Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 28.8.–21.9.2020

2

Í vinnslu

  • 22.9.–7.12.2020

3

Samráði lokið

  • 8.12.2020

Mál nr. S-162/2020

Birt: 28.8.2020

Fjöldi umsagna: 3

Annað

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála

Niðurstöður

Reynt verður að taka tillit þeirra athugasemda sem fram komu í umsögnum við skrif skýrslunnar. Drög að skýrslunni verða birt á samráðsgátt Stjórnarráðsins.

Málsefni

Hafinn er undirbúningur fyrir þriðju allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála (UPR) hér á landi. Óskað er eftir tillögum og ábendingum um það sem leggja skal áherslu á í skýrslu Íslands til Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.

Nánari upplýsingar

Hafinn er undirbúningur að þriðju allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála (UPR) hér á landi.

UPR felur í sér heildarúttekt á stöðu mannréttindamála innan aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, en hún fer fram á u.þ.b. fimm ára fresti. UPR-ferlið byggir á jafningjarýni ríkja þ.e. ríkin fara yfir stöðu mannréttindamála hjá hverju öðru og koma með ábendingar og áskoranir um það sem mætti betur fara. Markmiðið með þessu ferli er meðal annars að bæta stöðu mannréttindamála í heiminum og hvetja ríki til þess að uppfylla skuldbindingar sínar á sviði mannréttindamála. Ísland hefur tvisvar sinnum farið í gegnum slíka úttekt, fyrst árin 2011 til 2012 og nú síðast árin 2016 til 2017. Næsta úttekt á stöðu mannréttindamála á Íslandi fer fram árin 2021 til 2022.

Úttektin felst meðal annars í því að Íslandi ber að skila skýrslu til Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Íslandi fyrir 1. október 2021. Mun skýrslan fjalla um þá þróun sem hefur átt sér stað síðan síðasta úttekt fór fram árið 2016 og hvort og hvernig hefur verið brugðist við þeim athugasemdum sem fram komu í kjölfar þeirrar úttektar. Stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi sér um framkvæmd verkefnisins og skýrsluskrifin. Áhersla verður lögð á náið samráð við hagsmunaaðila á öllum stigum vinnunnar. Er því hér með óskað eftir ábendingum og tillögum um þau atriði sem leggja skal áherslu á í skýrslunni. Frekara samráð verður kynnt síðar.

Frjáls félagasamtök geta einnig tekið þátt í úttektinni, en nánari upplýsingar um það má nálgast hér: https://www.ohchr.org/EN/HRBodies/UPR/Pages/NgosNhris.aspx. Frjáls félagasamtök þurfa að skila inn upplýsingum eigi síðar en 1. júlí 2021.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi

mannrettindi@dmr.is