Samráð fyrirhugað 26.08.2020—15.10.2020
Til umsagnar 26.08.2020—15.10.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 15.10.2020
Niðurstöður birtar 13.04.2021

Viðmiðunarstundaskrá grunnskóla - tillaga að breytingu

Mál nr. 160/2020 Birt: 26.08.2020 Síðast uppfært: 13.04.2021
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Leikskólar, grunnskólar, framhaldsfræðsla og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Niðurstöður birtar

Sjá niðurstöður í meðfylgjandi skjali

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 26.08.2020–15.10.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 13.04.2021.

Málsefni

Viðmiðunarstundaskrá grunnskóla hefur verið óbreytt allt frá gildistöku aðalnámskrár grunnskóla 2011. Tilefni breytinga nú er mótun menntastefnu til ársins 2030 þar sem áhersla er á framúrskarandi menntun fyrir alla og að auka vægi móðurmál og náttúrufræði til móts við viðmið nágrannaþjóða okkar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um tillögu að breytingu á gildandi viðmiðunarstundaskrá grunnskóla frá 2011 sem hefur verið óbreytt síðan.

Tilefni breytinganna er mótun menntastefnu til ársins 2030 á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis þar sem áhersla er á að veita framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi þar sem allir skipta máli og geta lært.

Með þessum breytingum færist íslensk viðmiðunarstundaskrá grunnskóla nær meðaltali í móðurmáli- og náttúrufræðigreinum hjá nágrannaþjóðaþjóðum okkar. Ísland er nú með lægst hlutfall tíma til kennslu móðurmáls í 1.-7. bekk grunnskóla og einnig í náttúrufræði í 8.-10. bekk samanborið við nágrannalönd okkar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið beitir sér jafnframt fyrir aukinni áherslu á íslensku í öðrum námssviðum og í samfélaginu almennt í samræmi við þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi vorið 2019. Þá er unnið að mótun starfsþróunarnámskeiða fyrir starfandi kennara sem ætlað er að efla leiðtoga á námssviðunum íslensku, náttúrufræði og stærðfræði, unnið að stofnun fagráða á sömu námssviðum og eftirfylgni með því að skólar uppfylli til fulls hlutfall lágmarkskennslutíma samkvæmt viðmiðunarstundaskrá grunnskóla í list- og verkgreinum.

Breytingarnar á viðmiðunarstundaskrá fela í sér að á yngsta stigi grunnskóla (1.-4. bekk) verður gert ráð fyrir að meiri tíma verði varið til íslensku, að meðaltali tæplega 80 mínútur á viku í hverjum árgangi. Á miðstigi grunnskóla (5.-7. bekk) er einnig gert ráð fyrir meiri tíma til íslenskukennslu að meðaltali tæplega klukkustund á viku í hverjum árgangi.

Með því fer hlutfall íslensku á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla úr 18.08% í 21.5%. Grunnskólar hafa svigrúm og sveigjanleika innan hvors stigs til að útfæra þessa aukningu. Jafnframt fellur niður svigrúm grunnskóla til ráðstöfunar tíma á yngsta- og miðstigi grunnskóla, en algengt er að skólar nýti hluta þess tíma til lestrar- og íslenskukennslu.

Á unglingastigi (8.-10. bekk) er gert ráð fyrir aukinni áherslu á náttúrugreinar og í stað þess verði dregið úr vali nemenda. Aukningin er veruleg og er að meðaltali 120 mínútur á viku í hverjum árgangi. Að sama skapi er dregið úr vali nemenda sem því nemur. Hlutfall náttúrugreina í viðmiðunarstundaskrá grunnskóla fer við þessa breytingu úr 8.33% í rúmlega 11%.

Einnig má benda á viðvarandi slakan árangur í íslensku og náttúrufræði sem hefur birst í niðurstöðum PISA, sem er alþjóðleg rannsókn á vegum OECD og er framkvæmd á þriggja ára fresti með þátttöku 15 ára nemenda. Næsta fyrirlögn PISA er áformuð vorið 2022.

Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi frá og með skólaárinu 2021-2022.

Umsögnum skal skilað eigi síðar en 30.09.2020 í samráðsgátt.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir - 26.08.2020

Held að vandamálið sé ekki lítill tími í þessar greinar heldur ætti frekar að skoða hvernig er verið að kenna og hvaða verkfæri er verið að nota. Hugsanlega þarf bara að endurskipuleggja nám almennt á Íslandi 🤗

Afrita slóð á umsögn

#2 Arna Magnea Danks - 26.08.2020

Ég er kennari og af fenginni reynslu vil ég taka það fram að aukinn tími í Íslensku og Náttúrufræði mun ekki skila sér í árangri nemenda, nema að breyta kennslufyrirkomulaginu eins og það er núna.

Vandamál skólakerfisins er margþættur og vil ég nefna nokkra liði:

1. Skóli án aðgreiningar. - Frábært ef það er passað upp á að einstaklingur virkilega fái einstaklingsmiðaða þjónustu við hæfi og stuðning miðað við getu og námslega stoðu. - Ekki hægt þegar yfir 20 nemendur eru í bekk og 6 - 10 með flóknar, erfiðar og margþættar greiningar og einn ófaglærður stuðningsaðili er settur inn í bekk til að aðstoða.

Kennarinn nær ekkert að fylgjast með þeim sem eru að standa sig ágætlega og fá því lítinn hvata til að gera enn betur. Allur tími og orka kennarans fer í að hjálpa stuðningsaðilanum að ná áttum og í að vinna með þeim sem eiga í mestum vandræðum, félagslega, námslega og eru oft að lenda í árekstrum við aðra.

2. Grunnþættir menntunar sem eru sex talsins:

læsi,

sjálfbærni,

heilbrigði og velferð,

lýðræði og mannréttindi,

jafnrétti,

sköpun.

Ætlast er til að kennari flétti þessa grunnþætti inn í alla kennslu en það verður aldrei að neinu vegna þess að það þarf að eyða tíma með nemendum í umræður og útskýringar á þessum hugtökum, hvað þau standa fyrir og í raun hvað er ætlast til að þau temji sér miðað við aldurstig. Hvergi, að mér vitandi, er unnið með þætti sem snerta Jafnrétti eða Mannréttindi nema að litlu leyti og þá á mjög svo almennan hátt, eins og allir eiga rétt á menntun.

Ekkert er fjallað um réttindi jaðarhópa eða námsefni sem tengist þeim. Samt er fjöldi nemenda sem tilheyra þessum hópum og sjá aldrei eða upplifa það í gegnum umræður, námsefni eða í kennslu að tekið sé tillit til þeirra reynsluheims. Þetta eru líkamlega fatlaðir nemendur, heyrnaskertir nemendur, blindir, hinsegin nemendur, trans nemendur, nemendur sem eiga tvær eða fleiri fjölskyldur, t.d. 4 mömmur og 2 pabba (kenndi slíkum nemanda) og svo mætti lengi telja.

3. Til umhugsunar:

Það er margt sem þarf að hugsa um þegar kemur að menntun og það að standa sig á PISA er ekki upphaf og endir neins. Því miður veit ég um nemendur sem hefðu sárlega þurft að skólakerfið hefði tekið tillit til fötlunar þeirra og þarfa í stað þess að horfa á hvernig þeir stóðu sig í PISA. Nemendur sem voru meðal þeirra allra efstu á öllum prófum en liðu svo ílla að þeir náðu aldrei að verða fullorðnir einstaklingar.

Ég sem kennari, foreldri og sem hinsegin manneskja sem á son með ADHD

krefst þess að við endurmetum allt skólakerfið út frá þeim grunngildum mennsku og mannúðar sem við viljum sjá speglast í viðhorfum og athöfnum nemendana, og hættum að horfa á próf sem skipta engu máli.

Hver ykkar þingmanna man hvað þið fenguð í loka einkunn þegar þið voruð 9 ára, eða 12 ára, eða 15 ára?

Virðingarfyllst,

Arna Magnea Danks

Afrita slóð á umsögn

#3 Margrét Sigrún Þórólfsdóttir - 27.08.2020

Það var verið að auka list og verkgreinar hér í mínum skóla af því að við vorum verulega undir viðmiðum við úttekt. Búið að vera þannig í c.a 12 ár. Það var einmitt tekið af íslensku og stærðfræði af því að þar voru of margar stundir. Það að auka íslensku og stærðfræði er ekkert endilega árangursrík aðferð til að bæta árangurinn. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að auka tíma í ákveðnum greinum umfram ákveðin fjölda, fer að hafa öfug áhrif. https://nces.ed.gov/pubs/97293.pdf?fbclid=IwAR1tvBbgAscH_XeW2Wl_WFBgL6INtOls8NrP2ZC74VFbPc7cCxsuRnco73o

Gæti verið að það þurfi frekar að finna aðra nálgun á islensku kennslu eða fjölbreyttari kennsluaðferðir.

Afrita slóð á umsögn

#4 Þórgunnur Anna Ingimundardóttir - 27.08.2020

Mér líst persónulega afar vel á að auka móðurmálskennslu. Nú þegar íslensku stendur ógn af tæknivæðingu og af aukinni notkun ensku í samfélaginu er ég glöð að sjá að það er tekið föstum tökum á að auka íslenskukennslu svo næsta kynslóð geti notið tungumálsins.

Ég er hinsvegar ekki hrifin af því að það eigi að minnka val nemenda. Nemendur í unglingadeild eiga rétt á því að geta sinnt ólikum hugðarefnum og að geta valið úr fjölbreyttu námsefni og námskeiðum. Strangt bóknám hentar alls ekki öllum og með því að minnka val er ekki verið að koma til móts við þá nemendur sem blómstra ekki í bóklegum fögum en finna sig betur í meira verklegum fögum. Það er einnig mikið talað um í samfélaginu að auka verknám nemenda, en það að minnka val og auka bóknám stríðir gegn þeirri hugsun. Náttúrufræði er mikilvæg en hún má ekki koma niður á listrænu námi eða hugvísindum eins og vill svo oft gerast. Valnámskeið eru oftar en ekki tengd skapandi listum eða hugvísindum og slík námskeið, þekking og færni er nauðsynleg.

Afrita slóð á umsögn

#5 Herdís Magnea Huebner - 27.08.2020

Mér líst vel á að fjölga tímum í íslensku, það er bara frábært. En jafn illa líst mér á að fækka valtímum sem eru mjög nauðsynlegir. Ég hefði frekar tekið þessa tíma af enskukennslunni. Á allra síðustu árum (4-5) hefur orðið mikil framför í enskukunnáttu nemenda, svo mjög að kennarar kalla eftir erfiðara og meira krefjandi námsefni í ensku, á sama tíma og íslenskukunnátta er á hraðri niðurleið og kennarar leita í sífellt léttara og minna krefjandi efni til íslenskukennslu. Auðvitað er gott og mikilvægt að nemendur séu góðir í ensku en enskukunnátta virðist að miklu leyti sjálfsprottin úr þeim tvítyngda heimi sem börn og unglingar hrærast í og ég tel mikilvægara að nemendur hafi góð tök á því máli sem enn er opinber tunga í þessu landi.

Mér finnst rangt að skerða valtímana, myndi heldur vilja að þeim væri fjölgað og þeir væru betur nýttir, t.d. til kennslu í öðrum tungumálum en ensku. Ég bendi á að sókn í tungumálanám hefur minnkað á síðustu árum, bæði í framhaldsskólum og háskólum og ég tel mikilvægt að vekja áhuga á erlendum tungumálum strax í grunnskóla.

Afrita slóð á umsögn

#6 Anna María K. Þorkelsdóttir - 27.08.2020

Góðan dag

Á sama tíma og skólar eru að samþætta fög í sífellt meira mæli og jafnvel setja íslensku inn í öll verkefni þá skýtur skökku við að binda niður ákveðna tíma í ákveðin fög. Það sem stendur árangri nemenda fyrir þrifum í skólum landsins er ekki bundið við hversu lengi þeir vinni í ákveðnum greinum, heldur gæði námsins sem á sér stað. Þar sem við erum með mjög bókamiðað skólasamfélag, þá þyrfti að stýra betur hvaða námsefni sé í boði á hverjum tíma, þjálfa kennara betur í fjölbreyttari kennsluháttum og kenna mörgum þeirra hvað felst í hæfnimiðuðu námi. Námsefni MMS uppfyllir kannski aðalnámskrá en það er langt frá því að vera það gæðaefni sem skólar sem láta það námsefni stýra sér, þurfa í dag enda eru of margir að nota úrelt námsefni sem uppfyllir ekki hæfniviðmið greinanna.

Það sama á við um náttúrufræðina. Í Hörðuvallaskóla í Kópavogi er verið að samþætta bókleg fög í 7. og 8. bekk og þar eru náttúrufræði og samfélagsfræði grunnur að allri kennslu og íslenska er alltaf mikilvægur þáttur í öllum verkefnum. Stærðfræði er líka kennd í gegnum þessi verkefni og þá sett í samhengi við annað en aðferðir.

Varðandi valfögin þá er mjög undarlegt að á sama tíma og við erum að stefna öllum í hæfnimiðað nám og hugsunarhátt sem ætti að leyfa öllum börnum að blómstra, að minnka við þá fög sem höfða til áhugasviðs þeirra og setja þá í meira bóknám sem væri þá stýrt af MMS og því efni sem þaðan kemur.

Ef að markmiðið með þessum breytingum er að efla hæfni nemenda í íslensku og náttúrufræði, ætti að leggja áherslu á að þau fái meira vægi í öllum greinum. Það væri hægt með því að breyta orðalagi í faggreinahluta ANG. Sem betur fer er vitundavakning í skólum landsins, en þar sem skólar fengu litla eða enga aðstoð við innleiðingu á hæfnimiðuðu námi þegar ANG kom út, hefur innleiðingin mistekist að hluta. Kennarar í mörgum skólum er búnir að sjá ljósið og enginn þeirra vill annað kerfi, en aðrir hafa þurft og þurfa áfram leiðsögn sem hefur vantað. Það sem ANG boðar er þó það sem skólastarf ætti að ganga út á, nám sem byggir á hæfni einstaklinganna þar sem þeir geta lært á þann hátt sem hentar þeim og það er ekki í takt við niðurnjörfaða viðmiðunarstundaskrá. Þó að það sé kannski ekki markmiðið með þessum breytingum að heimta meira einangrað bóknám í þessum fögum, þá er það reynsla mín úr skólunum að það er einmitt það sem einhverjir faggreinakennarar og stjórnendur munu telja vera rétta leið.

Þannig að í stað þessara breytinga, mætti setja fókus á þessar greinar í öllum fögum og útskýra fyrir skólafólki að faggreinakennarar eigi ekki hæfniviðmið í greinunum, heldur geta aðrir kennarar valið hæfnivimið úr þessum greinum (og ættu að gera það) og meta eigin verkefni með þeim. Enskuverkefni sem fjallar um Heimsmarkmið SÞ ætti að meta inn í samfélagsfræði og náttúrufræði, þó að það sé ekki samvinna milli kennaranna að öðru leyti. Að mínu mati eru þessar tillögur afturför sem svara engan vegin vandamálinu þær eiga að leysa.

Afrita slóð á umsögn

#7 Björn Gunnlaugsson - 27.08.2020

Fjölgun kennslustunda í námsgreinum þar sem nemendur þykja ekki standa sig vel er versta hugmynd í heimi. Hún minnir mig á það þegar Bandaríkin gera hernaðarinnrás í land í þeim yfirlýsta tilgangi að koma þar á friði.

Allt of mörgum íslenskum nemendum leiðist í skóla af því að námsvinnan þeirra er úr tengslum við líf þeirra, virðist tilgangslaus og heiladauð. Það þarf að breyta því í stað þess að halda að lausnin sé að bjóða nemendum upp á meira af því sama.

Ef barni líður ekki vel fer nám ekki fram. Ef barni leiðist líður því ekki vel og nám fer ekki fram. Ef nám fer ekki fram í stórum hópi nemenda af því að þeim leiðist kennslan og líður ekki vel er lausnin ekki fólgin í að fjölga tækifærunum til að líða ekki vel.

Börn verða betri í stærðfræði ef tónmenntatímum er fjölgað. Þau verða áhugasamari og betri nemendur ef þau fá fjölbreytt verkefni við hæfi þar sem þau geta nýtt styrkleika sína, ekki ef þau fá fleiri verkefni eins og þau sem þau ráða ekki við.

Hverjum finnst svo sem keppikefli að skora hærra á Pisa? Kínverjar glíma nú við þann vanda að skólakerfið þeirra framleiðir tóma A-nemendur, sem eru góðir í að uppfylla vel skilgreindar kröfur, en kunna ekki að hugsa út fyrir kassann. Pisa hampar slíkum skólakerfum, en hvaða gagn er að þeim?

Afrita slóð á umsögn

#8 Arnór Bjarki Svarfdal Arnarson - 27.08.2020

Sem náttúrufræðikennari í framhaldsskóla fagna ég því að gera eigi umbætur í náttúrufræðikennslu í grunnskóla. Ég efast þó um að þetta sé rétta leiðin, enda fá náttúrufræðigreinar mikinn tíma í grunnskólum.

Mér hefur stundum þótt nemendur koma í framhaldsskóla með hreint út sagt furðulegar hugmyndir og jafnvel engar hugmyndir um grundvallarhugtök í vísindum eins og atóm, frumur, efnahvörf, tilraunir, þróunarkenningu, loftslag og fleira. Því þykir mér að sjálfsögðu aðkallandi að umbætur verði gerðar.

En slakt gengi nemenda í náttúrufræði er ekki sökum þess að náttúrufræði fái lítinn tíma í grunnskólum, heldur frekar vegna þess að grunnskólakennarar eru upp til hópa ekki náttúrufræðimenntaðir - meira að segja ekki náttúrufræðikennarar - og hafa því ýmist ekki metnað fyrir eða skilning á því sem þeim er ætlað að kenna.

Um þetta vitnar t.d. rannsókn Svövu Pétursdóttur o.fl., frá 2015, þar sem meðal annars kemur fram:

- 41% náttúrufræðikennara í grunnskólum hafa ekki sótt endurmenntun í náttúrufræðum,

- náttúrufræðikennarar hafa ekki nema í meðallagi áhuga á námsgreinum sínum.

- þeir hafa í mörgum tilfellum ekki aðgang að verklegum stofum eða útikennslusvæðum

- þeir segjast flestir vanta betri námsgögn og aðbúnað.

Ennfremur er rannsókn Birnu Hugrúnar Bjarnadóttur o.fl. frá 2007 áhugaverð í þessu ljósi. Þar kemur fram að undir 10% náttúrufræðikennara hafi einhverja menntun í náttúrufræðum umfram kennaranámið - athugið vel að hér er átt við undir 10% náttúrufræðikennara, ekki grunnskólakennara almennt. Þetta eru 13 ára gamlar tölur, svo þetta gæti hafa breyst, en það var þó langur vegur að vinna, og auðvitað alls ekki nóg að svo fáir sem kenni náttúrufræði hafi menntun í náttúrufræðigreinum.

Af þessu virðist mér vegurinn fram á við í náttúrufræðimenntun vera sá að efla menntun náttúrufræðikennara og aðbúnað þeirra í skólum, fremur en að fjölga kennslustundum. Það þarf ekki fleiri skóflur ef enginn er að moka.

Afrita slóð á umsögn

#9 Helga Ágústsdóttir - 28.08.2020

1) Við erum öll íslenskukennarar

Með því að eyrnamerkja tíma til íslenskukennslu er hætt við að dregið sé úr mikilvægi íslenskukennslu gegnum aðrar fagreinar. Þar ber sérstaklega að nefna list- og verkgreinar, sem og heilsutengdar greinar þar sem tungumálið er notað í merkingarbærum aðstæðum. Í stað þess að eyrnamerkja fleiri tíma til íslensku gæti reynst árangursríkara að skilgreina mikilvægi íslenskukennslu í öllum námsgreinum, sérstaklega þeim sem ekki styðjast við bóknám, og styðja þá alla kennara í hlutverki sínu sem íslenskukennara.

2) Hvert er markmiðið?

Niðurstöður PISA eru bara ein birtingarmynd þessa málumhverfis sem við bjóðum börnunum upp á. Ef markmiðið er að bæta (mál- og) lesskilning á íslensku, þurfum við að bjóða öllum Íslendingum upp á umburðarlynt íslenskumælandi málsamfélag þar sem allir eru velkomnir og við sinnum öll hlutverki okkar sem málfyrirmyndir. Sú staðreynd að hér á landi séu nemendur sem kjósa heldur að nota ensku, af því að á ensku leyfist þeim að vera með fjölbreytan framburð og nota alls konar málfræði, dregur fram hversu óraunhæfar málkröfur samfélagið setur. Þegar einhver talar ekki rétt er skipt yfir í ensku. Afleiðingin er takmarkað aðgengi að íslensku málumhverfi og erfiðara verður að þjálfa tungumálið. Íslenskutímar í stundaskrá gera lítið fyrir málumhverfi nemenda ef ekki er tekið á fordómum og unnið að jákvæðum viðhorfum til fjölbreyttrar íslensku.

3) Kennsluhættir sem styðja við öflugt málumhverfi

Á tímum streymisveitna og samfélagsmiðla hafa samskipti breyst mikið, og þar með tungumálið. Fullorðið fólk, ungmenni og börn eyða minni tíma til samskipta í raunheimum. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að hópur nemenda heyrir íslensku aðeins talaða á skólatíma. Þessi tími sem nemendur dvelja í skólanum verður því æ dýrmætari og hann þarf nýta af kostgæfni til þess að þjálfa tungumálið. Námsgreinar og valfög sem byggja á virkri notkun tungumálsins til náms eru öflug leið til þess að auka áhuga nemenda á tungumálinu og ljá þeim verkfæri til gagnrýninnar hugsunar gegnum tungumálið. Ef nauðsynlegt er að auka þátt raunvísindagreina á unglingastigi, þarf einfaldlega að lengja skóladaginn með tilheyrandi kostnaði en ekki fækka valgreinum.

Afrita slóð á umsögn

#10 Andri Már Númason - 28.08.2020

Hvar er rökstuðningurinn fyrir því að aukning á kennslutímum skili betri "árangri" í viðkomandi fögum?

Það er ekkert sem segir að meira magn skili betri árangri. Gæði og magn fara ekki endilega saman.

Væri ekki nær að endurskoða námsefnið og hvernig hægt sé að auka áhuga nemenda á viðkomandi fagi?

Er ekki kominn tími til að setja áherslu á gleði og hamingju nemenda í námi og sjá hvort það auki ekki námsárangur. Hversu stór hluti nemenda er hamingjusamur í skólanum? Hversu mikil áhrif hefur líðan nemenda á námsárangur.

Mætti ekki byrja á að skoða gæði þeirra PISA kannna sem eru sett hérna upp áður en stundaskrá nemenda er tekin í gegn? Hversu góðar eru t.d. þýðingar á PISA?

Að taka val nemenda út fyrir staðlaða kennslu er algerlega galið. Hvenær eiga nemendur að fá tækifæri til að velja sín eigin áhugasvið og læra um þau? Hvenær eiga nemendur að fá tækifæri til að bera ábyrgð á eigin vali og þeirri þekkingu sem þeir vilja sækjast eftir?

Nær væri að horfa til þess hvernig betur má samþætta íslensku og náttúrufræði við aðrar námsgreinar og fá meira flæði og í nám nemenda. Gefum nemendur frekar meira val um hvað þeir eru að læra en taka það frá þeim. Treystum skólum fyrir því að setja upp stundaskrá og námsefni frekar en að miðsstýra þeim meira.

Þekking, vellíðan, þrautseigja og árangur í umhverfi þar sem allir skipta máli og geta lært næst ekki með því að setja alla í sama flokk og láta alla læra það sama. Þessi markmið nást aldrei með því að auka miðsstýringu kennslustunda. Eina leiðin til að ná þessum markmiðum er að auka fjölbreytileika í nám og kennslu og gefa nemendu val um hvaða þekkingu þeir eru að sækja sér og hvernig þeir sækja hana.

Afrita slóð á umsögn

#11 Guðný Lára Gunnarsdóttir - 28.08.2020

Mér finnst þetta algerlega út í hött hjá stjórnvöldum! Flott hjá einhverjum skrifstofumöppudýrum að búa til svona plan fyrir vettvang sem þeir hafa líklega algerlega gleymt hvernig virkar og/eða starfar.

Það er svo mikilvægt að hafa valið og list- og verkgreinar inni í skólastarfinu. Og gleymum því ekki að það eru ekki allir góðir á bókina en skara svo fram úr í list- og verk! Valgreinar eiga líka að gefa öllum nemendum kost á að læra eitthvað sem snýr að þeirra áhugasviði og er mikilvægur hlekkur í þroska og námi allra!

Eflum FREKAR söng og kórastarf, þar værum við strax komin á aðeins réttari braut. Slík vinna gæti farið inn í allt starf nemenda hvort sem er heima eða að heiman og inni í öðrum kennslugreinum. Hægt að nota textana í ýmislegt er varðar móðurmálskennslu, læra að lesa á milli lína og um myndlíkingar svo fátt eitt sé nefnt. Um leið læra þau mismunandi takt og vinna saman sem heild í söng og þar er að finna heilan helling af stærðfræði, enda hefur sýnt sig að tónlistarnám hjálpar til við allt annað nám!

Eins væri líklega gott að setja ýmis þemu sem allir kennarar þyrftu að kenna og vinna eftir með nemendum til að auka orðaforða og skilning. Það er hægt að vinna þannig verkefni í gegnum hverja einustu grein nánast sem kennd er í grunnskóla, allskonar nálganir og spennandi hlutir sem hægt er að gera.

Ég er bara frekar sorgmædd yfir því hvernig stjórnvöld virðast fá að skemma skólakerfið okkar meira og meira með tímanum en svo er kennurum kennt um allt... og hananú ;)

Afrita slóð á umsögn

#12 Móðurmál - samtök um tvítyngi - 28.08.2020

Sjá viðhegi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Umboðsmaður barna - 29.08.2020

Efni: Umsögn umboðsmanns barna um drög að breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011

Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú til umsagnar tillögur mennta- og menningarmálaráðuneytis um breytingar á gildandi viðmiðunarstundaskrá grunnskóla. Þar kemur fram að tilefnið sé viðvarandi slakur árangur nemenda í íslensku og náttúrufræði í PISA könnunum OECD.

Gera tillögurnar ráð fyrir því að á yngsta stigi grunnskóla sem og á miðstigi verði meiri tíma varið til íslensku með því að fella niður svigrúm grunnskóla til ráðstöfunar tíma sem ráðuneytið telur að algengt sé að skólar nýti til lestrar- og íslenskukennslu. Ber til þess að líta að umrætt svigrúm hefur einnig verið nýtt til kennslu í lífsleikni sem og list- og verkgreinum og er miður að til standi að takmarka svigrúm skóla með þessum hætti.

Í tillögunum kemur einnig fram að á unglingastigi grunnskóla eigi að auka verulega áherslu á náttúrugreinar og í stað þess draga úr vali nemenda sem því nemur. Umboðsmaður barna vill hér sérstaklega árétta kafla aðalnámsskrár um valgreinar, nánar tiltekið kafla 8.3. Þar kemur fram að tilgangurinn með valfrelsi nemenda á unglingastigi sé að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjöf.

Tillögur ráðuneytisins ganga þvert á umrædd markmið og takmarka valfrelsi nemenda. Þá skal á það bent að rannsóknir hafa á síðustu árum sýnt fram á vaxandi kvíða og andlega vanlíðan íslenskra ungmenna en um er að ræða brýnt og ærið viðfangsefni sem allar stofnanir samfélagsins þurfa að koma að, þar á meðal skólar. Með hliðsjón af þeirri stöðu gerir umboðsmaður barna athugasemdir við að lagðar séu til breytingar sem séu til þess fallnar að auka frekar á vanlíðan enda ljóst að valgreinar skipta ungmenni oft miklu máli og eru mikilvæg tækifæri fyrir þau til þess að sinna eigin hugðarefnum innan skólans sem hluta af eigin námi. Það er mikilvægur hluti af þroskaferli sérhvers ungmennis að fá að rækta eigin hæfileika og taka ákvarðanir um eigið líf og aðstæður.

Í þessu sambandi vill umboðsmaður barna benda á skýrslu embættisins með niðurstöðum barnaþings 2019 sem afhent var ráðherrum ríkisstjórnar s.l. vor. Í kafla um skóla og menntun kemur fram að barnaþingmenn lögðu áherslu á aukið val í grunnskólum en þar má einnig finna eftirfarandi tilvísun í hugmyndir barnaþingsmanna:

Nafnháttur lýsingarorða þátíðar gagnast ekki. Kenna frumkvöðlahugsun, kenna börnum að koma skoðunum sínum á framfæri. Kenna börnum að bjarga fólki. Lífsleikni gerð markvissari, ekki bara tjill tími. Löggjafinn þarf að vera virkari, ekki eftirá. Kenna börnum að læra. Læra að læra - læra að bjarga sér í upplýsingaheiminum.

Umboðsmaður barna gerir athugasemdir við orðalagið „viðvarandi slakur árangur nemenda“ og áréttar að um viðvarandi slakan árangur menntakerfisins er að ræða, ekki nemenda. Ekki eru í tillögunum færð rök fyrir því að fjölgun kennslustunda ein og sér komi til með að bæta árangur nemenda á kostnað valfrelsis og fjölbreytni. Þá kemur ekki fram að til standi að taka upp nýstárlegri eða fjölbreyttari kennsluaðferðir, heldur á eingöngu að fjölga kennslustundum í umræddum námsgreinum. Ekki eru færð fram nein rök fyrir því að betri árangur náist með þessu móti. Brýnt er að hafa samráð við börn í grunnskólum um leiðir til þess að gera námið aðgengilegra, fjölbreyttara og áhugaverðara. Það væri í samræmi við markmið aðalnámsskrár grunnskóla þar sem segir að skólar eigi að styðja við námshvöt nemenda, rækta námsgleði og vinnuanda og stuðla þannig að menntun þeirra. Þeim markmiðum verður augljóslega ekki náð með því einu að fjölga kennslustundum í tilteknum greinum. Þá eru ónefndar þær efasemdir sem settar hafa verið fram um PISA prófin og hvort þau séu raunverulega til þess fallin að veita heppilegan samanburð á stöðu nemenda í ólíkum löndum og skólakerfum.

Samkvæmt Barnasáttmálanum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skulu allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn byggðar á því sem þeim er fyrir bestu. Þá kveður 12. grein Barnasáttmálans á um rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar viðamiklar breytingar í skólakerfinu án þess að leitað hafi verið eftir skoðunum barnanna sjálfra. Má þar nefna styttingu framhaldsskólans, breytt einkunnakerfi í grunnskólum og mótun stefnu í menntamálum þar sem nánast ekkert samráð var haft við börn fyrr en hún var komin á lokastig. Umboðsmaður barna leggur áherslu á að í samráðsferli því sem nú er hafið um umræddar tillögur leiti menntamálaráðuneytið sérstaklega eftir sjónarmiðum grunnskólanemenda á ofangreindum breytingum. Til að tryggja að grunnskólanemar séu upplýstir um fyrirhugaðar breytingar mun umboðsmaður barna senda bréf til nemendafélaga og samtaka ungmenna til að vekja athygli þeirra á fyrirhuguðum breytingum enda er samráðsgátt stjórnvalda ekki sérstaklega ætluð til samráðs við börn.

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal, umboðsmaður barna

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Jóna Benediktsdóttir - 29.08.2020

Gott er að leggja eigi aukna áherslu á íslensku í grunnskólum en að gera það með því að draga úr sveigjanleika skóla til að móta eigið starf tel ég ekki vera skólastarfi til framdráttar, þar sem það dregur úr möguleikum skóla til að móta starf sitt í samræmi við þarfir nemenda og umhverfis á hverjum stað.

Að nota það sem röksemd að margir skólar noti sveigjanleika sinn nú þegar að sinna lestrar – og íslenskukennslu er að mínu mati gagnslaus, þar sem að ef það er staðreynd, verður ekki um aukna áherslu að ræða með þessum hætti heldur einungis minnkað svigrúm til að móta skólastarfið í samræmi við þarfir hvers skólasamfélags.

Nær hefði verið að auka einfaldlega við skólatíma nemenda og veita skólum aukið svigrúm til að efla kennslu í list og verkgreinum með skapandi hætti á mið-og yngsta stigi og auka þannig möguleika á skapandi notkun íslensku í daglegu lífi allra barna.

Að draga úr vali nemenda á unglingastigi til að efla færni þeirra í náttúrugreinum tel ég alranga nálgun. Áhugi er einn mikilvægasti drifkraftur í námi og val nemenda hefur snúist um að veita þeim tækifæri til skynja hvernig það að vinna af áhuga leiðir til aukins árangurs, sem er færni sem síðar er hægt að yfirfæra á aðra vinnu. Það að draga úr vali nemenda mun einnig gera skólum erfiðara fyrir að bjóða upp á fjölbreytt viðfangsefni í list-og verkgreinum þar með draga úr vægi þeirra greina í skólastarfinu sem er í algjöru ósamræmi við það sem íslenskt þjóðfélag þarf á að halda eins og iðulega kemur fram í ræðum ráðamanna á hátíðarstundum.

Ég lýsi mig því alfarið á móti þessari útfærslu ráðherra til að auka áherslu á íslensku og náttúrugreinar í grunnskólum og tel hana ekki gagnlega í ljósi heildarsamhengis náms í grunnskólum.

Afrita slóð á umsögn

#15 Jóhanna Helgadóttir - 29.08.2020

Góðan daginn. Erindi mitt er í viðhengi.

Takk fyrir.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Þroskahjálp,landssamtök - 01.09.2020

Meðfylgjandi er umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar - sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Samband íslenskra sveitarfélaga - 01.09.2020

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Virðingarfyllst,

Valgerður Rún Benediktsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Magnús Þór Jónsson - 02.09.2020

Skólakerfið...dásamlegt orð...eða hvað?

Er kannski bara kominn tími til að snúa orðinu við og kalla þetta "Kerfið í skólanum". Því þrátt fyrir ótal tilraunir til að brjóta upp hefðbundinn hugsunarhátt 20.aldar...ja bara eða 19.aldar um það hvernig sú iðja ungmenna að ganga í skóla snúist um að uppfylla hugmyndir fullorðinna sem eru orðnir gamlir um það hvernig best sé að allir komi út úr því kerfi þá virðist það svo sannarlega vera leiðin sem á að arka.

Á einhverjum tímapunkti í sögunni var ákveðið að ríkisvald skyldi ráðstafa mínútum í alla skóla. Allir skyldu þramma í taktinn sem ríkið segði rétt. Ég veit ekki nákvæmlega hvar það byrjaði en það var allavega áður en ég byrjaði kennslu árið 1994. Líklega töluvert fyrr. Það er ekki tímans virði að rifja upp hvað skólar gerðu þá, enda hægt að telja á fingrum annarrar handar þau verkefni sem 6 - 16 ára börn voru að undirbúa sig undir þá sem eru raungerð í lífi þeirra í dag. Skólinn sem ég labbaði inní í ágúst 1994 var góður vinnustaður fólks sem lagði sig fram um að fylgja einmitt þeim viðmiðum sem þekktust áður en það ár kom til. Fylgdi mínútunum alveg eins og lagt var fyrir. Fór í bækurnar og kenndu utanbókar, oft eftir frábærum kennsluleiðbeiningum sem að voru með réttu svörin við spurningunum sem átti að spyrja. Enda ekki nokkur maður að leita eftir frumkvæði eða slíku, menn áttu að kunna það sem fyrir þeim var lagt og spyrja sem minnst. Góður skóli vissulega en algerlega á hreinu að þeir sem ég kenndi þá nýttu mjög lítið af þekkingunni sem ég hlóð í þau, líklega þó helst að danskan nýttist þeim.

Ég kenndi íslensku og náttúrufræði á mið- og unglingastigi. Börnin lærðu hríslugreiningar góðu og um lífríkið í vatni og frumurnar. Eftir kennsluleiðbeiningunum. Þau fengu ekkert um það ráðið hvað þau lærðu, þó vorum við framsækin og buðum upp á smá val. Enginn valdi sér íslenskuna eða náttúrufræðina enda drjúgur tími skólans sem fór í það. Svei mér þá, sumir bara lærðu hluti sem þau gátu svo nýtt sér í þann starfsferil sem þau langaði í.

Svo færði ég mig um set og á einhverjum framsæknum tímapunkti var ákveðið að auka við valgreinar skólanna. Ekki bara hið hefðbundna sem að kallaði á nýjar námsgreinar heldur var gefinn slaki á kassanum sem mínúturnar gáfu frá sér þannig að hverjum skóla var treysta að setjast niður og meta hvað skipti máli. Þarna var ég kominn í borgina og við ákváðum þar að horfa til yndislesturs að stórum hluta, fórum í útikennslu og jukum við hreyfingu hjá yngstu hópunum og buðum upp á fullt af vali, nú fór svo að upp komu skemmtilegar hugmyndir að valgreinum sem m.a. innihéldu samþættingu íslensku og náttúrufræði við ólíka þætti...og svei mér, nú völdu nemendur sem höfðu hug á því að nýta sér þá þekkingu einmitt þessa áfanga...og í mörgum tilvikum nýttu þau sér það svo til að hefja enn frekara nám í þeim fræðum.

Á einhverjum tímapunkti í þessu ferli kom Kerfið með góðan mótleik. Yfirgripsmikil þekkingarpróf á alheimsvísu, býsna góð próf á margan hátt, fóru að mæla heilu kerfin. PISA. Ég tók þátt í að þýða fyrstu prófin á Íslandi og fannst mörg verkefni skemmtileg. Þau voru annars konar en við höfðum lagt upp með en voru risastór þekkingarpróf svo það kom mér lítið á óvart að við lentum ekki í efstu sætum þar. Svolítið svipað og ef að ég hefði verið settur í próf um arkitektúr skólaleikvalla. Ég veit mikið af almennu upplýsingunum þar um en þekki ekki fræðin á bakvið og get ekki sagt út af hverju flestir svoleiðis leikvellir eru t.d. með hól í sér. Þessi próf hafa svo verið dregin fram reglulega enda mæla þau Kerfi. Ekki nemendur en Kerfi. Og við skulum ekki gleyma því að Kerfum er stjórnað af fólki með þekkingu á Kerfum og þau eru ekkert að flækja sig í eitthvað einstaklings...nú eða hópamyndun eins og getur komið upp í skólum sem horfa ekki á Kerfið á undan öllu öðru.

Þessi nýjasta hugmynd Kerfisins um skóla byggir á því sem ég áður lýsti. Fólk fætt á síðustu öld sem lítur á skólagöngu sem birtingarmynd þess helst hvað Kerfið er gott vill nú bara fella þetta einstaklingsbundna val niður og ákveða það að tugþúsundir barna fari eftir þeirra úreltu hugsun um þekkinguna sem lykil að lífinu og að árangur í PISA séu leiðarljós íslenskra barna.

Það eru GALIN skilaboð að senda inn í skóla landsins sem hafa það svo sannarlega ekki að markmiði að steypa alla í sama mót enda enn jafn vitlaust og áður að halda það að einn mælikvarði sé sá sem allir eiga að taka mark á. Brandarinn um það að láta dýrin í skóginum keppa í því að klifra upp tré er enn kjánalegri en áður. Í skólunum eru svo sannarlega táknmyndir fílanna og gíraffana sem eru algerlega frábær...en ekki í því að klifra í trjám.

Lengi hefur framsækið skólafólk bent á þá tímaskekkju sem viðmiðunarstundaskrá er fyrir skóla sem horfa á einstaklingsþroska barnanna sem mæta í skólana þeirra. Sú umræða hefur farið hátt í þeim skólamálahópum sem ég hef verið hluti af og reglulega rætt "inni á gólfi" kennarastofanna. Við teljum miklu meira þurfa að fara fyrir hlutum sem skipta máli í lífi barna í því þjóðfélagi sem við erum nú innflytjendur í og byggir á nýjum hlutverkum einstaklinga í samfélagi sem mun byggjast upp af innfæddum einstaklingum.

Félagsfærni, sjálfsefling, frumkvæði og sköpun. Það gengur íslenskt skólakerfi útá. Með allri virðingu fyrir þeim frábæru námsgreinum sem býr í íslensku og náttúrufræði þá er það alveg hreint og tært að með ákvörðun Kerfisins sem býr í þessum hugmyndum verður viðmiðunarstundaskrá enn meiri risaeðla í íslenskum skólum en nú er.

Ég skora á þá sem hafa lagt þessa hugsun upp að horfa í kringum sig í skóginum, ræða við fólk sem vinnur á þeim vettvangi og ákveða ekki að hætta að leyfa fílnum að velta sér í vatninu eða gíraffanum að nýta hlaupakraftinn sinn og troða þeim í það að klifra upp tré.

Ég er algerlega handviss að margir eru tilbúnir til að ræða við fulltrúa Kerfisins um málið...og kannski í framhaldin eyða orðinu SkólaKerfi úr málinu. Það er jafn úrelt og viðmiðunarstundaskrá.

Ég lýsi mig reiðubúinn til þess a.mk.

Með kveðju,

Magnús Þór Jónsson,

Skólastjóri Seljaskóla...áður íslensku- stærðfræði, dönsku- og náttúrufræðikennari á mið- og unglingastigi.

Afrita slóð á umsögn

#19 Svandís Egilsdóttir - 07.09.2020

Svar á samráðsgátt

Ég er hundrað prósent sammála því að mikilvægt sé að efla sjálfbærninám, náttúrufræðikennslu og íslenskuhæfni barna á grunnskólaaldri. Það er vegna stöðu íslenskunnar hjá nánast flestum börnum á Íslandi, sem flest koma mér fyrir sjónir sem tvítyngd m.a. af því að þau lifa og hrærast í flóknu málumhverfi hnattvæddrar dægurmenningar. Það er einnig áhyggjuefni ef rökhugsun og skilningur á vistkerfum, náttúrufræði og sjálfbærni er ekki fyrir hendi hjá nemendum okkar því þá er líklegra að það fari illa fyrir okkur á Íslandi, mannkyninu og vistkerfunum á Jörðinni sem væri m.a. afleiðing af því að við berum ekki skynbragð á mikilvægi auðlinda Jarðar sem ásókn er í og á mikilvægi ósnortinna víðerna landsins sem eru verðmæti í sjálfu sér.

Að setja markmið um aukinn árangur í skólastarfi fyrst og fremst í samhengi við PISA-kannanir og fjölda kennslustunda, mínútur til eða frá, lýsir að mínu mati hinsvegar alltof þröngu sjónarhorni á hvað við erum að fást við í skólum landsins en einnig kerfi og könnun sem er aftengd skólastarfi á Íslandi. PISA könnunin líkt og margar aðrar samræmdar kannanir eru mjög umdeildur mælikvarði á gæði skólastarfs og árangur nemenda og eru alls ekki upphaf og endirinn í þeim efnum. Ef til vill skortir okkur í skólunum tengingu við þessa blessuðu könnun til að okkur fari að ganga vel í henni?

Árangur okkar í PISA segir engu að síður langt í frá fyllilega til um það hvort að börn á Íslandi séu alfarið á réttri leið námslega eða séu hæfar manneskjur með bjarta framtíð. Við í skólunum erum flest að horfa til þess að efla marga aðra þætti sem ná frá almennri velferð nemandans og einstaklingsbundnum þörfum hans, stöðu í námi og áhugamálum til markmiða um árangur í fjölmörgum greinum. Að hafa allt njörfað niður í greinar og mínútur setur möguleikum okkar miklar skorður. Við ættum frekar að fá fleiri yfirlýst tækifæri til að vinna heildrænna að kennslunni saman og gleyma örlítið kappinu við klukkuna.

Það að efla nám í náttúrufræði og íslenskuhæfni nemenda, hugtakaskilning og málþroska er vissulega mjög brýnt og tímabært verkefni ásamt því að efla allt skólastarf. Jú greinarnar þurfa tíma á stundaskrá en inntak kennslunnar meðal annars, námsefnið og kennsluaðferðirnar, aðstæður í skólunum, viðhorf allra í skólasamfélaginu og aðgengi að og nýting tækni og endurmenntun, hafa áhrif á hvernig til tekst. Meira að segja hvernig við eigum í samskiptum innan, utan og við skólafólkið hefur áhrif. Virðingin og samstöðu með skólunum má ekki gleyma ef árangur á að nást og jöfnuð í aðgengi að tækifærum og aðstöðu milli sveitarfélaga myndi ábyggilega hjálpa upp á árangur okkar.

Á unglingastigi er oftar en ekki boðið upp á nám í list- og verkgreinum í valtímum nemenda og þess vegna er hægt að staðhæfa að ef valið er skert eykst hætta á að list- og verkgreinar skerðist. Að takmarka val nemenda eða nám nemenda í list- og verkgreinum enn frekar en nú er væri galin ákvörðun þegar við viljum byggja samfélagið okkar upp á fjölbreyttan hátt. Skapandi hugsun og verkþekking er mikilvægur grunnur sem nýtist í örum greinum er jafnframt grunnur að frekara listnámi nemenda og þar með margvíslegri menningarstarfsemi og nýsköpun. Jafnvel enn verra er að með því að skerða hlut valgreina á unglingastigi tökum við frá nemendum nokkuð afskaplega dýrmætt, nefnilega möguleika þeirra á sjálfræði í skóladeginum, nemendalýðræði og að tekið sé tillit til einstaklingsbundinna þarfa nemandans og áhuga hans. Nemendur á unglingastigi eru á þeim stað í lífinu að þurfa sjálfir að fara að taka stærri ákvarðanir um hvert þau vilja stefna í námi. Og það er margt bogið við að skerða valfrelsi þeirra og þjálfun í að velja, rétt fyrir þau tímamót. Með valtímum ætlum við í skólunum að efla ábyrgð nemenda á námi, valdefla þau, auka eignarhald þeirra á námsleiðum sem þau velja sér og auka nemendalýðræði í skólunum okkar skv. aðalnámskrá. Þessari lausn verður því að mótmæla sem þeirri sem tillögu sem myndi bera árangurinn sem við viljum ná.

Að bæta nám og kennslu og ná auknum árangri er samvinnuverkefni allra sem að því koma og víðtækt verkefni eins og komið hefur fram. Leiðir sem duga eru leiðir sem hafa það að markmiði efla íslenskuhæfnina, rökhugsun, sjálfbærninám, virðingu og skilning á náttúrunni en skerða ekki um leið mikilvæg gildi okkar eða aðra fyrirætlan: Að stuðla að fjölbreytileika, mikilvægi allra greina eða sjálfræði unglinganna okkar. Leiðir sem þess utan gera ráð fyrir samvinnu fagfólksins en varpa ekki alfarið ábyrgðinni á einstaka faggreinakennara, íslensku- og náttúrufræðikennarana innan einstakra skóla í þessu tilfelli eða teflir öðrum mikilvægum hagsmunum og gildum í tvísýnu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Guðmundur Finnbogason - 07.09.2020

Umsögn vegna tillögu að breytingum á viðmiðunarstunaskrá grunnskóla.

Það er ýmislegt athugavert við þær hugmyndir sem uppi eru um breytingar á viðmiðunarstundaskrá. Þar eru nokkur atriði sem mig sem kennara og skólastjórnanda langar til að gera athugasemd við.

Fyrsta atriðið sem sett er fram í tillögunni er að ástæða breytinganna sé slök niðurstaða íslenskra nemenda á PISA könnuninni. Þá er tiltekið að nú sé í mótun menntastefna fyrir næstu 10 árin sem eigi að leggja áherslu á framúrskarandi menntun, þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi þar sem allir skipti máli og geti lært.

Tvö markmið eru síðan sett fram með breytingunum. Annars vegar að auka hlutfall íslenskukennslu á yngsta og miðstigi á kostnað þess tíma sem skólar hafa haft til ráðstöfunar og hins vegar að auka þann tíma sem að fer í náttúrufræðikennslu á unglingastigi á kostnað valtíma nemenda.

Þessar breytinga geta haft víðtæk áhrif þó að þau virðist kannski í fljótu bragði vera einföld tilfærsla á nokkrum mínútum á viku.

Fyrst ber að nefna þau skilaboð sem að þessar breytingar senda. Viðmiðunarstundaskrá hefur alveg síðan aðalnámskrá var samþykkt verið til vandræða. Hún hefur verið mun meira stýrandi fyrir skólastarf en ýmislegt annað í aðalnámskránni enda er henni fylgt eftir með könnunum til skóla frá hagstofunni og síðan frá ráðuneytinu ef niðurstöður hagstofukannanna eru ekki nægilega í samræmið við þau viðmið sem sett eru fram. „Viðmiðunin“ sem lagt er upp með er því ekki eins sveigjanleg og mætti halda. Með öðrum orðum er stundaskráin í mörgum tilfellum mjög stýrandi.

Eðlilega er það að einhverju leiti markmiðið. Það er að tryggja ákveðið lágmark og samræmi. Við erum jú með samræmt skólakerfi og því ef til vill eðlilegt að gera slíkar kröfur. Hérna er þó verið að sníða þennan stakk of þröngt. Í mörgum skólum hefur það staðið skólaþróun fyrir þrifum hversu þröng stundarskráin er. Þannig hefur reynst erfitt að brjótast út úr þeirri allt umlykjandi viðmiðun sem að stundaskráin setur fram. Í því samhengi eru breytingar á henni einnig stjórntæki sem hefur víðtæk áhrif. Að draga hana út úr aðalnámskrá og gera þó nokkrar breytingar sendir þau skilboð að skólar eigi og verði að fylgja þessum viðmiðunum út í æsar. Farsælla væri að fela skólunum meira vald á sínum áherslum og skipulagi með því að leggja frekar til valhluti viðmiðunarstundaskrár væri aukin en hvetja um leið skóla til að efla þá þætti sem um ræðir. Raunin er reyndar sú eins og kemur fram í drögunum að skólar eru nú þegar að nýta hluta ráðstöfunartíma sinna á yngri stigum til aukinnar íslenskukennslu sem er í samræmi við auknar áherslur undanfarið.

Í skólaumhverfi þar sem að samþætting á að vera lykilatriðið í allri kennslu þá er viðmiðunarstundaskráin ein stærsta hindrunin í því verkefni. Um leið og áherslur eru á hana og mikilvægi þess að fylgja henni þá verður öll slík vinna erfiðari og flóknari. Hvernig telja kennarar og stjórnendur tíma sem að eru samþætt verkefni íslensku og samfélagsgreina? Hvernig teljum við tíma hjá nemendum sem að vinna að þemaverkefnum? Svigrúm í stundaskrá er ekki einungis til þess fallið að auðvelda skólum að skipuleggja nám sitt heldur ekki síður til þess að auðvelda þau vinnubrögð sem að allir kalla eftir. Samþættingu, þemavinnu, val nemenda og stjórn á eigin námi og möguleika þeirra til að taka og bera ábyrgð á því.

Þau skilaboð sem send eru með þessum áherslur eru þver öfug. Setningar eins og „Jafnframt fellur niður svigrúm grunnskóla til ráðstöfunar tíma...“ og „...og eftirfylgni með því að skólar uppfylli til fulls hlutfall lágmarkskennslutíma samkvæmt viðmiðunarstundaskrá grunnskóla...“ eru ekki til þess fallin að efla skóla í að nýta það svigrúm sem þeir þó hafa. Ef gera á breytingar á viðmiðunarstundaskrá ættu slíkar breytingar eins og áður sagði að snúast um að auka svigrúm skóla í skipulagningu. Áfram á að taka saman hvað er verið að kenna og skólastjórnendur og kennarar eru fullfærir um að meta hvað skiptir máli og hvað ekki.

Sú áhersla sem jafnframt birtist á PISA í þessum drögum er ekki til framdráttar fyrir umræðu og áherslur í skólakerfinu. Nú þegar okkur hefur tekist að draga úr mjög neikvæðum áhrifum samræmdra prófa og PISA kannanna með betri umræðu um þessi mál og með því að hætta opinberum samanburði skóla í fjölmiðlum getum við farið að vinna með þessi verkfæri eins og á að nota þau. Sem almenna mælikvarða á þróun, bæði hjá einstökum nemendum í formi samræmdra prófa og hjá þjóðinni í formi PISA. Fjöldi sérfræðinga hafa lýst því hvernig skoða á niðurstöður PISA. Ekki með því að stunda víðtæk inngrip eftir hverja könnun heldur með því að vinna að því hægt og rólega í samvinnu við skólasamfélagið að færast upp listann. Þar skiptir ekki síður máli að við höfum okkar eigin áherslur á það hvað skipti máli og hvernig við viljum horfa á þessar niðurstöður. Í mínum augum voru bestu niðurstöður okkar úr PISA þær að nemendum líður vel í skóla. Það er risastórt verkefni að viðhalda því og grunnur að góðum árangri framtíðar. Það er heldur ekki sjálfgefin niðurstaða. Að því þarf að vinna.

Varðandi breytingarnar sjálfar, verður að velta því fyrir sér hvort að einhver hafi verið að kalla eftir þessum breytingum. Mér vitandi hefur slíkt ákall ekki komið utan þess að háskólakennarar hafa haft áhyggjur af því að raungreinakennsla í grunn og framhaldsskólum sé ekki nægileg eða nógu góð. Umræða hefur einnig verið um að standa þurfi vörðu um íslenskuna og tryggja meðal annars að við getum í framtíðinni talað við tölvur og tæki á íslensku sem og að nemendur almennt geti lesið sér til gagns.

Fjölmargt hefur verið gert í þess áttina eins raunar kemur fram í drögunum þar sem yngsta og miðstigs kennarar hafa verið að ráðstafa þeim tímum sem þeir hafa í íslensku. En það er tvennt ólíkt að búa til svigrúm fyrir kennarar til að bregðast við þörfinni hverju sinni og að festa svo ráðstafanir dagsins í dag í sessi.

Vel má velta fyrir sér hvort að verja þurfi meiri tíma til íslenskukennslu á einhverjum eða öllum stigum grunnskóla. Slík umræða á að sjálfsögðu að fara fram (sem hún reyndar gerir svo reglulega að það má heita stöðugt) en hún á að fara fram í skólunum sjálfum miðað við þarfir nemenda á hverjum stað og á hverjum tíma. Kennarar og fagfólk skóla á að leiða þá umræðu. Ef við viljum fá raunverulegar breytingar á skólakerfinu, á að búa til svigrúm fyrir slíka ígrundaða umræðu innan stofnanna og þeirra á milli. Til þess menntum við sérfræðinga í skólakerfinu.

Það sama má segja um náttúrufræði. Ég er alveg sammála því að vel mætti auka slíka kennslu en sú aukning á að fara fram í samþættingu námsgreina með auknu svigrúmi en ekki með því að binda enn hendur bæði kennara og ekki síður nemenda. Mikil þróun hefur orðið á undanförnum árum og áratugum í því að færa okkur frá töflukennslu iðnbyltingarinnar yfir í betri, fjölbreyttari og opnari kennslu þar sem að sjálfræði nemenda og ábyrgð þeirra skiptir máli. Allar breytingar til að þrengja þetta svigrúm eru afturför.

Til að efla náttúrufræðikennslu þarf að efla menntun náttúrufræðikennara, bæði starfandi og framtíðar. Þá þarf að efla aðstöðu til þessarar kennslu í skólum. Slíkt myndi samstundis hafa áhrif í rétta átt. Það skiptir engu máli að hafa nægan tíma ef að aðstaðan og þekking kennarar er ekki fyrir hendi. Í mörgum skólum gengur þessi vinna vel en því miður eru þeir sem sérhæfa sig í þessu námi ekki nægilega margir eða ekki að skila sér inn í skólana. Þarna mætti vel skoða ástæður þess betur og væri það gott fyrsta skref.

Efling útináms og útinámsaðstöðu ætti einnig að vera forgangsmál. Slíkt felur í sér samþættingu greina en einnig mikilvægur þáttur í því að færa nám í náttúrugreinum inn í námsumhverfi sem að getur stutt við námið. Þar mætti bæði efla almenna kennara og náttúrufræðikennara í sínu námi og styðja við þróun útikennslusvæða tengd skólunum en ekki síður þeirra svæða sem skólar nota fyrir sín ferðalög.

Stóru breytingarnar sem ætti að mínu mati að gera á viðmiðunarstundaskrá væri að taka af öll tvímæli um að hún sé til viðmiðunar. Skólar eru að skipuleggja sitt starf eftir bestu getu og geta vel staðið undir því verkefni að rökstyðja það hvers vegna þeir fara eina leið eða aðra. Þeir eiga jafnframt að hafa svigrúm til að vera allskonar með allskonar áherslur. Slíkt ýtir undir og hraðar þróun. Með því að bjóða upp á fjölbreyttar lausnir á vandamálum eru mun meiri líkur á því að nýjar og betri aðferðir komi fram. Miðstýring þessara þátta er ekki til þess fallin að efla kennslu heldur takmarka umræðu og þróun.

Afrita slóð á umsögn

#21 Alexandra Briem - 08.09.2020

Mér finnst ákaflega varhugavert að fara þessa leið til að bregðast við slökum árangri í íslensku og stærðfræði í grunnskólum. Síðustu ár hefur þróunin í skólamálum, bæði hérlendis og í samanburðarlöndum okkar hefur þróunin verið í átt að einstaklingsmiðuðu námi sem miðist við áhuga og styrkleika hvers og eins, en með þessari ákvörðun er verið að draga úr vali, sveigjanleika og frelsi bæði skólanna til þess að mynda sér sérstöðu og áherslur, og nemendanna til að velja sér áfanga eftir áhugasviði og getu.

Það er ekki víst að við höfum kennarafjöldann með réttu menntunina sem þarf, né rétta námsefnið, til að einföld fjölgun kennslustunda hafi þau áhrif að bæta árangur í þessum greinum, það er einfaldasta lausnin, tilraun til að hafa áhrif á flóknar aðstæður með einfaldri lausn, pennastriki.

Ég hvet ráðherra og þingmenn eindregið til að fara dýpra í vinnuna, kynna sér hvernig mætti ná árangri með því að breyta aðferðafræði í kennslu, fá inn betra námsefni og með betri samþættingu mismunandi greina. Það er að mínu mati töluverð hætta á því að með þessari breytingu glötum við góðri þróun síðustu ára, drögum úr eldmóði og tilraunastarfsemi, og minnkum þannig hugmyndaauðgi og nýsköpun í skólastarfi.

Ég leyfi mér góðfúslega að vísa á Menntastefnu Reykjavíkurborgar 2018-2030, en hún var unnin í góðu samráði fagfólks, nemenda, íbúa og annarra og hefur skilað mjög góðum árangri og fengið jákvæð viðbrögð bæði í starfinu og meðal erlendra sérfræðinga.

Þá er ég ekki að segja að íslenska sé ekki mikilvæg, eða stærðfræði eða náttúrufræði, en þetta er ekki leiðin til að ná markmiðinu og ég hvet eindregið til að þessi ákvörðun fari til endurskoðunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Unnur Jónsdóttir - 09.09.2020

Ekki má gleyma þeirri staðreynd að íslenskukennsla einskorðast ekki bara við íslenskutíma. Við erum öll íslenskukennarar hvort sem við kennum íslensku, stærðfræði eða...

Afrita slóð á umsögn

#23 Umboðsmaður barna - 16.09.2020

Umsögn Nemendaráðs Reykhólaskóla um tillögur að breytingum á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla (send af umboðsmanni barna fyrir hönd ráðsins samkvæmt beiðni).

Nemendur á unglingastigi í Reykhólaskóla vilja ekki missa valgreinar en finnst íslensku og náttúrugreinar mega bætast við aukalega í stað þess að fá þær á kostnað valgreina. Hægt væri að kenna í lotum til að missa ekki út jafn miklar valgreinar

Kv. Nemendaráð Reykhólaskóla

Aníta Hanna, Borghildur Birna og Elísa Rún

Afrita slóð á umsögn

#24 Umboðsmaður barna - 22.09.2020

Umsögn send fyrir hönd nemendaráðs Álfhólsskóla í Kópavogi samkvæmt beiðni.

Góðan daginn. Við erum fulltrúar nemendaráðs Álfhólsskóla í Kópavogi. Okkur finnst skrítið að það sé ekki haft samráð við nemendur þegar á að breyta viðmiðunarstundaskrá okkar. Við teljum að þessi breyting muni hafa slæm áhrif á skólabrag allra skóla þar sem valtímar ýta undir jákvæð samskipti, auka víðsýni og gera okkur kleift að hitta krakka sem hafa sömu áhugamál. Það hafa ekki allir krakkar áhuga á bóklegum greinum og valið gefur okkur tækifæri til að hafa áhrif á nám okkar. Við teljum að niðurstöður Pisa endurspegli ekkert endilega stöðu og árangur Íslendinga í lífinu almennt miðað við þær þjóðir sem ná góðum árangri á þessu prófi. Það að krakkar geti lært það sem þeir hafa áhuga á eykur skapandi hugsun sem er rauði þráðurinn í aðalnámsskrá grunnskóla á Íslandi. Við viljum fá að hafa áhrif á líf okkar í lýðræðisríki.

Nemendaráð Álfhólsskóla, Öll sem eitt.

Afrita slóð á umsögn

#25 Listaháskóli Íslands - 22.09.2020

Efni: Umsögn listkennsludeildar Listaháskóla Íslands um drög að breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011

Í kynningu á drögum að breytingu á viðmiðunarstundakrá grunnskóla kemur fram að í mótun menntastefnu til ársins 2030 á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis sé áhersla á að veita framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi þar sem allir skipta máli og geta lært.

Samkvæmt tillögu ráðuneytisins á að auka tímamagn í íslensku í 1.-6. bekk og í náttúrufræði á unglingastigi á kostnað valgreina.

Samfara þessum breytingum á viðmiðunarstundaskrá er stefnt að því að efla leiðtoga á þessum námssviðum og efla eftirfylgni með því að skólar uppfylli lágmarkskennslustundir í list- og verkgreinum.

Yfirmarkmiðin um framúrskarandi menntun eru sannarlega við hæfi og vert að vinna að. Einnig er ánægjulegt að sjá að efla eigi eftirfylgni með því að nemendur fái kennslu í listgreinum samkvæmt viðmiðunarstundaskrá en misbrestur hefur verið á því í mörg ár.

Hér eru þó nokkrar athugasemdir við þessar hugmyndir:

• Mótsagnir. Það er ákveðin mótsögn í áherslum yfirmarkmiða og þeirri tillögu að skerða valmöguleika nemanda. Hluti af því að auka vellíðan nemenda og skapa námsumhverfi þar sem allir skipta máli er að nemendur, sérstaklega á eldri stigum, geti valið og mótað hluta náms eftir eigin áhugasviði og þörfum. Það að skerða valmöguleika nemenda og á sama tíma skerpa á því að grunnskólar uppfylli lágmarkskennslustundir í list- og verkgreinum stenst illa skoðun þar sem list- og verkgreinar eru í flestum skólum einungis í boði sem valgreinar á unglingastigi.

• Niðurstöður alþjóðlegra kannanna. Þessi breyting er studd með því að bregðast verði við viðvarandi slökum árangri íslenskra nemenda í þessum greinum í PISA könnunum. Í því samhengi er vert að benda á nýlega könnun á líðan ungmenna sem sýndi að íslensk ungmenni skorti félagsfærni. Mikilvægt er að skoða þessar niðurstöður í samhengi við hvor aðra og þá hvernig við getum aukið vellíðan og félagsfærni ungmenna eins og fram kemur í menntastefnunni. Við viljum ítreka mikilvægi lista og aðferðir listgreina svo sem tónlistar, leiklistar og dans sem mikilvægan tjáningarmáta en ekki síður sem einstakt tækifæri til að efla félagsfærni, sjálfstraust, þrautseigju og samheldni einstaklinga. Það leiðir okkur að næstu athugasemd.

• Er þetta hugsanlega spurning um aðferðir en ekki tíma? Við verðum að velta fyrir okkur hvernig við eflum vellíðan, þrautseigju og árangur nemenda. Hvort það er falið í því að njörva niður fleiri tíma í afmörkuðum greinum eða hvort frekar ætti að skoða kennsluaðferðir og umgjörð náms í íslensku og náttúrufræði. Enn frekar þyrfti að endurskoða kennsluhætti og uppbyggingu náms í heild. Það skipulag sem enn er við lýði í mörgum skólum að njörva stundaskrá niður eftir mínútum og fögum hefur ekki sýnt sig vera besta leiðin til vellíðunar eða góður jarðvegur fyrir jöfnuð í námi. Með afnámi niðurnjörvaðrar stundaskrár og aukinni áherslu á viðfangsefnamiðað nám (phenomenon based, líkt og tíðkast í Finnlandi) yrði samþætting á milli allra námsgreina auðveldari, og listir eru kjörinn vettvangur til að samþætta nám þvert á greinar. Auka mætti kennslu í íslensku, stærðfræði og náttúrufræði með því að samþætta þær öðrum greinum frekar en að bæta við tímum í viðmiðunarstundaskrá.

• Mikilvægi lista og aðferða list- og verkgreina í skólastarfi. Að fá að prófa sig áfram í ólíkum listformum og hafa aðgengi að listviðburðum á ekki að vera forréttindi fárra heldur sjálfsagður hluti af menntun og lífi hvers einstaklings. Að fá innsýn í aðrar tjáningarleiðir en tungumálið er afar mikilvægt. Ekki síst því aðrar leiðir eru þá farvegur til að nálgast og skilja betur texta sem lagður er til grundvallar í námi. Það er stór hópur fólks sem hefur betra aðgengi hið innra að öðrum tjáningarleiðum en orðum s.s. tónlist, myndlist, leiklist og dansi. Í gegnum aðferðir lista og skapandi vinnuaðferða fá þeir nemendur tækifæri til að þroska með sér þekkingu í öðru s.s. íslensku og náttúrufræði. Má nefna dæmi um leiklist (fara með texta, búa til eigin texta og tjá), söng (læra ógrynni texta, tilfinning fyrir hljómfalli og rytma tungumáls) og myndlist (nýlegt dæmi um smiðju í leirmótun samþætt náttúrufræði). Ef við viljum stuðla að raunverulegu jafnrétti og skapa umhverfi í menntakerfinu þar sem allir skipta máli og geta lært þá ber að virða allar tjáningaleiðir.

• Vellíðan er grundvöllur náms. Listir og þátttaka í listum er hluti af því að vera manneskja og bent hefur verið á það í umræðu um framtíðaráherslur í menntun að samfara aukinni tækniþekkingu sé mikilvægt að efla þá þætti sem við manneskjurnar höfum umfram tækni og tæki. Þar er sérstaklega nefnt að efla þurfi sköpun, listir og ekki síst samkennd. Mannskilningur okkar felst ekki lengur í þeirri hugmynd að manneskjan sé einungis rökhugsandi, sjálfráður og óháður hugur heldur í því að hún sé líkamleg, skynjandi tengslavera. Út frá þeim skilningi verður að hugsa menntun út frá því hvaða aðferðir og leiðir séu líklegar til að efla skynjun og heilbrigð tengsl við aðra og við umhverfi sitt, og byggja upp heilsteypta og heilbrigða einstaklinga. Þar eru skapandi vinnubrögð og listuppeldi mjög mikilvæg. Mikilvægt í því samhengi væri að efla leiðtoga á sviði samþættingar námsgreina og viðfangsmiðaðra kennsluhátta til að stuðla að heilstæðara námi fyrir alla og vellíðan nemenda.

Afrita slóð á umsögn

#26 Samtök líffræðikennara,Samlíf - 22.09.2020

Stjórn Samtaka líffærikennara fagnar sérlega fjölgun kennslustunda á unglingastigi – sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#27 Félag raungreinakennara - 23.09.2020

Félag raungreinakennara styður eindregið tillögu um aukna áherslu á náttúrufræðigreinar á unglingastigi grunnskóla, sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#28 Þorsteinn Sæberg Sigurðsson - 23.09.2020

Umsögn Skólastjórafélags Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#29 Þorsteinn Sæberg Sigurðsson - 23.09.2020

Leiðrétt umsögn Skólastjórafélags Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#30 Hálfdán Þorsteinsson - 23.09.2020

Til þess er málið varðar.

Efni: Umsögn skólaráðs Stóru-Vogaskóla um áætlaðar breytingar Menntamálaráðuneytis á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla.

Skólaráð Stóru-Vogaskóla hefur fjallað um fyrirhugaðar breytingar Menntamálaráðuneytisins á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla. Skólaráðið telur breytingarnar varhugaverðar og þurfi að ígrunda frekar.

Breytingarnar endurspegla ekki mikilvægi íslensku og stærðfræði í grunnskólakennslu, þar sem viðmiðunarstundaskrá muni hafa 5 tíma á viku í íslensku og stærðfræði en 6 tíma á viku í náttúrufræði á unglingastigi. Einnig ber að hafa í huga að framhaldsmenntun krefst ávallt frekari menntunar í íslensku og stærðfræði en ekki náttúrufræði.

Einnig telur skólaráðið að val á unglingastigi sé afar mikilvæg undirstaða fyrir framhaldsnám og því megi ekki skerða hana.

Val á yngra stigi í grunnskóla er einnig afar mikilvægt þar sem skólar geta þannig mótað sérstöðu sína. Stóru-Vogaskóli hefur sterka sérstöðu sem skóli með heilstætt og gott enskunám og er skólaráð mjög ánægt með þá sérstöðu.

Virðingarfyllst

Skólaráð Stóru-Vogaskóla.

Afrita slóð á umsögn

#31 Vigfús Hallgrímsson - 24.09.2020

Fræðsluráð þakkar þróunarfulltrúa grunnskóla fyrir samantekt á umræðu fræðsluráðs síðasta fundar og góðri yfirferð um þróun viðmiðunarstundatöflu grunnskóla á Íslandi.

Fræðsluráð tekur undir álit þróunarfulltrúa grunnskóla Hafnarfjarðar og niðurstöðu hans vegna tillögu til breytingar á viðmiðunarstundaskrá aðalnámskrár grunnskóla 2020. Fræðsluráð leggur áherslu á og skorar á yfirvöld að fá fleiri sjónarmið og rök áður en ákvörðun verður tekin um umrædda breytingu.

(https://www.hafnarfjordur.is/stjornsysla/fundargerdir/DisplayMeeting.aspx?id=2009015F)

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#32 Þorvaldur Örn Árnason - 24.09.2020

Viðbrögð við tillögu ráðuneytis um breytingu á viðmiðunarstundaskrá

Ég undirritaður var námstjóri við menntamálaráðuneytið í Náttúrufræði og umhverfismennt í áratug, 1982 – 1993. Á þessum árum var meiri tími á viðmiðunarstundaskrá ætlaður til náttúrufræðikennslu í elstu bekkjum grunnskóla en var síðan verulega skertur, illu heilli.

Ég kenndi rúman í áratug í framhaldsskóla og tvo áratugi í grunnskóla og þekki þannig til þessara mála, bæði innan frá og utan. Nú er ég hins vegar á eftirlaunum.

Ég fagna vilja mennta- og menningarráðuneytisins til að efla nám og kennslu í íslensku og ekki síður náttúrufræði. Aukinn kennslutími er gott ráð til að bæta árangur á þessu sviði, en slæmt ef það verður á kostnað valgreina. Valgreinar geta skólar m.a. notað til að bæta við tíma námsgreina eins og íslensku og náttúrufræði og sumir skólar hafa nýtt sér það. Breyting sem hér er fyrirhuguð myndi hafa ltítil ef nokkur áhrif á starf þeirra skóla. Innra skipulag skóla (skólanámskrá, nám þvert á greinar o.fl.) og umfran allt menntun og hæfni kennara skiptir lang mestu máli í þessu sambandi.

Með góðri kennslu í náttúrufræði og íslensku er einnig hægt að sinna vel grunnþáttum eins og sjálfbærni, heilsu, lýðræði, jafnrétti o.fl. en það er einnig hægt að gera með valgreinum.

Ég vil taka undir álit Skólastjórafélagsins (nr.29), en það leggst gegn þessum breytingatillögum. Þar segir m.a.:

„Þar sem þær breytingar sem drögin kveða á um munu verða til þess að val nemenda skerðist vill félagið vekja sérstaklega athygli á kafla 8.3 í Aðalnámskrá grunnskóla en þar segir m.a.: „Tilgangurinn með valfrelsi nemenda á unglingastigi er að hægt sé að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjafa.“ Skerðing á valfrelsi nemenda er því alls ekki til þess ætluð að byggja undir aukna einstaklingsmiðun í námi nemenda. Til að ýta enn frekar undir aukna einstaklingsmiðun í námi segir ennfremur í kafla 8.3 um val og valgreinar: „Val í námi skal miða að skipulegum undirbúningi fyrir nám í framhaldsskóla og taka mið af undirbúningi fyrir bóknám, starfsmenntun, verknám og list- og tækninám. Í þessu skyni gefst nemendum kostur á að dýpka þekkingu sína á þeim námssviðum eða innan lögboðinna námsgreina. Einnig eiga nemendur að geta valið um viðfangsefni sem einkum miða að því að víkka sjóndeildarhring þeirra, stuðla að aukinni lífsfyllingu eða dýpka þekkingu, leikni og hæfni sína á tilteknum sviðum í samræmi við áhuga þeirra.“ Af þessu má sjá að það er ekkert sem kemur í veg fyrir að skólar geti mætt nemendum sínum með auknu vali á námi í íslensku eða í náttúrugreinum telji þeir þörf á því.“

Ég tek undir þessi orð umboðsmanns barna (ths. nr.13), sem leggst gegn skerðingu á valgreinum og segir m.a.: „Ekki eru í tillögunum færð rök fyrir því að fjölgun kennslustunda ein og sér komi til með að bæta árangur nemenda á kostnað valfrelsis og fjölbreytni. Þá kemur ekki fram að til standi að taka upp nýstárlegri eða fjölbreyttari kennsluaðferðir, heldur á eingöngu að fjölga kennslustundum í umræddum námsgreinum. Ekki eru færð fram nein rök fyrir því að betri árangur náist með þessu móti. Brýnt er að hafa samráð við börn í grunnskólum um leiðir til þess að gera námið aðgengilegra, fjölbreyttara og áhugaverðara. Það væri í samræmi við markmið aðalnámsskrár grunnskóla þar sem segir að skólar eigi að styðja við námshvöt nemenda, rækta námsgleði og vinnuanda og stuðla þannig að menntun þeirra. Þeim markmiðum verður augljóslega ekki náð með því einu að fjölga kennslustundum í tilteknum greinum. Þá eru ónefndar þær efasemdir sem settar hafa verið fram um PISA prófin og hvort þau séu raunverulega til þess fallin að veita heppilegan samanburð á stöðu nemenda í ólíkum löndum og skólakerfum.

Samkvæmt Barnasáttmálanum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skulu allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn byggðar á því sem þeim er fyrir bestu. Þá kveður 12. grein Barnasáttmálans á um rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska.“

Í beinu framaldi af þessum orðum umboðsmanns barna tek ég undir aths. nr.24, þessi orð nemendaráðs Álfhólsskóla í Kópavogi:

„Góðan daginn. Við erum fulltrúar nemendaráðs Álfhólsskóla í Kópavogi. Okkur finnst skrítið að það sé ekki haft samráð við nemendur þegar á að breyta viðmiðunarstundaskrá okkar. Við teljum að þessi breyting muni hafa slæm áhrif á skólabrag allra skóla þar sem valtímar ýta undir jákvæð samskipti, auka víðsýni og gera okkur kleift að hitta krakka sem hafa sömu áhugamál. Það hafa ekki allir krakkar áhuga á bóklegum greinum og valið gefur okkur tækifæri til að hafa áhrif á nám okkar. Við teljum að niðurstöður Pisa endurspegli ekkert endilega stöðu og árangur Íslendinga í lífinu almennt miðað við þær þjóðir sem ná góðum árangri á þessu prófi. Það að krakkar geti lært það sem þeir hafa áhuga á eykur skapandi hugsun sem er rauði þráðurinn í aðalnámsskrá grunnskóla á Íslandi. Við viljum fá að hafa áhrif á líf okkar í lýðræðisríki. Nemendaráð Álfhólsskóla, Öll sem eitt.“

Víkjum þá að skipulagi skólastarfs og menntun og hæfni kennara. Þar tek ég undir þessi orð skólastjórafélagsins:

„Mikilvægt er að hafa það í huga að það er ekki tímamagn einstakra námsgreina sem hefur úrslitaáhrif á árangur nemenda í einstökum námsgreinum heldur innihald þeirra kennslustunda sem um ræðir. Þar skiptir sérfræðikunnátta kennara í námsgrein miklu máli hvað varðar faglega nálgun. Hverjir eru áhersluþættir einstakra námsgreina og hversu djúpt er farið í einstaka námsþætti skiptir máli og því ætti frekar að skoða hvað er verið að kenna og hvernig heldur en að horfa til aukningar á tímamagni. Þetta gildir örugglega um allar námsgreinar. Í þessu sambandi má sérstaklega benda á kennslu í náttúrufræði en bent hefur verið á í rannsóknum að slakt gengi nemenda í náttúrufræði sé ekki vegna skorts á kennslustundum í grunnskóla heldur frekar vegna skorts á fagmenntun grunnskólakennara í náttúrufræði. Því hafi kennarar sem taka að sér kennslu í náttúrufræði í grunnskólum ekki þann faglega bakgrunn sem sér til þess gerður að efla námsárangur nemenda í náttúrufæði.“

Í beinu framhaldi tek ég heils hugar undir þessi orð Samlífs, samtaka líffræðikennara (aths. nr. 26 ):

„Á sama tíma og við fögnum því að náttúrufræði sé gefinn meiri gaumur vekjum við athygli á náttúrufræðikennaraskorti. Ítrekum áhyggjur af vöntun á kennurum með fullnægjandi faglegan bakgrunn til að sinna þessari kennslu og fáir kennarar útskrifast frá sviði náttúruvísinda. Sértæk leyfisbréf bundin við námsgreinar kæmu e.t.v. til með að auka fagvitund. Lög frá 2008 (Alþingi, 2008) tiltaka hvaða sérfræðiþekkingu kennarar þurfa að uppfylla. Þessi lagasetning þótti til bóta á sínum tíma og styrkja mikilvægi fagmenntunar til að sinna greinakennslu auk þess sem lögin styrktu fagvitund starfandi líffræðikennara. Einnig þarf fjármuni til að styrkja fagvitund starfandi náttúrufræðikennara í grunnskólum, bæta starfsskilyrði þeirra og samtal þeirra á milli.“

Í starfi mínu sem námstjóri í áratug tók ég eftir hvað mál sem þessi skipta miklu, þ.e. gæði fremur en magn. Á þeim tíma sóttu starfandi kennarar fjölþætt námskeið, jafnt vetur sem sumar, og fengu umbun fyrir, en sú umbun datt uppfyrir í kjarasamningum undir aldmótin, ef ég man rétt.

Ég tek að lokum undir orð Svandísar Egilsdóttur (aths. 19) og geri að mínum, einkum þessi lokaorð hennar:

„Að bæta nám og kennslu og ná auknum árangri er samvinnuverkefni allra sem að því koma og víðtækt verkefni eins og komið hefur fram. Leiðir sem duga eru leiðir sem hafa það að markmiði efla íslenskuhæfnina, rökhugsun, sjálfbærninám, virðingu og skilning á náttúrunni en skerða ekki um leið mikilvæg gildi okkar eða aðra fyrirætlan: Að stuðla að fjölbreytileika, mikilvægi allra greina eða sjálfræði unglinganna okkar. Leiðir sem þess utan gera ráð fyrir samvinnu fagfólksins en varpa ekki alfarið ábyrgðinni á einstaka faggreinakennara, íslensku- og náttúrufræðikennarana innan einstakra skóla í þessu tilfelli eða teflir öðrum mikilvægum hagsmunum og gildum í tvísýnu.“

Þorvaldur Örn Árnason, líffræðingur og kennari á eftirlaunum.

Afrita slóð á umsögn

#33 Silvia V Björgvinsdóttir - 25.09.2020

Við mannfólkið, erum ólík, sem betur fer…við getum ekki öll verið lögfræðingar, stærðfræðingar, málfræðingar, stjarneðlisfræðingar, læknar eða bankastjórar…eins og við getum ekki öll verið listamenn, hönnuðir eða arkitektar…þess vegna er ekki hægt að stroka út listgreinar úr skólanámskráni eins og er reynt um þessar mundir. Hvar endar menning þjóðs sem gerir það?...MENNING…hvað þetta er einfald orð og svo full af merkingu…mér sýnist það hneyksli og synd að svona hlutir séu að gerast…það virðist sem í stað að halda áfram erum við að fara aftur í tímann…

Hvað með nemendur sem eru með sköpunargáfu?, kannski eiga þau ekki rétt að fá tækifæri?, erum við listgreinakennarar að gera ekki neitt í okkar starf? Hver sér um að kenna listasögu og að teikna, mála og móta?...erum við að fara að nota kennarar sem eru ekki vel menntuð á þessum svíðum?

Það lítur út eins og það skiptir ekki málið…

Afrita slóð á umsögn

#34 Sigrún Blöndal - 25.09.2020

Nemendaráð Egilsstaðaskóla, skipað 13 fulltrúum úr 8. - 10.bekk skólans, kom saman þ.23. september 2020.

Eftirfarandi var bókað í fundargerð ráðsins:

3. Lagt fram bréf frá umboðsmanni barna, dags. 3. september 2020, þar sem kynnt eru drög að breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla. Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs tók erindið fyrir á 91.fundi sínum, þ. 10. september 2020 sl. og bókaði eftirfarandi um málið.

„Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs gagnrýnir harðlega áform ráðuneytisins um að minnka val nemenda í grunnskóla. Þvert á móti telur ungmennaráð að auka ætti enn frekar vægi vals á unglingastigi til að reyna að höfða til sem flestra nema og hjálpa ungmennum þannig að finna sína fjöl í námi í stað þess að beina þeim öllum í eina átt.“

Nemendaráð Egilsstaðaskóla tekur heilshugar undir bókun Ungmennaráðs og lýsir sig andvígt fyrirhuguðum breytingum.

Afrita slóð á umsögn

#35 Rannveig Sigurðardóttir - 25.09.2020

Frá skólastjórnendum á Akureyri. Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#36 Samtök atvinnulífsins - 25.09.2020

Góðan dag,

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka ferðaþjónusunnar, Samorku, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka fjármálafyrirtækja um málið.

Virðingarfyllst,

f.h. samtakanna

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#37 Sigríður Heiða Bragadóttir - 27.09.2020

Að fjölga kennslustundum í ákveðnum námsgreinum er ekki trygging á betri árangur. Tímamagn á kostnað þess að draga úr vali eða skapandi greinum er ekki svarið. Það er mikilvægara að efla enn frekar fagmennsku kennara með öflugri starfsþróun og stuðningi við breytta kennsluhætti. Það eru starfshættir sem þarf að styrkja enn frekar bæði í kennaranámi og á vettvangi.

Við endurskoðun á viðmiðunarstundaskrá þarf hins vegar að fjölga kennslutímum hjá 1.-4. bekk úr 30 stundum í 35 stundir. Að yngstu nemendur okkar fái minnsta kennslumagnið er barn síns tíma og því þarf að breyta. Með þeirri breytingu fá kennarar aukið svigrúm til að vinna með tungumálið, samþætta námsgreinar, byggja upp þrautseigju nemenda og styrkja samskipti.

Jafnframt þarf að endurskoða Aðalnámskrá grunnskóla og samræma inntak og uppsetningu. Með þeirri endurskoðun verða leiðarljós kennslunnar skýrari og markvissari.

Afrita slóð á umsögn

#38 Haukur Arason - 28.09.2020

Hér í viðhengi er umsögn okkar um tillögur mennta- og menningarmálaráðuneytisins að breytingum á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla (Mál nr. 160/2020, birt í samráðsgátt 26.08.2020)

Dr. Haukur Arason.

Dósent í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun.

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands.

Dr. Hrefna Sigurjónsdóttir.

Prófessor í líffræði.

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands.

Dr. Kristín Norðdahl.

Dósent í náttúrufræðimenntun.

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands

Dr. Meyvant Þórólfsson.

Dósent í námskrárfræði, námsmati og náms- og kennslufræði,

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#39 Margrét Ósk Heimisdóttir - 28.09.2020

Þetta þykir mér sorgleg þróun á kostnað list- og verkgreina og alveg í andstöðu við samfélagslegar umræður um skólahald nútímans. Það hlýtur að vera önnur betri leið til að auka gæði íslensku- og náttúrufræðikennslu án þess að minnka umfang listgreina!

Afrita slóð á umsögn

#40 Valdimar Helgason - 28.09.2020

Ég Valdimar Helgason náttúruVÍSINDAKENNARI við Réttarholtsskóla tek undir hvert orð sem er í umsögn

#38 Haukur Arason - 28.09.2020 unnin af Dr. Haukur Arason. Unnin af neðangreindum fræðimönnum. Ég hef engu við það að bæta. Þarna er góð umsögn sem ég hefði viljað senda frá mér sjálfur en þetta góða fólk hefur tekið "boltann" á á heiður skilið.

Umsögnin sem um ræðir er unnin af

Dr. Haukur Arason

Dósent í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun.

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands.

Dr. Hrefna Sigurjónsdóttir.

Prófessor í líffræði.

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands.

Dr. Kristín Norðdahl.

Dósent í náttúrufræðimenntun.

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands

Dr. Meyvant Þórólfsson.

Dósent í námskrárfræði, námsmati og náms- og kennslufræði,

Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Háskóla Íslands.

B.k. Valdimar Helgason, vísindakennari við Réttó

Afrita slóð á umsögn

#41 Eva Ósk Eiríksdóttir - 29.09.2020

Við verkgreinakennarar við Grunnskóla Hornafjarðar gagnrýnum harðlega áform ráðuneytisins um að minnka val nemenda í grunnskóla. Þvert á móti teljum við að auka ætti enn frekar vægi vals á unglingastigi til að reyna að höfða til sem flestra nemenda og hjálpa þeim þannig að líða betur í sínu námi, sinna áhugasviði sínu og undirbúa sig fyrir frekara nám. Þar sem nemendur standa sig vel líður þeim betur, þeir leggja sig fram og sjá árangur erfiði síns sem skilar þeim sterkari sjálfsmynd og eykur sjálfstæði þeirra.

Það eru ekki allir nemendur gefnir fyrir bóklegt nám og verklegt nám hentar þeim betur og það er þar sem þau finna sig og njóta þess að skara jafnvel fram úr.

Afrita slóð á umsögn

#42 Hermína Gunnþórsdóttir - 29.09.2020

Umsögn frá QUINT-rannsóknarhópnum á Íslandi um tillögu mennta- og menningarmálaráðherra um breytingar á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla á Íslandi

Rannsóknarhópur við Háskólann á Akureyri (HA) og Háskóla Íslands (HÍ) er þátttakandi í viðamikilli norrænni rannsókn sem snýst um gæði kennslu á Norðurlöndum undir hatti norræna öndvegissetursins QUINT (e. Nordic Centre of Excellence: Quality in Nordic Teaching). Frekari upplýsingar um setrið og rannsóknina má finna hér: https://www.uv.uio.no/quint/english/

Íslenska rannsóknarhópinn skipa:

Birna María Svanbjörnsdóttir, lektor (HA)

Guðmundur Engilbertsson, lektor (HA)

Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor (HA)

Rúnar Sigþórsson, prófessor (HA)

Sólveig Zophoníasdóttir, aðjúnkt (HA)

Valgarður Reynisson, doktorsnemi (HA)

Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor (HÍ

Berglind Gísladóttir, lektor (HÍ)

Kristín Jónsdóttir, dósent (HÍ)

Jóhann Örn Sigurjónsson doktorsnemi (H

Sjá umsögn hópsins í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#43 Þórgunnur Torfadóttir - 29.09.2020

Það er mikilvægt að efla íslenskuna hvar sem er í samfélaginu en að gera það með því að fjölga íslenskutímum er að mínu mati ekki rétta leiðin. Allt samfélagið þarf að vinna að því að gera íslenskuna eftirsóknarverða og það þurfum við að gera á fjölbreytta vegu í gegnum tónlist, myndlist, bókmenntir, sjónvarp, kvikmyndir o.s.frv. Þannig eflum við líka veg íslenskunnar í skólakerfinu. Við þurfum að nota fjölbreyttar leiðir og fleiri íslenskutímar tryggja það alls ekki.

Hið sama gildir um náttúrufræðina. Það er mikilvægt að efla þekkingu á ákveðnum þáttum náttúrufræðinnar og þar þarf líka að horfa til fjölbreyttra kennsluhátta.

Í þessu samhengi er mikilvægt að horfa til tengsla grunnþátta menntunar og þeirra námsgreina sem eru í aðalnámskrá. Heilbrigði og velferð, jafnrétti, læsi, lýðræði og mannréttindi, sjálfbærni og sköpun eru grunnþættir menntunar. Ég tel að flestir geta sameinast um að þeir eru mikilvægir en færri vita hvernig þeir eiga að koma þeim að í skólastarfinu þar sem þeir falla meira og minna utan þeirra greina eða milli þeirra greina sem kenndar eru í skólanum. Þannig verða greinarnar oft á tíðum að aðalmálinu í stað þess að horfa á grunnþættina og tengja greinarnar frekar við þá.

Í stað þess að fjölga viðmiðunartímum í íslensku og náttúrufræði tel ég mikilvægara fyrir stjórnvöld að halda áfram að skoða það hvernig haldið verði áfram með grunnþættina.

Stjórnvöld telja sig oft hafa fáa möguleika til að hafa áhrif á árangur nemenda nema þá helst með því að breyta einhverju í laga eða reglugerða umhverfinu. Þær breytingar hafa hins vegar oft lítið að segja inn í kennslustofunni og mikilvægt að einbeita sér að leiðum sem skila breytingum þar.

Því þykir mér mikilvægast að setja meiri kraft í að efla starfsþróun kennara og gera hana eftirsóknarverðari því það er inn í skólastofunni sem hlutirnir gerast. Kennsluumhverfið verður sífellt flóknara um leið og það breytist gríðarlega hratt. Það fer mikill tími og orka hjá kennurum í að fylgjast með og tileinka sér nýjungar bæði varðandi kennslufræði en líka fjölbreytileika nemenda.

Styrkjum og styðjum kennarana sem starfa á vettvangi með því að efla þá sem fagmenn en flækjum ekki málin eða eyðum orkunni í að breyta viðmiðunarstundaskrá.

Afrita slóð á umsögn

#44 Reykjavíkurborg - 29.09.2020

Umsögn samþykkt á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar 22. september 2020. Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#45 Stefán Már Gunnlaugsson - 29.09.2020

Meðfylgjandi er umsögn foreldraráðs Hafnarfjarðar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#46 Helga Ólafsdóttir - 30.09.2020

Til að bæta námsárangur nemenda í náttúrufræði er stefnt að fjölgun náttúrufræðitíma á unglingastigi. Hér á landi eru þeir færri en í löndunum sem við berum okkur gjarnan við.

Náttúrufræðinám ætti að styðja við lýðheilsu og lausn á loftslagsmálum sem eru veigamestu málin sem mennirnir standa frammi fyrir í dag. Tækni og vísindi er sannarlega hægt að nýta í fjórðu iðnbyltinguna. Til að takast á við loftslagsmálin, bætta lýðheilsu og fjórðu iðnbyltinguna þarf örugglega náttúrufræðikennslu í skólum. Sú kennsla þarf að innihalda þekkingu, vísindaleg vinnubrögð, hæfni á ýmsum sviðum, gagnrýna og skapandi hugsun, gott samstarf og taka mið af sjálfbærni.

Ég styð þessa tímaaukningu þar sem á unglingastigi er helst að finna náttúrufræðikennara og unglingar hafa meiri færni í rökhugsun en yngri börn. Fjölgun stunda í náttúrufræði á unglingastigi er eitt og sér ekki töfralausn á námsárangur nemenda. Ég veit ekki betur en að þeir íslensku nemendur sem hafa haft náttúrufræðikennara alla sína skólagöngu hafi staðið sig vel á PISA-könnunum í náttúrufræði. Margt er hægt að gera til að bæta árangur nemenda því það liggja margar ástæður fyrir því að árangur íslenskra nemenda er ekki sem skyldi í náttúrufræði. Ég nefni hér þó nokkrar:

• Fáir nemendur af náttúrufræðibrautum framhaldsskóla hefja nám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

• Lítill hópur grunnskólakennara er með sérhæfingu í náttúrufræði.

• Í reynd fær hópur nemenda of fáar náttúrufræðikennslustundir út grunnskólagönguna.

• Lesskilningur hefur hrapað hjá nemendum og því þarf að útskýra og lesa meira í tímum sem kemur niður á fjölbreyttum kennsluaðferðum.

• Í sumum skólum má aðeins setja inn heimavinnu í íslensku og stærðfræði hjá ákveðnum árgöngum.

• Í mörgum skólum vantar vel útbúna náttúrufræðistofu. Tæki og tól eru dýr og oft getur verið torsótt að fá leyfi til að kaupa þau. Erfitt er að hlaupa með fiskabúr, víðsjár, vinnubækur, líkön, mæliglös, vogir, efni o.fl. á milli kennslustofa og jafnvel kennsluálma.

• Náttúrufræðikennari er á sömu grunnlaunum og list- og verkgreinakennarar. Hann hefur samt fleiri nemendur í tíma þar sem hámarksfjöldi nemenda hjá list- og verkgreinakennurum virðist vera fjórtán nemendur. Náttúrufræðikennarinn hefur meira námsmat yfir skólaárið og líklega sjaldnar sérstaklega útbúna kennslustofu. Mikil vinna er í kringum verklega náttúrufræðikennslu en sumir kennarar draga úr henni eða sleppa henni jafnvel, ekki hvað síst vegna tímaleysis og þetta kemur niður á gæðum námsins.

• Í verklegri kennslu í náttúrufræði eru iðulega margir nemendur. Mín reynsla er að nemendafjöldinn geti farið upp í þrjátíu og stundum er enginn aukastuðningur fyrir kennara eða nemendur inni í bekknum. Á sama tíma er að jafnaði mikill getumunur á meðal nemenda.

• Skortur er á nýlegu, vönduðu námsefni, með góðum kennsluleiðbeiningum og hugtakalistum. Brýnt er að námsefni hafi „lágan þröskuld“ og „hátt þak“ því getublöndunin er mikil.

• Náttúrufræðihugtök ættu að vera til á miðlægum gagnagrunni á mörgum tungumálum fyrir öll stigin; yngsta stig, miðstig og unglingastig.

• Myndbönd á mms.is eru mörg hver orðin gömul og erfitt getur verið að nálgast myndbönd með íslensku tali eða texta hjá RÚV. Nemendur á yngsta og miðstigi skilja ekki eins vel ensku og nemendur á unglingastigi og því þarf kennari yngri barna stöðugt að þýða erlend myndbandsbrot.

• Skortur er á gagnvirku náttúrufræðiefni á íslensku fyrir nemendur.

• Fjármagn til að kaupa náttúrufræðiforrit er lítið og þau fáu sem eru í boði ókeypis innihalda ósjaldan auglýsingar.

• Þörf er á fjármagni og sveigjanleika til vettvangsferða.

Helga Ólafsdóttir grunnskólakennari sem kennt hefur 1.-7. bekk náttúrufræði

Afrita slóð á umsögn

#47 Ragna Sigurðardóttir - 30.09.2020

Efni: Umsögn Ungra jafnaðarmanna um tillögu mennta- og menningarmálaráðherra að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla, mál nr. 160/2020.

Ungir jafnaðarmenn leggjast gegn tillögu mennta- og menningarmálaráðherra um breytingu á viðmiðunarstundaskrá í grunnskóla sem var birt í Samráðsgátt stjórnarráðsins 26. ágúst 2020. Á tímum hnattvæðingar og hraðra breytinga er fjölbreytt, lýðræðislegt og sveigjanlegt skólastarf nauðsynlegt til þess að hægt sé að mæta ólíkum þörfum margbreytilegs nemendahóps og stuðla að virkri þátttöku þeirra í þjóðfélaginu.

Umrædd tillaga snýr að því að auka vægi íslensku og náttúrufræði í viðmiðunarstundaskrá grunnskóla á kostnað ráðstöfunartíma eða valfaga. Breytingunni er ætlað að sporna gegn slökum árangri nemenda hérlendis í fyrrnefndum fögum í PISA könnun Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD). Tillagan inniheldur þó ekki rökstuðning fyrir því að aukinn tími í íslensku og náttúrufræði muni yfirhöfuð leiða til aukins árangurs í PISA eða, sem mikilvægara er, efla færni nemenda í þessum fögum. Dr. Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá OECD og PISA-könnunarinnar, hefur sjálfur bent á að það sé mýta að því meiri tíma sem varið er í lærdóm því betri verði útkoman. Enn fremur hefur Andreas bent á að framtíðin muni snúast um einstaklingsmiðað nám sem byggir á ástríðu og hæfni hvers og eins nemenda. Fjölbreytileiki er lykilorðið og skapa þarf umhverfi þar sem nemendur hafa visst frelsi til þess að efla sína eigin hæfni.

Drög að þingsályktunartillögu um menntastefnu til ársins 2030 voru birt inni á Samráðsgátt vorið 2020 og er þar farið fögrum orðum um sveigjanlegt menntakerfi. Undir meginmarkmiðum stefnunnar kemur fram að allir eigi að fá tækifæri til að þroskast og auka hæfni sína á eigin forsendum. Umrædd tillaga ráðherra gengur því þvert á meginmarkmið stefnunnar þar sem valfög veita einmitt börnum dýrmætt tækifæri til þess að auka hæfni sína á eigin forsendum.

Við undirbúning menntastefnu til ársins 2030 hafði mennta- og menningarmálaráðherra samráð við ýmsa hagaðila innan menntakerfisins og eru áherslur þeirra dregnar saman í skýrslunni „Menntun til framtíðar: Aðgerðir og viðbrögð í kjölfar fundaraðar um menntun fyrir alla og mótun menntastefnu til 2030“. Í skýrslunni er lögð áhersla á að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda. Meðal annars með því að auka fölbreytni og sveigjanleika í náms- og kennsluháttum og bjóða nemendum í grunn- og framhaldsskólum aukið val um námsgreinar og námsleiðir. Tillaga mennta- og menningarmálaráðherra um breytingu á viðmiðunarstundaskrá í grunnskóla styður ekki við fyrrnefndar áherslur. Ekki er hægt að stæra sig af góðu samráði og aðkomu fjölmargra aðila úr skólasamfélaginu við gerð menntastefnu ef áherslur þeirra endurspeglast ekki í tillögunum sem fylgja.

Áherslur og markmið skólakerfisins mega ekki snúast um kunnáttu og frammistöðu einstaklinga á þeim þröngt afmörkuðum sviðum náms sem PISA mælir. Með því einfaldast skilningur okkar á eðli og flóknum tilgangi menntunar, en ekki síst hvaða þekking og menntum við sem samfélag teljum vera mikils virði. Það er hlutverk skólans að laða fram það besta í hverju og einu okkar, og efla þá fjölbreyttu eiginleika sem gerir einstaklingum betur kleift að bæta samfélagið. Í því ljósi er mikilvægt að ígrunda hvort að með þessari tillögu sé öllum gefin raunverulega jöfn tækifæri til þess að skara fram úr í skóla eða bara þeim sem vegnar vel innan þeirra afmörkuðu námsgreina sem tillagan beinir athygli að.

Fyrir hönd Ungra jafnaðarmanna,

Ragna Sigurðardóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#48 Ester Rut Unnsteinsdóttir - 01.10.2020

Stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) fagnar því að menntamálaráðherra skuli boða það að auknum tíma eigi að verja í kennslu náttúrufræðigreina á unglingastigi. Hlutur þessara greina hefur verið bágur og mun minni en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Enginn getur dregið í efa mikilvægi þess að nemendur öðlist góðan skilning á lögmálum og ferlum náttúrunnar. Útinám er afar mikilvægt í því samhengi auk þess sem það skapar jákvæðar tilfinningar gagnvart náminu og eykur virðingu nemenda fyrir bæði lífverum og landinu. Verklegt nám er afar mikilvægt til að þessi markmið náist og slík kennsla tekur tíma. Þess vegna er áríðandi að auka við þann tíma sem er ætlaður náttúrufræðunum. Nú á tímum er undirstöðu þekking í vistfræði og skilningur á því að lífið á jörðinni sé allt samofið og tengt loftslagi, veðurfari, landslagi, jarðvegi o.fl. lykilatriði til að menntun til sjálfbærni aukist.

Ráðherra boðar einnig átak í að efla sí- og endurmenntun meðal kennara til að þeir verði betur undirbúnir til að takast á við þetta verkefni. Því fögnum við. Það hefur lengi verið skortur á menntuðum kennurum á þessu sviði en vonandi breytist það í náinni framtíð. HÍN hefur lengi staðið fyrir ýmiskonar fræðsluviðburðum og ferðum út í náttúruna auk þess sem félagið stendur fyrir útgáfu tímaritsins Náttúrufræðingurinn ásamt Náttúruminjasafni Íslands. Um er að ræða alþýðlegt fræðslurit þar sem birtar eru vandaðar greinar um náttúrufræði, fræðilegs eðlis í bland við almennan fróðleik. Margar greinar í ritinu fjalla um rannsóknaniðurstöður á íslenskri náttúru sem eru hvergi birtar annars staðar. Námsmenn og kennarar á ýmsum skólastigum eru að jafnaði meðal virkustu lesenda blaðsins og nýta gjarnan efni þess í námi og starfi. Í bígerð er að efla starfsemi okkar á samfélagsmiðlum og ná þannig betur til yngri kynslóðarinnar. Það er ómetanlegt að verða var við vilja stjórnvalda að efla hlut náttúrufræðanna í grunnskólum landsins.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#49 Sigríður Ruth Magnúsdóttir - 02.10.2020

Kennarar við Egilsstaðskóla hafa fjallað um drögin og senda inn meðfylgjandi umsögn.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#50 Bjarney Bjarnadóttir - 03.10.2020

Nei alls ekki! Meira val og frekar að reyna að auka gæði kennslunnar! Nú er ég íslenskukennari á unglingastigi og sé það betur og betur hvað það er í raun galið að ég sé líka með umsjón þar sem alltof mikill tími fer í það. En launin lækka bara svo svakalega mikið ef ég er ekki með umsjón (og ekki eru þau há fyrir). Þannig að ég hef verið að hugsa að islenskukennarar ætti að fá að einbeita sér eingöngu að því og halda sömu launum. Eins og staðan er núna er ég vinnandi á kvöldin og um helgar til að ná að komast yfir allt sem ég þarf að gera til að kennslan sé eins góð og völ er á. En það sér hver heilvita maður að maður heldur ekki þeim dampi endalaust.

Þannig að já mín tillaga er að hafa sérhæfða kennarar í þessu grunngreinum sem fá að einbeita sér að því. Annaðhvort með að hafa sömu laun og í umsjón eða með kennsluafslætti.

Í Finnlandi kenna móðurmálskennarar til dæmis “bara” 17 tíma á viku og í Noregi fá þeir kennsluafslàtt og hærri laun.

Að fækka valtímum finnst mér algjörlega galin hugmynd og mikil afturför.

Afrita slóð á umsögn

#51 Ólafur Helgi Jóhannsson - 06.10.2020

Breytingar á viðmiðunarstundaskrá

Undirritaður sat í starfshópi sem lagði drög að almennum hluta aðalnámskrár sem út kom árið 2011. Í hópnum áttu sæti, auk starfsmanna menntamálaráðuneytisins, fulltrúi skólastjórafélagsins, kennarasamtakannna og samtaka sveitarfélaga. Þessi skipan átti að tryggja eftir föngum samstöðu um námskrána og stuðning við að hrinda ákvæðum hennar í framkvæmd.

Viðmiðunarstundaskrá er vandmeðfarin og var talsvert rædd, einkum hversu mikið svigrúm til útfærslu ætti að veita skólum. Vitað var að fagfélög kennara lögðu áherslu á að hlutur þeirra námsgreina væri sem mestur. Niðurstaðan var sú að hvert greinasvið fékk því sem næst jafnmikinn tíma og það hafði áður haft. Tími íslensku var aukinn nokkuð og var það gert á kostnað valgreina og tíma til ráðstöfunar. Skólum er veitt tvíþætt svigúm í viðmiðunarstundaskrá; annars vegar innan þess tímamagns sem ætlað er einstökum greinasviðum og hins vegar með tímum til ráðstöfunar í 1. – 7. bekk og með valtímum í efstu bekkjum. Þessi skipan er liður í að styrkja faglegt sjálfstæði skóla. Áður en viðmiðunarstundaskrá verður breytt er ástæða til að kanna hvernig skólar nýta þetta svigarúm. Í ljósi niðurstaðna er auðveldara en ella að leggja mat á hvers virði svigrúmið er og hvort skynsamlegt sé að skerða það til að auka vægi íslensku og náttúrufræði. Svo eru mikilvægir áhersluþættir í aðalnámskrá (bls. 37-38) sem ganga þvert á greinasvið, t.d. sjálfsvitund, siðgæðisvitund, félagsvitund, félagsfærni og rökhugsun.

Námstjórn á landsvísu var felld niður með flutningi grunnskólans til sveitarfélaga. Af því leiðir m.a. að heildarsýn yfir einstök greinasvið skortir og það sem verra er; faglegur stuðningur við kennara með áherslu á greinasvið er á einskis ábyrgð.

Brýnt er að stórauka faglegan stuðning við kennara og byggja hann jöfnum höndum á mati kennaranna sjálfra á eigin þörfum og rannsóknum á kennsluháttum. Þeir sem deila ábyrgð á gæðum skólastarfs, þ.e. menntamálaráðuneyti, samband sveitarfélaga og samtök kennara móti í sameiningu áætlun um hvernig þetta verði best gert.

Fjölgun kennslustunda í íslensku og náttúrufræði, er vélræn lausn á margslungnu viðfangsefni, sem ástæða er til að greina ítarlega áður en hrapað er að ákvörðunum. Mestu varðar að nemendur nái góðum tökum á hverju því viðfangsefni sem þeir glíma við. Viðfangsefnin þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði, meðal annars þau að vera vitsmunalega ögrandi, félagslega krefjandi og siðferðilega þroskandi. Minni að lokum á orð dr. Wolfgangs Edelstein: „...af faglegum aðgerðum kennara mótast uppeldisgeta skólans...“

Ólafur H. Jóhannsson, kennari á eftirlaunum.

Afrita slóð á umsögn

#52 Bryndís Ýr Sigurþórsdóttir - 07.10.2020

Það er frábært að það sé áhugi fyrir umbótum á kennslu í íslensku og náttúrugreinum í grunnskólum Reykjavíkurborgar, en að minnka val nemenda hljómar þó ekki eins vel. Þegar dregið er úr vali nemenda er einnig verið að draga úr fjölbreytni námsins og starfi sem er í samræmi við áhuga og hæfileika þeirra.

Valið brýtur yfirleitt aðeins upp dag nemenda, þar sem valið er oftast frábrugðið þessu hefðbundna, bóklega námi. Það er svo mikilvægt fyrir nemendur að komast, af og til, frá hefðbundnu námi.

Ég held því að í stað þess að auka tímann sem fer í þessar greinar, þá þyrfti frekar að auka gæði kennslunar og skoða hvernig kennslu er háttað.

Afrita slóð á umsögn

#53 Umboðsmaður barna - 08.10.2020

Umsögn send inn fyrir hönd Unglingaráðs Fjörheima félagsmiðstöðvar samkvæmt beiðni:

Svar Unglingaráðs Fjörheima félagsmiðstöðvar við tillögu Mennta og menningarmálaráðuneytis um breytingar á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla þar sem stefnt er að því að auka tímum í íslensku og náttúrufræði, á kostnað valáfanga í grunnskólum.

Unglingaráð Fjörheima samanstendur af 21 stúlku í 8.-10. bekk í Reykjanesbæ.

Svar Unglingaráðs Fjörheima:

Við erum alfarið á móti tillögu Mennta og Menningarmálaráðuneytis. Unglingaráð Fjörheima telur að betur hefði átt að tala við ungmenni landsins og alla þá sem breytingarnar varða. Þó nokkrir nemendur í grunnskóla eiga erfitt með bóklegt nám. Fyrir þessa nemendur eru valgreinar ein mikilvægasta leiðin til þess að vaxa og dafna innan skólakerfisins.

Mörgum unglingum finnast valgreinar til dæmis mikilvægari en danska og við erum sammála því. Þess vegna teljum við að þessum breytingum gæti verið náð á eldra stigi með því að færa dönsku inn í valgreinar og nýta tilfallandi tíma í meiri náttúrufræði og íslensku ef viljinn er að auka tíma í þeim greinum.

Kennsluefnið í náttúrufræði er úrelt og verulega ábótavant og við teljum að með því að verja meiri tíma og fjármagni í að uppfæra það yrði meiri áhugi á náttúrufræði. Við í unglingaráði viljum læra meira í náttúrufræði því náttúrufræði skiptir mjög miklu máli og þá sérstaklega á þessum tímum. Einnig mætti verja meiri tíma í verklega náttúrufræði því þeir tímar eru meira spennandi og myndu auka líkurnar á því að nemendur hefði meiri áhuga á faginu. Okkur finnst líka skelfileg tilhugsun að hugsa út í það að allt val verði tekið af 1.-7. bekk. Börn þurfa val, þau verða að hafa einhverja útrás og það er mikilvægt fyrir þau að finna sér fjölbreytt áhugamál og fá tækifæri í skólanum til þess. Líklegt er að ef allt val er tekið frá kennurum og nemendum á yngra stigi þá hækka líkurnar á að krakkar fái leið á skólanum umtalsvert.

Við ungmennin í Unglingaráði Fjörheima segjum Nei Takk við tillögu mennta og menningarmálaráðuneytis. Við óskum eftir því að svona tillögur verði unnar meira í samráði við nemendur og kennara í grunnskólum landsins. Okkar skoðun skiptir máli og þess vegna finnst okkur undarlegt að enginn hafi spurt nemendur í grunnskólum hvað þeim finnst.

Kær kveðja,

Unglingaráð Fjörheima

Afrita slóð á umsögn

#54 Háskóli Íslands - 09.10.2020

Frá Verkfræði og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands

Umsögn: Drög að breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011

Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands styður þessi drög um aukna kennslu í náttúrufræði og tæknigreinum og telur nauðsynlegt að efla kunnáttu nemenda á þessu fagsviði sem er mikilvæg undirstaða fyrir þróun og velferð samfélagsins næstu áratugina. Þekkingu grunnskólanema hefur farið hrakandi undanfarin ár á sviði náttúrufræði samkvæmt alþjóðlegum PISA könnunum. Með þessari aðgerð er þess vænst að þessari þróun verði snúið við og um leið komi grunnskólanemar betur undirbúnir undir nám í náttúrugreinum í framhaldsskóla.

Hins vegar er engan veginn nægjanlegt að auka einungis tímafjölda í náttúrufræðigreinum til að ná þessu markmiði. Stórt vandamál í grunnskólum í dag er viðvarandi skortur á kennurum sem hafa sérhæft sig í náttúrufræði. Aukinn tímafjöldi mun nýtast í þeim skólum þar sem nóg er af áhugasömum kennurum í náttúrufræði en þar sem skortur er á slíkum kennurum mun þetta átak ekki skila tilætluðum árangri. Því hvetur Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands til þess að jafnframt verði farið í gagngera endurskoðun á kennaranámi í náttúrufræðum og stuðlað að því að auka áhuga á náttúrufræðigreinum í kennaranáminu. Án átaks í menntun náttúrufræðikennara er ólíklegt að þessi breyting á viðmiðunarstundaskrá skili tilætluðum árangri.

Fyrir hönd stjórnar Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands

Sigurður Magnús Garðarsson

Sviðsforseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#55 Eymundur Sigurðsson - 11.10.2020

Ég styð þetta frumvarp heilshugar.

Okkur skortir fólk með færni á sviði náttúruvísinda. Ekki endilega að það fari allt í langskólanám. Það er ekki síður mikilvægt að þeir sem eru hugmyndaríkir og fara strax út á vinnumarkaðinn til að koma hugmyndum sínum í framleiðslu og verð, séu eins vel undirbúnir og mögulegt er. Mjög margir uppfinningamenn hafa einungis lokið grunnnámi.

Þegar ég var á þeim aldri sem hér er ætlunin að styrkja í náttúrufræðigreinum (8-10 bekk) var ég heppinn að því leyti að við fengum að smíða útvarp og fleira slíkt í verklegum eðlisfræðitímum - við gerðum ekki bara tilraunir, heldur smíðum eitthvað sem sat eftir og hægt var að nota. Í dag er é rafmagnsverkfræðingur með 36 ára reynslu, sem slíkur og er ekki vafa að þetta hafði talsverð áhrif. Ég styð aukinn tíma í náttúrufræðigreinum en hvet um leið að tímanum sé vel varið og það sé einhver skýr hugsun og markmið á bak við aukinn tímafjölda.

Færni í íslensku máli verður seint metin til fulls. Sérstaklega vantar upp á að ungt fólk sem kemur út á vinnumarkaðinn geti með góðu móti komið frá sér skrifuðum texta, þannig að hugsanir og niðurstöður þess skiljist greinilega.

Afrita slóð á umsögn

#56 Sveinn Óskar Sigurðsson - 11.10.2020

Frá Sveini Óskari Sigurðssyni, nemenda í kennslufræði við Háskóla Íslands með áherslu á náttúrufræðikennslu

Varðar: Áform um breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011

Góð menntun styrkir ekki aðeins samkeppnisstöðu einstaklingsins heldur samfélagsins í heild. Niðurstöður rannsókna, óháðra rannsókna bæði hér heima og erlendis, benda til að samkeppnisstaða ungra Íslendinga er veik þegar kemur að eigin tungumáli, lesskilningi, fjármálalæsi og getu í náttúruvísindum. Má í því samhengi benda á niðurstöður úr PISA rannsóknum og prófum sem og úttekt fagfólks á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og áherslu sem m.a. má lesa hér í umsögnum um þetta mál frá sviðsforseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Þessu til áréttingar læt ég fylgja með afar mikilvæga og áhugaverða grein um stöðu þessara mála eftir Meyvant Þórólfsson dósent í Námskrárfræði, námsmat, náms- og kennslufræði við Háskóla Íslands sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 8. október 2020.

Í skjali, þessu máli tengdu, frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu segir m.a.: ,,Ísland er nú með lægst hlutfall tíma til kennslu móðurmáls í 1.-7. bekk grunnskóla og einnig í náttúrufræði í 8.-10. bekk samanborið við nágrannalönd okkar.". Þetta fyrirkomulag virðist hafa komið vel fram í þeim PISA rannsóknum sem liggja fyrir varðandi Ísland í þessum greinum. Við svo búið verður ekki lengur unað.

Um þessar mundir eru ófáir nemendur að stunda kennaranám með áherslu á náttúrufræði og má í þeim hópi m.a. finna verkfræðimenntaða einstaklinga og því ber að fagna. Í aðalnámskrá framhaldsskóla er fjallað um mikilvægi frármálalæsis í menntun nemenda á því skólastigi en það næst ekki fram með góðum hætti án góðs undirbúnings nemenda í náttúrufræðum og stærðfræði úr grunnskóla. Stuðningur því þessi áform nú fellur vel að gildandi aðalnámskrá framhaldsskóla og augljósa þörf á meiri kennslu á sviði náttúrufræða og íslensku.

Að þessu sögðu er ekki dregið úr mikilvægi annarrar menntunar en þessi breyting rekur stoðir undir áform fjölmargra sem vilja kenna náttúrufræði í grunnskólum landsins sem og öðrum skólum. Gagnrýnin hugsun ætti að auðvelda öllum að sjá þá mynd sem hér er lýst og mikilvægi þess að tryggja enn frekar samkeppnisstöðu ungs fólks til langrar framtíðar. Síðast en ekki síst ber að leggja áherslu á þetta m.a. í ljósi þess hve mikilvægt er að stjórnvöld og sérfræðingar á þeirra vegum, t.a.m. í læknisfræði og verkfræði, geti komið alvarlegum skilaboðum til almennings sem þorri fólks getur skilið og byggt traust sitt á. Það talsamband getur rofnað búi fólk ekki yfir lágmarks skilningi á náttúruvísindum og íslensku.

Virðingarfyllst,

Sveinn Óskar Sigurðsson

BA í hemspeki og hagfræði,

MBA og MSc meistarapróf í fjármálum fyrirtækja

Viðhengi:

Grein úr Morgunblaðinu, Meyvant Þórólfsson, 2020

Importance of Science Education in Schools, University of Texas, Arlington, 2017

Why early childhood science education is important, Steven Spangler, 2014

Why is public science education important? Elizabeth Marincola, Science Service, and Publisher Science News, 2006

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#57 Sveinn Óskar Sigurðsson - 11.10.2020

Frá Sveini Óskari Sigurðssyni, nemenda í kennslufræði við Háskóla Íslands með áherslu á náttúrufræðikennslu

Varðar: Áform um breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011

Bæti hér sem viðhengi við grein sem fylgdi ekki með fyrri sendingu.

Virðingarfyllst,

Sveinn Óskar Sigurðsson

Viðhengi

Importance of Science Education in Schools, University of Texas, Arlington, 2017

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#58 Lára Gunndís Magnúsdóttir - 13.10.2020

Hér er lagt til að námsgreinum á yngsta stigi grunnskólans sé fækkað. Æskilegt er að ungir nemendur sem eru að hefja skólagöngu séu sem mest í samfelldu námi þar sem aðaláhersla er á lestrarnám, fjölbreytt verkefni sem auka leikni í íslensku og grundvallaratriðum stærðfræðinnar. Því þarf viðmiðunarstundaskrá yngri nemenda að breytast. Skóladagur yngstu nemendanna myndi þá í mörgum skólum breytast frá því að nemendur þurfi sífellt að vera að skipta um viðfangsefni og færa sig á milli staða í skólanum. Hér er horft til þess að nám yngstu nemendanna sé í þemum þar sem hægt er að flétta inn í hæfniviðmið flestra námsgreina án þess þó að skilgreindir tíma á töflu séu í öllum námsgreinum. Ef til vill væri skynsamlegt að fækka hæfniviðmiðum hjá yngstu nemendunum og leggja áherslu á lestur, íslensku og stæðfræði. Mikilvægt er að byggja upp góðan grunn í íslensku og stærðfræði á fyrstu námsárum hvers nemanda. Aðrar námsgreinar kæmu svo inn í viðmiðunarstundaskrá smám saman. Með því að treysta þessar mikilvægu undirstöður snemma á skólagöngu barnsins yrði ekki þörf á að skerða valtíma unglinga til þess að auka kunnáttu í náttúrufræði og íslensku.

Að mínu mati mun skerðing á vali unglinga ekki skila tilætluðum árangri. Treystum undirstöðurnar í tíma.

Afrita slóð á umsögn

#59 Ástþór Óðinn Ólafsson - 13.10.2020

Vísbendingar benda til að draga úr virkni í list- og verkgreinum er að fara minnka aðgengi barna í grunnskóla að vellíðan og sterkri sjálfsmynd.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#60 Þórdís Sævarsdóttir - 14.10.2020

Breytingin brýtur í bága við Lög um grunnskóla, 2. gr um Markmið:

Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun… …Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

…Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.

Í janúar 2020 heimsótti Mennta- og menningarmálaráðherra Nigel Adams, ráðherra Skapandi greina, fjölmiðla og íþrótta í London vegna góðs árangurs breta í skapandi greinum þar sem íslensk stjórnvöld hyggjast leggja áherslu á þær í komandi framtíð.

Í byrjun mars 2019 á blaðamannfundi er sett fram áætlun af Mennta- og Menningarmálaráðuneyti um stórsókn í menntamálum í fjórum veigamiklum atriðum. Fyrsta atriði af fjórum kveður á um að ,,Eflum menntun á Íslandi – menntastefna til 2030“. Liðir 3 og 4 í ,,Eflingu menntunar á Íslandi“ leggja mikilvæga áherslu á ,,Færni framtíðar“ og ,,Verk-, Iðn, Starfs- og tæknigreinar“. Hér má einnig benda á mikilvægi listnáms sem er samþætt öllum þessum fögum og í listgreinum hafa nemendur að auki hlotið menntun í sköpun, frumkvæði, tjáningu og hönnun svo lengi sem þær hafa verið kenndar.

Menntamálaumræður í byrjun 21. aldar hafa bent skýrt á mikilvægi þróunar kennsluhátta, fjölbreyttra kennsluhátta, gæði námsefnis, aðstöðu í takt við kröfur um árangur og ekki síst viðhorf til þess hvað felst raunverulega í námi. Á 21. öldinni er séð fram á miklar breytingar, þörf á skapandi hugmyndum, samskiptahæfni, umhverfislegri, félagslegri og siðferðislegri sjálfbærni, og fjölbreyttum hæfileikum, færni og lausnamiðaðra hugmynda fólks. Skólastarf og menntamál þurfa að taka þátt í þeirri þróun, sem er nú þegar hafin hjá nemendum og fjölskyldum þeirra, í breyttum lifnaðarháttum til fjölbreyttrar hæfni, alhliða þroska og heilstæðrar velferðar.

Það er því einkennilegt að sjá einhæfar og að því er virðist fljótfærnislegar, grunnhyggnar og gamaldags tillögur um þessar breytingar. Slíkar aðgerðir eru í raun þversögn við stefnur, markmið og aðgerðir Mennta- og menningarmálaráðuneytisins hvað varðar menntaþróun á Íslandi og í bera í raun þann blæ að vera afturhvarf til fortíðar í stað þess að efla námsþróun á 21. öldinni.

,,Allir kennarar eru íslenskukennarar“ Aukinn orðaforði kemur með fjölbreyttu starfi og verkefnum þar sem hann hefur raunverulegar tengingar. Samþætting, útikennsla og náttúrufræði eru ónýtt tækifæri sem gefa mikla möguleika á að auðga nám. Samþætting skapandi- og vísindalegs ferlis, sem ganga bæði út að setja fram hugmynd/kenningu, sanna eða afsanna í ferlinu aðgerðir-gagnrýni-athugun-mat þar til niðurstaða fæst. Skoða þarf aðstöðu, skipulag í stundarkrá og hópaskipulag miðað við núverandi tímakvóta. Ganga valáfangar á unglingastigi grunnskóla kaupum og sölu fyrir slikk? Er staðið að valáföngum á vandaðan og metnaðarfullan hátt svo megi nýta þessa stórkostlegu tíma í náms- og skólaþróun á unglingastigi? Eða er í lagi að nýta áfram hluta þeirra til að hífa upp einkunnir í einstaka fögum til að ná t.d. inn í einn af fjórum framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu sem fá mesta athygli þrátt fyrir að framhaldsskólar séu almennt jafnir í gæðum.

Áður en er farið í svo einhæfa aðgerð og ólíklega til árangurs sem þessi gamli slagur um tímakvóta einstaka faga í skólavikunni, þá eru aðrir þættir sem þarf að skoða, sinna og hafa mun meiri áhrif á aukin gæði í námi almennt og þá aukinn árangur.

Að þessu sögðu má minna á að enn á eftir að leysa kennaraskort komandi ára og skoða raunverulega af hverju sérmentað fagfólk í kennslu og skólamálum vill ekki starfa við kennslu.

Afrita slóð á umsögn

#61 Sigurður Þór Ágústsson - 14.10.2020

Umsögn nemendaráðs Grunnskóla Húnaþings vestra á fundi 13. október 2020:

Nemendráð for yfir bréf frá Umboðsmanni Alþingis um frumvarp Mennta- og menningarmálaráðuneytis um breytingu á viðmiðunarstundaskrá. Samþykkt var í nemendaráði að senda inn eftirfarandi athugasemd við frumvarpið:

Nemendaráð Grunnskóla Húnaþings vestra lýsir andstöðu sinni við þær hugmyndir að minnka valgreinar á unglingastigi. Það tekur undir sjónarmið umboðsmanns barna að mikilvægt sé að áherslur á áhugasviði nemenda hafi jafn mikið svigrúm í vali og nú er.

Afrita slóð á umsögn

#62 Ragnar Þór Pétursson - 14.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn Kennarasambands Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#63 Sigríður Sigurðardóttir - 14.10.2020

Félag náms- og starfsráðgjafa (FNS) harmar að draga eigi úr vali nemenda á unglingastigi vegna aukinnar áherslu á náttúrufræðikennslu eins og fram kemur í tillögu að breytingum á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla. FNS gerir ekki athugasemd við að efla náttúrufræðikennslu en gagnrýnir harðlega að það bitni á valgreinum nemanda á unglingastigi og telur það í mótsögn við drög menntamálaráðuneytis að menntastefnu til ársins 2030.

Í drögum að menntastefnu til ársins 2030 segir m.a. „Með því að gefa áhugasviðum þeirra aukið rými í skóla- og fræðslustarfinu gefast tækifæri til að vinna út frá styrkleikum og áhuga hvers og eins”. Með því að fækka kennslustundum í valgreinum er verið að fækka tækifærum nemenda til að stunda nám út frá eigin styrkleikum og áhuga.

Einnig sjáum við ekki hvernig menntamálaráðherra og aðgerðarteymi hans ætlar að útfæra aðgerðaráætlun í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Samband íslenska sveitarfélaga um að auka áhuga íslenskra ungmenna á starfs- og tæknimenntun ef dregið verður úr valgreinum, þar sem starfsnám nemenda er oftar en ekki valgrein í grunnskólum.

List- og verknám er einnig stór hluti valgreina á unglingastig grunnskóla. Því vill FNS benda á að í drögum að menntastefnu til 2030 kemur fram að verkgreinar gegna veigamiklu hlutverki, með aukinni áherslu á verkgreinar séum við að efla ungmenni okkar til móta eign framtíð með jákvæðum hætti, elfa þroska þeirra til sjálftæðs gildismats og veita þeim tækifæri til að hafa áhrif á umverfi sitt og menningu.

Valgreinar skipa ennfremur stóran sess í að efla ákvarðanatöku og ábyrgð hjá unglingum er viðkemur að eigin námi. Það er einnig tekið í fram í drögum að nýrri menntastefnu að með innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í skólum eigi að virkja þátttöku barna í allri ákvarðanatöku og nemendalýðræði. Ennfremur að leggja áherslu á að nemendur beri ábyrgð á eigin námi, venji sig á góðar vinnuaðferðir og læri að setja sér markmið.

Félag náms- og starfsráðgjafa leggur til að ef breyta eigi viðmiðunarstundaskrá grunnskóla þurfi að setja eina kennslustund á viku, hið minnsta, í náms- og starfsfræðslu hjá unglingum og bendum við á, þess til rökstuðnings, þessar málsgreinar í drögum að menntastefnu:

„Tryggja þarf að nemendur fái markvissa náms- og starfsfræðslu bæði í grunn- og framhaldsskólum sem felur meðal annars í sér fræðslu um nám, námsleiðir, störf og vinnumarkað“ og

„Náms- og starfsfræðsla er mikilvæg á öllum skólastigum og í fullorðinsfræðslu. Með auknu aðgengi að miðlægum upplýsingum um nám og störf verður hægt að skerpa á markmiðum og leiðum einstaklinga, finna hæfileikum og styrkleikum farveg og auka tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Samfella verði í þjónustu þvert á menntakerfi og atvinnulíf eykur líkur á farsælli yfirfærslu frá menntun til vinnumarkaðar, frá æsku til fullorðinsára“.

Við leggjum til að grunnskólar verði frekar hvattir til að efla náttúrfræðikennslu með þeim hætti að bjóða upp á náttúrfræði og aðrar vísindagreinar sem valgreinar, hafi skóla á að skipa til þess bærum kennurum í sínum mannauði. Við erum sammála mörgum hér sem komið hafa með umsagnir þess efnis að það sé þörf á að fjölga náttúrfræðikennurum í grunnskólum og á meðan fagþekkingin er ekki allstaðar til staðar í skólum er galið að ætla að bæta í fjölda kennslustunda í námsgreinni.

Að lokum viljum benda á að okkur þykir sorglegt að menntakerfið á Íslandi einblíni á samanburð úr niðurstöðum PISA þegar kemur að þróun í menntamálum. Við mælum með því að samanburður sé settur í víðara samhengi og má þá gjarnan líta frekar til Norðurlandanna t.d. þegar kemur að náms- og starfsfræðslu og verk-, list- og tækninámi.

Virðingarfyllst

F.h. Félags náms- og starfsráðgjafa

Sigríður Sigurðardóttir

Náms- og starfsráðgjafi

Afrita slóð á umsögn

#64 Anna Valdís Kro - 14.10.2020

Ég tek undir athugasemdir Móðurmáls (#12) varðandi tví-og fjöltyngd börn í grunnskólum á Íslandi. Mikilvægt er að byggja grunninn að góðum málþroska á móðurmáli/ fyrsta máli barns. Þá er barnið betur undir það búið að læra annað/ þriðja mál. Þá er ég forvitin um stöðu ÍTM, íslenska táknmálsins, í þessu samhengi. Ég tel ekki rétta leið að fækka valfögum á unglingastigi og er ég sammála þeim sem hér hafa sent inn athugasemdir að það sé mikilvægur hluti af frelsi einstaklingsins og valdeflandi fyrir hann/ hana/ hán.

Virðingarfyllst,

Anna Valdís Kro

Afrita slóð á umsögn

#65 Samtök áhugafólks um skólaþróun - 14.10.2020

Umsögn Samtaka áhugafólks um skólaþróun við tillögu að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla

Fram er komin tillaga að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla sem viðbragð við slökum árangri íslenskra nemenda í PISA könnuninni og til að færa stundafjölda nær meðaltali nágrannaþjóða okkar. Stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun leggst gegn þeirri breytingu sem hér er boðuð. Í inngangi segir að tillagan sé liður í mótun menntastefnu til 2030 þar sem áhersla skal lögð á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur. Með tilliti til aðalnámskrár grunnskóla eru þessir áhersluþættir áhugaverðir.

Ástæða þess að stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun leggst gegn breytingu á viðmiðunarstundatöflu aðalnámskrár eru:

- Í þessum tillögum felst aukin miðstýring. Stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun telur að affarasælla væri að auka frelsi skóla og kennara til að þróa eigin leiðir í starfi. Viðmiðunarstundaskrá á að vera til viðmiðunar – hún má með engu móti verða ófrávíkjanleg.

- Tillagan og hugmyndin um nákvæmlega skilgreinda viðmiðunarstundaskrá gerir ráð fyrir að nám nemenda sé bútað niður í einingar í stað samþættingar þar sem nemendur fást við raunveruleg verkefni. Góð rök eru fyrir því að sú leið sé slæm nýting á tíma.

- Bent er á að forsenda þess að fjölgun kennslustunda í tiltekinni námsgrein leiði til árangurs er að góðar aðstæður séu til kennslunnar; menntaðir kennarar, vönduð námsgögn og árangursríkar kennslu- og námsmatsaðferðir. Aðstaða til náttúrufræðikennslu í grunnskólum hér á landi er mjög víða ófullnægjandi, stór hluti kennara sem annast kennsluna hefur ekki fengið nægilegan undirbúning til þess, starfsþróunartækifæri eru ófullnægjandi og námsefni skortir.

- Mun vænlegra til árangurs er að efla kennaramenntun og starfsþróun á sviði náttúrugreina, bæta aðstæður og þróa námsefni, námsgögn og kennsluleiðbeiningar. Einnig má nefna þá leið að þróa og gefa út leiðbeiningar um framkvæmd fjölbreyttra valnámskeiða í náttúrugreinum. Þá má nefna að efla ráðgjöf við kennara, með því að ráða sérfræðinga, t.d. kennsluráðgjafa eða námstjóra.

Meiri tími til náttúrufræðikennslu á kostnað valgreina á unglingastigi

- Val á unglingastigi er afar mikilvægur þáttur í námi. Valnámskeið tengjast gjarnan áhugasviði eða framtíðaráformum ungmenna. Vísa má til umfangsmikilla rannsókna sem sýna fram á að hafi nemendur val um viðfangsefni er líklegra en ella að námið leiði til árangurs. Valnámskeið minnka líkur á námsleiða, þau eru gjarnan verkleg, tengjast listgreinum, skapandi starfi, nýsköpun útivist, heilsu og íþróttum. Ljóst er að þessi ráðstöfun, nái hún fram að ganga, mun bitna á tækifærum nemenda til að iðka list- og verkgreinar.

Meiri tími til íslenskukennslu á kostnað sveigjanleika á miðstigi

- Því miður benda rannsóknir til að íslenskukennsla, eins og hún er ástunduð, sé ekki að skila þeim árangri sem skyldi. Ef fjölga á kennslustundum í íslensku verður að fylgja því eftir með innleiðingu aðferða sem líklegt er að skili meiri árangri en þær sem nú eru mest notaðar.

Samtök áhugafólks um skólaþróun

Pósthólf 30, 270 Mosfellsbær

Afrita slóð á umsögn

#66 Ólafur Hjörtur Sigurjónsson - 14.10.2020

Samráðsgátt; Viðmiðunarstundaskrá grunnskóla

Skólameistarar starfsnámsskóla á Íslandi gera í sjálfu sér ekki athugasemdir við að auka skuli áherslu á íslensku og náttúrufræði í grunnskólum en geta ekki annað en gert alvarlega athugasemd við það að áherslan sé útfærð með því að fjölga tímum í viðmiðunarstundaskrá í íslensku og náttúrufræði á kostnað fjölda tíma í valgreinum. Reikna má með að slík breyting, sérstaklega á unglingastigi, komi verulega niður á tækifærum nemenda til þess að kynnast verk- og listgreinum og þannig þroska áhugasvið sitt.

Í drögum að breytingum á viðmiðunarstundaskrá í samráðsgátt segir m.a.: ,,Þá er unnið að mótun starfsþróunarnámskeiða fyrir starfandi kennara sem ætlað er að efla leiðtoga á námssviðunum íslensku, náttúrufræði og stærðfræði og unnið að stofnun fagráða á sömu námssviðum og eftirfylgni með því að skólar uppfylli til fulls hlutfall lágmarkskennslutíma samkvæmt viðmiðunarstundaskrá grunnskóla í list- og verkgreinum.“

Um leið og það er jákvætt að fylgja eigi því eftir að lágmarkskennslutími í verk- og listgreinum sé uppfylltur, skýtur skökku við að á sama tíma eigi að draga úr fjölda tíma í valgreinum en þar hafa nemendur einmitt oft tækifæri til þess að velja verk- og/eða listgreinar og þannig víkka verulega sjóndeildarhring sinn áður en að vali á námi í framhaldsskóla kemur..

Eins og myndin að neðan sýnir er nokkuð sláandi hversu fáum tímum er varið í list- og verknám í 8.-10. bekk í gildandi viðmiðunarstundaskrá en meðaltímafjölda fækkar um meira en helming á milli miðstigs og efsta stigs. Í mörgum skólum hefur nemendum gefist kostur á að velja list-og/eða verkgreinar í val en verði val skert verulega, eins og fram kemur í drögunum, vegna yfirfærslu þeirra tíma yfir í náttúrufræði skerðast möguleikar nemenda til verk- og listnáms í grunnskóla óhjákvæmilega. Ef vel ætti að vera ætti að fjölga tímum í viðmiðunarstundaskrár fyrir verk- og listanám en hlutur þess er innan við 10% af heildartíma í viðmiðunarstundaskrá í 8.-10. bekk.

Reykjavík 14. október 2020

Skólameistarar:

Borgarholtsskóla, Fisktækniskóla Íslands, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Vesturlands, Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Fjölbrautaskólans við Ármúla, Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu, Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, Menntaskólans á Ísafirði, Menntaskólans í Kópavogi, Tækniskólans, Verkmenntaskóla Austurlands og Verkmenntaskólans á Akureyri.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#67 Ungmennafélag Íslands - 15.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn Ungmennaráðs UMFÍ:

Efni: Umsögn Ungmennaráðs UMFÍ um tillögu mennta- og menningarmálaráðherra að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla, mál nr. 160/2020.

Ungmennaráð UMFÍ leggst gegn tillögu mennta- og menningarmálaráðherra um breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla sem nú liggur inn í samráðsgátt.

Tillaga sem þessi felur í sér mikla skerðingu á því litla frelsi sem nemendur grunnskóla hafa í sínu námi. Tilefni breytinganna er sagt vera viðvarandi slakur árangur nemenda í íslensku- og náttúrufræðigreinum, án þess þó að fram komi rök þess efnis að aukinn tímafjöldi í þeim greinum geti bætt árangur. Það er ekki magnið sem telur heldur gæðin.

Þá var tillagan eitt af aðal umræðuefnum ungmennaráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði, sem haldin var í Hörpunni, þann 17. september síðastliðinn. Meðal gesta ráðstefnunnar var Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Það kom skýrt fram á ráðstefnunni hver vilji ungmenna er, og hann er svo sannarlega ekki í þá áttina að skerða frelsi nemenda í námi, heldur þvert á móti að auka það, en mörg ungmenni upplifa námskerfið sem of einhæft, jafnvel í sinni núverandi mynd og kalla frekar eftir aukningu valgreina.

Ungmennaráð UMFÍ er ávallt tilbúið til að leggja hönd á plóg og hjálpa til við að bæta skólastarf og vettvang ungmenna, enda er það eitt af okkar hlutverkum. Það er allra hagur. Jákvæð niðurstaða næst aðeins með samstöðu og samvinnu, með því að taka tillit til allra sem málið varðar og eiga samtalið.

Fyrir hönd ungmennaráðs UMFÍ,

Ástþór Jón Ragnheiðarson, formaður.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#68 Jóna Rán Pétursdóttir - 15.10.2020

Fyrir hönd nemendaráðs Valhúsaskóla:

Við í nemendaráði Valhúsaskóla teljum að slakur árangur í PISA könnunum verði ekki bættur með þessum tillögum. Við teljum vænlegra til árangurs að eyða orku í frekara samstarf skólakerfisins við foreldra með það að markmiði að taka betur á lærdómsvanda barna og fræða foreldra um lausnir á vandanum. Við teljum einnig að meiri sálfræðiaðstoð á unglingastigi geti aukið vellíðan nemenda og þar af leiðandi bætt námsárangur. Ef það þarf endilega að minnka val nemenda á unglingastigi þá leggjum við til að allar kröfur um að nemendur velji ákveðið margar listgreinar eða ákveðið margar verkgreinar verði felldar niður. Að lokum teljum við góða hugmynd að leita til þeirra sem svona stjórnsýslubreytingar munu hafa áhrif á, áður en tíma er eytt í nýjar tillögur.

Kveðja, stjórn nemendaráðs Valhúsaskóla 2020-2021

Afrita slóð á umsögn

#69 Verkfræðingafélag Íslands - 15.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn Verkfræðingafélags Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#70 Elín Gísladóttir - 15.10.2020

Ég er list og verkgreinakennari og er algjörlega sammála því að íslenskunni fer hrakandi. Á hverju ári fæ ég inn sífellt fleiri nemendur sem vantar íslenskt orð yfir hluti og hugtök en vita hvað það er á ensku. Við breytum því ekki með fleiri íslenskutímum. Við þurfum að hlúa að íslenskunni hjá börnum alveg frá fæðingu.

Málumhverfi barna er orðið of mikið á ensku. Getum við breytt því?

Við þurfum að hlúa að móðurmálinu.

Gætum við passað upp á það að talsettar myndir í sjónvarpi séu talsettar á íslensku (ekki íslensku og ensku í bland)?

Gætum við vakið almenning til umhugsunar um tungumálið til þess að talað sé við börn á íslensku?

Hver er stefnan með íslenskunni, ætlum við að halda henni eða tapa? Einhver sagði „Hver þjóð tapar bara tungumálinu sínu einu sinni“

Er það ekki tvískinnungsháttur að ætla að bjarga íslenskunni hjá nemendum með því að fjölga tímum í íslensku í skólunum en um leið ölum við börnin okkar upp í alltaf meira og meira ensku umhverfi. Við þurfum að takast á við rót vandans.

Þarf kannski að hugsa íslenskutímana upp á nýtt? Má breyta áherslum? Geta foreldrar stutt börnin sín betur í íslensku sem er oftast móðurmál þeirra?

Ég og nemendur mínir erum í átaki að tala einungis íslensku í tímum nema nemendur sem tala ensku til þess að geta tjáð sig. Nemendur eru ánægðir með það. Þau átta sig á því á því að það er leiðin til þess að verða betri í íslensku. Þau eru alltaf með lista af nýjum orðum sem þau læra tengd list- og verkgreinum. Er það ekki besti staðurinn til þess að læra þau orð og nota? Eða væri betra að gera það í íslenskutíma? Eigum við ekki að koma til móts við alla nemendur, hvað með skóla án aðgreiningar. Hvernig ætlum við að koma til móts við nemendur sem eru best í list og verkgreinum. Ætlum við að taka af þeim þann möguleika að fá að njóta sín og finna styrkleika sinn?

Til hvers? Til að koma betur út í Pisa? Verða þá allir ánægðir nema nemendur?

Afrita slóð á umsögn

#71 Hanna Ólafsdóttir - 15.10.2020

Hér í viðhengi er umsögn okkar um tillögur mennta- og menningarmálaráðuneytisins að breytingum á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla (Mál nr. 160/2020, birt í samráðsgátt 26.08.2020)

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Námsbraut list- og verkgreina, faggreinadeild

Ásdís Jóelsdóttir lektor – Textíll og hönnun

Gísli Þorsteinsson prófessor – Hönnun og smíði

Hanna Ólafsdóttir lektor – Sjónlistir

Helga Rut Guðmundsdóttir prófessor - Tónlist

Rannveig Björk Þorkelsdóttir dósent - Leiklist

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#72 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 15.10.2020

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um tillögu að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir tækifærið til að senda inn athugasemdir við ofangreint mál.

Barnaheill fagna því að auka eigi kennslu í íslensku og náttúrugreinum í grunnskólum landsins. Hins vegar telja samtökin óráðlegt að taka eigi aukningu kennslustunda af vali nemenda, þ.e þeim stundum sem skólinn hefur til ráðstöfunar fyrir aðra vinnu.

Kennsla í grunnskóla á 21. öldinni á að taka mið af fjölbreytileika í nemendahópnum, mismunandi áhugasviðum og styrkleikum nemenda.

Sú staða að íslenskir nemendur hafa ekki komið vel út úr alþjóðlegum könnunum í ofangreindum námsgreinum á sér víðtækari og dýpri skýringar en að kennslustundir í greinunum séu of fáar. Að auka kennslu í einstökum námsgreinum fyrir börn sem eiga í erfiðleikum með þær greinar er ekki leiðin til að auka velferð þeirra og námsgetu almennt.

Skýringa á slökum árangri má leita til ónógs stuðnings við börn frá unga aldri í skólum. Við efnahagshrunið árið 2008 var víða skorið niður í skólum og hefur ekki verið bætt úr því síðan.

Skólinn á vera hornsteinn jöfnuðar í samfélaginu og til að uppfylla það markmið þarf að hlúa betur að nemendum og skólanum almennt. Standa þarf vörð um velferð allra barna og styðja sérstaklega þau börn sem á stuðningi þurfa að halda.

Skólaár á Íslandi er styttra en almennt gerist í nágrannalöndum okkar og því skapast langt hlé á námi barna í fríum. Í þeim hléum búa börn við misjafnar aðstæður til að hlúa að velferð þeirra og námi.

Styrkja þarf kennaramenntun og tryggja að í öllum skólum séu kennarar með góða þekkingu á ofangreindum námsgreinum svo og öðru sem snýr að velferð barna og þroska. Styrkja þarf skólana til að takast á við þau krefjandi verkefni sem staðið er fram fyrir á 21. öldinni, síbreytilegum aðstæðum, sem ekki eru fyrirséðar.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hvetja yfirvöld menntamála að setja velferð allra barna og þroska í öndvegi. Þannig er fjárfest í börnum, framtíð þeirra og framtíð þjóðarinnar.

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skal ekki mismuna börnum vegna stöðu þeirra eða stöðu foreldra þeirra og á það að vera leiðarljósið í allri áætlanagerð fyrir börn.

Barnaheill vinna að bættum mannréttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#73 Hjördís Sigríður Albertsdóttir - 15.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn skólamálanefndar Félags grunnskólakennara.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#74 Piret Laas - 15.10.2020

Enn einu sinni er farið að skoða bara einn þátt í íslenska grunnskólakerfinu. Breyting gildandi viðmiðunarstundaskráar hjálpar ekki grunnskólakerfinu þar sem agaleysi og metnaðarleysi fyrir hönd nemenda er stórt vandamál. Í sambandi við síðustu PISA niðurstöður var talað um að það taki töluvert lengri tíma í grunnskólum hér á landi að byrja kennslutímann en í nágrannalöndum. Lítið reiknidæmi hér á eftir sýnir hversu miklum tíma við erum að tapa í kennslu út af agaleysi. Ef í byrjun hverrar kennslustundar tapast 5 mínutur, þá missa nemendur af 4,5 kennsluvikum yfir skólaárið. Ef tapið er 8 mínutur, þá missa nemendur um 7,2 kennsluvikur. Hér hefur verið gert ráð fyrir að lengd skólaársins sé 180 kennsludagar og í viku séu 35 kennslustundir.

Jafnvel þótt kennaramenntun sé núna komin upp í 5 ár er stór hluti kennara með menntun sem mundi ekki vera nægilega gjaldgeng víða erlendis. Fagþekking margra kennara sem kenna t.d. náttúrufræði er ábótavant og þessu fylgir metnaðarleysi kennara. Í Eistlandi, heimalandi mínu, eru t.d. margir grunnskólakennarar í náttúrufræði med BSc eða MSc gráður í líffræði, efnafræði, eðlisfræði o.s.frv. og nemendur fá fagkennara strax við 10 ára aldur eða þegar þeir byrja í 4. bekk. Svona kennarar eru í allt annarri stöðu til að hrífa nemendur með sér en þeir sem enga sérmenntun hafa.

Og að lokum: Rannsóknir sýna að íslenskir nemendur eru ánægðir og hamingjusamir í skóla sem er frábært. En spurningin er af hverju námsárangur hamingjusamra nemenda í einu ríkasta samfélagi veraldar sé jafn léleg og kannanir sýna?

Piret Laas

kennari frá Eistlandi

Afrita slóð á umsögn

#75 Nemendaráð Heiðarskóla - 21.10.2020

Viðhengi