Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi 16. desember 2020. Í 5. kafla í greinargerð með frumvarpi til laganna er fjallað um umsagnir í samráðsgáttinni.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 07.08.2020–28.08.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 22.06.2021.
Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 var kveðið á um skipan starfshóps sem var meðal annars falið að endurskoða aldursviðmið laganna til lækkunar vegna réttar til að breyta skráningu kyns. Frumvarpið byggir á tillögum starfshópsins.
Í upphaflegu frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði sem lagt var fyrir Alþingi, sjá þskj. 1184, 752. mál, á 149. löggjafarþingi 2018‒2019, var miðað við að ungmenni sem náð hefðu 15 ára aldri hefðu sjálfstæðan rétt til að taka ákvörðun um að breyta kynskráningu en að börn yngri en 15 ára gætu með fulltingi forsjáraðila tekið slíka ákvörðun. Hefði barnið ekki stuðning forsjáraðila, annars eða beggja, gæti það breytt skráningu kyns síns með samþykki sérfræðinefndar skv. 9. gr. frumvarpsins.
Að frumkvæði meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar var gerð sú breyting á frumvarpinu við meðferð málsins á Alþingi að aldursviðmiðið var hækkað í 18 ár. Í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar segir að komið hafi fram sjónarmið um að varhugavert væri að börn frá 15 ára aldri gætu breytt skráningu á kyni án þess að afstaða forsjáraðila lægi fyrir. Var í því samhengi bent á að andstaða foreldra gæti reynst barni þungbær og að í slíkum tilvikum þyrfti að tryggja barninu og fjölskyldunni stuðning og ráðgjöf. Jafnframt þyrfti að huga að börnum með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir. Við meðferð málsins komu einnig fram sjónarmið um að 15 ára aldursviðmið samræmdist vel stigvaxandi rétti barna til að hafa áhrif á eigið líf. Í nefndaráliti sínu lýsti meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar yfir skilningi á báðum sjónarmiðum. Taldi meirihlutinn rétt að miða aldursviðmiðið við 18 ár að svo komnu máli en fela starfshópi samkvæmt bráðabirgðaákvæði að kanna hvort æskilegt væri að aldursviðmiðið yrði 15 ár að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða. Var frumvarpið samþykkt með þessari breytingu.
Starfshópur sem skipaður var á grundvelli bráðabirgðaákvæðis II í lögum um kynrænt sjálfræði haustið 2019 skilaði skýrslu til forsætisráðherra þar sem meðal annars er fjallað um endurskoðun aldursviðmiðs vegna réttar til að breyta skráningu kyns. Niðurstaða starfshópsins er að sjálfstæður réttur til að breyta opinberri skráningu kyns ætti að miðast við 15 ára aldur. Starfshópurinn telur að unglingar hafi við þann aldur almennt nægan þroska til að taka afstöðu til þess hvort rétt sé fyrir þau að breyta kynskráningu og geri sér grein fyrir afleiðingum þeirrar ákvörðunar. Í skýrslu sinni leggur starfshópurinn þó áherslu á að jafnframt verði að tryggja stuðning við unglinga sem ekki njóta stuðnings forsjáraðila við breytingu á skráningu kyns og bendir á leiðir til þess. Þá leggur starfshópurinn til að réttur einstaklinga undir 18 ára aldri til að breyta aftur kynskráningu sinni verði ekki háður takmörkun 7. gr. laga um kynrænt sjálfræði sem felur í sér að breyting á skráningu kyns og samhliða nafnbreyting sé aðeins heimil einu sinni nema sérstakar ástæður séu til annars.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 4. og 5. gr. laga um kynrænt sjálfræði þess efnis að réttur til að breyta opinberri skráningu kyns, og samhliða nafni, miðist við 15 ára aldur í stað 18 ára. Lagt er til að sérhver einstaklingur sem náð hefur 15 ára aldri hafi rétt til þess að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá. Að því er varðar börn yngri en 15 ára er gert ráð fyrir að þau geti með fulltingi forsjáraðila sinna breytt opinberri skráningu kyns síns. Með frumvarpinu er einnig lagt til að takmarkanir 7. gr. laga um kynrænt sjálfræði, sem fela í sér að breyting á skráningu kyns og samhliða nafnbreyting sé aðeins heimil einu sinni nema sérstakar ástæður séu til annars, gildi ekki um einstaklinga yngri en 18 ára.
Með frumvarpi þessu er lokið þeirri endurskoðun á ákvæðum 4. og 5. gr. laga um kynrænt sjálfræði sem óskað var eftir á Alþingi við samþykkt laganna.
Nú á tímum þegar skilningur á þessu máli er eins mikill og hann er, þá opna börn fyrr á tjáningu kynvitundar. Sonur minn fæddist í líkama stúlku, en 4-5 ára var hann orðinn strákalegri en ég á þeim aldri.
Þess vegna tel ég að ekki sé nógu langt gengið með þessum lögum og mundi vilja sjá aldurinn 12 ára.
Ennfremur þarf að skoða hvort ekki megi leyfa krökkum að vera samferða jafnöldrum sínum gegnum kynþroskann,
en þá er ég að tala um örlítið af kynhormónum upplifaðs kyns, ásamt þeim blokkerum sem nú eru almennt gefnir.
Sonur minn er 12 ára núna og sér nú hvern vininn á fætur öðrum fara í mútur. Í fótboltanum eru strákarnir líka orðnir skotfastari, harkalegri og grimmari, en sonur minn fær líklega ekkert testósterón fyrr en eftir dúk og disk - og hann upplifir ósanngirni og mismunun í þessu. Þarna vantar lagaheimild fyrir að minnsta kosti þónokkurn hóp transbarna.
Góðan dag,
Umsögn Trans Íslands, félags trans fólks á Íslandi, má finna í viðhengi.
F. h. Trans Íslands, félags trans fólks á Íslandi
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir,
Formaður
ViðhengiTil þess er málið varðar.
Umsögn Samtakanna '78 - félag hinsegin fólks á Íslandi, má finna hér í viðhengi.
F. h. Samtakanna '78
Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður
ViðhengiUmsögn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 (breytt aldursviðmið)
Barnaheill - Save the Children á Íslandi fagna framkomnum drögum að frumvarpi og lýsa ánægju sinni yfir þeirri viðurkenningu sem komin er fram á rétti barna til þátttöku í ákvörðunum um aðgerðir til varanlegrar breytingar á ódæmigerðum kyneinkennum sínum.
Barnaheill styðja við efni draganna í þeirri mynd sem þau nú eru og telja stigið heillaskref í átt að aukinni virðingu gagnvart mannréttindum barna.
Hvað varðar ákvörðun um hvenær barni gefst færi á að breyta skráningu á kyni sínu þá styðja Barnaheill við að börnum gefist færi á því við 15 ára aldur eins og lagt er til í frumvarpsdrögunum. Hins vegar hvetja Barnaheill til þess að börnum verði gert kleift að breyta skráningu sinni fyrr ef, að lokinni ítarlegri skoðun og mati á lífi barns í samráði við barnið og forsjárfólk þess, það er ljóst að barnið vill að skráningu kyns síns verði breytt og talið er ljóst að það eigi við.
Barnaheill hvetja til þess að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi sem fyrst til samþykktar.
Barnaheill vinna að bættum mannréttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi