Samráð fyrirhugað 30.07.2020—14.08.2020
Til umsagnar 30.07.2020—14.08.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 14.08.2020
Niðurstöður birtar 16.09.2021

Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017

Mál nr. 140/2020 Birt: 30.07.2020 Síðast uppfært: 16.09.2021
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál
  • Ferðaþjónusta

Niðurstöður birtar

Ákvæði um fargjaldaálag voru lögð fram í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017. Fallið var hins vegar frá því að sinni að leggja til breytingar á ákvæðum laganna um ferðaþjónustuleyfi. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 13. júní 2021, sjá lög nr. 97/2021.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 30.07.2020–14.08.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 16.09.2021.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017.

Í frumvarpinu verður annars vegar lagt til að unnt verði að leggja févíti á þá farþega sem virða ekki reglur um greiðslu fargjalds, aðgangstakmarkanir, notkun aðgangskorta, umgengi eða aðra þætti í þjónustu rekstraraðila reglubundinna farþegaflutninga og hins vegar verður lagt til að afnema það skilyrði að hafa almennt rekstrarleyfi til að fá ferðaþjónustuleyfi.

Áformin um lagasetninguna eru annars vegar tilkomin vegna fyrirhugaðrar breytingar á núverandi fyrirkomulagi fargjalda hjá Strætó bs. sem mun leiða til þess að sala fargjalda verður alfarið utan almenningsvagna og unnt verður að fara í vagnana um báðar dyr. Með breyttu kerfi munu vagnstjórar ekki lengur hafa tök á því að hafa eftirlit með greiðslu fargjalda og virkjun farmiða verður með einfaldari hætti. Með þessari breytingu er hægt að flýta afgreiðslu í vagna og stytta biðtíma á biðstöðvum, einfalda alla umsýslu við almenningssamgöngur og efla þjónustu við viðskiptavini. Til að styðja við og framfylgja þessari þróun er því áformað að leggja til í frumvarpi til breytinga á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017 að rekstraraðila reglubundinna farþegaflutninga verði heimilt að leggja févíti á þá sem koma sér undan gjaldi eða misnota kerfið á einhvern hátt með tilheyrandi tekjutapi fyrir rekstraraðilann.

Hins vegar eru áformin tilkomin vegna fyrirhugaðrar breytingar á ákvæðum laganna um ferðaþjónustuleyfi. Samkvæmt 10. gr. laganna er eitt af skilyrðum þess að fá ferðaþjónustuleyfi að viðkomandi hafi rekstrarleyfi skv. 4. gr. Eitt af skilyrðum rekstrarleyfis er að hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu sem þýðir að aðgangur sé að nægilegu fjármagni til að stofna fyrirtæki og tryggja öruggan rekstur þess. Fyrirtæki verða hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda a.m.k. kr. 1.150.000 fyrir fyrsta ökutæki og kr. 640.000 á hvert ökutæki umfram það. Fjárhagskröfur rekstrarleyfis byggja á Evrópureglum vegna hópferðaaksturs en ferðaþjónustuleyfið er hins vegar sér íslensk útfærsla sem gildir um almenna fólksbifreiðir sem notaðar eru í ferðaþjónustu. Þar sem rekstur á grundvelli ferðaþjónustuleyfis er mun minni í sniðum en rekstur á grundvelli rekstrarleyfis enda um fólksbifreiðar að ræða þykir rétt að leggja til að slakað verði á kröfum um fjárhagsgrundvöll vegna útgáfu ferðaþjónustuleyfis. Því er áformað að leggja til að ekki þurfi lengur að hafa rekstrarleyfi til að fá útgefið ferðaþjónustuleyfi.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Stefán Erlendsson - 13.08.2020

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Sendist rafrænt á srn@srn.is

Reykjavík, 13. ágúst 2020

Tilvísun: 2020070076

SE/

Tilv. ykkar:

Efni: Áform um frumvarp til laga um breyting á lögum um farþegaflutninga- og farmflutninga nr. 28/2017, mál 140/2020 í samráðsgátt stjórnvalda.

Samgönguráðuneytið tilkynnti þann 30. júlí sl. í samráðsgátt stjórnvalda ofangreind áform um frumvarp til laga um breyting á lögum um farþegaflutninga- og farmflutninga nr. 28/2017 og óskaði umsagnar um þau.

Í kynningu á fyrirhuguðu frumvarpi í samráðsgátt kemur fram að efni þess sé tvíþætt, annars vegar að veita rekstraraðilum heimild til að leggja févíti á farþega í almenningssamgöngum og hins vegar niðurfelling þess skilyrðis ferðaþjónustuleyfis að leyfishafi sé með almennt rekstrarleyfi til fólksflutninga.

Áformað frumvarp mun innihalda heimild til að leggja févíti á farþega sem ekki virða reglur um greiðslu fargjalds, notkun aðgangskorta, aðgangstakmarkanir, umgengni og aðra þætti í þjónustu rekstraraðila reglubundinna farþegaflutninga. Er markmið breytinganna að styðja við uppbyggingu og eflingu almenningssamgangna um land allt og uppbyggingu Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Með því að taka upp skilvirkari lausnir við innheimtu fargjalda í almenningssamgöngum er unnt að flýta afgreiðslu vagna, stytta biðtíma og þannig auka þjónustu við notendur þeirra. Einfaldari umsýsla dregur úr kostnaði og eykur þannig hagkvæmni þjónustunnar. Þær lausnir sem horft er til eru þess eðlis að óhjákvæmilega verður auðveldara að komast undan greiðslu fargjalds. Fallast má á að til að bregðast við þessu og skapa varnaðaráhrif sé ekki annarra kosta völ en að gera rekstraraðilum kleyft að leggja á févíti sem viðurlög við slíkum brotum. Að öðrum kosti er hætt við að tekjutap vegna undanskots dragi úr hagkvæmni þeirra lausna sem horft er til.

Vegagerðin fer með skipulag almenningssamgangna á landi sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 28/2017. Með vísan til framangreinds og annarra röksemda sem fram koma í kynningu er Vegagerðin fylgjandi fyrirhuguðu frumvarpi hvað varðar heimild til álagningar févítis vegna brota gegn skyldu til greiðslu fargjalda og annarra brota af hálfu notenda almenningssamgangna.

Virðingarfyllst,

________________________________________

Stefán Erlendsson, lögmaður, LL.M

Forstöðumaður lögfræðideildar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök ferðaþjónustunnar - 14.08.2020

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017.

Ég væri þakklátur fyrir staðfefstingu á móttöku.

Bestu kveðjur

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Daníel Orri Einarsson - 14.08.2020

UMSÖGN Mál nr.140/2020

Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra og Bifreiðastjórafélagið Frami veita hér umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr.28/2017

Umsögn BÍLS og Frama snýr að þeim hluta er fjallar um ferðaþjónustuleyfi.

Stétt leigubifreiðastjóra þykir gild ástæða til þess að benda á að mikill samdráttur ríkir í stéttinni og núverandi leyfishafar leigubifreiða berjast hreinlega í bökkum við að halda rekstri og komast af við einstök skilyrði. Mikill fjöldi, eða 14% leyfa leigubifreiðaaksturs eru í innlögn þegar þessi umsögn er rituð. Þeir leyfishafar sem hafa lagt inn leyfi sín, bíða eftir að ástandið batni þannig að það verði mögulegt að hefja rekstur á ný. Því er brýnt að minnast á þá þróun sem hefur átt sér stað undanfarið í umhverfi fólksflutninga.

Við bendum á að samkvæmt 10.gr laga nr.28/2017 segir svo:

10. gr.

Ferðaþjónustuleyfi.

Samgöngustofu er heimilt að veita sérstakt leyfi til farþegaflutninga í ferðaþjónustu, enda þótt notaðar séu bifreiðar sem rúma færri farþega en níu. Skilyrði slíks leyfis er að það sé notað í tengslum við ferðaþjónustu og skal umsækjandi hafa rekstrarleyfi annaðhvort sem ferða-skipuleggj¬andi eða ferðaskrifstofa auk þess að hafa almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr. Þjónustan skal veitt samkvæmt gjaldi sem er birt eða auglýst fyrir fram, eigi skemur en sem hálfsdagsferð eða sem hluti af annarri viðurkenndri ferðaþjónustu, þ.m.t. flutningur farþega til og frá sérhæfðri afþreyingu sem er hluti af ferðaþjónustu.

Ökutæki ferðaþjónustuleyfishafa skulu vera merkt rekstraraðila.

Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um skilyrði fyrir veitingu ferða¬þjón¬ustu-leyfis, svo sem um eiginleika ökutækja, nauðsynlegan búnað og sérstakar merkingar og um undan¬þágur frá skilyrði um merkingar ökutækja.

Þrátt fyrir að kveðið sé á um þá vinnuskyldu í lagagreininni að bifreiðar í ferðaþjónustuleyfi skuli sinna akstri eigi skemur en sem nemur hálfsdags ferð eða hluta af annarri viðurkenndri ferðaþjónustu, þá hafa bifreiðar með slík ferðaþjónustuleyfi, sést ítrekað sinna annars konar akstri með ferðamenn, svo sem stuttum ferðum milli tveggja staða sem taka innan við klukkustund að ljúka. Hér má til dæmis nefna 4-8 farþega ökutæki sem auglýst eru í fastar ferðir milli flugvallar og höfuðborgarsvæðisins og öðrum er jafnvel stillt upp á hafnarbakka við komu farþegaskipa. Þessi brot á síðasta bilinu sem skilur á milli ferðaþjónustubifreiðar og leigubifreiðar, hafa oft verið tilkynnt ýmist til Samgöngustofu og lögreglu, þar sem viðbrögðin hafa tafist og gleymst í kerfinu vegna manneklu og lítilla undirtekta eftirlitsaðila. Af því má draga Þá ályktun, að eftirlitsaðilar hafi ekki bolmagn eða fjármagn til þess að sinna því eftirliti sem ábótavant og nauðsynlegt er, með öllum þeim fjölda leyfa og ökutækja í fólksflutningum á landi. Þetta er bæði vitnisburður leigubifreiðastjóra og annarra aðila í ferðaþjónustunni, sem nú álíta hið lögboðna eftirlit ómögulegt í framkvæmd sinni, sér í lagi við þær aðstæður sem hafa þróast og búið er nú við, eftir að leyfum hefur fjölgað á undanförnum árum í ferðaþjónustu á mjög útbreiddu svæði. Árið 2014, áður en ferðaþjónustuleyfin urðu að lögum og voru til umræðu, bentum við Samgönguráðuneytinu á þessa verðandi þróun, að 4 til 8 farþega ökutæki myndu ná inn á starfssvið leigubifreiðaaksturs og þar með hafa vinnu af leigubifreiðastjórum. Fimm árum síðar, þann 22.ágúst 2019 hélt Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra árlegt Norðurlandaþing Taxaráðs þar sem Bandalagið lagði fram samantekt um fjölda allra starfandi leyfa í fólksflutningum á landi gegn gjaldi og fjölda skráðra ökutækja í þeim leyfum. Tölurnar eru sláandi, enda voru yfir 4000 ökutæki skráð í umferð fyrir fólksflutninga gegn gjaldi. Þau voru í samtals 1591 leyfi, ýmist hópferða, limmósía, breyttra ökutækja ferðaþjónustu, ferðaþjónustuleyfa og þar meðal leigubifreiða, sem voru 671. Auk þess voru hér landi til viðbótar ótal bifreiðar á erlendum skráningarnúmerum og þar af leiðandi ekki skráðar hérlendis. Þegar B.Í.L.S. vann við samantektina hafði komið á daginn að Samgöngustofa gat ekki veitt upplýsingar um hver fjöldi ökutækja væri skráður í hverju leyfi fyrir sig eða hver heildarfjöldinn væri. Var þá brugðið til þess að leita til forritara hjá bifreiðaskrá til þess að fá þessar áðurnefndu upplýsingar upp gefnar. Þetta þykir okkur slæmt til afspurnar, að sá aðili stjórnsýslunnar sem gefur út leyfi til fólksflutninga af öllu tagi, hafi ekki milli handanna upplýsingar um hver heildarfjöldi ökutækjanna sé í þeim útgefnu leyfum. Þá fjölluðum við á Norðurlandaþinginu um þann vágest, að ef og þegar ferðaþjónusta og heimsóknir erlendra gesta til landsins minnkuðu, gætu margir úr ferðaþjónustu farið að seilast inn á starfssvið leigubifreiða. Það segir sig sjálft að það hljóta að vera takmörk fyrir því hve margir geti sinnt leiguakstri og haft af því tekjur. Það getur ekki annað en endað með ósköpum, þegar margir bítast um sama bitann.

Nú á dögum þegar harðnað hefur á dalnum hjá samfélaginu í heild sinni og Ríkisstjórnin boðar langtíma viðbragðsáætlun til þess að halda uppi atvinnustigi og tryggja afkomu fólks í landinu, birtist þetta frumvarp alveg þvert á þá stefnu. Leigubifreiðastjórar þrauka við óvissu og halda áfram rekstri, þá er einnig vel þekkt hve flestum ferðaþjónustuaðilum hefur gengið erfiðlega að framfleyta sínu á tímum Covid faraldursins. Langt er í land að allir geti rétt úr kútnum og er ekki enn fyrirséð hvað það muni taka langan tíma. Þannig getur það ekki þótt sanngjarnt að ætla með lagabreytingu, hleypa nýjum aðilum inn á sveltandi markað og frýja þeim að uppfylla þau sömu skilyrði og þeir sem fyrir eru, þurftu að uppfylla til þess að fá þessi leyfi.

B.Í.L.S. biðlar til stjórnvalda að íhuga málin vel, virða lágmarksnýtingu dagsferða ferðaþjónustuleyfa, skoða tölulegar staðreyndir og taka tillit til afkomu leigubifreiðastjóra og til öryggis almennra farþega.

f.h. stjórnar B.Í.L.S. og Frama

Daníel Orri Einarsson formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Ársæll Hauksson - 14.08.2020

Varðandi breytingu á lögum nr.28/2017 langar mér að gera eftirfarandi athugasemdir.

Í fyrsta lagi varðandi það að leggja févíti á farþega í almenningsamgöngum þá er það algjörlega fáranleg tilhögun. Í fyrsta lagi þá hefur núverandi fyrirkomulag virkað ágætlega í áratugi án mikils tekjutaps fyrir Strætó. Í öðru lagi þá væri bæði sanngjarnara og umhverfisvænna að bjóða uppá ókeypis ferðir með strætó, eins og gert er í öðrum sveitarfélögum. Notkun á Strætó hefur ekki aukist í hlutfalli við íbúafjölgun og fjölgun ferðamanna. Svo má benda á að það getur verið ruglingslegt þegar sum sveitarfélög bjóða ókeypis ferðir en önnur beita lögregluvaldi til innheimtu á fargjaldi.

Varðandi breytingu á lögum á rekstrarleyfi þá er það mikil afturför ef ekki verður krafist einhverskonar tryggingar eða réttinda til að stunda farþegaflutninga gegn gjaldi. Þessi lagabálkur er mikill bastarður og eftirlit ekkert. Enginn hefur yfirsýn hverjir eru að stunda akstur með ferðamenn eða hvort viðkomandi hefur réttindi til aksturs með þá.

Ég held að það sé betra að huga betur að tryggingum og réttindum þeirra sem hafa leyfi til þess að stunda þennan akstur. Ég legg til að horfið verði frá þessari breytingu á 10.gr laga um rekstrarleyfi.

Virðingafyllst Ársæll Hauksson

Afrita slóð á umsögn

#5 Hreyfill svf. ( Samvinnufélagið Hreyfill ) - 14.08.2020

Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið

Sölvahólsgötu 7

150 Reykjavík

14. ágúst 2020

Efni: Umsögn Hreyfils svf. um áform um lagasetningu um breytingu á lögum um farþega- og farmflutninga á landi nr. 28/2017.

Áformað er að breyta ákvæði 10. gr. laga um farþegaflutninga með þeim hætti að slakað verði á kröfum um fjárhagsgrundvöll vegna ferðaþjónustuleyfis. Eitt af skilyrðum rekstrarleyfis er að hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu. Í stað þess að gera kröfu um að aðgangur sé að nægilegu fjármagni til að stofna fyrirtæki og tryggja öruggan rekstur þess á að miða við að leyfishafi sé fjár sín ráðandi.

Markmið breytinga á 10. gr. laganna er að styrkja innviði samgangna. Það á að gera það með því að draga úr íþyngjandi lagaákvæðum sem ferðaþjónustan býr við og færa rekstrarumhverfi þeirra sem fá ferðaþjónustuleyfi til samræmis við sambærilega þjónustu. Þjónusta leigubifreiða er talin vera sambærileg þjónusta. Þá kemur fram að samkeppnisstaða handhafa ferðaþjónustuleyfa skekkist gagnvart þjónustu leigubifreiða verði ekkert aðhafst. Sérstaklega er fullyrt að þjónusta leigubifreiða veiti sambærilega þjónustu og handhafar ferðaþjónustuleyfa.

Áður en lengra er haldið verður að fjalla nánar um forsögu ferðaþjónustuleyfis og inntak þess. Umhverfis- og samgöngunefnd lagði til breytingu á frumvarpi því er varð að lögum nr. 28/2017 og lagði til að lögfest yrði ákvæði 10. gr. laganna um ferðaþjónustuleyfi. Í nefndaráliti kom skýrt fram að gæta þyrfti aðgreiningar milli ferðaþjónustu og leigubifreiða. Þær hömlur voru lagðar á notkun ferðaþjónustuleyfis að eingöngu mætti nýta leyfið til að sinna þjónustu sem veitt væri samkvæmt fyrirfram umsömdu gjaldi og væri að ræða a.m.k. hálfsdagsferð eða hluta af annarri viðurkenndri ferðaþjónustu, svo sem veiði, snjósleðaferðir, hestaferðir, flúðasiglingar o.s.frv. Þessi skilyrði koma fram í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 28/2017.

Með vísan til framangreinds verður að gera alvarlega athugasemd við markmið áformanna, um að styrkja innviði samgangna og rétta af samkeppnisstöðu handhafa ferðaþjónustuleyfa gagnvart þjónustu leigubifreiða. Skýr greinarmunur á að vera milli þjónustu á grundvelli annars vegar laga nr. 134/2001, um leigubifreiða, og hins vegar ferðaþjónustuleyfis samkvæmt 10. gr. laga nr. 28/2017. Leigubílstjórar og ferðaþjónustufyrirtæki eru því á ólíkum mörkuðum. Það er því rangt að líta svo á að um sambærilega þjónustu sé að ræða og samkeppnissjónarmið eiga ekki við. Farþegaflutningar á grundvelli ferðaþjónustuleyfis er ekki ætlað að styrkja innviði samgagna.

Að þessu athuguðu verður að gera athugasemdir við þá leið sem er valin. Í áformum ráðuneytisins er vísað til þess að ábending hafi borist frá Samgöngustofu um að rétt væri að endurskoða fjárhagskröfur þeirra sem hafi ferðaþjónustuleyfi. Það er eitt að nokkrum skilyrðum rekstrarleyfis, sbr. 5. gr. laganna. Meðal skilyrða um almennt rekstrarleyfa er að umsækjandi hafi viðeigandi starfshæfni.

Áformin fela aftur á móti í sér að fellt verði brot skilyrði um almennt rekstrarleyfi samkvæmt 4. gr. laganna. Ekki kemur fram hvaða skilyrði eigi að vera fyrir farþegaflutningum á grundvelli ferðaþjónustuleyfis eftir að skilyrði um almennt rekstrarleyfi hefur verið afnumið. Ferðaþjónustuleyfi er séríslenskt úrræði sem nú er tekið úr tengslum við almenn skilyrði farþegaflutninga án þess að tengja það þá við eftirlit með leigubifreiðum. Eina skilyrðið virðist því vera að bifreið sé ekið í tengslum við skipulagða dagsferð og engar kröfur gerðar um starfshæfni.

Eðlilegra er að bæta við ákvæði um að ekki sé gerð krafa um tiltekna fjárhagsstöðu ef það er markmiðið. Sérstaklega væri unnt bæta við málsgrein við 5. gr. Í slíku ákvæði væri kveðið á um að heimilt væri að veita almennt rekstrarleyfi, án þess að skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. væri uppfyllt, til umsækjanda ferðaþjónustuleyfis skv. 10. gr. sé hann fjár síns ráðandi.

Óskýrar skilgreiningar og undanþágur geta gert eftirlitsaðilum erfitt fyrir. Ágreiningur íbúa við Laugaveg um hvaða umferð megi fara um „göngugötuna“ er ágætt dæmi um slíkt vandamál. Lögreglan hefur bent á að erfitt geti verið að meta hvort umferð ökutækja sé í samræmi við lög. Óskýr regla um ferðaþjónustuleyfi er til þess fallin að flækja eftirlit með akstri í atvinnuskyni.

Leyfisveitingar eru í grunninn hugsaðar til að auðvelda eftirlit með starfsemi. Áformað er að fella úr gildi tengsl ferðaþjónustuleyfis við almenn skilyrði laga um farþegaflutninga í 4. gr. og án þess að færa starfsemina undir eftirlit með leigubifreiðaakstri. Heimild til farþegaflutninga á grundvelli ferðaþjónustuleyfis er undantekningarákvæði. Reglur um leyfisveitingar í tengslum við farþegaflutninga í atvinnuskyni eru settar til að tryggja öryggi farþega og ákveðna neytendavernd. Það er því mikilvægt að Samgöngustofu sé unnt að hafa eftirlit með því hvort hæfir ökumenn sinni akstri og skýrt sé kveðið á um hvaða hæfniskröfur eru gerðar.

Áform um að afnema skilyrði um almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr. laga nr. 28/2017 fyrir ferðaþjónustuleyfi samkvæmt 10. gr. ganga mikið lengra en athugasemdir Samgöngustofu gáfu tilefni til. Markmið áformanna er í ósamræmi við nauðsynlega aðgreiningu á þjónustu leigubifreiða og skipulögðum ferðum ferðaþjónustufyrirtækja.

Í ljósi þess að Hreyfill hefur um áratugaskeið starfað sem bifreiðastöð hér á landi er eðlilegt að ákveðið tillit verði tekið til sjónarmiða og röksemda félagsins.

Fyrirsvarsmenn Hreyfils eru reiðubúnir til funda til að gera grein fyrir ofangreindum athugasemdum og þeim sjónarmiðum sem þar birtast. Tekið skal fram að félagið áskilur sér rétt til að koma að frekari athugasemdum en hér greinir.

Virðingarfyllst,

f.h. Hreyfils svf.

Hallgrímur Guðrúnarson, Haraldur Axel Gunnarsson,

formaður stjórnar. framkvæmdastjóri.

Afrita slóð á umsögn

#6 Samband íslenskra sveitarfélaga - 16.08.2020

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um áformaskjalið.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi