Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 24.7.–14.8.2020

2

Í vinnslu

  • 15.8.2020–13.9.2021

3

Samráði lokið

  • 14.9.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-138/2020

Birt: 24.7.2020

Fjöldi umsagna: 4

Áform um lagasetningu

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Áform um ný lög um uppbyggingu og rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsöguþjónustu

Niðurstöður

Fjórar umsagnir bárust við áform um lagasetningu. Frá Akureyrarbæ, markaðsstofu Norðurlands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Samstökum ferðaþjónustunnar. Í kjölfarið var ráðist í gerð frumvarps sem lagt var fram á þingi í apríl 2021, sjá meðfylgjandi hlekk.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra áformar að leggja fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsöguþjónustu sem komi í stað þrennra laga sem nú gilda á þessu sviði.

Nánari upplýsingar

Um stofnun og starfsemi Isavia ohf. og þau verkefni sem félagið annast fyrir hönd íslenska ríkisins gilda þrenn lög; lög um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, nr. 102/2006, lög um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar nr. 76/2008 og lög um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar nr. 153/2009.

Með fyrri tvennum lögunum var lagður grunnur að stofnun opinberra hlutafélaga um annars vegar rekstur Keflavíkurflugvallar og hins vegar þann flugvallarekstur og þá flugleiðsöguþjónustu sem Flugmálastjórn Íslands hafði annast fram að þeim tíma. Þessi tvö opinberu hlutafélög voru síðan sameinuð í eitt, Isavia ohf., á grundvelli þriðju laganna. Lögin hafa til samans að geyma ýmis ákvæði um stofnun umræddra félaga, hlutverk þeirra og innra starf.

Ákvæði framangreindra laga um rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsögu eru hins vegar dreifð, takmörkuð og að einhverju leyti úrelt. Þá vantar skýr ákvæði um hlutverk flugvalla í heildarsamgöngukerfi landsins og hvernig stefnumörkun samgönguyfirvalda skuli framfylgt. Þessi ákvæði þarf að greina frá öðrum ákvæðum um innra skipulag Isavia ohf.

Stefna hins opinbera á sviði flugvallarekstrar og veitingu flugleiðsöguþjónustu birtist fyrst og fremst í flugstefnu, eigendastefnu Isavia ohf. og samgönguáætlun á hverjum tíma. Löggjöf á þessu sviði þarf að stuðla að því að flugvellir landsins og flugleiðsöguþjónusta þjóni þörfum samfélagsins á skilvirkan og öruggan hátt í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Það skal tekið fram að um almennar kröfur til starfrækslu flugvalla, rekstrarstjórnunar flugumferðar og veitingu flugleiðsöguþjónustu fer samkvæmt lögum um loftferðir, nr. 60/1998, og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Áform þessi varða ekki þá löggjöf.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (3)

Umsjónaraðili

Skrifstofa samgangna

postur@srn.is