Samráð fyrirhugað 04.09.2020—18.09.2020
Til umsagnar 04.09.2020—18.09.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 18.09.2020
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).

Mál nr. 172/2020 Birt: 04.09.2020 Síðast uppfært: 21.09.2020
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Sjávarútvegur og fiskeldi
  • Landbúnaður

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (04.09.2020–18.09.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Frumvarpið varðar stjórn nýtingar á sjávargróðri. Þá er frumvarpið einnig liður í áherslum ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks.

Með frumvarpi þessu er lagt til;

-- að regluverk verði einfaldað.

-- að afnumin verði heimild til að leyfisbinda móttökustöðvar fyrir þang.

-- að tekin verði upp skylda til setningar nýtingaráætlana fyrir þangfjörur.

-- að reinastjórn verði viðhaldið við öflun sjávargróðurs utan fjöru.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Gunnar Ólafsson - 17.09.2020

Staða mála í lagaumhverfi Þara-ræktar er okkur sérlegt hugðarefni.

Meðfylgjandi skjal sýnir stöðu máli eftir rannsókn framkvæmda af okkur í Djúpinu Bolungarvík, Háskólastri Vestfjarða(vegna SOSCULT) og Eldey Aqua.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Náttúrufræðistofnun Íslands - 17.09.2020

Meðf. er umsögn Náttúrufræðistofnunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Jón Örn Friðriksson - 17.09.2020

Gerðar eru eftirfarandi athugasemdir við 3. og 4. grein frumvarpsins:

Í 3. gr. er tekið fram að öll sömu fyrirmæli gildi um öflun sjávargróðurs og gilda um fiskiskip og fiskveiðar skv. III., V. og VI kafla laga um stjórn fiskveiða. Í V. kafla þessara laga eru fyrirmæli um greiðslu veiðigjalda. Veiðigjöld geta ekki átt við um þangslátt á sjávarjörðum eða öflun annars sjávargróðurs innan netlaga. Í 4. gr. í athugasemdum um lagafrumvarpið kemur fram að merkjum jarða er oftast lýst til fjörunnar. Af þessu hlýst að fjara sjávarjarða er eign landeiganda. Þang og annar sjávargróður er áfastur landareigninni og eign landeiganda rétt eins og korn á ökrum. Innheimta veiðigjalds á þangi eða öðrum sjávargróðri er þannig í ósamræmi við 72. gr. stjórnarskrár sem fjallar um friðhelgi eignarréttarins. Til að leiðrétta þetta ósamræmi er lagt til að breytingar verði gerðar á 2. mgr. 3 gr. frumvarpsins þannig að textinn verði eftirfarandi:

Utan fjara og netlaga gilda öll sömu fyrirmæli og gilda um fiskiskip og fiskveiðar skv. III., V. og VI. kafla laga þessara og öðrum lögum á sviði sjávarútvegs, m.a. um færslu afladagbókar, löndun, vigtun og skráningu afla, eftirlit með veiðum og greiðslu veiðigjalds, gilda, eftir því sem við á, um skip sem hafa leyfi skv. 1. mgr. og öflun sjávargróðurs frá þeim.

Samkvæmt 4. gr. lagafrumvarpsins skal hafa samkomulag við ábúenda eða landeiganda um þangslátt innan stórstraumsfjöruborðs sjávarjarða. Hins vegar er felld út 1. mgr. í gildandi lögum en þar segir að sá sem hyggst afla sjávargróðurs innan netlaga sjávarjarðar þurfi að hafa náð samkomulagi við landeiganda um heimild til öflunarinnar. Er lagt til að 1. mgr. í 4. gr. laganna verði eftirfarandi:

Um þangslátt innan stórstraumsfjöruborðs sjávarjarða og öflunar sjávargróðurs innan netlaga sjávarjarða fer samkvæmt samkomulagi við ábúenda eða landeiganda.

Netlaga er upphaflega getið í Grágás, lögbók íslenska þjóðveldisins, og síðar í 2. kapítula rekabálka Jónsbókar frá árinu 1281. Þar eru netlög skilgreind skv. svokallaðri dýptarreglu en þá eru ystu mörk netalaga þar sem 20 möskva selanet standi grunn á fjöru. Í Jónsbók er jafnframt tekið fram að landeigandi eigi m.a. þara sem er innan netlaga auk ýmissa annarra hlunninda sem upp eru talin. Ákvæði rekabálks Jónsbókar hefur aldrei verið fellt úr gildi. Er því eðlilegt að álykta að eigendur sjávarjarða eigi rétt til þaratekju og nýtingu annars sjávargróðurs innan netlaga.

Með tilkomu veiðitilskipunarinnar árið 1849 voru netlög skilgreind með öðrum hætti, það er 60 faðmar eða 112,98 m frá stórstraumsfjörumáli. Netlaga er einnig getið með sambærilegum hætti í 8. ml. 1. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglun og spendýrum. Þar eru netlög skilgreind sem hafsvæði 115 metra út frá stórstraumsfjörumáli landeignar.

Ágreiningur hefur verið um hvort miða á við dýptarreglu Jónsbókar eða fjarlægðarreglu veiðitilskipunarinnar. Niðurstöður Hæstarréttar í tveimur dómum gefa tilefni til að miða frekar við dýptarreglu Jónsbókar. Annars vegar er um að ræða dóm Hæstaréttar frá 19. september 1996 á blaðsíðu 2518 og hins vegar dóm Hæstaréttar frá 28. apríl 2005 á blaðsíðu 1640. Í báðum dómunum kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að miða skuli við 2. kapítula Jónsbókar, um 20 möskva dýpi netlaga, þegar um brot á fiskveiðilöggjöf er að ræða, í stað fjarlægðarreglu veiðitilskipunarinnar. Ekki verður gerð frekari tilraun í þessum texta til að útkljá ágreining um hvort miða beri við dýptarreglu Jónsbókar eða fjarlægðarreglu veiðitilskipunarinnar við skilgreiningu netlaga enda er það ekki tilgangur þessarar umsagnar.

Eins og réttilega er bent á í 4 gr. í athugasemdum með lagafrumvarpinu er löng venja fyrir því að samþykki landeiganda sjávarjarða þurfi til þangsláttar. Sömuleiðis er löng venja fyrir að samþykki landeiganda þurfi fyrir nýtingu annarra hlunninda innan netlaga. Á það til dæmis við um lagningu grásleppuneta innan netlaga. Þá hafa landeigendur, sem ekki nytja slík hlunnindi sjálfir, getað leigt út réttinn til nýtingar hlunnindanna. Sem dæmi má nefna að Stykkishólmsbær hefur tímabundið leigt út sjávarjarðir, sem þá voru í eigu sveitarfélagsins, til aðila sem fengu, gegn greiðslu, einkarétt á lagningu grásleppuneta innan netlaga og nýtingu annarra hlunninda jarðanna. Sá gjörningur var í samræmi við áðurnefnd ákvæði í rekabálk Jónsbókar og er dæmi um þá hefð sem ríkt hefur um réttláta nýtingu hlunninda, þar með talið sjávargróðurs, innan netlaga.

Á mörgum sjávarjörðum eru töluverð hlunnindi í landi, má þar helst nefna æðarvarp. Varpið er viðkvæmt og getur spillst ef ekki er farið gætilega um svæðið á varptíma. Öflun sjávargróðurs í fjöru og innan netlaga getur haft neikvæð áhrif á æðarvarp og annað fuglalíf. Er því bæði sanngjarnt og eðlilegt að öll öflun sjávargróðurs á þessu svæði verði samkvæmt samkomulagi við landeiganda um heimild til öflunarinnar.

Með vísan í ofanritað þykir ljóst að frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni) getur ekki staðið óbreytt. Undirritaður hvetur til að farið verði að þeim tillögum um breytingar á frumvarpinu sem hér eru lagðar til.

Fyrir hönd stjórnar Hvallátra ehf.,

Jón Örn Friðriksson

Framkvæmdastjóri Hvallátra ehf og eigandi sjávarjarða við Breiðafjörð

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Ásgeir Gunnar Jónsson - 17.09.2020

Umsögn um frumvarp til laga

um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni)

Gerðar eru eftirfarandi athugasemdir fyrir hönd Einingar ehf. 580788 1659 sem á og rekur sjávarjarðirnar Húshólma ln. 211568, Baulhólma ln. 2115620 og Hesthöfða ln. 2115619 á Breiðafirði.

3. gr.

Hér kemur fram að öll sömu fyrirmæli gildi um öflun sjávargróðurs og gilda um fiskiskip og fiskveiðar skv. III., V. og VI kafla laga um stjórn fiskveiða. Í V. kafla þessara laga eru fyrirmæli um greiðslu veiðigjalda. Sjávargróður sem aflað er innan sjávarjarða eða netlaga er eign landegeinda, enda vex sjávargróður á landareign landeigenda rétt eins og gróður sem vex á túnum bænda er eign landeigenda. Veiðigjöld geta því ekki átt við um öflun sjávargróðurs á sjávarjörðum eða innan netlaga nema þeim sé skilað til landeiganda.

4. gr.

Í 4. grein frumvarpsins er eingöngu kveðið á um að leita þurfi leyfis ábúanda eða landeiganda vegna þangsláttar innan stórstraumsfjöruborðs. Telur undirritaður nauðsynlegt að 1. mgr. 15. gr. b í lögum nr. 116/2006 standi einnig óbreytt. „Áður en sá sem hefur leyfi skv. 15. gr. a hefur öflun sjávargróðurs innan netlaga sjávarjarða þarf að hafa náðst samkomulag við landeiganda um heimild til öflunarinnar.“

Vísað er til laga nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins, en þar segir í 1. gr.:

Íslenska ríkið er eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. 


Hugtakið auðlind samkvæmt lögum þessum tekur til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera. 


Netlaga er upphaflega getið í Grágás, þar eru netlög skilgreind skv. svokallaðri dýptarreglu en þar eru ystu mörk netalaga þar sem 20 möskva selanet (6,88 m) standi grunn á fjöru. Í Jónsbók er jafnframt tekið fram að landeigandi eigi m.a. þara sem er innan netlaga auk ýmissa annarra hlunninda sem upp eru talin. Ákvæði rekabálks Jónsbókar hefur aldrei verið fellt úr gildi. Er því eðlilegt að álykta að eigendur sjávarjarða eigi rétt til þaratekju og nýtingu annars sjávargróðurs innan netlaga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta

Í athugasemdum stendur í 4. grein: „Engin þörf er á því að vísa til netlaga í frumvarpi þessu.“ Þetta getur undirritaður ekki tekið undir.

Skv. Fylgiskjali I liggja ekki fyrir niðurstöður á rannsóknum um útbreiðslu og magn þara í Breiðafirði og er því ekki hægt að útiloka að hægt sé að afla sjávargróðurs td. þara innan netlaga. Því ætti það að teljast mjög brýnt að vísa til netlaga í frumvarpi þessu.

Í sjávargróðri í fjörum og innan netlaga er að finna mikilvæga fæðu fyrir fugla og sjávardýr, þ.m.t. æðarfugl og ekki síst æðarunga sem dvelja þar mk. fyrsta mánuðinn. Því er mikilvægt að öll öflun sjávargróðurs í fjörum og innan netlaga sé innan skynsamlegra marka og ætíð samkvæmt samkomulagi við landeigenda, enda er æðarvarp verðmæt hlunnindi margra sjávarjarða.

Undirritaður telur ekki ásættanlegt að frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni) standi óbreytt og vænta þess að tekið verði fullt tillit til ofangreindrar umsagnar og eignarréttur sjávarjarða virtur.

Virðingarfyllst,

Eigandi (100%) Einingar ehf.

Ásgeir Gunnar Jónsson

Afrita slóð á umsögn

#5 Bjarni Svanur Kristjánsson - 18.09.2020

Hér er um grímulausa þjóðnýtingu náttúruauðlinda sem eru í einkaeign að ræða og mun ég aldrei viðurkenna að þessi lög ef samþykkt verða standist stjórnarskrá Íslands. Og það sem verra er, auðlindir þessar eru með þessu frumvarpi í raun afhentar alþjóðlegum auðhringum eins og DuPont.

Að öðru leita vil ég taka undir athugasemdir sem koma fram í umsögnum númer 3 og 4 hér á undan.

Undirritaður er eigandi sjávarjarðar við Breiðafjörð

Afrita slóð á umsögn

#6 Fjórðungssamband Vestfirðinga - 18.09.2020

Hjálagt er umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Arna Friðriksdóttir - 18.09.2020

Umsögn um frumvarp til laga

um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni)

3. gr.

Hér kemur fram að öll sömu fyrirmæli gildi um öflun sjávargróðurs og gilda um fiskiskip og fiskveiðar skv. III., V. og VI kafla laga um stjórn fiskveiða. Í V. kafla þessara laga eru fyrirmæli um greiðslu veiðigjalda. Sjávargróður sem aflað er innan sjávarjarða eða netlaga er eign landeigenda, enda vex sjávargróður á landareign landeigenda rétt eins og gróður sem vex á túnum bænda er eign landeigenda. Veiðigjöld geta því ekki átt við um öflun sjávargróðurs á sjávarjörðum eða innan netlaga (sjá nánar í meðfylgjandi fylgiskjölum).

4. gr.

Í 4. grein frumvarpsins er eingöngu kveðið á um að leita þurfi leyfis ábúanda eða landeiganda vegna þangsláttar innan stórstraumsfjöruborðs. Telja undirrituð nauðsynlegt að 1. mgr. 15. gr. b í lögum nr. 116/2006 standi einnig óbreytt. „Áður en sá sem hefur leyfi skv. 15. gr. a hefur öflun sjávargróðurs innan netlaga sjávarjarða þarf að hafa náðst samkomulag við landeiganda um heimild til öflunarinnar.“

Vísað er til laga nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins, en þar segir í 1. gr.:

Íslenska ríkið er eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki.

Hugtakið auðlind samkvæmt lögum þessum tekur til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera.

Netlaga er upphaflega getið í Grágás, þar eru netlög skilgreind skv. svokallaðri dýptarreglu en þar eru ystu mörk netalaga þar sem 20 möskva selanet (6,88 m) standi grunn á fjöru. Í Jónsbók er jafnframt tekið fram að landeigandi eigi m.a. þara sem er innan netlaga auk ýmissa annarra hlunninda sem upp eru talin. Ákvæði rekabálks Jónsbókar hefur aldrei verið fellt úr gildi. Er því eðlilegt að álykta að eigendur sjávarjarða eigi rétt til þaratekju og nýtingu annars sjávargróðurs innan netlaga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta

Í athugasemdum stendur í 4. grein: „Engin þörf er á því að vísa til netlaga í frumvarpi þessu.“ Þetta geta undirrituð ekki tekið undir.

Skv. Fylgiskjali I liggja ekki fyrir niðurstöður á rannsóknum um útbreiðslu og magn þara í Breiðafirði og er því ekki hægt að útiloka að hægt sé að afla sjávargróðurs innan netlaga. Því ætti það að teljast mjög brýnt að vísa til netlaga í frumvarpi þessu.

Í sjávargróðri í fjörum og innan netlaga er að finna mikilvæga fæðu fyrir fugla og sjávardýr, þ.m.t. æðarfugl og ekki síst æðarunga. Því er mikilvægt að öll öflun sjávargróðurs í fjörum og innan netlaga sé innan skynsamlegra marka og ætíð samkvæmt samkomulagi við landeigenda, enda er æðarvarp verðmæt hlunnindi margra sjávarjarða.

Undirrituð telja ekki ásættanlegt að frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni) standi óbreytt og vænta þess að tekið verði fullt tillit til ofangreindrar umsagnar.

Virðingarfyllst,

Arna Friðriksdóttir, Ásgeir Gunnar Jónsson, Erla Friðriksdóttir, Friðrik Jónsson og Gerða Friðriksdóttir,

eigendur í Bjarneyjum ehf. og eigendur fleiri sjávarjarða á Breiðafirði.

Fylgiskjöl: Ábending um meinbugi á lögum og Netlög sjávarjarða.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Róbert Arnar Stefánsson - 18.09.2020

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka náttúrustofa um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, mál nr. 172/2020.

Virðingarfyllst,

Róbert A. Stefánsson, formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Erla Friðriksdóttir - 18.09.2020

Meðf. er umsögn deilda Æðarræktarfélags Íslands við Breiðafjörð.

Afrita slóð á umsögn

#10 Erla Friðriksdóttir - 18.09.2020

Efni: Mál nr. 172/2020. Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni

Í lögum nr. 49/2017, sem breyttu lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, eru ákvæði um öflun sjávargróðurs og eru þau nú til endurskoðunar.

Að því er varðar svæði til nýtingar segir í 15. gr. b. núgildandi laga:

Áður en sá sem hefur leyfi skv. 15. gr. a hefur öflun sjávargróðurs innan netlaga sjávarjarðar þarf að hafa náðst samkomulag við landeiganda um heimild til öflunarinnar.

Ráðherra er heimilt að skipta nýtingarsvæðum sjávargróðurs, utan netlaga sjávarjarða, í tiltekin afmörkuð svæði og takmarka öflun sjávargróðurs utan þeirra. Þá er heimilt að banna tímabundið öflun innan þessara nýtingarsvæða til að gefa tíma til endurvaxtar á sjávargróðri eftir nýtingu. Áður en ákvarðanir eru teknar samkvæmt þessari málsgrein skal að jafnaði leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og annarra aðila eftir atvikum, svo sem Breiðafjarðarnefndar við nýtingu sjávargróðurs í Breiðafirði

Í fyrirliggjandi drögum að nýrri 15. gr. b. um svæði til nýtingar segir:

Um þangslátt innan stórstraumsfjöruborðs sjávarjarðar fer samkvæmt samkomulagi við ábúanda eða landeiganda. Er nægilegt að meiri hluti eigenda veiti vilyrði sitt. Fiskistofa heldur skrá um sjávarjarðir þar sem þangsláttur er stundaður. Óheimilt er að slá þang fyrir landareign nema fyrir liggi nýtingaráætlun eiganda skips skv. 15. gr. a. um slátt fyrir landinu, til hið minnsta fjögurra ára. Skal nýtingaráætlun hafa að geyma lýsingu á því hvernig er að tryggja að sláttur á þangi verði sjálfbær. Nýtingaráætlanir skal senda Fiskistofu áður en sláttur hefst. Fiskistofu er heimilt, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar, að ógilda nýtingaráætlun og er þá óheimilt að slá þang fyrir viðkomandi sjávarjörð fyrr en ný áætlun hefur verið sett og staðfest af Fiskistofu. Allar upplýsingar um þangslátt fyrir hverri sjávarjörð, þar með talið afla og nýtingaráætlanir, skal birta opinberlega.

Ráðherra er heimilt með reglugerð að skipta nýtingarsvæðum sjávargróðurs utan fjörusvæða í tiltekin afmörkuð svæði og takmarka öflun sjávargróðurs utan þeirra. Þá er heimilt að banna tímabundið öflun innan þessara svæða til að gefa tíma til endurvaxtar. Áður en ákvarðanir eru teknar samkvæmt þessari málsgrein skal að jafnaði leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar.

Í reglugerð má setja nánari skilyrði um öflun sjávargróðurs, hvað snertir búnað skipa, merkingar afla, öflunaraðferðir (sláttutæki) og viðmið í nýtingaráætlun um sýnatöku, vöktun, skil upplýsinga til stjórnvalda o.fl.

Drög að endurskoðaðri 15. gr. b. fela í sér grundvallarbreytingu á hvaða svæðum skuli fortakslaust aflað samþykkis eiganda fyrir nýtingu. Í gildandi lögum er það skilyrði fyrir öflun sjávarfangs innan netlaga sjávarjarða að samkomulag hafi náðst við landeiganda. Aftur á móti segir í fyrirliggjandi drögum að um þangslátt innan stórstraumsfjöruborðs sjávarjarðar fari samkvæmt samkomulagi við ábúanda eða landeiganda. Í þessu felst reginmunur og fer tillagan í bág við lögskýringar um hvað felist í eignarráðum yfir landareign sem liggur að sjó. Í greinargerð er ekki gerð grein fyrir ástæðu þessarar kúvendingar frá gildandi lögum. Gildandi lög byggja á eignarráðum yfir netlögum en breytingarákvæðið ekki.

Vandfundin er í greinargerðinni ástæða fyrir þessari grundvallarbreytingu. Í greinargerðinni segir þar sem fjallað er um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar:

Frumvarpið gaf ekki tilefni til þessa. Þó má geta þess að við meðferð gildandi laga sama efnis nr. 49/2017 urðu nokkrar umræður um heimildir eigenda sjávarjarða til sjávarins, það er afmörkun netlaga, sem skýrist af áhuga frjálsra samtaka á málinu, einkum Félags eigenda sjávarjarða. Netlög eru rein eða belti sjávarins sem nær 60 faðma eða 115 metra frá stórstraumsfjöruborði og eiga landeigendur tiltekin einkaréttindi innan þeirra sem snerta fiskveiðar, reka o.fl. Um rétt til þara er ekki fjallað í veiðitilskipun frá 1849, sem varðar heimildir til fiskveiða og veiða á sjávarspendýrum, en vísa má til hliðsjónar til 60.-61. kap. rekabálks Jónsbókar þar sem segir: „Hverr maðr á reka allan fyrir sínu landi viðar ok hvala, sela ok fiska, fugla ok þara, nema með lögum sé frá komit.“ Með þessu er gert ráð fyrir að þarareki teljist eign landeiganda (eða ítakshafa). (Jónsbók. Ólafur Halldórsson gaf út. Kpmh. 1904, bls. 194.) Engin þörf er á því að vísa til netlaga í frumvarpi þessu. Þang er slegið í fjöru og er merkjum jarða oftast lýst til fjörunnar. Er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að til þangsláttar þurfi samþykki landeiganda, sem er til samræmis við langa venju. Má hér einnig til hliðsjónar vísa til 2. mgr. 27. gr. náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, þar sem kveðið er á um að tínsla fjörugróðurs sé háð leyfi landeiganda.

Sjónarmið sem þarna koma fram um takmarkaðar heimildir landeiganda innan netlaga hafa í gegnum tíðina verið tilefni til fræðilegra skrifa um hversu víðtækar heimildir hann hefur innan netlaga jarðar sinnar og má telja að nokkur óvissa hafi verið uppi um þetta efni um tíma, en sú óvissa heyrir hins vegar réttarsögunni til eins og fram kemur i löggjöf og fræðiritum. Í fræðiritinu Eignarétti I m.a. eftir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson, sem var gefið út fyrr á þessu ári, er farið yfir gildandi rétt um réttindi í netlögum, sjá bls. 70-74. Þar segir m.a.

Hafi verið óvissa um eignarheimildir landeiganda í netlögum var henni í öllu falli eytt ekki síðar en við gildistöku auðlindalaga nr. 57/1998. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er hugtakið eignarland í merkingu þeirra skilgreint sem landsvæði, þar með talið innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti, þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. Þá segir í 3. gr. laganna að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum séu þær eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er varð að auðlindalögum segir að frumvarrpið taki til auðlinda í sjávarbotni innan netlaga og í athugasemdum við 3 gr. segir að lagt sé til að kveðið verði á um í lögum hvernig eignarrétti að auðlindum skuli háttað. Þá segir: „‚Þannig er staðfest að eignarlandi, þar með talið innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu, í samræmi við ríkjandi sjónarmið um inntak eignarréttar.“ Sömu stefnu hefur verið fylgt við lagasetningu eftir gildistöku laga nr. 57/1998, sbr. 5. tölulið 2. mgr. 1. gr. vatnalaga nr. 15/1923, eftir þá breytingu sem gerð var á vatnalögum með lögum nr. 132/2011. Þar er hugtakið eignarland skilgreint með sama hætti og í lögum nr. 57/1998. Þetta er einnig skýrt þegar litið er til 15. gr. b. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Þar segir að áður en sá sem hafi leyfi til öflunar sjávargróðurs hefji þá öflun innan netlaga sjávarjarðar þurfi hann að hafa náð samkomulagi við landeiganda um heimild til öfllunarinnar. Augljóst er að ekki þyrfti að afla slíks leyfis frá landeiganda nema hann ætti að meginreglu þennan rétt. Umrætt ákvæði 15. gr. b. kom nýtt inn í lög nr. 116/2006 við gildistöku laga nr. 49/2017, sem sett voru um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 49/2017 virðist því skýr afstaða að netlög tilheyri beinum eignarrétti landeiganda. Kemur meðal annars fram i frumvarpinu að færa megi „góð rök“ fyrir því að réttur innan netlaga heyri „óskertur til landeiganda“ og er því jafnframt lýst að það sé skoðun ráðuneytisins að „einkaheimildir landeiganda“ takmarkist við þau netlög sem skilgreind eru í jarðalögum nr. 81/2004.

Einnig er til þess að líta að í 1. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins er því lýst að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda í eða undir hafsbotninum utan netlaga svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær. Sýnast lögin byggja á þeirri forsendu að netlög í sjó fylgi þeirri fasteing sem netlögin eru framhald af.

Niðurstaða fræðimanna er afdráttarlaus og vísast til nánari umfjöllunar og frekari tilvitnana í ritnu. Í lögum er tekið af skarið hver eignin sé og eftir það verður eigandi hennar ekki sviptur eignarráðum sínum nema að fullnægðum ströngum skilyrðum eignasviptingar. Jörð og þar með netlög hennar eru eign, sem 72. gr. stjórnarskrárinnar lýsir friðhelgan, og að ekki megi skylda að láta af hendi nema almenningsþörf krefji og til þess þurfi þá lagafyrirmæli og að fullt verð komi fyrir. Fyrirliggjandi frumvarpsdrög fjalla ekkert um hvort skilyrði séu fyrir eignarsviptingu og kveða ekki á um eignarnámsheimildeða hvernig skuli standa að ákvörðun bóta

Greinargerð sú sem liggur til grundvallar tillögu að nýrri 15. gr. b. ber ekki með sér rannsókn á gildandi rétti, viðurkenndum lögskýringum eða fræðiritum okkar helstu sérfræðinga.

Tekið skal fram að með þessum athugasemdum er ekki verið að draga úr mikilvægi þess að settar séu reglur um nýtingu og vernd þara og þangs í eignarlöndum en forsendur verða að vera réttar og skiptir þar mestu máli að það sé á réttum lagagrundvelli og í samræmi við stjórnarskrárverndaðan rétt eigenda netlaga.

Jafnframt skal bent á að í drögum að ákvæðinu segir:

Um þangslátt innan stórstraumsfjöruborðs sjávarjarðar fer samkvæmt samkomulagi við ábúanda eða landeiganda. Er nægilegt að meiri hluti eigenda veiti vilyrði sitt.

Samkvæmt almennum reglum eignarréttar gildir sú meginregla um sérstaka sameign að samþykki allra sameigenda þarf til óvenjulegra ráðstafana og ráðstafana sem eru meiriháttar þótt venjulegar geti talist. Ákvarðanir um þangslátt eru án efa meiriháttar ákvarðanir sem að óbreyttu eru háðar samþykki allra sameigenda. Eru engin efni til að kveða á um aðra reglu í lögunum og kveða þarf á um að gera skuli skriflegan samning við landeigendur. Enn er svo farið að í tillögunni er ekkert vikið að ástæðum þess að breyta eigi út frá grundvallareglum sem gilt hafa um sérstaka sameign en í stað þess kveðið á um óljós hugtök um „samkomulag“ og „vilyrði“. Tillagan kveður á eignasviptingu og óljós fyrirmæli um hvernig afla eigi samþykkis landeigenda.

Þá er óskað eftir upplýsingum um hvaða stærðarviðmið eru lögð til grundvallar varðandi ræktun sjávargróðurs eða tínslu þörunga í fjöru sem ekki er frá skipi enda sé magn minna en 1 tonn á ári (blautvigt) sbr. 3. mgr. 3.gr. Skiptir t.d. stærð á fjörum eða fjöldi eyja innan landareigna máli varðandi hámarks ræktun eða tínslu sjávargróðurs?

Framangreint vekur upp spurningar um hvert verið sé að stefna með lagabreytingunum og um að vinnubrögð við undirbúning hafi verið gerræðisleg.

Stykkishólmi, 18. september 2020.

F.h. deilda Æðarræktarfélags Íslands við Breiðafjörð,

Æðarræktarfélag Snæfellinga og Æðarvé.

______________________

Erla Friðriksdóttir,

varaformaður Æðarræktarfélags Íslands og sjávarjarðaeigandi á Breiðafirði.

Fjöldi félaga í deildum Æðarræktarfélags Íslands við Breiðafjörð er um 100 manns.

Afrita slóð á umsögn

#11 Finnur Árnason - 18.09.2020

18. 09. 2020

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).

Þörungaverksmiðjan hf. (ÞV) þakkar fyrir tækifæri til að gera athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á lögum sem varða nýtingu á sjávargróðri. Vísað er til fyrri umsagna ÞV frá 19.04. 2017 sem veitt var í tengslum við setningu laga nr. 49/2017 sem komu með ný ákvæði í fiskveiðistjórnunarlög nr. 116/2006, sem og umsagnar ÞV frá 28.09. 2016.

Það vekur athygli að nú skuli vera ráðgert að fella aftur úr fiskveiðistjórnunarlögunum hluta þeirra ákvæða sem um ræðir. Að því marki sem það þýðir að horfið sé frá byggðasjónarmiðum er stigið mjög neikvætt skref verði þetta raunin.

Á síðu samráðsgáttar kemur þetta fram:

Með frumvarpi þessu er lagt til;

- að regluverk verði einfaldað.

- að afnumin verði heimild til að leyfisbinda móttökustöðvar fyrir þang.

- að tekin verði upp skylda til setningar nýtingaráætlana fyrir þangfjörur.

- að reinastjórn verði viðhaldið við öflun sjávargróðurs utan fjöru.

Þörungaverksmiðjan bendir á að fyrirhugaðar breytingar á lögunum eru mun fleiri, þ.m.t. breytingar sem geta orðið mjög afdrifaríkar og haft neikvæð áhrif á byggarlög, fyrirtæki í rekstri og ekki síst náttúru og vistkerfi.

Þessi atriði eru helst:

A) Að kastað er fyrir róða viðurkenningu á nýtingarrétti ÞV sem byggir á sögulegri nýtingarreynslu: ÞV hefur barist fyrir því að nýtingarreynsla verksmiðjunnar í meira en fjóra áratugi verði viðurkennd og að slík viðurkenning komi m.a. fram í forgangsrétti til úthlutunar nýtingarheimilda. Rökin fyrir úthlutun á grundvelli nýtingarreynslu eru vel þekkt; ÞV hefur sýnt fram á að nýtingin sé möguleg í atvinnuskyni og hefur í því samhengi lagt til vísindalega þekkingu, fjárfest gríðarlega í verklegri þekkingu og búnaði og í raun þróað iðnað á Íslandi með starfsemi sinni. Rekstur ÞV byggir á aðgangi að umræddu hráefni og er mjög í mun að geta tryggt áframhaldandi starfsemi sína. Þótt slík viðurkenning hafi því miður ekki náðst sem skyldi við setningu laga nr. 49/2017, sem breyttu m.a. l. 116/2006, þá voru þó ákvæði þar (m.a. ákvæði til bráðabirgða) um tímabundinn forgang verksmiðjunnar komi til takmörkunar á nýtingunni og að líta mætti til verk- og tækniþekkingar við úthlutun nýtingarheimilda. Með því að færa þungamiðju stjórnunar frá leyfum til starfrækslu móttökustöðvar fyrir þang yfir á leyfisveitingakerfi fyrir skip og pramma þá óttast ÞV að í hönd fari barátta um viðkomandi hagsmuni sem leiða muni til þess að skip og prammar sem tengjast veiðiheimildum verði sérstök framseljanleg „verslunarvara“ með tilheyrandi útlátum fyrir vinnsluaðila og tilfærslu fjármuna úr greininni eins og þekkist annars staðar.

B) Að við stjórnun nýtingarinnar skuli ekki lengur litið til mikilvægis auðlindarinnar fyrir einstök byggðarlög og fyrirtæki: Sá möguleiki að líta til þessa sýnist alveg tekinn af og er það mikill skaði. Atvinnulíf í Reykhólahreppi er fábreytt og byggir að langmestu leyti á starfsemi Þörungaverksmiðjunnar. Þótt við setningu l. 49/2017 hafi ekki nema í takmörkuðum mæli, náðst fram kröfur um að litið skuli til slíkrar stöðu sem þarna er lýst þá var í því ákvæði sem varð að 15. gr. c í fiskveiðistjórnunarlögum nr. 116/2006 ákvæði sem var hliðhollt Reykhólahreppi og Þörungaverksmiðjunni. Var það þess efnis að við úthlutun leyfa til móttöku á þangi væri heimilt að m.a. til framlags á rannsóknum á þangi og vistkerfi stranda „og áhrifa fyrirhugaðrar starfsemi á byggðir þar sem gætir langvarandi fólksfækkunar og einhæfs atvinnulífs“. Í stað þess að veikja stöðu slíkra byggða ætti að gera þveröfugt enda mikil þörf á; Samfélagið í Reykhólahreppi á undir högg að sækja, þar er fólksfækkun og fjölskyldur að flytja á brott, sveitarsjóður rekinn með miklu tapi síðustu tvö ár, uppnám í verslun og skólastarf í hættu. Í stað fyrirkomulags sem styður við þessa byggð, virðist stefnt að því að hér verði sjávargróðurs aflað og siglt með hann til erlendrar hafnar án nokkurrar verðmætasköpunar hér á landi.

C) Að áhersla laganna á vísindalegan grundvöll undir stjórnun nýtingarinnar sem byggir á vistfræðilegri nálgun er afnumin: Með setningu laga nr. 49/2017 komu í l. 116/2006 ákvæði (m.a. í 3. gr.) sem mæltu fyrir um vöktun vistkerfa sem tengjast sjávargróðri og vísuðu til verndarmarkmiða fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir sem fram koma í 2. gr. náttúruverndarlaga (60/2013). Þetta vekur furðu og er mikil afturför á tuttugustu og fyrstu öldinni. ÞV telur að með lagabreytingunni 2017 hafi verið stigið mikilvægt skref í átt að ráðgjöf og stjórnun sem leitar ekki einvörðungu svara við því hve mikla nýtingu þang í Breiðafirði þolir heldur einnig við því hver séu áhrif nýtingarinnar fyrir vistkerfið og þar með fyrir búsvæði fiska sem eiga mikilvægar uppeldisslóðir innan um sjávargróðurinn. ÞV, eins og aðrir sem byggja rekstur sinn á nýtingu auðlinda hafsins, skynjar sífellt meiri kröfur frá viðskiptavinum sínum, að geta greint frá ekki bara heilnæmi framleiðslu sinnar heldur geti líka gert þeim grein fyrir sínum uppskeruaðferðum og ekki síst að stjórnun nýtingarinnar sé forsvaranleg gagnvart vistkerfinu og byggð á vísindum, og að allt þetta sé vottað af óháðum aðila. Við lestur frumvarpsins og skýringa við það gæti vaknað sá grunur að þeirri stefnu sem mörkuð var með setningu l. 49/2017 hafi ekki fylgt fjármunir og annar stuðningur til Hafrannsóknastofnunnar og Náttúrufræðistofnunnar Íslands, NFSÍ, svo raunhæft sé að þessar stofnanir hafi getað hafið það verk að koma þeirri vöktunar- og rannsóknaráætlun á fót sem ákveðið var með setningu l. 49/2017. Í það minnsta hefur ekki borið á slíkri vinnu af hálfu þessara stofnana og er ekki vitað til þess að það verk sem ákveðið var, með setningu laga nr. 49/2017 að ráðast í, hafi verið ýtt úr vör. Ekki skulu þó frekari getgátur hafðar uppi um þetta, án þess að ráðuneytinu verði gefið tækifæri til þess að gera grein fyrir því hvaða fjármunum hafi verið varið til þessa verks og hvernig viðkomandi stofnanir hafi verið hvattar til þess að hrinda því af stað.

D) Varúðarnálgun lögð af: Með setningu laga nr. 49/2017 minnkuðu líkur á því að nýting á þangi og þara myndi aukast skarplega. Því var m.a. að þakka heimildum ráðherra (sem mælt var fyrir um í 3. gr. l. 116/2006) til þess að leyfisbinda nýtingu sjávargróðurs sé þess talin þörf og grípa þannig inní væri ástæða til en einnig var kveðið á um að þær leyfisveitingar sem möguleiki var að grípa til myndu einungis gilda í skamman tíma. Það að afnema þessar heimildir er að mati ÞV andstætt þeirri varúðarnálgun sem nauðsynlegt er að viðhafa við stjórnunina.

Þá er enn hvergi minnst á að við aukna nýtingu skuli farið hægt af stað og í áföngum og áhrif könnuð. Ítrekað hefur verið bent á mikilvægi þess og einnig hvernig slíku er hagað skv. lögum í Kanada. Hvergi er minnst á að gera skuli umhverfismat við nýja eða aukna nýtingu. Sýnist nærtækara að stefna málum í þá átt, frekar en gera það sem nú virðist ætlunin. Það að rökstyðja breytingar með upptalningu á rannsóknar-verkefnum sem eiga að skila niðurstöðum á árinu 2021 er sérstakt. Er ástæða til þess að vara sérstaklega við þeim mikla asa sem virðist eiga að viðhafa við að afnema fyrirkomulag sem samþykkt var með l. 49/2017, áður en því er í raun beitt. Sú spurning er áleitin hver sé ástæðan fyrir þessum hraða og hver hefur kallað eftir þessum breytingum.

E) Að ekki sé á neinn hátt svarað þeirri gagnrýni að ríkið taki gjald fyrir hvert tonn af fjörugróðri, klóþangi, eins og að það sé eigandi að þeim gróðri.

Í athugasemdum við frumvarp að l. um veiðigjald 74/2012 segir að við álagningu gjaldsins verði „horft til þess hvað sé eðlilegt endurgjald fyrir aðgang að hinni sameiginlegu auðlind“ og að við gerð frumvarpsins sé „það lagt til grundvallar að fiskveiðiauðlindin sé í eigu þjóðarinnar og því geti enginn annar gert réttmætt tilkall til rentu af henni“. Við innleiðingu auðlindagjalds með lögum 74/2012 kom skilmerkilega fram að frumforsenda fyrir því að leggja gjaldið á væri að auðlindin sem er andlag gjaldtökunnar væri í þjóðareign. Við breytingu á lögunum vorið 2015 var ítrekuð þessi áhersla á eðli auðlindarinnar sem þjóðareignar. Eigendur sjávarjarða hafa því bent á að órökrétt sé að slíkt gjald sé lagt á auðlind á þeirra landi og í þeirra eigu eins og um auðlind í eigu þjóðarinnar sé að ræða. Nú er svo komið að nokkrir eigendur sjávarjarða neita verksmiðjunni um leyfi til að nýta fjörur sínar á meðan ríkið heimtir slíkt gjald af nýtingunni. Telur ÞV aðkallandi að stjórnvöld láti ekki sem enginn ágreiningur sé um þetta mál heldur taki á því og nái sátt við eigendur sjávarjarða.

F) Því er mótmælt að lagabreyting nú sé nauðsynleg til þess að greiða fyrir þróun þess atvinnuvegar sem snýst um nýtingu þangs og þara.

Á Reykhólum hefur verið starfandi rannsóknar- og þróunarstöð frá 2017 (Þörungaklaustur ehf) sem sinnt hefur þróun aðferða og úrvinnslu til frekari verðmætaaukningar á þeim afla sem berst á land á Reykhólum. Markmið þess er að vinna úr fersku hráefni til ræktunar matvæla, fóðurs og notkunar í húðvörur. Styrkir til nýsköpunar hafa fengist úr Uppbyggingarsjóði og Rannsóknasjóði HÍ. Samstarf er við MATÍS og HA um þessa þróun. Að fyrirtækinu standa einstaklingar auk Reykhólahrepps. Sú mikla samkeppni sem kann að verða leidd yfir ÞV og Reykhóla er fremur til þess að ógna þeirri þróun sem þar hefur verið og útlit er fyrir.

Loks vill ÞV benda á að lögin sem stendur til að breyta snúa að langmestu leiti um þang í Breiðafirði. Löggjafinn hlýtur að vilja eða eiga að hafa breiðara sjónarhorn þótt ekki sé vitnað til annars en fyrirhugaðrar gríðarlega umfangsmikillar nýtingar á stórþara við landið.

Þá má enn benda á annmarka þess að setja ákvæði um nýtingu á staðbundnum gróðri í fjörum og sjó inn í lög um stjórn fiskveiða.

Lokaorð

Svo virðist sem stjórnvöld hafi gefist upp á því verkefni sem þeim var falið með setningu l. 49/2017 og þar með skorast undan þeirri ábyrgð sem í því verkefni felst. Í stað þess að berja í brestina sýnist ætlunin að láta kylfu ráða kasti og ekki hirt um hvað verður um eitt byggðarlag og rótgróinn iðnað. Skorað er á ráðuneytið að hætta við þessa vanhugsuðu vegferð og hugsa málið upp á nýtt.

Finnur Árnason

Framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf.

Afrita slóð á umsögn

#12 Reykhólahreppur - 18.09.2020

Umsögn í Samráðsgátt S172/2020, frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps gerir hér með athugasemdir við ofangreint frumvarp og byggir athugasemdin sínar að megin þætti til á grundvelli byggðasjónarmiða.

Sveitarstjórn vísar einnig til umsagnar/sjónarmiða frá 1.3.2016 og fylgir hún með sem fylgiskjal.

Þörungaverksmiðjan á Reykhólum hefur stundað þang og þaratekju í Breiðafirði í yfir 40 ár. Þörungaverksmiðjan hefur lagt mikla áherslu á sjálfbæra nýtingu sem er grundvöllur fyrir rekstri fyrirtækisins til framtíðar. Fyrirtækið hefur aflað sér víðtækrar sérþekkingar á nýtingu þangs og þara í Breiðafirði og nær sú þekking yfir meirihluta Breiðafjarðar, frá Kolgrafarfirði sunnanvert í í Breiðafirði yfir á Barðaströnd norðanvert. Sú þekking sem skapast byggist á raunverulegri nýtingu og raunverulegri þörf fyrirtækisins fyrir sjálfbærni til að byggja undir rekstur til framtíðar. Það er óábyrgt að líta ekki til þessarar þekkingar þegar umræða um nýtingu þangs og þara er annarsvegar.

Þörungaverksmiðjan er máttarstólpur í Reykhólahreppi og grundvöllur að byggðinni í þorpinu á Reykhólum. Gildi fyrirtækisins fyrir samfélagið er ótvíræð. Allar breytingar á lögum sem lúta að því að breyta grundvelli starfssemi fyrirtækisins hafa bein áhrif á samfélagið í Reykhólahreppi. Því þarf að stíga varlega til jarðar með allar stjórnvaldsákvarðanir sem gætu haft íþyngjandi áhrif á grundvöll fyrir rekstri fyrirtækisins.

Reykhólahreppur hefur lýst yfir áhyggjum sínum af íbúaþróun síðustu misseri. Reykhólahreppur er víðtækt landbúnaðarhérað þar sem sauðfjárrækt er aðal starfssemin. Mikil tengsl eru á milli nýliðunar í landbúnað og möguleikum á atvinnu á svæðinu, þar sem sauðfjárbændur þurfa í flestum tilfellum að vinna með landbúnaðarstörfum. Þar leikur tilvera Þörungaverksmiðjunnar stórt hlutverk.

Sveitarstjórn bendir á að stofnað hefur verið Þaraklaustur nýsköpunar- og rannsóknasetur á Reykhólum. Grundvöllur stofnunar þess fyrirtækis, sem að hluta til er í eigu Reykhólarhepps, eru rannsóknir, upplýsingaöflun og nýsköpun með áherslu á þang og þara. Nánast öll íslensk þekking á nýtingu og vinnslu á þangi og þara er í Reykhólahreppi.

Sveitarstjórn leggur áherslu á það að varlega verði farið í allar breytingar sem varða öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Horft verði til byggðasjónarmiða og þróunar byggðar á landsbyggðinni. Einnig leggst Sveitarstjórn gegn breytingum sem fela í sér afslátt af rannsóknarskyldu áður en leyfi er veitt fyrir nýtingu.

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir

sveitarstjóri Reykhólahrepps

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Örn Pálsson - 18.09.2020

Umsögn frá LS

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) - 18.09.2020

Meðfylgjandi er umsögn SFS.

Viðhengi

#15 - 21.09.2020

Umsögn barst en birtist ekki í gáttinni samkvæmt ákvörðun ábyrgðaraðila samráðsmálsins. Upplýsingalög gilda, sjá nánar í Um samráðsgáttina

Afrita slóð á umsögn

#16 Breiðafjarðanefnd - 21.09.2020

Viðhengi