Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 7.–28.8.2020

2

Í vinnslu

  • 29.8.2020–21.6.2021

3

Samráði lokið

  • 22.6.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-142/2020

Birt: 7.8.2020

Fjöldi umsagna: 4

Drög að frumvarpi til laga

Forsætisráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Breyting á lögum um kynrænt sjálfræði (aldursskráning)

Niðurstöður

Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi 16. desember 2020. Í 5. kafla í greinargerð með frumvarpi til laganna er fjallað um umsagnir í samráðsgáttinni.

Málsefni

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 var kveðið á um skipan starfshóps sem var meðal annars falið að endurskoða aldursviðmið laganna til lækkunar vegna réttar til að breyta skráningu kyns. Frumvarpið byggir á tillögum starfshópsins.

Nánari upplýsingar

Í upphaflegu frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði sem lagt var fyrir Alþingi, sjá þskj. 1184, 752. mál, á 149. löggjafarþingi 2018‒2019, var miðað við að ungmenni sem náð hefðu 15 ára aldri hefðu sjálfstæðan rétt til að taka ákvörðun um að breyta kynskráningu en að börn yngri en 15 ára gætu með fulltingi forsjáraðila tekið slíka ákvörðun. Hefði barnið ekki stuðning forsjáraðila, annars eða beggja, gæti það breytt skráningu kyns síns með samþykki sérfræðinefndar skv. 9. gr. frumvarpsins.

Að frumkvæði meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar var gerð sú breyting á frumvarpinu við meðferð málsins á Alþingi að aldursviðmiðið var hækkað í 18 ár. Í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar segir að komið hafi fram sjónarmið um að varhugavert væri að börn frá 15 ára aldri gætu breytt skráningu á kyni án þess að afstaða forsjáraðila lægi fyrir. Var í því samhengi bent á að andstaða foreldra gæti reynst barni þungbær og að í slíkum tilvikum þyrfti að tryggja barninu og fjölskyldunni stuðning og ráðgjöf. Jafnframt þyrfti að huga að börnum með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir. Við meðferð málsins komu einnig fram sjónarmið um að 15 ára aldursviðmið samræmdist vel stigvaxandi rétti barna til að hafa áhrif á eigið líf. Í nefndaráliti sínu lýsti meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar yfir skilningi á báðum sjónarmiðum. Taldi meirihlutinn rétt að miða aldursviðmiðið við 18 ár að svo komnu máli en fela starfshópi samkvæmt bráðabirgðaákvæði að kanna hvort æskilegt væri að aldursviðmiðið yrði 15 ár að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða. Var frumvarpið samþykkt með þessari breytingu.

Starfshópur sem skipaður var á grundvelli bráðabirgðaákvæðis II í lögum um kynrænt sjálfræði haustið 2019 skilaði skýrslu til forsætisráðherra þar sem meðal annars er fjallað um endurskoðun aldursviðmiðs vegna réttar til að breyta skráningu kyns. Niðurstaða starfshópsins er að sjálfstæður réttur til að breyta opinberri skráningu kyns ætti að miðast við 15 ára aldur. Starfshópurinn telur að unglingar hafi við þann aldur almennt nægan þroska til að taka afstöðu til þess hvort rétt sé fyrir þau að breyta kynskráningu og geri sér grein fyrir afleiðingum þeirrar ákvörðunar. Í skýrslu sinni leggur starfshópurinn þó áherslu á að jafnframt verði að tryggja stuðning við unglinga sem ekki njóta stuðnings forsjáraðila við breytingu á skráningu kyns og bendir á leiðir til þess. Þá leggur starfshópurinn til að réttur einstaklinga undir 18 ára aldri til að breyta aftur kynskráningu sinni verði ekki háður takmörkun 7. gr. laga um kynrænt sjálfræði sem felur í sér að breyting á skráningu kyns og samhliða nafnbreyting sé aðeins heimil einu sinni nema sérstakar ástæður séu til annars.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 4. og 5. gr. laga um kynrænt sjálfræði þess efnis að réttur til að breyta opinberri skráningu kyns, og samhliða nafni, miðist við 15 ára aldur í stað 18 ára. Lagt er til að sérhver einstaklingur sem náð hefur 15 ára aldri hafi rétt til þess að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá. Að því er varðar börn yngri en 15 ára er gert ráð fyrir að þau geti með fulltingi forsjáraðila sinna breytt opinberri skráningu kyns síns. Með frumvarpinu er einnig lagt til að takmarkanir 7. gr. laga um kynrænt sjálfræði, sem fela í sér að breyting á skráningu kyns og samhliða nafnbreyting sé aðeins heimil einu sinni nema sérstakar ástæður séu til annars, gildi ekki um einstaklinga yngri en 18 ára.

Með frumvarpi þessu er lokið þeirri endurskoðun á ákvæðum 4. og 5. gr. laga um kynrænt sjálfræði sem óskað var eftir á Alþingi við samþykkt laganna.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa jafnréttismála

for@for.is