Samráð fyrirhugað 18.09.2020—02.10.2020
Til umsagnar 18.09.2020—02.10.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 02.10.2020
Niðurstöður birtar

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (markmiðsákvæði, endurskoðun hættumats, sektir o.fl.)

Mál nr. 192/2020 Birt: 18.09.2020 Síðast uppfært: 24.09.2020
  • Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (18.09.2020–02.10.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til breytinga á lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

Til að auka skýrleika laganna er í frumvarpinu lagt til að markmiðsákvæði verði bætt við ákvæði núgildandi laga auk ákvæða um nýtingu hættusvæða og eftirlit. Þá eru lögð til ákvæði um að hættusvæðum verði skipt í áhættuflokka og um endurskoðun hættumats. Í þeim tilgangi að tryggja enn frekar framfylgd laganna er lagt til að kveðið verði á um heimild til álagningu sektar vegna dvalar í húseignum á skilgreindum hættusvæðum. Á þetta við eignir sem keyptar hafa verið upp, eða sem hafa verið teknar eignarnámi sé dvalið í þeim utan heimils nýtingartíma eða ekki brugðist við fyrirmælum lögreglu um rýmingu. Að lokum eru lagðar til breytingar til gæta samræmis við ákvæði laga um almannavarnir, sem hafa tekið breytingum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Valtýr Sigurðsson - 30.09.2020

Tillaga um að Ofanflóðasjóði verði veitt heimild til að greiða tjón sem fellur til vegna ákvörðunar ráðherra um hættumat.

Leyningsás ses, sjálfseignarstofnun í eigu Fjallabyggðar og Rauðku ehf., er eigandi mannvirkja á skíðasvæðinu í Skarðsdal. Undirritaður er formaður stofnunarinnar. Fyrirtækið Valló ehf. Siglufirði rekur svæðið á grundvelli leigusamnings við Leyningsás ses.

Samkvæmt hættumati Veðurstofu Íslands frá 2011 er neðsta skíðalyftan, bílastæði, skíðaskálinn sem og upphafsstöð næstneðstu lyftu (T-lyftu) á skíðasvæðinu á hættusvæði C sem er hæsta hættustig skv. reglugerð nr. 636/2009 um hættumat vegna snjóflóða á skíðasvæðum. Er því óheimilt að hafa þessi mannvirki þar sem þau eru nú sbr. 12. gr. reglugerðarinnar. Í febrúar 2012 tók gildi deiliskipulag fyrir svæðið sem sem tók mið af breyttum kröfum. Þar var gert ráð fyrir nýju svæði ofar í fjallinu, neðsta lyftan verði færð og T-lyftan stytt um ca. 100 metra . Þá verði bílastæði, aðstöðuhús og barnasvæði staðsett á nýjum stað. Á grundvelli þessara nýju aðstæðna hefur Vegagerðin unnið undanfarin á að lagningu vegar að nýjum upphafsstað skíðasvæðisins.

Í öllum viðræðum fjárveitingavaldið hefur legið fyrir að kostnaður við flutning skíðasvæðisins einskorðast ekki við að leggja nýjan veg að svæðinu heldur einnig flutning á umræddum lyftum og skíðaskála og öðrum mannvirkjum en sá kostnaður er áætlaður um 70 -80 milljónir króna.

Til að ljúka vegagerð að nýju byrjunarsvæði, sem nú er áformað að verði haustið 2021, þarf að taka niður neðstu lyftuna og neðstu staura í T- lyftu. Þar með verður ekki unnt að nýta skíðasvæðið ef ekki verður jafnframt farið í aðrar þær framkvæmdir sem af þessu leiða.

Skíðasvæði á Siglufirði er talið með betri skíðasvæðum á landinu og með tilkomu Héðinsfjarðaganga og almennri uppbyggingu ferðamennsku á staðnum hefur fjöldi gesta þar aukist mikið. Rekstraraðili skíðasvæðisins upplýsti í bréfi til Leyningsáss ses., dags. 26. febrúar sl. að markaðsstarf félagsins hafi verið að skila sér síðustu 4-5 ár og að jafnt innlendum sem erlendum gestum hafi fjölgað en á síðasta ári hafi komið erlendir gestir frá 24 þjóðlöndum. Skíðasvæðið er nú opið alla daga vikunnar. Eðlilega hefur rekstur skíðasvæðisins mikla samfélagslega þýðingu fyrir byggðarlagið í heild.

Leyningsás ses hefur tvívegis leitað til Ofanflóðasjóðs þar sem farið er fram á að sjóðurinn og greiði kostnað vegna flutnings mannvirkja á nýtt byrjunarsvæði í síðara skiptið með bréfi dags. 23. júlí 2019 þar sem þessi sjónarmið eru rakin ítarlega en í niðurlagi bréfsins segir:

„Skíðaskálinn og þær lyftur, sem þarf að færa, fullnægðu öllum reglum þegar mannvirkin voru reist en árið 1988 var gefið út byggingarleyfi og byggðar undirstöður fyrir umræddar tvær lyftur. Tilgangur laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum nr. 49/1997 er samkvæmt 1. gr. laganna að vinna gegn tjóni og slysum vegna snjóflóða og skriðufalla. Veðurstofan hefur á grundvelli laganna kveðið á um að óheimilt sé að umrædd mannvirki verði áfram staðsett á núverandi stað og Vegagerðin vinnur nú að lagningu vegar að hinu nýja byrjunarsvæði.

Eigandi skíðasvæðisins og rekstraraðili þess eru eðlilega uggandi yfir stöðu mála og óttast mikið tjón verði ekki þegar í stað brugðist við. Í lögum nr. 49/1997 er gert ráð fyrir að beita eignarnámi eða greiða bætur vegna flutnings eigna/húseigna sem nauðsynlegt er að rýma eða flytja vegna hættu á ofanflóði eða skriðuföllum, sbr. 4. mgr. 11. gr. Eðlilegt er að sömu úrræðum verði beitt vegna annarra mannvirkja sem lögin taka til í því skyni að uppfylla áskilnað laga 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Þess er hér með farið á leit að Ofanflóðasjóður og eða ríkissjóður útvegi þegar í stað fjármagn til að ljúka þeim framkvæmdum á skíðasvæðinu sem þegar eru hafnar og nauðsynlega þarf að ljúka við vegna ákvæða laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum nr. 49/1997.“

Í svari Ofanflóðsjóðs er á það bent að kostnaður sem leiði af færslu skíðasvæðis falli ekki undir þá þætti sem tilgreindir séu í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 49/1997. Sé sú raunin er lagt til að skýrt verði kveðið á um í 13. gr. laga nr. 49/1997 að ofanflóðasjóði verði heimilað að greiða bætur vegna tjóns sem þessa.

Virðingarfyllst

Valtýr Sigurðsson form. stjórnar Leyningsáss ses.

Afrita slóð á umsögn

#2 Valtýr Sigurðsson - 30.09.2020

Athugasemdir vegna breytingartillögu þess efnis að Veðurstofan sinni ekki snjóflóðaeftirliti á skipulögðum skíðasvæðum heldur rekstraraðilar skíðasvæða.

Í drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, er lagt til að 3. mgr. 3. gr. laganna verði breytt. Ákvæði 3. mgr. 3. gr. er nú svohljóðandi:

„Veðurstofan skal ráða sérstaka eftirlitsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af ofanflóðum í þeim sveitarfélögum þar sem þörf er á slíkum athugunum samkvæmt ákvörðun ráðherra.“

Verði breytingartillagan að lögum verður ákvæði 3. mgr. 3. gr. svohljóðandi:

„Veðurstofan skal ráða sérstaka eftirlitsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af ofanflóðum í þéttbýli í þeim sveitarfélögum þar sem þörf er á slíkum athugunum að teknu tilliti til markmiðs laganna, eins og nánar skal kveðið á um í reglugerð. Eftirlit með hættu á ofanflóðum á skipulögðum skíðasvæðum er á ábyrgð rekstraraðila þeirra. Nánar skal kveðið á um eftirlitsskyldur rekstraraðila skipulagðra skíðasvæða í reglugerð.“

Með breytingatillögunni er lagt til að starfsmenn Veðurstofunnar sinni ekki eftirliti með skipulögðum skíðasvæðum heldur skuli skíðasvæðin sjálf sinna eftirlitinu. Það gengur þvert gegn markmiði laganna sem er að tryggja varnir gegn tjóni og slysum af völdum snjóflóða og skriðufalla og núgildandi ákvæðum laganna þar sem skýrt er tekið fram að Veðurstofan ráð sérstaka eftirlitsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af ofanflóðum og að laun þeirra skuli greidd úr ríkissjóði, sbr. 3. gr. gildandi laga.

Í athugasemdum við drög að frumvarpi til breytinga á lögum nr. 49/1997 eru færð fram þau rök fyrir breytingunni að markmið laganna sé einkum að vernda fólk fyrir ofanflóðum, fyrst og fremst á heimilum sínum. Þetta er að sjálfsögðu rangt enda er markmið núgildandi laga að vinna að vörnum gegn tjóni og slysum af völdum snjóflóða og skriðufalla. Verði frumvarpsdrögin að lögum verður hins vegar markmið laganna þrengt, þrátt fyrir að enn sé gert ráð fyrir því í lagatextanum að hættumat verði unnið fyrir skíðasvæði. Markmið laganna verður því þrengra en gildissvið þeirra.

Í athugasendum við ákvæðið er látið að því liggja að með því sé aðeins verið að „skerpa“ á ákvæðum núgildandi laga. Það er rangt því í breytingartillögunni er lögð til mikilvæg efnisbreyting. Í athugasemdunum eru ekki færð nein efnisleg rök fyrir því að rekstraraðilar skíðasvæða sinni eftirliti í stað Veðurstofu Íslands. Þvert á móti virðist helsta markmið breytinganna vera að skjóta lagastoð undir ákvæði reglugerðar þar sem eftirlitið er falið rekstraraðilum. Ef ákvæði reglugerðar er í ósamræmi við ákvæði laga þarf að breyta reglugerðinni, ekki lögunum.

Ekki verður séð að almannahagsmunir standi til þessara breytinga eða að með breytingunni sé öryggi almennings betur tryggt verði breytingin að lögum. Þvert á móti má færa rök gegn því að eftirlit með ofanflóðum á skíðasvæðum verði „einkavætt“, þ.e. fært í hendur rekstraraðila skíðasvæða sem hafa afkomu af því að skíðasvæði séu sem mest opin almenningi. Þá er fullkomlega óeðlilegt að rekstraraðilar skíðasvæða greiði Veðurstofunni fyrir það að eftirlit sé haft með ofanflóðum á skíðasvæðum. Fyrirhuguð lagabreyting er því í fullkomnu ósamræmi við markmið laganna, sem er að tryggja öryggi almennings gegn ofanflóðum á svæðum þar sem búast má við að fjöldi fólks komi saman í lengri eða skemmri tíma, þ.e. í þéttbýli eða á skipulögðum skíðasvæðum en skylda til hættumats samkvæmt lögunum nær til þessara svæða. Í raun má hvergi ráða af athugasemdunum hver rökin fyrir þessum breytingum eru.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9911/2018 var tekið á því álitaefni hvort lagastoð væri fyrir því að rekstraraðilar skíðasvæða bæri að greiða kostnað af snjóflóðaeftirliti á skíðasvæðum. Í álitinu áréttar umboðsmaður að markmið laga nr. 49/1997 sé að aftra því að manntjón hljótist af ofanflóðum, jafnt snjóflóðum sem skriðuföllum. Þau verkefni sem lögin hljóði um séu liður í eftirliti og vörnum vegna almannavarna. Undir rekstri málsins hjá umboðsmanni Alþingis hélt umhverfis- og auðlindaráðuneytið því fram að markmið laganna stæði til þess að Veðurstofan sinnti einungis eftirliti í þéttbýli en ekki á skíðasvæðum. Í áliti umboðsmanns segir eftirfarandi um þau rök:

„Í samræmi við það sem að framan er rakið er það álit mitt að þær skýringar sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur vísað til máli sínu til stuðnings, m.a. um markmið laga nr. 49/1997, styðji ekki að löggjafinn hafi gengið út frá því að gera átti greinarmun á eftirliti á hættusvæðum vegna ofanflóða eftir því hvort um sé að ræða íbúabyggð eða skipulagt skíðasvæði. Hér fyrr hefur þvert á móti verið bent á að löggjafinn hafi tekið afstöðu til þess við þinglega meðferð málsins að fella ætti skipulögð skíðasvæði undir sama eftirlit og á að fara fram í þéttbýli með þeim rökum að mikill fjöldi fólks safnist þar saman og mikilvægt sé að tryggja öryggi þeirra sem sækja slík skíðasvæði.“

Ljóst er að fyrirhuguðum breytingum er ætlað að bregðast við áliti umboðsmanns á þann veg að greinarmunur verði framvegis gerður á eftirliti eftir því hvort um sé að ræða íbúðabyggð eða skipulagt skíðasvæði, ekki vegna þess að það tryggi betur öryggi þeirra sem sækja slík skíðasvæði eða vegna þess að slíkur greinarmunum þjóni almannahagsmunum heldur vegna óljósra hagsmuna sem hvergi eru nefndir í frumvarpsdrögunum.

Að lokum skal bent á að snjóflóðaeftirlitsmenn Veðurstofunnar hafa sinnt eftirliti á skíðasvæðinu í Oddsskarði, Tindastóli, Ísafirði og Stafdal í Seyðisfirði án þess að rekstraraðilar þeirra svæði hafi þurft að greiða kostnað vegna eftirlitsins. Það er aðeins á skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði sem rekstraraðila hefur verið gert að greiða kostnað vegna eftirlitsmanns Veðurstofunnar en sá aðili leitaði álits umboðsmanns sem vísað hefur verið til. Skíðasvæðið í Bláfjöllum og á Akureyri hafa hins vegar ráðið starfsmenn til þess að sinna eftirlitshlutverkinu. Það er því rangt sem haldið er fram í athugasemdum við frumvarpið að rekstraraðila skíðasvæða hafi í áranna tíð sinnt ofanflóðaeftirliti.

Leyningsás ses, sjálfseignarstofnun í eigu Fjallabyggðar og Rauðku ehf., er eigandi mannvirkja á skíðasvæðinu í Skarðsdal. Undirritaður er formaður stofnunarinnar. Fyrirtækið Valló ehf. Siglufirði rekur svæðið á grundvelli leigusamnings við Leyningsás ses.

Valtýr Sigurðsson

Afrita slóð á umsögn

#3 Samband íslenskra sveitarfélaga - 02.10.2020

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Veðurstofa Íslands - 06.10.2020

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Ríkislögreglustjóri - 26.10.2020

Viðhengi