Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 10.8.–4.9.2020

2

Í vinnslu

  • 5.9.2020–9.3.2021

3

Samráði lokið

  • 10.3.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-145/2020

Birt: 7.8.2020

Fjöldi umsagna: 11

Annað

Forsætisráðuneytið

Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar

Tillaga verkefnishóps um breytingar á lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs

Niðurstöður

Niðurstöður samráðs hafa verið teknar til umfjöllunar og voru nýttar við gerð frumvarps til nýrra laga um Vísinda- og nýsköpunarráðs. Nánari umfjöllun um afstöðu til einstaka álitamála er að finna í greinargerð sem fylgir drögum að nýjum lögum sem nú eru til umsagnar í Samráðsgátt.

Málsefni

Forsætisráðherra skipaði síðla árs 2018 verkefnishóp til að endurskoða lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs. Er skýrsla hópsins hér lögð fram til samráðs. Í skýrslunni er fjallað um stöðu mála hérlendis, greint frá fyrirkomulagi í nokkrum samanburðarlöndum og lagðar fram tillögur að framtíðarfyrirkomulagi málaflokksins.

Nánari upplýsingar

Markmiðið með setningu laga um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003, og tengdra laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, og um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007 (áður lög nr. 4/2003), var að færa umfjöllun um málefni vísinda og tækni á efsta stig stjórnsýslunnar og auka heildarsýn yfir málaflokkinn og samræmingu á milli ráðuneyta. Markmiðið var að stefnumótun um vísindi og tækniþróun yrði markvissari og að tekið væri mið af henni við almenna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Var þetta talið mikilvægt til að efla samkeppnishæfni Íslands. Engin heildarendurskoðun hefur verið gerð á fyrirkomulaginu frá setningu laganna árið 2003 fyrr en nú.

Við vinnuna leit hópurinn til skipulags í málefnum vísinda, nýsköpunar og tækni í öðrum ríkjum. Fjögur lönd voru heimsótt í því skyni: Finnland, Eistland, Sviss og Holland. Farið var yfir úttektarskýrslur og önnur gögn um þau.

Enn fremur var rætt við þá ráðherra sem hafa aðkomu að Vísinda- og tækniráði og fjölda hagaðila á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Skoðaðar voru innlendar og erlendar úttektarskýrslur sem fjölluðu um Vísinda- og tækniráð og stuðningskerfi vísinda og nýsköpunar.

Markmið tillögunnar er að styrkja langtímastefnumótun í vísinda- og nýsköpunarmálum með skýrari hlutverkum helstu aðila, öflugri sjálfstæðri gagnagreiningu og eftirfylgni og auknu samstarfi og samhæfingu á milli ráðuneyta.

Samantekt tillögu:

Ný ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun verði lögfest og leidd af forsætisráðherra og í því sitji aðeins ráðherrar, alls sjö talsins. Hlutverk ráðherranefndarinnar verði að vinna að samræmdri sýn og stefnu um vísindi, nýsköpun og tækni þvert á ráðuneyti.

Ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun vinnur að a) langtímasýn til 10 ára á fjögurra ára fresti og b) stefnu og aðgerðaáætlun til skemmri tíma.

Í samstarfshópi um vísindi og nýsköpun sitji sérfræðingar frá sömu ráðuneytum og ráðherrar og hópurinn vinni að verkefnum ráðsins. Forsætisráðherra skipi hópinn samkvæmt tilnefningum annarra ráðherra.

Samkvæmt tillögunni skipar forsætisráðherra Vísinda- og nýsköpunarráð að tillögu sérstakrar tilnefningarnefndar. Í því sitji níu fulltrúar og hluti þeirra starfi erlendis. Hlutverk ráðsins verði að veita ráðherranefndinni ráðgjöf og fjalla um stöðu vísinda, nýsköpunar og tækni á Íslandi með tilliti til alþjóðlegrar þróunar í stefnumótun á sviðinu. Lögð verði áhersla á að Vísinda- og nýsköpunarráð sé vel skipað og þar verði að finna fólk með afburðaþekkingu og reynslu á sviði vísinda, nýsköpunar og tækni.

Vísinda- og nýsköpunarráð haldi tvo fasta fundi á ári með ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og leggi árlega fram stöðuskýrslu til forsætisráðherra. Ráðið standi fyrir opnum fundi um efni hennar til að efla lýðræðislega og faglega umræðu um stöðu Íslands á sviði vísinda, nýsköpunar og tækni og til að auka sýnileika og þekkingu á stöðu málaflokksins. Forsætisráðherra kynni stöðuskýrslu á Alþingi.

Sérstök þriggja manna tilnefningarnefnd leggi fram tillögur að samsetningu Vísinda- og nýsköpunarráðs fyrir forsætisráðherra eftir samtal við aðra ráðherra og hagaðila.

Sett verði á laggirnar skrifstofa Vísinda- og nýsköpunarráðs sem veiti bæði Vísinda- og nýsköpunarráði og ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun þjónustu við greiningar- og textavinnu. Þrír starfi á skrifstofunni til að byrja með.

Fyrirkomulag Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar verði einfaldað til að auðvelda ráðuneytum að setja fjármagn til einstakra tímabundinna áhersluverkefna, meðal annars til að bregðast hratt við þörf fyrir þekkingu um samfélagslegar áskoranir.

Komið verði á fót verkefnishópi sem skoði hvernig bæta megi og samræma þjónustu við notendur vísinda- og nýsköpunarkerfisins. Gerðar verði viðeigandi breytingar á stofnanakerfinu.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Ásdís Jónsdóttir

postur@for.is