Samráð fyrirhugað 24.07.2020—14.08.2020
Til umsagnar 24.07.2020—14.08.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 14.08.2020
Niðurstöður birtar 14.09.2021

Áform um ný lög um uppbyggingu og rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsöguþjónustu

Mál nr. 138/2020 Birt: 24.07.2020 Síðast uppfært: 14.09.2021
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Fjórar umsagnir bárust við áform um lagasetningu. Frá Akureyrarbæ, markaðsstofu Norðurlands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Samstökum ferðaþjónustunnar. Í kjölfarið var ráðist í gerð frumvarps sem lagt var fram á þingi í apríl 2021, sjá meðfylgjandi hlekk.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 24.07.2020–14.08.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 14.09.2021.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra áformar að leggja fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsöguþjónustu sem komi í stað þrennra laga sem nú gilda á þessu sviði.

Um stofnun og starfsemi Isavia ohf. og þau verkefni sem félagið annast fyrir hönd íslenska ríkisins gilda þrenn lög; lög um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, nr. 102/2006, lög um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar nr. 76/2008 og lög um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar nr. 153/2009.

Með fyrri tvennum lögunum var lagður grunnur að stofnun opinberra hlutafélaga um annars vegar rekstur Keflavíkurflugvallar og hins vegar þann flugvallarekstur og þá flugleiðsöguþjónustu sem Flugmálastjórn Íslands hafði annast fram að þeim tíma. Þessi tvö opinberu hlutafélög voru síðan sameinuð í eitt, Isavia ohf., á grundvelli þriðju laganna. Lögin hafa til samans að geyma ýmis ákvæði um stofnun umræddra félaga, hlutverk þeirra og innra starf.

Ákvæði framangreindra laga um rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsögu eru hins vegar dreifð, takmörkuð og að einhverju leyti úrelt. Þá vantar skýr ákvæði um hlutverk flugvalla í heildarsamgöngukerfi landsins og hvernig stefnumörkun samgönguyfirvalda skuli framfylgt. Þessi ákvæði þarf að greina frá öðrum ákvæðum um innra skipulag Isavia ohf.

Stefna hins opinbera á sviði flugvallarekstrar og veitingu flugleiðsöguþjónustu birtist fyrst og fremst í flugstefnu, eigendastefnu Isavia ohf. og samgönguáætlun á hverjum tíma. Löggjöf á þessu sviði þarf að stuðla að því að flugvellir landsins og flugleiðsöguþjónusta þjóni þörfum samfélagsins á skilvirkan og öruggan hátt í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Það skal tekið fram að um almennar kröfur til starfrækslu flugvalla, rekstrarstjórnunar flugumferðar og veitingu flugleiðsöguþjónustu fer samkvæmt lögum um loftferðir, nr. 60/1998, og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Áform þessi varða ekki þá löggjöf.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samband sveitarfél Suðurnesjum - 31.07.2020

Góðan dag,

Í meðfylgjandi viðhengi er að finna umsögn Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum vegna áforma um ný lög um uppbyggingu og rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsöguþjónustu sem komi í stað þrennra laga sem nú gilda á þessu sviði.

Virðingarfyllst,

Berglind Kristinsdóttir

Framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Markaðsstofa Norðurlands - 13.08.2020

Markaðsstofa Norðurlands (MN) sendir inn eftirfarandi umsögn um málið:

• MN fagnar því að stefnt sé að því að einfalda þessa löggjöf og gera hana skilvirkari, þannig að auðveldara sé að framfylgja stefnu stjórnvalda á hverjum tíma.

• MN saknar þess að sjá litla aðkomu ferðaþjónustunnar í hópi hagsmunaaðila. Einungis eru nefndir flugrekendur og ráðuneyti ferðamála, en ekki Íslandsstofa, Markaðsstofur landshlutanna eða SAF svo dæmi sé tekið. Ferðaþjónusta er ein stærsta atvinnugrein landsins og á allt sitt undir því að hér á landi séu vel búnir öruggir flugvellir sem geta þjónað þeim gestum sem hingað vilja koma. MN telur því sjálfsagt að fyrrgreindir aðilar eigi aðkomu að samráði um málið og séu skilgreindir sem hagsmunaaðilar.

Virðingarfyllst,

Arnheiður Jóhannsdóttir

Framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#3 Samtök ferðaþjónustunnar - 14.08.2020

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um áform um ný lög um uppbyggingu og rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsöguþjónustu.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Bestu kveðjur

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Akureyrarbær - 14.08.2020

Áform um ný lög um uppbyggingu og rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsöguþjónustu

Bæjarstjórn Akureyrar fagnar því að stefnt sé að því að einfalda löggjöfina og gera hana skilvirkari.

Hagsmunaaðilar sem taldir eru upp í áformunum eru Isavia ohf., flugrekendur, fyrirtæki með flugtengda starfsemi, stjórnvöld með starfsemi eða hlutverk á flugvöllum, aðilar í almannaflugi og aðrir notendur flugvalla.

Ferðaþjónusta er ein stærsta atvinnugrein landsins og á allt sitt undir því að hér á landi séu vel búnir öruggir flugvellir sem geta þjónað þeim gestum sem hingað vilja koma.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt á að opna nýja gátt inn í landið og uppbygging hafin á Akureyrarvelli í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld.

Það er því ósk okkar að Akureyrarbær verði skilgreindur sem hagsmuna og samráðsaðili í vinnu við ný lög um uppbyggingu og rekstur flugvalla