Samráð fyrirhugað 07.08.2020—21.08.2020
Til umsagnar 07.08.2020—21.08.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 21.08.2020
Niðurstöður birtar 20.11.2020

Breyting á barnalögum (breytt kynskráning foreldra)

Mál nr. 141/2020 Birt: 07.08.2020 Síðast uppfært: 20.11.2020
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Alls bárust 2 umsagnir í samráðsgáttinni og 3 umsagnir á síðari stigum. Í samráðskafla frumvarpsins er nánar fjallað um athugasemdir og viðbrögð við þeim en frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 07.08.2020–21.08.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.11.2020.

Málsefni

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði I í lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 var ráðherra falið að skipa starfshóp til að m.a. fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar eru til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks. Frumvarpið byggir á tillögum starfshópsins.

Í frumvarpinu er lagt til að við barnalög, nr. 76/2003, verði bætt nýjum ákvæðum sem mæla fyrir um foreldrisstöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Breytingarnar miða að því að tryggja réttindi foreldra með breytta kynskráningu og gera þá jafnsetta öðrum foreldrum. Íslensk lög hafa ekki gert það að skilyrði fyrir breytingu á kynskráningu trans fólks að það gangist undir ófrjósemisaðgerð eins og gert hefur verið í ýmsum löndum til skamms tíma. Því er vel hugsanlegt að trans maður gangi með og ali barn og að trans kona geti barn. Þessir möguleikar voru reyndar fyrir hendi fyrir setningu laga um kynrænt sjálfræði en ekki hafa verið gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum til að samræma þau þessum veruleika. Lög um kynrænt sjálfræði heimila einstaklingum að hafa hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá og þurfa foreldrareglur barnalaga jafnframt að taka mið af því.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að merking orðsins faðir sé sú sama og í gildandi lögum, þ.e. að faðir sé karlkyns foreldri. Samkvæmt því telst karlmaður sem elur barn eftir breytingu á kynskráningu sinni faðir þess. Þetta þýðir að sá möguleiki verður fyrir hendi að barn eigi tvo feður. Til samræmis er lögð til breytt skilgreining hugtaksins móðir í barnalögum þannig að það eigi við um kvenkyns foreldri en ekki einungis um konu sem elur barn. Breytingin hefur í för með sér að barn getur átt tvær mæður, þ.e. ef móðirin sem elur það er í hjúskap eða sambúð með annarri konu. Vegna breyttrar merkingar hugtaksins er nauðsynlegt að breyta þeim ákvæðum barnalaga og annarra laga sem mæla fyrir um sérstök réttindi til handa móður vegna meðgöngu og barnsburðar. Þá er lagt til í frumvarpinu að hugtakið foreldri í þrengri merkingu verði notað um foreldra sem hafa hlutlausa kynskráningu enda er orðið ekki kyngreinandi.

Með frumvarpinu er lagt til að foreldrisregla, hliðstæð pater est-reglu 2. gr. barnalaga, gildi um ákvörðun foreldrisstöðu foreldris með breytta kynskráningu sem er í hjúskap eða skráðri sambúð með foreldrinu sem ól barnið. Þessa reglu mætti kalla parens est-reglu. Með tilliti til þeirrar forsendu barnalaga að slíkar reglur grundvallist á yfirgnæfandi líkum á að makinn sé líffræðilegt foreldri er lagt til að parens est-regla eigi einungis við ef upphafleg kynskráning foreldra útilokar ekki líffræðileg tengsl makans við barnið. Reglan getur því ekki átt við í hjónaböndum eða sambúð einstaklinga sem höfðu upphaflega sömu kynskráningu. Ástæða er til að árétta að parens est-reglan gildir ekki um það þegar hjón eða sambúðarfólk eignast barn sem getið er við tæknifrjóvgun. Gert er ráð fyrir að sérstakar reglur gildi um foreldrisstöðu við þær aðstæður. Ef parens est-reglan á ekki við verður foreldrisstaða foreldris með breytta kynskráningu, þ.e. þess sem ekki ól barnið, ákvörðuð með foreldrisviðurkenningu, sem er í öllum aðalatriðum sambærileg faðernisviðurkenningu, eða dómsmáli skv. II. kafla barnalaga. Það gildir þó einnig um regluna um foreldrisviðurkenningu að hún getur einungis átt við ef upphafleg kynskráning útilokar ekki líffræðileg tengsl foreldrisins við barnið.

Lagðar eru til sérstakar reglur um ákvörðun foreldrisstöðu foreldra sem breytt hafa kynskráningu sinni þegar barn er getið við tæknifrjóvgun. Annars vegar er um að ræða reglur um foreldrisstöðu þess foreldris sem elur barnið, þ.e. karlmaður sem elur barn telst faðir þess og einstaklingur með hlutlausa kynskráningu telst foreldri barns sem hann elur. Hins vegar eru reglur um foreldrisstöðu hins foreldrisins og eru þær hliðstæðar reglum 6. gr. barnalaga.

Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Freyr Björnsson - 11.08.2020

Góðan dag.

Ég skrifa til þess að mótmæla þessum fyrirhuguðu lagabreytingum. Hagsmunirnir sem verið er að vega að með þessari lagasetningu er málskilningur og siðferðisskilningur landsmanna á hugtökunum ´móðir´ og ´faðir´ - hugtök sem standa öllum nær. Með fullri virðingu fyrir réttindum transfólks - þá trompa þau réttindi ekki rétt almennings til þess halda málvenjum sínum og hefðbundnum siðferðisskilningi á hugtökum sem er honum mjög kær. Breyting í þá átt sem lagafrumvarpið felur í sér mun auka siðfrof - í eiginlegum skilningi þess orðs (fr. anomie) - í samfélaginu, og nóg er um slíkt siðrof nú þegar í samtímanum.

Það er ekkert sem kallar á þessar breytingar - ekki ´laga´ það sem ekki þarfnast lagfæringar. Hagsmunir þorra manna trompa hér hagsmuni minnihlutans - vinsamlegast virðið hagsmuni og vilja meiri Íslendinga í þessu máli.

Virðingarfyllst,

Freyr Björnsson

Afrita slóð á umsögn

#2 Samband íslenskra sveitarfélaga - 20.08.2020

Góðan daginn

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga

Viðhengi