýrar eða vegna þess að illframkvæmanlegt er að fylgja þeim, minnka traust og tiltrú á reglum og lögum almennt. Því er mikilvægt að setja ekki slíkar reglur, jafnvel þó þeim sem semur þær þyki málefnið léttvægt.

Athugsemd nr.1: Samkvæmt drögunum er óheimilt að nota “óþægileg” reiðhjól í almennri umferð. Þetta er algjörlega út í hött. Engin rök fyrir þessar takmörkun og engin leið að fylgja þessu eftir.

Athugasemd nr. 2: Samkvæmt drögunum eru glitaugu skyldubúnaður á hjólum bæði í björtu og í myrkri, en ljós eru bara nauðsynleg í myrkri. Ég get ekki séð nein rök fyrir nauðsyn glitaugna í björtu, þetta er dæmi um óþarfa takmörkun.

Athugasemd nr. 3: Samkvæmt drögunum á allur skyldusýnileikabúnaður hjólreiðamanns (þ.e. ljós og glitaugu) að vera áföst hjólinu, enginn sveigjanleiki er til þess að hafa búnaðinn á hjólreiðamanninum. Nú er mjög algengt að hjólreiðamenn hafi endurskin á fötum og ljós á hjálmi, en drögin gefa hjólreiðamönnum ekki svigrúm til að ráða þessu.

Athugasemd nr. 4: Samkvæmt drögunum getur endurskin komið í stað glitaugna í teinum, en ekki í stað annarra glitaugna. Hér er verið að takmarka val á búnaði algjörlega að óþörfu. Aðrir valkostir en glitaugu eru til sem skila sama eða betri sýnileika, en þeir eru hér útilokaðir algjörlega að óþörfu. Hér er heldur engin tilraun gerð til að skilgreina stærð eða gæði glitaugna.

Athugasemd nr. 5: Bjöllur eru skyldubúnaður en aðrir hljóðgjafar bannaðir. Bjöllur geta verið hentugar en það má vel nota köll eða aðra hljóðgjafa með sama árangri. Hér er að óþörfu verið að takmarka val hjólreiðamanns á aðferð til að gefa frá sér hljóðmerki.

Arhugasemd nr. 6: Aðrir hljóðgjafar en bjöllur eru bannaðir samkvæmt drögunum. Hverslags bull er þetta? Ég veit ekki hvar á að byrja. Eru það þokulúðrar eða hátalarar sem skapa svo mikla umferðarhættu (en bara ef þeir eru áfastir reiðhjóli) að setja þarf sérstakar takmarkanir? Þá þarf að skilgreina nánar hvað telst til bannhljóðgjafa og hvernig hægt er að aðgreina þann búnað frá skylduhljóðgjafa (bjöllu). En augljóslega verður þessu aldrei fylgt eftir.

Tillaga nr. 1: Væri ekki ráð að henda þessum 50 ára gömlu reglum í heild sinni og fá reynda samgönguhjólreiðamenn til að gera ný drög frá grunni?

Tillaga nr. 2: Forðast eins og hægt er að takmarka valfrelsi hjólreiðamanna til að ná settum markmiðum, s.s. með því að skilgreina eina tækni umfram aðra, heldur skilgreina frekar markmiðin betur. T.d. má skilgreina nauðsynlegan sýnileika hjólreiðamanns í myrkri án þess að takmarka hvaða tækninog búnaður er notaður til að ná þeim lágmarkssýnileika. Eins má gera kröfu um að hjólreiðamaður geti gefið frá sér skilgreint hljóðmerki (hljóðstyrk, lengd og jafnvel tóntegund má skilgreina) án þess að takmarka þá tækni sem er notuð.

Tillaga nr. 3: Hér þarf að veita hjólreiðamönnum frelsi til að hafa hluta skyldubúnaðar ekki áfastan reiðhjólinu.

Til umhugsunar: í þessum drögum finn ég ekkert um þann búnað sem hefur mest að segja um öryggi mitt í umferðinni í u.þ.b. 6 mánuði ársins, en það eru nagladekkin.

Til umhugsunar: Mín ágiskun er að innan við 10% reiðhjóla sem notuð eru í almennri umferð uppfylli reglur um skyldubúnað sem eru nú í gildi og enginn á vegum hins opinbera gerir neina tilraun til að breyta því. Jafnvel reyndustu samgönguhjólreiðamenn fylgja ekki reglunum því þeir telja þær ekki praktískar. Þessi drög bæta eitthvað úr en ganga alls ekki nógu langt.

Ályktun: Þessar reglur byggja á eldgamalli ímynd um hvað sé vel búið reiðhjól. En nú hefur tækni fleygt fram og við höfum mikið betri mynd af því hvað raunverulega hefur áhrif á umferðaröryggi hjólreiðafólks, mýgrútur er til af vönduðum rannsóknum um það efni (og ekki ein einasta þeirra íslensk).

Almenn umsögn: Drögin eru arfaslök tilraun til að bæta eldgamlar og úreltar reglur sem fáir taka alvarlega, hvort sem um ræðir hjólreiðamenn eða eftirlitsaðila, því reglurnar byggja á áratugagömlum veruleika og byggja ekki á neinum vísindalegum grunni. Drögin eru ekki til þess fallin að bæta stöðuna svo nokkru nemi, því enn er byggt á gamla draslinu. Hendum þessu rusli og byrjum með hvítt blað vopnuð rannsóknum um umferðaröryggi hjólreiðafólks!