Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 7.–28.8.2020

2

Í vinnslu

  • 29.8.2020–21.6.2021

3

Samráði lokið

  • 22.6.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-143/2020

Birt: 7.8.2020

Fjöldi umsagna: 3

Drög að frumvarpi til laga

Forsætisráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Breyting á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði

Niðurstöður

Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi 16. desember 2020. Í 5. kafla í greinargerð með frumvarpi til laganna er fjallað um umsagnir í samráðsgáttinni.

Málsefni

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði I í lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 var ráðherra falið að skipa starfshóp til að fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar eru til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks. Frumvarpið byggir á tillögum starfshópsins.

Nánari upplýsingar

Þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera á lögum vegna samþykktar laga um kynrænt sjálfræði falla að meginstefnu til í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða breytingar sem til koma vegna þess að lög um kynrænt sjálfræði heimila einstaklingum að hafa hlutlausa kynskráningu. Heimildin gerir það að verkum að í lagaákvæðum sem fela í sér kyngreiningu (karl, kona o.fl.) verður að gera jafnframt ráð fyrir þeim hópi sem kýs að hafa hlutlausa kynskráningu. Hins vegar þarf að huga að breytingum á ýmsum lögum til að tryggja foreldrastöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Íslensk lög hafa ekki gert það að skilyrði fyrir breytingu trans fólks á kynskráningu sinni að viðkomandi gangist undir ófrjósemisaðgerð. Því er það vel hugsanlegt að trans maður gangi með og ali barn og að trans kona geti barn. Þessir möguleikar voru reyndar fyrir hendi fyrir setningu laga um kynrænt sjálfræði en ekki hafa verið gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum til að samræma þau þessum veruleika.

Fjöldamörg íslensk lög hafa að geyma ákvæði sem fela í sér kyngreiningu. Ekki er brýn þörf á að breyta öllum þessum ákvæðum enda má gera ráð fyrir að sumum þeirra að minnsta kosti yrði beitt með rýmkandi skýringu, eða eftir atvikum lögjöfnun, um einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Tvær meginaðferðir koma til greina við að innleiða þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru. Annars vegar er hægt að breyta lögum á þann veg að þau verði kynhlutlaus. Hins vegar er hægt að setja sérákvæði um einstaklinga sem breytt hafa kynskráningu sinni. Í frumvarpi þessu eru báðar aðferðir notaðar og fer það eftir efni ákvæðanna og uppbyggingu og stíl þeirra laga sem um ræðir hvor þeirra þykir heppilegri í hverju tilviki.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu varða lagaákvæði af ýmsum toga. Sem dæmi má nefna ákvæði sem lúta að réttindum í tengslum við meðgöngu og fæðingu barns, einkum fjárhagslega aðstoð við foreldra, löggjöf um tæknifrjóvgun og ákvæði sem lúta að kynjajafnrétti. Þá hefur frumvarpið að geyma tillögur að breytingum á tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um breytingar á barnalögum, nr. 76/2003, en það hefur að geyma tillögur að breytingum sem nauðsynlegt er að gera til að tryggja foreldrastöðu trans fólks og fólks með hlutlausa kynskráningu. Þessar breytingar eru umfangsmiklar og eru þær því lagðar fram í sérstöku frumvarpi.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa jafnréttismála

for@for.is