Samráð fyrirhugað 08.09.2020—07.10.2020
Til umsagnar 08.09.2020—07.10.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 07.10.2020
Niðurstöður birtar 01.12.2020

Skýrsla samráðsfundar: Að lifa með veirunni

Mál nr. 180/2020 Birt: 08.09.2020 Síðast uppfært: 01.12.2020
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Niðurstaða málsins er sú að fjórar umsagnir bárust um skýrsluna. Bæði skýrslan og umsagnir hafa verið sendar sóttvarnalækni og Covid-teymi forsætisráðuneytisins til frekari skoðunar.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 08.09.2020–07.10.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 01.12.2020.

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið, í samstarfi við dómsmálaráðuneytið og forsætisráðuneytið, stóð fyrir samráðsfundi sem hafði það að markmiði að móta áherslur og leiðarljós sem munu nýtast í áframhaldandi vinnu gegn Covid-19 á næstu misserum. Samantekt fundarins má finna í skýrslu sem hér er lögð fram til samráðs.

Það er ljóst að það er óvissu háð hve lengi Covid-19 verður áhrifavaldur í samfélaginu og að íslenskt samfélag, eins og heimurinn allur, þarf að búa sig undir að lifa með veirunni til lengri tíma. Svo það takist sem best er mikilvægt að stjórnvöld hafi sem gleggsta mynd af áhrifum þeirra sóttvarnaráðstafana á líf almennings sem hingað til hefur verið beitt. Mikilvægt er að vita hvað það er sem er mest íþyngjandi fyrir einstaka hópa og hvernig það birtist, hvernig mismunandi hópar fólks sjá fyrir sér framtíðina í óbreyttu ástandi, hverjar séu helstu áskoranirnar og hvort og hvað sé unnt að gera til að lágmarka röskun á daglegu lífi fólks svo eitthvað sé nefnt.

Fundinum var streymt á vef Stjórnarráðsins en upptöku af fundinum má sjá hér: https://livestream.com/accounts/11153656/events/9264550/player

Eftirfarandi spurningar voru lagðar fyrir þátttakendur fyrir fundinn til undirbúnings:

1. Hverjar eru helstu áskoranir á viðkomandi sviði til að halda úti starfsemi miðað við þær sóttvarnareglur sem nú gilda?

2. Ef hægt væri að slaka eitthvað á gildandi sóttvarnareglum, hvaða tilslakanir myndu koma að sem mestu gagni?

3. Hvaða áhrif telurðu líklegt að óbreyttar sóttvarnareglur muni hafa á viðkomandi sviði til lengri tíma litið?

4. Hvaða mótvægisaðgerðir gætu komið að sem mestu gagni til að draga úr áhrifum sóttvarnaaðgerða á viðkomandi sviði?

5. Hvaða hópar líða mest fyrir skerta starfsemi á viðkomandi sviði?

6. Geturðu nefnt eitthvert eitt atriði sem þú telur skipta mestu máli fyrir samfélagið á tímum kórónaveirunnar?

7. Annað sem þú vilt taka fram?

Stofnanir, hagsmunaaðilar, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar eru hvött til þess að svara ofangreindum spurningum og/eða koma á framfæri athugasemdum varðandi áhrif sóttvarnaráðstafana á sínu sviði.

Afurð samráðsins verður send verkefnahópi sóttvarnalæknis.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Páll Ólafsson - 29.09.2020

Álit Barnaverndarstofu vegna áframhaldandi vinnu gegn Covid-19 á næstu misserum.

Í þessu áliti er sérstaklega horft til barnaverndarmála.

1. Hverjar eru helstu áskoranir á viðkomandi sviði til að halda úti starfsemi miðað við þær sóttvarnareglur sem nú gilda?

Að halda starfssemi og þjónustu barnaverndar við foreldra og börn getur verið flókið vegna fjarlægðartakmarkana og sóttvarnarmála. Það þarf lítið til þess að heilu vinnustaðirnir eins og skólar lokist vegna smits og það getur komið niður á okkar viðkvæmustu skjólstæðingum. Heimavinna og fjarvinna getur verið takmarkandi í samskiptum sem þarfnast nándar, öryggis og sýnileika, ekki hentar öllum það form að vinna rafrænt í gegnum netið. Það getur verið flókið fyrir starfsfólk í barnavernd að gæta að vörnum gegn smiti í vitjunum, útköllum, viðtölum eða í meðferðarvinnu með börnum og fjölskyldum. Það er áskorun hvernig hægt er að tryggja það enn betur að börn geti látið vita ef aðstæður þeirra eru ekki börnum bjóðandi? Við hverja tala börn um heimilisástandið heima hjá sér ef þau eru aðallega heima hjá sér og hitta lítið vini sína eða aðra fullorðna?

2. Ef hægt væri að slaka eitthvað á gildandi sóttvarnareglum, hvaða tilslakanir myndu koma að sem mestu gagni?

Halda fjarlægðartakmörkunum hjá börnum og þeim sem vinna með börnum í einum meter ef mögulegt er. Reyna að hafa sem eðlilegast umhverfi fyrir börn í leik, grunn og framhaldsskólum. Finna upp og benda á leiðir fyrir börn að vera með í íþrótta og félagslífi án þess að brjóta nálægðarreglur.

Notkun á grímum og fjarlægðartakmarkanir geta verið erfiðar börnum þegar svo mikilvægt er að halda umhverfi þeirra sem eðlilegustu.

3. Hvaða áhrif telurðu líklegt að óbreyttar sóttvarnareglur muni hafa á viðkomandi sviði til lengri tíma litið?

Einangrun og óvissa getur aukið á kvíða og óöryggi meðal barna og foreldra. Við sjáum aukningu í tilfellum þar sem tilkynnt er um heimilisofbeldi og svona ástand getur orðið til þess að ofbeldi gegn börnum eykst t.d. sýna tölur okkar fjölgun í málum tengdum kynferðislegu ofbeldi og líkamlegu ofbeldi í Barnahúsi.

4. Hvaða mótvægisaðgerðir gætu komið að sem mestu gagni til að draga úr áhrifum sóttvarnaaðgerða á viðkomandi sviði?

Minnka álagið á fjölskyldur og börn eins og mögulegt er. Hafa daglegt líf barna í föstum skorðum eins og hægt er. Koma upplýsingum til barna, nota samfélagsmiðla og línulega dagskrá sjónvarpsstöðvana til að útskýra og fara yfir stöðuna, benda á leiðir, möguleika á aðstoð osfr á tungumáli sem börn skilja og muna eftir börnum af erlendum uppruna. Leiðbeiningar og aðstoð fyrir foreldra af erlendum uppruna, foreldra í fjárhagserfiðleikum, foreldra sem eiga við geðræna erfiðleika að stríða osfr. Þarf að setja upp einhverskonar neyðarvakt fyrir fólk sem þarf lausn sinna mála.

5. Hvaða hópar líða mest fyrir skerta starfsemi á viðkomandi sviði?

Það er hætta á því að sá hópur barna sem er viðkvæmastur fyrir muni líða mest fyrir afleiðingar Covid-19. Það er hætta á því að afleiðingar verði minnkandi eftirlit t.d. í skólum barnanna og benda færri tilkynningar frá skólakerfinu til þess, utanumhald mála verði erfiðara vegna smithættu sem hefur í för með sér flóknari vinnslu barnaverndarmála eins og td í kringum heimsóknir, viðtöl osfr. Einnig getur aðgangur barnaverndar að úrræðum takmarkast ef meðferðaraðilar eða meðferðarúrræði þurfa að fara í sóttkví eða smitast af veirunni. Aðgangur foreldra að úrræðum eða aðstoð vegna slæmrar fjárhagsstöðu og samskiptavanda getur skerst vegna vanda sveitarfélaga og stofnana ef fjárhagslegur niðurskurður fer að hafa áhrif.

6. Geturðu nefnt eitthvert eitt atriði sem þú telur skipta mestu máli fyrir samfélagið á tímum kórónaveirunnar?

Virðing fyrir því fólki sem vinnur í framlínunni, virðing fyrir foreldrunum sem eru að halda heimilunum og vinnustöðum sínum gangandi og ekki síst virðing fyrir börnunum sem eru að láta sitt daglega líf og skólastarfið sitt ganga með þeim ýmsu flóknu úrlausnum sem þessu fylgja. Talað af bjartsýni og tiltrú á að við komumst í gegnum þennan skalf saman.

7. Annað sem þú vilt taka fram?

Mikilvægt að hafa í huga að starfsfólk barnaverndar er einnig framlínustarfsfólk sem þarf stuðning og styrk til þess að það geti staðið vaktina áfram. Muna eftir því að foreldrar og börn eru stöðugt að tvinna saman viðbrögð við Covid ástandinu við eðlilegt heimilishald og það getur verið ærið verkefni og sumum hreinlega of erfitt. Samfélagið þar þarf að sjá til þess að þeir foreldrar og þau börn fái aðstoð.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök ferðaþjónustunnar - 05.10.2020

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um skýrslu samráðsfundar: Að lifa með veirunni.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Með góðum kveðjum

F.h. SAF

Gunnar Valur

Afrita slóð á umsögn

#3 Samtök ferðaþjónustunnar - 05.10.2020

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um skýrslu samráðsfundar: Að lifa með veirunni.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Með góðum kveðjum

F.h. SAF

Gunnar Valur

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Ungmennafélag Íslands - 07.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn UMFÍ um skýrslu samráðsfundar: Að lifa með veirunni.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Steinunn Jóhanna Bergmann - 07.10.2020

Meðfylgjandi eru ábendingar Félagsráðgjafafélags Íslands

Viðhengi