Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 7.–28.8.2020

2

Í vinnslu

  • 29.8.2020–21.6.2021

3

Samráði lokið

  • 22.6.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-144/2020

Birt: 7.8.2020

Fjöldi umsagna: 5

Drög að frumvarpi til laga

Forsætisráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Breyting á lögum um kynrænt sjálfræði (ódæmigerð kyneinkenni)

Niðurstöður

Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi 18. desember 2020. Í 5. kafla í greinargerð með frumvarpi til laganna er fjallað um umsagnir í samráðsgáttinni.

Málsefni

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði I í lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 var ráðherra falið að skipa starfshóp til að fjalla um málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, þar á meðal um heilbrigðisþjónustu við þau, og gera tillögur um úrbætur. Frumvarpið byggist á tillögu starfshópsins.

Nánari upplýsingar

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að inn komi nýtt ákvæði um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.

Svo sem kveðið var á um í áðurnefndu bráðabirgðaákvæði var starfshópurinn skipaður barnaskurðlækni, barnainnkirtlalækni, barnasálfræðingi, fulltrúa Intersex Íslands, fulltrúa Samtakanna '78, kynjafræðingi, siðfræðingi og tveimur lögfræðingum, annar með sérþekkingu á réttindamálum barna en hinn á mannréttindum. Formaður var skipaður af ráðherra.

Einstaklingar með ódæmigerð kyneinkenni, börn þar á meðal, hafa í gegnum tíðina orðið fyrir kerfisbundinni mismunun og réttindaskerðingu í flestum ef ekki öllum löndum heims. Meðal brota á mannréttindum þessa fólks hafa verið ónauðsynleg og skaðleg læknisfræðileg inngrip, svo og synjun um nauðsynlega læknisaðstoð. Slíkt kann að brjóta í bága við rétt til heilsu og bann við ómannúðlegri meðferð svo og bann við mismunun, sem allt eru alþjóðlega viðurkennd mannréttindi og njóta verndar stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Á síðustu árum hafa ýmsar alþjóða- og mannréttindastofnanir hvatt ríki til þess að setja lög um eða banna ónauðsynlegar meðferðir á einstaklingum með ódæmigerð kyneinkenni, t.d. óafturkræfar skurðaðgerðir og ófrjósemisaðgerðir, án upplýsts samþykkis. Með frumvarpinu er stefnt að því að tryggja réttindi barna og standa vörð um líkamlega friðhelgi þeirra, sbr. 1. gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Frumvarpið mælir fyrir um þau meginsjónarmið og reglur sem gilda skulu um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Með því móti er reynt að koma í veg fyrir að fólk með ódæmigerð kyneinkenni gangist undir ónauðsynlegar meðferðir á kyneinkennum sínum án upplýsts samþykkis.

Með frumvarpinu er lagt til að við lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, bætist nýtt ákvæði um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Lagt er til að meginreglan verði sú að varanlegar breytingar á kyneinkennum barns yngri en 16 ára sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni skuli einungis gerðar í samræmi við vilja barnsins. Sé barn sökum ungs aldurs ófært um að veita slíkt samþykki eða af öðrum sökum ófært um að gefa til kynna vilja sinn skal þó heimilt að breyta kyneinkennum þess varanlega ef heilsufarslegar ástæður krefjast þess og þá einungis að undangengnu ítarlegu mati á nauðsyn breytinganna og afleiðingum þeirra til skemmri og lengri tíma. Félagslegar, sálfélagslegar og útlitslegar ástæður teljast ekki heilsufarslegar. Til varanlegra breytinga teljast meðal annars skurðaðgerðir, lyfjameðferðir og önnur óafturkræf læknisfræðileg inngrip.

Lagt er til að kveðið verði á um ítarlega málsmeðferð að því er varðar ákvörðun um varanlegar breytingar og meðal annars er lagt til að mælt verði fyrir um að ráðherra skipi nýtt teymi um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Gert er ráð fyrir að sérregla gildi um annars vegar aðgerðir vegna of stuttrar þvagrásar (reðurhúfuneðanrásar/hypospadias) og lyfjameðferðar vegna vanvaxtar á typpi (micropenis). Aftur á móti er lagt til að skilgreiningin á ódæmigerðum kyneinkennum verði rúm til að tryggja víðtæka vernd barna. Þá er lagt til að mælt verði fyrir um skipan starfshóps í nýju ákvæði til bráðabirgða við lögin sem verði falið að endurskoða ákvæðið og sérreglur þess.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa jafnréttismála

for@for.is