Samráð fyrirhugað 07.08.2020—28.08.2020
Til umsagnar 07.08.2020—28.08.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 28.08.2020
Niðurstöður birtar 22.06.2021

Breyting á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði

Mál nr. 143/2020 Birt: 07.08.2020 Síðast uppfært: 22.06.2021
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi 16. desember 2020. Í 5. kafla í greinargerð með frumvarpi til laganna er fjallað um umsagnir í samráðsgáttinni.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 07.08.2020–28.08.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 22.06.2021.

Málsefni

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði I í lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 var ráðherra falið að skipa starfshóp til að fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar eru til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks. Frumvarpið byggir á tillögum starfshópsins.

Þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera á lögum vegna samþykktar laga um kynrænt sjálfræði falla að meginstefnu til í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða breytingar sem til koma vegna þess að lög um kynrænt sjálfræði heimila einstaklingum að hafa hlutlausa kynskráningu. Heimildin gerir það að verkum að í lagaákvæðum sem fela í sér kyngreiningu (karl, kona o.fl.) verður að gera jafnframt ráð fyrir þeim hópi sem kýs að hafa hlutlausa kynskráningu. Hins vegar þarf að huga að breytingum á ýmsum lögum til að tryggja foreldrastöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Íslensk lög hafa ekki gert það að skilyrði fyrir breytingu trans fólks á kynskráningu sinni að viðkomandi gangist undir ófrjósemisaðgerð. Því er það vel hugsanlegt að trans maður gangi með og ali barn og að trans kona geti barn. Þessir möguleikar voru reyndar fyrir hendi fyrir setningu laga um kynrænt sjálfræði en ekki hafa verið gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum til að samræma þau þessum veruleika.

Fjöldamörg íslensk lög hafa að geyma ákvæði sem fela í sér kyngreiningu. Ekki er brýn þörf á að breyta öllum þessum ákvæðum enda má gera ráð fyrir að sumum þeirra að minnsta kosti yrði beitt með rýmkandi skýringu, eða eftir atvikum lögjöfnun, um einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Tvær meginaðferðir koma til greina við að innleiða þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru. Annars vegar er hægt að breyta lögum á þann veg að þau verði kynhlutlaus. Hins vegar er hægt að setja sérákvæði um einstaklinga sem breytt hafa kynskráningu sinni. Í frumvarpi þessu eru báðar aðferðir notaðar og fer það eftir efni ákvæðanna og uppbyggingu og stíl þeirra laga sem um ræðir hvor þeirra þykir heppilegri í hverju tilviki.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu varða lagaákvæði af ýmsum toga. Sem dæmi má nefna ákvæði sem lúta að réttindum í tengslum við meðgöngu og fæðingu barns, einkum fjárhagslega aðstoð við foreldra, löggjöf um tæknifrjóvgun og ákvæði sem lúta að kynjajafnrétti. Þá hefur frumvarpið að geyma tillögur að breytingum á tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um breytingar á barnalögum, nr. 76/2003, en það hefur að geyma tillögur að breytingum sem nauðsynlegt er að gera til að tryggja foreldrastöðu trans fólks og fólks með hlutlausa kynskráningu. Þessar breytingar eru umfangsmiklar og eru þær því lagðar fram í sérstöku frumvarpi.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Þroskahjálp,landssamtök - 24.08.2020

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálp um tillögu til breytinga á lögum um kynrænt sjálfræði (ódæmigerð kyneinkenni) og önnur frumvörp sem eru til kynningar í samráðsgátt samhliða þeim breytingatillögum.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum.

Árið 2016 fullgilti íslenska ríkið samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hefur þar með skuldbundið sig til að fylgja öllum ákvæðum hans. Þá er það sérstaklega áréttað í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar að samningurinn verði innleiddur.

Með vísan til þeirra lagabreytinga sem til umsagnar eru benda Landssamtökin Þroskahjálp á eftirfarandi greinar í samningi Sameinuð þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks:

7. gr.

Fötluð börn.

1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.

2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.

3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

12. gr.

Réttarstaða til jafns við aðra.

1. Aðildarríkin árétta að fatlað fólk eigi rétt á því að vera viðurkennt alls staðar sem persónur að lögum.

2. Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.

3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir gerhæfi sitt.

4. Aðildarríkin skulu tryggja að allar ráðstafanir, sem varða nýtingu gerhæfis, feli í sér viðeigandi og árangursríkar verndarráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög. Þessar verndarráðstafanir skulu tryggja að með ráðstöfunum, sem varða nýtingu gerhæfis, séu réttindi, vilji og séróskir viðkomandi einstaklings virt, slíkar ráðstafanir leiði ekki til hagsmunaárekstra eða hafi ótilhlýðileg áhrif, þær séu til samræmis við og sniðnar að aðstæðum viðkomandi einstaklings, gildi í sem skemmstan tíma og séu endurskoðaðar reglulega af til þess bæru, sjálfstæðu og hlutlausu yfirvaldi eða stofnun á sviði dómsmála. Verndarráðstafanirnar skulu vera í samræmi við þau áhrif sem fyrrnefndar ráðstafanir hafa á réttindi og hagsmuni viðkom¬andi einstaklings.

5. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir, samkvæmt ákvæð¬um þessarar greinar, til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að eiga eða erfa eignir, að stýra eigin fjármálum og hafa jafnan aðgang að bankalánum, veðlánum og annars konar lánafyrirgreiðslu, jafnframt því að tryggja að fatlað fólk sé ekki svipt eignum sínum eftir geðþótta.

Landssamtökin Þroskahjálp styðja að þessar breytingar verði gerðar á lögum. Samtökin vilja sérstaklega koma eftirfarandi á framfæri varðandi breytingarnar og með vísan til ofangreindra greina í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks:

• Lagabreytingarnar taki fullt tillit til sjálfsákvörðunarréttar og gerhæfis fatlaðs fólks.

• Sérstaklega verði hugað að því að fatlað fólk almennt, og sérstaklega fólk með þroskahömlun njóti allra þeirra réttinda sem lögin kveða á um til jafns við aðra og fái nauðsynlegan stuðning til að nýta sér þau réttindi sín, eins og kveðið er á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir vilja og áhuga á að eiga samráð við hlutaðeigandi stjórnvöld til þess að tryggja hagsmuni og sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks til jafns við aðra í þeim lagabreytingum sem um ræðir.

Virðingarfyllst,

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Trans Ísland, félag transgender fólks á Íslandi - 27.08.2020

Góðan dag,

Umsögn Trans Íslands, félags trans fólks á Íslandi, má finna í viðhengi.

F. h. Trans Íslands, félags trans fólks á Íslandi

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir,

Formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Samtökin '78,félag hinsegin fólks á Íslandi - 28.08.2020

Til þess er málið varðar.

Umsögn Samtakanna '78 - félag hinsegin fólks á Íslandi, má finna hér í viðhengi.

F. h. Samtakanna '78

Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður

Viðhengi