Samráð fyrirhugað 26.08.2020—15.10.2020
Til umsagnar 26.08.2020—15.10.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 15.10.2020
Niðurstöður birtar

Viðmiðunarstundaskrá grunnskóla - tillaga að breytingu

Mál nr. 160/2020 Birt: 26.08.2020 Síðast uppfært: 24.09.2020
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Leikskólar, grunnskólar, starfsnám og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 26.08.2020–15.10.2020. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Viðmiðunarstundaskrá grunnskóla hefur verið óbreytt allt frá gildistöku aðalnámskrár grunnskóla 2011. Tilefni breytinga nú er mótun menntastefnu til ársins 2030 þar sem áhersla er á framúrskarandi menntun fyrir alla og að auka vægi móðurmál og náttúrufræði til móts við viðmið nágrannaþjóða okkar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um tillögu að breytingu á gildandi viðmiðunarstundaskrá grunnskóla frá 2011 sem hefur verið óbreytt síðan.

Tilefni breytinganna er mótun menntastefnu til ársins 2030 á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis þar sem áhersla er á að veita framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi þar sem allir skipta máli og geta lært.

Með þessum breytingum færist íslensk viðmiðunarstundaskrá grunnskóla nær meðaltali í móðurmáli- og náttúrufræðigreinum hjá nágrannaþjóðaþjóðum okkar. Ísland er nú með lægst hlutfall tíma til kennslu móðurmáls í 1.-7. bekk grunnskóla og einnig í náttúrufræði í 8.-10. bekk samanborið við nágrannalönd okkar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið beitir sér jafnframt fyrir aukinni áherslu á íslensku í öðrum námssviðum og í samfélaginu almennt í samræmi við þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi vorið 2019. Þá er unnið að mótun starfsþróunarnámskeiða fyrir starfandi kennara sem ætlað er að efla leiðtoga á námssviðunum íslensku, náttúrufræði og stærðfræði, unnið að stofnun fagráða á sömu námssviðum og eftirfylgni með því að skólar uppfylli til fulls hlutfall lágmarkskennslutíma samkvæmt viðmiðunarstundaskrá grunnskóla í list- og verkgreinum.

Breytingarnar á viðmiðunarstundaskrá fela í sér að á yngsta stigi grunnskóla (1.-4. bekk) verður gert ráð fyrir að meiri tíma verði varið til íslensku, að meðaltali tæplega 80 mínútur á viku í hverjum árgangi. Á miðstigi grunnskóla (5.-7. bekk) er einnig gert ráð fyrir meiri tíma til íslenskukennslu að meðaltali tæplega klukkustund á viku í hverjum árgangi.

Með því fer hlutfall íslensku á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla úr 18.08% í 21.5%. Grunnskólar hafa svigrúm og sveigjanleika innan hvors stigs til að útfæra þessa aukningu. Jafnframt fellur niður svigrúm grunnskóla til ráðstöfunar tíma á yngsta- og miðstigi grunnskóla, en algengt er að skólar nýti hluta þess tíma til lestrar- og íslenskukennslu.

Á unglingastigi (8.-10. bekk) er gert ráð fyrir aukinni áherslu á náttúrugreinar og í stað þess verði dregið úr vali nemenda. Aukningin er veruleg og er að meðaltali 120 mínútur á viku í hverjum árgangi. Að sama skapi er dregið úr vali nemenda sem því nemur. Hlutfall náttúrugreina í viðmiðunarstundaskrá grunnskóla fer við þessa breytingu úr 8.33% í rúmlega 11%.

Einnig má benda á viðvarandi slakan árangur í íslensku og náttúrufræði sem hefur birst í niðurstöðum PISA, sem er alþjóðleg rannsókn á vegum OECD og er framkvæmd á þriggja ára fresti með þátttöku 15 ára nemenda. Næsta fyrirlögn PISA er áformuð vorið 2022.

Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi frá og með skólaárinu 2021-2022.

Umsögnum skal skilað eigi síðar en 30.09.2020 í samráðsgátt.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.