Alls bárust 10 umsagnir á samráðsgátt. Í framhaldi af skoðun ráðuneytis á efnisatriðum í þeim athugasemdum sem fram komu var ákveðið að fresta málinu og að gefa ekki út reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla að svo stöddu.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 04.09.2020–01.10.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.09.2021.
Núgildandi reglugerð er uppfærð með áorðnum breytingum. Að auki er í II. kafla bætt inn ákvæðum um framkvæmd vigtunar á hafnarvog og í XI. kafla er bætt inn ákvæðum varðandi kröfur um aðstöðu og búnað hjá löndunarhöfnum þ.á.m. um lágmarksbúnað varðandi vogir og ákvæði um eftirlitsmyndavélar.
Núgildandi reglugerð er uppfærð með áorðnum breytingum. Að auki er í II. kafla bætt inn ákvæðum um framkvæmd vigtunar á hafnarvog og í XI. kafla er bætt inn ákvæðum varðandi kröfur um aðstöðu og búnað hjá löndunarhöfnum þ.á.m. um lágmarksbúnað varðandi vogir og ákvæði um eftirlitsmyndavélar.
Mikil umræða hefur verið um aukið og bætt eftirlit með vigtun sjávarafla. Nú síðast í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar (des. 2018). Hluti þeirrar umræðu snýr að vigtun sjávarafla á hafnarvog, bæði hvað varðar ábyrgð hafnaryfirvald en einnig um búnað og aðstöðu hjá löndunarhöfnum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir m.a.:
Um frekari kröfur til hafna vegna aðstöðu til vigtunar og eftirlits skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kveða á um í reglugerð, samkvæmt 6. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti getur samkvæmt 3. mgr. 6. gr. bannað löndun sjávarafla í einstökum höfnum sem ekki fullnægja kröfunum. Reglugerð samkvæmt ákvæðinu hefur ekki verið sett. Af þeim sökum skortir skýrari kröfur til vigtunar, búnaðar og hæfi starfsmanna á löndunarhöfnum. Ríkisendurskoðandi hvetur til þess að umrædd reglugerð verði sett svo allt inntak um kröfur til hafna og eftirlit þeirra sé skýrt.
Reglugerðardrögin voru unnin í nánu samráði við Fiskistofu.
8. gr. Skipstjóri skal tilkynna löndunarhöfn um áætlaðan afla áður en löndun hefst
( þetta ákvæði veldur mikilli truflun á vigtarmann og eykur líkur á að gerð verði mistök við vigtun og skráningu sjávarafla. Komi hundrað smábátar að á sama tíma og tilkynna símleiðis um afla þá má ætla að mikið aukið áreiti og álag verði á vigtarmanninn á sama tíma og vigtun fer fram. Skrá þarf niður áætlaðan afla og bera saman við landaðan afla. )
11 gr. Flutningatæki sem ætluð eru til flutnings á afla frá hafnarsvæði skulu tómvigtuð (töruð) áður en löndun hefst og eftir það í hvert sinn sem þau koma inn á hafnarsvæðið.
( Sé móttökuaðili vegins sjávarafla rétt utan hafnarsvæðis þá þarf að tómvigta flutningstækið í hvert skipti. Hversu mikið af eldsneyti tapast á svona stuttri leið ef fara þarf 2 til 3 ferðir. Hafnarvog hefur skekkjumörk upp á 20 kg sem samsvarar til 20 lítra af olíu. Stór flutningstæki eyða kannski 50 l á hundrað km.
49. gr. Hafnaryfirvöld skulu gera skriflegar verklýsingar um framkvæmd vigtunar sjávarafla á hafnarvog og skulu þær vera í samræmi við ákvæði laga og reglna um vigtun og skráningu sjávarafla. Hafnaryfirvöld skulu framkvæma stöðugt innra eftirlit með vigtun og skráningu sjávarafla og í því skyni m.a. skrá og varðveita gögn um allar athuganir, eftirlit og vigtanir löggiltra vigtarmanna og annarra hafnarstarfsmanna sem koma að löndun og vigtun sjávarafla
( þetta ákvæði er að mörgu leiti afskaplega sérstakt að skikka hafnaryfirvöld til þess að koma upp verkferlum og skráningu. Eins og staðan er í dag þá er aðeins um eitt skráningarkerfi að ræða sem er á höndum Fiskistofu sem veitir leyfi og aðgang að því til tilskilinna aðila. Þannig að aðeins ein leið er til skráningar. Hafnir eru oftast smáar og fáliðaðar þannig að skikka ein starfsmann hafnar til að krá verkferil um sig sjálfan er hlægilegt.)
51. gr Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu skulu hafa óheftan aðgang að löndunarsvæði og vigtunaraðstöðu löndunarhafnar. Sé aðgangi að svæðinu stýrt með lokuðum hliðum eða aðgangi að því stýrt með öðrum hætti, skulu Fiskistofu afhentir lyklar eða aðgangsorð að þeim búnaði sem notaður er til stýringarinnar. Löggiltir hafnarvigtarmenn skulu veita veiðieftirlitsmönnum Fiskistofu allar upplýsingar sem þeir óska eftir um landanir sjávarafla, vigtanir hans og skráningu. Frumrit af undirrituðum vigtarnótum skulu varðveitt og vera aðgengileg veiðieftirlitsmönnum Fiskistofu ef þeir óska þess.
(Starfsfólk Fiskistofu hefur í lang flestum tilfellum haft óheftan aðgang að löndunarsvæði og vigtunaraðstöðu. Veiðieftirlitsmenn/konur hafa fengið allar þær upplýsingar sem óskað hefur verið eftir. En að skikka hafnir til að veita eftirlitsmönnum óheftað aðgang að vigtunaraðstöðu hafnar er í öllu falli óeðlilegt. Hver vinnustaður á að geta stýrt aðgengi að aðstöðu sinni. Ég vil minna á að Fiskistofa hefur ekki lögregluvald. ) Það hefur brunnið við að eftirlitsmenn Fiskistofu hafa verið ruddalegir og dónalegir við starfsmenn hafna og eru oft á tíðum óvelkomnir inn i aðstöðu hafnarinnar.)
Vigtarnótur sem gefnar eru út úr aflaskráningarkerfi Fiskistofu verða óumbreytanlegar eftir 5 mínútur eftir að nótu hefur verið lokað. Þannig að allar breytingar á nótum eru vistaðar í gagnagrunni Fiskistofu. Þangað geta veiðieftirlitsmenn sótt sínar upplýsingar þannig að ekki ætti að vera þörf á útprentun og pappírssóun að vera skylda í reglugerðinni.
52. gr. Hafnaryfirvöld skulu tryggja að ætíð séu tiltækir nægilega margir starfsmenn löndunarhafnar til að unnt sé að framkvæma allar vigtanir sjávarafla sem ætla má að landað verði í höfninni.
( Hver skal ákveða hvað þarf marga menn í vigtun. Er það hafnaryfirvöld viðkomandi hafnar eða ætlar Fiskistofa að ákvarða hver mannaflaþörfin er og gera kröfur um það. Samræmist það hlutverki stofnunninnar.)
54.gr. Höfn þar sem sjávarafla er landað skal búin stafrænum eftirlitsmyndavélum sem tengdar eru við myndþjón sem skráir og varðveitir allt myndefni í a.m.k. þrjá mánuði. Eftirlitsmyndavélarnar skulu einnig tengdar við skjái sem sýnilegir eru vigtarmönnum þegar þeir starfa við vigtun sjávarafla. Upplausn myndavéla skv. 1. mgr. skal vera að lágmarki 5Mpix og þéttleiki að lágmarki IP67. Búnaðurinn skal bjóða upp á vélræna og stafræna þysjun. Eftirlitsmyndavélum skal komið þannig fyrir þannig að þær sýni löndunaraðstöðu og vigtunaraðstöðu og skulu stilltar þannig að hægt sé með þeim að fylgjast með samfelldri ferð afla frá veiðiskipi til vigtunar á hafnarvog.
( Enn og aftur kemur að því er hægt að skilda fyrirtæki til að setja upp eftirlitsbúnað í þeirra óþökk samrýmist það persónuverndarlögum. Krafan „skulu stilltar þannig að hægt sé með þeim að fylgjast með samfelldri ferð afla frá veiðiskipi til vigtunar á hafnarvog.“ Er að mörgu leiti óraunhæf þar sem hafnaraðstöður eru oft fleiri en ein og langt á milli vigtar og löndunarstaðs. Þannig að myndavélakerfið þyrfti að vera gríðarlegt til þess að uppfylla þessa kröfu.)
Niðurlag.
Að mínu mati eru þessar breytingar á REGLUGERÐ um vigtun og skráningu sjávarafla ekki til þess fallin að auka skilvirkni og aukinnar pappírslausra viðskipta.
Einnig hef ég oft furðað mig á því hversvegna hafnaryfirvöld eru látin slá inn vigtartölur eftir endur og heilvigtun frá vigtarleyfishafa. Myndi telja að þeir ættu að geta slegið þessar tölur inn í aflaskráningarkerfi Fiskistofu sjálfir ef þeim er treystandi til að vigta aflann.
Lagt er til að breytingar á reglugerð um vigtun sjávarafla verði ekki gefnar út, en efnið í heild endurskoðað. Nánari upplýsingu í umsögn Hafnasambands Íslands sem má finna í viðhengi.
Á fundi Stjórnar Reykjaneshafnar 24. september s.l. var farið yfir fyrirliggjandi drög að reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla. Þar kom fram að þær viðbætur sem lagðar eru til þar miðað við núverandi reglugerð eru ekki í samræmi við kröfur nútímans um skilvirkni og lámörkun kostnaðar með bestu fáanlegir tækni. Eftirfarandi var lagt fram: Í drögum að reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla sem nú er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda virðist sem allar tillögur þar gangi út á að að íþyngja höfnum varðandi fyrirkomulag og umgjörð við vigtun sjávarafla á hafnarvog. Í því felst m.a. krafa um aukinn mannafla og tækjabúnað, en því fylgir aukin rekstarkostnaður fyrir hafnir sem nemur milljónum króna. Flestar fiskihafnir landsins eiga í erfiðleikum með að ná endum saman í sínum rekstri og mega ekki við neinum kostnaðarauka. Stjórn Reykjaneshafnar telur að í fyrrnefndum drögum sé haldið í þveröfuga átt í framkvæmd vigtunar sjávarafla miðað við það sem er að gerast í þjóðfélaginu almennt. Með þeirri tækni sem er til staðar í dag er auðvelt að byggja upp nýtt fyrirkomulag við vigtun sjávarafla sem er mun hagkvæmara en núverandi fyrirkomulag og gerir höfnum landsins möguleika á að hagræða í rekstri sínum til kostnaðarminnkunar. Stjórn Reykjaneshafnar skorar á stjórn Hafnasamband Íslands að Hafnasambandið beiti sér fyrir því að tekið verði upp fyrirkomulag fjarvigtunar hjá öllum höfnum landsins sem fjármagnað og þjónað verði af fiskveiðieftirlit Fiskistofu fyrir hönd ríkisvaldsins. Slíkt myndi auðvelda Fiskistofu hlutverk sitt við eftirlit með umgengni um nytjastofna sjávar og fisveiðar en jafnfram gefa höfnum landsins möguleika til hagræðingar og nýta þar með bestu fáanlegu tækni hverju sinni öllum til hagsbóta. Samþykkt samhljóða.
Góðan dag
í viðhengi r umsögn Sjómannasambands Íslands.
Valmundur Valmundsson
formaður
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
f.h. sambandsins
Bryndís Gunnlaugsdóttir
ViðhengiHjálögð er umsögn Persónuverndar um drög að reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla.
F.h. Persónuvernd,
Vigdís Eva Líndal
ViðhengiÍ viðhengi er umsögn Hafnasambands Íslands.
f.h. hafnasambandsins
Valur Rafn Halldórsson
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn SFS
ViðhengiUmsögn um reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla.
Mál nr. 176/2020
Það er eitthvað verulega mikið að þegar áratugir líða án þess að yfirvöld í tímans rás hafi borið gæfu til að koma ásættanlegu skikki á vigtun og skráningu sjávarafla.
Í þeirri reglugerð sem nú liggur fyrir til umsagnar er gerð tilraun til að gera úrbætur á því regluverki sem fyrir er. Að mati undirritaðs er á sneitt fram hjá þeim þáttum sem snúa að lang algengustu umkvörtunarefnum sjómanna, sem eru því miður allt of tíð. Þar er um að ræða 18. gr. þar sem fjallað er um endurvigtun. Sú grein er óbreytt frá fyrri reglugerð og við heldur þar með þeirri aðferðafræði sem þar hefur verið við lýði allt of lengi.
Allt öðru máli gegnir um nýja grein( gr. 54) þar sem tekið er á eftirliti með vigtunarferlinu frá veiðiskipi að hafnarvog en þar er eins og sjá má komið inn myndarvélaeftirlit sem ætlast er til að dugi til að fylgjast með samfelldri ferð afla frá skipshlið að þar til lokið er vigtun á hafnarvog.
54.gr.
Höfn þar sem sjávarafla er landað skal búin stafrænum eftirlitsmyndavélum sem tengdar eru við myndþjón sem skráir og varðveitir allt myndefni í a.m.k. þrjá mánuði. Eftirlitsmyndavélarnar skulu einnig tengdar við skjái sem sýnilegir eru vigtarmönnum þegar þeir starfa við vigtun sjávarafla. Upplausn myndavéla skv. 1. mgr. skal vera að lágmarki 5Mpix og þéttleiki að lágmarki IP67. Búnaðurinn skal bjóða upp á vélræna og stafræna þysjun. Eftirlitsmyndavélum skal komið þannig fyrir þannig að þær sýni löndunaraðstöðu og vigtunaraðstöðu og skulu stilltar þannig að hægt sé með þeim að fylgjast með samfelldri ferð afla frá veiðiskipi til vigtunar á hafnarvog.
18. gr.
Löggiltur vigtarmaður sem annast endurvigtun afla skal fylla út og undirrita vigtarnótu þar sem, auk þess sem segir í 10. gr., skal tilgreina eftirfarandi upplýsingar fyrir hverja tegund: 1. Þegar um er að ræða heilvigtun:
a. Heildarþunga fisks.
b. Reiknað hlutfall íss í afla. (Brúttóafli, þ.e. afli og ís samkvæmt vigtun á hafnarvog, mínus nettóafli, þ.e. afli án íss við endurvigtun, margfaldað með 100, deilt með brúttóafla.)
c. Niðurstöðu vigtunar á óslægðum afla eftir því sem við á, sbr. 26. gr.
2. Þegar um er að ræða úrtaksvigtun A:
a. Fjöldi og gerð íláta sem valin eru í úrtak.
b. Fyrir hvert ílát sem valið er í úrtak skal tilgreina:
i. þunga fisks í hverju íláti,
ii. þunga íss í hverju íláti,
iii. þunga íláts.
3. Þegar um er að ræða úrtaksvigtun B:
a. Niðurstaða brúttóvigtunar hvers kars.
b. Fjöldi og gerð íláta sem valin eru í úrtak.
c. Fyrir hvert ílát sem valið er í úrtak skal tilgreina:
i. þunga fisks í hverju íláti,
ii. þunga íss í hverju íláti,
iii. þunga íláts.
d. Reiknað hlutfall íss í afla. (Brúttóafli, þ.e. afli og ís samkvæmt vigtun á hafnarvog, mínus nettóafli, þ.e. afli án íss við endurvigtun, margfaldað með 100, deilt með brúttóafla.)
Það eru fyrst og fremst tvö atriði sem viðvarandi óánægja ríkir um meðal sjómanna og í hvorugri þeirra gerðar úrbætur svo vel sé í þessari reglugerð. Þar er annarsvegar um að ræða þekkt frávik hvað varðar frjálslegt prósentuhlutfall íss í lönduðum afla og hinsvegar þegar uppgefin er kolröng meðalþyngd þess fiskjar sem landað er, en bæði þessi atriði leiða til skerðingar á hlut fiskimanna.
Þar samhvæmt viðamikilli könnun Daða Más Kristóferssonar auðlindahagfræðings og hans samstarfsmanna á gögnum Fiskistofu frá 2014 til 2018 liggur fyrir með óhyggjandi hætti að umtalsverður munur reyndist á íshlutfalli í afla, annarsvegar þegar eftirlitsmenn Fiskistofu höfðu eftirlit með endurvigtuninni og hinsvegar þegar svo var ekki. Meðal annars kom þar fram að hjá fyrirtækjum þar sem um var að ræða skip sem lönduð til fiskvinnslu í eigu sama aðila var um að ræða 5.5 % mun. Sá munur lækkaði reyndar eftir birtingu gagna Fiskistofu niður í 3 %. Þarna er um að ræða veruleg verðmæti . Megin niðurstaða Daða er að 2 % munur hafi á þessu árabili verið að meðaltaltali eftir að fiskvinnslufyrirtækin gátu átt von á yfirstöðu eftirlitsmanna.
Bæði þessi úrlausnarefni má leysa með hliðstæðri aðferðafræði og tíunduð er í 54. Grein. Þ.e.a.s. að fylgja ferlinu eftir alla leið þar til vinnsluþátturinn sjálfur hefst, en stoppa ekki úti í miðri á.
Nú þegar er til staðar öllum nýrri fiskvinnsluhúsum myndavéla-eftirlitskerfi þar sem fylgst er með öllu sem yfirmenn vinnslunnar vilja fylgjast með. Eðlilegt má því telja að í heilstæðum búnaði þar sem fylgjast megi með öllu ferlinu frá upphafi til enda og í hæsta máta óeðlilegt að skilja útundan þann hluta sem er gagnrýniverðastur og bent hefur verið á að úrbóra sé þörf.
Árni Bjarnason form. FS