Samráð fyrirhugað 23.09.2020—07.10.2020
Til umsagnar 23.09.2020—07.10.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 07.10.2020
Niðurstöður birtar 13.01.2021

Frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 195/2020 Birt: 23.09.2020 Síðast uppfært: 13.01.2021
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál
  • Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Niðurstöður birtar

Niðustaða málsins í stuttu máli er sú að frumvarpið tók talsverðum breytingum eftir samráðið sem má finna í endanlegu frumvarpi. Þá var það mat ráðuneytisins að sú tilhögun á skiptingu fæðingarorlofsréttar milli foreldra sem lögð er til í frumvarpinu sé til þess fallin að koma til móts við þau ólíku sjónarmið sem fram koma í framangreindum umsögnum auk þess að vera í samræmi við markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof um að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 23.09.2020–07.10.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 13.01.2021.

Málsefni

Félagsmálaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að nýjum heildarlögum um fæðingar- og foreldraorlof ásamt skilabréfi samstarfshóps sem vann að heildarendurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.

Í tilefni þess að árið 2020 eru tuttugu ár liðin frá gildistöku laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof skipaði félags- og barnamálaráðherra samstarfshóp í september 2019 sem hafði það hlutverk að vinna að heildarendurskoðun laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldaorlof. Formaður samstarfshópsins var skipaður án tilnefningar og var hann jafnframt fulltrúi félags- og barnamálaráðherra í hópnum en auk hans áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun. Samkvæmt skipunarbréfi var hlutverk samstarfshópsins að endurskoða lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof í heild sinni og vinna að frumvarpi þess efnis. Jafnframt var gert ráð fyrir að í frumvarpinu yrði kveðið á um lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Er það í samræmi við stefnu stjórnvalda þess efnis að efla fæðingarorlofskerfið en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er meðal annars gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur. Hópurinn hefur nú lokið störfum og unnið að gerð frumvarps þar sem meðal annars hafa verið útfærðar þær efnislegu breytingar sem hópurinn leggur til að gerðar verði á lögunum. Í tillögum hópsins eru lagðar til ýmsar breytingar á gildandi lögum, bæði á formi og efni og því leggur hópurinn til að lagt verði fram frumvarp til nýrra heildarlaga.

Í frumvarpinu eru helstu breytingarnar sem lagðar eru til á gildandi lögum eftirfarandi:

Skýrsla um stöðu Fæðingarorlofssjóðs og nýtingu réttinda innan kerfisins.Lagt er til að Vinnumálastofnun verði skylt að gefa árlega út skýrslu um stöðu Fæðingarorlofssjóðs og hvernig nýtingu réttinda foreldra innan kerfisins er háttað.

Skipting fæðingarorlofs/fæðingstyrks á milli foreldra. Lagt er til að skipting fæðingarorlofsréttar verði sem jöfnust á milli foreldra þannig að foreldrar geti nýtt sex mánuði hvort um sig en þó verði heimilt að framselja einn mánuð á milli foreldra sé þess óskað í því skyni að koma til móts við aðstæður fjölskyldna.

Heildarlengd tímabils til nýtingar á rétti foreldra til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks. Lagt er til að stytt verði það tímabil sem foreldrar hafa til þess að nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs/fæðingarstyrks. Samkvæmt gildandi lögum er þetta tímabil 24 mánuðir en lagt er til að það verði stytt í 18 mánuði. Er það meðal annars lagt til með það að markmiði að foreldrar nýti orlofið fyrstu mánuðina í lífi barns þegar það þarf á mikilli umönnun foreldra að halda. Þá er lagt er uppi með það að foreldrar nýti rétt sinn til fæðingarorlofs á því tímabili frá því að barn fæðist og þangað til því býðst dagvistun. Fram til ársins 2009 höfðu foreldrar 18 mánuði til þess að nýta rétt sinn til orlofs en árið 2009 var þessi tími lengdur í 36 mánuði. Með lagabreytingum árið 2012 var þetta tímabil stytt í 24 mánuði en í frumvarpinu er lagt til að hann verði færður aftur til fyrra horfs.

Yfirfærsla fæðingarorlofs/fæðingarstyrks milli foreldra í tengslum við barnalög og barnaverndarlög. Lagt er til að frekari heimildir til yfirfærslu réttinda til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks milli foreldra þegar annað foreldrið getur ekki af nánar tilgreindum ástæðum nýtt rétt sinn innan kerfisins. Er í fyrsta lagi um að ræða þegar ekki hefur reynst mögulegt að feðra barn samkvæmt barnalögum fyrir sýslumanni eða dómara. Þessari tillögu er meðal annars ætlað að koma til móts við aðstæður foreldra þegar sannarlega einungis eitt foreldri er til staðar. Í öðru lagi er um að ræða þau tilvik þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili samkvæmt lögum um nálgunarbann og/eða brottvísun. Lagt er til að í framangreindum tilvikum færist réttur til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks til hins foreldrisins á fyrstu 18 mánuðum barnsins. Er hér um að ræða sambærileg sjónarmið og eru í gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof hvað varðar fangelsisvist, sjúkdóma eða afleiðingar slyss.

Réttur til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks vegna andvanafæðingar eða fósturláts. Í gildandi lögum er sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig til fæðingarorlofs/fæðingastyrks þrír mánuðir vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu en ef um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sameiginlegan rétt í tvo mánuði. Lagt er til að í staðinn fyrir sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs/fæðingastyrks eftir fósturlát verði um sjálfstæðan rétt hvors foreldris um sig að ræða.

Tilkynning til atvinnurekanda um töku fæðingarorlofs. Samkvæmt gildandi lögum ber foreldrum að láta vinnuveitanda vita hafi þeir í hyggju að nýta sér rétt til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks með að lágmarki átta vikna fyrirvari fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Hins vegar er ekki er kveðið á um tímafresti og framkvæmd ef starfsmaður tilkynnir fyrst um töku fæðingarorlofs eftir að barn er fætt. Lagt er til að tilkynning til vinnuveitanda skuli einnig berast með átta vikna fyrirvara ef fyrsta tilkynning um töku fæðingarorlofs kemur eftir að barn er fætt. Í þeim tilvikum geti vinnuveitandi þó frestað töku fæðingarorlofsins um nokkrar vikur ef nauðsyn ber til en þó er gert ráð fyrir tilteknum undantekningum frá því, svo sem ef foreldri hyggst nýta sér rétt sinn í kjölfar veikinda barns.

Tölulegar upplýsingar um nýtingu foreldraorlofs. Lagt er til að afrit af tilkynningum til vinnuveitenda um nýtingu á rétti til foreldaorlofs verði skilað til Vinnumálastofnunar svo unnt verði að fá tölulegar upplýsingar um nýtingu foreldra á þeim rétti en engar slíkar upplýsingar eru til í dag.

Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir tilteknum breytingum á gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof meðal annars með það að markmiði að koma til móts við álit Umboðsmanns Alþingis, sem gert hefur ýmsar athugasemdir við lögin á undanförnum árum. Þá hafa verið lagðar til orðalagsbreytingar, ásamt breytingum á uppsetningu laganna með það að markmiði að auka á skýrleika laganna.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Eyjólfur Eyfells - 24.09.2020

Sem tveggja barna faðir tel ég það æskilegast að setja ákvörðun í hendur foreldra varðandi skiptingu fæðingarorlofs. Með því að halda ennþá þrem mánuðum til skiptanna gæti því móðir barns haft það heima og á brjósti í a.m.k. fyrstu níu mánuði barnsins sem er einnig mikilvægasti tíminn fyrir móðurmjólkina. Einnig tel ég rétt að halda tveimur árum áfram sem tímabili til rétt á fæðingarorlofs. Aðstæður fólks geta verið mismunandi og því rétt að setja þá ákvörðun einnig í hendur foreldranna. Með öðrum orðum, hafa þetta sem sveigjanlegast og opnast, þannig foreldrarnir sjálfir geti ákveðið sín á milli hvernig sé best að haga sínum málum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Heiðdís Geirsdóttir - 24.09.2020

Samkvæmt grein (https://kjarninn.is/skyring/2017-04-05-enn-faerri-fedur-taka-faedingarorlof/) sem skirfuð var af blaðamanni Stundarinnar árið 2017 þá tóku feður að meðaltali 75 daga í fæðingarorlof árið 2016 og aðeins 11% feðra tóku fæðingarorlof í meira en þrjá mánuði. Þegar sú grein var rituð þá voru 90 dagar eða þrír mánuðir fyrir hvort foreldri og þrír mánuðir sem mátti skipta eftir því sem hentaði hverri fjölskyldu. Einnig var hámarksupphæð greiðslna mun lægri en í dag. En það eru ekki aðeins tekjur sem hafa áhrif á töku fæðingarorlofs, aðrir þættir eins og atvinnustaða, tegund starfs, ábyrgð í starfi, fjöldi barna, brjóstagjöf og svo ótal margt fleira getur haft raunveruleg áhirf á ákvarðanir um töku fæðingarorlofs. Það er deginum ljósara að stór hluti feðra er ekki að nýta sinn orlofsrétt til fulls, þó nýjustu tölur sem hafa komið fram í fjölmiðlum séu síðan 2016. Það er barninu fyrir bestu að orlofsréttur beggja foreldra sé nýttur til fulls, það er barninu fyrir bestu að báðir foreldrar taki fæðingarorlof sem hentar þeirra fjölskyldu, atvinnu og aðstæðum. Það að setja foreldrum svo fastar skorður um töku fæðingarorlofs get ég ekki séð að skili neinu öðru en lengingu orlofs kvenna, sem þýðir að konur munu fá ennþá lægri mánaðarlegar tekjur í fæðingarorlofi og feður muni ekki fullnýta rétt sinn þó einn mánuður verði framseldur til móður, þar sem þeir eru margir ekki að ljúka sínum þriggja mánaða rétti. Halda þarf þessum þremur mánuðum fyrir hvort foreldri og hvetja feður til töku fæðingarorlofs á sama tíma. Foreldrar eiga að fá að ráða hversu lengi hvort foreldri tekur fæðingarorlof, að minnsta kosti helming orlofstímans eða í sex mánuði. Ég hvet alla foreldra, verðandi foreldra, fólk sem hefur hugsað sér að verða foreldrar og aðstandendur til að skrifa umsögn við þetta frumvarp þar sem stórkostlega er verið að skreða frelsi foreldra til að haga sínu fjölskyldulífi eins og þeim best hentar.

Afrita slóð á umsögn

#3 Björg Árdís Kristjánsdóttir - 24.09.2020

Góðan dag

Það er frábært að lengja fæðingarorlof feðra í 6 mánuði en samkvæmt ráðleggingum landlæknisembættisins á barn að vera á brjósti til 12 mánaða aldurs, að pumpa sig er heljarinnar vesen og bras og tekur tíma. Svo hvernig á að koma til móts við mæður með það? Fá þær auka styrk til að kaupa brjostapumpu, því þær eru fok dýrar.

Að stytta tímann í 18 mánuði finnst mér mjög knappur tími til að taka orlofið, eins fer það eftir hvenær árs barnið er fætt hvenær hentar best að taka orlof þar sem margar vinnur hafa álags punkta á ákveðnum tímum en svo er auðveldara að vera í orlofi á öðrum tímum.

Eins eru margir leikskólar t.d í Vesturbænum þar sem við búum sem taka aðeins við börnum frá 24 mánaða, þó að það sé gefið út að þau taki frá 18 mánaða þá hefur ekki verið pláss og mannskapur til að taka við börnum á þessum aldri.

Mér finnst vanta meiri sveigjanleika í þessa tillögu, ég hefði vilja sjá 3 mánuði á hvort foreldri og 6 mánuði á milli, við eru öll mismunandi og eigum mismunandi líf - það hentar t.d manninum mínum ekki að taka mikið fæðingarorlof fyrsta árið hjá yngra barninu okkar þar sem hann var ný byrjaðir í vinnu þegar ég varð ólétt á meðan ég er atvinnulaus og hefði því vel þegið þessa mánuði. Á öðrum heimilum hentar það mömmunni að fara aftur í vinnu eftir 4 mánuði og makinn verður heima þangað til barnið fer á leikskóla.

Kveðja

Tveggja barna móðir úr Vesturbænum

Afrita slóð á umsögn

#4 Svala Jónsdóttir - 24.09.2020

Ég tel að stytting sameiginlegra mánaða niður í einn mánuð sé afturför sem bitnar m.a. á börnum einstæðra mæðra. Nú er það einfaldlega svo að hluti foreldra, sérstaklega feðra, ýmist getur ekki eða vill ekki taka langt fæðingarorlof, og jafnvel ekkert orlof. Þá fá þau börn mun styttri tíma með foreldrum sínum heima en önnur börn, sem skapar misrétti og gefur börnum misgóða byrjun í lífinu. Það verður að finna jafnvægi á milli jafnréttissjónarmiða og sjónarmiða um réttindi og heilbrigði barnsins. Ef skipting 12 mánaða fæðingarorlofs væri t.d. 4-4-4, þar sem hvort foreldri ætti 4 mánuði og svo mætti deila fjórum mánuðum, myndi það tryggja jafnréttissjónarmið og einnig tryggja öllum börnum að minnsta kosti átta mánuði heima. Stytting nýtingartímans niður í 18 mánuði er líka skref aftur á bak. Því fer mjög fjarri að öll börn komist inn á leikskóla 18 mánaða. Mörg börn komast ekki inn á leikskóla fyrr en tveggja ára eða rúmlega tveggja ára. Fjölskyldur þurfa að púsla saman tímanum fram að því, og þeim á að vera treystandi til að ákveðna hvenær best er fyrir þau að taka sitt orlof. Foreldrar ættu að mega taka fæðingarorlof á fyrstu tveimur æviárum barnsins og jafnvel lengur.

Afrita slóð á umsögn

#5 Þorgeir Auðunn Karlsson - 25.09.2020

Þessi tillaga er því miður mikil afturför í réttindum barna og foreldra þeirra.

Ísland ætti að feta í fótspor Svíðþjóðar þegar kemur að fæðingarorlofi. Svíðþjóð býður hvoru foreldri 3 mánuði og að deila 10 mánðum á milli sín ( https://sweden.se/quickfact/parental-leave/ ). Ransóknir hafa gefið til kynna að þessi sveigjanleiki hafi jákvæði áhrif á þáttöku beggja kynja

( https://link.springer.com/article/10.1007/s11113-020-09574-y ).

Eins og staðan er hjá mörgum fjölskyldum er annað foreldrið tekjuhærra en hitt. Það getur orðið mikil skerðing á innkomu við fæðingarorlof og því hentar ekki öllum fjárhagslega að báðir foreldrar fullnýti orlofstímann sinn. Ef foreldrar geta ekki hliðrað tímanum sjálfir til og frá eftir þeirra hentusemi s.s. vegna brjóstagjafar, launaskerðingar og/eða annara aðstæðna þá er verið að skerða á réttindi barnanna.

Til að hafa hagsmuni barnins í leiðarljósi er besta að foreldri sé með því fram að leikskólagögnu. Því miður þá er mikil bið eftir leikskólaplássi, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu ( https://www.frettabladid.is/frettir/bidin-eftir-plassi-leikskola-mun-lengri-i-hofudborginni/ ). Sem dæmi sé ég ekki fram á að dóttir mín komist inn á leikskóla fyrr en um 20-23 mánaða. Þessi tillaga að stytta tímablilið niður í 18 mánuði kemur sér afar illa á meðan ástandið er svona.

Afrita slóð á umsögn

#6 Eydís Inga Sigurjónsdóttir - 25.09.2020

Eins frábær og mér finnst lenging fæðingarorlofs vera finnst mér skrítið að eftir allan þennan tíma sé ekki enn litið til mikilvægi brjóstagjafar og tengslamyndunar sem á sér stað á þessum mánuðum þegar teknar eru ákvarðanir sem snúa að fæðingarorlofsmálum. Samkvæmt leiðbeiningum WHO eiga börn að vera á brjósti í 24 mánuði. Það þarf að skoða manneldismarkmið þegar teknar eru svona ákvarðanir. Að mínu mati ætti að halda áfram að hafa 3 mánuði fasta á hvort foreldri fyrir sig og leyfa síðan foreldrum að ráða hvernig afgangurinn skiptist. Sem 2 barna móðir fannst mér afskaplega gott að hafa manninn minn heima fyrstu 3 mánuðina og hefði ekki getað verið án hans. Gott fyrir hann að fá tima til að tengjast börnunum og vera partur af öllu. En það var mjög íþyngjandi að hugsa til þess að hafa ekki nóg tíma með barninu sem móðir til þess að sinna brjóstagjöf og hvað þá stressið sem fylgdi því að finna daggæslu, sem gekk það illa að við þurftum að kollvarpa heimilislífinu svo þetta gengi upp. Það er heldur ekki gott fyrir heimilið að fólk fari á hausinn fjárhagslega við að nýta sér fæðingarorlof. Mér finnst að ríkið ætti að miða svona hluti útfrá þörfum barna samfélagsins en ekki útfrá atvinnu foreldra. Meiri tími með foreldrum skapar heilsteyptari einstaklinga sem skilsr sér margfalt inni samfélagið aftur. Þá mætti einnig skoða hvernig nágrannalöndin hafa hagað þessu en Ísland hefur yfirleitt verið langt á eftir hvað varðar tímalengd orlofs og upphæð

Afrita slóð á umsögn

#7 Sigurlaug Jónína Ólöf Þorsteinsdóttir - 25.09.2020

Sem tveggja barna móðir út á landi tel ég það mikilvægt að setja ákvörðun í hendur foreldra varðandi það hvernig hátta eigi skiptingu þeirra fæðingarorlofs. Aðstæður fólks eru mismunandi og ef að foreldrar (oftast mæður) þurfa að fara skipta sínum mánuðum á lengra tímabil skapast tekjuskerðing sem getur komið mörgum heimilum mjög illa. Mikilvægt er einnig að halda í það að hafa 3 mánuði til skiptanna uppá möguleikann á að hafa barnið á brjósti fyrstu 9 mánuðina! Þar sem ég bý er leikskólapláss af mjög skornum skammti og ekki víst að þú komir barni þínu inn fyrr en um eða eftir 2 ára aldur. Með þvi að halda inni 24 mánuðum í að geta tekið fæðingarorlofið skapar þvi meiri og betri sveigjanleika og þægindi fyrir foreldra til að ákveða sjálf hvernig best er að haga eigin orlofi.

Afrita slóð á umsögn

#8 Hrönn Þorgrímsdóttir - 25.09.2020

Mér finnst frábært að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Hinsvegar ættu foreldrar að fá allan þann sveigjanleika til þess að deila þessum mánuðum á milli sín. Aðstæður eru mjög mismunandi milli fólks og að eignast barn er mikil breyting. Tel ég það vera streituvaldandi að setja svo miklar skorður á skiptinguna í sambandi við brjóstagjöf, tengingu barns, fjármál og fleira.

Einnig finnst mér vera afturför í að fækka mánuðum niður í 18 við töku fæðingarorlofs með tilliti til pláss á leikskóla.

Afrita slóð á umsögn

#9 Svanhvít Lilja Viðarsdóttir - 25.09.2020

Ég tel að til að þessi lenging nýtist foreldrum sem best verði fleiri mánuðir að vera sameiginlegir. Sem sagt að móðir eða faðir geti tekið fleiri en 6 mánuði óskerta (og fleiri en 6 mánuði plús einn) sé þess óskað. Ég skil jafnréttissjónarhornið en það er pínu verið að þvinga fólk í meiri tekjuskerðingu en kannski þarf. Að því gefnu að feður eru oftar tekjuhærri og að mæður þurfi að dreifa 6 mánuðum yfir lengra tímabil til að geta verið heima lengur ef þær vilja (eða öfugt þar sem það á við). Mæður eru oft fastari með börnunum heima vegna brjóstagjafar og þetta gæti neytt þær til að dreifa 6 mánuðum og þar með meiri tekjuskerðing á mánuði.

Ég tel líka að á meðan ekki er hægt að tryggja öllum börnum leikskólapláss við 12/18 mánaða verði tíminn sem má taka orlofið á að haldast í 24 mánuðum. Að stytta það í 18 mánuði býr til bil á milli orlofs og leikskólagöngu.

Afrita slóð á umsögn

#10 Marta Sif Ólafsdóttir - 25.09.2020

Mér finnst frábært og bráðnauðsynlegt að það eigi að lengja fæðingarorlofið upp í 12 mánuði. Ég er aftur á móti ekki sammála þessari uppástungu á skiptingu fæðingarorlofsins og í hversu langan tíma má nýta orlofið. Samkvæmt landslækni er mælt til þess að börn séu eingöngu á brjósti til 6 mánaða og séu svo á brjósti ásamt mat til a.m.k. eins árs aldurs. Þetta stangast heldur betur á við fæðingarorlofið. Það gefur augaleið að mæður munu halda áfram að dreifa sínum mánuðum á ár með tilheyrandi tekjutapi og þá er þetta jafnréttismarkmið farið fyrir bý.

Afrita slóð á umsögn

#11 Sigríður Rakel Ólafsdóttir - 25.09.2020

Frábært að það sé verið að lengja orlof en að ákveða fyrir hönd foreldra hvernig orlof skiptist er ekki rétta leiðin. Þó svo að það sé verið að reyna gæta jafnræðis og hvetja feður til að taka þátt í orlofi jafnt og mæður þá eru ekki öll heimili sem ráða við að annað foreldri sé jafn lengi í orlofi og hitt t.a.m. vegna tekjumisræmis eða ólíkra atvinnuhátta. Fólk sem rekur eigið fyrirtæki á til dæmis mun erfiðara með að fara frá í lengri tíma og finnst mér mikil forræðishyggja fólgin í því að leyfa foreldrum ekki að stýra skiptingunni sjálfir. Ég tel nauðsynlegt að endurskoða þessa skiptingu og auka fjölda mánaða sem eru sameiginlegir.

Afrita slóð á umsögn

#12 Þorbjörg Matthíasdóttir - 25.09.2020

Það er mikilvægt mál fyrir fjölskyldur að fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði. Hins vegar set ég spurningamerki við suma þætti frumvarpsins. Að mínu mati finnst mér 18 mánuði heldur knappur tími til þess að nýta fæðingarorlofið, sérstaklega í ljósi þess að í sumum sveitarfélögum eru börn ekki að komast inn á leikskóla fyrr en um tveggja ára aldurinn.

Það væri eðlilegt að líta til nágrannalanda okkar og hvernig fæðingarorlofinu er háttað þar. Í Danmörku er til að mynda 4 vikna orlof fyrir fæðingu barns sem að mínu mati er mjög ábótavant hér á Íslandi þar sem konur eru oft að vinna fram á síðasta dag. Eftir að barnið er fætt eiga mæður 14 vikna orlof sem er eyrnamerkt þeim, hitt foreldrið á tvær viku sem eru eyrnamerktar þeim en auk þess eiga foreldrarnir sameiginlegar 32 vikur þar sem foreldrar geta deilt sín á milli.

Það er forræðishyggja að ætla að skikka 6 mánuði á hvort foreldri og hafa einingis einn mánuð í svigrúm til að deila á milli. Sumum hentar betur að annað hvort foreldrið taki lengra eða styttra orlof og finnst mér að eigi að treysta fjölskyldum til þess að ákveða það. Auðvitað er mikilvægt að feður eyði tíma með börnum sínum en þá mætti sameiginlegi tíminn sem hægt er að deila á milli foreldra vera í meirihluta en eyrnamerkti hlutinn í minnihluta. Mörg börn eru á brjósti mun lengur en sex mánuði og það skapar ýmis vandamál í sambandi við brjóstagjöf þegar konur þurfa að fara fyrr til vinnu aftur. Ég held að fjölskyldum sé alveg treystandi til þess að ráðstafa orlofinu eins og þeim hentar til þess að það komi sér sem best fyrir barnið og foreldrana.

Afrita slóð á umsögn

#13 Hrafnhildur Sigurðardóttir - 25.09.2020

Að lengja fæðingarorlofið er frábært. Betra væri ef foreldrar hefðu meira svigrúm til að skipta réttinum á milli sín. Ég var með mitt barn á brjósti fyrsta árið og þurfti að vera heima þann tíma þar sem barnið tók ekki pela. Það væri því frábært ef réttur til að taka fæðingarorlof yrði óbreyttur í 24 mánuðum, því í okkar tilfelli hófst fæðingarorlof föðurs eftir 1 árs aldur vegna brjóstagjafar og gott væri að halda svigrúminu ef fólk þarf að dreifa sínum fæðingarorlofsrétti á lengri tíma.

Afrita slóð á umsögn

#14 Sigríður Brynja Jensdóttir - 25.09.2020

Það skref að lengja orlofið í 12 mánuði finnst mér frábært, hinsvegar tel ég það að hafa eingöngu einn mánuð sameiginlegan ekki bjóða fjölskyldum upp á að aðlaga orlofið að sínum þörfum.

Til dæmis þá eru mæður oft enn með börnin sín á brjósti lengur en í 7 mánuði, það felst mikil vinna í því að pumpa á vinnutíma sem skilar sér oft í lengri vinnudegi og þar af leiðandi auknu álagi á foreldra.

Launamál foreldra eru einnig afskaplega mismunandi, ef annað foreldri, eða jafnvel bæði, uppfyllir aðeins rétt til að fá fæðingarstyrk þá hefur sú fjölskylda ekki jafn mikið frelsi fyrir orlof.

Mér finnst mikilvægt að treysta foreldrum fyrir því frelsi að ákveða þessi mál sín á milli.

Afrita slóð á umsögn

#15 Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir - 25.09.2020

Ég tel að lenging orlofs til 12 mánaða vera breyting til góðs og fagna henni. Hinsvegar eru margir vankantar á frumvarpi þessu sem ég tel vera afturför. Raunverulegur tilgangur þessa breytinga er jafnræði í töku orlofs á milli foreldra, gott og gilt. En í ljósi þess að aðalástæða þess að feður nýti yfirleitt lítinn hluta af sínu orlofi er tekjutap, þá tel ég það vera nauðsynlegt fyrsta skref að afnema 80% tengingu launa upp að núverandi tekjuþaki (600 þús) og hækka fæðingarstyrki upp að lágmarkstekjuþakinu (317 þús). Peningar stýra að langstærstu leyti hvernig foreldrar haga orlofi, sem er sorgleg staðreynd vegna þess að barnið á þennan rétt. Það er réttur barnsins að hafa hjá sér viðeigandi ummönnunaraðila, foreldri eða foreldra sem er með 100% fókus á það en ekki svitna yfir skertum launum. Að sama skapi tel ég það vera afturför að draga úr sameiginlegum tíma - hvernig væri að búa til t.d. 2 ára tilraun á því að skipta 4-4-4 (jafn réttur) eða jafnvel 2-2-8 (mikill sameiginlegur réttur) auk tillaganna hér að ofan og safna saman tölulegum upplýsingum á því hvernig skiptingin fer fram? Það er mín tilfinning að stór hluti feðra vilji taka sér meira orlof en þeir gera, en fjölskyldan hafi ekki efni á tekjumissinum.

Afrita slóð á umsögn

#16 Kamilla Rún Björnsdóttir - 25.09.2020

Ég vil byrja á að segja að ég fagna því mjög að fyrirhuguð sé lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði.

Mér þykir þó mjög miður að lesa yfir þeir tillögur að breytingum sem fram koma í frumvarpinu um tilhögun orlofs í þessa 12 mánuði.

Í fyrsta lagi, varðandi jafna skiptingu orlofs milli foreldra, 6 mánuðir á hvort foreldri. Að sjálfsögðu eiga foreldrar að hafa val um hvernig haga eiga fæðingarorlofi og ekki er hægt að ætlast til þess að heimilisaðstæður allra bjóði upp á jafna skiptingu. Á flestum heimilum er annað foreldrið tekjuhærra en hitt. Þetta er jú allt spurning um peninga og fæstum heimilum hentar mikil tekjuskerðing. En það er líkleg útkoma þegar annað foreldrið þarf að deila sínum 6 mánuðum niður á 10 eða 12, jafnvel fleiri. 1 mánuður til eða frá breytir litlu í stóra samhenginu.

Heilbrigðiskerfið okkar mælir með eingöngu brjóstagjöf fyrstu 6 mánuði frá fæðingu barns og hvetur mæður til að hafa börnin lengur en það á brjósti á meðan börn venjast því að innbyrða fasta fæðu. Ef mæður eiga eingöngu 6 mánaða rétt til fæðingarorlofs og geta með engu móti framlengt það, tekjanna vegna, ætlar þá ríkið að koma til móts við mjólkandi mæður með brjóstapumpum? Slíkum spurningum veltir maður fyrir sér.

Í öðru lagi, varðandi það að stytta tíma til töku orlofs úr 24 mánuðum niður í 18. Eins og fram hefur komið í mörgum öðrum umsögnum, eru fæstir leikskólar að ná að taka inn börn á þessum aldri. Eins er þá verið að einhverju leyti að mismuna börnum eftir því hvenær á árinu þau eru fædd, því flestir leikskólar taka eingöngu inn börn á haustin, og sum börn gætu þá jafnvel lent í allt að 6-12 mánaða gati, þar sem enga dagvistun er að fá og réttur foreldra til töku orlofs er útrunninn. Eins og fram kemur í frumvarpinu var orlofstökutíminn 18 mánuðir árið 2009 og þá lengdur í 36 mánuði. Einhver rík ástæða hlýtur að hafa legið þar að baki og ég tel það gríðarlega afturför að stytta þennan tíma aftur. Höldum milliveginum, 24 mánuðir.

Í þriðja lagi, ég er mjög sammála varðandi tilfærslu réttinda um töku orlofs til foreldris þar sem hitt getur ekki verið til staðar, er ekki til staðar eða jafnvel var það aldrei frá upphafi.

Mér finndist hin fullkomna tillaga líta svona út: Hvort foreldri eigi 1 mánuð í fæðingarorlof sem er eyrnamerktur. Hina 10 mánuðina má fólk nýta eins og því hentar. Tími til að taka orlof er áfram 24 mánuðir.

Árið er 2020, við búum í lýðræðisríki. Það getur enginn sagt hvað hentar best nema fólk sjálft og því á hver og einn að fá að ráðstafa sínum réttindum eins og hann vill.

Ég vona af öllu hjarta að þetta frumvarp eins og það hefur verið birt nú, taki drastískum breytingum áður en það verður að lögum um töku fæðingarorlofs.

Mbk.

Afrita slóð á umsögn

#17 Hugrún Björnsdóttir - 25.09.2020

Það er lofsvert framfaraskref að lengja eigi fæðingarorlofið. Hinsvegar verður að taka með í reikninginn að heilbrigðisyfirvöld mæla með að börn séu eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuði ævinnar og fái áfram móðurmjólk út fyrsta aldursárið ef hægt er að koma því við. (WHO mælir með brjóstagjöf fyrstu tvö æviár barns). Foreldrar þurfa sveigjanlegt kerfi til að gera þeim kleift að halda brjóstagjöf áfram eins lengi og þeir kjósa og til að mynda tengsl við barnið. Því er mikilvægt að fjölga þeim mánuðum sem foreldrar mega nýta eins og þeim hentar. Hægt væri að fara aðrar leiðir til að hvetja feður til að taka lengra fæðingarorlof. Sem dæmi væri hægt að hækka mánaðarlegar greiðslur þannig að þær séu hærri en bara 80% af meðaltali heildarlauna eða hækka hámarksgreiðslurnar. Sú leið sem boðuð er í þessu frumvarpi mun hvorki koma sér vel fyrir feður né mæður.

Afrita slóð á umsögn

#18 Helga Dís Svavarsdóttir - 25.09.2020

Aðstæður eru mismunandi hjá fólki og er það ekki hlutverk ríkisstjórnar að mæla fyrir um hvernig foreldrar eiga að skipta eða hátta fæðingarorlofinu. Konur undirgangast miklar líkamlegar og andlegar breytingar við fæðingu barns.

World Health Organization (WHO) mælir sterklega með því að börn séu á brjósti allt fyrsta árið. Hvernig er hægt að ætlast til þess að kona sem er með ungabarn á brjósti sé skipuð aftur til starfa aðeins nokkra mánuði eftir fæðingu? Er ekki skynsamlegt að huga að því hvað er best fyrir barnið og foreldrana frekar en hvað er best fyrir vinnuveitendur? Auðvitað eiga feður að eiga rétt á fæðingarorlofi en þeir ganga ekki í gegnum meðgöngu og fæðingu eins og konur gera. Það á ekki að vera jafn STUTT orlof á báða foreldra. Frekar ættu mæður að fá eitt ár í fæðingarorlof eins og tíðkast t.d. í Kanada og feður fái líka eitt ár til að brúa bilið í leikskóla. Flest börn komast ekki í leikskóla fyrr en þau eru orðin tveggja ára eða aðeins eldri. Það er óraunhæft að ætlast til þess að orlof sé tekið fyrir 18 mánaða þegar leikskólar eru ekki í boði á þessum aldri. Ég ætlast til þess að ríkisstjórnin komi til móts við foreldra og barna með því að hafa raunhæft fæðingarorlof í boði. Flestar fjölskyldur eignast bara 2-3 börn. Fjarvera vegna barnaeignir er mjög lítil miðað við þá fjölda ára sem almennur starfsmaður er á vinnumarkaði. Flestir vinna frá ungum aldri og upp í 67-70 ára. Þessi tími sem foreldrar og börn fá með hvor öðru er dýrmætur og kemur aldrei aftur. Hafið það í huga þegar verið er að búa til frumvarp um breytingar á fæðingarorlofi.

Afrita slóð á umsögn

#19 Erna Guðrún Stefánsdóttir - 25.09.2020

Það er því miður enn þá þannig víða á atvinnumarkaðnum að karlmenn eru í hærra launaðra starfi en konan. Svo það að “skikka” hærra launaða foreldrið í langt orlof er veruleg tekjuskerðing fyrir heimilið því þakið er ennþá 600.000kr, það væri því betra að skoða það að hækka þakið frekar þegar litið er til jafnréttis sjónarmiða. Feður taka minna orlof því það er hreinlega dýrara fyrir heimilið og fólk hefur ekki endilega tök á því. Hærra launað fólk er yfirleitt með hærri afborganir svo það er ekki hægt að ætlast til að fólk geti lifað á mjög skertum tekjum mörg mánaðamót í röð.

Auk þess er alltaf vonast til þess að barn sé á brjósti fyrstu mánuði ævi sinnar, feður geta líffræðilega ekki uppfyllt þá þörf barnsins nema með pelagjöfum að því gefnu að móðir mjólki sig, en vinni móðir fullan vinnudag snemma í brjóstamjólkurferli er hætt við að framleiðslan verði aldrei eins mikil og þörf er í raun á. Móðir þarf því helst að vera í orlofi fyrstu mánuði barnsins. Svo getur faðir tekið við, EF það er ekki of mikil skerðing fyrir heimilið að foreldrar neyðast til að nýta ekki allan rétt sinn og fara aftur að afla almennilegra tekna fyrir heimilið.

Þar kemur inn líka sú óvissa með daggæslu fyrir barnið. dagmömmupláss eru mjög ábótavant og flest börn komast ekki inn á leikskóla fyrr en um 2 ára aldurinn eða rúmlega það.

Það eru vissulega mörg atriði sem þarf að skoða í þessu ferli en ákvörðun um skiptinguna ætti algjörlega að fá að vera hjá viðkomandi fjölskyldu frekar en ríkinu því fjölskyldumynstur og hagir fólks eru svo mismunandi að það er ekki hægt að setja alla í sama kassann.

Afrita slóð á umsögn

#20 Jónína Sif Eyþórsdóttir - 25.09.2020

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með brjóstagjöf fyrstu 24 mánuðina í lífi barns. Þessi löggjöf tryggir að móðir getur verið heima án töluverðar tekjuskerðingar í 7 mánuði, eða mánuði lengur en núverandi lög hveða á um, er ekki kominn tími á að bjóða betur en það?

Ef við skoðum hversu lengi mæður kjósa að vera í fæðingarorlofi er ljóst að flestar taka 9-12 mánuði þrátt fyrir tekjutapið sem af því hlýst, því mikilvægi þess að vera heima með nýfæddu barni sínu fyrsta árið er ofar flestu öðru. Eðlilegast væri að forldrar gætu ráðstafað fæðingarorlofinu eftir sínum þörfum, helst þannig að barnið gæti verið með foreldrum sínum óslitið þar til að það kemst inn á leikskóla, án þess af því hljótist veruleg tekjuskerðing.

Einnig er kominn tími á að tryggja móður orlof síðasta mánuð meðgöngu, líkt og tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Ég fagna því að við séum að taka skref framm á við með því að bjóða 12 mánaða fæðingarorlof, en það missir eilítið marks með því að skipting sé bundin við 5-5-2. Leyfum foreldrum að ráða þessu eða aukum sameiginlegu mánuðina, t.d í 4-4-4.

Einnig er það gífurleg afturför að ætla að stytta tímabil til töku fæðingarorlofs niður í 18 mánuði í ljósi þess að börn komast oft ekki inn á leikskóla fyrr en tveggja ára gömul.

Afrita slóð á umsögn

#21 Rebekka Líf Karlsdóttir - 25.09.2020

Það ætti að vera val foreldranna hvernig færðingarorlofinu verði skipt, ekki nefndar.

Hver nefndina til þess að skoða hvernig fæðingarorlofið er sett upp í svíþjóð, hafandi sjálf reynslu af því.

,,Hvert barn,, fær t.d. 420 daga í fæðingarorlof. Foreldrar skrá sig inn á síðu orlofskerfisins og geta þar opnað dagatal og séð alla daganna sem barnið á. Þeir deila þeim svo sín á milli eftir því sem hentar að undanskildum 90 dögum á hvort foreldri (ódeilanlegir). Restini af dögunum máttu skipta niður og geta foreldrarnir þá valið hvort þeir lengi orlofið sitt (í samráði við atvinnurekanda) og taki aðeins 50, 75, 25 % orlof og unnið á móti eða verið í 100% orlofi í x ákveðinn tíma.

Það er misjafnt hvað hentar hverri fjölskyldu fyrir sig og því væri réttast að þeir aðilar sem eru að fara í fæðingarorlof ættu að raða því upp sjálfir (að sjálfsögðu í samráði við sinn atvinnurekanda).

Afrita slóð á umsögn

#22 Eva Pandora Baldursdóttir - 25.09.2020

Lenging fæðingarorlofs er mjög jákvætt mál og fagna ég þessu framtaki stjórnvalda. Hins vegar er það alveg óþarflega mikil forræðishyggja að minnka sveigjanleika í skiptingu mánaða á milli foreldra. Rannsóknir (t.d. í Svíþjóð) hafa sýnt að því meiri sveigjanleika sem foreldrar hafa í ráðstöfun fæðingarorlofs, því meira jafnrétti og feður í Svíþjóð eru mjög duglegir að nýta sitt fæðingarorlof. Það myndi stórbæta þetta frumvarp ef hvort foreldri ætti enn sína 3 mánuði en öðrum mánuðum væri foreldrunum frjálst að ráðstafa, eftir því hvað hentar.

Eins og í svo mörgum öðrum málum, þá er ekki hægt að setja alla undir sama hatt hvað viðkemur töku fæðingarorlofs og það sem hentar einni fjölskyldu hentar ekki endilega annarri.

Afrita slóð á umsögn

#23 Vala Gauksdóttir - 25.09.2020

Það er skref í rétta átt að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði en ég tel mikla vankanta á frumvarpinu eins og það er núna og að hagsmunir barna séu ekki hafðir í leiðarljósi.

Nauðsynlegt er að endurskoða frumvarpið og auka fjölda mánaða sem eru sameiginlegir. Eðlilegast væri að fara svipaða leið og í nágrannalöndum okkar svo sem Danmörku og Noregi þar sem sameiginlegur réttur foreldra er mun meiri til dæmis gæti skiptingin verið t.d. 3-3-6 eða jafnvel 4-4-4.

Það á að vera í höndum foreldra hvernig þeir ákveða að skipta fæðingarorlofinu, ekki í höndum nefndar.

Að stytta tímann til töku fæðingarorlofs niður í 18 mánuði er gríðaleg afturför þar sem ekki öll börn eru komin með leikskólapláss 18 mánaða.

Einnig safna fæstir sumarfríi á launum á meðan þeir eu í fæðingarorlofi og þá getur verið gott að eiga mánuð eða tvo til að taka upp að 24 mánaða aldri eins og hentar.

Afrita slóð á umsögn

#24 Gró Einarsdóttir - 25.09.2020

Ég fagna því að loksins sé komið að því að lengja fæðingarorlofið upp í 12 mánuði. Það er mikið framfaraskref fyrir jafnt börn og foreldra. Ég hef þó margt við þetta frumvarp að athuga, þar sem mér finnst ljóst að það taki ekki mið af nógu mörgum sjónarmiðum.

Ég tel að það sé mjög líklegt að jafnréttissjónarmið hafi verið höfð að leiðarljósi þegar ákveðið var að lögð var til jöfn skipting milli foreldra. Það er auðvitað ekki að ástæðulausu, heldur fylgja því margir kostir fyrir kynjajafnrétti að fæðingarorlofinu sé skipt jafnt. Rannsókn sem gerð var í Svíþjóð sýndi að sá sem tekur út meira fæðingarorlof tekur oftast ekki bara meiri ábyrgð á barninu heldur líka á heimilisstörfum. Sama rannsókn sýndi að þessi aukna ábyrgð heldur líka áfram að fæðingarorlofinu loknu fyrir þau pör sem skipta fæðingarorlofinu ekki jafnt. Rannsóknir hafa líka sýnt að fyrir pör sem skipta fæðingarorlofinu jafnt eru færri skilnaðir og sambandsslit en í þeim samböndum þar sem skipting er ójöfn. Taka fæðingarorlofs hefur líka áhrif á launaþróun, starfsþróun og lífeyristekjur. Þetta kemur fram í hinni ágætu bók „Vi ska ha bar – Handbok i jämställt föräldrarskap“. Í bókinni er þess vegna eindregið mælt með því að foreldrar skipti fæðingarorlofinu jafnt. Ég er mikill stuðningsmaður foreldrajafnréttis, og kalla sjálfan mig feminista, en mun hér færa fyrir því rök að það er mikilvægt að taka tillit til fleiri sjónarmiða en þess að konur og kallar geri allt eins, upp á hvern og einn einasta millimetra.

Í fyrsta lagi er mikill munur á því að mælast til þess að fólk skipti orlofinu sínu jafnt, gefa því upplýsingar um kosti þess, og styðja við bakið á þeim foreldrum sem vilja jafna skiptingu og að ríkið hreinlega skikki fólk til jafnrar skiptingar. Í áðurnefndri handbók um foreldrajafnrétti kemur nefnilega líka fram að þó að jöfn skiptings orlofs sé óskandi eru einnig til aðrar leiðir til þess að styðja við jafnrétti á milli foreldra. Til dæmis að það foreldri sem ekki er í fæðingarorlofi beri aðal ábyrgð á barninu þegar það er ekki í vinnunni, eins og um kvöld og helgar. Þar er líka lögð til skýr verkaskipting á heimilisstörfum þar sem foreldrar skiptast á þvottarvikum og matarvikum, svo það leggist ekki fyrst á fremst á þann sem er í orlofi. Þar er líka mælst til þess að foreldrar séu til skiptist heima með veiku barni og skipti því jafnt á milli sín sækja og fara með barn í dagvistun.

Um hríð hefur fæðingarorlof á Íslandi verið 9 mánuðir, þar sem þrír mánuðir hlotnast hverju foreldri fyrir sig og þremur mánuðum er hægt að skipta eftir eigin höfði. Í daglegu tali er oft sagt að mömmu mánuðirnir séu þrír, pabba mánuðirnir þrír og þrír séu frjálsir . Til einföldunar mun ég nota þessi hugtök þrátt fyrir að ég viti að í sumum fjölskyldum eru tveir pabbar, tvær mömmur eða aðrar gerðir fjölbreytileika sem mikilvægt er að taka tillit til. Nýlega var því breytt þannig að hvert foreldri fær fjóra mánuði og tveir eru frjálsir. En þrátt fyrir að foreldrum hafi lengi verið frjálst að skipta jafnt á milli sín þá er skiptingin oftast sú að mamman tekur út alla sína daga og alla sameiginlegu dagana og því eru mömmumánuðirnir de facto 6, á meðan pabbinn tekur út minna orlof. Í stað þess að líta á það sem vandamál sem ríkið þarf að breyta er vert að staldra við og hugsa afhverju svo margar konur velja að vera lengur heima. Í stað þess að ríkið einblíni fyrst og fremst á hvað því finnist að fólk EIGI að gera, þá er mikilvægt að átta sig á því afhverju fólk gerir eins og það gerir.

Eins og staðan er í dag eru upplýsingar um skiptingu fæðingarorlofs á íslandi mjög af skornum skammti. Við vitum öll að konur taka út meira fæðingarorlof en karlar, en hversu mikið meira er erfitt að finna nákvæmar, reglubundnar og tímanlegar upplýsingar um. Ég veit líka af því að líta í kringum mig að það er töluvert algengt að konur fari í lengra fæðingarorlof með því að smyrja dögunum sínum á lengri tíma og fá þá 50-75% greiðslur úr fæðingarorlofssjóði í stað 100%. Það eru þó engin regluleg tölfræði gefin út um hversu algengt þetta er. Að sama skapi heyrir maður oft að pabbar nýti sér ekki þann rétt sem þeir hafa nú þegar. Hversu algengt það er, er þó ekki vitað. Ég fagna þess vegna því að frumvarpið tali um að vinna eigi tölulegar upplýsingar úr afritum af tilkynningum til vinnuveitenda um nýtingu á rétti til foreldraorlofs. Ég gagnrýni það þó að Vinnumálastofnun eigi að halda utan um þessar upplýsingar. Ég held að það myndi nýtast miklu betur ef Hagstofan myndi sjá um að vinna tölfræði úr þessum upplýsingum. Hagstofan hefur aðgang að mörgum gagnasöfnum og getur tengt saman gögn sem vinnumálastofnun hefur ekki færi á að gera. Með því að Hagstofunni væri falið þetta hlutverk væri hægt að skoða tengsl töku á fæðingarorlofi við atvinnustöðu, tekjur, menntun, aldur og fleira. Það er ekki góð nýting á almannafé að byggja upp litlar gorkúlu hagstofur útum allt, þar sem hver ríkisstofnun fyrir sig gefur út sína eigin tölfræði, í stað þess að nýta sér þá hagræðingu sem verður af því að ein fagstofnun með tilheyrandi sérfræðingum sér um að gefa út tölfræði.

En ef það er eins og mig grunar, að konur smyrji að jafnaði út fæðingarorlofinu sínu til að lengja það, og margir feður nýta sér nú þegar ekki þá daga sem þeir eiga rétt á, hver eru þá líkleg áhrif þess að mömmumánuðurnir verði 6 og pabbamánuðirnir 6? Mögulega munu feður vera lengur frá vinnu, en mér finnst ólíklegt að hegðun kvenna breytist mikið. Enda eru de facto mömmumánuðurinir nú þegar 6 mánuðir, og hafa verið lengi. Eins og staðan er í dag virðast konur vera tilbúnar til þess að taka á sig meiri ábyrgð á heimilinu og barnauppeldinu, taka á sig tekjuskerðingu með því að taka út lægri greiðslur úr fæðingarorlofssjóði til þess að lengja orlofið, og taka á sig mögulegt högg á starfsferil og launaþróun, allt til þess að fá að vera lengur í fæðingarorlofi. Sá sem leggur til millimeter jafna skiptingu milli foreldra verður að geta svarað afhverju konur velja þrátt fyrir alla þessa galla að vera lengur í fæðingarorlofi.

Ég tel að það geti verið margar ástæður sem liggja að baki þessu, og líklega mun fleiri en ég nefni hér. Ein er sú að margar konur eru ennþá með barn á brjósti eftir 6 mánuði. Enda er það í samræmi við ráðleggingar landlæknis að vera með barn sem lengst á brjósti. Það er mun auðveldara að sinna brjóstagjöf ef maður er í fæðingarorlofi en ef maður er í vinnu. Í Bandaríkjunum er það mikið réttindamál að berjast fyrir því að konur fái að pumpa á vinnutíma og fái sérstaka aðstöðu á vinnustaðnum til þess að pumpa mjólk í ró og næði. Þetta baráttumál er fjarri frá því að endurspegla mínar hugmyndir um framfarir á réttindum kvenna. Í fyrsta lagi held ég ekki að íslenskir vinnuveitendur myndu standa í vegi fyrir konum sem vilja pumpa í ró og næði á vinnutíma. Í öðru lagi finnst mér það algjör fásinna á Íslendingar eigi nú að fara að líta til Bandaríkjanna í jafnréttismálum, enda er það kerfi eins ömurlegt og hugsast getur. Fæðingarorlofsréttur bandarískra kvenna eru aðeins 6 vikur í leyfi, sem er oft ólaunað, og dagvistun er fyrst og fremst á færi hinna ríku. Enda velja margar Bandarískar konur að hætta að vinna um leið og þær eignast börn því þær geta ekki hugsað sér svo stuttan tíma með börnunum sínum.

Aðrar ástæður þess að konur velja oft að vera lengur en 6 mánuði heima með börnin sín er að margar konur eru enn að jafna sig líkamlega og andlega eftir erfiða fæðingu og breytingar á líkama sínum, og mörgum konum finnst betra að gera það heima hjá sér en í vinnunni. Tengsl mæðra við börnin sín geta líka verið mjög sterk og sálfræðingar mæla með því að það sé hlúð að tengslamyndun frekar en það sé unnið gegn henni. Margar konur treysta sér hreinlega ekki til að fara aftur til vinnu fyrr en barnið þeirra er orðið stálpað og nær því að vera eins árs en hálfs árs. Þessi tengsl móður og barns eru dýrmæt og mér finnst leiðinlegt ef stjórnmálamenn gera lítið úr þeim til að uppfylla einhver skilyrði um millimetra jafnrétti á milli kynjanna.

Það eru líka fleiri hliðar á jafnrétti milli kynjanna heldur en hversu marga fæðingarorlofsdaga konur og karlar eiga rétt á. Til dæmis ef við gefum okkur að margar konur vilji vera lengur heima með börnin sín en 6 mánuði, en eiga aðeins rétt á 6 mánuðum, þá er eina leiðin til þess að leysa það að taka út skertar greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Það er oft talað um hversu slæmt það er fyrir launaþróun kvenna og starfsferil þeirra að vera of lengi í fæðingarorlofi. En það er minna talað um hversu slæmt það er fyrir konur að vera með skertar greiðslur á meðan þær eru í orlofi. Það er líklegt að konur sem lifa á 50% fæðingarorlofsgreiðslum eigi erfiðara með að borga í lífeyrissjóð á meðan þær eru í fæðingarorlofi en ef þær fengju fullar greiðslur. Það getur varla talist gott fyrir kvenréttindi. Konur sem lifa á skertum fæðingarorlofsgreiðslum eru líka háðari maka sínum, sem er ekki gott fyrir kvennréttindi. Það er mjög mikilvægt baráttumál fyrir konur að hafa efni á því að skilja og slíta samvistum ef þær telja þörf á því. Það að konur engu að síður velji að lengja orlofið sitt með því að taka út skertar fæðingarorlofsgreiðslur segir meira um þörfina á að lengja fæðingarorlof fyrir mæður, heldur en þörfina að þvinga þær til þess að fara í vinnuna eftir 6 mánuði.

Hér hef ég lagt áherslu á sjónarmið mæðra, en svo er líka mikilvægt að taka mið að sjónarmiðum barna þegar hugað er að skiptingu fæðingarorlofs. Þetta ætti ráðherra sem sjálfviljugur titlar sig sem barnamálaráðherra að vita. Það er ekki að sjá á þessu frumvarpi að hugað hafi verið sérstaklega að sjónarmiðum barna. Í samræmi við ráðleggingar landlæknis getur það verið börnum fyrir bestu að vera á brjósti sem lengst. Þessu ættu reglur um skiptingu fæðingarorlofs að taka mið af. Það eru líka rannsóknir sem sýna að það getur haft mjög neikvæð áhrif á börn ef mæður þeirra eru stressaðar. Ef mæður eru þvingaðar úr orlofi fyrr en þær vilja getur það verið streituvaldur, eða ef skertar greiðslur úr fæðingarorlofi valda þeim fjárhasáhyggjum.

Að auki þarf að taka tillit til sjónarmiða varðandi dagvistun. Á mörgum stöðum á landinu er erfitt að fá pláss í dagvistun og leikskóla um leið og óskað er eftir því. Það er algengt að börn þurfi að bíða til tveggja eða tveggja og hálfs árs aldurs eftir plássi á leikskóla og að þau fái ekki pláss í dagvistun fyrr en eftir að þau eru orðin eins og hálfs árs. Þess vegna er undarlegt að það sé lagt til að foreldrar verði að hafa tekið út allt fæðingarorlof sitt innan 18 mánaða. Ég sé ekki hvernig slíkt getur gengið upp án þess að hafa fyrst lagt kröfur á sveitarfélög að þau ábyrgist að öll börn geti fengið pláss í dagvistun fyrir 18 mánaða aldur. Það er aukin sveigjanleiki sem foreldrar þurfa á að halda, ekki minni. Sérstaklega með eins brotakennd dagvistunarkerfi og raun ber vitni.

Hér hafa semsagt verið reifuð þónokkur sjónarmið sem núverandi lagafrumvarp tekur ekki tillit til, og þau eru án efa fleiri sem ég hef ekki nefnt. Í frumvarpinu virðist aðeins eitt sjónarmið ráða, og það er jafnréttissjónarmiðið. Þó að það sjónarmið sé mikilvægt er líka mikilvægt að taka tillit til sjónarmiðs barna, dagvistunarkerfisins, óskum mæðra, óskum feðra, andlegum og líkamlegum þörfum osfrv. osfrv. Ég held að besta leiðin til þess að taka tillit til ólíkra sjónarmiða er að ná fram málamiðlun þeirra á milli. Sú málamiðlun sem er nú þegar til staðar er ágæt, og hún fæst með því að annað foreldrið fær þriðjung, hitt þriðjung og að þriðjungur sé valfrjáls.

Afrita slóð á umsögn

#25 Jóhanna Gunnþóra Guðmundsdóttir - 25.09.2020

Ég biðla til nefndarinnar að endurskoða tillögu um eftirfarandi frumvarp.

Það er mikilvægt og jákvætt skref að auka fæðingarorlofið um 12 mánuði.

Fyrirkomulagið gerir hins vegar ráð fyrir að öll fjölskyldumynstur séu eins og að allir geti og hafi efni á því að skipta orlofinu jafnt á milli sín. Það er ekkert endilega raunin. Það er falleg hugsun út frá jafnréttissjónarmiðum en útfært á röngum forsendum. Mér finnst ekki eðlileg rök að skikka fólk til að taka ‘x’ mikið fæðingarorlof af því að það hentar atvinnulífinu best. Vert væri að byrja á því að skapa meira hvetjandi kerfi í kringum það að foreldrar vilji og geti tekið þá ákvörðun að skipta orlofinu jafnt fyrir það fyrsta. Til dæmis með jafnari orlofsgreiðslum svo heimili geti staðið undir greiðslubyrði þegar fæðingarorlofinu er skipt jafnt. Það er einfeldnislegt að halda því fram að það sé hægt á öllum heimilum eins og staðan er núna. Að mínu mati er verið að byrja á vitlausum enda og fjölskyldufólk gert ábyrgt fyrir auknu jafnrétti í kerfi sem styður ekki undir það.

Þá á að huga að því hvað sé barninu raunverulega fyrir bestu. Ég trúi því ekki að eitt fyrirkomulag henti öllum fjölskyldum jafn vel. Með þessu móti er jafnframt verið að hamla því að foreldri sem geti verið lengur heima hafi frelsi til þess en þeir mánuðir sem annað foreldri getur ekki nýtt fari í vaskinn. Ég hefði borið meira traust til þessarar tillögu ef nefndin hefði verið skipuð af þverfaglegri hóp, svo sem fjölskyldufólki og reynsluheimi þess, ásamt fagfólki barna, en ekki bara einskorðuð við fólk úr atvinnulífinu og pólitík.

Jafnframt tel ég afturhaldssemi að minnka fæðingarorlofið úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Dæmi erum börn sem ekki eru komin með leikskólapláss 18 mánaða. Þetta er tímaskekkja miðað við alla þá þjóðfélagsumræðu um meiri samveru fjölskyldna og minni viðveru í vinnu. Fyrstu árin eru mjög mikilvægur umönnunartími barns. Foreldrar ættu enn að geta valið um að nýta sér þennan tíma til þess að sinna því. Nýtt frumvarp um skiptingu fæðingarorlofs virðist vera sett fram með hag atvinnulífsins fyrir brjósti en ekki fjölskyldunnar og barnsins.

Afrita slóð á umsögn

#26 Lára Huld Ólafsdóttir - 25.09.2020

Til þeirra sem varðar,

Ég á að eiga á næsta ári, nánar tiltekið apríl 2021.

þó að ég fagni lengingu orlofsins, þá finnst mér mikilvægt að ráðstöfun orlofsins eigi að vera í höndum foreldra.

Því legg ég til að það verði endurskoðað að einungis einn mánuður megi færa frá einum foreldra til hins.

Afrita slóð á umsögn

#27 María Björgvinsdóttir - 25.09.2020

Ég get því miður ekki verið sammála þessari tillögu að 12 mánaða skiptingu fæðingarorlofs. Því er foreldrum ekki gefin þá kostur að ákveða sjálfir hvernig haga skuli skiptum í orlofi. Held að foreldrar ættu að vita best hvað er barni þeirra fyrir bestu. Allt blessað og gott mál að eyrnamerkja eitthvað lágmark til að tryggja báðum foreldrum orlof en að hafa sameiginlega mánuði fleiri. 3 og 3 eyrnamerktir mánuðir foreldrum og 6 mánuðir sameiginlegir, þar sem það er ekki alls staðar valmömuleiki fjárhagslega að dreifa mánuðum jafnt á milli. Til að mynda í mínu tilfelli erum við barnsföður ekki samann og búum ekki í sama sveitarfélagi. Það bitnar bara á réttindum barnsins að fá að vera heima eins lengi og kostur er, ef á að eyrnamerkja báðum foreldrum svona marga mánuði og fáir sameiginlegir. Ég er til að mynda ekki að fara senda barnið frá mér 7 mánaða gamalt í sveit svo að faðirinn geti tekið sína 5 mánuði og hætta með það á brjósti og setja það frá mér í svona langan tíma, það er ekki fræðilegur. Þetta verður frekar til þess að barnið fær ekki að vera heima í 12 mánuði, einungis 7 mánuði, þ.e.a.s. ef það yrði framselt til mín 1 mánuður. Það sér hver heilvita maður að þessi skipting bitnar bara á barninu og er mjög ósanngjarnt gagnvart því.

Afrita slóð á umsögn

#28 Sunna Dögg Sigrúnardóttir - 25.09.2020

12 mánaða fæðingarorlof er löngu tímabært. Verandi móðir tveggja barna, fædd 2018 og 2020 hefur lenging orlofs úr 9 mánuðum í 10 mánuði ekki breytt neinu fyrir mitt heimili. Ég á enn bara rétt á 6 mánaða orlofi og neyðist til að dreifa þeim á 12 mánuði, þar sem hvorki finnst okkur æskilegt að aðskilja barn og móður fyrir þann tíma né sjáum við fram á að fá dagvistun á miðjum vetri. Okkar heimili hefur ekki ráð á að missa niður tekjur mannsins míns(það virðist alltaf gleymast að endurskoða tekjuskerðingu fólks í fæðingarorlofi) svo ég er að fá 100þús krónur á mánuði næsta árið í 50% fæðingarorlofi. Ef við fengjum að ráðstafa okkar orlofi að vild værum við ekki í fjárhagserfiðleikum. Maðurinn minn sæti ekki upp með ónýtta mánuði í fæðingarorlofi sem verða aldrei nýttir, og sá sem tapar mest á þessu er barnið. Því það er hann sem á að eiga þessa mánuði, þeir eiga að vera eyrnamerktir BARNINU ekki sitthvoru foreldri.

Skoðið hvernig foreldrar eru almennt að nýta orlofið sitt. Hversu stórt hlutfall mæðra þarf að dreifa orlofinu sínu? Hversu stórt hlutfall feðra fullnýtir ekki orlofið sitt? Það ætti að vera vísbending um hvernig hlutirnir eiga að vera.

Skoðið hvernig kerfið er að bregðast fólki sem á börn með stuttu millibili. Tæp tvö ár á milli minna barna og ég er að fá 80% af meðaltali launa sl eins og hálfs árs. Ég er semsagt að fá 80% af síðasta fæðingarorlofi sem var 80% meðallauna minna.

Í hvaða heimi er þetta sanngjarnt?

Afrita slóð á umsögn

#29 Anna Guðný Hallgrímsdóttir - 25.09.2020

Frábært að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði. Hins vegar skiptir sveigjanleiki mestu máli og því á ekki eyrnamerkja ákveðna mánuði öðru hvoru foreldrinu. Það er foreldranna að ráða hvernig þeir deila þessum mánuðum á milli sín. Það sem skiptir mestu er réttur barnsins.

Annað sem ég vil vekja athygli á sem starfandi ljósmóðir að víða erlendis hefst fæðingarorlof móður um mánuði fyrir settan dag. Það er ekki er gert ráð fyrir henni í vinnu eftir ca 36 vikna meðgöngu. Í sumum löndum fyrr. Mjög fáar konur hafa líkamlega burði til þess að vinna fram á síðasta dag. Eins mætti spyrja sig að því hvort það sé nauðsynlegt. Því er verið að skrifa út veikindavottorð fyrir konur í lok meðgöngu. Sumar eiga slík réttindi inni og aðrar ekki. Því væri gott ef fæðingarorofið hæfist nokkrum vikum fyrir settan dag.

Afrita slóð á umsögn

#30 Helga Sóley Hilmarsdóttir - 25.09.2020

Það er frábært framtak að lenga fæðingarorlof í 12 mánuði en það þyrfti að gefa foreldrum meiri sveigjanleika til að hátta þeim tíma eftir fjölskylduaðstæðum. Ég lít svo á að ríkið sé að tryggja sér ,,sparnað" með því að binda fleiri mánuði við föðurinn í stað þess að bjóða uppá sveigjanleika og að fólk geti ráðstafað mánuðum eftir þörfum þar sem að það hefur sýnt sig að fæstir feður fullnýta sinn tíma til fæðingarorlofs og fyrnast þeir mánuðir og ríkið sparar. Nú hef ég einnig verið í þeirri stöðu að eignast barn einstæð (fyrir 10 árum) og nýtti ég mína 3 mánuði og sameiginlegu 3 mánuðina en barnsfaðir minn kom ekki að ummönnun barnsins og nýtti því ekki sína mánuði. Ég varð að dreifa þessum 6 mánuðum í 8 mánuði og var fyrir vikið með svívirðilega lágar tekjur og eina fyrirvinnan á heimilinu.

Afrita slóð á umsögn

#31 Fanney Skúladóttir - 26.09.2020

Síðan hvenær snerist fæðingarorlof um hag atvinnulífsins en ekki lýðheilsu ungbarna? Það er alveg ljóst að hagsmunir ungbarna eru ekki hafðir að leiðarljósi þegar kemur að ráðstöfun orlofsins samkvæmt þessu frumvarpi.

Í fyrsta lagi þá á það ekki að vera stjórnvalda að ákveða hvernig foreldrar skipta orlofinu sín á milli. Þetta á að snúast um rétt barnsins á að fá að vera fyrstu 12 mánuðina í lífi sínu heima með foreldrum sínum, en ekki rétt hvors foreldris fyrir sig. Foreldrar ættu að geta komið sér saman um það hvað sé best fyrir barnið þegar kemur að umönnun þess fyrsta árið.

Þetta er ekki svona klippt og skorið þar sem aðstæður barnafólks eru svo ótrúlega mismunandi og hér er vissulega ekki verið að taka tillit til þess. Hvað með ungbarnið sem er á brjósti fyrstu 10 mánuðina í lífi sínu en á einstæða foreldra sem búa í sitthvorum landshlutanum? Eðlilegast væri að barnið fái rétt á þessum 12 mánuðum sem foreldrar gætu skipt sín á milli eins og hentar best fyrir barnið miðað við aðstæður.

Í öðru lagi þá er það gríðarleg afturför að stytta tímabilið niður í 18 mánuði og ekki raunhæft eins og aðstæður varðandi leikskólapláss eru hér á landi. Tímabilið til nýtingar á rétti orlofsins ætti að vera að minnsta kosti 24-36 mánuðir.

Löngu tímabær breyting á lengd fæðingarorlofs og ég fagna henni en ég vona svo innilega að þetta frumvarp verði ekki samþykkt óbreytt og tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða sem hér hafa komið fram. Það er alveg ljóst að í mörgum tilfellum mun það bitna á réttindum barnsins á að fá að vera heima þessa fyrstu 12 mánuði verði þetta frumvarp samþykkt eins og það stendur.

Afrita slóð á umsögn

#32 Heiðrún Kristmundsdóttir - 26.09.2020

Hvers vegna er 6+6(+1) ekki frekar miðmið heldur en regla, og fullorðnum einstaklingum gefið það frelsi til að haga þessum 12 mánuðum eftir því sem þeim finnst henta best í sínum aðstæðum?

Fegurðin í jafnréttinu útá vinnumarkað eftir fæðingarorlof eru sjáanleg með nýja frumvarpinu, en það er um það bil það eina sem það hefur. Foreldrar, jafn margir og þeir eru mismunandi, eiga að fá að ráðstafa þessum 12 mánuðum sjálfir á milli sín.

Í lok dags erum við öll með hagsmuni barnanna okkar að leiðarljósi, hvort sem við sátum að gerð frumvarpsins eða á leiðinni heim af fæðingardeildinni. Það hlýtur þá að vera sameiginlegur vilji allra að treysta foreldrunum í landinu að vita hvaða fyrirkomulag hentar hvaða fjölskyldu, og hverju barni, best hverju sinni.

Þess vegna ætti 6+6(+1) að vera miðmið heldur en regla, og fullorðnu fólki treyst að taka skynsamlegar og ábyrgar ákvarðanir um skiptingu á mánuðunum sín á milli.

Afrita slóð á umsögn

#33 Berglind Inga Hákonardóttir - 26.09.2020

Sem tveggja barna móðir tek ég lengingu á fæðingarorlofi fagnandi en tek þó undir orð flestra hér að sameiginlegu mánuðirnir mættu vera fleiri. Skiptingin 4-4-4 mánuðir myndi strax vera mun skárra þar sem foreldrar geta ráðstafað orlofinu eins og hentar hverri fjölskyldu og hverju barni fyrir sig. Fjölskylduhagir eru svo mismunandi að ekkert eitt hentar öllum og því ætti ákvörðunin að vera fjölskyldunnar.

Einnig finnst mér styttingin á tímabilinu sem hægt er að taka orlofið mikil afturför því þó margir leikskólar reyni og vilji taka inn börn 18 mánaða er það alls ekkert víst!

Á mörgum stöðum á landsbyggðinni er það alls ekki hægt fyrr en um 2 ára t.d. Það fer allt eftir hvenær á árinu barnið fæðist og eins ef það eru mörg eða fá börn það árið.

Ég hvet stjórnvöld til að endurskoða þetta frumlag með hag barnsins og mismunandi aðstæðna fjölskylda í huga!

Afrita slóð á umsögn

#34 Sigurður Rúnar Rúnarsson - 26.09.2020

Á meðan lenging fæðingarorlofs er framfaraskref í sjálfu sér verður að teljast einkennilegt að framkvæmdin sé gerð eingöngu að jafnréttis- og vinnumarkaðsmáli þegar hún er fyrst og fremst réttlætismál fyrir nýfædd börn. Að ekki sé boðið upp á meiri sveigjanleika í skiptingu orlofs milli foreldra en frumvarpið gerir er vanhugsað.

Ef löggjafanum er raunverulega annt um nýjustu Íslendingana væri horft meira til nágrannaþjóðanna, t.d. Svíþjóðar. Þar er rétturinn til töku fæðingarorlofs bundinn við barnið, ekki foreldrana, og sveigjanleikinn gríðarlegur. Vill mamma byrja að vinna eftir fjóra mánuði en kannski bara hálfan daginn? Ekkert mál. Vill pabbi minnka við sig á meðan aðlögun í leikskóla stendur yfir? Alveg sjálfsagt. Ertu einstæð móðir og ónytjungurinn barnsfaðir þinn vill ekkert með barnið hafa? Ekkert mál, þú getur nýtt orlofið upp í topp. Eruð þið starfsframafólk og viljið komast aftur í vinnuna? Má bjóða ykkur að afi eða amma taki smá orlof til að hjálpa til? Alveg sjálfsagt. Er mamma friðlaus heima eftir einn og hálfan mánuð en pabbi gæti hugsað sér að knúsast í krakkanum þar til hann byrjar í leikskóla? Þú bara ræður þessu! Það eru hagsmunir barnsins sem ráða för og það hefur enginn betri tilfinningu fyrir því hvað er barni fyrir bestu en foreldrar þess. Og foreldrarnir eiga að ráða hver tekur orlof og hve lengi, ekki löggjafinn.

Við ritun þessa frumvarps virðist hafa verið tekið meira tillit til sjónarmiða atvinnurekenda heldur en þeirra sem annast börn, eins og ljósmæðra, leikskólakennara og foreldra. Vonandi hefur löggjafinn rænu til að vinda ofan af þeirri sorglegu staðreynd.

Afrita slóð á umsögn

#35 Kristrún Halla Gylfadóttir - 26.09.2020

Það er frábært og nauðsynlegt að það sé verið að lengja fæðingarorlofið, en mér finnst þessi skipting á röngum forsendum. Það bara verður að vera miklu meiri sveigjanleiki í þessu og hugsa þetta út frá þörfum barnsins. Í raun ætti meirihluti mánaðanna að vera sveigjanlegir, t.d. 2 fastir á hvort foreldri og 6 mánuðir til skiptana.

Það á ekki að koma niður á börnum ef foreldrar sjá sér ekki fært að nýta sína 6 mánuði. Og þar sem mun algengara er að konur nýti sitt orlof, koma þær sem það geta, til með að teygja það yfir fleiri mánuði með tilheyrandi tekjutapi. Og þær sem ekki geta það, þurfa að senda sitt barn mjög ungt í daggæslu.

Það að stytta tímann úr 24 mánaða í 18 mánaða finnst mér líka mjög skrítið. Það er alls ekki sjálfgefið að börn komist 18 mánaða inn á leikskóla. Margir þurfa að bíða lengur eftir leikskólaplássi.

Þessi litli sveigjanleiki finnst mér í raun og veru afturför. Þetta á að snúast um rétt barna til að vera í öruggu umhverfi foreldra sinna a.m.k. fyrsta árið.

Afrita slóð á umsögn

#36 Gréta María Valdimarsdóttir - 26.09.2020

Mér finnst að það þurfi að hugsa vel út í skiptingu orlofsins. Konan sem gengur með barnið og þarf að fæða það þarf fyrstu mánuðina til þess að jafna sig. Svo er brjóstagjöfin eitthvað sem að þið vitið hvernig virkar. Mér finnst að líta eigi á fæðingarorlofið svona: fyrstu mánuðurnir sem veikindaleyfi móður og svo skipta upp í móður, föður og val mánuði. Til dæmis 3 mánuðir “veikindaleyfi”, 3 mánuður sem móðirin fær, 3 mánuður sem föðurinn fær og svo 3 hægt að skipta eins og hverju pari hentar. 6 mánuðir eru þar afleiðandi sem mamman fær, 3 sem pabbinn fær og svo geta þau skipt 3 á milli sín eins og þeim hentar.

Eins fallegt og hugsunin er að skipta þessu upp jafnt þá eru foreldrar ekki jafnir þegar kemur að því að ganga með barnið og fæða það. Ég var lengi að skríða saman og var langt í frá líkamlega í lagi til að fara að vinna fyrstu 3 mánuðina.

Mér finnst samt eiga að tileinka einhverjum mánuðum fyrir pabbann en það á ekki að vera helmingurinn. Með þessari tillögu sem ég kom með er hægt að skipta þessu 50/50 ef fólk vill en þá fá foreldrarnir sjálfir að ráða því.

Þangað til að foreldrar geta bæði fætt barnið og gengið með naenið þá ætti ekki að skipta fæðingarorlofinu þannig að 50% sé ákveðið fyrir pabbann.

Afrita slóð á umsögn

#37 Inga Björk Matthíasdóttir - 26.09.2020

Fanga því að fæðingarorlofið sé lengt í 12 mánuði :D

Finnst hins vegar glatað að neyða fólk í að nýta orlofið svona :/ Konurnar eiga eftir að smyrja sínum 6 mánuðum yfir lengra tímabil og ég stórlega efast um að meirihluti karla eigi eftir að nýta sína 6 mánuði. Vildi miklu frekar sjá 3 mánuði á hvert foreldri og foreldrarnir geti nýtt hina mánuðina eins og hentar hverju sinni. Ég á eitt barn og þá var ég heima í 6 mánuði því ég var á námstyrk gat ég ekki dreift því og fór að vinna eftir þessa 6 mánuði, ég vildi vera með strákinn minn lengur á brjósti en stressis sem fylgdi því að fara aftur út á vinnumarkaðinn olli því að mjólkin minnkaði fljótt og ekkert varð úr því að gefa brjóst eftir að ég byrjaði að vinna. Ég upplifði mig sem vonda móður því mér var sagt að ráðlagt væri að hafa barn á brjósti allavega til 9 mánaða aldurs.

Afrita slóð á umsögn

#38 Gestný Rós Guðrúnardóttir - 26.09.2020

12 MÁNUÐI TIL BARNSINS!!!!

Afrita slóð á umsögn

#39 Hjördís Pétursdóttir - 26.09.2020

Setjið ákvörðun um skiptingu orlofs í hendur foreldra!! Feðurnir hafa því miður ekki sömu tækifæri á að sinna barni á brjósti og þar af leiðandi er mjög líklegt að mæður þurfi að lengja sitt orlof og feður nota þar af leiðandi ekki allt sitt. Af hverju er ekki hægt að eyrnamerkja orlofið barninu og foreldrar stjórna hvernig því er háttað?

Afrita slóð á umsögn

#40 Sigurlaug Tanja Gunnarsdóttir - 26.09.2020

Það er móðirin sem gengur með barnið, móðirin sem fæðir barnið og móðirin sem er með barnið á brjósti en er samt með sama fæðingarorlof og faðirinn. Skil þetta reikningsdæmi ekki!! Svo gengur fæðing ekki alltaf eftir bókinni og þá þarf að mænudeyfa eða taka með keisaraskurð sem veldur því að mæður eru lengur að jafna sig. Það er enginn veikindaréttur í þessu reikningsdæmi fyrir móðirina og bara gengið út frá því að mæður séu Ofurkonur!!

Afrita slóð á umsögn

#41 Fanney Kristín Vésteinsdóttir - 26.09.2020

Vona svo innilega að þetta verði endurskoðað. Þekki börn sem hefðu verið 12 mánuði heima með föður hefði það verið hægt - eða 12 mánuði heima með móður.

Að treysta fólki ekki til að ákveða hvað er fjölskyldunni og nýja barninu fyrir bestu er kjaftæði!

Ps. Þessar reglur munu bara þýða aukið álag á fjölskyldur því tekjuhærri aðilinn tekur væntanlega orlof til að nýta það og vinnur svo svart eins og gengur og gerist mikið nú þegar.

Ef stjórnvöld neyða fólk til að gera þetta svona, beygjir fólk bara framhjá reglunum í staðinn fyrir að leyfa fólki að ákveða sjálft hvað hentar fjölskyldunni.

Afrita slóð á umsögn

#42 Guðmundur Jónsson - 26.09.2020

Öll lenging á fæðingarorlofi er bæting enda hefur það verið margrannsakað og margt sem bendir til þess að börn þurfi á stöðugri og sterkri tengingu við foreldra sína fyrstu árin. Fyrstu árin eru algerlega krítískur tími í mótun barns til frambúðar.

Þess vegna ætti að lengja fæðingarorlof enn meira samfélaginu til hagsbóta því það sem gert er fyrir börnin frá fæðingu skilar sér til samfélagsins þegar einstaklingurinn er vaxinn úr grasi.

Það er svo annað mál að festa 6 mánuði á hvort foreldri og velti ég fyrir mér hversu vel ígrunduð tillaga það er. Vitanlega þurfa börn á báðum foreldrum að halda en þar sem annað foreldrið getur gefið brjóst en ekki hitt er best fyrir barnið að hafa móður sínia hjá sér sem lengst á meðan brjóstagjöf stendur. Vonandi gengur þessi tillaga ekki út frá því að brjóstagjöf sé bara eins og að fá sér mjólkurglas. Brjóstagjöf er miklu meira heldur en bara til þess fallin að barn fái næringargildin í mjólkinni. Ég hvet félagsmálaráðherra til að kynna sér rannsóknir, til að mynda þær sem sýna hvernig streituhormónið cortisol minnkar í brjóstagjöf en eykst þegar foreldri er fjarverandi eða barn upplifir fjarveru frá foreldri/foreldrum.

Þetta er ekki jafnréttismál, Ásmundur. Mál fæðingarorlofs á að snúast númer 1, 2 og 3 um barnið og hagur þeirra á að leiða þennan málaflokk. Vissulega helst hagur barns í hendur við hag foreldra en ekki alltaf. Ef jafnréttismál er haft að leiðarljósi með þeim mögulegu afleiðingum að hagur barns versnar þá á þetta ekki að vera valmöguleiki.

Afrita slóð á umsögn

#43 Tinna Soffía Falkvard Traustadóttir - 26.09.2020

Fögnum lengingu fæðingarorlofs, stórt hrós fyrir þessa vinnu.

Hinsvegar þarf að skoða þessa tilhögun.

Er þetta það sem ég er að fara segja við barnið mitt þegar það er 6 mánaða?

"Jæja elskan mín, nú ert þú orðinn 6 mánaða og þú þarft að hætta á brjósti, byrja að borða mat og drekka mjólkina úr stútkönnu fyrir mánudag. Mamma þarf að fara vinna og pabbi er að fara í orlof af því Ásmundur segir að það eigi að vera svoleiðis."

Þetta er þá væntanlega staðan þegar barnið verður 6 mánaða - ekki getur pabbinn gefið brjóst.

Maðurinn minn á ekki efni á að taka á sig 2-300 þusund króna tekjuskerðingu til að taka 6 mánaða fæðingarorlof. Ég sé heldur ekki fram á að við getum lifað í 12 mánuði ef ég er með 200 þúsund krónur á mánuði útborgaðar, þ.e. ef ég skipti fæðingarorlofinu á 12 mánuði.

Réttindi barnsins eru að vera heima í 12mánuði, það fellur hins vegar um sjálft sig ef fólk getur ekki hagað þessum 12 mánuðum eins og það vill. Það þarf enginn að ákveða að barnið eigi 6 mánuði með pabba og 6 mánuði með mömmu... heldur snýst þetta um að barnið fái sína 12 mánuði heima.

Afrita slóð á umsögn

#44 Sigrún Torfadóttir - 26.09.2020

Sem nýbökuð móðir tel ég mig knúna til að segja mína skoðun á þessu máli. Barn á alltaf að vera í forgrunni, fæðingarorlof er jú tímabil fyrir foreldra til að sjá um barnið sitt áður en það verður nógu gamalt til að fá inngöngu á leikskóla eða dagmömmu. Mér finnst einkennilegt að þessi tími heyri undir lögum, að hver fjölskylda þurfi að aðlaga sig að þeim lögum sem sett eru um fæðingarorlof. Fæðingarorlof á ekki að dreyfast á foreldra barnsins heldur á barnið að eiga þennan rétt að foreldrar, hvaða foreldri sem er sé heima og sinni því og þeirra þörfum! Fjölskylda á að eiga þann rétt að ákveða hvað henti þeim best og hvað sé hest fyrir barnið!

Barnið á að fá 12 mánuði í fæðingarorlof og foreldrar skipta því á milli sín eins og þeim hentar!

Förum ekki afturábak, horfum framávið og setjum börnin í fyrsta sæti!

Afrita slóð á umsögn

#45 Fjóla Kristín Bragadóttir - 26.09.2020

Fæðingarorlof á að snúast um rétt barnsins til að vera heima með foreldri fyrsta árið, ekki jafnrétti foreldra á vinnumarkaði. Það er velkomið að verið sé að lengja orlofið, en ákvörðunina að eyrnamerkja hvoru foreldri helming af orlofinu er algjörlega vanhugsuð. Fullorðnir einstaklingar eru alveg færir um að ákveða hvað er sínu barni og sinni fjölskyldu fyrir bestu.

Afrita slóð á umsögn

#46 Elísabet Kolbrún Eckard - 26.09.2020

Mér finnst að það megi vera sveigjanlegri reglur um yfirfærslu fæðingarorlofs og líta frekar á það sem rétt barnsins að vera heima með foreldri en ekki rétt foreldris til að vera heima með barninu, til eru dæmi um að barn er vissulega feðrað/mæðrað en það foreldri ákveður hins vegar af einhverjum ástæðum að vera ekki inni í lífi barnsins og er því ekki grundvöllur fyrir því að sá aðili nýti sér rétt sinn.

Að færa rétt foreldra til að nýta sér fæðingarorlofsrétt sinn niður í 18 mánuði þykir mér mikil afturför sérstaklega í ljósi þess að dagvistunarúrræði barna tveggja ára og yngri eru ekki góð. Sum börn eru ekki að komast inn á leikskóla fyrr en í kringum tveggja ára aldurinn og oft seinna. Dagvistun hjá Dagmæðrum eru ekki öruggur kostur þar sem erfitt er að fá pláss hjá dagmæðrum og eru mörg dæmi um að dagmæður einfaldlega segi upp dagvistun barns eftir sínum þörfum. Ég sjálf á barn sem komst fyrst inn á leikskóla 21 mánaða gamalt og er núna með barn hjá dagmóður númer tvö þar sem fyrri dagmóðirin fór í fæðingarorlof. Barnið mitt missir hins vegar plássið hjá seinni dagmóðurinni í lok desember þar sem hún var búin að lofa öðru barni plássi í janúar. Barnið mitt verður þá 18 mánaða og er ekki kominn inn á leikskóla og allar líkur á því að hann komist ekki inn fyrr en næsta haust, þá rúmlega tveggja ára. Maðurinn minn á hins vegar einhvern hluta af sínu fæðingarorlofi eftir og getur þá nýtt hann í ljósi 24 mánaða svigrúms til að nýta sér fæðingarorlofsrétt sinn.

Einnig þykir mér mikilvægt að taka til skoðunar viðmiðunartímabil við útreikning á greiðslum til starfsmanns en eins og staðan er núna þá er tekið mið af tekjum 12 mánaða samfellds tímabils sem lýkur 6 almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns, þetta getur verið mjög óhentugt og orðið til þess að foreldrar sem eignast börn með stuttu millibili verða fyrir gríðarlega miklum tekjumissi: Nú tek ég mig sjálfa aftur sem dæmi. Ég dreifði fæðingarorlofi sem ég tók í tólf mánuði með barn sem ég átti 2017, fór aftur í sama starf og ég hafði verið í síðustu fjögur ár fyrir fæðingu þess barns en náði einungis að vinna í sex mánuði þar til næsta barn fæddist, árið 2019. Þetta gerði það að verkum að í seinna fæðingarorlofinu mínu var tekið mið af tekjunum sem ég hafði í dreifðu fæðingarorlofi þessa tólf mánuði þar sem þessir sex mánuðir sem ég fór aftur á vinnumarkaðinn á milli barnseigna komust ekki með í útreikninginn.

Það er mikilvægt að gera ráð fyrir því að fólk er oft að eignast fleiri en eitt barn og oft með stuttu millibili sem gerir tekjuskerðingu afar erfiða á tímum sem allir ættu að fá að njóta.

Afrita slóð á umsögn

#47 Sandra Júlíana Karlsdóttir - 26.09.2020

Þessi breyting á fæðingarorlofi er ekki í neinum takt við nútíman þar sem að fæðingartíðni á Íslandi hefur aldrey verið lægri og munu þessar breytingar aðeins verða til þerrs að heilsteipt fólk mun hugsa sig tvisvar um að fara að eignast börn.

Þessir 12 mánuðurir eru rettur barnsins að hafa foreldri hjá sér og á þetta að vera foreldra að ráða skiptingu þess niður því stundum henntar að móður að taka lengra orlof en föður og stundum er það akkúrat öfugt en það er ekki ríkis að ákveða hvað henntar hverri fjölskyldu það eru breyttir tímar í dag og fjölskyldumybstur eru á allavegu og þá þarf þetta að vera mun svegjanlegra.

Og ef þessu verður breytt þá mun þetta hafa víðtæk áhrif þar sem aðgangur að dagmæðrum er erfiður núna þá mun ekki lagast við þessar breytingar folk mun missa vinnur sínar þar sem það getur ekki farið frá 6 mánaða gömlu barnisínu með enga dagvistun.

Afrita slóð á umsögn

#48 Hanna Valdís Guðjónsdóttir - 26.09.2020

Ég bý úti á landi þar sem engar dagmömmur eru á svæðinu. Auk þess er maðurinn minn bóndi sem er heilsársstarf sem spyr ekki um það hvort lítið barn sé á heimilinu. Það að festa okkur niður með þessa mánuði er því engan veginn að henta okkar aðstæðum og snýst engan veginn um velferð barnsins að mínu mati. Þar að auki ef barn er lengur á brjósti en 7 mánuði þá er heilmikill tími og peningur sem fer í það að pumpa og frysta brjóstamjólk. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með að hafa börn á brjósti til eins árs en þessar niðurnjörvuðu reglur eru ekki til þess gerðar að hjálpa foreldrum í þessum efnum. Þarf í alvöru að stjórna svona fullorðnu fólki?

Afrita slóð á umsögn

#49 Brynjar Hauksson - 26.09.2020

Ég er á móti þessu frumvarpi þar sem að þetta skerðir sveigjanleika til nýtingu fæðingarorlofs. Rétturinn ætti að vera allur framseljanlegur.

Afrita slóð á umsögn

#50 Birkir Ólafsson - 26.09.2020

Verð að segja að það væri minni forræðishyggja að leyfa fólki að stjórna þessu meira eins og hentar því hverju og einu sinni því að það eru jú ekki aðstæður allra eins.

Mér þætti skynsamlegra að það væru 4 mánuðir sem að væru festir á hvort foreldri og þá 4 mánuðir sem að væri hægt að skipta á milli foreldra

Afrita slóð á umsögn

#51 Hildur Grétarsdóttir - 26.09.2020

Það er til háborinnar skammar að þetta sé réttur foreldra. Þetta á að vera réttur barnsins til að njóta samvistar við foreldra ekki til þess að eyða tíma með foreldri sem hefur stöðguar áhyggjur af innkomu, sama hvort foreldrið er á þeim tíma í fæðingarorlofi. Að festa hvoru foreldri einhverja fáa mánuði ætti að sleppa en megnið á að vera val hverrar fjölskyldu hvað hentar þeim best.2-2-8 eða að mesta lagi 3-3-6 ætti að sleppa -ætti samt að vera val hverrar fjölskyldu.

Hvað er barninu fyrir bestu ætti hér að skipta meginsköpum. Fagna því að fæðingarorlof lengist í 12 mánuði en það er algjör synd að það skuli vera eyrnamerkt hvoru foreldri.

Fyrir hvern er verið að festa mánuðina? Er það í alvörunni þegna í þessu þjóðfélagi eða er það fyrir ráðamenn til að spara vinnumálastofnun fjár í fæðingarorlofssjóði, sem þegnarnir borga sjálfir í?

Enn og aftur hvað er barninu fyrir bestu? -Þessi kjörorð nota ég mikið í vinnu minni sem deildarstjóri í leikskóla ef einhver vafamál koma upp. Þegar uppi er staðið snýst allt um barnið. Hvað er barninu fyrir bestu?

Afrita slóð á umsögn

#52 Íris Rut Sigurbergsdóttir - 26.09.2020

Fæðingarorlof á að vera réttur barnsins, ekki foreldranna. Allt annað er algjörlega fáránlegt. Fullorðnu fólki á að vera treystandi fyrir því að ráðstafa öllum mánuðum þessa orlofs eins og best hentar hverju heimili. Annað er forræðishyggja og yfirgangur.

Það er í hag barnsins að ekki skapist streita á heimilinnu vegna ráðstöfunar fæðingarorlofs.

Það er í hag barnsins að dvelja sem lengst hjá sínum næsta umönnunaraðila, hvort sem það er móðir eða faðir eða bæði í bland, allt eftir aðstæðum hjá hverjum og einum.

Afrita slóð á umsögn

#53 Ásgerður Bjarklind Bjarkadóttir - 26.09.2020

Finnst 1 mánuður sem má framselja of lítið, afhverju er það ekki í höndum foreldra að ákveða hversu lengi þau eru heima. Margar mæður eru með barnið á brjósti og þá mun lengur en 6 mánuði líkt og undirrituð. Átti til að mynda barn sem tók aldrei pela eða snuð og var á brjósti til 12 mánaða, ég átti rétt næga mjólk fyrir barnið en ekkert umfram til þess að mjólka þannig að ég hefði ekki getað farið fyrr út á vinnumarkaðinn og ekki gat faðirinn gefið mjólk eða pela. Gefið foreldrum 12 mánuði og treystið þeim fyrir ráðstöfun fæðingarorlofsins.

Afrita slóð á umsögn

#54 Birta Rún Sævarsdóttir - 26.09.2020

Ég er svo ósammála því að skipta fæðingarorlofinu þannig að hvort foreldri fyrir sig fái 6 mánuði og ekkert til að deila sín á milli. Mikið eðlilegra er að hver fjölskylda fyrir sig geti haft eitthvað um það að segja hvernig þeir deila mánuðunum á milli sín.

Nú er ég í fæðingarorlofi eins og er með 12 mánaða son minn. Ég hef hugsað daglega um það frá því hann var 8 eða 9 mánaða hversu þakklát ég er að geta verið heima með honum lengur. Hvað þá þegar hann var aðeins 6 mánaða. Þá var hann nánast bara á brjósti. Tók ekki við nema örfáum skeiðum af graut fyrstu vikurnar sem honum stóð það til boða svo ég komst ekki mikið frá honum.

Varðandi það að þurfa að klára að taka út fæðingarorlofið fyrir 18 mánaða aldur þá væri það ásættanlegt skilyrði ef öllum 18 mánaða gömlum börnum væri boðið leikskólapláss sem er alls ekki raunin. Þó það sé markmiðið þá hefur það ekki enn tekist (í Rvk). Sonur minn verður td að öllum líkindum 23 mánaða þegar hann kemst að á leikskólanum í hverfinu mínu þó hann flokkist sem ungbarnaleikskóli og á að taka við börnum 14 mánaða og eldri. Það er því nokkuð ljóst að við þurfum að hafa hann heima í 23 mánuði eða finna okkur dagmömmu sem ég persónulega hef ekki áhuga á. En ég er svo heppin að vinna vaktavinnu og get þannig púslað þessu saman. Hins vegar er það ekki spennandi kostur að vinna kvöld og helgar til að geta haft son minn heima á daginn þegar ég á eldri dóttur sem ég sé þá ekki eins oft og ég myndi vilja. Mikið frekar myndi ég vilja að annaðhvort ég eða maðurinn minn værum í orlofi til að sinna drengnum á daginn þar til hann fær pláss á leikskólanum í hverfinu.

Það er ljóst að aðstæður fólks eru mismunandi og eru ekki allar mæður (eða feður) æstar í að vera heima eins lengi og ég og er það hið besta mál. En valið ætti að vera fjölskyldunnar en ekki yfirvalda.

Afrita slóð á umsögn

#55 Lilja Sif Þórisdóttir - 26.09.2020

Við búum í afar rafrænu samfélagi og nú getum við auðveldlega safnað saman upplýsingum frá fjölda einstaklega á afar stuttum tíma. Hér eru þið að gefa fólki færi á að skrifa athugasemdir sem ég vona að sé ekki einungis sýndarmennska heldur einlægur ásettningur ykkar að hlusta á fólkið og nýta svörin til þess að aðlaga frumvarpið að þörfum og vilja fólksins í landinu líkt og lýðræði snýst um og við eigum að búa við.

Í fyrsta lagi þegar maður lítur yfir athugasemdirnar hér við frumvarpinu má sjá að fólk fagnar því að verið sé að breyta fæðingarorlofinu úr 10 mánuðum eins og það er nú 2020 í 12 mánuði. Hins vegar má sjá að yfirgnæfandi meirihluti óskar eftir því að fá að ráðstafa þessum 12 mánuðum sjálf. Þar er ég hjartanlega sammála. Í öðru lagi má einnig sjá margar athugasemdir varðandi lengdina, vissulega er það jákvæð þróun að verið sé að lengja fæðingarorlofið en ef við berum okkur saman við hin Norðurlöndin þá erum við ennþá eftir á. Við erum að treysta á fyrirkomulag eins og dagforeldra því ungbarnaleikskólar eru af afar skornum skammti og aðrir leikskólar taka flestir við börnum í fyrsta lagi við 18 mánaða aldur. Eflaust er hægt að finna marga jákvæða punkta við dagforeldrakerfið en það má einnig finna marga neikvæða punkta og þá fyrst og fremst er eftirlit með dagforeldrum afar lítið frá degi til dags og eru dagforeldrar að vinna með berskjaldaðasta hóp samfélagsins. En burt séð frá neikvæðri hlið dagforeldra starfsins þá eiga foreldrar oft í miklum erfiðleikum að finna dagforeldra til að setja barn sitt til og þurfa því að vera lengur heima. Það er svo sannarlega grundvöllur til að lengja fæðingarorlofið enn frekar.

Frumvarpið virðist ekki taka tillit til einstæðra foreldra og nú er nóg komið af því að hundsa þeirra rétt. Frumvarpið virðist einnig hundsa þá staðreynd að annað foreldrið er í langflestum tilvikum töluvert tekjuhærra, þrátt fyrir að við séum komin langt í jafnréttismálum á Íslandi. Við erum þó ekki komin mikið lengra en svo að í parasamböndum karls og konu eru yfirgnæfandi líkur á því að karlinn sé tekjuhærri og í mörgum tilvikum töluvert tekjuhærri.

Á sínum tíma þegar fæðingarorlofið breyttist og á þann hátt að feður öðluðust rétt til orlofs var það fagnaðarefni en þróunin hefur ekki verið í takt við nútímann. Hættum þessari forræðishyggju, setjum þetta í hendur hverra fjölskyldu fyrir sig að finna út hvað hentar þeim best og áttum okkur á því að fjölskyldumynstrið hefur breyst með tímanum. Veitum öllum fjölskyldum, hvort sem hún samanstandi af einu eða tveimur foreldrum, sama rétt til fæðingarorlofs því við megum ekki gleyma að fyrst og fremst er það réttur barnsins að foreldri/foreldrar hafi rétt til fæðingarorlofs. Það er réttur barnsins að hafa foreldri til staðar í fæðingarorlofið í 12 mánuði og það gildir líka um barn sem elst upp af einu foreldri.

Afrita slóð á umsögn

#56 Anna Sigurrós Sigurjónsdóttir - 26.09.2020

Ég er móðir og tel það vera mjög æskilegt að setja ákvörðun í hendur foreldra varðandi skiptingu fæðingarorlofs. Með því að halda ennþá þrem mánuðum til skiptanna, jafnvel meiri sveigjanleika með sameiginlegan rétt, þannig að foreldrar sjálfir geti ákveðið sín á milli hvernig sé best að haga sínum málum. Því aðstæður fólks geta verið mjög misjafnar.

Afrita slóð á umsögn

#57 Jóhannes Birgir Jensson - 26.09.2020

Ég styð jafnan rétt feðra/maka og mæðra til að eiga óskert fæðingarorlof hvort um sig um leið og þau geta óskert skipt á milli sín meðgöngu, fæðingu og brjóstamjólkurframleiðslu.

Hafandi sjálfur tekið þá 3 mánuði sem voru óskertir handa föður á sínum tíma þá var mjög augljóst að móðirin þurfti mun meir að hafa fyrir barnsburði, fæðingu og fæðugjöf, af orsökum sem voru utan minna ráða eða getu að sigrast á. Fæðugjöfin var hið eina sem ég gat með tíma tekið þátt í en það krafðist ávallt frumvinnu móður, að mjólka sig.

Þetta er stórkostleg afturför að klípa svona af foreldrum þeirra eigin vali, auk þess sem að hér virðist sem að þetta álag sem móðir gengur í gegnum sé virt að vettugi.

Afrita slóð á umsögn

#58 Hrönn Hafliðadóttir - 27.09.2020

Nauðsynlegt er að horfa á þessa breytingu á lögum um fæðingarorlof með breiðari gleraugum. Það skýtur skökku við að foreldrar sem eignast börn á sitthvoru árinu fái tvö ár í fæðingarorlof en foreldrar sem eignast tvíbura eða fjölbura fái aðeins bætta við 3 mánuði.

Það gefur augaleið að hér þarf að endurhugsa hlutina.

Afrita slóð á umsögn

#59 Hrönn Hafliðadóttir - 27.09.2020

6 mánuðir á hvort foreldri er gott og blessað en að foreldrum sé ekki treyst til að ráðstafa sínu fæðingarorlofi sjálfir er mótsögn við ráðleggingar landlæknis um að barn skuli vera á brjósti til 12 mánaða aldurs. Að vera búin að hafa mikið fyrir því líkamlega og andlega að koma barni á brjóst og þurfa svo að byrja að pumpa eða hætta með barn á brjósti við 6 mánaða aldur er ekkert nema óþarfa andlegar og líkamlegar þjáningar fyrir móður.

Fjárhagslegt erfiði, samhliða fæðingu nýs einstaklings getur valdið miklum kvíða og andlegu streði og svo að ætlast til þess að móðir fari frá barni sínu til vinnu 6 mánuðum eftir fæðingu þess er ómannúðlegt. Það er greinilegt að það er ekki nýbökuð móðir að móta þessi lög!

Afrita slóð á umsögn

#60 Andrea Geirsdóttir - 27.09.2020

Það er til háborinnar skammar að foreldrum sé ekki leyft að skipta á milli sín mánuðum eins og hentar þeim best hverju sinni!

Að þið skuluð ekki sjá það grefur undan því trausti að þið séuð hæf til að sinna starfi ykkar.

Ef að frumvarpið verður samþykkt í þessari mynd verður það skammarblettur á því sviði sem við teljum okkur hvar best, jafnrétti.

Flest allar rannsóknir hafa sýnt fram á það að hamingjusamt fólk, hvort sem það snúi að vinnu, fjölskyldulífi eða sem einstaklingar, gerir samfélagið betra og við uppskerum frekar fyrir vikið. Styðjið samfélagið okkar og leyfið fjölskyldum og ákveða sín á milli hvað hentar þeim best.

Afrita slóð á umsögn

#61 Arna Óskarsdóttir - 27.09.2020

Meðfylgjandi er umsögn og áskorun um framtíðarstefnu fæðingarorlofs á Íslandi

kv. Arna Óskarsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#62 Vala Margrét Jóhannsdóttir - 27.09.2020

Ég fagna því að fæðingarorlofið verði 12 mánuðir en er ekki hlynnt hugmyndum um skiptingu milli foreldra, 6 mánuðir á hvort foreldri.

Fjölskyldur eru ólíkar eins og þær eru margar!

Þessi ósveigjanlega útfærsla á fæðingarorlofinu gerir mörgum erfitt fyrir að gera það besta fyrir barnið sitt.

Foreldrar ættu að fá fleiri sameiginlega mánuði sem þeir ákveða sjálfir hvernig þeir nýta.

18 mánuðir finnst mér líka mjög knappur tími til að nýta fæðingarorlofið, þar sem raunveruleiki margra er að börnin þeirra komast ekki í daggæslu eða leikskóla fyrr en 2 ára!

Afrita slóð á umsögn

#63 Íris Þórsdóttir - 27.09.2020

Ég legg til að fjölburaforeldrar fái margföldun á upphæð fæðingarorlofs m.v. fjölda barna. Það að eiga t.d. tvíbura þýðir tvöföld útgjöld og ætti að mínu mati sem tvíburaforeldri að þýða tvöföld upphæð fæðingarorlofs, en sama tímalengd og með einbura.

Afrita slóð á umsögn

#64 Eygló Sigríður Kristjánsdóttir - 27.09.2020

Það er ekki hægt að setja allar fjölskyldur í sama ramma, þær þurfa svigrúm. Sumar konur geta og vilja fara fyrr út á vinnumarkaðinn aðrar ekki, eins með karlmenn sumir vilja og geta tekið fæðingarorlof.

Ýmist getur komið upp hjá foreldrum, fólk getur orðið atvinnulaust á meðan meðgöngu stendur hvort sem það er konan eða maðurinn.

Fjölskyldu aðstæður eru mismunandi, hvernig fólk vill púsla saman sínum högum ætti ekki að vera þvingandi.

Svo ég tali fyrir sjálfa mig líka, þá lengdum við mitt fæðingarorlof; mína 3 + sameiginlegu 3, samtals 6 og dreifði þeim á 12 mánuði, eftir það vann ég bara kvöldvaktir og maðurinn minn dagvinnu á meðan. Maðurinn minn tók ekki nema 1,5 mánuð af fæðingarorlofi í heildina því hann var nýbyrjaður í sínu starfi, svo höfðum við ekki efni á að lækka tekjurnar eða senda barnið til dagmömmu. Svo er annað, það er ekki dagmamma í öllum bæjarfélögum og samt kemst barnið ekki inn á leikskóla fyrr en um 18 mánaða aldur, ef foreldrar eru heppnir.

Niðurstaða mín er svo að það eru alls ekki allir að nýta fæðingarorlofs réttinn, hvort sem það er maðurinn eða konan. Rétturinn ætti að vera barnsins að geta haft annaðhvort foreldrið heima fyrsta árið. Auðvitað ættu foreldrar að geta ráðstafað sín á milli þessum rétt eftir sínu höfði, við erum allra jafna ekki að skerða rétt hvors annars hvað annað varðar í daglegu lífi. Allir mánuðirnir ættu að vera sameiginlegir, engir eyrnamerktir og fólk ákveður fyrir sig hvað hentar þeim. Annars bara lengja þessa sameiginlegu mánuði.

Afrita slóð á umsögn

#65 Guðrún Bergsdóttir - 27.09.2020

Hér á landi er börnum mismunað frá fæðingu eftir hjúskaparstöðu og fjárhagsstöðu foreldra! Nú á að auka það! Það ætti að vera réttur allra barna hér á landi að vera heima hjá foreldri sínu fyrsta ár ævinnar óháð því hvort það er móðir eða faðir sem sinnir því. Það hlýtur að vera réttur allra barna að foreldri sé 1. val á umönnunaraðila eins lengi og því verður viðkomið. Ekki að börn einstæðra mæðra/foreldra, börn efnaminni foreldra, fá skerta samveru með foreldrum miðað við önnur börn og neyðist til að vera í gæslu ókunnugs aðila frá unga aldri eingöngu vegna þess að foreldrið sem getur verið heima er ekki af réttu kyni eða nógu fjáð! Legg til að þið farið sömu leið og t.d. Danmörk eða Svíþjóð og setjið barnið og hag þess fyrst.

Afrita slóð á umsögn

#66 Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir - 27.09.2020

Fæðingarorlof á að vera í hag barnsins og heimilis en ekki foreldra. Þess vegna ættu sameiningu mánuðir í orlofi að vera fleiri frekar en að skipta á milli foreldra mánuðum. 1 mánuður á hvort foreldri og 10 sameiginlegir væru ideal staða þá er hægt að ráðstafa orlofsins eftir hentisemi heimilisins og barnið heima í ár án þess að foreldrar séu í stresskasti yfir mánaðarlegum útgjöldum sem eru alveg jafn há og fyrir barnsburð en laukinn helmingi lægri sem er fáránleg staða. Frekar ætti að styðja við foreldra en að setja þau í þessa stöðu. Vonandi verður þetta endurhugsað.

Afrita slóð á umsögn

#67 Ásdís Alda Runólfsdóttir - 28.09.2020

Réttur til fæðingarorlofs á að fylgja barninu en ekki foreldrum!!! Það þarf að hugsa þetta algjörlega upp á nýtt. Horfið til Danmerkur t.d.

Þetta frumvarp varpar einungis sprengju í andlit verðandi foreldra en veitir svo sannarlega ekki ánægju eins og ætti að gera.

Afrita slóð á umsögn

#68 Árdís Ethel Hrafnsdóttir - 28.09.2020

Það er frábært að verið sé að lengja fæðingarorlof. Hinsvegar er það streituvaldandi fyrir foreldra að búið sé að setja þeim þessar hömlur m.t.t. fjármála heimila, brjóstagjafar og tengslamyndunar.

Það er forræðishyggja að ætla að skikka 6 mánuði á hvort foreldri og hafa einingis einn mánuð í svigrúm til að deila á milli. Þetta er réttur barnsins og foreldrum á að vera treyst til þess að deila þessu sín á milli. Betra væri að fylgja fordæmi annarra norðurlanda og hafa 3 mánuði á hvort foreldri og restinni er hægt að skipta á þann hátt sem foreldrar telja best.

Afrita slóð á umsögn

#69 Sif Steingrímsdóttir - 28.09.2020

Það er hrein forræðishyggja að ætla að skikka hvort foreldri um sig til að taka 6 mánaða orlof, og fá einungis einn frjálsan mánuð. Það á að treysta foreldrunum til að ákveða sjálf hvernig þau skipta þessum mánuðum á milli sín með tilliti til hags hverrar fjölskyldu um sig. Það er einfaldlega ekki málefnalegt að ætla að setja alla undir sama hatt því að aðstæður hverrar fjölskyldu um sig eru svo sannarlega mismunandi. Ég nefni sem dæmi ef annað foreldri er í námi / heimavinnandi / skertu starfshlutfalli eða með mun lægri tekjur en hitt foreldrið er helsta fyrirvinna fjölskyldunnar. Það liggur í augum uppi að með því að skikka það foreldri sem er fyrirvinna fjölskyldunnar í hálfs árs orlof er verið að setja fjármál fjölskyldunnar í algjört uppnám, með ófyrirséðum afleiðingum.

Jafnréttissjónarmið eru góð og gild en ég tel ekki rétt að þvinga fram jafnrétti með þessum hætti. Raunar tel ég þetta fyrirkomulag vera afturför sem mun bitna helst á barninu sjálfu, sérstaklega í þeim fjölskyldum þar sem annar aðilinn á einfaldlega ekki kost á því að taka hið þvingaða 6 mánaða orlof. Niðurstaðan er þá að annað hvort verður tekjuskerðing þess sem tekur orlofið gríðarleg (t.d. ef viðkomandi þarf að deila 7 mánaða orlofsgreiðslum á 12 mánuði, sem ég tel að verði oftast niðurstaðan) eða þá að barnið fær mun styttri tíma með foreldrum sínum en ella (í þeim tilfellum sem orlofsaðili, oftast móðir, neyðist til að fara vinna eftir þessa 7 mánuði þar sem heimilið er komið að fjárhagslegum þolmörkum) þessa fyrstu viðkvæmustu mánuði lífs síns.

Barnafjölskyldur eiga skilið að þeim sé sýnt það traust að þær geti sjálfar ákveðið hvernig best er að ráðstafa orlofinu með tilliti til hags fjölskyldunnar hverju sinni. Ég efast ekki um að í þeim tilfellum þar sem báðir foreldrar eiga jafnan kost á að vera frá vinnu í 6 mánuði verður það gert. Það er hins vegar ómálefnalegt að hunsa þarfir þeirra fjölskyldna sem ekki eiga þann kost tækan.

Afrita slóð á umsögn

#70 Oddný Þorsteinsdóttir - 28.09.2020

Hvar voru foreldarar og aðrir fagaðilar sem koma að börnum og fjölskyldum þegar þetta frumvarp var samið? Hvernig í ósköpunum eru einhliða aðilar frá atvinnulífinu þeir hæfustu til að meta hvað sé ungu barni og fjölskyldum fyrir bestu?

Að hafa aðeins einn mánuð framseljanlegan er ekki nóg til að koma til móts við mismunandi aðstæður fólks heldur setur það einmitt fólki mjög þröngar skorður og mjög takmarkaðan sveigjanleika. Ef raunverulega á að koma til móts við mismunandi aðstæður fólks þyrfti að gefa því mun meira rými til að skipuleggja sjálft hvað henti þeim og þeirra barni best. Hinsvegar er ég alveg sammála því að mikilvægt sé að báðir foreldrar komi að umönnun barns fyrstu mánuðina í lífi þess og legg ég því til sem dæmi 4 mánuði fasta á hvort foreldri og 4 mánuði sem þeir mega dreifa sjálfir á milli sín.

Þessar breytingar munu koma verst niður á tekjulágum og einstæðum mæðrum. Í þeim tilfellum þar sem foreldri barns er ekki í stöðu til að taka út orlof eða einfaldlega hefur ekki áhuga á því munu þessar breytingar ekki verða til þess að þvinga það foreldri í orlof heldur valda því að móðirin fari annahvort of snemma að vinna úti frá barninu eða þarf að dreifa orlofstekjunum með tilheyrandi tekjuskerðingu.

Að vita til þess að einstæðar mæður þar sem hitt foreldrið tekur ekki þátt í umönnun barnis þurfi að fara frá kornungu barni sínu 7 mánaða og senda það í daggæslu finnst mér ómannúðlegt! Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnun eiga börn að vera einungis á brjósti til 6 mánaða, eftir það þarf að venja barnið smá saman á mat og gera má ráð fyrir að það geti tekið um 3 mánuði, á þeim tíma er barnið ennþá á brjósti.

Er fullorðnu fólki sem er treyst til að eignast börn virkilega ekki treystandi til að meta sjálft hvernig það skiptir á milli sín orflofinu? Skiptir forræðishyggja atvinnulífsins virkilega meira máli heldur en réttur barns og foreldra til tengslamyndunar?

Afrita slóð á umsögn

#71 Anna Bergmann Björnsdóttir - 28.09.2020

- Varðandi nýja frumvarpið þá er ég ekki sannfærð. Það eru mismunandi sviðsmyndir eftir hverja einustu meðgöngu. Ég myndi vilja halda 3 og 3 mánuðum á hvert foreldri en auka sameiginlegu mánuðina í 6 mánuði og treyst foreldrum til að taka ákvarðanir varðandi þá sem myndi henta þeirra fjölskyldusniði best.

- Varðandi fjölbura og fjölburaforeldra. Ég myndi vilja sjá hærri greiðslur til fjölburaforeldra. Í dag eru 3 auka mánuði í orlof fyrir fjölburaforeldra en sömu greiðslur og fyrir eitt barn. Það er í raun ekki nógu gott þar sem að það felst mikill aukakostnaður við að kaupa tvöfalt eða þrefalt af fatnaði og barnadóti. Ég myndi hvetja ykkur til að skoða þetta sérstaklega!

Afrita slóð á umsögn

#72 Anna Bergmann Björnsdóttir - 28.09.2020

- Ég er mótfallin því að stytta eigi rétt foreldra til fæðingarorlofs úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Rétturinn eigi að haldast í 24 mánuðum.

Afrita slóð á umsögn

#73 Rebekka Líf Albertsdóttir - 28.09.2020

Það að stytta orlofstökutímann aftur niður í 18 mánuði tel ég mikla afturför. Á meðan ríki og sveitafélög geta ekki tryggt börnum leikskólapláss fyrir 18 mánaða aldur gæti þetta komið illa niður á börnum. Dóttir mín er fædd í september og því litlar líkur á að hún komist inn á leikskóla fyrr en um 23 mánaða. Eins og staðan er í dag eru sum börn tekin inn um 18 mánaða en önnur seinna. Einnig þarf að taka tillit til aðlögunar á leikskólanum, en sá tími tekur oft stóran part af vinnutíma foreldra.

Ég fagna lengingu og aukins tökuréttar feðra, en lögin þurfa að taka til fjölbreyttara fjölskyldumynsturs og kveða skýrt þar um. Varðandi yfirfærslu réttar, tel ég skilyrðin of ströng. Það að barn þurfi að vera ófeðrað eða annað foreldri að sæta nálgunarbanni er ansi strangt. Mörg dæmi eru um að annað foreldri sýni lítinn sem engan áhuga eða umgengni er stopul. Ég sé í anda einstæða móður ströggla við að sjá fyrir sér á meðan hitt foreldri er í hálfgerðu fríi í sínu orlofi eða sleppir að taka það. Í slíku dæmi ætti rétturinn að vera framseljanlegur án þess að barnavernd eða lögregla komi þar við sögu.

Það er nauðsynlegt að hafa í huga að réttur barnsins á að vera í fyrsta sæti. Barn ætti alltaf að njóta góðs af því að foreldrar taki allt orlofið. Auðvitað er fyrir bestu að báðir foreldrar nýti rétt sinn og þannig ætti það að vera í fyrirmyndardæminu. En það þarf að vera meira svigrúm fyrir einstök dæmi svo skriffinska og kerfishugsun bitni ekki á rétti barnsins.

Afrita slóð á umsögn

#74 Oddný Anna Björnsdóttir - 28.09.2020

Set hér fyrir neðan stöðufærslu af FB síðu minni frá 28.09.20 þar sem ég deili viðtali þar sem frumvarpið er gagnrýnt og segi:

"Ég tek undir þetta, enda "fórnarlamb" þessa kerfis.

Þegar yngsti sonur okkar fæddist var fyrirtæki okkar hjóna aðeins 2ja ára og Pálmi eini starfsmaðurinn. Hefði hann tekið orlof hefði þurft að loka fyrirtækinu sem kom ekki til greina. Ég var hins vegar launamaður hjá öðru fyrirtæki og þar sem annar starfsmaður leysti mig af þá hafði ég tök á því að vera lengur í orlofi en 6 mánuði.

Ég tók því á mig þá launaskerðingu að fara í 3ja mánaða launalaust leyfi sem tók á, enda á sama tíma að byggja upp fyrirtæki (og búin að vera á ríflega 300 þús kr. fæðingarorlofsgreiðslum í 6 mánuði sem var hámarkið þá). Við áttum ekki annarra kosta völ, enda kom hvorki til greina, né var það neitt val, að setja barnið í dagvistun 6 mánaða gamalt.

Auðvitað átti ég að geta nýtt mér þá 3 mánuði sem Pálmi átti rétt á vegna aðstæðna. Þetta hefði alveg getað verið öfugt.

Fæðingarorlof er réttur barnsins til að vera heima með foreldri án þess að fjölskyldan verði fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni, þá í 9 mánuði, nú sem betur fer í 12."

https://www.facebook.com/oddny/posts/10224834715685843

Virðingarfyllst,

Oddný Anna Björnsdóttir

Afrita slóð á umsögn

#75 Harpa Björnsdóttir - 28.09.2020

Mín skoðun á þessu frumvarpi um fæðingar- og foreldraorlof er að þetta sé mikil afturför fyrir fjölskyldur í landinu.

Það að hafa aðeins einn mánuð framseljanlegan hjá hvoru foreldri gerir það að verkum að margir geta ekki fullnýtt orlofið.

Ég og maðurinn minn erum dæmi um foreldra þar sem þetta á við. Við eigum von á barni snemma á næsta ári.

Þar sem ég er læknir og er því með ósveigjanlega vinnutíma og auk þess í vaktavinnu sé ég fram á að þegar ég fer aftur til vinnu þá verði brjóstagjöf sjálfhætt. Nú mælir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) með áframhaldandi brjóstagjöf með annarri fæðu í allt að tvö ár eða lengur og tekur landlæknisembætti Íslands undir þær ráðleggingar.

Þar sem ég vil gera mitt besta til að tryggja barninu mínu heilbrigt líf mun ég því þurfa að teygja þá 7 mánuði sem ég get fengið yfir lengra tímabil. Ég er nýútskrifuð úr löngu námi og fæ því lágmarks greiðslur úr fæðingarorlofssjóði, 180 þúsund. Því verðum við fyrir gríðarlegum tekjumissi þá mánuði sem ég er í orlofi. Fjárhagsstaðan verður því þannig hjá okkur þegar ég er búin í orlofi að maðurinn minn sér ekki fram á að nýta þá 5 mánuði sem hann á rétt á í orlof. (Það að finna leikskóla/dagmömmu svo snemma fyrir barnið er síðan annar handleggur). Verði þetta frumvarp samþykkt þýðir það því að við munum þurfa velja um tvo kosti. Það er að hætta brjóstagjöf algjörlega við 7 mánaða aldur eða þá að maðurinn minn fyrirgefi rétti sínum til að fara í orlof með barninu okkar.

Mér finnst að það eigi að vera sjálfsagt að foreldrar fái að skipta þessu upp eins og hentar. Aðstæður geta verið mjög mismunandi og það að setja fólki þessar skorður er engum til gagns. Ef markmiðið væri að jafna rétt mæðra og feðra á vinnumarkaði gefur það auga leið að hækka þyrfti hámarksgreiðslur.

Afrita slóð á umsögn

#76 Hildur Margrét Nielsen - 28.09.2020

Útgangspunktur með þessum lögum er því miður enn sá að fæðingarorlof sé réttindamál foreldra, þegar það á augljóslega að vera réttur barna að geta verið heima með öðru hvori foreldri sínu sem lengst. Tel ég því rangt að hvert foreldri fái ákveðinn tíma, foreldrar eiga að geta skipt þessu á milli sín eftir hvernig hentar best hverju sinni.

Ástæða þess að annað foreldri ákveður að fullnýta ekki rétt sinn til fæðingarorlofs eru nær alltaf vegna fjárhags, þar sem tekjuskerðingin er fyrir marga enn töluverð. Fyrir margar fjölskyldur tekur það mánuði eða jafnvel einhver ár að rétta sig fjárhagslega af eftir fæðingarorlof.

Afrita slóð á umsögn

#77 Kristrún María Björnsdóttir - 28.09.2020

Mín tillaga er sú að orlofsrétturinn fylgi hverju og einu barni. Fjölskyldur og aðstæður þeirra eru eins mismunandi og þær eru margar og foreldrum ætti að vera treyst til þess að finna hvað hentar sér og sínu barni. Með þessu móti væri auk þess komið til móts við foreldra sem eignast fjölbura, enda krefjast þær aðstæður oft að báðir foreldrar séu á samtímis í orlofi.

Ég fagna því að feður/hitt foreldrið fái aukin réttindi enda gegna þeir/þau oft jafn mikilvægu hlutverki í lífi barna sinna og mæður. Oft finnst mér þó gleymast í þessari umræðu að það eru mæðurnar sem ganga með börnin, fæða þau og eru svo oft með þau á brjósti. Þær þurfa tíma til að jafna sig á meðgöngu og fæðingu, en með þessari lagabreytingi er verið að setja mikla tímapressu á þær að fara aftur út á vinnumarkað eftir 6 mánuði. Af eigin reynslu af barneignum veit ég að það getur verið mjög erfitt bæði fyrir móður og barn að vera í sundur frá hvort öðru í lengri tíma þegar barn er svo ungt, bæði vegna brjóstagjafar og tilfinningalegra tengsla.

Einnig finnst mér ótímabært að ætla að stytta tímabilið niður í 18 mánuði á meðan ekki er hægt að tryggja öllum börnum dagvistun frá þeim aldri.

Afrita slóð á umsögn

#78 Kolbrún Tómasdóttir - 28.09.2020

Við foreldrar, og verðandi foreldrar, landsins tökum því eflaust öll fagnandi að nú eigi að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði. En það hlýtur að vera nokkuð ljóst að svona skipting er alls ekki það sem hentar hverri og einni fjölskyldu. Eins og undanfarar mínir hér hafa bent á að þá á þetta að vera réttur barnsins en ekki foreldranna. Hvert barn á að eiga rétt á því að heima fyrir sé foreldri sem getur hugsað um það og það á að vera í höndun foreldranna að ákveða hver er best til þess fallinn hverju sinni. Ég gæti haldið endalaust áfram af hverju þetta er mikilvægt en ég held að það sé orðið nokkuð skýrt.

Ef það á einnig að lækka þann tíma sem foreldrar geta tekið orlof úr 24 mánuðum í 18 að þá myndi mér einnig finnast það sjálfsagt mál að hægt væri að tryggja leikskólapláss fyrir öll börn við 18 mánaða aldur. Lengra fæðingarorlof er frábært og mikil framför en þarna er verið að taka þrjú skref aftur á bak.

Afrita slóð á umsögn

#79 Erla Rún Sigurjónsdóttir - 28.09.2020

Ég sem deildarstjóri fæðingadeildar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða vil koma á framfæri mótmælum mínum við ákveðinn hluta annars ágætra breytinga sem stendur til að gera á lögum um fæðingarorlof. Ég fagna þeirri lengingu fæðingarprofs sem fyrirhugað er að taki gildi um áramót, enda er hún löngu tímabær. Á hinn bóginn sé ég ekki að ströng forræðishyggja varðandi skiptingu orlofsins a milli foreldra komi neinum að gagni, allra síst ungbörnum. Á þeim 20 árum sem liðin eru síðan fæðingarorlof feðra var lögleitt hefur hugarfar í þjóðfélaginu breyst og feðrum í dag þykir flestum sjálfsagt að taka fæðingarorlof. Á hinn bóginn eru aðstæður fólks mismunandi, og nú þegar er hluti foreldra sem ekki hefur tök á því að taka sinn hluta orlofsins. Það bitnar á þeim sem síst skyldi, börnum þeirra, þar sem rétturinn er ekki framseljanlegur á milli foreldra og fellur því hluti orlofsins niður. Að auka á þessa mismunun er ekki gæfulegt. Börn hafa öll jafnan rétt á samvistum við foreldra, börn einstæða foreldra og námsmanna t. d., ekki síður en annarra. Kerfið á ekki að brjóta á rétti barna í þeim tilgangi að jafna rétt kynjanna, þó það sé annars mikilvægt baráttumál. Börnin verða að vera í fyrsta sæti.

Afrita slóð á umsögn

#80 Eygló Scheving Sigurðardóttir - 28.09.2020

Ég vil gera athugasemd við það að konur hafi ekki rétt á veikindaleyfi þegar þær jafna sig eftir fæðingu og keisara heldur þurfi að taka þann tíma sem tekur að jafna sig í af sínu fæðingarorlofi. Ég tel að þetta geri það að verkum að réttur móður sé þannig skertari en föðurs sem getur valið hvenær hann telur sitt orlof en neyðist ekki til að gera það td. rúmliggjandi eftir uppskurð. Honum er frjálst að taka það hvenær sem er en móðir verður að taka það í tvær vikur eftir fæðingu, sá tími ætti að vera undanskilin fæðingarorlofi og bætast við það foreldri sem þarf að ganga með og fæða barnið.

Ef nýfætt barn þarf að vera á vökudeild í einhverja daga af einhverjum ástæðum þá getur faðir tekið veikindaleyfi v/ veikinda barns en móðir ekki. Hún þarf að taka af sínu orlofi. Þetta er ekki jafn réttur. Við erum að búa til kerfi sem gefur móður minni rétt en föður.

Foreldrar ættu hafa meiri rétt til að ráða sjálf hvernig þau útdeila orlofi á milli hvors annars.

Afrita slóð á umsögn

#81 Rósa Marinósdóttir - 28.09.2020

Mjög gott að lengja fæðingarorlof einnig tel ég rétt að stytta tímann í 18 mánuði sem foreldrar hafa til að nýta réttinn.

Aftur á móti tel ég að foreldrar ættu að geta deilt orlofinu á milli sín í meira mæli en frumvarpið gerir ráð fyrir.

1.T.d ef móðir er einstæð þrátt fyrir að barnið sé feðrað, þá er réttlætanlegt að faðirinn afsali sér fæðingarorlofi til móður skriflega. Ýmsar ástæður geta verið fyrir að faðirinn er lítið inn í myndinni.

2. T.d ef móðir er ekki hæf vegna einhvers líkamslegs, andlegs,félagslegs ástæðna þá getur móðir afsalsð sér réttinum til föðurs.

Tel að það sé betra fyrir barnið að vera heima hjá foreldri móður eða föður en hjá dagforeldri fyrsta árið. Einstæð móðir á að fá 12 mán eins og sambúðarfólk.

Afrita slóð á umsögn

#82 Karitas Pálsdóttir - 29.09.2020

Ég fagna innilega lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði, þó fyrr hefði verið. En það er mjööög margt sem má betur fara. Ég get engan veginn séð að þeir sem setja fram þetta frumvarp hafi á einhverjum tímapunkti tekið fæðingarorlof.

Nú er ég sjálf í fæðingarorlofi og var það líka fyrir þremur árum. Á þessum tíma hef ég aldrei skilið afhverju fæðingarorlof er ekki sett upp með hagsmuni barnins í fyrirrúmi. Afhverju styður það ekki fjölskyldur og hvetur þær til að eignast börn?

Fæðingarorlofið er bara letjandi, enginn sveigjanleiki, mikil tekjuskerðing og ekki tekið tillit til mæðra á neinn hátt.

Nú þarf ekki að leita lengra en til annarra norðurlanda til að finna góða fyrirmynd þegar kemur að fæðingarorlofi. Þessir mánuðir eiga að vera eyrnamerktir barninu og það á að treysta foreldrum til að ráðstafa þeim eins og hentar hverju sinni.

Afrita slóð á umsögn

#83 Sylwia Wszeborowska - 29.09.2020

Það er frábært skref að lengja fæðingarorlofið. Hins vegar þessi frumvarp um skiptingu er út í hött. Þar er einungis verið að líta á velferð vinnumarkaðar.

Það hentar örugglega einhverjum en alls ekki öllum fjölskyldum. Hér er ekki verið spáð í velferð barna né fjölskyldunnar í heild. Það er nógu erfitt að eiga barn fjárhaldslega séð og þarf ríkið að gera það enn erfiðara? Af hverju geta foreldrar ekki ákveðið sjálfir hvað hentar best fyrir sig?

Oftar en ekki geta karlmenn ekki tekið það langt orlof, einfaldlega vegna tekjumissis heimilisins. Maðurinn minn þénar meira en ég og það er einfalt að reikna út hverjum hentar betur að verða með barnið heima. Konur eru oftast að lengja fæðingarorlofið sitt og sætta sig við lægri tekjur bara til að geta séð um barnið og sjálfa sig eftir barnsburð.

Stytting tímabils er einnig til endurskoðunar. Þó að sumir leikskólar í höfuðborginni taka á móti 18 mánaða gömlum börnum er það ekki gert allstaðar á landinu. Dagforeldrar eru einnig með takmarkað pláss, oftar en ekki erum við foreldrar á löngum biðlista eftir pláss fyrir barnið. Þá eru sumir foreldrar tekjulausir, búnir með orlofið sitt og með enga dagvistun fyrir barnið.

Það þarf að endurskoða þetta frumvarp mjög vel.

Afrita slóð á umsögn

#84 Aðalbjörg Marta Agnarsdóttir - 29.09.2020

Ég fagna þeirri breytingu, að lengja skuli fæðingarorlofið í 1 ár.

En mikið ætla ég að vona að skipting þess verði ekki ákvörðuð af ríkistjórninni eða einstaka ráðherra.

Hver fjölskylda er ólík og hefur mismunandi þarfir. Treystið okkur til að taka það fæðingarorlof sem hentar barninu okkar best hverju sinni.

Á meðan biðlistar innà leiksskóla eru tæmandi og börn fá oft ekki inngöngu i leiksskola fyrr en eftir 18 mánaða aldur, bið ég ykkur að vera ekki að stytta tímann til að taka fæðingarorlof niður í 18 mánuði. Setjið krafta ykkar heldur í að laga leiksskólamàlin áður en þið breytið hinu.

Àfram 3-3-6

Afrita slóð á umsögn

#85 Heiða Elín Aðalsteinsdóttir - 29.09.2020

Flestar rannsóknir sína að ungabörn eru háð móður sinni lengur en í 6mánuði afhverju er ekki verið að fara eftir því ?

Alla flestar rannsóknir styðja það að barn sé á brjósti sem lengst en hvernig á það að vera hægt ef móðirin er farin að heiman í vinnuna, jú með því að hún mjólki sig og faðirinn gef barninu pela en þá á ekki þessi tengsla myndun sér stað og getur verið að barnið upplifi það sem aðskilnaða og fái aðskilnaðarkvíða.

Afhverju er ekki hægt að treysta foreldrum til að skipta fæðingarorlofinu á milli sín sjálfir.

Hver eru rökin fyrir því að skipta þessu svona?

Ég vill sjálf fá að ráða hversu lengi ég get verið í fæðingarorlofi og hvaða faðirinn getur verið lengi en ekki að stjórnvöld taki þá ákvörðun fyrir mig. Finnst eins og einokurnarvaldið og forræðishyggjan sé að skína í gegn með þessu frumvarpi.

Því bið ég alla þá sem geta kosið um það að fella frumvarpið og hugsa hvað þeir myndu vilja gera í þessum aðstæðum sjálfir.

Afrita slóð á umsögn

#86 Hanna Soffía Bergmann Sverrisdóttir - 29.09.2020

1) Að foreldrar geti sjálfir tekið ákvörðun um ráðstöfun fæðingarorlofs

2) Að fjölburaforeldrar fái greiðslur úr orlofssjóðs í hlutfalli við fjölda barna. Ef par eignast tvíbura þá eigi þau rétt á 2x greiðslu á mánuði. Útgjöldin eru tvöföld fyrir tvíbura (fleiri bleyjur, meiri þurrmjolk, föt o.s.frv )

Afrita slóð á umsögn

#87 Ásta Dröfn Björgvinsdóttir - 29.09.2020

Eins og það er frábært að verið sé að lengja orlofið þá ætti skipting þess að vera í höndum foreldra. Með því að eyrnamerkja á móður og faðir er verið að taka af þeim að geta skipulagt orlofið eins og hentar hverri og einni fjölskyldu. Það hentar ekki öllum að hafa þetta skipt til helminga, nærra lagi væri að hafa þetta þrjá mánuði á hvort foreldri og sex mánuði með frjálsri skiptingu. Einnig þarf að hugsa út í einstæða foreldra, fá þeir tólf mánuði?

Best væri ef orlofið væri merkt barninu og skipting þess væri í höndum foreldra.

Afrita slóð á umsögn

#88 Guðrún Björk Freysteinsdóttir - 29.09.2020

Mér líst vel á þetta í grunninn, myndi samt vilja breyta tveimur atriðum til að vera sáttari við útfærsluna.

1. Finnst að 3 mánuðir eigi að vera skipt eins og foreldrar kjósa í stað 1 mánaðar.

2. Að auka svigrúmið á tímamörkum þegar taka skal orlof úr 18 mánuðum í 24.

Að öðru leyti hið besta mál👍🏻

Afrita slóð á umsögn

#89 Sæunn Björk Þorkelsdóttir - 29.09.2020

Um skiptingu og rétt til að framselja foreldraorlofsrétt.

Ég tel æskilegt að setja ákvörðun í hendur foreldra varðandi skiptingu fæðingarorlofs. Ef foreldrar eru færir um að eignast og ala upp börn eru þeir færir um að skipta orlofinu með skynsömum hætti út frá aðstæðum hverju sinni. Með því að halda a.m.k. þrem mánuðum til skiptanna hafa foreldrar betra tækifæri til stilla upp orlofi í takt við þarfir barnsins og fjölskyldunnar. Einn mánuður til skiptanna veitir mjög lítinn sem engan sveigjanleika á 12 mánaða tímabili. Aðstæður fólks geta verið mismunandi og breyst milli ára.

Þar tala ég sjálf af reynslu þar sem með fyrsta barn vorum við hjónin bæði í fullu starfi og við gátum því skipt fæðingarorlofinu til jafns á milli okkar, enda okkar drauma staða. Nú, þegar ég er ólétt af okkar öðru barni tveimur árum síðar hef ég misst vinnuna á meðgöngunni og vegna Covid / efnahagslegra aðstæðna er vinna maka óstöðug og árstíðabundin.

Fæðingar- /foreldraorlofsfyrirkomulagið sem við hjónin nýttum okkur árið 2018 (50/50) mun því ekki ganga upp fyrir okkur árið 2021. Með núverandi lagatillögu mun maki einfaldlega þurfa að sleppa að nýta sér foreldraorlofsréttinn að miklu leiti, taka einungis 1 mánuð og móðir fá 7 mánuði (6+1 frá maka). Barnið verður þá einungis heima með foreldrum í 8 mánuði af 12 mögulegum þar sem 4 mánuðir af orlofi maka verða ekki nýttir og barnið færi í dagvistun.

Þannig er núverandi tillaga um 1 framseljanlegan mánuð einungis til þess fallin að bitna á rétti barns til að vera lengur heima með öðru hvoru foreldri. Tillagan um að fækka framseljanlegum mánuðum í einn mun ekki tryggja jafna stöðu kynjanna í samfélaginu þar sem foreldrar geta í mörgum tilfellum einfaldlega ekki nýtt rétt sinn, þ.a.l. ekki stuðlað að jöfnum rétti kynja í samfélaginu.

Ef sannarlega ætti að jafna stöðu kynja í samfélaginu væri líklega réttara að skylda báða foreldra í orlof, það er þó hvorki ósk né tillaga undirritaðrar.

Bendi einnig á að ekki allir foreldrar eru af gangstæðu kyni og því ekki alltaf viðeigandi að tala um að tillagan stuðli að jafnri stöðu kynja.

Þó svo lagabreyting verði aldrei tekin út frá einstaka dæmum þá er mikilvægt að benda á að tilfelli okkar hjóna er eitt af fjölmörgum aðstæðum sem foreldrar eru í og núverandi tillaga stillir foreldrum upp að vegg sem í mörgum tilfellum mun einungis bitna á barninu.

Auk þess vil ég benda á mikilvægi þess að breyta orðinu „föður“ í „maki“ þar sem ekki einungis gagnkynhneigð pör eignast börn.

Með þökk fyrir áheyrnina,

Sæunn Björk Þorkelsdóttir

Afrita slóð á umsögn

#90 Þóra Marý Arnórsdóttir - 29.09.2020

Eins mikið og ég fagna því að fæðingarorlof sé að lengjast í 12 mánuði, sem er bara algjörlega nauðsynlegt, þá garnrýni ég harðlega skiptingu fæðingarorlofs á milli foreldra. Ég tel mig 100% talsmaður jafnræðis kynjanna en þegar kemur að barneignum þá gefur móðir náttúra okkur ekkert val, því miður. Aðeins konur geta gengið með barn og eingöngu mæður geta gefið börnum brjóst, og ég held að ég þurfi ekki að benda á mikilvægi brjóstagjafar, það ætti að vera öllum ljóst.

Í nútíma samfélagi erum við sífellt að tala um að það sé ekki hægt að steypa öllu fólki í sama mót, við erum öll mismunandi eins og við erum mörg, með mismunandi skoðanir, þarfir og þess háttar. Undanfarin ár hefur mikilvægt vinna verði unnið til að skólakerfið geti mætt ólíkum þörfum nemenda þannig að það henti öllum. Hvernig er ekki hægt að sjá að það nákvæmlega sama á við um ungabörn? Fjölskyldur eru ólíkar, foreldrahlutverk og það hvernig fólk skiptir með sér verkum er ólíkt, börn hafa ólíkar þarfir og þeim gengur misvel að aðlagast lífinu utan móðurlífs, vaxa og dafna. Og það má heldur ekki gleyma því að meðgöngur eru misjafnar, fyrir utan þá augljósu staðreynd að aðeins konur geta gengið með barn!

Líkami kvenna framkvæmir kraftaverk í hvert sinn sem hann skapar líf, við meðgöngu og fæðingu hvers barns og eðlilega tekur tíma fyrir líkamnann að jafna sig eftir það. Grindargliðnun, stoðkerfisvandi, andleg vanlíðan, meðgöngu- og/eða fæðingarþunglyndi, brjóstagjöf, erfið brjóstagjöf, tengslavandi og svo margt fleira getur spilað inn í hversu langan tíma móðir þarf til að jafna sig og vera tilbúin í fulla vinnu.

Ég er alls ekki að halda því fram að tengslamyndun barana við feður sína sé síður mikilvægt og er algjörlega talsmaður þess að þeir taki fæðingarorlof og séu þáttakendur í umönnun og uppeldi barna sinna. En á sama tíma eru bara hlutir sem feður geta ekki sinnt í tengslum við þetta sbr. meðganga, fæðing og brjóstagjöf og líkamar þeirra þurfa ekki tíma til að jafna sig.

Það sem ég vil koma á framfæri er þetta: Er okkur foreldrum, í alvöru, ekki treystandi til að taka ákvarðanir út frá barninu, fjölskyldunni, stöðu fjölskyldunnar og eigin líðan, um það hvernig við skiptum fæðingarorlofi á milli móður og föður?! Það má vel vera að umrædd skipting fæðingarorlofs henti einhverjum foreldrum og það er algjörlega frábært ef fólk hefur tök á að skipta þessu svona jafnt á milli sín. En það á bara ekki við um alla, og í raun held ég að það eigi við um fáa, því miður! Sem verðandi móðir, þriðja barns, þá krefst ég þess að þetta verði endurskoðað og tekið verður tillit til sjónarmiða foreldra, mæðra og feðra. Fæðingarorlof á að fylgja barninu en ekki foreldrunum, taka mið að velferð barna en ekki hagfræðilegu sjónarmiði. Reglurnar eiga að taka mið af þörfum barna en ekki hvað hentar atvinnulífinu best, eða að sú forsenda sé fyrirfram gefin að feður séu almennt tekjuhærri en mæður. Út frá tekjum heimilisins er það engin óskastaða fyrir foreldra að taka fæðingarorlof í 9-12 mánuði en foreldrar gera það með hagsmuni barna sinna að leiðarljósi og ekki síður hagsmuni fjölskyldunnar að leiðarljósi þar sem tengslamyndun við nýfætt barn skiptir gríðarlegu máli fyrir barn og foreldra.

Virðingarfyllst,

Þóra Marý Arnórsdóttir, verðandi þriggja barna móðir og þroskaþjálfi.

Afrita slóð á umsögn

#91 Torfi Geir Símonarson - 29.09.2020

Fæðingarorlof ætti að vera réttur barns til umönnunar. Ekki réttur fullorðins fólks til umgengni við nýfætt barn sitt.

Hvert barn ætti að eiga rétt á 12 mánaða orlofi foreldra til að annast sig. Hvernig foreldrar skipta orlofinu sín á milli kemur ríkisvaldinu einfaldlega ekki við.

Aðstæður fólks eru mismunandi, sveigjanleiki fólks í starfi er mismunandi. Fjárhagsaðstæður eru mismunandi. Það hentar ekki öllum að taka sitt hvora 6 mánuðina. Móðir sem er ekki í brjóstagjöf einhverra hluta vegna og þénar meira til heimilis velur kannski að vinna meira á meðan faðir tekur lengra orlof - faðir sem er í sveigjanlegri vinnu getur hugsanlega gefið eftir sitt orlof en eytt meiri tíma heima í samkomulagi við vinnuveitanda. Hver veit? Ekki þekki ég aðstæður allra, og þá síður íslenska ríkið. Fyrir margar fjölskyldur er betra að annar aðilinn taki á sig 80% laun í eitt ár en hinn aðilinn vinni fulla vinnu - og fyrir margar fjölskyldur er þetta hreinlega nauðsynlegt til að ná endum saman.

Umönnun barns fer líka ekki síður fram eftir kl. 16 á daginn. Það er furðuleg mýta að halda að foreldri sem starfar áfram og tekur stutt fæðingarorlof umgangist barnið sitt ekki neitt. Börnin eru nefnilega líka til staðar frá 16 síðdegis til 08 á morgnana og þurfa ekki síður umönnun á þeim tíma.

Grundvallaratriðið er að íslensk stjórnvöld hafa ekki nokkrar forsendur til að ákveða fyrir íslenskar fjölskyldur hvernig þær hafa sitt fæðingarorlof og ættu þar af leiðandi að hafa sem minnst um það að segja. Íslensk stjórnvöld ættu að einbeita sér að því að bjóða nýfæddum börnum upp á 12 mánaða skilyrðislausa umönnun óháð því hvort foreldrið tekur meginhluta af þeim greiðslum sem boðið er upp á.

Það er skömm af því að enn og aftur ætli ríkisvaldið að setja skorður á frelsi fólks undir þeirri yfirskrift að með því sé verið að stuðla að jafnrétti. Enn og aftur eru jafnréttissjónarmið sem standast enga skoðun tekin framar en réttur barns til umönnunar.

-Tveggja barna faðir, í fæðingarorlofi.

Afrita slóð á umsögn

#92 Viktor Jón Helgason - 29.09.2020

Leyfið foreldrum að ákveðja skiptingu í sameiningu. Ekki þvinga annað foreldri í fæðingarorlof ef það hentar þeim illa.

Afrita slóð á umsögn

#93 Margrét Albertsdóttir - 29.09.2020

Fullorðið fólk er fullfært um að àkveða hvernig orlofinu er hàttað og gera það flestir út frà því sem best er fyrir barnið og fjölskylduna. Vonandi geta foreldrar skipt þessu jafnt en það eru fleiri breytur sem spila þar inn í og ólík staðan hjà hveri fjölskyldu fyrir sig.

Barnið à að fà þessa 12 mànuði skilorðislaust, àn þess að það sé bundið við foreldra því stundum er aðeins einn foreldri.

Afrita slóð á umsögn

#94 Halla Halldórsdóttir - 29.09.2020

Fæðingarorlofið ætti að vera 12 mánuðir á barn en ekki á foreldra. Barn á að vera 6 mánuði á brjósti, mæður eru líklegri að fá fæðingarþunglyndi, þær geta lent í erfiðri fæðingu/keisara og þá eru 6 mánuðir ekki nóg. Vonandi verður þetta næsta skref að eyrnamerkja barninu fæðingarorlofið en ekki foreldri/foreldrum.

Afrita slóð á umsögn

#95 Thelma Lind Steingrímsdóttir - 29.09.2020

Legg til að orlofsmánuðirnir verði réttur barnsins oh bundinn við kennitölu þess. Það er svo í höndum forsjáraðila að ákveða hvernig þeim er ráðstafað.

Ef töku orlofs skal lokið fyrir 18 mánaða aldur verður að vera hægt að tryggja börnum dagvistun fyrir þann tíma, sem er því miður ekki raunin í dag.

Afrita slóð á umsögn

#96 Ríkey Kjartansdóttir - 29.09.2020

Verandi sjálf í fæðingarorlofi þessa dagana þar sem að ég dreifði mínum og sameiginlega réttinum, samtals 6 mánuðir á 12 mánuði með tilheyrandi tekjuskerðingu fyrir heimilið, finnst mér mjög mikilvægt að foreldrum sé sjálfvaldsett við ráðstöfun þeirra mánuða sem er í boði. Mitt álit er það að móðir og faðir eigi að fá 3 mánuði fasta hvort en sameiginlegi rétturinn verði 6 mánuðir og foreldrum sé treyst fyrir því að gera það sem henti þeirri fjölskyldu og fjölskylduhögum á hverjum tíma. Þess má geta að maðurinn minn hefur í bæði skiptin nýtt sitt fæðingarorlof. Ég fór að vinna eftir 8 mánuði frá fyrsta barni og fannst það of snemmt, ég var ekki tilbúin. Núna tók ég 12 mánuði í orlof en þar sem get bara spilað úr 6 mánuðum verðum við fyrir mikilli tekjuskerðingu við það. Eðlilegra væri að gera foreldrum kleyft að raða orlofsmánuðunum niður á milli sín þannig að fjárhagurheimilisins haldist sem stöðugastur á meðan á þessu tímabili stendur því það skiptir gífurlegu máli að þurfa ekki að hafa fjárhagsáhyggjur ofan á það að eignast nýtt barn, það eitt og sér er mikið álag.

Afrita slóð á umsögn

#97 Elísa Sverrisdóttir - 29.09.2020

Mér finnst óskiljanlegt að foreldrar fái ekki að ráðstafa orlofinu eftir því hvað hentar hverjum og einum. Það mætti vera lágmarks fjöldi mánaða sem búið er að ráðstafa eins og 3 mánuðir á móðir og 3 á föður en aðrir mánuðir ættu að vera sameiginlegir og ættu að ráðstafast eins og best kemur út fyrir BARNIÐ hverju sinni. Mælt er með brjóstagjöf til 12 mánaða aldurs barns en svona fyrirfram ákveðin ráðstöfun á orlofi gerir foreldrum erfitt fyrir að láta það ganga upp.

Ég er einnig mjög ósammála að stytta tímarammann sem foreldrar hafa til að nýta fæðingarorlofið og eru 24 mánuðir algjört lágmark. Mismunandi aðstæður geta verið fyrir því að foreldrar þurfi að geyma hluta orlofs og taka út seinna. Einnig virðist ekki vera sjálfgefið að barn sé komið á leikskóla fyrir 18 mánaða aldur.

Afrita slóð á umsögn

#98 Rósa Dögg Gunnarsdóttir - 29.09.2020

Ég vil byrja á að lýsa ánægju með að það sé loksins að verða að veruleika að fæðingarorlofið verði 12 mánuðir, löngu tímabært skref.

En þessi skipting sem lagt er upp með finnst mér bara merki um þvílíka forsjárhyggju ráðamanna og er alls ekki með þarfir barnanna að leiðarljósi. Fæðingarorlof á að sjálfsögðu að vera réttur barnsins til að vera heima í umsjá foreldris, hvort sem er móður eða föður, eins lengi og unnt er. Í sumum tilvikum er 50/50 skipting á milli foreldra besta lausnin, en fjölskyldur og þeirra aðstæður eru jafn misjafnar og þær eru margar og að sjálfsögðu ættu foreldrarnir að vera í bestu aðstöðunni til að meta hvað er best fyrir þeirra barn og þeirra fjölskyldu. T.d. eru mörg börn ennþá á brjósti við 6 mánaða aldur enda mælir Landlæknir með að börn nærist eingöngu á brjóstamjólk fyrstu 6 mánuðina en síðan sé fastri fæðu bætt smá saman við samhliða brjóstamjólkinni til a.m.k. eins árs aldurs. WHO talar meira að segja um að börn ættu að vera á brjósti fyrstu 2 ár lífsins. Ég sé ekki fram á að mæður geti farið eftir þessum leiðbeiningum ef þær eru skikkaðar út á vinnumarkaðinn að 6 mánuðum loknum. Þó að hægt sé að mjólka og hitt foreldrið gefi þá brjóstamjólk í pela þá eru góðar líkur á að kona missi mjólkina við þessar aðstæður.

Fyrstu vikurnar í lífi barns er móðirin sem gekk með og fæddi barnið oft enn að jafna sig eftir meðgöngu og fæðingu og jafnvel skurðaðgerð og því þörf á báðum foreldrum heima, hitt foreldrið þá að sinna bæði barni og móður. Mér finnst því að það ætti að vera sjálfsagt að fyrsta mánuð eftir fæðingu væru báðir foreldrar í orlofi án þess að stytta heildar fæðingarorlofið.

Mín tillaga væri því sú að fyrsta mánuðinn væru báðir foreldar í orlofi og síðan að þeim tíma loknum fengið BARNIÐ rétt á 11 mánaða fæðingarorlofi sem foreldrar gætu skipt sín á milli eins og hentar þeirra fjölskyldu best. Ef yfirvöld treysta ekki foreldrum til að taka þessa ákvörðun með hag barnsins að leiðarljósi er spurning hvort þeim sé yfirhöfuð treyst fyrir forsjá barnsins.

Afrita slóð á umsögn

#99 Bryndís Björnsdóttir - 29.09.2020

Það er ánægjulegt að sjá og í takt við tíðarandann í dag að auka fæðingarorlofið í 12 mánuði. Hins vegar er skrýtið að sjá að foreldrum sé ekki treyst fyrir að haga þessu tímabili, fyrstu 12 mánuðum í lífi barnsins síns, eins og hentar hverri fjölskyldu, heldur að það sé neglt niður í lög eins og það sé bara ein leið, ein skipting sem er betri en önnur þegar kemur að umhyggju nýfædds barns.

Heilt yfir í þessu frumvarpi og í takt við markmið þess (2. gr. Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir við báða foreldra. Þá er lögum þessum ætlað að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf) þá hefði ég viljað sjá meiri áherslu á rétt barnsins í orðalagi og áherslum þess, en flestar málsgreinar (nema þó þessar fyrstu) snúa nær eingöngu að rétti foreldra.

Í því samhengi þá langar mig að vekja athygli á líklega fámennum hóp, en börnum engu að síður, sem falla ekki inní flestar þær greinar sem þetta frumvarp nær yfir og eru það íslensk börn, íslenskir ríkisborgarar sem fæðast erlendis en flytja til Íslands á fyrstu mánuðum í þeirra lífi.

Aðstæður foreldra á vinnumarkaði eru ýmsar og algengt nú til dags að fólk vinni hluta til eða að öllu leyti erlendis í styttri eða til lengri tíma. Til að skýra mál mitt, tek ég sjálfa mig sem dæmi en ég bjó erlendis í nokkur ár ásamt íslenskum maka mínum, starfaði þar einnig í nokkur ár og hafði unnið mér inn réttindi í því landi til töku fæðingarorlofs þegar barn okkar fæddist. Hins vegar eru lögin í landinu sem um ræðir allt önnur en á Íslandi og fæðingarorlofið fyrir mæður einungis örfáar vikur, eða einungis tæpur þriðjungur þess sem er/var á Íslandi og feður hafa engan rétt til fæðingarorlofs. Svo æxlast hlutirnir þannig að við fjölskyldan flytjum aftur til Íslands þegar barnið er 5 mánaða gamalt, og þrátt fyrir að við foreldrarnir höfuðum bæði starfað á íslenskum vinnumarkaði í 10- 15 ár hvort um sig á Íslandi fyrir fæðingu barns - en þó ekki árin rétt á undan -þá áttum við engan rétt til fæðingarorlofs né fæðingarstyrks við komuna til Íslands - þar af leiðandi náðu markmið laganna ekki yfir barnið okkar, sem þó er íslenskur ríkisborgari.

Heilt yfir þá tel ég að áherslan í lögunum um vinnuframlag á íslenskum vinnumarkaði rétt fyrir fæðingu vera alltof mikil, og ekki í takt við tíðarandann í dag þar sem fólk, verðandi foreldrar, dvelja oft til styttri eða lengti tíma erlendis. Því legg ég til að þegar íslensk börn, íslenskir ríkisborgarar, fæðast á erlendri grundu en flytjast svo til landsins og fá lögheimili á Íslandi, að markmið þessara laga um að tryggja rétt barns til samvista við foreldra sína og að gera foreldrum kleift að samræma vinnu-og fjölskyldulíf -eigi einnig við um þessi börn og tryggi foreldrum þeirra rétt til fæðingarorlofs/styrks í takt við íslensk lög ef búsett á Íslandi, þrátt fyrir að hafa unnið sér inn lögmæt réttindi til þess í öðru landi. Þ.e. tryggi lengd orlofsí takt við þessi lögu þó það sé umfram það sem lögin í fæðingarlandi barnsins segja til um. Með því væri verið að setja hagsmuni barnsins í forgang og auka þannig mátt þessara laga gagnvart nýfæddum íslenskum ríksborgurum og fjölskyldum þeirra á Íslandi.

Þó svo að fjárhagslegt öryggi barnsins míns hafi ekki verið í hættu, þá var sú staðreynd að annað foreldrið var algjörlega tekjulaust í marga mánuði óþægileg pressa á meðan á "fæðingarleyfinu" stóð, sem ýtti báðum foreldrum fyrr út á vinnumarkaðinn heldur en þau hefðu kosið og ósanngjarnt gagnvart barninu að mínu mati. Það eru eflaust fá nýfædd íslensk börn sem falla inní þennan hóp þegar á heildina er litið, en tel mikilvægt að þessi fámenni hópur gleymist ekki, frekar en einhverjir aðrir minni hópar sem falla utan þess hefðbunda sem þessi lög eiga að ná yfir. Með vinsemd og virðingu og von um að umsögn verði tekin til skoðunar.

Afrita slóð á umsögn

#100 Hallbera Eiríksdóttir - 30.09.2020

Ég vil byrja á að fagna því að fæðingarorlof sé lengt.

Ég er hinsvegar sammála flestum sem hafa skilað inn umsögn um að það ætti ekki að eyrnamerkja alla mánuðina öðru hvoru foreldrinu. Í dag er hvort foreldri með 4 mánuði og svo 2 sameiginlegir, hvers vegna ekki bara að fjölga sameiginlegu mánuðunum til að allir haldi þeim réttindum sem eru komin í dag? Best væri þó að fæðingarorlof fylgdi barninu en ekki foreldrunum. Ég þekki fáa feður sem leyfa sér að taka alla sína mánuði í orlof og því myndu margir mánuðir vera ónýttir, mánuðir sem barnið myndi njóta góðs af að hafa foreldri sem umönnunaraðila. Það eru aðallega feður sem eiga maka með góðar tekjur sem leyfa sér að taka orlof því þegar allt kemur til alls snýst þetta að miklu leyti um tekjuskerðingu í orlofi. Hækkun á tekjuþaki myndi miklu frekar hvetja feður til að taka orlofið sitt en að eyrnamerkja þeim fleiri mánuði.

Að sama skapi þykir mér stytting tíma sem leyfilegt er að taka orlof einnig vera tímaskekkja. Flest sveitarfélög eru ekki að taka börn inn á leikskóla fyrr en 18-24 mánaða (jafnvel síðar ef árgangar eru stórir) og á meðan dagforeldrakerfið er ekki jafn aðgengilegt og raun ber vitni eru mörg börn á flakki milli umönnunaraðila (foreldra, ömmu/afa) þangað til þau komast á leikskóla. Á meðan ekki er hægt að tryggja fast pláss í daggæslu þegar fæðingarorlofi lýkur verður að vera meiri sveigjanleiki í boði til að brúa bilið.

Afrita slóð á umsögn

#101 Kvenréttindafélag Íslands - 30.09.2020

Í viðhengi er umsögn Kvenréttindafélag Íslands um drög að frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof.

bestu kveðjur, Brynhildur

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#102 Guðrún Álfheiður Thorarensen - 01.10.2020

Réttur fjölbura

Ég fagna þessu frumvarpi en langar til þess að minna á stöðu tvíbura og annara fjölbura og fjölskyldna þeirra.

Það skítur skökku við að systkini með sama afmælisdag hafi ekki sama rétt til umönnunar og samvista við foreldra eins og systkini fædd á sitthvoru árinu. Réttur fjölbura til umönnunar frá foreldrum er í raun skertur miðað við rétt annara barna.

Þrír mánuðir aukalega fyrir hvert barn duga mjög skammt og er mun styttri tími heldur en á öðrum norðurlöndum. Mér finnst það vera augljóst að þennan tíma þarf að lengja.

Í fyrsta lagi til þess að foreldrar geti deilt með sér verkum fyrsta árið. Umönnun fjölbura er mjög krefjandi fyrstu árin og er alls ekki eins manns verk. Meðganga og fæðing er öðruvísi heldur en með eitt barn og oft er móðir lengi að jafna sig. Fjölburar eru mjög oft fyrirburar sem þurfa mjög mikla umönnun fyrstu vikurnar. Það er þekkt að ungbörn vakna oft á nóttunni. Séu börnin fleiri en eitt skerðist svefn foreldra gríðarlega. Það er ekki óalgengt að tvíburaforeldrar vakni ca 6 sinnum á nóttu fyrstu 6 mánuðina. Það er þekkt staðreynd að fjölburaforeldrar séu í áhættuhóp fyrir fæðingaþunglyndi, fjárhagsáhyggjum, streitu og kulnun. Við sem samfélag ættum að koma til móts við þennan hóp í stað þess að ýta fólki fram á ystu brún.

Í öðru lagi er það því miður svo að það er mun erfiðara að fá pláss hjá dagforeldrum eða á leikskóla fyrir tvö eða fleiri börn heldur en fyrir eitt barn. Líkurnar á því að 2-3 pláss opnist skyndilega hjá sama aðila á öðrum tímum heldur en að hausti eru ekki miklar og foreldrar því bundnir að því að vera heima launalausir þar til dagvistun er í hendi.

Afrita slóð á umsögn

#103 Særún Ósk Böðvarsdóttir - 01.10.2020

Gott og blessað að auka jafnan rétt foreldra til fæðingarorlofs.

Samkvæmt lögunum fær móðir alla mánuðina ef hún getur ekki feðrað barn. Hinsvegar vantar tilfinnanlega útfærslu við þá stöðu þegar móðir feðrar barn en faðirinn kýs að taka ekki þátt í uppeldi barnsins. Þar með falla niður þeir mánuðir sem faðirinn á í orlof og móðirin getur einungis nýtt sér sína mánuði sem og þá sameiginlegu.

Eins og frumvarpið er núna þá hvetur það hreinlega til þess að kona í þessari stöðu komi sér hjá því að feðra barnið þar til hún hefur lokið fæðingarorlofi, hreinlega ljúgi að kerfinu.

Þetta stendur mér nær þar sem ég er í fæðingarorlofi sem stendur. Ég feðraði barnið mitt en faðirinn tekur ekki þátt á þann hátt að hann taki fæðingarorlof og má ekki leyfa mér að nýta þá. Ég fæ því 6 mánuði í orlof með barninu mínu. Ég hef þá tvennt í stöðunni, fara að vinna að þeim loknum og barnið fer til dagforeldris sem kostar óheyrilega mikið fyrir einstæðing eða að dreifa mínum sex mánuðum á fleiri og fá þar með skelfilega lága upphæð greidda úr fæðingarorlofssjóði á mánuði. Ég valdi seinni kostinn, ég er með framhaldsmenntun úr háskóla og starfa sem sérkennslustjóri í leikskóla sem gefur mér 250.000kr útborgaðar í orlofinu. Það gefur auga leið að það er ansi erfitt að lifa á þessum tekjum.

Þessi lög eru því langt því frá sanngjörn eða stuðla að jafnrétti fyrir alla foreldra og öll börn.

Afrita slóð á umsögn

#104 Erla Rut Valsdóttir - 01.10.2020

Ég vil byrja á að segja að ég er mjög ánægð með lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði.

Sá þetta út í fyrra þegar talað var um það inn á vef framsóknarflokksins og ákvað að stíla barneign inn á þetta.

En svo er frumvarpið að gera fólki mjög erfitt fyrir sem er í sjálfstæðum rekstri og er eitt að vinna fyrir fyrirtækið sitt. Það fólk getur ekki tekið 6 mánaða fæðingarorlof og því betra að leyfa makanum að taka meirihluta orlofsins. Fyrirtækið myndi missa alla viðskiptavini sína á þessum tíma, og því myndi sjálfstætt starfandi aðilinn aldrei nýta sér alla mánuðina. Ekki er alltaf hægt að ráða starfsmann inn hjá sérhæfðum fyrirtækjum.

Því vil ég að þið endurskoðið að hafa 1 mánuð til skiptana, það þarf fleiri mánuði til skiptana svo fólk geti hagað fæðingarorlofinu eins vel og kostur er.

Niðurgreiðsla hjá dagforeldrum byrjar í dag ekki fyrr en eftir 9/10 mánuði, við lengingu á fæðingarorlofi þá mun þetta væntanlega breytast í 12 mánuði, svo niðurgreiðslan byrjar við 12 mánaða aldur barnins og því þarf makinn að skipta fæðingarorlofinu á fleiri mánuði og fá ennþá lægri tekjur og þá nokkrir mánuðir sem eru ónýttir hjá sjálfstætt starfandi aðilanum á móti sem falla þá niður.

Endilega skoðið að hafa fleiri mánuði en 1 til skiptana fyrir foreldra sem eru í mismunandi aðstöðu.

Afrita slóð á umsögn

#105 Guðbjörg L. Grönvold Jónsdóttir - 01.10.2020

Hvað með fólkið sem lendir á milli og nær ekki þeim kröfum sem fæðingarorlofssjóður setur? er ekki í samfelldri vinnu akkúrat á tímanum sem sjóðurinn reiknar með.

Mér finnst að það þurfi að setja lágmarks fæðingarorlof fyrir alla sem er helst yfir lágmarkslaunum því flestir vita að það tekur á að koma með barn í heiminn og peningaáhyggjur eru ekki til að bæta ástandið. Það er ekkert lítið mál að koma með barn í heiminn og tekur bæði á heilsu og fjármálin. Er það ekki barninu fyrir bestu að nýbakaðir foreldrar þurfi ekki að vera með blæðandi magasár af fjárhagsáhyggjum ofan á allt? Fæðingum fer fækkandi enda dýrt að búa á Íslandi og fólk er farið að hugsa sig tvisvar um hvort það hafi yfir höfuð efni á að fjölga mannkyninu. Kannski er það stefna stjórnvalda að fækka fæðingum og flytja frekar inn ódýrt vinnuafl.

Ég legg til að lágmarks fæðingarorlof fyrir alla sem hafa verið í námi eða vinnu á Íslandi í ákveðinn tíma og hafa greitt af því skatta og gjöld og hafa lögheimili og íslenskan ríkisborgarararétt öðlist þannig rétt til 400.000 kr. lágmarksorlofs en að hámarki 700.000 kr. á mánuðu.

Ég kem aldrei til með að nýta mér fæðingarorlof aftur þar sem ég er hætt barneignum en mér sárnar að vita til þess að það séu nýbakaðir foreldrar sem eru að ströggla með ungabarn, eins og það sé ekki nógu mikið álag bara það að koma með barn í heiminn og annast það, að hafa síðan áhyggjur að geta ekki keypt handa því þurrmjólk eða bleyjur? Eða vera vannærður sjálfur eða í áhættu með húsnæði.

Styðjum við fólk og fjölskyldur sem fórna heilsu og fjármálunum sínum með barneignum og setjum lágmarkið hærra!

Kv. Guðbjörg

Afrita slóð á umsögn

#106 Lilja Karen Kjartansdóttir - 01.10.2020

Sveigjanleiki ætti að vera algjört lykilatriði þegar kemur að fæðingarorlofi. Þannig þætti eðlilegra að setja upp fæðingarorlof þannig: 3-3-6 eða 4-4-4. Þá eru hagsmunir barnsins í fyrirrúmi þar sem aðstæður foreldra eru misjafnar en um leið hvatning til staðar fyrir foreldra til að skipta fæðingarorlofi jafnt á milli sín.

Afrita slóð á umsögn

#107 Þóra Ósk Böðvarsdóttir - 01.10.2020

Samkvæmt World Health Organization og nýjustu rannsóknum á sviði næringu og heilsu ungabarna er mælt með því að barn sé haft á brjósti til amk 12 mánaða aldurs. Það þarf að vera meiri sveigjanleiki í skiptingu fæðingarorlofs en einnig ætti að lengja tímann til að mæta þörfum ungabarna. Rannsóknir hafa margsannað ávinning þess, sjá Svíþjóð með sitt fyrirmyndarkerfi.

Og talandi um jafnréttismál, annað sem þarf að vera á hreinu er löggjöf sem tengist rétt móður á vinnumarkaði til þess að pumpa mjólk fyrir barn sitt, sem augljoslega fær ekki móðurmjólk meðan móðirin er í vinnunni. Þá þarf vinnumarkaðurinn að vera í stakk búinn að mæður fái bæði rými ì algjöru næði og tíma til þess að pumpa sig. Mjólkandi móðir þarf að pumpa á 2-3 klst fresti og alls ekki sjaldnar til þess að viðhalda mjolkurframleiðslu og geta séð barni sínu fyrir nægri mjólk.

Pumpur og aukahlutir er einnig dýrt og þyrfti löggjöf sem styður jafnrétti þá að innihalda styrki á slíkum kaupum.

Ég hvet ykkur til að kynna ykkur brjóstagjöf, næringu ungabarna, tengslamyndun og allt sem þessu tengist áður en þetta mál fer í gegn því eins og tillagan er núna virðist það ekki hafa verið gert.

Afrita slóð á umsögn

#108 Sigurður Árnason - 01.10.2020

Í viðhengi er umsögn Byggðastofnunar um drög að frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#109 Birgitta Jeanne Sigursteinsdóttir - 01.10.2020

Nú mun ég eignast barn á allra næstu dögum og ég hefði aldrei trúað hversu erfitt þetta fæðingarorlofskerfi er á Íslandi. Afhverju stemmir fæðingarorlof ekki við tímann sem börn fá pláss á leikskóla? Auk þess er algengt að mæður lengi orlofið sitt með því að taka minni prósentu í fleiri mánuði. Þetta hyggst ég gera þar sem það er mjög mikilvægt fyrir mig að vera með barnið á brjósti (og það er reyndar vegna læknisfræðilegra ástæðna í mínu tilfelli). Ég verð þá með um 130.000 krónur á mánuði í 60% fæðingarorlofi. Þetta gerir mig auðvitað mjög fjárhagslega háða barnsföður mínum svo það má deila um hversu mikil kvenréttindi og jafnrétti felst í slíku.

Væri ekki nær t.d. að tryggja lágmarksupphæð sem væri hægt að lifa af fyrir alla sem eignast barn án svona flókinna skilyrða um tíma á vinnumarkaði útfrá tímabilum þegar fólk var kannski ekki einu sinni í barneignarhugleiðingum, á lágum eða engum launum eða jafnvel í fæðingarorlofi á 80% launum? 80% af 80% launum er nefnilega orðið ansi lítið. Það er einnig afturför að stytta tímann sem foreldrar geta nýtt sér sína mánuði, fjölskyldur er allskonar, með mismunandi þarfir og því þarf að vera sveigjanleiki í þessum málum en ekki forræðishyggja þar sem er gert ráð fyrir að eitt henti öllum. Börn komast ekkert alltaf 18 mánaða á leikskóla, ef það væri tryggt væri þetta etv annað mál. Dagmömmupláss eru af skornum skammti, dýr og barist um hvert sæti. Það þarf átak í að stemma fæðingarorlofskerfið við dagvistunarúrræði barna.

Mánuðirnir ættu svo mun frekar að vera eyrnamerktir barninu frekar en foreldrum. Þannig gætu fjölskyldur gert það sem þeim hentar best. Ef þið verðið endilega að eyrnamerkja mánuðina hvoru foreldri fyrir sig (sem hvatningu til feðra að taka orlof væntanlega) væri 4-4-4 þá mun sanngjarnara kerfi sem kæmi betur til móts við fólk.

Annars er gleðilegt að fæðingarorlofið sé að lengjast enda er mikilvægt að barn fái mikla athygli og umönnun á þessum fyrstu árum og því ber að fagna.

Afrita slóð á umsögn

#110 Arndís Magnúsdóttir - 01.10.2020

Á meðan það er einungis 12 mánuðir til skiptana þá tel ég að skiptingin 4-4-4 sé mun eðlilegri þegar tekið er mið að jafnréttissjónarmiði. Kona er enn að jafna sig 6 mánuðum eftir fæðingu. Barn er enn eingöngu á brjósti til 6 mánaða aldurs. Geta karlar gefið brjóst?

Flestar konur sem taka fæðingarorlof þurfa að dreifa greiðslum á 9-12 mánuði.

Sem kona í fæðingarorlofi. Þá tel ég þessi 6-6 skiptingu á engan hátt vera jöfn.

Afrita slóð á umsögn

#111 Anna Bergljót Thorarensen - 01.10.2020

Lágmarks fæðingarorlof er afskaplega lágt. Það skýtur skökku við að sjá að fæðingarorlof er mun lægra en til dæmis atvinnuleysisbætur en þó eiga flestar íslenskar fjölskyldur erfitt með að ná endum saman á atvinnuleysisbótum einum og sér.

Útreikningur á fæðingarorlofi getur einnig verið mjög ósanngjarn. Ef ég tek bara sjálfa mig sem dæmi þá er ég verktaki. Þar sem ég varð ófrjó eftir tvö utanlegsfóstur tókst mér að tímasetja fæðingu annarrar dóttur minnar alveg fullkomlega, þ.e. ég var búin að vera á fullum launum allt árið áður en hún fæddist. Ég skráði jafnvel á mig hærri laun en ég í raun fékk og greiddi þar af leiðandi hærri skatta þetta ár til að ná upp í hámarks fæðingarorlof, 600,000 krónur á mánuði. Ég og maðurinn minn skiptum fæðingarorlofinu jafnt, 4,5 mánuðir á mann, en þar sem 9 mánuðir ná alls ekki að brúa bilið á milli fæðingu og plássi hjá dagmömmu (fædd í júlí, komst inn hjá dagmömmu í september árið eftir) var ég á hálfu fæðingarorlofi í 9 mánuði. Þannig rétt náðum við að vera heima þar til dagmamman tók við.

Í millitíðinni mætti covid á svæðið og þar sem ég er leikari með sjálfstæðan leikhóp sem ekki hefur gert annað en að tapa peningum þetta síðastliðna ár fer ég beint á atvinnuleysisbætur þegar fæðingarorlofinu lauk. Þar er ég á hámarksbótum, 289,510 kr. á mánuði. Ef fram fer sem horfir eru þetta þau laun sem ég verð á fram að fæðingu næsta barns sem er væntanlegt til okkar í mars 2021. Fæðingarorlofs reiknivélin reiknar mér 232,000 krónur í mánaðarlaun miðað við þessar forsendur. Ég mun því lækka um launum um nærri 60,000 krónur á mánuði við það að fara af atvinnuleysisbótum og yfir í fæðingarorlof.

Það hljóta allir að sjá að þetta þarf að leiðrétta.

Afrita slóð á umsögn

#112 Aníta Rós Aradóttir - 01.10.2020

Gòðan dag, ég eignaðist barn 2018 og var ì 50% fæðingarorlofi frá ágùst 2018-1.sept 2019.

Nù er á ég von á barni nr 2 og hef sìðan 1.sept 2019 verið að vinna sem verktaki og greiði 350.000kr ì reiknað endurgjald á mánuði. Ég fékk senda greiðsluáætlun núna fyrir komandi fæðingarorlof. Nù tek ég 100% fæðingarorlof sem eru þá 6mánuðir.

Eðlileg greiðsla miðast við 80% af tekjum 2019. Ég átti þá von á að það yrði reiknað miðað við það reiknaða endurgjald sem eg greiði þá mánuði sem ég er með laun, og eðlilegt væri að hoppað yrði yfir þá mánuði af 2019 á meðan ég væri ì fæðingarorlofi og meðaltal tekið frá þeim mánuðum sem eg er að vinna það árið og þá fyrir eða eftir fæðingarorlof en nei, þau hjá fæðingarorlofssjòði reikna inn ì þetta þá mánuði sem eg er ì fæðingarorlofi sem er frá jan-sept 2019 sem skilar mér

184.119kr miðað við 100% fæðingarorlof ì 6mánuði. Ì stað 280.000kr sem eg ætti að eiga rétt á miðað við 350.000kr i reiknað endurgjald, sem er nù þegar MJÖG lág greiðsla, fyrir utan það að það að mòðir fari á vinnumarkað frá 6mánaða gömlu barni sìnu og þurfi að hætta með það á brjòsti þrátt fyrir fulla lìffræðilega framleiðslu og þörf barns (undir eðlilegum kringumstæðum) með tilliti til geðtengsla, heilsu mòður og barns er út ì hött.

Hvernig ì òsköpunum getur þetta staðist? Hvernig stendur á þvì að Ìsland sé svona eftir á og neð òmanneskjulegt risaeðlukerfi árið 2020?

Her að neðan læt ég fylgja með mál sem ég fann sem er ekki òsvipað mìnu.

https://www.umbodsmadur.is/mal/nr/1182/skoda/ma

Svo vill ég bæta við, þegar eg heyrði um að nú ætti að lengja fæðingarorlofið um 1 mánuð upplifði ég gleði og smá ljòs um að kannski ætti loksins að gera einhverjar breytingar. Gleðin stòð ekki yfir lengi, þvì breytingin og lengingunni var háttað þannig að réttur mòður lengdist um einn mánuð, réttur föður um einn EN SAMEIGINLEGUR LÆKKAR UM EINN sem setur mòður ì nákvæmlega sömu stöðu og það var nù þegar.... hùn er einungis með max 6mánuði ì 100% orlofi. Útskýringin fyrir þessu er vegna jafnréttismála. Hvað með mannréttindi? Og hagsmuni barns? Er það mòðir og barni fyrir bestu að fara frá þvì 6mánaða gömlu? Ég get alveg sagt það að ég hefði enganvegin verið tilbùin andlega að fara frá barninu mìnu 6mánaða gömlu með full brjòst af mjòlk út á vinnumarkaðinn.

Er ekki kominn tìmi til að gera ròttækar breytingar?

Bestu kveðjur

Afrita slóð á umsögn

#113 Sigríður Ósk Indriðadóttir - 01.10.2020

Atvinnulífið segir að þetta sé "frábært skref í átt að jafnrétti á vinnumarkaði".

Ég skil ekki hvernig jafnréttissjónarmiðið vega svona hátt þegar raddir foreldra eru svo mikið hærri en algjörlega hundsuð, nýting orlofsins á að vera réttur foreldranna, ekki atvinnulífsins. Þetta eru 10/12 mánuðir og eiga foreldrar að geta ráðstafað þessum mánuðum eftir þörfum og getu sýns heimilis og ungbarna.

Í dag er mælt með að börn séu einungis á brjóstamjólk fyrstu 6 mánuði lífs síns og fái svo að byrja að kynnast mat eftir það, samhliða brjósti. Hvernig getur kona með barn á brjósti mætt til vinnu 8-16 alla virka daga ?

Margar okkar hafa gengið í gegnum erfiðar fæðingar og erum enn í fullu bataferli 6/7 mánuðum eftir fæðingu, og enganvegin í stakk búnir að mæta aftur til vinnu.

Ef sveitarfélög geta tryggt öllum börnum 18m og eldri dagvistum get ég skilið styttingu nýtingarinnar, en á meðan börn eru ekki að komast í dagvistun fyrr en 24m+ verður að vera eitthvað úrræði til boða til að brúa þetta bil.

Afrita slóð á umsögn

#114 Helena Rós Helgadóttir - 01.10.2020

12 mánuðir til barnsins! Val foreldra um skiptingu á orlofi!

Kerfið hér heima er orðið svo úrelt! Þurfum að bæta og gera betur! Börn eru ekki að komast inn á leikskóla á ,,réttum” tíma og heldur ekki dagmömmu! Sum bæjarfélög hafa ekki dagvistun eingöngu leikskóla og biðlistarnir þar eru langir!

Einnig að þá eru ekki allir að vilja gerðir til að vera svona heima og einnig (mörgum tilfellum sem ég veit um) er sá tekjulægri heima, því það kemur ,,best” út fyrir fjölskylduna á þann hátt!

ÞETTA Á AÐ SNÚAST UM HAGSMUNI BARNSINS!

Finnst alls ekki rétt að fara að frumvarpinu á þennan hátt!

Afrita slóð á umsögn

#115 Ingibjörg Huld Gísladóttir - 01.10.2020

Það að fæðingarorlof sé loksins að lengjast í 12 mánuði er mikið gleðiefni. Þó er enn langt í land.

Reglurnar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru enn út í hött þá sérstaklega þegar kemur að fólki sem eignast börn með stuttu millibili og mætti í raun segja að þeim sé refsað fyrir það. Horft er á tekjur 18 mánuði aftur í tímann þegar greiðslur eru reiknaðar (12 mánuði sem lýkur 6 mánuðum fyrir fæðingu barns). Inn í þann tíma getur fyrra fæðingarorlof því oft dottið inn að einhverju leyti með tilheyrandi tekjuskerðingu. Fæðingarorlof á að vera tími fyrir fjölskyldu að kynnast nýjum einstaklingi og njóta þess en einnig getur þetta líka verið mjög erfiður tími með óvært barn. Peningaáhyggjur ættu ekki að vera hluti af þessu ferli. Eignist fólk sem hefur orðið fyrir tekjutapi, atvinnuleysi, endurhæfingu eða er í námi barn á þeim tíma er því einnig hent út í kuldann með svokölluðum fæðingarstyrk sem er einhversstaðar á bilinu 50-75 þús á mánuði. Harðbannað að vinna meðfram. Fólk skal því gjöra svo vel að lifa á þessu!

Þetta á líka við um þá skiptingu sem lögð er fram. Að sjálfsögðu á annað foreldri barnsins jafnan rétt til fæðingarorlofs með barninu. En sé kona með barn á brjósti hleypur hún ekki frá því eftir örfáa mánuði svo þetta mun eflaust halda áfram eins og hefur verið áður, að móðir dreifi sínu orlofi með tilheyrandi tekjuskerðingu.

Svo er það fátítt að börn komist á leikskóla 12 mánaða (hefur amk aldrei verið gert í mínu sveitarfélagi). Það er því ekkert annað kerfi sem grípur að fæðingarorlofi loknu. Dagforeldrar rukka margir hverjir formúgur og oft er ekki auðvelt að fá pláss hjá þeim heldur.

Þetta er kannski bara fyrsta skref. En margt þarf að breytast og það þarf að gerast strax. Nógu lengi höfum við nú þegar beðið! Börnin okkar eiga betra skilið.

Afrita slóð á umsögn

#116 Brynja Björg Halldórsdóttir - 02.10.2020

Ég fagna tillögum sem kveða á um jafnan rétt foreldra til foreldraorlofs - og þar með rétt barna til jafnra samvista við foreldra sína fyrsta árið.

Kynbundinn launamunur og lágt hlutfall kvenna í valdastöðum mun verða viðvarandi þangað til mæður og feður taka jafna ábyrgð á uppeldi barna sinna. Jafnt foreldraorlof er lykilatriði til að breyta því. Reynslan hefur margsinnis sýnt að feður taka ekki orlof nema orlof sé eyrnamerkt þeim. Hluti af ástæðunni fyrir því er sú, að vinnuveitendur hvetja feður til að taka sem skemst orlof, helst ekki degi lengur en það sem er eyrnamerkt þeim. ö og finnst eðlilegt að mæður taki þá mánuði sem foreldrar geta skipt skv. samkomulagi. Undirrituð þekkir of mörg dæmi um slíkt. Efni frumvarpsins mun því styrkja stöðu feðra gagnvart vinnuveitendum.

Helstu mótrök gegn frumvarpinu eru þau, að konum er ráðlagt að hafa börn á brjósti í ár eða lengur. Þau rök halda aðeins upp að vissu marki þar sem vandalítið er á flestum vinnustöðum að bjóða vinnandi mæðrum upp á a) tíma og aðstöðu til að pumpa sig, sem og ísskáp, b) að bjóða þeim að fara þeim að gefa yfir daginn eða c) bjóða feðrum í fæðingarorlofi að koma við með barnið svo móðirin geti gefið því. Sjálf byrjaði ég að vinna með 6 mánaða barn og tókst að hafa barnið á brjósti í 18 mánuði en vinnuveitandi minn sá til þess að ég hafði afnot af fundarherbergi og ísskáp á vinnutíma. Hugsanlega mætti krefja vinnuveitendur um að sjá til þess að vinnandi mæður geti haldið áfram að pumpa eða gefa á vinnutíma en í Hollandi er hið fyrrnefnda lagaskylda.

Helsti gallinn við frumvarið er sá, að gert er ráð fyrir að foreldrar þurfi að nýta orlofsrétt sinn innan 18 mánaða í stað 24. Bent skal á Reykjavík og fleiri sveitarfélög bjóða börnum almennt ekki leikskólapláss fyrr en eftir tveggja ára aldur - og aðgengi að dagforeldrum er mjög misjafnt eftir hverfum.

Þá þarf að gæta þess að börn einstæðra foreldra fá jafnmarga mánuði og önnur börn með foreldrum sínum fyrstu mánuðina.

Afrita slóð á umsögn

#117 Guðrún Helga Andrésdóttir - 02.10.2020

Frábært að það eigi að lengja fæðingarorlof. Hins vegar er fáránlegt að hafa ekki hagsmuni barnsins að leiðarljósi hvað varðar skiptingu orðlofsins á milli foreldra. Foreldrar ættu að hafa fleiri mánuði sem þeir ráða hvernig þeir skipta fæðingarorlofið og það ætti að treysta því að hver fjölskylda viti hvað hentar þeirra fjölskyldu og hagsmunum barnsins þeirra best.

Afrita slóð á umsögn

#118 Ása Hrund Viðarsdóttir - 02.10.2020

Mér finnst alls ekki réttlætanlegt að fæðingarorlof sémskipt 50/50 á foreldra. Konan er búin að ganga með barnið í 9 mánuði og fæða það. Hún þarf lengri tíma til þess að jafna sig og hvað þá konur með börn á brjósti. Samkvæmt landlæknaembættinu er mælst til þess að börn séu að lágmarki á brjósti til 6 mánaða og þá eigi hægt og rólega að fara að kynna þau fyrir fastri fæði. Það er alls ekki raunhæft að daginn sem barnið verði 6 mánað og mamman fari bara heimilinu því orlofið sé búið!

Mér finnst sjálfsagt að feður séu með eyrnamerkt ákveðinn mánafjölda en 3-4 mánuðir algjört hámark þar sem fæðingarorlofið er bara 12 mánuðir í heildina. Fyrir utan það hvað það er fáránlegt miðað við biðtíma um að komast á leikskóla en börn komast mörg ekki fyrr en um 3 ára! Algjörlega út í hött.

Afrita slóð á umsögn

#119 Hildur Inga Einarsdóttir - 02.10.2020

Frábær tillaga að breytingum á fæðingarorlofinu þvi það er löngu tímabært að lengja það og þar með auðvelda fólki að eignast börn. Eins og flestir vita er afar dýrt að eignast börn og mikill tekjumissir sem kemur ofan í barneignir getur verið afar erfiður mörgum.

Hins vegar þarf að gera nokkrar litlar en afar mikilvægar breytingar a frumvarpinu til að lengingin muni nýtast sem best og tryggja jafnrettis til töku fæðingarorlofs. Það að eyrnamerkja 6 manuði móður og 6 manuði föður litur vel ut a pappir en praktiskt seð er þetta afar óhagstætt mörgum foreldrum. Fjölskylduaðstæður eru eins mismunandi og það eru fjölskyldur á Íslandi og þvi er mikilvægt að gefa þeim frjalst val um það hvernig þær raðstafa fæðingarorlofinu. Þannig er jafnrettis gætt a milli fjölskyldna og hver fjölskylda getur akveðið hvernig haga skyldi fæðingarorlofinu og tryggja þar með sem besta útkomu fyrir barnið, því það ætti auðvitað að vera markmiðið.

Önnur mikilvæg breyting er að stytta ekki timann sem fjölskyldur geta tekið ut fæðingarorlofið. Þvi aftur er staða fjölskyldna mismunandi og ekki allir hafa tök a þvi að taka það ut a fyrstu 18 manuðum i lifi barnsins.

Með kveðju,

Móðir í fæðingarorlofi

Afrita slóð á umsögn

#120 Vilborg Pála Eriksdóttir - 02.10.2020

Mér finnst mjög gott skref að lengja fæðingarorlofið upp í 12 mánuði.

En hinsvegar finnst mér að fyrstu 24 mánuðir barns eru það mikilvæg að börnin ættu að fá foreldra heima að fullu í a.m.k. 24 mánuði.

Mér finnst einnig að foreldrar ættu að fá að skipta fæðingarorlofinu eins og hentar best fyrir hverja og eina fjölskyldu, þar sem að alls ekki allar fjölskyldur geta unnið með 6-6 skiptingu. 4-4-4 skipting er þá töluvert skárri, en finnst jafnvel að það ætti að vera 3 mánuðir á hvort foreldri og 6 mánuðir sem má skipta á milli eins og hentar best hverri fjölskyldu fyrir sig.

Einnig finnst mér STÓRT skref í RANGA átt að fara að stytta fæðingarorlofs tímann úr 24 mánuðum í 18.. Eins og ég sagði í byrjun finnst mér að fyrstu 24 mánuðir barns ættu þau að eiga rétt á að hafa foreldri heima þar sem börnin þurfa mikla athygli og umönnun, sérstaklega fyrstu 2 árin.

En fyrst og fremst finnst mér þetta vera ÓRÉTTLÁTT FYRIR BARNIÐ/BÖRNIN.

Við eigum að hugsa um þau! Börn sem eru á brjósti þurfa að fá að hafa móður sína hjá sér í lengri tíma en 6 mánuði.

Við eigum enn langt í land þó svo það sé LOKSINS verið að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði.

Svo ég hvet ykkur eindregið að hugsa um hag BARNSINS.

Ég styð jafnrétti, en það er skref í ranga átt að leyfa ekki hverri fjölskyldu fyrir sig að ákveða hvernig þeir vilja skipta sínum tíma.

Svo er líka fæðingarorlofssjóðurinn bara algjört grín. Hvernig á fjölskylda að lifa af á svona lágum kaupum? Þar sem lang flestir foreldrar þurfa að framlengja sitt fæðingarorlof og fá þá ennþá minna í kaup.. Það er lágmark að ríkið leyfi börnum og nýbökuðum foreldrum að vera í stöðugu húsnæði (ekki eiga í hættu með að missa það) vegna of lágra launa. Eða gefa barninu að borða, bleyjur, fatnað, leikskólagjöld, dagmömmur?

Ég endurtek HUGSUM UM HAG BARNANNA.

Við þurfum að fá þessu breytt og það NÚNA!

Afrita slóð á umsögn

#121 Lena Guðrún Hákonardóttir - 02.10.2020

Geri alvarlega atugasemd við að börn einstðs foreldris njóti ekki sömu réttinda og börn þeirra foreldra sem bæði sjá um barn, þetta er mismunun sem ekki er líðandi og á ekki að eiga sér stað. Eis geri gég athugasemd við að foreldrum í sambúð sé ekkki frjálst að ráða tima sínum með barni sínu í fæðingarorlofi og til vara að tími föðurs sé eigi minni en 3 mmánuðir af fæðingarorlofi

Afrita slóð á umsögn

#122 Ellen Ásta van Beek - 02.10.2020

Mér finnst að það ætti að halda í þessa 2 mánuði sem foreldrar eiga sameiginlegan rétt á eða lengja orlofið úr 12 mánuðum yfir í 14 mánuði og að bæði mæður og feður fái 7 mánaða rétt til orlofs. Samkvæmt landlækni ráðleggur alþjóðaheilbrigðismálastofnunin brjóstagjöf í tvö ár eða lengur og ef mæður hafa bara kost á að nýta sér 6 mánuði í staðinn fyrir 7 eða 8 að þá er hætta á að þær neyðist til þess að hætta fyrr með barnið á brjósti sem hefur neikvæð áhrif á heilsu barnsins.

Afrita slóð á umsögn

#123 Sigurlinn Sváfnisdóttir - 02.10.2020

Er starfandi ljósmóðir í meðgönguvernd. Þar hef ég séð galla í kerfinu ; dæmi: einstæð móðir getur lent á milli kerfa og misst rétt á fæðingarorlofi en barnsfaðir fær fullan rétt þrátt fyrir að vera óvirkur aðil. Þessi einstæð móðir var á endurhæfingarlífeyri i Virk og þegar hún segir frá sinni þungun er hún sett út úr kerfinu hjá þeim, missir endurhæfingarlífeyri og vísað á Vinnumálastofnun á atvinnuleysisbætur en átti engan rétt þar = engin réttur til fæðingarorlofs þrátt fyrir að vinna í endurhæfingu sinni. Barnsfaðir fékk fullan rétt.

Afrita slóð á umsögn

#124 Carolina Bettina Schindler - 03.10.2020

Ég er sammála þessum texta frá Gunnlaugu Thorlacius:”Með því að skilyrða hluta orlofs við föður og hluta við móður hafa sum börn fengið styttra orlof en önnur. Rökin fyrir óframseljanlegum rétti virðast vera sú að það þurfi að skilyrða mánuði hvoru foreldri fyrir sig til að tryggja að báðir foreldrar nýti sér orlofið. Þarna er alls ekki verið að horfa á fæðingarorlof sem rétt barna til farsællar lífinu. Öll börn ætta að eiga rétt á 12 mánaða fæðingarorlofi og við verðum svo bara að treysta foreldrum til að ráðstafa tímanum eins og þeim finnst best.”

Afrita slóð á umsögn

#125 Valey Sól Guðmundsdóttir - 03.10.2020

Ég skil pælinguna á bakvið þetta en mér finnst þessir sameiginlegu mánuðir mjög mikilvægir, nú erum ég og kærastinn minn að fara að eignast okkar fyrsta barn og okkur finnst glatað að geta ekki verið saman með barnið fyrstu 2-3 mánuðina, foreldrar ættu að geta ákvarðað sjálfir skiptingu fæðingarorlofs

Afrita slóð á umsögn

#126 Hrafn Sigurðarson - 03.10.2020

Ég á von á barni í mars 2021. Ég fagna því að verið sé að lengja fæðingarorlofið til 12 mánaða, það er skref í rétta átt.

Hinsvegar set ég athugasemdir við skiptingu fæðingarorlofsins eins og þær tillögur sem eru settar upp núna. Ég styð baráttur sem tengjast jafnrétti kynjanna, en í þessu tilfelli þykir mér tillögurnar ekki bestar þegar horft er til hag barnsins. Það þarf að auka fjölda mánaða sem eru sameiginlegir. T.d. með 3-3-6 skiptingu (ókjósanlegast) eða 4-4-4 (í versta falli) til að koma til móts við grunnhagsmuni og réttindi barnsins.

Ég er hlynntur því að X fjöldi mánaða sé eyrnamerktur hverju foreldri fyrir sig (t.d. 3-4 mánuðir eins og ég nefni hér á undan) svo að báðir foreldrar fái tækifæri á að tengjast nýja barninu. En það þarf að setja mörk við þessa eyrnamerktu mánuði svo komið sé til móts við barnið á betri máta. Aukinn sveigjanleiki fjölskyldunnar verður til þess að auðveldara er fyrir hjón/pör að skipuleggja fæðingarorlofið með tilliti til vinnu. Sumir foreldrar eru í ábyrgðarmiklum stöðum og hafa ekki endilega tök á að taka langt orlof. Það getur verið bæði kona eða karl í slíkri stöðu. Einnig veldur aukinn sveiginleiki því að þarfir barnsins er varðar brjóstagjöf verða auðveldari uppfylltar - þar sem margir myndu kjósa að hafa móðurina lengur í orlofi af þeim ástæðum.

Tek hér 2 stutt dæmi með 3-3-6 skiptingunni:

- Jón og Gunna eru ákveðin í því að vilja hafa barnið eins lengi á brjósti og mögulegt er. Þeim finnst einnig að Gunna eigi að ná að hvílast eins lengi og mögulegt er. Gunna tekur því 9 mánuði og Jón 3.

- Svala og Halli vilja nýta þetta á annan máta. Svala er í ábyrgðarmiklu starfi og getur ekki tekið orlof í lengur en 3 mánuði. Hún stefnir á að gefa brjóst þessa 3 mánuði og pumpa sig eftir það. Halli tekur því síðustu 9 mánuðina og fæðir barnið með pumpaðri brjóstamjólk og þurrmjólk því það hentar þeirra aðstæðum best.

Það að hátta skiptinguni eins og ég nefni hér að ofan, er að mínu mati flott skipting sé litið til jafnréttis kynjanna. En með þeim hætti fá báðir foreldrar jafn marga fasta mánuði en afgangurinn sem er sameiginlegur nýtist til að koma til móts við aðstæður fjölskyldunnar.

Varðandi annað atriði í frumvarpinu, þá þykir mér það vera skref afturábak að stytta framlengingu orlofsins úr 24 mánuðum í 18. En þegar barn er 18 mánaða er í lang flestum tilfellum (amk á höfuðborgarsvæðinu) ansi ólíklegt að barnið sé komið með pláss á leikskóla. Einnig getur verið erfitt að komast að hjá dagforeldri auk þess sem að kostnaðurinn við slíka þjónustu er hár.

Ég vona að þessi atriði í frumvarpinu verði endurskoðuð og að hagsmunir barnanna verði hafðir að leiðarljósi í áframhaldandi vinnu við þetta frumvarp.

Afrita slóð á umsögn

#127 Valborg Sturludóttir - 04.10.2020

Ég fagna því að orlof sé lengt í 12 mánuði.

Tekið er fram í greinagerð að verið sé að reyna að auka líkur á því að feður* nýti sinn sjálfstæða rétt og styrkja þeirra stöðu gagnvart atvinnurekendum. Hér í annarri umsögn kemur fram að aðeins 11% feðra hafi nýtt sér hluta úr sameiginlegum rétti foreldra og ég velti því fyrir mér hvernig er verið að auka þessar líkur með því að fjölga mánuðum eingöngu. Áfram er kveðið um hámarks greiðslu af aðeins 80% launa. Það er vissulega tekið fram að það sé verið að reyna að sporna við því að faðir* sé ábyrgur fyrir mestum tekjum á heimilinu, en ef það er verulegur tekjumissir að taka orlof eru þessi lög mögulega illa til þess fallinn að auka líkurnar, sem er markmið laganna.

Einnig fagna ég því að í lögunum sé tekið fram að vinna eigi árlega skýrslu um nýtingu orlofsréttar, ég vonast þá einnig til að þau gögn verði gerð almenningi aðgengileg svo þegar eigi að taka þessi lög aftur fyrir þá hafi almenningur jafnt aðgengi að upplýsingum að baki breytingatillaga.

Að því sögðu er liður í greinagerð sem snýr að réttlætingu þess að stytta tímabilið úr 24 mánuðum í 18 mánuði sem foreldrar geta nýtt sér sinn orlofsrétt. Þar kemur fram að sú breyting muni ekki hafa veruleg áhrif en hvernig á ég að geta metið það þegar gögn um nýtingu eru mér ekki aðgengileg? Einnig er þar talað um daggæslupláss sem margar umsagnir hér benda á að sé alls ekki tryggt fyrr en eftir 24 mánuða aldur, dóttir mín til dæmis er fædd í maí en kemst ekki inn á leiksskóla í Reykjavík fyrr en í ágúst tveimur árum seinna svo hún er rúmlega 27 mánaða. Til þess að þessi breytingartillaga falli betur í kramið þarf að vísa í að styrkja eigi dagforeldrakerfið eða tryggja börnum pláss fyrr á leiksskóla, ekki bara segja "mun ekki hafa veruleg áhrif" án þess að rökstyðja það frekar.

*"Orðalagsbreytingin er lögð til í samræmi við lög um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 og rétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt." Samt sem áður er talað víðsvegar um rétt móður og föður, þegar kynrænt sjálfræði ætti að gefa í skyn að foreldri þurfi ekki að horfa á sig sem móður eða föður heldur foreldri fyrst og fremst, án þess að kynjað mál komi því við. Því set ég einnig spurningarmerki við að sérstaklega sé tekið fram að móðir sé skylduð til að taka 2 vikur í fæðingarorlof. Ef virkilega ætti að jafna rétt kynjana væri skylda fyrir hvort foreldri fyrir sig að taka tveggja vikna orlof.

Afrita slóð á umsögn

#128 Valdís Björt Guðmundsdóttir - 04.10.2020

Góðan dag, ég vil byrja á því að fagna þessari lengingu fæðingarorlofsins og styttingu þess bils sem er á milli fæðingarorlofs og dagvistunar.

Mín athugasemd tengist 8. gr Rétti foreldra á vinnumarkaði, þá sérstaklega einstæðra mæðra. Ég tel að þær úrbætur sem barnamálaráðherra leggur til "að koma til móts við aðstæður foreldra þegar sannarlega einungis eitt foreldri er til staðar" sniðgangi þann hóp einstæðra mæðra þar sem faðir kýs að taka ekki þátt í uppeldi barns.

Þar er sannarlega einungis eitt foreldri til staðar en barn þess foreldris fær einungis 6 mánuði heima með sínu foreldri. Bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar verður mun lengra og næstum ómögulegt að brúa fyrir foreldrið. Örfáir ungbarnaleikskólar eru starfsræktir á landinum og þeir umsetnir. Einstæðir foreldrar hafa ekki forgang í slíka dagvistun. Annað úrræði væri dagforeldri en niðurgreiðsla til dagforeldris hefst ekki fyrr en eftir að barn hefur náð 10 mánaða aldri. Og aftur, hér hafa einstæðar mæður engan forgang umfram aðra foreldra. Hér má líka bæta við að umönnun 6 mánaða barns er mun meiri en árs gamals barns.

Ég velti því fyrir mér hvað barnamálaráðherri leggi til að einstæðar mæður í þessari stöðu geri til að brúa þetta bil.

8. greinin felur nú þegar í sér undanþágur hvað varðar framsal fæðingarorlofs til handa einstæðum mæðrum sem annaðhvort hafa ættleitt eða nýtt sér tæknifrjóvgun. Ég tel það mikla og alvarlega hugsanavillu að gera ekki slíkt hið sama fyrir einstæðar mæður þar sem faðir hefur valið að taka ekki þátt. Auk þess sem það er hreint og beint misrétti gagnvart börnum sem fæðast inn í slíkar aðstæður.

Hafi barnamálaráðherra áhyggjur af því að slík klausa gæti ýtt undir það að einstaklingar leiki með einhverjum hætti á kerfið til þess að öðlast framsalsrétt, hlýtur í versta falli að vera hægt að koma því þannig að einstæðar mæður geti sótt um slíka undanþágu.

Afrita slóð á umsögn

#129 Thelma Rós Halldórsdóttir - 04.10.2020

Mér finnst gott að það sé lagt til að Vinnumálastofnun verði gert skylt að gefa árlega skýrslu um stöðu Fæðingarorlofssjóðs og hvernig nýtingu réttinda foreldra innan kerfisins sé háttað. Mér finnst réttast að fá gögn frá Fæðingarorlofssjóði um hvernig réttindin eru núna og koma síðan með tillögur um hvernig sé hægt að framkvæma það sem er barninu fyrir bestu því eitt meginmarkmið með fæðingarorlofi er að hugsa um þarfir barnsins. Það ætti að vera grundvöllurinn fyrir breytingunum en mér finnst frumvarpið ýta því of mikið að, að tilgangurinn sé að jafna stöðu foreldra á vinnumarkaði og það finnst mér að ætti að gerast á öðrum vettvangi.

Það sem ég hef upplifað að sé langalgengast á Íslandi (væri gaman að fá að sjá tölur frá Fæðingarorlofssjóði) er að flestar mæður lengja sitt orlof langt umfram réttinn sem þær hafa og dreifa 6 mánuðum á 10-12 mánuði og faðir tekur orlof í kjölfarið í 1-3 mánuði, ef hann gerir það yfirhöfuð. Það eru ótal fjölskyldumynstur sem þetta frumvarp nær ekki til, eins og þegar faðir er í sjálfstæðum atvinnurekstri, og á mun erfiðara með að taka orlof og mun ekki taka orlof, alveg sama hvort að hann hafi sjálfstæðan 5 mánaða rétt. Það eru tugir þúsunda fyrirtækja á Íslandi og flest lítil eða meðalstór. Stór hluti lítilla fyrirtækja eru með 1-3 starfsmönnum sem gefur að skilja að það sé erfiðara fyrir viðkomandi starfsmann að fara frá í 5 mánuði, auðveldara að fara í 1-3 mánuði.

Það eru alls konar aðrar sviðsmyndir eins og þegar faðirinn einfaldlega vill ekki eða getur ekki tekið orlof (getur einnig átt við um móður en kannski óalgengara, væri gott að fá gögn frá Fæðingarorlofssjóði, og gera spurningakönnun) og því finnst mér að rétturinn ætti að vera mun sveigjanlegri en er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Þar er gert ráð fyrir 6 mánuðum á hvorn aðila með 1 framsegjanlegum mánuði. Í núverandi kerfi er það 4-4-3 og 3-3-3. Mér finnst að við ættum að vera mun sveigjanlegri því það er barninu fyrir bestu að vera hjá foreldrum eins lengi og hægt er og hafa meiri sveigjanleika og meira frelsi því til bóta og hags. Í barnalögunum er meginmarkmiðið að það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Fæðingarorlofslögin ættu því að vera mun sveigjanlegri og við ættum að fara að fyrirmynd Svíþjóðar þar sem að meirihlutinn er framseljanlegur en þar er rétturinn 3-3-12. Mér fyndist réttast að rétturinn yrði 3-3-6 hér þar sem að 6 mánuðir yrðu til skiptanna á milli foreldra.

Mér finnst einnig að það ætti ekki að stytta tímabilið í 18 mánuði úr 24 mánuðum því einhvern veginn þarf að brúa bilið þangað til að barnið komist inn á leikskóla og þó að markmið Reykjavíkurborgar (þekki ekki hvernig þetta er í öðrum sveitarfélögum) sé að barnið komist inn á leikskóla við 18 mánaða aldur þá er það langt frá veruleikanum og því þurfa foreldrar að hafa meira svigrúm til þess að nýta orlofið. Það væri ekki barninu fyrir bestu ef að til dæmis báðir foreldrar vilja lengja þessa 6 mánuði í 12 mánuði þá væri það ekki hægt út af þessari reglu.

Yfirfærsla fæðingarorlofs/fæðingarstyrks er allt of ströng að mínu mati og ekki barninu fyrir bestu. Ef að annað foreldri getur ekki eða er ófær um að taka fæðingarorlof þá ætti hitt foreldrið að geta fullnýtt réttindin ef að hagsmunir barnsins eru hafðir að leiðarljósi. Enn og aftur, hér þurfa hagsmunir barnsins að vera að leiðarljósi.

Að lokum finnst mér réttast að þegar breytingar eiga sér stað í lögunum að þær eigi við um alla þá sem eru að taka orlof á sama tíma en taki ekki gildi við fæðingardag barns. Ég eignaðist sjálf barn 31.12.2019 og við foreldrarnir fengum því 9 mánuði samtals í stað 10 mánaða fyrir barnið okkar á meðan að foreldrar sem áttu barn nokkrum klukkutímum á eftir okkur og svo heppilega vildi til hjá þeim að barnið fæddist 1.1.2020 að þau fengu 10 mánuði en báðar fjölskyldur voru að taka fæðingarorlof á nákvæmlega sama tíma. Það finnst mér mjög óréttlátt barnsins vegna.

Að lokum finnst mér að þau börn sem komast ekki inn á leikskóla eða hjá dagforeldri við 10 mánaða aldur fái niðurgreiðsluna sem annars leikskólar eða dagforeldrar fá frá ríkinu eða sveitarfélagi.

Afrita slóð á umsögn

#130 Berglind Guðmundsdóttir - 05.10.2020

Augljóslega betra en það sem er að gerast í ameríku. En langtum verra en amk í Svíþjóð, sem er töluvert betra samanburðarland en USA. 12 mánuðir samtals í fæðingarorlof vegna barns er kannski ásættanlegt - en það er það sem mæður og stundum feður hafa verið að reyna að gera síðustu ár. Oftar en ekki þannig að mæður hafa tekið 6 launalausa mánuði þar sem þær eru ekki einu sinni að safna krónu í lífeyrisréttindi hvað þá annað.

Frábært að hvetja karlmenn til að taka fæðingarorlof en hinsvegar þá er það móðirin sem ber barnið innanborðs í 9 mánuði, fæðir það og hefur það á brjósti eftir bestu getu.

Það er kannski þessi meðganga og brjóstagjöf sem veldur því að mæður hafa gjarnan meiri áhuga á því að vera heima með ungabarnið lengur en feðurnir - eins frábærir og þeir eru. Og eins mikið jafnrétti og við viljum hafa þá má ekki gleymast að karlmenn og kvenmenn eru bara ekki eins í grunninn og þrátt fyrir að það sé margt sem við getum gert "eins".

Samkvæmt ráðleggingum WHO er mælt með að börn séu eingöngu á brjósti fyrstu 6 mánuði lífs síns - og áfram með mat upp að 2 ára aldri. Algengt er að börn séu á brjósti fyrsta árið. Það að móðir sé farin að vinna eftir 6 mánuði styður því ekki beinlínis við ráðlagða brjóstagjöf WHO.

Ef tilgangurinn er að koma til móts við foreldra þá ættu þeir að geta skipt þessum 12 mánuðum á milli sín eins og þeim hentar. Eftir aðstæðum hvers heimilis fyrir sig, barninu fyrir bestu. Enn betra ef það væru 15 mánuðir, þá væri kannski frekar hægt að festa 3 mánuði á hvort foreldri og leyfa þeim að skipta 9 mánuðum með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Það að stytta tímann sem hægt er að taka fæðingarorlofið út, það er amk ekki verið að hugsa um samvistir barns og foreldra í því tilviki.

Það má kannski líka minna á að aðgangur að leikskólaplássi hefur nú ekki verið of mikill fram að þessu. Margar dagmömmur/ (foreldrar) eru frábærar en það er ekki sjálfgefið að fá eina góða í hverfinu. Fyrir utan þá áhættu sem foreldrar eru að taka þegar þeir skilja lítið ómálga og ósjálfbjarga barn hjá ókunnri manneskju sem foreldrar hafa ekki hugmynd um hvernig hugsar um þessa framtíð okkar. Ábyrgð sett á eina ókunna manneskju.

Reyndar hefur það heyrst að ungabörn ættu helst ekki að byrja á leikskóla fyrr en um 2 ára því þó væri ónæmiskerfið þeirra orðið sterkara upp á að takast við allan þann hor og hósta sem þar er gjarnan í gangi.

S.s. ef koma á til móts við foreldra og þeirra nýfæddu börn þá ætti að:

Leyfa foreldrum að skipta fæðingarorlofinu sjálf á milli sín. - Það er réttlæti og jafnrétti fyrir barnið og heimili þess.

Lengja orlofið enn frekar - þó 12 sé betra en 9 þá er þetta frumvarp ekki með hagsmuni barnsins í fyrirrúmi. Mæður munu áfram þurfa að taka 5 mánuði launalaust til þess að geta verið ár með barninu.

Fæðingarorlofsgreiðslur væru þær sömu fyrir alla - amk meðallaun í landinu. Hámarkið er hvort sem er svo lágt!

Það væri amk frábært að sjá e-ð "alvöru" gerast í þessum málum.

Þó svo ekki nógu margir láti í sér heyra eins og tengslum við þetta mál, er ekki þar með sagt að fólk sé að kaupa allt það sem reynt er að selja.

Afrita slóð á umsögn

#131 Elísa Björg Björgvinsdóttir - 05.10.2020

Frábært að lengja eigi orlofið í 12mánuði en það þarf að endurskoða þessa jöfnu skiptingu! Auðvitað á að “festa” einhverja mánuði á makann til þess að hvetja enn fremur til þess að makinn taki sér fæðingsrorlof en láti ekki móðurina taka allt en ég tel að 3-3-6 eða 2-2-8 væri mun betra fyrirkomulag, þá geta foreldrar raðað þessu upp eins og hentar hverju sinni. Það má líka taka inn í myndina að þótt 2-3 mánuðir hljómi lítið þá á maki á atvinnumarkaði yfirleitt einnig inni sumarfrí. Minn maki myndi tildæmis á 18mánaða tímabili þá eiga inni 5-6mánaða fæðingarorlof og 5-6vikur í sumarfrí sem yrði þá samtals um 6-8mánuðir í frí yfir 18mánaða tímabil. Einnig sýnir það sig mikið þetta árið þar sem fjöldi fólks hefur misst vinnuna sína að það væri ekkert grín fyrir maka á atvinnumarkaði að “þurfa” að taka 5-6mánuði í orlof þegar það gæti nýst fjölskylduhögum mun betur að atvinnulaus maki gæti nýtt sér lengri tíma heima þar sem engin vinna bíður hans að loknu orlofi.

Afrita slóð á umsögn

#132 Hulda Hrund Höskuldsdóttir - 05.10.2020

Ég vill koma á framfæri minni skoðum um breytingar á fæðingarorlofi. Ég tel það mikla afturför að einungis sé hægt að nýta fæðingarorlofið í 18 mánaða sérstaklega í ljósi þess að þau börn sem fæðast seinna á árinu eru yfirleitt ekki að komast á leikskóla fyrr en um 2ja ára aldurinn og ekki öll sem hafa kost á að komast til dagmóður.

Einnig finnst mér það mikil tímaskekkja að þvinga allar fjölskyldur í sama mót með því að skipta upp réttindum þannig að faðir eigi 6 mánuði og móðir 6 mánuði, fæðingarorlof er eitthvað sem á að nýtast barninu sem best og ekki eru allar fjölskyldur sem hreinlega hafa efni á að báðir foreldrar nýti sér alla sína mánuði og kemur það niður á barninu.

Betra væri að skipta niður orlofinu í 3 mánuði á föður og 3 mánuði á móður og restin sameiginleg svo fjölskyldur geti sjálfar ákveðið fyrir sig hvað hentar best svo má ekki gleyma ef móðir fer að vinna strax eftir 6 mánuði því hún hefur ekki efni á lengra orlofi þá erum við að taka út brjóstagjöfina fyrir heilan dag sem fer mjög illa í svona lítið barn.

Afrita slóð á umsögn

#133 Elín Kristjánsdóttir - 05.10.2020

Ég og unnusti minn eigum von á okkar fyrsta barni. Okkur þykir það afskaplega gott mál að fá 12 mánaða orlof frekar en 6, eða 9 mánaða og erum við mjög ánægð að eiga von á krílinu okkar árið 2021. Við ræddum þetta frumvarp og vorum þó sammála um það að það er ekki heppilegt að taka val foreldranna um hvernig þeir vilji hagræða fæðingarorlofinu sínu. Í fyrsta lagi, þá er teljum við það hag barnsins að vera á brjósti eins lengi og þurfa þykir. Í öðru lagi, þá eru pör oft misjafnlega launuð og við höfum t.d frekar efni því að ég sé lengur í fæðingarorlofi en hann. Ef ég væri launahærri lægi dæmið örugglega öðruvísi við. Ef 6 mánaða skipting á að standa þá þarf líka að jafna launin, er það ekki?

Svo í þriðja lagi, að stytta fæðingarorlofstöku niður í 18 mánuði er hneysa. Ég get ekki séð að þessi breyting sé fjölskyldum í hag, það getur ekki talist hagur þegar valfrelsi er skert.

Það blasir frekar við mér að að bæði 6 mánaða skiptingin og stytting niður í 18 mánuði einfaldi málin fyrir kerfið frekar en fjölskyldur. Þetta er skýrara og afmarkaðra svona en til að láta þessa tillögu hljóma vel er þetta sett í einhvern búning og látið hljóma eins og fjölskyldur græði á þessari breytingu. Mér finnst það eiginlega bara þveröfugt. Kerfið græðir á einfölduninni. Við, notendur þjónustunnar töpum á hagræðingunni.

Afrita slóð á umsögn

#134 BSRB - 05.10.2020

Í viðhengi er umsögn BSRB.

Virðingarfyllst,

Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#135 Laura Nesaule - 05.10.2020

Ef ekki er hægt að lengja fæðingarorlofi í meira en 12 mán (sem er mjög stutt miðað við aðra norðurlanda) þá legg ég til að foreldrum er treyst að skipta þessi 12 mán á milli. Mín 2 fyrstu börn tók bara brjóst (og ekkert pela eða fasta fæði) fyrstu 8 mánuði og þar sem maðurinn minn er ekki með brjóst þá þurfti ég að framlengja fæðingarorlofi mitt (án þess að fá neitt greitt) í nokkur mánuði. Nú á ég von á þriþja barnið mitt og var svo ánægð að fæðingaroflofi var framlengt í 12 mánuði, en svo kom í ljós að ég á rétt bara á 6+1 mánuð og það hjálpar nú ekki mikið í okkar fjölskyldu. Endilega hafið rétt barnsins í huga en ekki jafnrétti kynjana á meðan er ekki hægt að framlengja fæðingarorlofi í minnsta kosti í 18 mánuði.

Afrita slóð á umsögn

#136 Viðja Karen Júlíusdóttir - 05.10.2020

Það er ánægjulegt að fæðingarorlofið lengist í 12 mánuði á næsta ári. Hins vegar tel ég mikilvægt að foreldrar fái meira svigrúm til þess að ákveða hvernig orlofinu er skipt. Aðstæður fjölskyldna eru mismunandi og getur hentað foreldrum mis vel að taka fæðingarorlof. Annað foreldrið gæti til dæmis verið ný komið út á vinnumarkaðinn og á því ekki rétt á fullum greiðslum frá Fæðingarorlofssjóði, miðað við þá reglu að greiðslur séu 80% af meðaltekjum á 12 mánaða tímabili, 6 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingarmánuð barns. Slík tekjuskerðing getur valdið því að foreldri sér ekki fram á að geta nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs og bitnar það mest á barninu. Ef fleiri mánuðir væru sameiginlegir þá gætu foreldrar sjálfir tekið ákvörðun um skiptinu orlofsins þannig að það komi sem best út fyrir barnið og fjölskylduna í heild. Ég tel að með 4-4-4 skiptingu sé foreldrum gefinn meiri sveigjanleiki án þess að fórna sanngirni og jafnrétti.

Afrita slóð á umsögn

#137 Edda Ýrr Einarsdóttir - 05.10.2020

Það er fagnaðarerindi að nú á að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði og tími til kominn. En það verður að treysta foreldrum til að deila þessum mánuðum sín á milli með hag barnsins og fjölskyldunnar að leiðarljósi. Atvinnuhagir eru mjög mismunandi og því mjög ósanngjarnt að foreldrar geti ekki ráðstafað orlofinu eftir því. Margir foreldrar eru verktakar og einyrkja og geta jafnvel ekki tekið orlof nema að litlu leyti, ekki er mikið jafnrétti í því að þeirra börn fá ekki jafnmikla nærveru foreldris og önnur börn. En fyrst og fremst er ekki verið að taka tillit til barnanna sem í mörgum tilfellum eru á brjósti mun lengur en 7 mánuði.

Ég er þriggja barna móðir og það fjórða á leiðinni. Ég hef í öll þrjú skiptin þurft að byrja að vinna eða farið í 100% háskólanám frá börnunum þegar þau voru 6 mánaða. Maðurinn minn hefur einu sinni haft tök á að nýta orlofið og það var vegna þess að hann var atvinnulaus þá stundina.

Setjum börnin í forgang og treystum foreldrum til að bera hag barnsins sem og fjölskyldunnar í heild fyrir brjósti.

Afrita slóð á umsögn

#138 Ylfa Rós Margrétardóttir - 05.10.2020

Það ætti að liggja í höndum foreldrana hvernig orlofinu væri skipt. Þyrfti þá ekki að vera jafnrétti í launum ef það ætti að vera jafnrétti í orlofinu. Finnst þetta bara ákvörðun foreldrana. Oft eru börn enþá í brjóstagjöf kringum 6. Mánuðinn.

Afrita slóð á umsögn

#139 Anna Mjöll Guðmundsdóttir - 05.10.2020

1. umsögn: Tillaga um að veikindaleyfi leggist ofan á fæðingarorlof ef fæðing er erfið og endar í bráðakeisara sem leiðir til þess að móðir á erfitt með að annast barn sitt ein án hjálpar maka.

2. umsögn: Á öðrum norðurlöndum tíðkast það að konur fari í "fæðingarorlof" mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag (fæðingarorlof lengist sem þessu munar) til að draga úr kvillum eins og háum blóðþrýstingi og annars álags á líkamann sem hefur áhrif á fóstrið.

Afrita slóð á umsögn

#140 Rós Sigurðardóttir - 05.10.2020

Frábært að sjá að fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði. En persónulega held ég að það væri betra að eyrnamerkja færri mánuði á hvort kyn. Laun og aðstæður eru mismunandi hjá öllum og því getur þessi útfærsla ekki hentað öllum. 3 mánuðir eyrnamerktir hvoru kyninu og rest geta foreldrar ákveðið á milli sín hvað hentar best á hverju heimili.

Afrita slóð á umsögn

#141 Ýmir Kristinsson - 05.10.2020

Ég er mótfallin því að stytta eigi rétt foreldra til fæðingarorlofs úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Rétturinn á að halda sínum 24 mánaða ramma.

Valdið og ákvarðanataka er kemur að skiptingu mánaðanna finnst mér eiga einungis að vera undir foreldrum komið, enda margt sem þarf að taka með í dæmið. 3-3-6 finnst mér vera eina vitið ef miðað er við 12 mánuði.

Afrita slóð á umsögn

#142 Helena Rut Ragnarsdóttir - 05.10.2020

Ég vil byrja á að segja að ég fagna því að fyrirhuguð sé lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði.

Varðandi jafna skiptingu orlofs milli foreldra, 6 mánuðir á hvort foreldri. Að sjálfsögðu eiga foreldrar að hafa val um hvernig haga eiga fæðingarorlofi og ekki er hægt að ætlast til þess að heimilisaðstæður allra bjóði upp á jafna skiptingu. Á flestum heimilum er annað foreldrið tekjuhærra en hitt og á flestum heimilum yrði því mikil tekjuskerðing. En það er líkleg útkoma þegar annað foreldrið þarf að deila sínum 6 mánuðum niður á 10 eða 12, jafnvel fleiri.

Heilbrigðiskerfið okkar mælir með brjóstagjöf fyrstu 6 mánuði frá fæðingu barns og hvetur mæður til að hafa börnin lengur en það á brjósti á meðan börn venjast því að innbyrða fasta fæðu. Ef mæður eiga eingöngu 6 mánaða rétt til fæðingarorlofs og geta með engu móti framlengt það tekjanna vegna, þá er mjög erfitt að halda brjóstagjöf áfram.

Varðandi það að stytta tíma til töku orlofs úr 24 mánuðum niður í 18 mánuði. Eins og fram hefur komið í mörgum öðrum umsögnum, eru fæstir leikskólar að ná að taka inn börn á þessum aldri. Eins er þá verið að einhverju leyti að mismuna börnum eftir því hvenær á árinu þau eru fædd, því flestir leikskólar taka eingöngu inn börn á haustin, og sum börn gætu þá jafnvel lent í allt að 6-12 mánaða gati, þar sem enga dagvistun er að fá og réttur foreldra til töku orlofs er útrunninn. Eins og fram kemur í frumvarpinu var orlofstökutíminn 18 mánuðir árið 2009 og þá lengdur í 36 mánuði. Einhver rík ástæða hlýtur að hafa legið þar að baki og ég tel það gríðarlega afturför að stytta þennan tíma aftur. Höldum milliveginum, 24 mánuðir.

Mín tillaga er svona, 3-3-6.

Faðirinn á 3 mánuði, móðirin á 3 mánuði og 6 mánuðir verða sameiginlegir, sem foreldrar fá að ráða sjálfir.

Með bestu kveðju Helena Rut

Afrita slóð á umsögn

#143 Aðalheiður Halldórsdóttir - 05.10.2020

Samkvæmt ráðleggingum landlæknisembættisins á barn að vera á brjósti til 12 mánaða aldurs. Barn kemst ekki að á leikskóla fyrr en um 2 ára. Að koma barni að hjá dagmömmu er munaður sem ekki allir hafa efni á, þess utan hversu langur biðlistinn er. Fæðingarorlof er allt of stutt! Það ætti að vera 2 ár og auðvitað á treysta foreldrum til að skipta því á milli sín eins og hentar hverri fjölskyldu.

Afrita slóð á umsögn

#144 Guðný Sigríður Magnúsdóttir - 05.10.2020

Foreldraorlof fjölburaforeldra

Þegar fæðingarorlofið var á sínum tíma 6 mánuðir þá var lenging fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt ræða, þ.e. 50% aukning ef fjölburafæðing átti sér stað.

Frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar þar sem foreldrar hvort um sig eiga sjálfstæðan rétt í allt að 4 mánuði en auk þess eiga foreldrar sameiginlega rétt á tveimur mánuðum til viðbótar en engin breyting hefur verið gerð á réttindum foreldra vegna fjölburafæðingar. Ef samhengi hefði verið við breytinguna þegar fæðingarorlofið var 6 mánuðir þá hefði lengingin átt að vera 5 mánuðir fyrir hvert barn umfram eitt.

Miðað við nýjustu tillögur þar sem lengja á fæðingarorlofið í 12 mánuði og foreldrar skipta á milli sín þá er engin breyting vegna foreldra sem eignast fjölbura. Foreldrar sem eiga tvíbura munu því fá eftir þessa breytingu 12 mánuði með barni 1 og síðan 3 mánaða lengingu með barni 2. Ef hlutfallið hefði haldið sér þar sem hvert barn umfram eitt gæfi 50% aukningu þá fengju þessir sömu foreldrar 18 mánuði samanlagt ef um tvíburafæðingu væri að ræða og 24 mánuði ef um þriburafæðingu væri að ræða.

Ef þessir foreldrar hefðu átt barn með mjög stuttu millibili þá væri mögulegt fyrir þessa foreldra að fá samfellt tveggja ára fæðingarorlof með tveimum börnum (2x12 mánuði) en foreldrar tvíbura fá einungis 15 mánuði, 9 mánuðum minna en foreldrar með 2 börnum sem fædd eru á sitthvoru árinu og foreldrar þríbura fá 18 mánuðum minna heldur en foreldrar sem eiga börn fædd á 3 árum.

Þá verður líka að taka inní dæmið að dagvistun er ekki tryggð, örugg dagvistun í beinu framhaldi af fæðingarorlofstöku og með því að lengja rétt foreldra sem eignast fleiri börn en eitt upp í 6 mánuði á hvert barn umfram eitt þá er búið að stytta þetta óvissutímabil þar sem foreldrar standa frammi fyrir vegna dagvistunar en auk þess þá þurfa foreldrar fjölburabarna að skoða hvort það borgi sig að koma sér á vinnumarkaðinn aftur vegna kostnaðar þar sem þeim stendur ekki til boða ungbarnaleikskólar. Því þarf einnig að tryggja að börn fái dagvistun í framhaldi af fæðingarorlofi en það er stór hluti þess að ná fram kynjajafnrétti að annað foreldrið hröklist ekki af vinnumarkaði þar sem ávinningur er enginn því mikill kostnaður fylgir því ef foreldar fjölbura þurfa að notast við dagforelda þangað til vistun á leikskólum stendur til boða.

Út frá fjölburaforeldrum (einnig einburaforeldrum) þá gengur það ekki upp að viðmiðið séu 18 mánuðir til að nýta fæðingarorlofið, þeir hafa engan sveigjanleika, Ef mörkin yrðu færð þannig að fjölburaforeldrar fengju auka 6 mánuði miðað við hvert barn umfram eitt þá myndu tvíburaforeldrar fá 18 mánuði og þríburaforeldrar 24 mánuði og auka mörkin vegna fæðingarorlofstöku fjölburaforelda því þá er mögulegt fyrir þá foreldra að dekka þá mánuði sem útaf stendur ef fæðingarorlof fjölburaforelda verði bætt og verði í samræmi við það sem var áður og ekki skorið niður miðað við það sem var áður.

Afrita slóð á umsögn

#145 Martha Sigurðardóttir - 05.10.2020

Það er skref í rétta átt að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði en það ætti að endurskoða frumvarpið og auka fjölda mánaða sem eru sameiginlegir, það á að vera í höndum foreldra hvernig þeir ákveða að skipta fæðingarorlofinu. Einnig tel ég mikla afturför að stytta tímann til töku fæðingarorlofs niður í 18 mánuði.

Afrita slóð á umsögn

#146 Helga Reynisdóttir - 05.10.2020

Þegar búið er að eyða launamun kynjanna og feður gætu mjólkað væri þetta frábært frumvarp.

Þangað til fyndist mér eðlilegt að fólk velji hvernig það skiptir orlofinu sín á milli. Alþjóðaheilbrigðsmálastofnun hvetur til brjóstagjafar til amk 2 ára aldurs og þurfa konur að geta orðið við þessu. 6 mánaða gamalt barn drekkur oft brjóst á dag en það getur reynst flókið þegar móðirin er í vinnu.

Fólk vinnur mismikla vinnu, stundum annað foreldrið í hlutastarfi til að getað sinnt heimilinu og hjón eru með misháar tekjur. Fólk þarf að geta dregið áfram lífið á fæðingarorlofsgreiðslum en fólk er með misjafnar skuldbindingar sem eru oft eftir innkomu og væri því eðlilegast að aðlaga greiðslur til fólks eftir skuldbindingum.

Ég fagna því að það standi til að lengja fæðingarorlofið en ég sé því miður ekki annað í þessu en hagræðingu fyrir ríkið þar sem feður munu enn síður taka sér fæðingarorlof. Ég sé fyrir mér að þeir verða fastir á vinnumarkaðinum til að sjá fyrir tekjum fyrir heimilið meðan mamman skiptir orlofsgreiðslum sem eiga að vera fyrir 6 mánuði á 12 mánuði.

Ég hefði viljað sjá orlofið lengt í 18 mánuði þar sem móðirin tæki 12 mánuði og gæti haldið áfram eðlilegri brjostagjöf og faðirinn 6 mánuði eða þar til barnið kæmist á leikskóla.

Afrita slóð á umsögn

#147 Soffía Tinna Hjörvarsdóttir - 05.10.2020

Er foreldrum ekki treystandi til að tryggja í sameiningu jafnrétti sín á milli?

-          Jafnrétti til tengslamyndunar við barnið.

-          Jafnrétti til atvinnuþáttöku.

-          Jafnrétti til þess að vera í líkamlega og andlega nógu góðu jafnvægi til þess að takast á við þau verkefni sem liggja fyrir, ummönun barns heimavið og atvinnu.

Nú þegar eru komnar margar góðar og málefnalegar umsagnir og mig langar til að taka undir með öllum þeim sem tala fyrir meiri sveigjanleika í skiptingu fæðingarorlofsstyrks milli foreldra - en bæti við: á meðan aðeins 12 mánuðir eru til skiptana.

Afstaða mín og eflaust margara annara gagnvart jafnri skiptingu væri allt önnur ef heildarlenging fæðingarorlofs væri nokkuð meiri. 9+9 eða jafnvel allt að 12+12. Að þá væri hægt að horfa til jafnrar skiptingar sem tæki tillit til mikilvægra þátta sem felst í barneignaferli. Það myndi líka gera foreldrum kleift að brúa bilið að dagvistun án þess að þurfa að taka launalaus leyfi eða dreifa fæðingarorlofsgreiðslum á lengra tímabil. En úr því að við erum bara að tala um 12 mánuði að þessu sinni væri rétt að spyrja er jöfn skipting réttlát skipting?  Gró Einarsdóttir doktor í félagssálfræði kemur inn á þetta málefni í frábærri grein sem birtist í visi.is 30.sept sl, “4-4-4 skipting tekur mið af álagi, þörfum og jafnrétti” (sjá einnig umsögn nr.24).

Úr grein Gróar:

Það er eitt sjónarmið að réttlát skipting sé jöfn skipting. En það er alls ekki eina sjónarmiðið. Í klassískri vísindagrein (e. Equity, Equality, and Need) um þetta efni eru nefndar þrjár megin leiðir til að skipta takmörkuðum gæðum. Eftir því sem hver og einn hefur lagt á sig, eftir þörfum og jafnt. Hér í umsögnunum er skýrt ákall foreldra eftir því að hugað sé betur að skiptingu eftir þörfum og álagi. Þar sem flestar konur bera barnið, fæða það og næra telja margir að það felist réttlæti í því að tekið sé tillit til þessa álags. Í mörgum umsögnunum er líka kallað eftir því að hugað sé að mismunandi þörfum. Þörfum barna sem eru á brjósti, þörfum mæðra sem gefa börnunum brjóst, þörfum mæðra til að jafna sig andlega og líkamlega eftir barnsburð, þörfum mismunandi fjölskyldugerða fyrir sveigjanleika, þörfum efnaminni fjölskyldna o.s.frv.

Önnur frábær grein: Tímaskekkja sem birt var á kjarnanum 26.september sl. eftir Sæunni Kjartansdóttur sálgreini, höfund bóka um fyrstu ár ungbarna og hjúkrunarfræðing hjá miðstöð foreldra og barna sem talar fyrir möguleikanum á samtals 24 mánaða fæðingarorlofi. Það er ekki að ástæðulausu.

Fyrstu tvö árin er lagður grunnur að heilaþroska barnsins, hugmyndum þess um það sjálft og umheiminn. Á Norðurlöndunum þar sem fæðingarorlof er lengra er búið að rannsaka mjög ýtarlega hvað kemur sér best fyrir börnin og það sem kemur sé betur fyrir börnin kemur sér yfirleitt betur fyrir samfélagið til lengri tíma litið. Það að spara á þessum fyrstu mánuðum, það er mesta vitleysa sem við getum gert. Það er búið að rannsaka það líka. Hver króna sem er spöruð fyrstu tvö ár barns kostar margfallt seinna meir, kostnaður sem fellur til í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og félagslega kerfinu.

Það er galið að vera með fæðingarolofskerfi og leikskólakerfi sem haldast ekki í hendur. Ísland er eina ríki Norðurlanda sem lætur foreldra um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þetta er verulegt vandamál sem vinni gegn jafnréttishugsununinni í frumvarpi fæðingarorlofslaganna. Afhverju?

Tölfræðin sýnir að flestar mæður vilja og/eða þurfa að vera lengur heima með barninu en það fæðingarolof þær hafa rétt á nú þegar. Það má draga af því líkur að það muni ekki breytast verði frumvarið óbreytt að lögum. Á meðan líður heimilið fyrir þá tekjuskerðingu sem verður til af því að fá aðeins 50-75% af fæðingaorlofsgreiðslu sem þegar er aðeins 80% af launum viðkomandi eða upp að því þaki sem sett hefur verið á fæðingarolofsgreiðslur. Þessu fyrirkomulagi fylgir oft í ofanálagt skuldasöfnun. Þessi útþynning á fæðingarorlofsgreiðslum er auðvitað ekkert annað en launalaust leyfi, ekki er greitt í lífeyrissjóð né stéttarfélag á meðan og það foreldri sem er lengur heima til að brúa bilið að leikskóla, sem oftast er móðirin, er eftir sem áður lengur frá vinnu en 6-7 mánuði. Hvar erum við þá stödd með þessa jafnréttistilraun?

Ótal umsagnir her á undan benda á mikilvægi og meðmæli landlæknisembættisins og WHO með bróstagjöf. Ég tek undir það, en þeir sem gefa lítið fyrir það hafa meðal annars bennt á rannsóknir sem sýna fram á að endurkoma mæðra á vinnumarkaðinn við 6 mánaða aldur barns komi ekki í veg fyrir eða endi brjóstagjöf. Sú niðurstaða kemur ekki á óvart. Þær konur sem vilja og geta gefið barni sínu brjóst, munu gera hvað þær geta að halda því áfram þrátt fyrir að vera þvingaðar á út á vinnumarkaðinn, með tilheyrandi vinnu, fyrirhöfn, vökunóttum, álagi og truflun á þeirri atvinnu sem hún sinnir. Við konur þurfum jú bara að vera duglegri, ekki satt? (e. til öryggis: þekkt kaldhæðni). Inn í þessar rannsóknir vantar tilfinnanlega mjög mikilvæga breytu, Hvernig líður þessum konum og börnum sem eiga í hlut?

Er rétt að löggjöfin ákveði að allar konur sem ganga með barn, fæða það og koma því á legg á sama tíma og þær eru að jafna sig séu tilbúin til þess að stíga inn á vinnumarkaðinn eftir 6-7 mánuði frá fæðingu?

Eiga foreldararnir að hafa kost á því að finna út úr því í sameiningu?

Er gott fyrir vinnumarkaðinn að fá konur til starfa sem eru ekki líkamlega og andlega tilbúnar til þess? Er það gott fyrir barnið/konuna/makann/systkinin?

Þær konur sýna líkamleg og/eða andleg einkenni sem benda til þess að þær séu ekki í stakk búnar til að snúa aftur á vinnumarkaðinn eftir 6 mánuði frá fæðingu, hvað er til bragðs að taka? Eiga þær þá að fara í veikindaleyfi, fá sjúkradagpeninga? Erum við komin þangað?

Það er eins og hópur fólks sé búinn að sætta sig við það að konum sé refstað með lægri launum og færri tækifærum vegna þess að þær taki hugsanlega lengri fæðingarorlof en karlar. En það er ólöglegt. Á að reyna að leiðrétta það með því að þvinga mæður inn á vinnumarkaðinn fyrr en þeim flestur líður vel með eða að þær taki sér tilneyddar launalaus leyfi, hverjum er verið að gera greiða hérna?

Þeir sem eru mér ósammála ættu í öllu falli að velta því fyrir sér hvort núna sé rétti tíminn til að setja verðandi foreldrum svo stífann og ósveigjanlegan ramma.

Fáir vita hvernig árið 2021 mun líta út atvinnulega séð. Á mörgum heimillum hefur annar aðilinn eða báðir misst vinnuna vegna heimsfaraldursins, geta með engu móti séð hvenær það breytist, barn á leiðinni. Þetta gefur auga leið, ef einhvertíman er þörf á sveigjanleika í skiptingu fæðinarorlofs á milli foreldra þá er núna nauðsyn.

Undirrituð er tveggja barna móðir og arkitekt.

PS. ef tryggja á barni umönnun foreldra heimavið í 12 mánuði þarf að bæta þrettánda mánuðnum við, því flestir feður/makar vilja og/eða þurfa að vera heima hjá nýfæddu barni og móður fyrsta mánuðinn.

Afrita slóð á umsögn

#148 Jóhanna Þórunn Ásgrímsdóttir - 05.10.2020

Með tilvísun í 7 gr

Foreldrar eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að sex mánuði hvort um sig

Það er falleg hugsun og gaman að geta státað af því út á við að hafa jafnan rétt foreldra til töku fæðingarorlofs. Því miður þá er málið ekki svo einfalt að það að búa til barn sé jafnrétti á nokkurn hátt.

Það að ganga með barn tekur að jafnaði 9 mánuði og sér móðirin alfarið um þá vinnu af líffræðilegum ástæðum. Jafnrétti við það verður ekki viðkomið meðan líffræðin er eins og hún er. Oft er talað um að það taki líkama móður amk tvöfaldan tíma meðgöngunnar að ganga saman, eða um 18 mánuði. Háværar raddir segja að ekki megi sjúkdómsvæða meðgöngu en staðreyndin er sú að ganga með og fæða barn tekur á líkamann. Fyrstu mánuði í lífi barna er móðir ekki eingöngu að hugsa um barnið sitt hún er að jafna sig eftir 9 mánaða stöðugar breytingar á líkama sínum. Í meiri hluta tilfella eru þær komnar heim til sín sólarhring eftir barnsburð með kornabarn sem sefur og vakir þegar því hentar, öskrar, ælir og virðir enga hvíldartíma, meðan móðirin er í flestum tilfellum samansaumuð á óþægilegum stöðum og væri undir öllum öðrum kringumstæðum í veikindaleyfi frá vinnu.

Ég vil endilega sjá feður nýta fæðingarorlofið sitt betur, tölfræðin sýnir að flestar mæður lengja núverandi orlof og flestir feður nýta ekki allan sinn rétt, því er ljóst að það þarf aðra hvata en að lengja þann rétt sem er eyrnamerktur feðrum. Því miður er staðan þannig að fæðingarorlof foreldra í dag einkennast af kvíða yfir hvort séu til peningar fyrir reikningunum eftir að hafa dreift orlofinu til að vera til staðar fyrir börnin sín.

Neðar í 7 gr. Stendur

„Réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar fellur niður er barnið nær 18 mánaða aldri.“

Mikið væri nú gott ef þetta væri nóg. Staðan er hinsvegar sú að börn geta ekki gengið að dagvistunarúrræðum visum fyrr en þau eru orðin allt að 2,5 árs gömul Sjálf á ég dóttur fædda í mars 2019, hún hefur ekki fengið aðgang að leikskólum Reykjavíkur borgar og ekki er hægt að lofa henni plássi fyrr en sumarið 2021, þá 29 mánaða gamalli. Köld staðreynd, en sönn, tryggja verður að foreldrar geti gengið að dagvistunarúrræðum vísum í ásættanlegri fjarlægð frá heimilum sínum að fæðingarorlofi loknu.

Enn neðar í 7 gr stendur

„Móðir skal vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrsta hálfa mánuðinn eftir fæðingu barns og skal sá tími teljast hluti af sjálfstæðum rétti móður til fæðingarorlofs.“

Hvernig stendur á því að móðir er skykkuð í orlof fyrsta hálfa mánuðinn en hitt foreldrið má haga sínu orlofi eins og hentar, er eitthvað jafnrétti í því? Er það ekki jú einmitt vegna þess að líffræðilega lendir meðganga og fæðing og fyrstu mánuðir barns meira á móður en öðru foreldri. Landslæknisembættið og ungbarnaverndin mælir með að börn nærist nær eingöngu á brjósti fyrstu 6 mánuðina og það er jú bara það foreldri sem gekk með barnið sem getur sinnt brjóstagjöf.

Það er því ljóst að líffræðin gaf okkur ekki jafnrétti við meðgöngu, fæðingu og ummönnun barns fyrstu mánuði þess, því er það óraunhæft að skrifa það í lög að umönnun barna á fyrstu mánuðum þess skuli vera jafn skipt í 6 mánuði á hvort foreldri. Við getum vel verið áfram með jafnan rétt þó sveigjanleikinn sé meiri. Að festa 3 mánuði við hvort foreldri og hafa 6 mánuði til skiptanna bíður enn upp á jafnan rétt foreldra með mun meiri sveigjanleika og væri lausn sem mun fleiri gætu sætt sig við.

Við þurfum að huga að velferð barna okkar umfram þarfir foreldra til að sigra heiminn á vinnumarkaðnum. Hvað eru annars 3-6 mánuðir eða svo í heildarstarfsferli meðal manneskju? Eru þeir eitthvað sem skiptir máli í heildarmyndinni hvað varðar jafnrétti á vinnumarkaði?

Einnig vil ég benda á að fjölskyldur eru allskonar og það foreldri sem ekki gengur með barnið getur verið bæði móðir og faðir, en í frumvarpinu er orðið faðir marg oft notað um það foreldri sem ekki gengur með barnið.

Afrita slóð á umsögn

#149 Berglind Robertson Grétarsdóttir - 05.10.2020

Ég er leikskólastjóri í ungbarnaleikskóla og hef unnið með ungum leikskólabörnum og fjölskyldum þeirra sl. 19 ár. Að auki hef ég hátt í 30 ára reynslu í leikskóla, bæði fyrir og eftir útskrift sem leikskólakennari. Ég hef því mikla reynslu af kennslu og umönnun barna sem eru að koma í vistun strax að loknu fæðingarorlofi og samskipti við foreldra þessara barna.

Það sem mér finnst gleymast í þessu frumvarpi er að fyrir hvern er þetta fæðingarorlof? Á það ekki að vera fyrir barnið? Það er allt gott og blessað að huga að jafnrétti foreldra og að báðir séu jafn virkir í uppeldi barna sinna en ég tel að við eigum að treysta því að foreldrar geti skipulagt sitt orlof með þarfir barnsins og fjölskyldunnar í huga. Einnig tel ég að skilyrða tímann sem foreldrar hafa til að taka orlofið í 18 mánuði vera of stuttan, foreldrar eiga að hafa þann koast að vera heima með barni sínu í 24 mánuði ef það hentar fjölskyldunni, t.d. ef barnið er að bíða eftir leikskólaplássi.

Að einungis einn mánuður sé framseljanlegur á milli foreldra tel ég vera allt of lítið. Fyrir því eru nokkur rök.

1. Börn eru mislengi á brjósti og ef það er bara í boði fyrir móður að vera heima með ungabarni í 7 mánuði getur það haft verulega neikvæð áhrif á líðan barnsins og valdið kvíða hjá móður að fara frá barni sínu þetta snemma.

2. Það er mun raunsærra að hafa þrjá mánuði framseljanlegan á milli foreldra. Já líklega verður það oftar móðirin sem er lengur heima en það á vera val hverrar fjölskyldu hvernig það skipuleggur fæðingarorlofið en ekki þrengt upp á það með löggjöf sem hentar ekki öllum.

3. Mín reynsla sýnir að feður eru mjög virkir í uppeldi ungra barna og það er mjög algengt að þeir sjá alfarið um að aðlaga börnin í leikskólann og eru ekki síður að koma með börnin og sækja þau dag hvern. Löggjafavaldið á ekki að þurfa að þröngva jafnréttissjónarmiðum upp á foreldra því þetta er kynslóð sem er mjög vel að sér í þessum málum og þau vilja jafnrétti í einkalífi og á vinnumarkaði.

Að mínu mati er 6 mánaða orlof fyrir einstæða foreldra allt of lítið og of þröng skilyrði fyrir því að þegar bara er um eitt foreldri að ræða að það fái alla 12 mánuðina. Enn og aftur vil ég benda á að það á að vera réttur BARNSINS að fá að vera heima í 12 mánuði með foreldri sínu, hvort sem það er einstætt eða báðir foreldrar.

Að senda börn í vistun mjög ung getur skapað kvíða hjá foreldrum og það er eitthvað sem börnin skynja, kvíðnir foreldrar eiga oft kvíðin börn og er þetta eitthvað sem ég sé á hverjum degi í mínum leikskóla. Einnig er töluverður munur á styrkleika ónæmiskerfisins hjá 6 eða 9 mánaða gömlu barni eða ef þau byrja í dagvistun eftir 12 mánaða aldur. Mikil veikindi barna eftir að þau byrja í dagvistun eykur álag á foreldra og það kallar á meiri fjarveru frá vinnu. Þetta er eins og snjóbolti, vinnuveitendur sýna þessu mis mikinn skilning, foreldrar fá samviskubit og oft fá börnin ekki nægilegan tíma til að jafna sig af veikindunum áður en þau koma aftur í leikskólann.

Samantekt:

1. Öll börn eiga að fá þann rétt að vera heima í lágmarki 12 mánuði, hvort sem um einstætt foreldri er að ræða eða að báðir foreldrar skipti þessu á milli sín.

2. A.m.k. þrír mánuðir ættu að vera framseljanlegir á milli foreldra svo að þarfir barnanna séu í fyrirrúmi en ekki að einungis sé horft til jafnréttissjónarmiða.

3. Foreldrar ættu að hafa þann kost að vera heima allt upp í 24 mánuði en ekki 18 mánuði.

Afrita slóð á umsögn

#150 Anna Lilja Björnsdóttir - 06.10.2020

Mér finnst frábært að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði.

Hinsvegar er ekki góð hugmynd að taka ákvörðun fyrir foreldra hvernig því er skipt.

Aðstæður eru mjög mismunandi milli fólks.

Sömuleiðis tel ég líkur á að mæður muni þá frekar teygja sína mánuði sem verður til þess að þær fá minni greiðslur en ef að þær fengju að taka fleiri mánuði.

Aukinheldur sýnir reynslan að börn eru ekki að komast til dagforeldra eða á leikskóla fyrr en um 24 mánaða aldur. Því er bagalegt að setja þau skilyrði að það þurfi að nýta fæðingarorlofsréttinn 6 mánuðum fyrr. Það tekur einfaldlega út einn möguleika til að brúa bilið í þeim tilfellum sem það þarf.

Sömuleiðis er frumvarpið í andstöðu við það sem landlæknir og fl. hafa sagt varðandi brjóstagjöf en skv. fræðsluefni frá þeim er happadrjúgast að vera með barn á brjósti til að minnsta kosti 9 mánaða.

Ég er viss um að frumvarpið sé samið af góðum hug og hugsjón fyrir jafnrétti kynjanna. Ég efast þó um að fyrirkomulagið sem hér er sett fram henti þorra barnafjölskyldna og nái ekki þeim markmiðum sem að vonir standa til.

Afrita slóð á umsögn

#151 Valmundur Valmundsson - 06.10.2020

Umsögn um foreldra- og fæðingarorlof.

Sjómenn eru sú stétt fólks á Íslandi sem þurfa hvað mestan sveigjanleika við töku fæðingarorlofs. Reglan er í flestum tilfellum sú að karlmaðurinn á heimilinu er sjómaður og konan heima að hugsa um börn og bú. Þó eru undantekningar þar á. Sjómaðurinn, hvort sem það er kona eða karl, er yfirleitt aðal fyrirvinnan og heimilið má illa við því að missa mikinn hluta tekna sinna í fimm mánuði ef aðal fyrirvinnan vill nýta sér fæðingarorlof að fullu. Það er því skýlaus krafa að kerfið sé sveigjanlegra til að mæta kröfum sjómanna. Að lágmarki ætti að leyfa þriggja mánaða tilfærslu fyrir báða foreldra en best væri að leggja alfarið í hendur foreldra sjálfra skiptingu fæðingarorlofs milli þeirra.

Valmundur Valmundsson

formaður Sjómannsambands Íslands

Afrita slóð á umsögn

#152 Sunna Kristín Símonardóttir - 06.10.2020

Sem tveggja barna móðir og fræðikona sem hef rannsakað foreldramenningu, jafnrétti og upplifun einstaklinga á foreldrahlutverkinu í meira en 8 ár þá fagna ég innilega frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Það er mikilvægt að nú sé stigið það löngu tímabæra skref að fæðingarorlof sé 12 mánuðir og að því sé skipt jafnt á milli foreldra. Eitt stærsta jafnréttismál síðari ára voru ný lög um fæðingarorlof sem sett voru árið 2000 sem tryggðu íslenskum feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Löggjöfin skilaði sér í mikilli nýtingu feðra á fæðingarorlofi því þegar feður hafa öðlast sjálfstæðan óframseljanlegan rétt þá nýta þeir hann. Engu að síður er það svo að mæður nota oftar allan sinn sjálfstæða rétt og í flestum tilvikum einnig nær allan sameiginlegan rétt þannig að fæðingarorlofstaka þeirra er mun lengri en feðra.

Það er óþarfi að útlista öll þau gagnreyndu rök og rannsóknir sem sýna fram á mikilvægi þess að fæðingarorlofi sé skipt jafnt á milli foreldra. Nefndin sem sá um að útfæra skiptingu orlofs í frumvarpinu byggði þá vinnu sína á ótal rannsóknum og uppsafnaðri þekkingu sem sýna fram á kosti þess fyrirkomulags, m.a. jákvæð áhrif á samskipti og tengsl foreldra og barna, aukið jafnrétti á vinnumarkaði og innan heimilis, jákvæð áhrif á parasamband og engin neikvæð tengsl orlofstöku móður við lengd brjóstagjafar.

Þar sem að margar umsagnir við þetta frumvarp byggja á persónulegu sjónarhorni finnst mér mikilvægt að árétta að þegar lög um sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs voru samþykkt árið 2000 ríkti enginn einhugur um þau og umræðan í fjölmiðlum var með afar keimlík því sem við sjáum núna. Það var með öðrum orðum alls ekki litið svo á að feður hefðu yfirleitt eitthvað við fæðingarorlof að gera. Þó að hugmyndir okkar um foreldrahlutverk og eiginleika og skyldur feðra og mæðra hafi blessunarlega breyst aðeins, þá eimir enn eftir af ákveðinni eðlishyggju og mæðrahyggju sem litar umræðuna nú, líkt og þá.

Það er mín einlæga von að dætur mínar fái að alast upp í samfélagi sem mismunar ekki foreldrum og sem lítur á það að annast um barn sem verkefni sem báðir foreldrar eru jafn hæfir í óháð kyni. Samfélagi sem þorir að taka stefnuna á jafnrétti. Þannig samfélag er nefnilega best fyrir börn. Verkaskipting foreldra í uppeldi og umönnun hefur áhrif á alla þætti samfélagsins og skapar ólík hlutverk fyrir konur og karla sem hefur síðan áhrif á samfélagsþátttöku, atvinnuþátttöku og byrði innan heimilisins og svo ótalmargt fleira. Þetta er grundvöllur margskonar ójafnréttis og íþyngjandi kynhlutverka. Hin nýja löggjöf mun ekki taka neitt frá mæðrum, þær fá 6-7 mánuði sem er aukning frá því sem verið hefur. Hún mun aftur á móti færa feðrum mikið og um leið breyta samfélagslegum viðhorfum og viðmóti atvinnurekenda til mikilvægs hlutverks feðra þegar kemur að umönnun barna sinna.

Í 7. grein er gert ráð fyrir þrengingu tímamarkanna sem foreldrar geta tekið fæðingarorlof. Í ljósi ákalls um meiri sveigjanleika og þeirrar staðreyndar að inntökualdur á leikskóla er víða 24 mánuðir myndi ég hvetja til þess að takmörk verði aftur færð í 24 mánuði.

Í 8. gr. frumvarpsins er fjallað um þau tilvik þegar fæðingarorlof lengist eða réttur til orlofs er framseldur milli foreldra. Það er sanngirnismál að löggjöfin hafi svigrúm þegar sannarlega er aðeins um eitt foreldri að ræða. Því legg ég til að Fæðingarorlofssjóður hafi aukna heimild til að úrskurða um flutning réttinda milli foreldra, t.a.m. þegar foreldrar eru ekki í sambúð og annað foreldri kærir sig ekki um umgengni við barnið.

Afrita slóð á umsögn

#153 Sigurbjörg Hafsteinsdóttir - 06.10.2020

Það er löngu tímabært að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. En það er óþarfi að stytta tímabilið úr 24 mánuðum í 18, þar minnkar sveigjanleiki foreldranna og eins er ekki búið að brúa dagvistunarbilið í öllum sveitarfélögum.

Það sem mér finnst alvarlegast við þetta frumvarp er að ekki er horft á réttindi barna í þessum tillögum. Aðstæður fólks eru mjög mismunandi og það sem hentar einni fjölskyldu hentar ekki annarri. Það er afturför og mikil forræðishyggja að mínu mati að hafa ekki meira val fyrir foreldrana.

Ég vil sjá rétt barnins enn sterkari. Í raun ætti að skrá alla þessa mánuði á barnið. Við verðum að treysta foreldrum til þess að taka góðar ákvarðanir með hag barnsins að leiðarljósi. Ef það þarf að eyrnamerkja eitthvað væri best að hafa það eins og verið hefur, þrír mánuði á hvort foreldri og sex sameiginlegir. En mikilvægt er að taka tillit til þess að ef faðir/móðir vill ekki eða getur ekki nýtt allan sinn tíma þá ætti að vera hægt að framselja þann rétt til hins foreldrisins með samkomulagi. Það væri sanngjarnt fyrir öll börn og réttindi allra barna að 12 mánaða samvist með foreldrum væri tryggð.

Sýnum gott fordæmi og setjum réttindi barnanna í forgang.

Afrita slóð á umsögn

#154 Bandalag háskólamanna - 06.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn Bandalags háskólamanna- BHM.

Fyrir hönd BHM,

Andri Valur Ívarsson

lögmaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#155 Sigríður Steinunn Jónsdóttir - 06.10.2020

Þrátt fyrir að ég fagna því að verið sé að lengja fæðingarorlofið þá verð ég að mótmæla sterklega þessari 6+6 skiptingu sem er lagt upp með. Það er ekki hlutverk ríkis né vinnumarkaðarins að ákveða það hvernig foreldrar skipta á milli sín fæðingarorlofinu, heldur er það foreldrana að ákveða það. Það eru mun fleiri breytur en von um frekara jafnrétti á vinnumarkaði sem þarf að hafa í huga við þessa ákvörðun. Ætla má að ekki hafi verið rætt við viðeigandi fagaðila þegar þessi skipting var ákveðin, ss. lækna, ljósmæður, umönnunaraðila barna og foreldra. Hagsmunir barnanna hafa ekki verið hafðir í forgangi!

Þessir 12 mánuðir ættu að fylgja barninu en ekki kyni foreldra. Það er jafnrétti að setja það í hendur foreldra að skipta á milli sín þessum 12 mánuðum. Það fer svo eftir aðstæðum hverrar fjölskyldu fyrir sig hvernig foreldrar skipta þessu á milli sín. Aðstæður fjölskyldna geta verið mjög mismunandi og því ekki hægt að setja þær allar í sama 6+6 mánuða formið.

Hagur barnsins og fjölskyldna verður að vera tekinn fram yfir jafnréttissjónarmið. Fyrir utan það að margir sérfræðingar telja þetta ekki vera leið sem stuðli að jafnrétti. Hljómar meira eins og sparnaðarráð hjá stjórnvöldum og tilraun til að komast inn á einhverja jafnréttis lista. Tilraun sem kemur verst niður á börnunum.

Í þessari jafnréttis umræðu má heldur ekki gleyma því að það er munur á kynjunum. Konur ganga með börnin, fæða þau og sjá þeim fyrir brjóstamjólk fyrstu mánuðina. Þetta er staðreynd sem er ekki hægt að breyta. Foreldrar verða að geta valið það hversu lengi barnið á að fá brjóstamjólk, og þá skiptir miklu máli hversu lengi konan hefur kost á því að vera í fæðingarorlofi. Það er best fyrir barnið að fá brjóstamjólk sem lengst, og mælir WHO með því að barnið fái brjóstamjólk í allt að 2 ár.

Það vekur athygli við lestur umsagna við þetta frumvarp að nánast eingöngu samtök styðja þessa 6+6 skiptingu. Maður veltir því fyrir sér hvaða hagsmunir liggja þar að baki? að minnsta kosti ekki hagsmunir barnsins svo mikið er víst. Einstaklingar sem hafa sent inn umsögn hér og einstaklingar á þeim spjallborðum sem að þessi umræða hefur verið tekin eru hinsvegar ósáttir með þessa skiptingu. Foreldrar og þeir sem þurfa að nýta sér fæðingarorlofsréttinn virðast nánast allir sammála að þessi skipting sé ekki börnum og fjölskyldum til góða. Það er mikilvægt að hluta á foreldrana þegar kemur að þessari stóru og mikilvægu ákvörðun.

Einnig verð ég að mótmæla styttingu úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Sveitafélögin hafa hingað til ekki getað tryggt öllum börnum dagvistun innan 18 mánaða og því ætti það ekki að vera til umræðu að stytta þann tíma sem fólk hefur til að taka fæðingarorlofið. Skiptir þá einnig miklu máli hvenær á árinu börnin eru fædd hversu lengi þau þurfa að bíða eftir dagvistun hjá sveitafélögunum. Hvet til þess að óskað verði eftir umsögn frá sveitarfélögunum við hvaða aldur það er sem þeir geta tryggt öllum börnum dagvistun. Meðan sá aldur er yfir 18 mánaða þá ætti ekki að stytta þennan tíma.

Afrita slóð á umsögn

#156 Ósk Dagsdóttir - 06.10.2020

Mikilvægt er að huga fyrst og fremst að velferð barns þegar fæðingarorlof er annars vegar. Börn hafa bæði líkamlegar og andlegar þarfir sem þarf að sinna og oft fara þær saman.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með því að börn séu á brjósti a.m.k. til tveggja ára ef þess er kostur og þó að stundum séu aðstæður sem það ekki gengur upp ætti vinnuskylda móður ekki að ýta undir það. Með því að móðir hafi aðeins sex mánuði og heildarfæðingarorlofi sé ekki dreift á nema 18 mánuði er nánast útilokað að ná þessu markmiði sem getur skipt máli fyrir heilsu til frambúðar.

Á fyrstu 24 mánuðum barnsins er líka gífurlegur heilaþroski í gangi hjá börnum og mjög mikilvægt að þau tengist foreldrum sínum. Þetta er tengt við betri líðan og árangur í námi. Margar mæður, sem eru í efnahagslegri stöðu til þess, dreifa fæðingarorlofi á 12 mánuði og finnst það yfirleitt síst of langt. En margar hafa ekki þennan valkost og þær sem þetta gera lenda oft í öðrum fórnarkostnaði.

En svo er það faðir eða hitt foreldrið sem skiptir líka miklu máli. Feður hafa verið að taka meira fæðingarorlof eftir að boðið var upp á það en margir nýta það þó ekki að fullu. Það er leitt. Þarna koma eflaust inn tekjur, og þá tekjur beggja foreldra, en allir þurfa að taka á sig tekjulækkun ef bara er boðið upp á 80% af tekjum fólks.

Þær mæður sem geta og velja að taka lengra fæðingarorlof vegna þarfa barna sinna eru svo enn frekar með tekjulækkun og getur það reynst heimilum þungbært og frekar bitnað á heilsuvernd barna. Þessi fjármagnsskortur getur orðið til þess að foreldrar taka ekki það orlof sem barnið þyrfti og eiga hugsanlega ekki fyrir þeim nauðsynjum sem fjölskyldan þarf. Ljóst er að mörg börn á Íslandi búa við fátækt og því ætti alfarið að taka út 80% ákvæði í úthlutun fæðingarorlofs og huga að lengd fæðingarorlofs þannig að hún mæti þörfum barna.

Nú er ljóst að mörg börn komast ekki inn á leikskóla fyrr en 18-24 mánaða enda þykja leikskólar ekki endilega jafnheppilegir fyrir börn undir 2 ára vegna þessarar mikilvægu tengslamyndunar við foreldra fyrstu tvö árin. Eftir þau ár er augljóst að margir foreldrar upplifa að þeir vinni of mikið til þess að sinna börnum sínum vel og því ættu þeir að eiga kost á að taka fæðingarorlof að hluta eftir því sem börnin eldast eins og á sumum öðrum Norðurlöndum. Þá geta foreldrar minnkað við sig vinnu til þess að sinna börnum sínum.

Ég held að það eina rétta gagnvart börnunum í landinu sé að vinna að því að fæðingarorlof verði 24 mánuðir. Því mætti skipta þannig að foreldri eigi hvort um sig 6 mánuði en geti deilt hinum 12 mánuðunum eins og á við fyrir fjölskyldur hverju sinni. Hugsanlega mætti breyta þessu í áföngum og byrja á 18 mánuðum með 6 mánuðum á hvort foreldri en 6 mánuðum sem foreldrar geta deilt.

Eðlilegt væri að réttur til fæðingarorlofs myndi gilda þar til barn yrði 12 ára, eða a.m.k. 9 ára, þannig að foreldrar geti valið að nýta hluta til þess að draga úr vinnuálagi síðar. Þessi breyting gæti komið til móts við þarfir barna fyrir brjóstagjöf, fyrir tengsl við foreldra fyrstu árin og orðið til þess að minnka álag á foreldra og auka tíma þeirra til þess að sinna fjölskyldunni þegar líður á. Hver fjölskylda gæti skipulagt þetta eftir sinni þörf en auðvitað væri nauðsynlegt að breyta líka þessari tekjuskerðingu þar sem annars munu ekki allir geta nýtt orlofið eða þá að tekjulækkun mun bitna á fjölskyldum á annan hátt.

Lykillinn að því að ákveða svona er alltaf að hugsa um hag barnsins. Sá hagur hefur verið mikið rannsakaður og eru rannsóknirnar skýrar. Stjórnvöld og barnamálaráðherra bera ábyrgð á því að sjá til þess að þörfum barna sé mætt kerfislægt þannig að foreldrar geti axlað sína ábyrgð gagnvart börnum sínum.

Afrita slóð á umsögn

#157 Kjartan Þór Þórisson - 06.10.2020

Frábært er að sjá að nú séu komin áfrom um það að lengja skuli fæðingarorlofið.

Það er ekki annað að sjá eða heyra, að allir séu sammála um það, að nauðsynlegt sé að lengja fæðingarorlofið í takt við t.d Norðurlöndin. Hinsvegar er það ekki gott að löggjafavaldið sé að stýra því hvernig þessum mánuðum séu í raun skipt hjá fólki í dag, eins og lagt er upp með þessari breytingu.

Nauðsynlegt er fyrir hvert heimili og foreldra að geta beitt ákveðnu svigrúmi í hinu daglega lífi, sér í lagi ef að aðstæður breytast. Sem er ekkert óþekkt í samfélaginu í dag.

Ég tel að ef af þessari breytingu verður, þá sé barnshafandi fólk að verða fyrir mikilli skerðingu og hvet ykkur til að endurskoða þetta.

Lengjum fæðingarorlofið en höldum í sveigjanleika sem er fólgin í þeim mánuðum sem fólk velur sín á milli, hann er fólki, fjölskyldum og barninu í hag!

Afrita slóð á umsögn

#158 Guðrún Atladóttir - 06.10.2020

Góðan dag,

Ég vil benda ykkur á það að fólk býr við mjög mismunandi aðstæður ef þið hafið ekki áttað ykkur á því nú´þegar. Því þykir mér það fulldjarft að ákveða fyrir fjölskyldur hvernig best er að skipta fæðingarorlofinu. Fjölskyldurnar vita best sjálfar hvað hentar miðað við þeirra aðstæður. Brjóstagjöf er afar mikilvæg fyrir tengslamyndun og ef fjölskyldur vilja hafa það tímabil lengra en 6 mánuði verður þeim gert það mjög erfitt. Ef annar aðilinn er í þannig starfi eða námi að hann á efritt með að taka 6 mánaða fæðingarorlof getur hinn aðilinn ekki komið á móts við það. Ég vona að hagur barnsins og fjölskyldunnar muni vega þyngra en sú skoðun margra að konur og karlar eigi að skipta orlofinu jafnt á milli sín.

Afrita slóð á umsögn

#159 Anna Karen Jónsdóttir - 06.10.2020

Aðstæður fólks eru mismunandi bæði fjárhagslega og heilsufarslega. Karl og kona deila ólíkum hlutverkum á meðgöngu og fyrstu mánuðina eftir fæðingu, deila má um hvort þessi nýja tillaga sé til að auka jafnrétti eða ekki. Einstaklingar eiga að frelsi til að haga sínum fjölskyldu ákvörðunum eins og þeim þykir best.

Afrita slóð á umsögn

#160 Sigríður Finnbogadóttir - 06.10.2020

Í viðhengi er umsögn félagsins Femínísk fjármál.

Virðingarfyllst,

Stjórn Femínískra fjármála

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#161 Arnar Þór Arnarsson - 06.10.2020

Ég vil deila minni persónulegu reynslu af jafnri skiptingu fæðingarorlofs. Fyrir rúmu ári síðan eignuðumst við konan mín barn og lögðum við upp með að skipta fæðingarorlofinu jafnt á milli okkar. Við áttum rétt á samtals níu mánuðum í fæðingarorlof, en ákváðum að við myndum lengja fæðingarorlofið í eitt ár. Konan mín fór í 100% fæðingarorlof fyrstu þrjá mánuðina, síðan vorum við bæði í 50% fæðingarorlofi og 50% vinnu í sex mánuði og að lokum var ég í 100% fæðingarorlofi í þrjá mánuði. Það voru ótrúleg forréttindi að fá að vera með barninu mínu í fæðingarorlofi og hvernig við útfærðum það hentaði okkur öllum vel – þrátt fyrir að margir hafi lýst yfir áhyggjum sínum á þessu fyrirkomulagi. Eins og það var yndislegt að vera heima allan daginn með barninu, þá var það líka afskaplega gott að komast út hálfan daginn þegar ég var í 50% fæðingarorlofi – bæði fyrir barnið og mig. Ég get ekki hugsað mér ef ég hefði bara geta verið í fæðingarorlofi í þrjá mánuði.

Ég er afar hlyntur ákvæði frumvarpsins um jafnan rétt foreldra til fæðingarorlofs. Ég er viss um að það mun leiða til jafnari ábyrgðar foreldra á uppeldi og heimili líkt og fyrri breytingar á lögum um fæðingarorlof gerðu.

Afrita slóð á umsögn

#162 Auður Ö. Hlíðdal Magnúsdóttir - 06.10.2020

Þð að ætla að þrengja fæðingarorlof foreldra eins og nýjustu reglur vilja er ekkert nema forræðishyggja stjórnvalda.

Ég get ekki sagt að mér finnist áhugavert að eignast barn með þessu fyrirkomulagi.

Minar aðstæður eru allt öðruvísi en aðstæður næstu fjölskyldu, og því þarf að virða sveigjanleika fyrir fólk!

Ég myndi vilja sjá 4-4-4 fyrirkomulag ! Og er það langt um sanngjarnast og mikill sveigjanleiki fyrir allar fjölskyldur og flest fjölskylduform !

Einnig þykir mér vert að skoða styttingu tímans til þess að taka orlof.. 18 mánuðir er ansi þröngt viðmið miða við það að flest börn eru ekki að komast inn á leikskóla fyrr en í kringum 18-24 mánaða, og ekki endilega einfalt að fá pláss hjá dagforeldri og því þarf að brúa bil sem gætu myndast á tímabili í kringum 18-24 mánaða.

Ég get ekki séð að mikil ánægja eigi eftir að skapast yfir þessari tillögu þegar uppi er staðið an sveigjanleika fyrir foreldra til þess að taka ákvörðun um það hvað sé best fyrir þau og þeirra aðstæður þá stundina.

Afrita slóð á umsögn

#163 Einar Freyr Elínarson - 06.10.2020

Undirritaðir leggja fram hjálagða tillögugerð sem umsögn við frumvarpið og leggja til að því verði breytt í samræmi við þær tillögur sem þar koma fram og snerta lög um fæðingar- og foreldraorlof.

Einar Freyr Elínarson

Jón Örn Stefánsson

Afrita slóð á umsögn

#164 Annadís Greta Rúdólfsdóttir - 06.10.2020

Heil og sæl

Ég fagna þessu frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Ég hef stundað rannsóknir í mörg ár og eitt af viðfangsefnum mínum hefur verið móðurhlutverkið. Einnig er ég móðir tveggja ungra karlmanna og tel ég þetta frumvarp tryggja að þeir axli sína ábyrgð ákveði þeir að verða feður, allri fjölskyldunni, en sérstaklega barninu til góða.

Frumvarpið er vel rökstutt og mér finnst það traustvekjandi að það byggir á nýjum rannsóknum um foreldrahlutverkið og tekur mið af þörfum barnsins. Á Íslandi eru mæður yfirleitt einnig á vinnumarkaði og þær vinna að meðaltali meira en karlar í mörgum nágrannaríkjum. Fæðingar- og foreldraorlof sem tryggir að álaginu (og ánægjunni) af barnaumönnun sé jafnt skipt hefur áhrif til lengri tíma og er skref í áttina að því að skapa meira jafnvægi milli atvinnu og heimilis. Það styrkir sambandið milli foreldra og minnkar líkur á að konur endi með að axla meginábyrgð á heimilinu sem meðal annars getur komið í veg fyrir að þær njóti sín sem þátttakendur í samfélaginu og atvinnulífinu. Ég vil svo benda á, þar sem margir tiltaka brjóstagjöf sem nauðsynlega við umönnun barnsins, að fjölmargar mæður geta ekki gefið brjóst sérstaklega ef litið er til lengri tíma en 6 mánuði.

Ég tek þó undir ábendingar um að tryggt verði að barn njóti 12 mánaða með foreldri; þ.e. að heimild Fæðingarorlofssjóðar til að færa réttindin milli foreldra verði rýmkuð ef fyrirséð er að annað foreldrið geti ekki annast barnið eða vilji ekki rækja sínar foreldraskyldur. Ég tek einnig undir beiðnir um að foreldrar geti dreift orlofinu fram að þeim tíma að þeir hafi aðgang að öruggri dagvistun.

Afrita slóð á umsögn

#165 Inga María Hlíðar Thorsteinson - 06.10.2020

Ég sendi hér með inn umsögn f.h. Ljósmæðrafélags Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#166 Margrét Brynja Guðmundsdóttir - 06.10.2020

Sjá umsögn í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#167 Guðmunda Pálmadóttir - 06.10.2020

Ég fagna lengingu fæðingarorlofs en tel við eigum þó enn langt í land miðað við þetta frumvarp. Sem verandi móðir í fæðingarorlofi þekki ég það vel eins og aðrir að aðstæður fjölskyldna eru misjafnar og foreldrar yfirleitt ekki í sömu stöðu á vinnumarkaði. Aðstæður foreldra eru misjafnar og eins og svo margir hafa sagt eru foreldrar barnsins bestir í stakk búnir til þess að meta hvernig þau vilja og geta haga sínu orlofi. Ákvarðanir foreldranna byggja að mínu mati ekki á gömlum gildum eða eingöngu vegna misréttis á vinnumarkaði. Ákvarðanir foreldra byggja á þeirra stöðu á vinnmarkaði eða ef um námsmenn eða fólk utan vinnumarkaðar er að ræða. Að áætla að allir foreldrar geti eða vilji haga sínu orlofi með þessum hætti tel ég ansi tæpt. Nú staðan sem við stöndum þá frammi fyrir er að orlofstíminn sem barnið nýtur verður að öllum líkindum ekki mikið lengri en börn njóta í dag.

Það þarf að gefa foreldrum fleiri spil á hendi og lengja orlofið í 12 mánuði að minsta kosti en með þeim sveigjanleika að foreldrar geti skipt því eftir sinni hentisemi. Sjálfsagt er að skylda báða foreldra til lágmarks töku á orlofi eða gefa foreldri hvort um sig 2-4 óframseljanlega mánuði. En í grunninn ættu foreldrarnir að hafa 12 mánuði sem þeir geta skipt eins og þeir vilja. Eiga foreldrar td. ekki að geta átt kost á því að eiga hluta af orlofinu saman? Það er dýrmætur tími að geta verið saman með barninu fyrst um sinn.

Annar punktur sem mig langar til að benda á er að það þekkist annars staðar að barnshafandi konan fari í orlof nokkrum vikum fyrir settan dag. Ég tel það td. jákvæða breytingu upp á jafnréttismál á vinnumarkaði, það að geta hafið orlof fyrir settan dag - án þess að það skerði orlofs tímann. Þá þarf ekki að fara bakdyraleiðir eins og td. að láta konur í veikindaleyfi ef þær þurfa á því að halda. Bara hreinlega bæta kjör barnshafandi kvenna á vinnumarkaði og horfa á hlutina eins og þeir eru. Eins og staðan er núna eru mjög fáir sem hefja töku orlofs, að ég tel, fyrir fæðingu barns. Jú af því að orlofs tímabilið er svo stutt að ekki vilja verðandi foreldrar taka af þeim tíma.

Þriðji punkturinn er að mér finnst að það verði að horfa á þetta tímabil út frá heildarmyndinni. Ég bý í Reykjavík og þar er ekki komin í gegn sú framkvæmd að börn fái leikskólapláss eins árs. Þessvegna skil ég ekki hvernig orlofstíminn sem nú er í gildi eða mun koma í gildi (10-12 mánuðir) eigi að duga. Þegar ekki liggur beint við hvert barnið mitt á að fara í pössun þegar orlofi líkur. Þetta á einnig við um tímabilið sem foreldrar geta nýtt orlofið á.

Ég vona svo innilega að það verði vandað til verka og þetta frumvarp endurskoðað út frá mörgum sjónarhornum. Við þurfum að bæta kjör foreldra og ekki steypa alla í sama mót. Árið 2020 þurfum við að stefna lengra en þetta frumvarp segir til um.

Afrita slóð á umsögn

#168 Arndís Sif Birgisdóttir - 06.10.2020

Þegar ég var 23 ára eignast ég mitt fyrsta barn. Ég leigði íbúð og var í vinnu og lífið bara alveg ágætt. Við barnsföður minn vorum ekki saman og stóð því til að ég myndi aðallega sjá um stelpuna þangað til ég færi að vinna aftur.

Barnsfaðir minn hafði ekki tök á að nýta sér sína 3 mánuði í fæðingarorlofi en ég tók mína þrjá og þá þrjá mánuði sem eru sameiginlegir. Í einfeldni minni hélt ég að hann gæti "afsalað" sér sitt þriggja mánaða orlof yfir á mig, því ef hann hefði ekki tök á að nýta sér þá þá væri líklega betra ef ég fengi þá.

Computer says no.

Löng saga stutt,

Ég fór að vinna þegar dóttir okkar var 6 mánaða. Ég borgaði himinháa upphæð fyrir dagmömmu sem sinnti henni engann veginn nógu vel.

Hún var endalaust veik, ég missti vinnuna því barnið var veikt. Ég missti íbúðina því ég gat ekki borgað leiguna eftir atvinnumissinn og enda með dóttur mína inn á móður minni þar sem við mæðgur vorum svo heppnar að hægt var að stúka okkur af í borðstofunni.

Það er frábært að verið sé að lengja fæðingarorlof, en hvernig væri að treysta foreldrum þessara barna fyrir því sem er þeim í hag? Það er stórkostlegur munur á að láta frá sér í gæslu annara handa 6 mánaða barn eða 12 mánaða.

Það er ekki sanngjarnt að það bitni á börnunum að tölvan segir nei.

Afrita slóð á umsögn

#169 Inga Sjöfn Sverrisdóttir - 06.10.2020

Ég vil endilega koma á framfæri mínum athugasemdum. En það er tvennt sem ég vil nefna.

1. Það að stytta tímann í 18 mánuði sem nýta þarf réttinn tel ég vera tímaskekkju. Þarna tel ég vera farið í rangri röð að góðu markmiði. Ekki er hægt að tryggja eins og staðan er núna að foreldrar fái dagvistun fyrir börn sín innan þessa tíma og væri réttast að ganga fyrst í þau mál áður en þessi tími er styttur.

2. Það er mjög jákvætt að tími hvers barns sé lengdur í 12 mánuði. En það að aðeins 1 mánuður sé til að framselja sín á milli tel ég ekki koma vel til móts við foreldra enda aðstæður afskaplega misjafnar og þarfir barnanna. Það er auðvitað mjög jákvætt að foreldrar hafi jafnan rétt og væri réttara að fara sömu leið og svíarnir og verðlauna þá foreldra sem taka jafnan tíma með einhverjum auka vikum. Ég þekki það af eigin reynslu hversu óheppilegt er að hafa svo stífar reglur hvað varðar undantekningar frá því að móðir eða faðir fái að taka þá mánuði sem annað foreldrið nýtir ekki. Það eru fleiri en ég sem eiga sannarlega feðrað barn og föður í myndinni en eru ekki í sambúð með honum og aðstæður ekki þannig að hann nýti mánuðina sína og því afar óheppilegt að ekki sé hægt að gera undantekningar í slíkum tilfellum og réttast væri að koma á einhverju verklagi til að koma til móts við slíkar þarfir. Mitt barn fékk aðeins 6 mánuði í orlofi árið 2014 og myndi það aðeins hafa lengst um 1 mánuð ef sömu breytingar og lagðar eru hér fram hefðu verið komnar í framkvæmd.

Ég vona að þessar tillögur verði teknar til skoðunar og séð hvort ekki megi gera breytingar þannig að þær henti fleirum.

Afrita slóð á umsögn

#170 Karen Eva Þórarinsdóttir - 06.10.2020

!

Afrita slóð á umsögn

#171 Jóhanna Margrét Eggertsdóttir - 06.10.2020

Að stytta í 18 mánuði er ekki að ég held rétt. Börn komast yfirleitt ekki inn í leikskóla fyrr en um 2 ára, og að gera dreift orlofinu á þá manuði skiptir miklu því ekki allir hafa bakland og ekki er svo auðvelt að komast að hjá dagmommu. Og að lengja í 12 mánuði er frábært þar sem börnin eru enn ofboðslega lítil og ætti ekki að vera refsing að eignast börn á þessu landi.

Afrita slóð á umsögn

#172 Anna Jóna Þórðardóttir - 06.10.2020

Þetta skipulag kemur ekki til með að auðvelda næsta fæðingarorlof fyrir mér og markanum.

Afrita slóð á umsögn

#173 Ásta Sól Kristjánsdóttir - 07.10.2020

Ég fagna fyrirhugaðri lengingu á orlofi og tel nauðsynlegt að réttur beggja foreldra til orlofs sé tryggður með því að ákveðnir mánuðir séu sérstaklega fyrir hvort foreldri um sig. Hins vegar tel ég það ekki vera hagsmuni barnsins eða fjölskyldunni sem að því standa að rétturinn til orlofs sé jafn á milli foreldra með þeim hætti að hann sé skilyrtur. Taka ber tillit til þess að þegar lögin voru sett var það hvatning til feðra að taka orlof og er það bæði mikilvægt fyrri barnið, samband foreldra og samfélagið.

Mánuðirnir sem eru skilyrtir ættu áfram að vera 3 mánuðir því þarfir fjölskyldna eru ólíkar. Sum börn eru á brjósti og þurfa þess lengi við, önnur á pela og þá þarf fæðingarmóðirin ekki að vera til staðar líffræðilega, en hvort sem um er að ræða ætti þetta að vera val þar sem þetta snýst um hvort foreldri sé til staðar að annast barnið og að ekki þurfi að setja það í dagvistun svo ungt.

Ég er einnig ekki sammála að fækka töku orlofs niður í 18 mánuði þar sem þá er dagvistun ekki trygg. Væri hún trygg hjá sveitarfélagi t.d. Væri þetta samt sem áður ekki sanngjarnt því barn er ávallt betur komið í höndum nákominna sé það hægt. Margir geta leitað til ættingja með að brúa ákveðið bil og getur verið að það bil sé innan 18 mánuða og því henti betur að bæta orlofinu inn seinna. Í Svíþjóð má (eða mátti a.m.k.) taka orlofið hvenær sem er fyrir 8 ára aldur og þar er orlofið mun lengra.

Er ég fór sjálf fyrst í orlof fannst mér 6 mánuðir mikill tíma en komst svo að því að þetta er hörkupúl. Ég taldi mig heppna að geta bætt við sjöunda mánuðinum sem ég átti inni í sumarfríi, en barnið var ekki hætt á brjósti og maðurinn minn kom með barnið í hverju hádegi í vinnuna til mín til að hægt væri að halda brjóstagjöf áfram. Barnið vildi ekki taka brjóstið á vinnustaðnum. Þarf að segja meira?

Með barn númer tvö tók ég 11 mánaða orlof og maðurinn minn þrjá mánuði, einn af þeim mánuðum dekkuðum við með ættingjum, restina með barnapíu og púsli þar til dagvistun fékkst við 18 mánuði (og við vorum heppin). Með þessum lengri tíma með barninu vorum við öruggari foreldrar og barninu leið betur. Ég legg til að breytt verði í hið minnsta 36 mánuði aftur. 18 mánuðir er tímaskekkja.

Gerið frumvarp sem er fyrir raunverulegt fólk, ekki bara atvinnulífið og til að setja fólk í fátæktargildru og í raun frekar setja konur inn á heimilin launalausar, því það er það sem raunverulega gerist. Frumvarpinu er ætlað að auka jafnan rétt en gerir það ekki að svo stöddu og ekki er hugsað um hagsmuni barnisins hér.

Annað sem ég legg til er að auka mánuður bætist við til að par geti verið fyrsta mánuðinn (eða samtals í 3-8 vikur) saman til að sinna barninu en það getur verið einn erfiðasti tíminn og erfitt að vera einn með barn.

Réttur einstæðs foreldris á að vera jafn mikill og ef foreldri er ekki til staðar því sannarlega er það foreldri sem ungt barn býr ekki hjá ekki til staðar að því leiti sem þarf til að hugsa um barnið daglega fyrr en það er orðið eldra. Hér þarf að hugsa um barnið og veita einstæðum lengri rétt. Annað er ójafnrétti.

Afrita slóð á umsögn

#174 Unnur Rán Reynisdóttir - 07.10.2020

Mig langar til að benda á tvær greinar úr Barnasáttmála SÞ sem ég get ekki séð að frumvarpið styðjist við þegar kemur að því að einstæðir foreldrar geti ekki nýtt orlof sem hitt foreldrið á, sé hitt foreldrið sannarlega ekki að sinna barninu.

Ég get að minnsta kosti ekki túlkað eftirfarandi klausu á annan máta en að hér eigi eingöngu við um ófeðruð börn, börn sem getin eru með tæknifrjóvgun eða hitt foreldri látið.

,,Yfirfærsla fæðingarorlofs/fæðingarstyrks milli foreldra í tengslum við barnalög og barnaverndarlög. Lagt er til að frekari heimildir til yfirfærslu réttinda til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks milli foreldra þegar annað foreldrið getur ekki af nánar tilgreindum ástæðum nýtt rétt sinn innan kerfisins. Er í fyrsta lagi um að ræða þegar ekki hefur reynst mögulegt að feðra barn samkvæmt barnalögum fyrir sýslumanni eða dómara. Þessari tillögu er meðal annars ætlað að koma til móts við aðstæður foreldra þegar sannarlega einungis eitt foreldri er til staðar. Í öðru lagi er um að ræða þau tilvik þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili samkvæmt lögum um nálgunarbann og/eða brottvísun. Lagt er til að í framangreindum tilvikum færist réttur til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks til hins foreldrisins á fyrstu 18 mánuðum barnsins. Er hér um að ræða sambærileg sjónarmið og eru í gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof hvað varðar fangelsisvist, sjúkdóma eða afleiðingar slyss."

Einnig langar mér að benda á að fæðingastyrkur hlýtur að vera brot á þessum klausum Barnasáttmálans, engin fjölskylda getur lifað af á honum, ekki er hægt að gera ráð fyrir að manneskja sem af einhverjum ástæðum hefur orðið fyrir tekjumissi á því tímabili sem fæðingarorlof er reiknað sé annað hvort með fyrirvinnu eða að svíkja undan skatti.

3. gr. Það sem barninu er fyrir bestu

Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

5. grein Ábyrgð foreldra

Aðildarríki eiga að virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra til að veita börnum sínum leiðsögn og stuðning í samræmi við þroska þeirra.

Afrita slóð á umsögn

#175 Kristbjörg Lúðvíksdóttir - 07.10.2020

Mér finnst að treysta ætti foreldrum til þess að vita hvað sé best fyrir þeirra fjölskyldu og leyfa þeim að ákveða sjálf hvernig þau vilja skipta fæðingarorlofinu.

Afrita slóð á umsögn

#176 Fanney Rún Ágústsdóttir - 07.10.2020

Nú eru oft einstæðar mæður að eignast börn. Vita hver faðirinn er en stundum ekki en þær eiga bara rétt á sínu fæðingarorlofi og verða þess vegna oft að fara mjög snemma á vinnumarkaðinn aftur. Mér finnst að faðir ætti að geta framselt öllum sínum mánuðum til móðurinnar svo móðir geti verið lengur heima með barninu.

Afrita slóð á umsögn

#177 Sunna Rós Agnarsdóttir - 07.10.2020

Fæðingarorlof á hiklaust að lengja og að 12 mánuðir sé réttur barns á foreldri sínu í fæðingarorlofi finnst mér algjört lágmark.

Hinsvegar er þessum 12 mánuðum stillt þannig upp að það munu óumflýjanlega vera börn sem sannarlega fá ekki þessa 12 mánuði sökum aðstæða foreldra. Betra væri að veita foreldrum meira frelsi varðandi skiptingu fæðingarorlofsins og ætti þeim að vera treystandi til að ráðstafa því með hag barnsins í huga.

Einnig þykir mér ekki boðlegt að stytta tímarammann til nýtingar á orlofinu niður í 18 mánuði nema að hverju barni verði sannarlega tryggt dagvistunarpláss við 18 mánaða aldur. Staðreyndin er hinsvegar sú að flest börn komast ekki inn á leikskóla fyrr en um 24 mánaða ig fæðingarorlofið þarf að taka mið af því líka.

Afrita slóð á umsögn

#178 Unnur Björk Arnfjörð Jóhönnudóttir - 07.10.2020

Mig langaði hins vegar að benda á galla er varðar ættleidd börn og foreldraorlof þeirra. Við erum lítill og fámennur hópur foreldra sem höfum ættleitt tvö eða fleiri börn á sama tíma, erlendis frá. Í okkar tilfelli þá ættleiddum við þrjú börn á aldrinum 2ja- 5 ára og lutum því að fá þrjá mánuði fyrir hvert "auka" barn. Hefðu börnin okkar verið jafngömul þá hefði það eflaust verið í lagi að fá einungis þessa þrjá mánuði aukalega fyrir hvert barn en þar sem okkar börn voru á mismunandi þroska og aldursskeiði þá hefði verið betra fyrir börnin okkar að við foreldrar þeirra hefðum fengið full foreldraorlof fyrir hvert og eitt, líkt og við hefðum fengið ef börnin hefðu komið til okkar i sitt hvoru lagi. Ættleidd börn koma með töluvert aðra lífsreynslu inn í fjölskyldur sínar en börn sem fæðast beint inn í fjölskyldur. Ættleidd börn þurfa töluvert lengri tíma til þess mynda tengsl við foreldra sína og meiri aðhlynningu en börn sem koma inn í fjölskyldur sínar á hefðbundinn hátt. Í okkar tilfelli þá dvölum við fimm mánuði í fæðingarlandi barnanna okkar og fljótlega eftir heimkomu þá fór pabbi þeirra að vinna þar sem hans orlof var búið. Ég, móðirin, var með börnin í 16 mánuði en eins og gefur að skilja miðað við lengd foreldraorlofs var ég tekjulaus hluta þess tímabils. Eins og ég segi, þetta eru afar fá tilfelli, e.t.v. 2-3 á ári hverju að meðaltali. Þetta skiptir ekki miklu fyrir þjóðarbúið en er gríðar mikið hagsmunamál fyrir börnin og fjölskyldur þeirra. Ættleidd börn sem koma fleiri en eitt lúta engan vegin sömu lögum og fjölburar. Þessu þarf að breyta og veit ég að þið munið skoða það með jákvæðum hætta, hagur barnanna er mikill að geta verið sem lengst með foreldrum sínum.

Afrita slóð á umsögn

#179 Gleym-mér-ei - styrktarfélag - 07.10.2020

Góðan dag

Sjá í viðhengi umsögn Gleym-mér-ei styrktarfélags um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Kv.

Sigríður Vala

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#180 Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra - 07.10.2020

Hjálögð er umsögn stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#181 Særún Ómarsdóttir - 07.10.2020

Við hjónin eignuðumst barn 2017. Ég tók mína þrjá mánuði og okkar sameiginlegu þrjá og dreifði greiðslunum á 11 mánuði. Ég nýtti svo sumarfrí sem ég átti inni til þess að lengja orlofið í rúmlega 12 mánuði. Maðurinn minn vinnu sinnar vegna hafði ekki tök á því að taka meira en einn mánuð í fæðingarorlof og fóru því tveir mánuðir í ruslið sem hefðu nýst mér vel þar sem við urðum fyrir mikilli tekjuskerðingu á þessum tíma.

Fæðingin gekk illa og ég fékk mikið fæðingarþunglyndi sem byrjaði snemma á meðgöngunni. Ég var ekki tilbúin í vinnu aftur þegar orlofinu mínu lauk en fékk þunglyndislyf og lét mig hafa það að byrja aftur. Ég fékk einnig slæma grindargliðnun á meðgöngu sem hefur ekki enn gengið til baka og er ég reglulega í sjúkraþjálfun vegna þess. Brjóstagjöfin gekk mjög illa fyrst um sinn, sonur okkar fékk ungbarnakveisu og er nýfarinn að sofa heila nótt. Hann komst að hjá dagmömmu eins árs gamall en honum leið mjög illa þar og var í marga klukkutíma að ná sér niður eftir að ég sótti hann á daginn. Þar sem ég var hætt að þekkja barnið mitt neyddist ég til þess að hætta með hann hjá dagmömmunni og fékk þau svör hjá sveitarfélaginu að hann kæmist inn á leikskóla tveggja ára gamall. Sem betur fer á ég dásamlega móður sem hætti í vinnunni sinni og gerðist dagmamma og tók hann til sín svo ég gæti byrjað að vinna aftur. Ég veit ekki hvað ég hefði gert ef hún hefði ekki gert þetta fyrir okkur þar sem allur réttur minn til orlofs var búinn og maðurinn minn komst ekki frá vinnu.

Sonur okkar komst skyndilega inn á leikskóla 19 mánaða gamall en viðmiðið á þessum tíma hjá sveitarfélaginu var að öll börn ættu að komast inn á leikskóla 15 mánaða gömul. Sonur okkar átti samt ekki að komast inn fyrr en tveggja ára. Móðir mín starfar ekki lengur sem dagforeldri og mun ég eftir fyrri reynslu ekki getað hugsað mér að nýta þjónustu dagforeldra aftur. Ég var spennt fyrir lengingu fæðingarorlofsins því ég hélt að það ætti að koma til móts við barnafjölskyldur og að við myndum þá ekki upplifa eins mikla tekjuskerðingu ef við eignumst barn aftur. Ég get ekki séð að maðurinn minn geti nýtt meira en einn mánuð af fæðingarorlofi ef við eignumst annað barn og fara því enn fleiri mánuðir i ruslið heldur en síðast miðað við núverandi frumvarp. Ég get miðað við núverandi frumvarp í mesta lagi fengið sjö mánuði og þarf þá að dreifa þeim á þann tíma sem það tekur að koma barninu inn á leikskóla. Nú erum við einnig komin með eitt barn og erum því með meiri fjáhagslegar skuldbindingar en áður. Ég hefði ekki verið tilbúin að senda sex mánaða gamalt barnið frá mér síðast sem var nýfarið að borða fasta fæðu og enn á brjósti oft á dag. Fyrir utan það að heilbrigðiskerfið brást mér þegar ég bað um hjálp vegna þunglyndisins og ég fékk ekki aðstoð fyrr en barnið var orðið sex mánaða gamalt. Þá hefði ekki hjálpað ef ég hefði sent barnið frá mér á ókunnugan stað og skellt mér aftur til vinnu. Þessi tími var okkur mæðginum mjög mikilvægur þar sem fyrstu mánuðirnir voru svo rosalega erfiðir. Miðað við frumvarpið eins og það er í dag eiga börn rétt á að vera heima með foreldrum í 12 mánuði og þurfa foreldrar þá að hafa jafna möguleika á því að vera heima og passa sig á því að vera ekki í fæðingarorlofi á sama tíma. Foreldrar þurfa svo að vona að barnið komist i einhverja dagvistun 12 mánaða gamalt sem er alls ekki gefið.

Ég bið ykkur vinsamlegast um að endurskoða þetta mál og horfa meira til réttar barnsins til þess að vera heima heldur en til réttar foreldra til þess að eiga jafn langt fæðingarorlof. Í sumum tilfellum hentar betur að annað foreldrið sé lengur heima með barnið heldur en hitt foreldrið og er það þvi ósk mín að sameiginlegir mánuðir verði fleiri og foreldrum verði treyst fyrir því að skipta fæðingarorlofinu eins og hentar fjölskyldunni og barninu best.

Afrita slóð á umsögn

#182 Hlín Vala Aðalsteinsdóttir - 07.10.2020

Ég fagna mjög að verið sé að lengja fæðingarorlofið en langar að koma með 3 ábendingar:

1. Gagnrýna þá styttingu sem orðið hefur á tímabilinu sem hægt er að taka orlofið út, úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Þar skal helst nefna að þó sveitarfélög segjast taka við börnum inn á leikskóla frá 18 mánaða aldri þá er staðan á Íslandi í dag þannig að það er nánast eingöngu tekið inn að hausti. Því eru börn sem fædd eru á seinni hluta ársins orðin allt að 2ja ára þegar þau komast inn á leikskóla.

2. Varðandi skiptingu á orlofinu á milli foreldra mætti benda á að hægt væri að koma betur til móts við einstæða foreldra þar sem þeim gæfist kostur á að nota stærri hluta af orlofi hins aðilans.

3. Ef markmiðið er að ná jafnrétti milli kynja að þá væri líka hægt að gera það með hvata í stað þvingana líkt og hefur verið gert í Svíþjóð, þ.e. að ef foreldrar ákveða að skipta orlofinu jafnt þá fá þau auka orlof.

Afrita slóð á umsögn

#183 Arna Atladóttir - 07.10.2020

Ég geng með okkar þriðja barn og þetta nýja frumvarp myndi setja margt úr skorðum í okkar fjölskyldulífi. Réttlátast væri fyrir fjölskyldur að getað tilhagað þessum 12 mánuðum frjálst og óháð afskiptasemi stjórnvalda. En ef það þarf að vera einhversskonar rammi hvað varðar fæðingarorlof íslenskra fjölskyldna, þá þætti mér réttlátast að orlofinu yrði skipt í 4-4-4 (4 mánuðir á móður, 4 mánuðir á föður og 4 mánuðir í frjálsa skiptingu)

Afrita slóð á umsögn

#184 Þóra Jónsdóttir - 07.10.2020

Umsögn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi um frumvarp í vinnslu til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Mál nr. 195/2020.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa haft ofangreint mál til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við ráðuneytið:

Samtökin fagna auknum samanlögðum rétti foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs sem kveðið er á um í frumvarpinu. Með lengingu fæðingarorlofs er stuðlað að lengri samveru barna við foreldra sína fyrsta æviárið sem er gríðarlega mikilvægt meðan börn eru að mynda geðtengsl og getur haft áhrif á líðan þeirra síðar á lífsleiðinni.

Barnaheill leggja þó áherslu á að líta ætti á fæðingarorlof sem sjálfstæðan rétt barna til að vera í nálægð við foreldra sína í jafnlangan tíma óháð áunnum rétti, hjúskaparstöðu og öðrum aðstæðum foreldrana. Í núverandi lögum og í frumvarpi þessu er fæðingar- og foreldraorlof háð vinnumarkaðslöggjöf og í samræmi við áunninn rétt foreldra. Þar sem staða foreldra á vinnumarkaði er misjöfn er hætt við því að þeir eigi mismikinn rétt til orlofstöku sem hefur mögulega áhrif á töku á fæðingar- og foreldraorlofi. Með því getur skapast mismunun á milli barna þar sem þau njóta ekki öll jafnlangrar samvistar við foreldra sína og önnur börn og benda samtökin á 2 gr. Barnasáttmálans sem tryggir réttindi allra barna án mismununar og 3. gr. sáttmálans sem fjallar um að það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar ráðstafanir eru gerðar varðandi börn.

Einnig gera Barnaheill athugasemd við yfirfærslu fæðingarorlofs/fæðingarstyrks milli foreldra og að nýting þess styttist úr 24 mánuðum í 18. Í frumvarpinu verður eingöngu hægt að framselja einn mánuð milli foreldra sem annars fá hvort um sig sex mánuði til umráða. Aðstæður barna og fjölskyldna þeirra eru mismunandi og telja samtökin brýnt að skapa meiri sveigjanleika á meðal foreldra hvernig þeir skipta fæðingarorlofi/fæðingarstyrk á milli sín og tryggja þannig að öll börn fái tækifæri til að njóta samvista við annað foreldrið í jafn langan tíma burtséð frá hvernig skiptingin er á milli foreldra. Viðleitnin að jafna stöðu kynja til að koma á móts við tengslamyndun barna við báða foreldra sína og jafna möguleika allra kynja á vinnumarkaði er góðra gjalda verð en það er mat Barnaheilla að ekki er hugað að hagsmunum barna nægilega mikið með þessari skiptingu. Almennt séð er foreldrum treyst til að hafa hagsmuni barna sinna að leiðarljósi og telja samtökin að yfirfærslan á milli foreldra ætti að vera leyfileg að lágmarki fjórir mánuðir svo þeir geti sjálfir ráðstafað skiptingunni út frá því sem er þeim og barni þeirra fyrir bestu. Ekki er tryggt að foreldrar fái dagvistun fyrir börn sín fyrir 18 mánaða aldur og bíða foreldrar mislengi eftir að geta innritað barn sitt hjá dagforeldrum og í leikskólum. Barnaheill telja því brýnt að viðhalda í lögum að nýting fæðingarorlofs sé óbreytt við 24 mánuði og foreldrum skapaður meiri sveigjanleiki til að gera ráðstafanir börnum sínum til heilla.

Barnaheill hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi og leggja sérstaka áherslu á vernd gegn ofbeldi á börnum, bann við mismunun og að allar ákvarðanir sem varða börn séu teknar með það að leiðarljósi hvað þeim er fyrir bestu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#185 Ágústa Sif Víðisdóttir - 07.10.2020

Góðan dag,

Ég óska eftir að frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof verði endurskoðað. Það er frábært að lengja eigi fæðingarorlof upp í 12mánuði og tel ég það löngu tímabært. Enn nokkur atriði finnst mér þið megið hafa í huga:

1. Hafa hag barnanna að leiðarljósi. Að barn geti verið heima í 12 mánuði. Það er foreldranna að ákveða hvernig skipta eigi mánuðunum á milli.

2. Að fæðingarorlof sé 100% af launum, ekki 80%. Fólk er með skuldbindingar í samræmi við launin sín. Það að auka á fjárhagsáhyggjur er ekki rétta leiðin. Þetta getur líka stuðlað að því að fólk ákveði síður að eignast börn. Eins held ég að þakið geri það að verkum að sá aðili sem er fyrirvinnan á heimilinu getur ekki tekið sér orlof. Vissulega er þetta orðið aðeins betra enn var enn laun í landinu hafa líka hækkað. Það mætti hækka þakið að mínu mati.

3. Tími sem að foreldrar fá til að "klára fæðingarorlofið sitt". Það að lækka úr 24 mánuðum í 18 mánuði er galið. Í Svíþjóð hafa foreldrar allt að sex ár til að fara í fæðingarorlof. Það geta komið upp ýmsir tímar seinna meir þar sem að foreldrar þurfa að vera frá vinnu með börnunum sínum og þá getur verið gott að geta leitað í fæðingarorlofið (ef að fólk á inni).

Konur eru lengi að jafna sig eftir fæðingu og finnst mér að fyrstu manuðina ætti ekki að skilgreina sem orlof heldur veikindaleyfi. Þar sem ég bý er leikskólapláss ekki í boði fyrr enn í fyrsta lagi þegar börnin eru 14mánuða (ef þau eru fædd á réttum tíma ársins) því það er bara tekið inn á haustin. Þetta getur því verið langur tími sem brúa þarf bil. Mér finnst bara hagur barnsins eigi að vera fyrst og fremst að geta verið heima til eins árs aldur. Þangað til að þau eru farin að standa í fæturnar. Hvernig skiptingin á milli er, finnst mér að eigi að vera í foreldrahöndum. Það er engin kona sem er að taka "rétt" af manninum sínum ef að aðstæður leyfa það. Enn það léttir undir að þurfa ekki að hafa fjárhagsáhyggjur og foreldrar geta kannski notið þessa dásamlega tíma sem það er að eignast barn. Það skýtur einnig skökku við að konur eigi helst að hafa barn á brjósti í níu mánuði ef að þær þurfa svo að fara að vinna þegar krílin eru bara 6-7 mánaða.

Hagur barnanna er í húfi !

Afrita slóð á umsögn

#186 Guðbjörg Sandra Gunnarsdóttir - 07.10.2020

Heil og sæl

Nú eigum við hjónin von á okkar fyrsta barni í byrjun næsta árs.

Það er ljóst hjá okkur að maki minn mun ekki taka marga mánuði í orlof.

Við viljum fá að velja sjálf hvernig skiptingin á orlofinu verður.

Ég er mun launahærri en maðurinn minn og því verður þetta hrikalegur skellur fyrir okkur að ég þurfi að dreifa 80% launa minna yfir margra mánaða tímabil sem verður að engu.

Við verðum saman í orlofi fyrst um sinn en hann vill svo fara að vinna aftur, sem er bara allt í lagi líka.

Mér finnst þetta vera hrikaleg forræðishyggja að taka ráðin af foreldrum sem kemur þeim svo á endanum mjög illa fjárhagslega. Það er alveg nógu erfitt að fá bara 80% af sínum launum hvað þá að þurfa að búta þessi 80% ennþá meira niður!

Leyfið fólki að hugsa fyrir sig sjálf og taka ákvarðanir sem hentar hverri fjölskyldu fyrir sig.

Orolof er ekki hugsað fyrir foreldra..orlof er fyrir barnið!

Þetta heitir fæðingarorlof ekki feðra- eða mæðraorlof.

Afrita slóð á umsögn

#187 Ásdís Helgadóttir - 07.10.2020

Ég undirrituð hef allmiklar athugasemdir við frumvarp um breytingar á fæðingarorlofi og leyfi mér að senda inn eftirfarandi athugasemdir.

Í fyrsta lagi er jákvætt að fæðingarorlof sé lengt en, betur má ef duga skal. Fæðingarorlof ætti að mínu mati og margra sérfræðinga í þroska barna að vera a.m.k. 18 mánuðir enda er það hagur barnsins að fara ekki í dagvistun fyrr en þá (verndandi fyrir astma og ofnæmi, verndandi fyrir geðsjúkdóma, ...). Það að þvinga jafna eða því sem næst jafna skiptingu milli foreldra þegar móðir hefur aðeins kost á 6-7 mánuðum án þess að verða fyrir víðtækum kjara- og réttindaskerðingu er eitt af því sem hljómar eins og fullkomið jafnrétti á blaði en er svo í reynd hróplegt misrétti. Í raun er ég viss um að þeir sem halda öðru fram hafi annað hvort ekki upplifað meðgöngu og fyrstu mánuði í umönnun barns eða að það sé verulega farið að fenna yfir. Ég skil reyndar vel að það fenni yfir fljótt. Mannsheilinn á það til að muna frekar eftir góðu hlutunum en þeim erfiðu (alltaf sól í minningum fólks um æsku). Nú á ég 3 ára barn og 9 mánaða og þegar sá litli fæddist var ég m.a.s. farin að gleyma hvað allt var erfitt fyrst með það eldra. Svo það þarf alls ekki langan tíma til að gleyma.

Allir vilja jöfn laun en þar er náttúrulega gert ráð fyrir að vinnuframlag sé sambærilegt. Jafnframt mætti vel hugsa sér að allir hafi gott af því að labba upp stiga í stað þess að nota lyftu. Allir við sama borð. En augljóslega eiga þeir sem eru fótbrotnir erfiðara með að komast upp þar til brotið lagast. Það er því mikill aðstöðu og álagsmunur sem gerir það að verkum að 6 mánuðir hjá hvoru foreldri ná alls ekki að jafna stöðu kynjanna á launamarkaði. Mér finnst reyndar frábært að karlar fái 6 mánuði og mættu alveg fá meira mín vegna. En að neyða konu til að fara að vinna þegar aðeins 6-7 mánuðir eru frá fæðingu er hins vegar fráleitt. Ef fæðingarorlof væri 24 mánuðir væri frábært að skipta því jafnt. Jafnvel hugsanlegt að skipta því jafnt ef það væri 18 mánuðir, en það er þó ansi tæpt.

Byrjum á að skoða meðgöngu. Því miður þarf maður leg til þess að ganga með barn. Mikið hefði ég bara verið til í að útvista því erfiða hlutverki. Ólétta reynir verulega á flestar konur en samt er lagaramminn þannig að reiknað er með að konur vinni fram á seinasta dag, hefji fæðingarorlof fyrir fæðingu (og hafa þá minna eftir að barn fæðist) eða að nýta veikindarétt sinn (sem margar klára þá). Í raun er heldur ekkert alltaf í boði að nýta veikindarétt sinn því þreyta vegna óléttu er í raun ekki sjúkdómur. Allt heilbrigðisstarfsfólk er samt sammála að það er vont að láta konu vinna fram á síðasta dag enda eru auknar líkur á fyrirburafæðingu, erfiðri fæðingu, erfiðleikum með brjóstagjöf og fleiri kvillum. Enda er ekki unnið fram á síðasta dag í flestum velferðarríkjum (Danmörk 36 vikur, Þýskaland 34 vikur, ...). Það mæðir augljóslega meira á konu að þurfa að sinna fullum starfsskyldum á meðan hún er ekki með fulla starfsorku vegna óléttu (og líklega einnig með samviskubit yfir að vera að koma barninu hugsanlega í hættu með streituhormónum og hugsanlegri fyrirburafæðingu).

Sjúkraþjálfarar sem sérhæfa sig í meðgöngu segja að það taki að meðaltali 9 mánuði að búa til barn og að meðaltali 9 mánuði fyrir stoðkerfið að jafna sig eftir barnsburð. Ef þetta frumvarp verður að veruleika þýðir það að 6 mánuðum eftir fæðingu á konan að fara að vinna um 3 mánuðum áður en hún hefur jafnað sig á því að hafa ræktað þennan einstakling innan í sér með tilheyrandi líkum á alls kyns stoðkerfisvandamálum sem fylgja í kjölfarið.

Svo er það blessuð fæðingin. Sumar konur sleppa vel, aðrar konur illa. Ljósan mín sagði mér t.d. að keisari væri ein stærsta aðgerð sem gerð er á LSH og í raun myndi fólk liggja inni í viku eftir sambærilega aðgerð. En þarna þarf náttúrulega að koma brjóstagjöf af stað og sinna barni sem grætur líklega stanslaust. Svo jafnvel þótt konan geti ekki staðið í 12-24 klst. á eftir (og varla þá) er engin miskunn. Konur eru svo sendar heim 48 klukkustundum eftir keisara og ef það tekst ekki fæst ekki heimavitjun ljósmóður sem er þó afskaplega mikilvæg, sérstaklega til að brjóstagjöf gangi vel. Þegar ég var sjálf tekin með keisara fyrir 38 árum lá móðir mín í 9 daga á spítalanum og átti rétt á heimaumönnun fyrir sig í 2 vikur á eftir. Þó legutími eftir aðgerðir hafi styst á síðustu árum þá mundu engir aðrir sjúklingar vera sendir heim 48 klukkustundum eftir álíka aðgerð. Þess fyrir utan ætti í raun að fylgja a.m.k. 6 vikna veikindaleyfi með keisara (enda má ekki lyfta neinu yfir þyngd barns þann tíma og svipað eða lengra veikindaleyfi fylgir öllum slíkum aðgerðum) en það gerir það auðvitað ekki heldur á konan að nota fæðingarorlof sitt í að jafna sig. Feður sleppa auðvitað við þessa áraun.

Svo er það brjóstagjöf. Landlæknir mælir með brjóstagjöf eingöngu til 6 mánaða og með annarri fæðu til a.m.k. 12 mánaða og WHO til 24 mánaða. Auðvitað geta ekki allar konur gefið brjóst en það hlýtur að eiga að veita a.m.k. möguleikann á því að fara eftir ráðleggingum um hvað er barninu fyrir bestu. Þegar barn er 6 mánaða og 1 dags er ekki eins og það fari bara allt í einu að borða rosa mikla fasta fæðu heldur er það enn 99% á brjóstamjólk og hægt og bítandi eykst önnur fæða. En samkvæmt þessu frumvarpi eiga konur að vera mættar í vinnuna um leið og fyrsti biti af annarri fæðu á að fara inn um varir barnsins. Sumar konur geta haldið mjólkinni með því að pumpa brjóstin, en alls ekki allar. Það er líka sjaldnast aðstaða til að pumpa á íslenskum vinnustöðum þótt lagalega ætti það að vera til staðar. Auk þess er það aukið álag ofan á fullan vinnudag að pumpa reglulega yfir daginn. Það að mæta með barnið í vinnuna til að gefa brjóst er líka ekki góð lausn í flestum tilfellum því börn á þessum aldri þurfa ró og næði sem ekki er alltaf hægt að bjóða upp á og líkur á að barn næli sér í einhverja pest aukast verulega. Ég er núna með 9 mánaða barn sem er samtals 1,5 -2 klst. á dag á brjósti og ég geri ekki annað á meðan. Mjög margar konur eru þannig að mjólkin hverfur við streituálag. Streitan við að byrja að vinna getur þvi endað brjóstagjöf mjög skyndilega. Þess utan eru börn mismunandi og með sínar tiktúrur. Mjög mörg vilja ekki pela og minn 9 mánaða vill t.d. bara drekka brjóst ef við liggjum bæði sem er ógerlegt á flestum vinnustöðum. Það er því oftast þannig að um leið og konan fer að vinna hættir barnið annað hvort alfarið á brjósti eða hættir að drekka brjóstamjólk yfir daginn. Það er ekki í samræmi við ráðleggingjar Landlæknis og WHO og ótrúlegt að fæðingarorlof sé ekki hannað þannig að sem flest börn geti einfaldlega uppfyllt næringarþarfir sínar á þann hátt sem best er á kosið. Svo má heldur ekki gleyma að brjóst er ekki bara matur heldur líka "skin to skin" nánd sem er börnunum líka mjög mikilvæg (og eiginlega meira og meira eftir því sem þau verða eldri).

Svo er það svefnleysið sem í fyrstu er nátengt brjóstagjöf. Fyrstu 3-4 og alveg upp í 6 mánuði á barn að drekka brjóst á 3 tíma fresti dag og nótt. Aftur geta ekki allar konur gefið brjóst en það er a.m.k. víst að langfæstir karlar geta það. Kona með barn á brjósti þarf því að vakna á 3-4 tímafresti (svo vitum við að börn fara sjaldnast eftir bókinni og geta vaknað mun oftar líka) í þó nokkra mánuði. Þeir sem hafa reynt það vita að það tekur marga mánuði að bætta upp slíkt meiriháttar svefnleysi og langflestar konur því langt frá því að vera búnar að bæta það upp um 6 mánaða aldur barns (fyrir utan að þá eru 80% barna enn að vakna og biðja um brjóst).

Svo að segja að konan eigi að vera komin í fulla vinnu áður en hún er búin að jafna sig líkamlega, enn með barn sem þarf brjóst á 3 tíma fresti og langt frá því að hafa jafnað sig á því svefnleysi sem brjóstagjöf fyrstu mánaðanna veldur er bara uppskrift að kulnun kvenna. Enda er kulnun mun algengara meðal kvenna en karla. Ég sé ekki jafnréttið í því að setja reglur fæðingarorlofs þannig upp að konur vegna líkamlegra verka sem þær geta ekki útvistað séu miklu líklegri í kulnun en karlar. Það hafa ekki allir þann kost að dreifa orlofi og jafnvel þeir sem hafa þann kost þurfa þá að sætta sig við minni laun og það sem verra er líka minni lífeyrisréttindi, orlofsréttindi, réttindi til næsta fæðingarorlofs ef stutt á milli barna, réttindi til atvinnuleysisbóta og réttindi til örorku. Það er stór hluti kvenna sem dreifir orlofinu vegna þess að þeim er ýtt of fljótt út í vinnu. Það er því stór hluti kvenna sem verður fyrir þessum réttinaskerðingum sem klárlega auka ekki jafnrétti. Hluti karla sem dreifir orlofinu er mun minni og mun líklega minnka við þessar breytingar. Sá litli hluti karla sem verður fyrir þessum kjara- og réttindaskerðingu mun því verða mun minni við þessar breytingar, en sá hluti kvenna sem verður fyrir þessum skerðingum mun líklega standa í stað (enn sama lengd hjá konum og sömu líffræðilegu þættir sem takmarka). Ekki eykur það jafnrétti kynjanna.

Svo því sé líka haldið til haga þá er rétturinn heldur ekki jafn milli kynjanna þótt honum væri skipt jafnt því konunni ber alltaf að taka fyrstu 2 vikurnar en karlinn hefur algjört frelsi.

Að stytta þann tíma sem fólk má taka fæðingarorlof úr 24 mánuðum niður í 18 mánuði er líka óráðlegt. Það er nú þegar þekkt að erfitt er að koma börnum í dagvistun þegar fæðingarorlofi lýkur. Leikskólar taka yfirleitt aðeins inn einu sinni á ári og séu börnin ekki fædd að hausti svo það hentar akkúrat að fara inn á leikskóla að fæðingarorlofi loknu verða þau 12 mánuðum eldri þegar þau komast að næsta haust. Foreldar (og þar lendir konan því miður oftar í því hlutverki með tilheyrandi kjara- og réttindaskerðingu) þurfa þá að dekka meira en 18 mánuði sem verða þá að öllu launalausir. Dagforeldraskortur er mikill og þeir taka bara inn ný börn þegar losnar hjá leikskólum. Í mínu sveitafélagi er ástandið þannig að pláss hjá dagforeldrum nægja fyrir um 20% þeirra barna sem fæðast að meðaltali innan sveitafélagsins og börnin eru á bilinu 15-26 mánaða þegar þau komast inn á leikskóla. Það sér hver maður að það eru því meirihluti foreldra sem lenda í vandræðum með dagvistun og þessi stytting á þeim tíma sem taka má fæðingarorlof mun auka þann vanda. Einnig vil ég benda á að þetta hefur einnig neikvæð áhrif á foreldra langveikra barna sem hafa fengið 7 mánaða framlengingu á fæðingarorlofi en 12+7=19 mánuðir svo þeirra réttur skerðist.

Öll ofantalin rök eru miðuð við jafnrétti foreldranna og ekkert minnst á blessuðu börnin en í raun ætti það sem er þeim fyrir bestu að vera það sem þessi lög ættu að snúast um. Börn einstæðra foreldra sem ekki geta sýnt fram á að barnið sé getið með sæðisgjafa fá aðeins 6 mánuði í nánum samskiptum með foreldri á meðan önnur fá 12 mánuði. Þarna eru foreldrar þar sem annað foreldrið er ekki virkt í uppeldinu. Sem betur fer er þessi hópur minnihluti en telur þó nokkra tugi eða hundruði á ári. Það er að mínu mati ólíðandi að kerfisbundið sé verið að mismuna börnum fyrir að fæðast ekki inn í hið hefðbundna fjölskylduform. Einnig má nefna að börn þeirra foreldra sem ekki eiga rétt á fæðingarorlofi lenda í því að fá aðeins að vera í nánum samskiptum við foreldra sína í 6 mánuði á meðan önnur börn fá 12 mánuði. Sá hópur er ekki smár og geta ástæðurnar verið mýmargar (örorka, námsmenn, verktakar með óreglulegar tekjur sem eiga barn á "vitlausum" tíma, ....). Það er einnig óþolandi að kerfið sé vísvitandi að mismuna þessum börnum á þennan máta, enda fá bornin víst lítið ráðið um hverjir foreldrar þeirra eru eða í hvaða fjölskylduaðstæður þau fæðast.

Margir tala um að það sé ekki hægt að klæðiskerasauma fæðingarorlofsreglur að öllum undantekningum en það hlýtur öllum að vera augljóst að frumvarp með nánast engann sveigjanleika mun henta fæstum en frumvarp með mikinn sveigjanleika mun henta flestum fjölskyldum. Auk þess að þessi staðreynd ætti að vera augljós mætti sjá það glöggt á umsögnum í samráðsgátt við þeim lögum um fæðingarorlofs sem tóku gildi fyrir árið 2020. Meirihluti umsagna var andsnúinn því að þvinga fram ákveðna skiptingu og nánast allir foreldrar sem tjáðu sig þar voru algjörlega andsnúnir þvingaðri jafnri skiptingu milli foreldra enda er það líklegast að koma illa niður á mörgum í þeim fjölbreytta hóp sem eiga börn og þar verða börnin helst fyrir barðinu á þessu ákvæði.

Leyfum fólki að velja út frá sínum forsendum hvernig skipting hentar þeirra fjölskyldu (og með því hættum að setja konur í meiri hættu á kulnun vegna ofurálags í kringum barneignir og hættum að þvinga þær í kjara- og réttindaskerðingu í kjölfar fæðingar), leyfum foreldrum að hafa a.m.k. 24 mánuði til að taka fæðingarorlof og höfum orlofið a.m.k. í 18 mánuði!

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#188 Hrefna Sif Svavarsdóttir - 07.10.2020

Mér finnst frábært að það eigi að lengja fæðingarorlof uppí 12 mánuði en mér finnst að þessir 12 mánuðir eigi að vera skráðir á barnið og foreldrar ákveði sjálfir hvernig skipta eigi þeim niður eftir því hvað kemur best út fyrir barnið.

Afrita slóð á umsögn

#189 Agnar Áskelsson - 07.10.2020

Hagir og aðstæður fólks eru mismunandi. Fólk sem þetta snertir á það þó sameiginlegt að það á barn, og mér þykir að fæðingarorlofið eigi að vera fyrir barnið, ekki foreldrana.

Það að eyrnamerkja tímabil hvoru foreldra fyrir sig getur ekkert annað en bitnað á möguleikum foreldra til að haga þessum málum á sem bestan hátt.

Í sumum tilfellum hentar betur að annar foreldrinn sé meira heima en hinn.

Það getur jafnvel verið þannig að einungis annar foreldrinn hafi kost á því að vera heima. Það getur verið vegna mikils mun á launum eða vinnuaðstæðum, skólagöngu eða öðru. Í þeim tilfellum bitnar það á barninu.

Ég legg til að fæðingarorlof verði merkt hverju barni fyrir sig og foreldrum frjálst að skipta því eftir því hvað á best við hverju sinni.

Það kemur best út fyrir foreldrana, barnið og samfélagið í held sinni.

Kv. Agnar

Afrita slóð á umsögn

#190 Greta Ósk Óskarsdóttir - 07.10.2020

Mér finnst að það ætti að vera hægt að færa mánuði meira á milli foreldra, í nútíma samfélagi er oft annað foreldrið heimavinnandi meira en hitt. Ef þetta er aðeins hugsað út frá foreldrunum sjálfum, ætti það ekki að vera mikið mál að auka aðeins færanleika milli foreldra ekki satt?

Afrita slóð á umsögn

#191 Guðrún Ýr Skúladóttir - 07.10.2020

Ég fagna þessu framtaki stjórnvalda að lengja fæðingarorlofið en hins vegar finnst mér of mikil forræðishyggja í að minnka sveigjanleika í skiptingu mánaða á milli foreldra. Að mínu mati er ekki hægt að setja alla undir sama hatt þegar það kemur að töku fæðingarorlofs og það sem hentar einni fjölskyldu hentar ekki endilega annarri. Rannsóknir t.d í Sviþjóð hafa sýnt að því meiri sveigjanleika sem foreldrar hafa í ráðstöfun fæðingarorlofs því duglegrii eru feður að nýta sér sitt fæðingarorlof og því meira jafnrétti. Ég legg til að hvort foreldri hafi enn sína 3 mánuði en öðrum mánuðum væri foreldrum frjálst að ráðstafa, eftir hvað hentar hverju sinni.

Hvað varðar að stytta tímann til töku fæðingarorlofs, frá 24 mánuðum niður í 18 mánuði finnst mér mikil afturför. Sem dæmi má nefna að börn í Reykjanesbæ fá ekki leikskólapláss fyrr en í fyrsta lagi 2 ára gömul og er það mjög mikið háð því hvenær á árinu þau eru fædd. Annað sem skiptir máli og gleymist oft er að fæstir safna sumarfríi á launum á meðan þeir eru í fæðingarorlofi en þá gæti verið gott að eiga inni mánuð eða tvo til að brúa bilið ef til þess kæmi. Ég veit allavega að þannig gerði ég það og það er heldur betur að koma okkur til góðs núna þar sem drengurinn okkar fær ekki inn í leikskóla fyrr en rúmlega 2 ára gamall.

Afrita slóð á umsögn

#192 Stefanía Eir Vignisdóttir - 07.10.2020

Ég minnist þess ekki að hafa áður sett mig á móti máli sem sagt er baráttumál í þágu jafnréttis - en það geri ég núna og sé ekki betur en að flestir ef ekki allir femínistar í mínum kunningjahópi geri slíkt hið sama. Ég tel hreinlega að þetta tiltekna mál, reglur um rétt til fæðingarorlofs, eigi ekki að nota sem tól í þágu jafnréttis heldur snúist það um rétt barna til þess að hljóta sem best uppeldi og nálægð við foreldra sína á fyrstu mánuðum og árum lífs síns. Það væri við hæfi að hvetja foreldra til þess að deila fæðingarorlofinu og höfða til feðra með td jákvæðri herferð á einhvern hátt í tengslum við breytingarnar - en ekki neyða fólk inn í box sem hentar eingöngu ákveðnum forréttindahópi.

Núverandi breytingartillögur sem snúa að föstu tímabili fyrir móður og föður kemur niður á fjölskyldum sem hafa lítið á milli handanna, fjölskyldum þar sem einungis eitt foreldri er til staðar, fjölskyldum þar sem annað foreldri er erlent og ekki með réttindi til orlofs (eða vegna annarra ástæðna)... og svo má lengi telja. Það kemur ekki niður á fjölskyldum þar sem báðir foreldrar eru í vel launuðum stöfum, búa saman og móðir getur hagað starfi sínu eða vinnutíma eftir 6 mánuðina þannig að hún geti enn gefið brjóst. Það kemur semsagt niður á þeim nýfæddu börnum sem eru ekki í toppi forréttinda á Íslandi.

Ég sjálf fæ fæðingarorlof í 6 mánuði og vann mikið fyrir því. Maðurinn minn er erlendur og á ekki rétt á fæðingarorlofi í sínu heimalandi og hefur ekki unnið á íslenskum markaði. Ég þarf því að dreifa mínu orlofi á 12 mánuði og reyna að lifa af því og safna upp skuldum meðfram því. Ég get svo ekki eignast annað barn fyrr en ég er búin að vinna aðra 18 mánuði á Íslandi, nema ég vilji enn lægra fæðingarorlof næst. Ef barnið mitt hins vegar fengi 12 mánuði á sínu nafni gæti ég verið með henni heima í sömu 12 mánuði og haft hana áhyggjulaust á brjósti, ég gæti lifað af orlofinu og við stefnt á næstu barneignir innan 2-3 ára.

Mér þykir ekki bara mikilvægara að nýfædd börn fái jöfn réttindi við fæðingu heldur en að nota heilsu þeirra og foreldra þeirra sem tól í jafnréttisbaráttu - heldur þykir mér jafnréttisbaráttan einfaldlega á villigötum og þetta mál frekar skemma fyrir henni en hjálpa til. Foreldrar ættu að fá að haga orlofinu einsog hentar þeirra barni og fjölskyldu, og samfélagið sjálft ætti að vera þannig að það myndi hvetja feður til þess að taka sitt orlof og vinnumarkaður þannig að jafnræði gætti og foreldrar í svipaðri fjárhagslegri stöðu. Þá er það ljóst að mæður, í flestum tilvikum, ganga með börnin, fæða þau og hafa þau á brjósti með tilheyrandi líkamlegri áreynslu og börnin þurfa fyrstu mánuðina á líkömum mæðra sinna að halda allan sólarhringinn með tilheyrandi svefnleysi og skerðingu á frelsi til þess að fara út fyrir hússins dyr lengur en 1-2 tíma í senn (td til hreyfingar). Ég dreg ekkert úr mikilvægi sambands föður við barn og mun aldrei gera - en móðir þarf líkamlega að jafna sig í sínu orlofi og í mörgum tilvikum halda áfram að hafa barnið á brjósti í orlofi föðursins, á meðan faðirinn fær sömu lengd á orlofi til tengingar við barnið sitt. Þar sé ég ekki blasa við jafnrétti, heldur þvert á móti.

Einnig þykir mér það skref afturábak að stytta tímarammann sem taka má orlofið og þykir raunar ástæða til þess að taka allt önnur skref og róttækari (1 mánuður fyrir fæðingu bætt við orlof móður, lenging og hækkun orlofs o.s.frv.).

Í raunveruleika þar sem karlar og konur eru með jafn há laun, fjölskyldur eru allar jafn vel stæðar, fjölskyldur innihalda allar tvenna foreldra í fullu starfi (og báðir foreldrar ganga með börnin og fæða þau á eigin líkama) - getum við talað um að skylda til þess að deila fæðingarorlofi jafnt sé eðlileg krafa. Á meðan krafan kemur niður á efnaminna fólki, sjálfstætt starfandi, verktökum og þar með ótal nýfæddum börnum - veldur hún engu nema ójafnrétti.

Afrita slóð á umsögn

#193 Ólafur Grétar Gunnarsson - 07.10.2020

Við þurfum að gera miklu betur

Í Danmörku og Finnlandi taka feður um 11 prósent af heildar fæðingarorlofsdögunum, á Íslandi og í Svíþjóð taka feður um 30 prósent og í Noregi um 20 prósent. Það að íslenskir feður standi jafnfætis þeim sænsku er einstakt í ljósi þess að Svíar voru fyrstir með fæðingarorlof árið 1974 og hafa þar af leiðandi meira en helmingi lengri sögu en íslenskir feður af fæðingarorlofi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri norrænni skýrslu um feðraorlof þar sem byggt er á upplýsingum frá um 7.500 norrænum foreldrum og viðhorfum þeirra til fæðingarorlofsins.

Þessi góði árangur á Íslandi hefur náðst þrátt fyrir þá staðreynd að aðgerðaráætlun stjórnvalda frá árinu 2000 um fræðslu fyrir feður hefur ekki verið fylgt eftir! Okkur hefur verið bent á það reglulega úr alþjóðasamfélaginu og frá innlendum sérfræðingum í mörg ár að þörf er á að við gerum miklu betur í umönnun og uppeldi barna. Þessi áhersla á mikilvægi umönnunar beggja foreldra er vel studd rannsóknum sem sýna að það er barni fyrir bestu að eiga góð og örugg tengsl við báða foreldra en slík tengsl verða sterkust ef þau fá að mótast strax í frumbernsku.

Ein mikilvæg leið til að gera betur er að jafna álagið sem fylgir umönnun og uppeldi barna með því að foreldrar deili því sem jafnast. Ávinningur af því er jafnframt styrking fyrir parsambandið. Þetta lífsskeið foreldra er vissulega tengt gleði og jákvæðum áskorunum en það er jafnframt oft mikið álags- og átakaskeið, sem alltof oft leiðir til skilnaðar. Tölfræðin sýnir að líkur á að barn upplifi skilnað foreldra eru mestar á fyrstu 3 árunum í lífi þess. Áreiðanleg gögn sýna að fjöldi fólks stendur ekki undir kröfum foreldra hlutverksins, m.a. vegna vanþekkingar, skilnaða, fíkniefnaneyslu eða geðrænna erfiðleika.

Við erum sammála dr. Ingólfi V. Gíslasyni, rannsakenda og baráttumanns fyrir sterkum tengslum feðra við börn sín í frumbernsku, um að lögin frá árinu 2000 hafa sannað sig. Lögin hafa skilað afskaplega jákvæðum breytingum inn í íslenskt samfélag. Lang flest börn eiga tvo foreldra við fæðingu og löggjafinn hefur um áratuga skeið lagt áherslu á að börn eigi rétt á umönnun beggja foreldra.

Ef báðir foreldrar eru á vinnmarkaði geta þau lengt tímann með barninu í allt að 10 vikur ef þau taka sumarleyfi tengt við 12 mánaða fæðingarorlofið og verið þannig með barnið í eigin umönnun langleiðina í 18 mánuði. Þetta gerist frekar ef foreldrarnir eru bæði örugg og sátt í hlutverki sínu fyrsta árið.

Góð líðan foreldra er grundvöllur góðrar umönnunar. Ungabörn þurfa á því að halda að getað kallað fram bros á andliti foreldris, brosið er tákn um að öllum líði vel og að barnið upplifi öryggi. Þetta veit barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason sem hefur beitt sér fyrir lengingu fæðingarorlofsins, stuðningi við foreldra ásamt skilvirkara og samþættu samstarfi stofnana um þjónustu í þágu velferðar barnafjölskyldna.

Mikilvægur þáttur í velsæld þjóðarinnar er viðurkenning á að jöfn þátttaka foreldra skilar sér í betri árangri við umönnun ungra barna og uppeldi fram á unglingsár, en þá tekur við annað tilfinningalegt átakaskeið í þroska barnsins þar sem sannarlega þarf ekki síður tvo til enn í frumbernskunni.

Ennþá er munur á notkun feðra og mæðra á fæðingarorlofinu, en við erum á réttri leið. Jafnræði á milli foreldra er grundvöllur fyrir jákvæðri þróun og lengingar fæðingarorlofs. Umönnun barna má ekki vera meira á ábyrgð mæðra en feðra. Áhugi og metnaður kvenna á vinnumarkaði er ekki minni en karla, og mikilvægur hluti af jafnrétti karla og kvenna er viðurkennd og sköpuð hefð um að mæður og feður sinni fæðingarorlofi á sem jafnastan hátt. Æskilegt væri að halda áfram að bæta við einum mánuði á ári og ná Svíum, samtals 18 mánaða fæðingarorlofi. Meiri sátt verður um þessa lengingu ef notkun feðra og mæðra á töku fæðingarorlofs er sem jöfnust.

Ásamt frekari lengingu fæðingarorlofs þarf að huga að aðgerðum sem jafna þátttöku feðra og mæðra, með aðkomu menntakerfisins og sérstökum nýsköpunarverkefnum í kringum ráðgjöf, fræðslu og stuðning fyrir foreldra og parsamband bæði á meðgöngutíma og á fyrstu árum barnsins. Á þessu þarf að skerpa í reglugerð með væntanlegum fæðingarorlofslögum, en um þessi atriði hefur m.a. samstarfshópur sérfræðinga, 1001 hópurinn um fyrstu tengsl, bent á og unnið að.

Helgi Viborg sálfræðingur

Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskyldu- og hjónaráðgjafi

Afrita slóð á umsögn

#194 Sunna Jónsdóttir - 07.10.2020

Mér finnst frábær hugmynd að lengja fæðingarorlof og finnst það eiga að koma barninu sem best hvernig foreldrar skipta því á milli sín. Við ættum að vera komin á þann stað að treysta foreldrum fyrir því að skipta orlofinu sín á milli eins og hentar barninu best og heimilinu. Því ennþá þurfa tekjur að koma inn á heimilið svo barnið búi við öryggi. Til að geta búið við fjárhagslegt öryggi þarf oft að grípa á það ráð að tekjuhærra foreldrið fer fyrr út á vinnumarkaðinn því að fæðingarorlof er ekki að geta haldið foreldrum uppi í langan tíma. Þá væri sorglegt ef foreldrið sem myndi vilja nýta réttinn frá foreldrinu sem fer á vinnumarkaðinn fengi það ekki, barnsins vegna! -Brjóstagjöf og geðtengsl foreldra og barns ætti að vera það sem skiptir mestu máli og mun skila okkur sterkari einstaklingum út í samfélagið eftir nokkur ár.

Afrita slóð á umsögn

#195 Alþýðusamband Íslands - 07.10.2020

Sjá hér meðfylgjandi umsögn Alþýðusambands Íslands.

f.h. ASÍ

Halldór Oddsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#196 Félag kvenna í atvinnulífinu - 07.10.2020

Góðan dag.

Stjórn Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) vill koma á framfæri eftirfarandi umsögn.

Umsögn við frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof er í viðhengi.

Kær kveðja – FKA.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#197 Margrét Hlíf Óskarsdóttir - 07.10.2020

Mér finnst frábært að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði en mér finnst að það ætti að vera í höndum foreldra að skipta þessum mánuðum niður á milli sín.

Aðstæður fólks eru eins mismunandi og við erum mörg hvað varðar fjárhag og annað slíkt.

Semsagt að foreldrar fá 12 mánuði sameiginlega og ráða þá allgjörlega hvernig þeim er háttað.

Og ef horft er til brjóstagjafar er ráðlagt að vera með barn á brjósti eins lengi og mögulegt er og er það alltaf í hlutverki móður.

Mér finnst það vera afturför að stytta nýtingartímamm í 18 mánuði hann ætti alltaf að vera 24.mánuðir alls ekki minna eftie það ætti barnið að vera komið inná leikskóla.

Afrita slóð á umsögn

#198 Samband íslenskra sveitarfélaga - 07.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga

f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga

Bryndís Gunnlaugsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#199 Viðskiptaráð Íslands - 07.10.2020

Góðan daginn

Meðfylgjandi er umsögn Viðskiptaráðs Íslands um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Virðingarfyllst,

Agla Eir Vilhjálmsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#200 Jón Fannar Kolbeinsson - 07.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn Jafnréttisstofu

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#201 Hulda Björnsdóttir - 07.10.2020

Fagna 12 mánaða fæðingarorlofi.

Ég með mitt fyrsta barn sem er fætt 2018, þurfti að púsla saman og besta útkoman var að ég myndi taka mína 3 mánuði + 3 sameiginlega og deila þeim á 1 ár. Fyrst ætlaði ég að deila þeim tíma á 9 mánuði, en munurinn á 9 mánuðum og 12 mánuðum var svo skammarlega lítill að það sparaði okkur 3 mánðuði hjá dagforeldri og ég fékk lengri tími með barninu. Þessi ákvörðun var tekin með tilliti til brjóstagjafa, gæslumála, stöðu heimilisins fjárhagslega og samband foreldranna.

Ég tók þessa 3 sameiginlegu mánuði þar sem barnsfaðir minn hafði möguleika á yfirvinnu, sem ég hafði ekki, sem gat bætt uppí tekjuskerðinguna, þetta var okkar sameinginlega ákvörðun. Hann nýtti sína 3 mánuði með okkur, það var komin niður staða að ég myndi dreifa yfir 12 mánaðara tímabil, fyrst þegar dóttir okkar fæddist, 1 mánuð til að lengja jólafríið og taka meira þátt á heimilinu yfir þann álagstíma og svo tók hann einn mánuð um sumarið til að eiga lengra sumarfrí með okkur, sem fjölskylda sem var okkur mjög dýrmætur tíma að geta eytt tíma saman með dóttur okkar.

Svo annar þáttur sem spilaði inní þessa ákvörðun var að það hefði orðið algjörlega vonlaust fyrir okkur að fá pláss hjá dagforeldri þegar barnið okkar var orðið 9 mánaða (þegar orlof væri búið), þar sem hún er fædd í september, og flestir dagforeldrar taka ekki við nýjum börnum nema á haustinn , þá var hún orðin 1 árs, því að þá fara elstu börnin hjá þeim inná leikskóla, þau sem komast inn. Þannig að 12 mánuðir í fæðingarorlofi hefðu bjargað mörgu. Eins og staðan var þegar ég var ófrísk þá varð ég að sækja um hjá dagforeldri þegar ég var komin 14 vikur því biðlistar hjá dagforeldrum í mínu sveinarfélagi voru svo langir og margir lentu í vandræðum, og þó nokkrar mæður urðu dagforeldrar í 1 ár því barnið þeirra komst ekki inn hjá dagforeldri.

Ég get hinsvegar ekki fagnað skiptingunni sem talað er í frumvarpi 6 mánuðir til móður 6 mánuðir til föður, 1 mánuður framseljanlegur. Það eru mun fleiri mæður sem dreifa fæðingarorlofinu sínu, þó að það verði 6 mánuðir fastir á hvort foreldri. Þar spila margir þættir inní, talið er að best sé að barnið nærist engögnu á móðurmjólk fyrstu 6 mánuðinu, WHO mælir með brjóstagjöf allt að 24 mánaða aldri, tengslamyndun, fjölskyldu minstur og fjárhagur fjölskyldunnar.

Hvað með einstæðtt foreldri, þar sem hitt foreldrið er ekki inní myndinni, þó viðkomandi sé ekki í fangelsi eða látinn. Hvernig á það foreldri að geta veitt barninu sínu það að vera heima í 12 mánuði eins og önnur börn, þegar búið er að negla niður og þvinga vissann tíma á hvort foreldri. Staðan er þannig í dag, að það er nánast betra fyrir móður að feðra ekki barnið sitt til að fá aukið fæðingarorlof, en þá missir hún allann annann rétt, t.d meðlag, sem getur skipt sköpum við einstætt foreldri.

Það eru alltof mörg dæmi þar sem einstætt forledri þarf að fórna tíma með barninu sínu, til að geta aflað tekna inná heimilið, og þarf að treysta jafnvel á nána ættingja t.d ömmu og afa barnins. Ef þessir mánuðir verða fastir, þá mun móðir sem hefur feðrað barnið, eingögnu 7 mánuði með barnið í orlofi, á 80% tekjum sem eru þá einu tekjurnar inná heimilið, fara inná vinnumarkaðinn aftur og þurfa koma barninu til dagforeldris og borgar 2 mánuði á fullu gjaldi því sveitafélagið borgar ekki niður fyrren eftir 9 mánuðina, og líklega mun það breytast líka með þessu frumvarpi, og ekki ólíklegt að sveitafélagið borgi ekki niður fyrren barnið verður 1 árs. Þetta er gífurlegar upphæðir fyrir einstætt foreldri.

Eins og ég sé þetta, þá er þetta fókus á jafnrétti og jafnrétti úta vinnumarkaði. Jafnrétti er auðvitað stór þáttur í okkar lífi og þarf að vera til staðar. En þegar kemur að fæðingarorlofi þarf að setja jafnréttið til hliðar og hafa barnið sem er sjálfstæður einstaklingur í fyrsta sæti. Hvað er best fyrir barnið, og það er bara þannig í okkar samfélagi svo ótrúlega margt sem hefur áhrif á kjör barnanna okkar, og stór þáttur í því er að hafa öruggt heimili og einstakling sem getur hugsað um það 24/7 fyrsti mánuðina í lífinu.

Sem móðir með fyrsta barn og á brjósti, hefði aldrei getað sett barnið í forsjá föðurs án þess að þurfa vera 100% viss um að ég gæti fengið að fara frá vinnu til að gefa barninu eða til að pumpa svo faðir þess hefði getað gefið pela, en þá kemur annað inn það taka ekki öll börn pela, og hvað þá?

Það er einfaldega þannig að 6/6 skipting virkar ekki yfir alla. Það virkar hjá sumum sumum ekki. Við eigum ekki að þurfa bæta við álagi og stressi inná heimilið með svona vinnubrögðum.

Svo er stórt skref aftur á bak að lækka úthlutnartímann úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Þar sem íslenska leikskólakerfið styður það ekki. Það eingöngu brot sveitafélaga sem geta veitt börnum leikskólapláss 18 mánaða og í þeim sveitafélögum komast ekkert öll börn inn 18 mánaða, í flestum sveitafélögum komst börn ekki inn fyrren um 2 ára aldur. Ef svo er þaf þá virkilega að plana getnað svo að barnið fæðist á réttum tíma ársins svo það komist inn á þeim tíma, sem er á haustin. Það eru til mörg dæmi þar sem fólk hefur þurft að flytja milli sveitafélaga eða „svindla“ til að börnin komist inná leikskóla svo að forledrarnir komist báðir útá vinnumarkaðinn aftur. Ég tel að það sé ekki hægt að fara aftur niður í 18 mánuði fyrren sveitafélögin geti tryggt barni leikskólapláss við 18 mánaða aldur, því raunin er sú að dagforeldrum fer fækkandi og einnig vinna margir dagforeldrar ekki fullann vinnudag.

Horft til Norðurlandana árið 2018

Ísland: Sjáldstæður réttur feðra 13, sjálfstæður réttur mæðra 13vikur, réttur föðurs við fæðingu barns 0 vikur, sameiginlegur réttur foreldra 13 vikur. Samtals 39 vikur

Danmörk: Sjáldstæður réttur feðra 0, sjálfstæður réttur mæðra 18vikur, réttur föðurs við fæðingu barns 2 vikur, sameiginlegur réttur foreldra 32 vikur. Samtals 52 vikur

Noregu: Sjáldstæður réttur feðra 15vikru , sjálfstæður réttur mæðra 15 vikur, réttur föðurs við fæðingu barns 2 vikur, sameiginlegur réttur foreldra 26 vikur. Samtals 58 vikur

Svíþjóð: Sjáldstæður réttur feðra 12, sjálfstæður réttur mæðra 12vikur, réttur föðurs við fæðingu barns 2 vikur, sameiginlegur réttur foreldra 53 vikur. Samtals 79 vikur

Ég tel að fæðingarorlof eigi að haldast við lögheimili barnsins (fylgja barninu alfarið), ef einstætt foreldri (hvort sem búið er að feðra eða ekki) geti nýtt sér 12 mánuði og ef foreldrar séu í sambúð að skiptingin eigi að vera 4:4:4 eða jafnvel 3:3:6.

Móðir ætti að fá að lámarki 3-6 vikur (fyrir utan fæðingarorlof) sem hún getur nýtt til að jafna sig eftir barnsburð, fyrstu vikurnar eru erfiðar mörgum mæðrum og eru mis vel upplagðar. Þegar laun foreldra eru misjöfn, mun áfram vera skipitng á hlutfalli fæðingarorlofs til að tryggja heimilinu sem minnstann fjárhagslegann skaða, og fólk er að taka af sparnaðinum sínum til að brúa bilin.

Tíminn sem hægt er að nýta orlifið sé áfram 24 mánuðir frá fæðingardegi barns með tilliti til þess að gæslu-og leikskólamál sveitaféalga standast ekki þær kröfur að taka börn inn 18 mánaða.

Afrita slóð á umsögn

#202 Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir - 07.10.2020

Sú forsjárhyggja að skipta fæðingarorlofi þannig að hvort foreldri eigi rétt á sex mánaða fæðingarorlofi með einungis einn mánuð framseljanlegan milli foreldra er algjör forræðishyggja af lágu plani og að mínu mati ekki barninu í hag. Fjölskyldur eru allskonar og aðstæður ólíkar milli fjölskyldna, sumum hentar að skipta fæðingarorlofi á milli aðila án þess að það komi sterklega niður á innkomu fjölskyldunar en hjá öðrum hefur það gríðarlega mikil áhrif ef annar aðilinn þarf að taka margra mánað fæðingarorlof. Því miður verður aldrei hjá því komist að launamunur og þar með innkoma foreldra til heimilis hafi áhrif á það hversu miklum tíma foreldri getur notið með barni sínu í fæðingarorlofi.

Eins búum við því miður við þann veruleika að börn eru ekki að komast inn á leikskóla fyrr en um 24 mánað aldur og oft reynist erfitt að fá daggæslupláss fyrir þau fyrr en um 12-15 mánaða aldur. Það getur því skipt sköpum að annað foreldri geti tekið lengra orlof og mögulega skipt því á lengri tíma og oft á tíðum veitir heldur ekki af því að báðir foreldrar geri slíkt en þá getu fylgt því kostnaður fyrir fólk ef annar aðilinn er með hærri tekjur og því fyrirvinna heimilisins ef báðir hafa bundinn rétt í svo langan tíma sem hér er lagt til.

Það að ekki skulu vera heimilt að framselja fleiri en einum mánuði er að mínum mati ekki gert með hagmuni fjölskyldna að leiðarljósi.

Ég vil leggja til að þessi í stað verði skipting fæðingarorlofs/fæðingastyrks á milli foreldra eftirfarandi: Foreldrar geti nýtt sex mánuði hvort um sig en þó verði heimilt að framselja allt að þremur mánuðum á milli foreldria sé þess óskað í því skyni að koma til móts við aðstæður fjölskyldna.

Þannig er hagsmunum barna betur varið, bæði hvað varðar rétt þeirra á að báðir foreldrar annist það á fyrstu mánuðum lífs þess en einnig því að barnið og fjölskylda þess hafi nægar tekjur til að eiga fyrir reikningum heimilisins og fyrir nauðsynjum s.s. mat og bleyjum o.s.fv.

Afrita slóð á umsögn

#203 Alexander Kristinn Smárason - 07.10.2020

Sjá meðfyulgjandi skjal

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#204 Ingibjörg Sigurjónsdóttir - 07.10.2020

Það er glæsilegt að lengja orlofið í 12 mánuði.

Réttur til orlofs skal vera jafn en foreldri ætti að mega framselja 3 mánuði af sínu orlofi til hins foreldris ef aðstæður fjölskyldna kalla á það. Aðstæður sínar getur hver fjölskylda best metið sjálf.

Mikil hætta er á að frumvarpið mismuni börnum einstæðra foreldra sem auðveldlega geta misst möguleikann á samvistum heima með foreldri. Veruleikinn er sá að margir einstæðir feður sem ekki deila heimili með barni sínu sinna ekki ungum börnum sínum að því leyti að forsvaranlegt sé að þeir séu sjálfkrafa á fimm-sex mánaða launum frá ríkinu við það. Þetta mætti koma í veg fyrir til dæmis með því að foreldrar sem eru ekki í skráðri sambúð hafi sérstaklega rúman rétt til að nýta orlofsrétt hins foreldrisins, jafnvel að öllu leyti. Að til þurfi að koma nálgunarbann, fangelsisvist eða að barnið sé ófeðrað til að móðir megi nýta orlofsmánuði föður er allt of þröngt skilgreint.

Þegar reiknað er út fæðingarorlof ætti fyrra fæðingarorlof ekki að reiknast inn í dæmið, þar sem þá margfaldast tekjuskerðing viðkomandi. Ekki ætti að refsa fólki fyrir að eignast börn með stuttu millibili á þennan hátt.

Virðingarfyllst,

Ingibjörg Sigurjónsdóttir

Afrita slóð á umsögn

#205 Ragnheiður Kristín Pálsdóttir - 07.10.2020

Ég þekki nokkur dæmi þess að feður sem ekki búa með barnsmæðrum sínum fái greitt úr fæðingarorlofssjóði þrátt fyrir að hugsa ekkert um börn sín. Þegar sjóðurinn er inntur eftir sannleikanum fást engin svör þar sem persónuverndarlög hamla því. Vinsamlegast komið í veg fyrir þetta óréttlæti í nýju lögunum.

Afrita slóð á umsögn

#206 Steinunn Jóhanna Bergmann - 07.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#207 Samtök atvinnulífsins - 07.10.2020

Góðan dag,

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um málið.

Virðingarfyllst,

f.h. SA,

Heiðrún Björk Gísladóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#208 Steinunn Ylfa Harðardóttir - 07.10.2020

Sem tveggja barna móðir sem var í fæðingarorlofi fyrsta árið með báðum börnum mínum, m.a. til að geta gefið brjóst, þá finnst mér ekki góð hugmynd að hafa fasta 6 mánuði á hvort foreldrið. Mér finnst að foreldrarnir þurfi að geta ráðstafað fæðingarorlofs mánuðunum eins og hentar. Mér finnst líka að fæðingarorlofið ætti að vera lengt í eitt og hálft ár.

Mér finnst líka soldið stuttur tími að hafa bara 18 mánuði til að nýta fæðingarorlofið. Mér finnst fínt að hafa 24 mánuði til að ráðstafa þessum mánuðum.

Kv. 2 barna móðirin

Afrita slóð á umsögn

#209 Sæunn Kjartansdóttir - 07.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn Sæunnar Kjartansdóttur sálgreinis

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#210 Sæunn Kjartansdóttir - 07.10.2020

Í viðhengi er umsögn Sæunnar Kjartansdóttur sálgreinis

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#211 Linda Hængsdóttir - 07.10.2020

Umsögn er í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#212 Embætti landlæknis - 07.10.2020

Sjá umsögn embættis landlæknis í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#213 María Ben Erlingsdóttir - 07.10.2020

Ég fagna þessu frumvarpi að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði og styð jafnan rétt foreldra, en það þarf alltaf að gefa fjölskyldum valkost um hvað hentar hverjum og einum. Ég styð þá tillögu 4-4-4, þar sem foreldara geta deilt 4 á milli sín, eða jafnvel 3-3-6 þar sem 6 mánuðum er deilt á milli. Það er klárlega lykilatriði að hafa sveigjanleika. Alltaf að hafa hagsmuni barnsins í fyrrirúmi þar sem aðstæður eru svo misjafnar.

Afrita slóð á umsögn

#214 Vignir Árnason - 07.10.2020

Góðan daginn!

Þær tillögur sem koma fram í lagafrumvarpinu er lúta að skiptingu mánaða milli foreldra er alltof íþyngjandi fyrir foerldra og munu eyða því svigrúmi sem forerldrar hafa til að láta fæðingarorlofið ganga upp. Sex mánuðir eru alltof stuttur tími fyrir móðir sem vill gefa brjóst á náttúrulegan hátt og eins lengi barnið vill sjálft. Núna þegar við tókum fæðingarorlof þurfti ég að eftirláta konunni minni mína sameiginlegu mánuðina í níu mánaða kerfi. Þrátt fyrir það framlengdi hún orlofið upp í tólf mánuði á 40% launum. Þá tók ég mína 3 mánuði til að brúa bilið á milli þess að hún kláraði orlofið og barnið byrjaði snemma á leikskóla. Núverandi tillögur eru engan veginn nóg fyrir eðlilegt líf og veldur meiriháttar tekjumissi og áhyggjum meðal foreldra og þar af leiðandi vanlíðan meðal ungra barna. Það væri eðlilegt að skipta tólf mánuðum í 4-4-4 hið minnsta eða hafa enn meiri sveigjanleika í 3-6-3. Síðan er nauðsynlegt að lengja fæðingarorlofið í nokkrum skrefum í tvö ár (24 mánuði) svo að bráðavandi með dagvistun leysist og að Ísland færist nær norrænum ríkjum í þessum málum. Svo mætti hætta að refsa námsmönnum og hlutavinnufólki fyrir ónógar tekjur fyrir barneignir en 80% af lágum launum dugar augljóslega ekki til framfærsu né fæðingarstyrkur námsmanna (177 þús. kr.) sem ég tók núna. Það verður að vera lágmark á þessum greiðslum í framtíðinni, því annars eru sum börn dæmd til fátæktar.

Virðingarfyllst, Vignir Árnason

Afrita slóð á umsögn

#215 Rannveig Ernudóttir - 07.10.2020

Sé tölfræði Fæðingarorlofssjóðs skoðuð kemur skýrt fram að sameiginlegur réttur foreldra er nánast alfarið nýttur af mæðrum fremur en feðrum. Það eitt og sér segir mjög mikið, en gefa má sér að foreldrar telja að móðir þurfi lengri tíma til að vera heima, hvort sem er hennar sjálfrar vegna, t.d.vegna heilsufarsástæðna í beinu framhaldi af meðgöngu og/eða fæðingarinnar og/eða vegna t.d. fæðingarþunglyndis, eða vegna barnsins sjálfs sem þá mögulega er eingöngu enn á brjósti og taki jafnvel ekki pela.

En ekki síst hefur fjárhagslega hliðin þarna rík áhrif. Sé faðir tekjuhærri einstaklingurinn getur það hafti gríðarleg áhrif fyrir heimilið að verða fyrir 20% tekjuskerðingu á hans innkomu meðan á orlofi stendur. Með því að skikka foreldrar í ákveðið mót er verið að gera konur fjárhagslega háðar mökum sínum sem ekki getur talist gott skref í nafni jafnréttis.

Nú er það mjög áberandi að launamunur á svokölluðum kvenna- og karlastörfum er gríðarlegur enn þann daginn í dag, og það þrátt fyrir að hafa m.a. notað fæðingarorlofið, fyrir tuttugu árum, í þeim tilgangi að leiðrétta þann ójöfnuð. Það hlýtur að segja okkur að þessi aðferðarfræði þurfi að breytast og ekki bara það, við getum gert betur.

Það sem ávannst við eyrnamerktan rétt feðra fyrir tuttugu árum er það viðhorf að feður hafa áhuga á að sinna börnunum sínum, vilja það og geta það. Am.k. er afar fátt sem þeir ekki geta. Þeir geta ekki gefið brjóst en ef barnið tekur pela að þá er það ekki einu sinni hindrun. En það er bara ekki sjálfgefinn hlutur að barn vilji pela og það getur reynt mikið á bæði barnið og foreldrana. Ekki er hægt að treysta á að störf mjólkandi mæðra bjóði upp á að þær geti tekið pásur til að pumpa sig og svo geyma mjólkina eða fá barnið til sín til að gefa því brjóst. Reyndar getur svo líka aðskilnaðarkvíði ungs barns verið beintengdur við móður og þá er erfitt fyrir faðir að stíga inn í hlutverk móðurinnar á meðan sá tími gengur yfir. En hann gengur einmitt yfir.

En talandi um hlutverk foreldra. Einhverra hluta vegna virðist sá misskilningur ríkja að það að kalla eftir meiri sveigjnaleika í skiptingu orlofs sé samasem merki þess að feður séu þá ekki að fara taka þátt í uppeldi og umönnun barna sinna sem eru nýfædd (eða barna yfir höfuð). Það er stórfurðulegur skilningur ef svo er, en það vita það nú flestir að umönnun barns er ekki bara fyrstu mánuðina, enda verður barnið vonandi fullorðinn einstaklingur, svo vafalaust má gera ráð fyrir að umönnun barnsins verði í allavegana 18 ár. Hitt er að umönnun barns sem er nýfætt er allan sólarhringinn og stoppar ekki við það að hitt foreldrið komi heim frá vinnu, hvað þá er umönnun viðameiri ef nýfædda barnið er ekki fyrsta og eina barnið á heimilinu.

Hlutverk foreldra breytast eftir aðstæðum á heimilinu. Eina stundina mæðir meira á öðru þeirra umfram hitt. Próflestur, álag í vinnunni, veikindi, ferðalög, svo nokkur dæmi séu nefnd, spila þarna líka inní. Í Svíþjóð er lögð áhersla á að foreldrar skipti hlutverkunum rétt og sanngjarnt á milli sín, en orlofið er samt sem áður mun sveigjanlegra og lengra en hér. Því væri frábært að sjá okkur hér fara í átak að virkja foreldra betur til að sinna sínu heimili betur jafnt, sem á ekki bara við um eitt til tvö ár af fæðingarorlofi, heldur öll hin árin líka.

Svo má ekki gleyma því að konur eru þær sem ganga með börn, það gera og geta karlar ekki. Sumar konur ganga í gegnum dásamlega meðgöngu og jafnvel líka góða fæðingu. Hins vegar, hvort sem það væri algengt eða ekki, að þá getur erfið meðganga, erfið fæðing eða kveisubarn, haft gríðarleg neikvæð áhrif á heilsu móður. Því skýtur það skökku við að taka ekki slíkt með í reikninginn varðandi fæðingarorlof. Réttar væri að konur gætu komist í veikindaleyfi tengt þeim kvillum sem meðganga, fæðing, sængurlega og jafnvel fæðingarorlof getur haft á nýbakaða móður, í rauninni má segja að það sé fjandsamlegt konum að taka ekki mið af þessum þáttum þegar verið er að setja upp, skilgreina og skipta upp fæðingarorlofi.

Því væri æskilegt að kalla eftir eigindlegri rannsókn á töku foreldra í fæðingarorlofi en ekki styðjast eingöngu við megindlegar rannsóknir, til að fá að heyra hvers vegna og hver ástæðan er að baki hjá foreldrum sem taka fæðingarorlof, hvernig og hvers vegna því er skipt á milli foreldranna eins og þau hafa hingað til gert. Því væri gott mál ef eigindlegar rannsóknir komi í kjölfarið á megindlegum rannsóknum þegar kemur að fæðingarorlofinu, svo hægt sé að dýpka skilningin á því hvað liggi að baki ákvörðunum foreldra á skiptingu fæðingarorlofsins.

Nú þarf því að lagfæra ýmislegt í málefnum barna og þeirra réttindum til fæðingarorlofs eftir að þau koma í heiminn. Nokkur dæmi:

a) Mæður fari í hvíldarorlof fjórum vikum fyrir settan dag, sem dregst ekki frá fæðingarorlofinu.

b) Mæður eigi rétt á veikindaleyfi eftir meðgöngu og fæðingu sé ástæða til, sem dregst ekki frá fæðingarolofinu. Að öðrum kosti standa foreldrar ekki jöfnum fæti við ákvörðun á að taka fæðingarorlof.

c) Afnema 20% tekjuskerðingu á tekjum foreldra.

d) Meiri sveigjanleika í skiptingu þar sem aðstæður fjölskyldna eru mjög misjafnar.

e) Svigrúm gefið til að bjóða ömmum/öfum/systir/bróður/bestu vinkonu að taka fæðingarorlof.

f) Taka þarf tillit til búsetu foreldra

g) Gera þarf mun betur í tilfellum fjölburafæðinga

h) Umönnunaraðilar barna geta verið fleiri en bara foreldrar. Ömmur og afar eða aðrir nánir ástvinir, ættu líka að geta tekið fæðingarorlof.

Margir af þessum liðum myndu hins vegar þurrkast út ef að fæðingarorlofið yrði lengt nógu mikið, upp í 18-24 mánuði sem megi taka út á allt að fjórum árum. Þar með mætti fara fram á að orlofinu verði að skipta upp jafnt á milli foreldra. En þó væri þar æskilegt að geta framselt orlofinu til þriðja aðila, ömmu, afa eða öðrum nánum ættingja/ástvini sé staða foreldra slík að þau þurfi eða hreinlega vilji, komast fyrr aftur í nám eða til vinnu.

Einnig getur fæðingarorlofið hreinlega verið eitt af mörgum kerfum sem tilvalið er til að prufa að innleiða svokölluð borgaralaun, eða grunninnkomu fyrir alla (gifa).

Verið nú hugrökk og hugsið út fyrir rammann, víkjið frá forræðishyggju og lögum saman stöðu kynjanna á vinnumarkaði án þess að setja þá ábyrgð á nýfædd börn. Ég hef fulla trú á að við getum það saman!

Afrita slóð á umsögn

#216 Pála Margrét Gunnarsdóttir - 07.10.2020

Við fögnum því að með nýjum lögum verði fæðingarorlof lengt í 12 mánuði, sem er stórt skref í rétta átt. Fleiri skref þyrfti þó að taka, með því markmiði að fæðingarorlof verði 24 mánuðir. Sé litið til rannsókna á heila- og miðtaugaþroska barna má sjá að tengslamyndun barna við umönnunaraðila sína fram að tveggja ára aldri er undirstaða velfarnaðar þeirra seinna á ævinni (sjá t.d. Bugental, Olster og Martorell, 2003). Til þess að stuðla að velfarnaði barna og góðri tengslamyndun ætti því að tryggja að þau geti notið samvista við foreldra sína fyrstu tvö ár ævi sinnar. Frekari rök fyrir þessu má sjá á niðurstöðum íslenskra rannsókna. Samkvæmt rannsókn Örnu H. Jónsdóttir, Bryndísar Garðarsdóttur og Jóhönnu Einarsdóttur (2013) telur meirihluti leikskólakennara (68,2%) og leiðbeinanda (70,9%) í leikskólum að börn ættu að hefja leikskólagöngu sína eftir 16 mánaða aldur, og um 37% leikskólakennara og 37% leiðbeinenda telur að börn ættu að hefja leikskólagöngu sína um og eftir tveggja ára aldur. Fram kemur í skilabréfi samstarfshópsins sem vann að endurskoðun laganna að markmiðið sé að börn byrji í leikskóla við 12 mánaða aldur. Miðað við fyrrnefndar rannsóknir eru börn þá að byrja í leikskóla fyrr en stór hluti leikskólastarfsfólks og niðurstöður rannsókna á þroska barna telja ráðlagt og má velta því upp hvað liggur þar að baki: Er það barninu til góða að byrja í leikskóla um 12 mánaða aldur? Eða er það atvinnulífinu til góða? Ef hagsmunir barna eru í forgrunni ætti því að lengja fæðingarorlofið í 24 mánuði.

Sé þess ekki kostur að lengja fæðingarorlofið í 24 mánuði að þessu sinni, þarf í það minnsta að veita foreldrum sveigjanleika. Við gerum athugasemd við það að réttur til fæðingarorlofs falli niður þegar barn nær 18 mánaða aldri. Þessi breyting skerðir sveigjanleika foreldra og kemur í veg fyrir að þeir foreldrar sem vilja dreifa fæðingarorlofinu yfir lengri tíma (og fresta því að barnið fari í leikskóla) geti það. Það tímabil sem foreldrar geta nýtt fæðingarorlofið ætti því að vera a.m.k. 24 mánuðir, helst lengra. Nauðsynlegt er að veita foreldrum þann sveigjanleika.

Einnig ætti að gera ráð fyrir að foreldrarnir taki einhvern hluta fæðingarorlofsins saman og að foreldri taki einn mánuð í fæðingarorlof fyrir fæðingu barns (eins og hún hefur rétt á samkvæmt lögum: “Þó er foreldri heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði”), án þess að það stytti þann tíma sem barn fær heima með öðru hvoru foreldri sínu.

Eitt af því sem hefur verið talsvert gagnrýnt er skipting fæðingarorlofs milli foreldra, þ.e. að hvort foreldri fyrir sig fái sex mánaða sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Það hefur m.a. verið gagnrýnt þar sem ráðlagt er að barn sé á brjósti talsvert lengur en fyrstu sex mánuðina (WHO mælir með brjóstagjöf til tveggja ára aldurs). Það sýnir einfaldlega eitt: Að fæðingarorlofið er of stutt. Það að mæður sem eru með barn á brjósti fái ekki nógu langan tíma í fæðingarorlof samkvæmt núverandi frumvarpi, þýðir ekki að skerða eigi rétt feðra til fæðingarorlofs til jafn langs tíma. Öllu heldur ætti fæðingarorlofið að vera lengra, þ.e. að nægur tími sé fyrir brjóstagjöfina, en að feður fái einnig nægan tíma til að tengjast barni sínu og sinna því (sem er gríðarlega mikilvægt og stuðlar að jafnrétti kynjanna, eins og starfshópurinn hefur bent á). Þetta ýtir enn frekar undir það sem við höfum rætt hér á undan, að lengja eigi fæðingarorlofið í 24 mánuði, og gæti þá hvort foreldri fengið 12 mánuði fyrir sig.

Við íhugum því: Er núverandi frumvarp byggt á þörfum barnafjölskyldna, eða þörfum atvinnulífsins? Hver eru réttindi barnsins? Hvers hagsmuna er verið að gæta með frumvarpinu og hverra þörfum er verið að mæta? Getum við gert betur til að komast til móts við barnafjölskyldur? (svarið er já!).

Þess óska undirritaðar,

Aldís Auðbjörg Garðarsdóttir, MA í uppeldis- og menntunarfræði og MA nemi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf.

Pála Margrét Gunnarsdóttir, MA í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf.

Heimildir:

Arna H. Jónsdóttir, Bryndís Garðarsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir. (2013). Leikskólabyrjun og lengd dvalartíma: Sjónarmið leikskólakennara og leiðbeinenda. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http://netla.hi.is/serrit/2013/rannsoknir_og_skolastarf/001.pdf

Bugental, D. B., Olster, D. H., og Martorell, G. A. (2003). A Developmental Neuroscience Perspective on the Dynamics of Parenting. Í L. Kuczynski (ritstjóri), Handbook of dynamics in parent-child relations (bls. 25–48). London: Sage Publications.

Afrita slóð á umsögn

#217 Eva Rut Tryggvadóttir - 07.10.2020

Það er auðvitað frábært að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði en að fólk geti ekki ráðstafað sínu sjálft er algjörlega fáránlegt! Ég sjálf tók mér mína 3 og 3 sem maðurinn minn “átti” hann átti samt engan rétt og var horft á okkur eins og hann væri ekki til. En samt til afþví hann er erlendur og hafði ekki fundið sér vinnu á Íslandi. Engu að síður hafði ég ekki þennan rétt með mínu barni sem setur rétt barns í svona stöðu í 6 mánuði ! Margir foreldrar eru í nákvæmlega þessari stöðu af mörgum ástæðum ! Ég hefði andlega þurft mína 9 mánuði með barninu sem svaf illa frá fæðingu til dagsins í dag og þurfti ég að fara út á vinnumarkað fyrr en ég kaus og hætta brjóstagjöf upp að vissu marki sem hvarf fljótt eftir það vegna álags og streitu! Hvar er réttur barnsins ? Það sem hentar einni fjölskyldu hentar ekki þeirri næstu og þarf að setja traust að við kunnum því skil að skipta okkar fæðingarorlofi eins og hentar barni og fjölskyldu best!!!! Gott og blessað að skipta réttinum en hann þarf að vera framseljanlegur vegna aðstæðna. Nú þarf að setja hag barna hér ofar öðru því fæðingarorlofið er nú þeirra og gert fyrir þeirra hag!

Afrita slóð á umsögn

#218 Oddur Sigurjónsson - 07.10.2020

Til að byrja með langar mig að fagna lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði. Það er skref í rétta átt. Einnig tel ég skiptinguna 6 mánuði fyrir hvort foreldri með möguleika á að framselja einn mánuð, vera jákvætt skref.

Ég hef sjálfur góða reynslu sjálfur af því að hafa verið í fæðingarorlofi í 6 mánuði með dóttur minni þegar við hjónin tókum okkar fæðingarorlof, þá tók eiginkona mín fyrstu 6 mánuðina og ég seinni 6. Á þeim tíma var skiptingin 3-3-3 og við lengdum sem sagt bæði tímann úr 4,5 mán í 6. Sá tími sem ég fékk með dóttur minni þar til hún komst til dagforeldra um eins árs aldurinn, var ómetanlegur og gerði það að verkum að ég náði að mynda mjög góð tengsl við dóttur mína. Nú er staðan sú að við upplifum að hún sé jafn tengd okkur og leiti jafnt til okkar beggja, og tel ég að jöfn skipting fæðingarorlofs hafi haft mjög mikið að segja um það. Ég tel þessa tilhöfun skiptingarinnar, 6-6, mikilvæga fyrir jafnréttisbaráttuna, þannig að báðir foreldrar beri ábyrgð á uppeldi og umönnun og fái tækifæri til að vera með barninu ungu, annast það og tengjast því. Með því að skipta fæðingarorlofinu jafnt setur það tónin fyrir það sem koma skal í uppeldinu, og gefur barninu besta tækifærið til að tengjast báðum foreldrum jafnt og njóta samvista við þau.

Afrita slóð á umsögn

#219 Ásdís Aðalbjörg Arnalds - 07.10.2020

Hjálögð er umsögn nokkurra fræðimanna við Háskóla Íslands sem hafa verið í fararbroddi á sviði rannsókna á fæðingarorlofi og málefnum barnafjölskyldna. Umsögnina unnu Ari Klængur Jónsson, Ársæll M. Arnarson, Ásdís A. Arnalds, Guðný Björk Eydal, Kolbeinn Stefánsson, Ingólfur V. Gíslason og Sigrún Júlíusdóttir.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#220 Ása Baldursdóttir - 07.10.2020

Fæðingarorlofið ætti að vera 6 mánuðir á hvorn foreldra og foreldrar ættu að fá að ráðstafa því sjálfir, framselja mánuði að vild.

Orlofið ætti svo aukalega að vera 6 mánuðir, þrír mánuðir á hvorn foreldra ef foreldrum hentar að vera í lengra orlofi.

Barnið ætti að fá 12 mánuði samtals heima með foreldrum og auka 6 mánuði valkvætt ef foreldrar svo kjósa.

Lágmarksgeiðslur ættu að vera reiknaðar út og vera mannsæmandi aldrei undir lágmarkslaunum í landinu.

Afrita slóð á umsögn

#221 Ragnheiður Harpa Leifsdóttir - 07.10.2020

Frábært að verið sé að framlengja fæðingarorlof, en réttur um skiptingu ætti að liggja hjá foreldrum barnsins. Ef annað foreldri vill framselja til að mynda þremur mánuðum til hins ætti að treysta því að fjölskyldur viti sjálfar hvað er þeim fyrir bestu.

Hætta er á að frumvarpið mismuni sérstaklega einstæðum foreldrum þar sem ekki er alltaf svo vel búið að hitt foreldrið geti sinnt barninu til fullnustu eða búi svo vel að hlúa að barninu svo best hæfir því.

Fæðingarorlof er réttur barnsins til ummönnunnar og heilbrigðra tengslamyndunnar á þessu viðkvæma og mikilvæga skeiði.

Virðingarfyllst, Ragnheiður Harpa

Afrita slóð á umsögn

#222 Halla Sigrún Mathiesen - 07.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#223 Sophia Luise Kistenmacher - 07.10.2020

Frumvarpið tekur engan tilit til raunveruleikans margar fjölskyldur á Íslandi.

1. Ekki allir foreldrar geta nýtið sér réttinn sinn, t.d. eigendur litla fyrirtækja, sem mundu leggja framtíðina þess og alls starfsfólks í hættu ef þau fari frá í margar mánaða eða ef einn foreldri er mun tekjuhærri en hinn.

2. Ef við lítum á fæðingarorlofi sem atvinnu, því að það er veruleg vinna að sinna ungabarni, þá væri bara rétt að taka ákvörðun um hver ætla að gera þessi vinnu eftir því hver getur unnið vinnuna best (eins og er gert á vinnumarkaðnum). Það getur verið mismunandi eftir fjölskyldum. Treystum fullorðnum einstaklingum að taka ákvörðun um hvað hentar barninu best.

3. Flestar mæður sem ég þekki lengja fæðingarorlofi sitt í þann tíma sem þeim hentar, en það er munur að dreifa 6 mánuðum í 12 eða 8 mánuðum í 12.

4-4-4 ættu að vera ásættanleg lausn en best væri samt að láta barninu eiga orlofi til frjálsra úthlutun, helst 18 mánuður eða lengra.

Afrita slóð á umsögn

#224 Steinunn Helga Ómarsdóttir - 07.10.2020

Mér finnst frábært að það eigi að lengja orlofið upp i 12 mánuði. Mér finnst aftur á móti að þetta eigi að vera réttur barnsins en ekki réttur foreldra, það er barnið sem a að njóta þess að vera heima með með forelri sínu og það ætti að vera i höndum hverrar fjölskyldu fyrir sig að ráðstafa þessum tíma eins og þeim hentar best. Mér finnst þetta frumvarp vera taka öll völd af fjölskyldum og kemur ser einstaklega illa fyrir einstæðar mæður.

Einnig finnst mér of stutt að tími til orlofstöku sé 18 mánuðir í stað 24, ég er heima núna með 18 mánaða barn sem gat ekki farið i daggæslu sökum veikinda en við fengum aðeins 21 dag i lengingu vegna veikinda.....

Afrita slóð á umsögn

#225 Skúli Freyr Hinriksson - 07.10.2020

Ég fagna því að verið sé að lengja fæðignarorlofið í 12 mánuði og vona að það verði enn lengar í framtíðinni. Hins vegar tel ég það mjög miður að verið sé að þvinga fólk til að halda sér í 6-6 forminu sem að henntar alls ekki öllum.

Það er margt sem þarf að huga þegar kemur að lögum tengt fæðingarorlofi, meðal annars: Heilsa og velferð barns, fjárhagslegar aðstæður foreldra, kynjajafnrétti á vinnumarkaði, líffræðilegur munur á milli móður og föður, hjúskaparstaða foreldra, frelsi beggja foreldra til að velja milli vinnu og lengri samveru með barni.

Með 6-6 forminu er öllum þessum sjónarmiðum ýtt til hliðar nema einu: kynjajafnrétti á vinnumarkaði. Þó svo að það sjónarmið sé gífurlega mikilvægt þá er það ekki það eina mikilvæga sjónarmið sem huga þarf að þegar kemur að fæðingarorlofslögum. Hægt væri að fara góðan milliveg og taka öll sjónarmið til greina með því að leyfa fólki að skipta þessu meira á milli foreldra.

6-6 fyrirkomulagið kemur sér gífurlega illa fyrir einstæðar mæður þar sem feður eru lítið eða ekkert inni í myndinni því að móðirin þyrfti þá einfaldlega að sætta sig við 6 eða 7 mánuði í fæðingarorlof.

6-6 fyrirkomulagið kæmi sér líka mjög illa fyrir foreldra í þröngri fjárhagslegri stöðu þar sem að móðirin er í raun neydd á vinnumarkaðinn eftir 6-7 mánuði. Þar sem að barn er yfirleitt mun lengur á brjósti þá er þetta mjög vandasamt fyrir þennan hóp. Margar nýbakaðar mæður þynna út fæðingarorlofið sitt til lengri tíma til þess að vera lengur með barninu sínu en sá valkostur er alls ekki í boði fyrir mæður í þröngri fjárhagslegri stöðu.

Annað sem mætti benda á sem betur mætti fara í þessu frumvarpi er að takmarka hversu lengi foreldrar mega nýta fæðingarorlfsréttinn. Viðmiðið hjá mörgum sveitarfélögum er að börn komist inn í leikskóla um 18 mánaða aldur en raunveruleikinn er oftast þannig að börn komast talsvert seinna inn ef þau fæðast í vitlausum mánuði. Það er því mjög slæmt að foreldrar geti ekki bestað nýtingu fæðingarorlofs sitt lengur en 18 mánuði.

Ég skora á yfirvöld að endurskoða 6-6 ákvæðið og 18 mánaða ákvæðið í þessu frumvarpi og taka heildstæða afstöðu til allra sjónarmiða.

Afrita slóð á umsögn

#226 Berglind Jóna Hlynsdóttir - 07.10.2020

Ég fagna lengingu á fæðingarorlofi en vil sjá mánuðina enn fleiri.

Ég mótmæli harðlega þrengingu á nýtingar tíma fæðingarorlofs úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Þetta er enn eitt atriðið sem vinnur geng fjárhagi viðkvæmra barnafjölskylda. Sérstaklega er ekki tekið tillit til þeirra sem eru sjálfstætt starfandi og geta hugsanlega tekið inn tekjur á ákveðnum mánuðum og þá líka fengið aðstoð við barnapössun, t.d. þegar ömmur og afar eru sumarfríi. Með tilfærslum geta foreldrar oft tryggt betri og lengri umönnun með ungabörnum sínum. Það eru ekki tryggð leiksskóla pláss við 18mánuði í þessu landi, raunveruleikinn hjá mjög mörgum er að börn eru fyrst að fá vistun eftir 2 ára aldur. Þetta leiðir til þess eins að fleiri réttindamánuðir tapast með enn auknu tekju áfalli fyrir fjölskyldur.

Ég mótmæli einnig harðlega því að fæðingarorlofi skuli deilda hníf jafnt. Það er nánast aldrei raunveruleikinn að það fyrirkomulag nýtist fjölskyldum og ungabörnum best. Ég er hlynnt því að að binda hluta fæðingaorlofs því tengsla myndum beggja foreldra er mjög mikilvæg en aldrei ætti að binda meira en 3 til 4 mánuði á sitthvort foreldrið af 12 mánuðum, en síðan eiga foreldrar að fá að ráða.

Það sem er sárast við þessar tillögur er þær koma ekkert til móts við þá hópa sem njóta minnstu kjara og réttinda. Smánarlegur fæðingarstyrkur, skammarleg lægstu orlofs upphæðir hafa ekkert risið meðan keppst hefur við að hækka tekjuþakið. Fólk sem neyðist til eiga börn sín í þessum aðstæðum lendir í mikilli fátæktar gildru. Allar breytingar síðustu ára á fæðingarorlofi hafa verið mjög karllægar, þær hafa verið mjög forréttindahópa miðaðar, miðaðar við fólk með amk venjulega 9 til 5 millistéttar tekjur sem er alls ekki raunveruleiki allra þeirra sem þurfa á þessu orlofi að halda. Ég bið ríkisstjórnina að skoða hvernig þau geta komist til móts við hópa eins og námsmenn, listamenn, sjálfstætt starfandi. Bara hvernig vinnuhlutfall listamanna er reiknað út frá viðmiðunar launum rsk er alvarlegt réttindabrot gagnvart öllum þeim listamönnum sem eru réttilega í 100-200% vinnu fyrir minna en helming af viðmiðunarlaunum og fá vinnuhlutfall sitt ekki metið rétt til fæðingarorlofs.

Mér finnst einnig mjög niðurlægjandi hvernig þurrka á algjörlega út líffræðilega hluta meðgöngu,fæðingar, brjóstagjafar eins og hún vegi ekkert á það orlof sem völ er á. Það að taka það inn í myndina er ekki að sjúkdómsvæða fæðingu og það er ekki að gera lítið úr mikilvægi foreldra sem ganga ekki í gengum meðgöngu og fæðingu, þeirra miklu vinnu og mikilvægu tengsla myndun. Það er bæði líkamlegur og álags munur sem felst í því að ganga með barn, fæða það og hafa á brjósti og jafnrétti allra kynja fæst ekki með því að smána það sem meðganga, fæðing er og brjóstagjöf er. Brjóstagjöf er ráðlögð til 12mánuða þar sem hún er möguleg, þó að börn byrji að fá fast fæði ásamt brjóstagjöf á milli 4-6mánuða eru þau ekki síður að fá brjóstagjafir, það að ákveða með svona lögum að foreldri sem gengur í gegnum fæðingu og vill sinna brjóstagjöf skuli aftur í 100% vinnu eftir 6 mánuði með ekkert annað val nema þá að skipta orlofinu sínu í hálft og lifa af 50% orlofi eða taka á sig lækkað vinnuhlutfall finnst mér lélegt fyrirkomulag að öllu leiti og stuðlar að engu leiti að meiri jafnrétti. Þetta fyrirkomulag er streituvaldandi, grefur undan réttindum og tekju öryggi á mjög viðkvæmum tíma í lífi ungabarna og foreldra. Séum við tala um einstakling sem fær greitt fæðingarorlof fyrir 50-100% vinnuhlutfall á lægsta taxta erum við að tala um 184.119 kr. árið 2020, ef þessi foreldri deilir því í helming til að geta verið heima í 12mánuði eru það heilar 92059kr á mánuði. Þetta er raunveruleiki mjög margra og hann er smánarlegur og gengur gegn öllu sem vísindin segja um mikilvægi þess að vernda ungabörn og foreldra fyrir streitu og áföllum fyrstu 2 árin í lífi barna.

Mér finnst að þeir sem ganga í gegnum meðgöngu og fæðingu ættu að hafa mögulegt val á minnst 9 mánuðum og helst einu ári, með áherslu á val þar sem fjölskyldur er allskonar. Í raun ættu allir foreldrar að hafa möguleika á einu ári við fæðingu barns. Nýtingartími fæðingarorlofs á að vera sem lengstur og foreldrar eiga sjálfir að ákveða sín á milli hvað þeir gera við allt umfram 3 eða 4 mánuði af þessum 12.

Fæðingarorlof á síðan ekki að snúast einungis um vinnuveitendur og vinnumarkaðinn, þetta á að vera sjálfstæður réttur mannvera til að sinna börnunum sínum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#227 Arna Grétarsdóttir - 07.10.2020

Ég fagna lengingu fæðingarorlofsins upp í 12 mánuði en er mótfallinn því að það sé einungis hægt að nýta það þar til barnið nái 18 mánaða aldri. Mér finnst það bara alltof stutt, það eru foreldrar sem vilja og reyna hvað þeir geta til að hafa börnin heima til 2 ára og fyrir utan það að maður er ekki öruggur með leikskólapláss fyrir 18 mánaða aldur.

Hvað varðar skiptingu orlofsins þá væri réttara að hafa þetta rétt barnsins á að hafa umönnunar aðila. Börnin eiga rétt á umönnun foreldris til 1 árs hvort sem það er móðir eða faðir. Með því að setja svona hömlur á foreldra er oft verið að taka tíma frá barninu, það passa því miður ekki allir inn í þetta excel skjal.

Mikið þætti mér vænt um ef börnin væru sett í fyrsta sæti, hvað er þeim fyrir bestu en ekki atvinnumarkaðinum. Þetta eru mikilvæg og dýrmæt ár í lífi barnanna okkar.

Afrita slóð á umsögn

#228 Brynja Huld Óskarsdóttir - 07.10.2020

Sveigjanleika pælingin

Í fyrsta lagi þá þykir mér vert að benda á að frumvarpið miðar að raunveruleika sem langfæstar konur á Íslandi eða fjölskyldur búa við. Þau rök að konur fari að vinna þrátt fyrir að vilja halda áfram með barn sitt á brjósti þegar barn er sex mánaða gæti hentað konum sem eru í vinnu þar sem þær hafa svigrúm til að mæta seint, taka langan hádegismat út af vinnustaðnum sínum eða fara snemma heim og/eða hafi svigrúm til þess að hitt foreldri mæti með barnið í vinnuna svo móðirin geti gefið brjóst. Raunveruleiki langflestra kvenna er hins vegar á þá leið að þær eru í störfum sem gera kröfu um að þær séu í vinnunni frá því þær mæta og þar til þær fara heim.

Þessu til stuðnings má benda á að í nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands um sveigjanleika á vinnumarkaði hafa aðeins 18,2% kvenna sveigjanlegan vinnutíma. Það er að segja að 81,8% kvenna, meira en fjórar af hverjum fimm konum, hafa ekki tækifæri til að sveigjanlegrar viðveru eftir að fæðingarorlofi lýkur. Það þýðir að þær þurfa að mæta á ákveðnum tíma og vera í vinnunni allan tímann. Þetta skýrist af þeim raunveruleika að konur eru í ræsti, fiskvinnslu- og framleiðslustörfum, umönnunarstörfum og störfum innan heilbrigðisstofnana og í kennslustörfum í leik- og grunnskólum þar sem það einfaldlega ekki í boði að mæta seint eftir erfiða nótt, fara snemma heim eða taka á móti barni sem þarf brjóstagjöf eða fara út í hádeginu til að mjólka sig. Þegar þær eru í vinnunni þá eru þær í vinnunni. Kaffitímar og hádegistímar eru teknar inni á vinnustað, með þeim sem þú vinnur með (börn, sjúklingar eða skjólstæðingar) og sveigjanleikinn enginn og 100% viðveruskylda frá 7-15, 8-16 eða hvernig sem vinnutíminn eða vaktin er. Á meðan raunveruleikinn sem vinnandi konur búa við er þessi þá er ótækt að

Dagvistunarpælingin

Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að foreldrar barns verði að klára fæðingarorlofstöku fyrir 18 mánaða aldur barns. Hér er annar raunveruleiki sem frumvarpið er sniðið út frá en er ekki staðreynd í raunheimi, börn eru ekki endilega komin með dagvistun á þeim aldri. Vissulega stefna öll sveitarfélög að því að það verði þannig að börnum/foreldrum verði tryggð dagvistun við 18 mánaða aldurinn en á meðan það er ekki raunveruleikinn þá er skrítið að heilt frumvarp sem er jafn mikilvægt og þetta sé unnið út frá fölskum raunveruleika.

Kapitalíska pælingin

Frumvarpið snýst að nánast öllu leyti um vinnumarkaðinn. Um kapítalið. Að vera foreldra útaf atvinnumarkaði sé takmörkuð sem allra mögulegans mest. Virði einstaklinga er miðað út frá því hverju þau skila af sér í formi vinnu, engu öðru og það eina sem skiptir máli er vinnan, starfsframinn, launaþróun. Má einstaklingur ekki velja að setja ekki starfsframann í fyrsta sæti í einu og öllu kjósi einstaklingurinn það?

Nú er líffræðin þannig að konur bera þungann og hitann af barneignum. Þær ganga með börnin, fæða þau og eru órjúfanlegur þáttur í lífi barns fyrstu mánuði í gegnum brjóstagjöf og umönnun. Telji kona sig ekki tilbúna til að mæta að fullu í vinnu 6 mánuðum eftir fæðingu hefur hún í mesta lagi úr að moða einum aukamánuði. Skiptir ekki meira máli til lengri tíma litið að þeir einstaklingar sem þurfa tíma útaf vinnumarkaði við að búa til nýja skattgreiðendur fái þann tíma og skili þannig meiri til samfélagsins seinna?

Ólík fjölskyldumynstur pælingin

Gífurlega gallað að ef gagnkynhneigt par eignast barn saman og líffræðilegur faðir barnsins sinnir barninu lítið eða ekkert (nú eða er útlendingur/býr erlendis). Þá er réttur þess barns til umönnunar fyrsta árið gersamlega virtur að vetthugi því einungis er hægt að færa einn mánuð yfir til móður. Hún er þá tilneydd ýmist til launalauss fæðingarorlofs frá 7 mánaða aldri barnsins eða til þess að leita að dagvistun fyrir 7 mánaða gamalt barn sitt. Sem er lítið sem ekkert um á Íslandi.

Jafnréttis og dagskrárvaldspælingin

Örfáir einstaklingar sem þetta orlof hentar hafa gífurelgt dagskrárvald og áhrifavald svo langt inn í nefndarstörf frumvarpsins og er það gífurelga ósanngjarnt fyrir allar hinar fjölskyldur landsins sem hafa minna á milli handanna, eru í námi, vinna vaktavinnu, vinna líkamlega erfiða vinnu með mikla viðveruskyldu o.s.fr. Komið hefur fram í fjölmiðlum að breytingar á lögunum henta vel örfáum og vel stæðum fjölskyldum, sum sé forréttindahópi þar sem báðir foreldrar eru á atvinnumarkaði með þokkalega góð mánaðarlaun sem launþegar. Það er ótækt árið 2020 sé ríkisstjórn í einu „jafnréttaðasta“ landi heims að sníða fæðingarorlofsfrumvarp sem miðar að elítu landsins og gera þann hóp þar með að enn meiri elítu. Aukinn jöfnuður fæst ekki með því að skikka fjölskyldur inn í kapítalískt form sem hentar fáum, útvöldum, hálaunafjölskyldum með sveigjanlegan vinnutíma.

Í frumvarpinu kemur fram að eins og staðan er í dag sé fæðingarorlofum í langflestum tilvikum háttað þannig að móðir barnsins tekur auka þrjá máðina sem foreldrar hafa úr að spila og hitt foreldri, þ.e.a.s. Það foreldri sem ekki gekk með barnið tekur „sína“ þrjá mánuði. Það væri áhugavert að sjá tölur um hversu margar mæður sem taka þá 6 mánuði deila þeim niður á fleiri mánuði - bæði því þær kjósa að vera lengur heima með barninu sínu og til að teygja tímann fram að 18 mánaða tímabilinu sem miðað er við að börn komist í dagvistun.

Til varnar sveigjanleikanum

Það er hamrað á sveigjanleika allsstaðar í samfélaginu í dag, sveigjanleika gagnvart kynjum, sveigjanleika gagnvart ólíkum fjölskyldumynstrum, sveigjanleika gagnvart einstaklingum, sveigjanleika gagnvart fátækum, fötluðum o.s.fr., en samkvæmt þessu frumvarpi er sveigjanleikinn gagnvart þeirri einustu smæstu einingu samfélagsins þá er sveigjanleikinn tekinn úr höndum þeirra sem fara með forsjá þeirra þurfa mest á honum að halda, nýfæddum börn!

Afrita slóð á umsögn

#229 Oktavía Guðmundsdóttir - 07.10.2020

Því ber að fagna að foreldrar eigi sama rétt til fæðingarorlofs. Aðgerðir til að stuðla að jafnrétti milli foreldra mega þó ekki bitna á barninu. Það er ekki öll börn sem eru svo lánsöm að hafa báða foreldra tiltaks, í einstaka tilfellum er það svo að faðirinn vill ekkert vita af barninu, finnst ekki eða af öðrum sérstökum ástæðum kemur hverji að uppeldi barnsins.

Í þeim tilvikum þýðir það að fæðingarorlofið er skert og það ætti ekki að bitna á barninu eins og það gerir.

Í starfi mínu sem félagsráðgjafi þekki ég til slíkra dæma.

Lögin þurfa að taka tillit til þessarra sérstöku aðstæðna. Slík er gert á hinum Norðurlöndunum.

Afrita slóð á umsögn

#230 Írena Guðlaugsdóttir - 07.10.2020

• Fæðingarorlofið ætti að lengja í tólf mánuði og vera tileinkað barninu en ekki foreldrum þess. Þeir aftur á móti eiga að fá að ráðstafa þessum mánuðum barnsins eins og þeir telja barninu og fjölskyldunni allri fyrir bestu. Aðstæður eru mjög mismunandi og tel ég mig ekki þurfa að telja þær allar upp enda hafa þessar aðstæður komið upp í óteljandi öðrum umsögnum. Margir foreldar eiga einungis rétt á um 75.000 kr. fæðingarstyrk eða mjög lágum greiðslum úr fæðingarorlofssjóði og ná því ekki endum saman og þurfa að sleppa því að taka fæðingarorlof, sumum foreldrum hentar ekki að taka fæðingarorlof af öðrum ástæðum, börn einstæðra mæðra sem hafa feðrað börnin sín fá ekki sömu tækifæri til tengslamyndunar heima fyrir í 12 mánuði og önnur börn, sumir foreldrar vilja fylgja ráðleggingum Landlæknis og hafa barnið á brjósti lengur en sex til sjö mánuði og móðurmjólkin minnkar fljótt ef barnið hættir á brjósti reglulega yfir daginn. Ef foreldar eru í sambúð eða gift þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að það foreldri sem er ekki í fæðingarorlofi tengist barninu sínu vel utan hefðbundins vinnutíma.

Leyfið okkur foreldrum að meta hvað er barninu okkar og fjölskyldulífi fyrir bestu. Það er ekki hægt að setja okkur öll undir sama hatt og árið 2020 ætti þessi forræðishyggja að vera úr sögunni. Til vara myndi ég mæla með að hvoru foreldri fyrir sig sé tryggt sex mánuðir en að þeim sé frjálst að framselja til hins aðilans helst öllum en allavega stóru hluta af sínum mánuðum.

• Foreldrar ættu áfram að hafa 24 mánuði til þess að taka fæðingarorlof, dóttir mín sem dæmi fæddist í ágúst og fær ekki inn á leikskóla fyrr en haustið sem hún verður 24 mánaða.

• Fæðingarorlof fæðandi móður ætti að hefjast á 36. viku meðgöngu og barninu væri samt sem áður tryggðir 12 mánuðir heima með foreldri/foreldrum. Mjög margar konur þurfa að taka út veikindaleyfi í lok meðgöngu.

• Ef barn fæðist með keisaraskurði ætti ekki að taka þær vikur sem tekur móður að jafna sig eftir stóran uppskurð af fæðingarorlofi hennar heldur lengja fæðingarorlofið um þann tíma sem það tekur móður að jafna sig.

Afrita slóð á umsögn

#231 Hulda Kolbrún Guðjónsdóttir - 07.10.2020

Ég fagna lengingu á fæðingarorlofi en vil sjá mánuðina enn fleiri.

Ég mótmæli harðlega þrengingu á nýtingar tíma fæðingarorlofs úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Þetta er enn eitt atriðið sem vinnur gegn fjárhagi viðkvæmra barnafjölskylda. Sérstaklega er ekki tekið tillit til þeirra sem eru sjálfstætt starfandi og geta hugsanlega tekið inn tekjur á ákveðnum mánuðum og þá líka fengið aðstoð við barnapössun, t.d. þegar ömmur og afar eru sumarfríi. Með tilfærslum geta foreldrar oft tryggt betri og lengri umönnun með ungabörnum sínum. Það eru ekki tryggð leiksskóla pláss við 18mánuði í þessu landi, raunveruleikinn hjá mjög mörgum er að börn eru fyrst að fá vistun eftir 2 ára aldur. Þetta leiðir til þess eins að fleiri réttindamánuðir tapast með enn auknu tekju áfalli fyrir fjölskyldur.

Ég mótmæli einnig harðlega því að fæðingarorlofi skuli deilda hníf jafnt. Það er nánast aldrei raunveruleikinn að það fyrirkomulag nýtist fjölskyldum og ungabörnum best. Ég er hlynnt því að að binda hluta fæðingaorlofs því tengsla myndum beggja foreldra er mjög mikilvæg en aldrei ætti að binda meira en 3 til 4 mánuði á sitthvort foreldrið af 12 mánuðum, en síðan eiga foreldrar að fá að ráða.

Það sem er sárast við þessar tillögur er þær koma ekkert til móts við þá hópa sem njóta minnstu kjara og réttinda. Smánarlegur fæðingarstyrkur, skammarleg lægstu orlofs upphæðir hafa ekkert risið meðan keppst hefur við að hækka tekjuþakið. Fólk sem neyðist til eiga börn sín í þessum aðstæðum lendir í mikilli fátæktar gildru. Allar breytingar síðustu ára á fæðingarorlofi hafa verið mjög karllægar, þær hafa verið mjög forréttindahópa miðaðar, miðaðar við fólk með amk venjulega 9 til 5 millistéttar tekjur sem er alls ekki raunveruleiki allra þeirra sem þurfa á þessu orlofi að halda. Ég bið ríkisstjórnina að skoða hvernig þau geta komist til móts við hópa eins og námsmenn, listamenn, sjálfstætt starfandi. Bara hvernig vinnuhlutfall listamanna er reiknað út frá viðmiðunar launum rsk er alvarlegt réttindabrot gagnvart öllum þeim listamönnum sem eru réttilega í 100-200% vinnu fyrir minna en helming af viðmiðunarlaunum og fá vinnuhlutfall sitt ekki metið rétt til fæðingarorlofs.

Mér finnst einnig mjög niðurlægjandi hvernig þurrka á algjörlega út líffræðilega hluta meðgöngu,fæðingar, brjóstagjafar eins og hún vegi ekkert á það orlof sem völ er á. Það að taka það inn í myndina er ekki að sjúkdómsvæða fæðingu og það er ekki að gera lítið úr mikilvægi foreldra sem ganga ekki í gengum meðgöngu og fæðingu, þeirra miklu vinnu og mikilvægu tengsla myndun. Það er bæði líkamlegur og álags munur sem felst í því að ganga með barn, fæða það og hafa á brjósti og jafnrétti allra kynja fæst ekki með því að smána það sem meðganga, fæðing er og brjóstagjöf er. Brjóstagjöf er ráðlögð til 12mánuða þar sem hún er möguleg, þó að börn byrji að fá fast fæði ásamt brjóstagjöf á milli 4-6mánuða eru þau ekki síður að fá brjóstagjafir, það að ákveða með svona lögum að foreldri sem gengur í gegnum fæðingu og vill sinna brjóstagjöf skuli aftur í 100% vinnu eftir 6 mánuði með ekkert annað val nema þá að skipta orlofinu sínu í hálft og lifa af 50% orlofi eða taka á sig lækkað vinnuhlutfall finnst mér lélegt fyrirkomulag að öllu leiti og stuðlar að engu leiti að meiri jafnrétti. Þetta fyrirkomulag er streituvaldandi, grefur undan réttindum og tekju öryggi á mjög viðkvæmum tíma í lífi ungabarna og foreldra. Séum við tala um einstakling sem fær greitt fæðingarorlof fyrir 50-100% vinnuhlutfall á lægsta taxta erum við að tala um 184.119 kr. árið 2020, ef þessi foreldri deilir því í helming til að geta verið heima í 12mánuði eru það heilar 92059kr á mánuði. Þetta er raunveruleiki mjög margra og hann er smánarlegur og gengur gegn öllu sem vísindin segja um mikilvægi þess að vernda ungabörn og foreldra fyrir streitu og áföllum fyrstu 2 árin í lífi barna.

Mér finnst að þeir sem ganga í gegnum meðgöngu og fæðingu ættu að hafa mögulegt val á minnst 9 mánuðum og helst einu ári, með áherslu á val þar sem fjölskyldur er allskonar. Í raun ættu allir foreldrar að hafa möguleika á einu ári við fæðingu barns. Nýtingartími fæðingarorlofs á að vera sem lengstur og foreldrar eiga sjálfir að ákveða sín á milli hvað þeir gera við allt umfram 3 eða 4 mánuði af þessum 12.

Fæðingarorlof á síðan ekki að snúast einungis um vinnuveitendur og vinnumarkaðinn, þetta á að vera sjálfstæður réttur mannvera til að sinna börnunum sínum.

Afrita slóð á umsögn

#232 Hólmfríður Erna Kjartansdóttir - 07.10.2020

Mig langar til að byrja á að fagna því að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði.

Hins vegar er ég sammála þeim ótal mörgu sem hafa látið sig málið varða, að réttindi til fæðingarorlofs ætti alltaf að fylgja barninu en ekki eftir því hvaða hlutverki fullorðinn einstaklingur sinnir gagnvart barninu.

Fjölskyldum á að vera treystandi til að taka ákvarðanir sem best henta hverju sinni.

Frekar ætti að skoða aðstæður þeirra fjölskyldna sem búa ekki í nálægð við fæðingarþjónustu, það er jafnréttismál sem er aðkallandi að finna lausnir á.

Þá myndi ég vilja sjá 600.000 kr markið hækkað og finnst að það væri eðlilegast að sú upphæð yrði endurskoðuð a.m.k á árs fresti. Laun upp að þeirri upphæð ættu ekki að skerðast um 20%.

Afrita slóð á umsögn

#233 Kolbrún Ýr Einarsdóttir - 07.10.2020

Lenging fæðingarorlofs er mikilvægt fyrir börn og fjölskyldur þeirra og lenging til 12 mánaða jákvætt skref í rétta átt. Markmiðið ætti að vera 24 mánaða fæðingarorlof fyrir barnið og fjölskyldu þess, til skiptana eins og hverri fjölskyldumynd hentar best.

Að mínu mati ættu að hámarki tveir mánuðir að vera bundnir hvoru foreldri og restin til skiptana eins og foreldrum hentar best. Mikilvægt er að stytta ekki tökutímaorlofs og Mikilvægt er að treysta fólki að velja hverskonar skipting fæðingarorlofs hentar þeirra barni og fjölskyldumynstri best.

Eg tel rangt að binda of marga mánuði hvoru foreldri og tel að það muni ekki hvetja til aukinnar orlofstöku feðra eins og markmiðið virðist vera.

Eitt það mikilvægasta sem mér finnst gjarnan gleymast í umræðunni um fæðingarorlof og úrbætur á því eru hversu lágar fæðingarorlofsgreiðslur eru fyrir margar fjölskyldur.

Áhersla síðustu ár hefur verið að hækka hámarksþakið en það gleymist algjörlega að ræða það hversu sorglega lágar lægstu greiðslurnar eru.

Afnema þarf strax þá 20% skerðingu sem sett er á laun undir hámarksþakinu.

Þegar reiknaðar eru fæðingarorlofs greiðslur ætti ekki að taka inn í reikninginn fyrra fæðingarorlof því þá er í raun verið að refsa fjölskyldum fyrir að hafa stutt á milli barna sinna.

Einnig ætti að taka tilllit til aðstæðna hafi fólk lent i veikindaleyfi í kjölfar fæðingarorlofs, td vegna áfalla eða slysa. Sem dæmi vil ég nefna mína eigin reynslu.

Sonur minn fæddist 2015 og lést 7 vikna gamall. Andlát hans bar brátt að og upplifðum við hryllilegar 2 vikur með hann á spítala fyrir andlát hans. Ég var greind með mikla áfallastreytu og fer í 2 mánaða veikindaleyfi í kjölfsr fæðingarorlofsins. Eftir að veikindaleyfi líkur byrja ég að vinna aftur, fyrst i 20% hlutfalli og vann mig upp í 70% hlutfall.

Ég var þarna aftur orðin ólétt og er nýtt fæðingarorlof reiknað út eftir fyrra fæðingarorlof, veikindaleyfi og síðan lágu vinnuhlutfalli mínu.

Ekkert tillit var tekið til þess að ég hafði áður verið í 100% vinnu fyrir áfall okkar og fyrra fæðingarorlof.

Reiknuðust greiðslur til mín rétt um 100.000 kr á mánuði. Það lifir enginn á þessu.

Það ætti því að vera ljóst að með núverandi kerfi er fjölskyldum steypt í fátækt og vansæld.

Taka þarf tillit til veikinda kvenna sem gæti komið til fyrir fæðingur og í kjölfar fæðingar. Það ætti engin kona að þurfa að nota fæðingarorlof sitt á meðan a spítaladvöl stendur eða á meðan veikindi standa yfir.

Til úrdráttar:

1. Fæðingarorlof ætti að vera 24 mánuðir fyrir barn.

2. Skipting ætti að vera í höndum fjölskyldna ekki yfirvalds. Hámark 2 mánuðir bundnir hvoru foreldri. Stytta ætti ekki tökutíma orlofs.

3. Fæðingarorlofsgreiðslur ættu aldrei að vera lægri en lágmarksframfærsla. Alveg sama hver fyrri staða þín var.

4. Taka þarf tillit til veikinda kvenna fyrir og eftir meðgöngu og ætti fæðingarorlof ekki að vera nýtt yfir veikindatímabil.

Afrita slóð á umsögn

#234 Stefanía Ragnh. Ragnarsdóttir - 07.10.2020

Ég fagna því að verið sé að lengja orlofið en hinsvegar þykir mér margt ábótavant í frumvarpinu:

1. Nýta má tækifærið og breyta nafninu í barnaleyfi eða fæðingarleyfi enda er þetta í raun leyfi frá t.d. vinnu til að sinna annarri vinnu - að sjá um barn. Að kalla þetta orlof er tímaskekkja.

2. Markmið frumvarpsins er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Mér þykir það skerða frelsi fjölskyldna til að haga mikilvægum tíma einmitt með tilliti til fjölskyldu- og atvinnulífs að festa mánuði á sitthvort foreldrið og leyfa þeim aðeins að deila einum. Mun frekar ætti að festa lágmark á hvort foreldri og að barnið eigi svo þennan tíma sem foreldrar geta skipt á milli sín. Með þessari aðferð tel ég mun líklegra að barnið njóti samvistar við foreldri lengur og að hægt sé að nýta orlofið. Með þessu má koma á móts við einstæða foreldra og mismunandi náms, atvinnu, heilsu og val foreldra.

3. Með því að festa mánuði jafnt á milli foreldra er verið að horfa til göfugra jafnréttirssjónarmiða hinsvegar þykir mér þetta ekki jafnrétti fyrir konur sem ala og fæða barnið þar sem þær t.d. verða að taka fyrstu 2 vikurnar eftir fæðingu í orlof en makinn ekki. Þess utan finnst mér litið framhjá því hversu líkamlega og andlega það tekur á að ganga með og fæða barn og að mikill tími konunnar í svokölluðu orlofi fer líka í það að ná fyrri heilsu og þreki sem tekur vissulega mismikið á konur eins og þær eru margar en taka þarf tillit til þessa. Hér mætti þá frekar fara þá leið að skipta barnaleyfi jafnt á milli foreldra sem er þá réttur barnsins til að umgangast báða aðila og bæta þá við veikindaleyfi eða fæðingarleyfi fyrir konuna til jafna sig fyrir og eftir fæðingu. Hér er bíður oft tímafrekt og kostnaðarsamt ferli endurhæfingar sem konan þarf eins og áður sagði annars að keyra í gegn á sama tíma og hugsað er um nýtfætt barn.

4. Konur hafa lengi vel tekið á sig svokallaða tekjurefsingu vinnumarkaðarins fyrir að ala börn enda virðist kerfið ekki byggt með hag beggja kynja að leiðarljósi. Þó svo að þessi leið hafi það markmið að gera bæði kyn jöfn á vinnumarkaðnum því báðir aðilar eiga jafnt orlof þá held ég að þetta sé ekki rétta leiðin að ofantöldum ástæðum. Ekki er verið að koma á móts við einstæða foreldra á neinn hátt né er verið að sjá til þess að barnið fái þessa daga með foreldri. Sú manneskja sem gengur með barnið tekur á sig mun meiri vinnu og álag á líkama og sál og hér er ekki verið að koma á móts við hana. Það er ekki fyrr en að við byrjum að verpa eggjum að svona skipting á orlofi getur verið sannarlega jöfn. Hér finnst mér kerfið vera að steypa alla í sama mót en þetta mót hentar ekki báðum kynjum.

5. Að lokum set ég stórt spurningarmerki við samstarfshópinn sem setur saman frumvarpið og finnst sárlega vanta talsfólk barna og foreldra af öllum gerðum sem og sérfræðinga t.d. úr leikskólastarfi, þroska barna, hópi ljósmæðra, lækna og sálfræðinga. Hópurinn virðist að miklu leiti tengjast atvinnulífinu og hag þess mun sterkari böndum.

Afrita slóð á umsögn

#235 Ágústa Rúnarsdóttir - 07.10.2020

Það er bagalegt að endurskoðun á lögum um fæðingarorlof hafi eingöngu farið fram á forsendum kynjajafnréttis og hagsmuna vinnumarkaðarins. Tengslamyndun á fyrsta ári og misjafnar aðstæður nýbakaðra foreldra hljóta að vera vinklar sem taka þarf með í reikninginn og fæðingarorlofslög sem sett eru án nokkurrar umræðu um hagsmuni barna geta aldrei orðið góð lög. Árlega verða mörg hundruð íslensk börn af samvistum við sína nánustu á fyrsta æviárinu vegna lágs launaþaks og ósveigjanleika í regluverki sem ætti að styðja við ólíkar þarfir foreldra og barna þeirra en er þess í stað hannað með það eitt að leiðarljósi að stýra almúganum inn á aðrar og þóknanlegri brautir. Ég skora á alla hugsandi alþingismenn að vanda til verka við löggjöf þessa, hlusta á raddir þeirra sem nota kerfið og greiða að lokum atkvæði með hagsmuni barna í huga en ekki eingöngu þjónustulundina við aðila vinnumarkaðarins og af meðvirkni með fræðimönnum- og konum sem eiga allt sitt undir því að kenningar þeirra um eðlishyggju, mæðrahyggju og kynjakvóta verði sannreyndar á íslenskum fjölskyldum í 20 ár í viðbót.

Afrita slóð á umsögn

#236 Benedikt Reynisson - 07.10.2020

Það er mjög gott mál að verið er að lengja fæðingarorlof aftur í 12 mánuði og sömuleiðis að leiðrétta launamun kynjanna. Ég er alveg sannfærður um að það sé ekki rétta leiðin að láta börn borga fyrir launamun kynjanna. Ég hef verið samferða í gegnum þrjár meðgöngur og verið viðstaddur fæðingar þriggja sona minna og ég veit að ég lagði margfalt minna á mig líkamlega svo að þeir kæmust heilir í þennan heim. Vissulega er mikilvægt að feður séu til staðar fyrir mæður og börnin sín en það á ekki að skikka mæður á vinnumarkaðinn svo að feður geti tekið við, sérstaklega ef mæður hafa gengið í gegnum krefjandi fæðingar, andvökunætur, flóknar tilfinningar, keisarskurði, fæðingarþunglyndi, erfiðleika í brjóstagjöf og fleira sem fylgir því að ganga með og fæða börn. Það er einnig sjaldan minnst á að konur fái að taka veikindaleyfi í fæðingarorlofi. Leiðrétting á launamun kynjanna á að koma annarsstaðar frá, mæður og börn eiga ekki að borga fyrir hann. Foreldrar eiga einnig að njóta þess trausts hvernig þau vilji hagræða fæðingarorlofum fyrir sín börn og fyrir bata mæðranna eftir fæðingu og meðgöngu.

Afrita slóð á umsögn

#237 Oddný Eva Böðvarsdóttir - 07.10.2020

Vil fyrst nefna að það er skref í rétta átt að lengja réttinn til fæðingarorlofs í 12 mánuði, barninu til góða.

En því miður er aðrir þættir í þessu frumvarpi sem hafa alls ekki þarfir barnsins að leiðarljósi og of mikil áhersla er lögð á það að tryggja rétt foreldra til jafns rétts til orlofs. Það er bara alls ekki víst að það sé það besta í þágu barnsins að þvinga ákveðinn fjölda mánaða niður á hvort foreldri og þar geta legið margar ástæður að baki. Komið hefur verið inn á þetta efni í mörgum umsögnum hér að framan og en ætli það sé ekki lögmálið því meira því betra og því vel ég að koma mínu áliti á framfæri. Þær athugasemdir sem ég kem með hér eru alls ekki tæmandi listi en þessi tvö atriði sem ég kem inná eru þau sem brenna hvað helst á mér er þetta málefni varðar.

Umrætt orlof ætti að vera réttur barnsins til að vera í umsjá eins af sínum nánustu eins lengi og kostur er en ég tel þetta frumvarp gera upp á milli barna allt eftir því í hvernig fjölskylduaðstæður þau fæðast í.

Þarna er hópur barna sem fæðist inn í fjölskyldumynstur þar sem aðeins móðir er til staðar og þrátt fyrir að það komi fram í ykkar máli að meðal annars sé tillögunni ætlað að koma til móts við aðstæður foreldra þegar sannarlega eitt foreldri er til staðar að þá er það ekki að standast þar sem það virðist vera gerð krafa um að ekki hafi verið mögulegt að feðra barn samkvæmt barnalögum.

Hvað með þau börn sem eiga mæður sem hafa gert allt í sínu valdi til þess að feðra barn sitt, og í raun leggur ríkisvaldið mikla áherslu á að það sé gert á allra fyrstu mánuðum og bíður fram töluverða aðstoð til þess að svo megi verða. Hvað með þennan hóp barna? Því það er ekki nóg að barnið sé feðrað á skjölum ef faðirinn tekur ekki þátt í uppeldi barnsins á nokkurn átt eða á í samskiptum við það og móðurina. Þetta barn mun aðeins njóta góðs af því að hafa foreldri hjá sér í 6 mánuði á fyrsta aldursárinu en heilir 6 mánuðir sem að öllu jöfnu myndu ganga til föðursins nýtast engum og hver er það sem fer á mis þar, jú það er barnið sem fer á mis við það að fá umönnun foreldris og stendur því ekki til jafns við önnur börn í þessari tillögu.

Það er að vísu þannig að hægt er að dreyfa þessum mánuðum yfir lengra tímabil með tilheyrandi tekjuskerðingu á hvern mánuð og þá veltir maður fyrir sér hvaða hópur það er sem líklegastur er til þess að þurfa að dreifa fæðingarorlofinu á fleiri mánuði en gert er ráð fyrir í tillögunni. Gera má ráð fyrir að einstæðar mæður séu sá hópur sem helst velji þessa lausn því þær hafa ekki önnur ráð til þess að sjá fyrir umönnun barns síns þá mánuði þar til hægt er að bjóða barninu upp á það að vera í umsjá annarra en þess nánustu. Einstæðar mæður er að sama skapi oft nefndur sá hópur sem illa stendur fjárhagslega þó það geti auðvitað átt við fjölskyldur í ýmsum myndum og því getur það verið sérstaklega erfiður kostur að velja að þurfa að dreifa greiðslum fyrir fæðinarorlofið á fleiri mánuði.

Mig langar einnig að koma inn á það sjónarmið að þegar mæðrum er aðeins gefinn kostur á því að taka fæðingarorlofi í 6 mánuði að þá getur það gert þeim erfitt að fara eftir ráðleggingum sem heilbrigðiskerfið gefur foreldrum og miðast við það sem talið er barninu fyrir bestu. Landlæknisembættið ráðleggur og gefur út að það sé barninu fyrir bestu að vera eingöngu á brjósti fyrstu 6 mánuði lífsins og þar á eftir þarf að byrja mjög rólega að kynna því fyrir fastri fæðu. Brjóstagjöf gengur því miður ekki alltaf upp í þetta langan tíma en þegar það gerist að þá þarfnast barnið mun lengri tíma með móður til þess að aðlaga það frá því að vera aðeins á brjósti og til þess að fá fasta fæðu og aðra mjólk sem dugar því heilan vinnudag.

Ég vil hvetja þá sem vinna að þessari tillögu og frumvarpi að horfa á fæðingarorlof sem rétt barnsins og að þessir 12 mánuðir fylgi barninu óháð fjölskyldumynstri og treysta því að foreldrar vilji barninu sínu það besta og séu færir um að deila orlofinu þannig að það henti barninu og fjölskyldunni sem best. Það er reynsla mín og hef ég starfað við ungbarnavernd í nokkur ár að feður óska þess að fá að taka fullan þátt í uppeldi barna sinna og sinna því hlutverki vel. Það hafa orðið miklar breytingar á síðustu árum og því er það kannski tímaskekkja að ríkisvaldið þurfi að setja foreldrum svona fastar skorður.

Oddný Eva Böðvarsdóttir

hjúkrunarfræðingur

Afrita slóð á umsögn

#238 Inga Fanney Rúnarsdóttir - 07.10.2020

Við viljum byrja á því að segja að við fögnum frumvarpinu að því leiti til að lengja eigi fæðingarorlofið í 12 mánuði.

Hvað varðar skiptingu orlofs, í nýju frumvarpi, þar sem hvort foreldri fær um sig sex mánuði og getur framselt einum er algjörlega úr takt við nútímasamfélag og þá stéttaskiptingu sem í því er. Í frumvarpinu er talað um að þetta sé gert fyrir hag barnsins. Ef við byrjum á að skoða þetta út frá stéttaskiptingu samfélagsins þá munu aðeins þeir foreldrar sem þéna vel yfir meðallaun geta nýtt sér þessa mánuði. En það er aðeins hægt ef að báðir aðilar þéna vel. Þá skiptir ekki máli hvort foreldrið sé útivinnandi og hvort þeirra sé heima í fæðingarorlofi. Það væri auðvitað draumur vinnumarkaðsins og börn fengju jafnan tíma með báðum foreldrum, sem er vissulega algjör forréttindi. En ef aðeins annar aðilinn í sambandinu er fyrirvinnan og fjölskyldan lifir aðeins mánaðarmóta á milli eða ef báðir foreldrar eru í láglaunavinnu, að þá mun annað foreldrið taka sér lítið eða ekkert orlof. Það kemur niður á barninu. Með þessu frumvarpi er verið að stéttaskipta samfélaginu enn meira og á mjög viðkvæmum tíma. Á tíma þar sem lítið barn er notað sem tæki í jafnréttisbaráttu vinnumarkaðarins. Þetta á einfaldlega ekki saman.

Á Íslandi er dýrt að lifa og er það ekkert ágreiningsmál. Þegar upp er staðið snýst allt um að fjölskyldur geri það sem þarf til að tryggja öryggi barna sinna, fæða þau og klæða. Skipting fæðingarorlofs snýst oftar en ekki um það hvernig fjölskylda getur lifað á launum annars aðilans ásamt hluta af launum hins aðilans. Fæðingarorlof er tekjuskerðing fyrir allar fjölskyldur og í landi þar sem er dýrt að lifa gerir fólk allt til að koma sér og fjölskyldu sinni í gegnum mánuðinn. Þetta frumvarp mun ýta undir það að vinna á svörtum markaði aukist. Fólk mun nýta sér rétt sinn því hann “á” hann en tíminn mun ekki vera nýttur með barninu. Fólk mun skrá sig í orlof og samtímis vinna á svörtum markaði til halda sér og sínum uppi í þessari tekjuskerðingu. Við erum því miður að horfast í augu við þessa staðreynd nú þegar. Að fólk í orlofi eða á atvinnuleysisbótum, sé að vinna á svörtum markaði. Viljum við ekki koma í veg fyrir það og leyfa fólki að ráðstafa sínu orlofi svo það hafi meira á milli handanna og þurfi síður að leita annarra leiða til að afla tekna? Eru það hagsmunir barnsins að hafa aðeins annað foreldrið heima að sinna öllu sem því fylgir að sjá um heimili, á meðan hitt vinnur myrkranna á milli, til að geta framfleytt fjölskyldunni? Eru það ekki hagsmunir barnsins að hafa foreldri hjá sér eins lengi og það þarf? Er ekki hægt að treysta foreldrum til að ráðstafa sínu orlofi eins og það kemur best út fyrir barnið eða börnin?

Fjölskyldumynstur og efnahagur fólks í dag er jafn mismunandi og við erum mörg. Við lifum á þannig tímum að fólk á að geta valið hvað hentar sér og sínum að hverju sinni. Vinnumarkaðurinn á að þróast að okkar þörfum en við eigum ekki að þróast að þörfum vinnumarkaðarins. Við höfum nú þegar séð það að börn eru að fara alltof snemma í dagvistun og eru þar jafnvel allan daginn. Vinnnudagur barna er orðinn alltof langur og þurfum við að reyna að snúa því við. Atvinnulífið þarf að þróast í átt að fjölskyldum en ekki frá þeim. Það á að vera sjálfsagður hlutur árið 2020 að taka fæðingarorlof, sama að hvaða kyni þú ert. Ef það hentar fjölskyldum betur að móðir fari út að vinna og faðir verði heima þá á það ekki breyta neinu máli. Það er hugsunarháttur fólks og atvinnulífsins sem þarf að breytast. Með því að festa niður mánuði á hvort foreldri fyrir sig erum við að ýta undir það að barnið fái ekki það sem það þarf og á skilið. Það á að vera í höndum foreldra að ákveða hvað hentar best hverju sinni, fyrir sín börn.

Eins með að stytta tökutíma á orlofi úr 24 mánuðum í 18 mánuði, að þá býr það til ennþá breiðara bil á vinnumarkaðnum. Víða á landsbyggðinni fá börn ekki dagvistun fyrr en um tveggja ára aldur og erum við til dæmis að sjá það gerast hér í okkar bæjarfélagi. Hvernig á fólk að brúa það bil sem myndast eftir að tökutíma líkur og þangað til barn kemst í dagvistun? Viljum við ekki frekar að fólk fái fleiri sameiginlega mánuði og dreyfi yfir lengra tímabil? Í stað þess að fólk fari á atvinnuleysisbætur, sé launalaust, eða þurfi að leita annarra leiða til að afla tekna?

Þegar komið er að líffræðilega þættinum þá sitja kynin því miður ekki við sama borð og munu aldrei gera. Kona gengur með barn í níu mánuði og því fylgir mikið álag og ábyrgð. Það tekur konu jafn langan tíma að jafna sig eftir barnsburð eins og að ganga með barnið. Eftir fæðingu taka við allskonar áskoranir hjá foreldrum, eins og andleg eða líkamleg veikindi móður, eða jafnvel veikindi barns. Ef barn nærist eingöngu á brjóstamjólk á það að vera réttur barns að halda því áfram eins lengi og mögulegt er í öruggu umhverfi. Það er ekki réttur barnsins að ætlast til að móðir mjólki sig og að annar aðili gefi barni pela til að jafna rétt kynjanna á vinnumarkaði. Foreldrar eru alltaf jafnir í uppeldi og ummönnun sama hvernig orlofi er háttað. Það er ekkert foreldri slæmt foreldri og tengist barni sínu síður þó það sé útivinnandi.

Afhverju þarf að taka það af konum að vilja vera heima með barninu sínu bara til þess eins að bæta rétt kynjanna á vinnumarkaði. Hvar er jafnréttið í því?

Við viljum sjá skiptingu á fæðingarorlofi þannig að hvort foreldrið fái fasta 2 mánuði. Hinir mánuðirnir yrðu sameiginlegir. Þannig gætu foreldrar háttað því sem best þykir að hverju sinni. Það er jafnrétti.

Það á að vera hamingja og gleði að eignast barn en ekki refsing frá samfélaginu.

Með von um breytingar,

Inga Fanney Rúnarsdóttir

Lilja Ósk Sigmarsdóttir

Sigríður Etna Marinósdóttir

Afrita slóð á umsögn

#239 Kjartan V Valgarðsson - 07.10.2020

Ágæta Alþingi,

meðfylgjandi er umsögn stjórnar Geðverndarfélags Íslands.

Með vinsemd

Kjartan Valgarðsson

Framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#240 Sigrún Ósk Jóhannesdóttir - 07.10.2020

Ég vil byrja á því að segja að ég fagna því mjög að verið sé að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði. Þrátt fyrir að það sé verið að reyna að stuðla að jafnréttissjónarmiðum með því að hafa 6 mánuði á hvort foreldri má ekki gleyma að taka til umhugsunar að jafnt er ekki alltaf jafnt. Það er ekki raunhæft að foreldrar skipti orlofinu með sér alveg 50/50 þar sem barnið hefur þörf fyrir brjóstagjafirnar lengur en þessa 6 mánuði. Það sem þyrfti raunverulega að skoða er hversu marga mánuði að meðaltali mæður eru að dreifa þessum 6 mánaða greiðslum á. Það gefur miklu sterkari mynd á það hvar þörfin er. Ekki hugsa bara hvernig þetta væri i fullkomnum jafnréttisheimi heldur hvernig eru fjölskyldur að nýta þetta. Það er best að láta það í hendur fjölskyldnanna sjálfra að meta hvernig orlofið nýtist þeim best m.t.t. tekjuskerðingar og fleiri þátta, og því best að hafa ákveðna grunnmánuði sem eru eyrnamerktir en miklu stærri hluta sem hægt er að ráðstafa að vild. T.d. myndi 4 á hvort foreldri og 4 til að skipta á milli vera mun betri lausn - ekki vera með forræðishyggju og ákveða fyrir fjölskyldurnar í landinu hvað henti þeim best. Einnig sé ég ekki hvaða máli það skiptir að það sé hægt að taka orlofið fyrstu 18 eða 24 mánuði í lífi barnsins. Enn og aftur, aðstæður eru mismunandi og samfélagið okkar er ekki beint með dagforeldra/leikskólamálin á hreinu, svo það er fínt að halda þessum 24 mánuðum inni. Fæðingarorlofið er gert til að hjálpa fjölskyldum, ekki til að setja þeim skorður, ekki satt?

Afrita slóð á umsögn

#241 Berglind Jóna Hlynsdóttir - 07.10.2020

Ég bæti þessari sér umsögn við fyrri umsögn,

Vandi sjálfstætt starfandi listamanna, listfræðinga, kennara og annara í svipaðri stöðu gagnvart fæðingarorlofi

Þættir sem gleymdust algjörlega í þessu frumvarpi.

Það kerfi sem við stöndum frami fyrir er ómanneskjulegt. Flestir sjálfstætt starfandi listmenn kannski rétt ná að of greiða sér endurgjald þessa síðustu 6 mánuði til að ná í annaðhvort lágmarksgreiðslum fyrir 25-49% sem gefur 132850kr á mánuði í fæðingarorlof eða 50-100% sem gefur 184119kr. Þessi of greiðsla kostar það að þú of greiðir skatta fyrir þetta tímabil sem eykur en fremur fátækina.

Vandinn er tvíþættur

Einn grunnur að vandanum er að viðmiðunarlaun listamanna samkvæmt ríkinu eru 2020: 543.000kr. Ég þekki engan listamann sem er í raun með þessi laun en út frá þessum launum er vinnuhlutfallið okkar skilgreint. Listmenn eru oft í 150%- 200% vinnu en eru kannski rétt að slefa í 200.000kr í launum og oft eru þeir með miklu lægri laun.

Það er mikilvægt vegna annara þátta í kerfinu að listamenn séu skilgreinir eins og þeir eru, sérfræðingar með háskólamenntun - þessi stuðull er t.d. notaður til að reikna listamannalauna út.

En það ómanneskjulegt og í raun bara ósatt að laun undir þessum 543.000kr séu ekki 100% vinnu hlutfall. Við verðum að geta sýnt fram á að við séum í raun í 100% hlutfalli gagnvart fæðingarorlofsjóði, atvinnuleysisjóði og í öðru slíku samhengi.

Hinn handleggurinn á réttindabarráttu listamanna er að við erum láglauna stétt og lendum því yfirleit í því að reiða okkur lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofssjóði sem eru langt undir lágmarkslaunum í landinu. Síðustu ár er búið að stór hækka hæstulaun sem greiðast úr færðingarorlofssjóði og einnig hafa mánuðir verið lengdir, það er ekki viðunandi að í lýðræðis og velferðarsamfélagi séu lægstu greiðslur langt undir lífvænlegum launum.

Mér finnst ótrúlegt ekki sé búið að fara í þá að leiðrétta þetta og svo virðist að þeir ráðgefandi hópar sem fengnir eru til umsagna endurspegli ekki raunveruleika mjög margra.

Fyrir utan það augljósa og sjálfsagða að hækka lægstu orlofs upphæðir, þá dettur mér helst í hug að gefa möguleika á sérstöku tryggingagjaldi á mánuði eða ári sem sjálfstætt starfandi listamenn geta hakað við í skattaskýrslunni og greitt árlega svipað og húsmæðratryggingin gamla. Önnur leið er leiðrétta viðmiðunarlaun listamanna í samhengi við vinnuhlutfall þannig að það endurspegli raunverulegt vinnuhlutfall – gagnvart réttindum eins og fæðingarorlofi og atvinnuleysissjóði án þess að skerða laun.

+++++++++

Það eru til ófáar vísindagreinar sem sína fram á að álag og áföll eins og streita og áhyggjur vegna fjárhags sem foreldrar ungabarna lenda í á meðgöngu og til 2 ja ára, jafnvel 3ja ára geti haft heilsufarslegar afleiðingar sem ekki bara birtast alla ævi hjá börnum, heldur geta framleit "epigenic" breytingar sem börnin þeirra geta síðar erfitt. Þessvegna er það alþjóðlega samþykkt að fjárfesta í öryggi barna á þessum tíma margfalt borgar sig fjárhagsleg fyrir ríki.

tilvísun: https://developingchild.harvard.edu/wp-content/uploads/2010/05/Early-Experiences-Can-Alter-Gene-Expression-and-Affect-Long-Term-Development.pdf

Harvard skrifaði skýrslur til að þrýsta á þingið í bandaríkjunum út frá þessum vísindum sem sýna að ekki bara ofbeldi hefur þessi áhrif, heldur streita, áföll og sinnuleysi sem geta skapast út af fátækt og óöryggi fjárhagslega foreldra.

Við erum núna áratugum á eftir í barráttu gagnvart viðunnandi ástandi. Ég vil hvetja ykkur til að setja þetta í ferli strax.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#242 Guðbjört Gylfadóttir - 07.10.2020

Það er ástæða til að fagna því að fæðingarorlof sé lengt í 12 mánuði. Hinsvegar hef ég af því áhyggjur að láglaunafólk muni í minna mæli geta nýtt sér fullt orlof heldur en tekjuhærra fólk. Í tekjuhærri fjölskyldum getur annað eða bæði foreldri skipt orlofi á fleiri mánuði og þannig lengt orlof, t.d. til að brúa tíma þar til dagvistun fæst eða til að ná lengri tíma við brjóstagjöf. En ég veit dæmi þess að í núverandi kerfi hafi foreldrar ekki getað tekið eins langt orlof og þeir óskuðu vegna tekjuskorts.

Þessvegna vil ég kalla eftir gögnum, sjá meðfylgjandi uppkast að gagnasöfnunartillögu í pdf skjali. Kannað sé eftir tekjutíundum hvernig nýting á fæðingarorlofi hefur verið hjá mæðrum og feðrum og heildarnýting fjölskyldu á orlofi. Bæði í 3-3-3 kerfinu og hinu nýrra 4-4-2 kerfi. Umframnýtingu orlofs ætti líka að skoða eftir tekjutíundum. Einnig ætti að kanna heildarfjölda mánuða sem barn er á brjósti eftir tekjutíund. Barn ætti að njóta jafns heildartíma með foreldrum, sem og brjóstagjafar, óháð tekjum fjölskyldu.

Meðfylgjandi pdf skjal er með uppkasti að tillögu um hvernig gagnasöfnun gæti verið sett fram til að skýra betur hver staðan er með núverandi 4-4-2 lögum og 3-3-3 kerfinu. Þessi tillaga er ekki tæmandi og eru líklega fleiri breytur sem má skoða til að glöggva sig enn betur á hvernig fæðingarorlof er nýtt milli mismunandi hópa.

Ef mismunur kemur í ljós á nýtingu orlofs milli tekjutíunda myndi ég leggja til að gefa fleiri mánuði frjálsa milli foreldra svo allar tekjutíundir geti nýtt sér fæðingarorlofsrétt jafnt og/eða hækka útborgaða prósentu tekna fyrir lægri launahópa svo þeir geti tekið orlof til jafns við tekjuhærri og fjölga mánuðum sem nýta má orlofið á svo sveigjanleiki verði meiri til orlofstöku.

Ef þessi gögn eru ekki til, þá legg ég til að byrjað verði að safna gögnum eftir að ný lög ganga í gegn. Þá er hægt að sjá hvernig nýting orlofs er eftir tekjutíundum og gera breytingar seinna meir ef þörf krefur.  

Þakka lesturinn,

Guðbjört Gylfadóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#243 Kjartan V Valgarðsson - 07.10.2020

Umsögn stjórnar Geðverndarfélags Íslands um Frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 195/2020..

Stjórn GÍ skrifaði umsögn um frumvarp til breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 með síðari breytingum (lenging fæðingarorlofs) í desember sl.

Stjórnin vísar í fyrri rökstuðning fyrir sveigjanleika í töku fæðingar- og foreldraorlofs sem felur í sér að foreldrar ráði sjálfir hvernig þeir skipti 12 mánaða orlofi með sér.

Stjórnin ítrekar áherslu á góða og vandaða tengslamyndun barns við foreldra fyrstu árin og hvetur alþingismenmn til að kynna sér vel þá þekkingu sem er til staðar um mikilvægi hennar.

Með þessu frumvarpi er gengið lengra í ósveigjanleika og þvingunarúrræðum en í hinu fyrra frumvarpi eftir samráð við „aðila vinnumarkaðarins.“ Stjórnin lýsir furðu sinni á því að ekki hafi verið haft samráð við fagfólk sem er sérfrótt um þarfir ungra barna og fjölskyldna.

Stjórn Geðverndarfélags Íslands skorar á Alþingi að breyta þessu frumvarpi þannig að foreldrar ráði sjálfir fyrirkomulagi orlofsins auk þess sem fallið verði frá því að takmarka tímann við 18 mánuði, eins og gert er ráð fyrir. Jafnframt er skorað á Alþingi að hefja undirbúning að lagafrumvarpi um 18 mánaða fæðingar- og foreldraorlof.

Stjórn Geðverndarfélags Íslands.

7. október 2020.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#244 Birna Hlín Hilmarsdóttir - 07.10.2020

Ég fagna lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði. Ég set þó spurningamerki við það að festa mánuðina á foreldra. Fæðingarorlof snýst fyrst og fremst um nýfætt barn eða börn og því ætti orlofið að vera merkt börnunum og tel ég að ef foreldrar eru nógu hæfir til að hugsa um börnin þau ættu þeir að geta skipt orlofinu þannig á milli sín að það henti barninu vel sem og fjölskyldumynstri þeirra.

Einnig skil ég ekki hvernig hægt er að stytta heildarlengd tímabils til nýtingar orlofsins þegar ekki er hægt að tryggja að öll börn séu komin með leikskólapláss 18 mánaða. Þetta getur haft mikil áhrif á fjölskyldur, því dagforeldrar eru ekki á hverju strái.

Hugsum um börnin og höfum hagsmuni þeirra að leiðarljósi við setningu nýrra laga er snúa að þeim.

Afrita slóð á umsögn

#245 Herdís Hermannsdóttir - 07.10.2020

Það gleður við fyrstu sýn að sjá fæðingarorlofið lengt, en svo kemur í ljós að það er ekki gert fyrir fæðandi konur eða börn þeirra heldur fyrir karla eða jafnréttis sjónarmið stéttarfélaga.

Ég vil halda áfram 24 mánuðum til að taka út fæðingarorlof, vegna þess að leikskólar byrja á mismunandi aldri að taka við börnum.

Foreldrar ættu að halda 100% tekjum í orlofinu (með einhverju hámarksþaki), þar sem að fá tímabil í lífinu eru jafn kostnaðarsöm eins og þegar barn kemur inn á heimili.

Að tekið sé mið af núverandi tekjum eða síðustu 6-9 mánaða. Aðeins þannig myndu þeir karlmenn sem ég þekki hafa efni á því að taka orlofið. Langflestir sem ég þekki höfðu aðeins efni á að taka einn mánuð og þeir yrðu ekki líklegri til að nýta næstu 5 mánuðina nema á fullum launum.

Ég vil sjá orlofið verða fyrir börn, eyranamerkt þeim og að tryggt verði að foreldrar séu að hugsa um barnið í orlofinu.

Ég vil sjá 3-3-6 skiptingu á orlofinu ef ekki er hægt að eyrnamerkja barni fæðingarorlofinu og að foreldrar geti framselt tvo af sínum mánuðum ef konan er ekki að ná að jafna sig eftir meðgöngu og fæðinguna innan hennar orlofstíma, ef hún er sannarlega í sjúkraþjálfun til að bæta ástand sitt og læknir getur vottað það.

Vinnumarkaðurinn þarf að skilja að konur eru alltaf í lágmark 9 mánuði að jafna sig og það er líka ástæðan fyrir því að þær lengja venjulega sitt orlof og stjórnvöld þurfa að skilja sitt hlutverk í að vernda og tryggja að konur séu búnar að ná sér áður en þær snúa aftur á vinnumarkaðinn.

Afrita slóð á umsögn

#246 Birna Jónasdóttir - 07.10.2020

Réttindi foreldra og orlof virðist vera inntak frumvarpsins, markmið laganna er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Árið er 2020 og við erum enn að notast við svona meingallaðar fullyrðingar.

Hvergi er talað um réttindi barna til umönnunar. Hvergi er minnst á réttindi barna til samvistar og tengslamyndunar við foreldri/a sína. Hvergi er minnst á réttindi barna í frumvarpi til laga um komu þeirra inn í þennan heim. Það eru réttindi fullorðinna sem skipta máli, réttindi foreldra til þess að fá "frí" úr vinnu, réttindi foreldra til þess að fá jafn langan tíma með litla krúttinu burtséð frá aðstæðum hverju sinni.

Orlof... erum við í alvöru enn að tala um þetta sem orlof. Það eru jú einhverjir svo heppnir að geta kallað fyrstu mánuði með barni sínu orlof, en það er töluvert stór hluti foreldra sem getur ekki talið það frí að vera heim að sinna barni sínu fyrstu mánuði/ár lífs þess. Það getur verið full vinna, og jafnvel töluverð yfirvinna, að sinna barni, ala það og koma því á veg. Gefandi og góð vinna, sem all flestir en þó ekki allir njóta, en vinna engu að síður. Ekki orlof, ekki frí. Og því síður þegar hinar ýmsu breytur lífsins koma til. Svo sem veikindi barns/foreldris, heimilisaðstæður, einstæðir foreldrar og alls kyns aðstæður sem komið geta upp og haft áhrif á einfaldleika lífsins sem horft er til í þessu frumvarpi. Foreldrar taka sannarlega leyfi frá störfum til þess að annast barn sitt, en orlof er það alls ekki, ekki hjá öllum í það minnsta.

Þá að frumvarpinu sjálfu, en með því er verið að auka enn frekar á mismunun barna sem fæðast einstæðu foreldri, barn sem er feðrað en hefur einhverjum ástæðum einungis eitt foreldri í lífi sínu, einn umönnunar aðila sem gjarnan hefur fulla forsjá yfir barni. Þessi börn hafa hingað til einungis átt rétt á 6 mánuðum með foreldri hjá sér í stað þeirra 9 sem önnur börn fá. Þessi þriggja mánaða munur eykst nú í 5 mánuði, 5 mánuðir aukalega sem önnur börn hafa rétt á að hafa foreldri hjá sér til að annast sig, elska og ala. En ekki þessi sem eru svo óheppin að fæðast einstæðu foreldri eftir gamaldags getnað tveggja einstaklinga.

Til að loka þessari rommsu þá er með öllu ótækt að ríki setji hömlur á tökutíma fæðingarleyfis út frá skyldum sem sveitarfélög hafa en geta alls ekki alltaf staðið við. Það eru allnokkur sveitarfélög sem ná ekki að veita dagvistun fyrir börn frá 18 mánaða aldri, hvorki með dagforeldrum né dagvistun.

Undirrituð er einstætt foreldri með fulla forsjá yfir feðruðu barni sínu. Eina fyrirvinna heimilisins, eini umsjáraðili barnsins og vegna landfræðilegra aðstæðna tekur faðir engan þátt í uppeldi eða umönnun barns. Barni sem fæddist með kvilla og þurfti að gangast undir aðgerð á fyrstu mánuðum lífs síns.

6 mánaða fæðingarleyfi þurfti einhvernvegin að togast til og duga fram að dagvistun við 13 mánaða aldur. Það tók svo sannarlega á og óska ég engum að þurfa að standa í slíku streði, horfandi á 3 mánuði af rétti barns til samvistar með foreldri fara til spillis af því að kerfið sagði það!

Afrita slóð á umsögn

#247 Femínistafélag Háskóla Íslands - 07.10.2020

Aukið fæðingarorlof er frábær réttindabót fyrir ungabörn sem og nýbakaða foreldra. Það er greinilega markmið þessa frumvarps að hvetja það foreldri sem ekki gekk með barnið að taka fæðingaorlof til jafns við það foreldri sem gekk með barnið. Aðstæður fjölskyldna eru mjög mismunandi og því mikilvægt að fólk geti lagað fæðingarorlofið að sínum eigin aðstæðum, það mætti því bjóða foreldrum upp á meiri sveigjanleika þegar þeir taka út orlofið. Þó að tilgangur laganna sé háfleygur þá er mikilvægt að það bitni ekki á efnaminni fjölskyldum eða einstæðum foreldrum.

Einnig er það mikil afturför að tímarammi fæðingarorlofs þrengist úr 24 mánuðum niður í 18 mánuði sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að skortur er á dagvistunarúrræðum fyrir ungabörn yngri en 2 ára. Það virðist vera að með þessu frumvarpi séu hagsmunir atvinnuveitenda teknir fram yfir hagsmuni barna.

Við gerð lagafrumvarpsins er mikilvægt að gæta að orðanotkun. Í frumvarpinu er gefið í skyn að einungis konur geti orðið þungaðar en það viðhorf viðheldur ramma kynjakerfisins sem útilokar margar hinsegin fjölskyldur. Fólk af öllum kynjum getur orðið þungað, kynvitund er allskonar og er ekki háð kyneinkennum. Lagt er til að talað sé um þungað foreldri eða barnshafandi foreldri.

Virðingarfyllst,

Stjórn Femínistafélags HÍ

Afrita slóð á umsögn

#248 Hrönn G. Guðmundsdóttir - 07.10.2020

Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof gera ráð fyrir að fæðingarorlof verði lengt úr tíu í tólf mánuði og að hvort foreldri um sig eigi rétt á sex mánuðum. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að markmið þessarar jöfnu skiptingar sé að gera báðum foreldrum kleift að annast barn sitt án þess að því fylgi röskun hvað varðar atvinnuþátttöku hvors um sig. Þar kemur einnig fram að sú staðreynd að mæður hafi hingað til nýtt sameiginlega réttinn (þ.e. sína þrjá auk þeirra þriggja sameiginlegu) gefi tilefni til að afnema þennan rétt, enda muni konur áfram nýta hann og vinna þar með gegn eigin hag á vinnumarkaði. Eins er nefnt að starfshópurinn telur að hnífjöfn skipting orlofsins muni mögulega hafa jákvæð áhrif á fæðingartíðni – sem er afar forvitnileg ályktun og byggir á gögnum frá Norðurlöndunum þar sem stefna sem „miðar að jafnrétti kynjanna“ hefur haft áhrif á fæðingartíðni, en þess má geta að í Svíþjóð er sveigjanleiki fæðingarorlofskerfisins ákaflega mikið meiri en þess kerfis sem þetta frumvarp boðar.

Við lestur á frumvarpinu og greinargerðinni vakna ýmsar spurningar og vangaveltur um undirliggjandi forsendur og viðhorf löggjafans um þessi mál, ekki síst vegna þess að frumvarpið hefur verið kynnt sem mikið framfaraskref á sviði kynjajafnréttis.

Í fyrsta lagi: Er það vilji og afstaða löggjafans að allar mæður eigi að fara til fullrar vinnu eigi síðar en sex mánuðum eftir barnsburð? Telur löggjafinn að þetta sé móður fyrir bestu og að hún eigi helst ekki að hafa val um annað? Ég sé ekki hvernig hægt er að styðja jafna skiptingu orlofsins án þess að svara þessum spurningum játandi. Ef þetta er vilji löggjafans, þá lítur hann kerfisbundið framhjá þeirri staðreynd að mjög margar konur hafa ekki heilsu til fullrar vinnu svo skömmu eftir barnsburð, ýmist vegna kvilla tengdum meðgöngu og fæðingu eða vegna þess að störf þeirra eru líkamlega krefjandi og það gæti jafnvel hægt á bata þeirra eða hreinlega valdið þeim skaða að fara of snemma til vinnu. Oft eru þessi störf einnig láglaunastörf, s.s. störf við ræstingar, á leikskólum eða við aðhlynningu aldraðra og veikra, sem gerir konum í þessari stöðu enn erfiðara um vik. Sem dæmi má nefna að kona getur glímt við grindargliðnun svo mánuðum skiptir eftir fæðingu. Sú kona gæti kannski átt auðvelt með að snúa til baka til vinnu sem krefðist ekki mikils líkamlegs erfiðis, en væri það henni fyrir bestu að fara t.d. að sinna líkamlega erfiðum þrifum og ræstingum eða vinnu á leikskóla með tilheyrandi álagi á stoðkerfi?

Í öðru lagi: Telur löggjafinn að það sé öllum börnum fyrir bestu að mæður þeirra (ef þær taka fyrstu sex mánuðina) fari að vinna fulla vinnu utan heimilis þegar þau eru sex mánaða og mörg hver rétt að byrja að fá fasta fæðu? Ég sé ekki hvernig hægt er að styðja jafna skiptingu orlofsins án þess að svara þessari spurningu játandi eins og þeim fyrri. Það blasir við að hér er ekki verið að taka tillit til ólíkra þarfa þeirra sem frumvarpið ætti helst að vernda, þ.e. barna. Sum börn eru engan veginn tilbúin til að skiljast við móður sex mánaða gömul (jafnvel þó að aðilinn sem taki við umönnun þess að mestu sé faðir þess), og sú staðreynd ætti að nægja sem rök fyrir meiri sveigjanleika en þetta frumvarp boðar.

Í greinargerðinni er nokkuð mikið gert úr því að mæður hafi hingað til nýtt sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs og látið í veðri vaka að þetta sé óæskilegt, af ástæðum sem tengjast stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Hver sem vill hlýtur að sjá að ein af ástæðum þess að konur hafa hingað til nýtt sameiginlega réttinn af orlofsmánuðunum er þessi: Eyrnarmerktur orlofstími þeirra hefur verið alltof stuttur, bæði fyrir þær og börn þeirra. Það er beinlínis rökvilla að álykta sem svo að úr því að mæður hafi að mestu nýtt þessa þrjá sameiginlegu mánuði hingað til muni þær áfram nýta allan sameiginlegan rétt foreldra sé heildarorlofstími lengdur en kerfið haft sveigjanlegt. Ástæður þess að konur taka meirihlutann af sameiginlega réttinum þarf greinilega að skoða betur og löggjafinn hreinlega getur ekki leyft sér þá óvísindalegu röksemdafærslu sem sjá má í greinargerðinni. Sem dæmi má nefna að það samræmist illa ráðleggingum varðandi brjóstagjöf að móðir með barn á brjósti hverfi til fullrar vinnu við þriggja mánaða aldur barns.

Umfjöllun um líkamlega og andlega heilsa kvenna eftir meðgöngu og fæðingu (og brjóstagjöf ef hún er til staðar) er að mestu leyti látin liggja á milli hluta í þessu frumvarpi og alls ekki lögð til grundvallar á nokkurn hátt þegar skiptingin á orlofsmánuðunum er rökstudd. Það er væntanlega með vilja og kemur reyndar ekki mjög á óvart, enda er umræða um líkama kvenna og það hlutskipti þeirra að ganga með og fæða börn gjarnan stimpluð sem gamaldags eðlishyggja sem ekki eigi upp á pallborðið árið 2020. Í rökstuðningi með 7. gr. er heldur ekki fjallað um ólíkar þarfir barna á þessum aldri, en það atriði eitt og sér ætti að kalla eftir sveigjanleika í kerfinu. Undanfarna daga hafa safnast sögur foreldra úr fæðingarorlofi inn á hóp á Facebook sem heitir Frásagnir foreldra og fagfólks af fæðingarorlofi. Þær sögur bera margar hverjar vitni um það hve líkamleg reynsla af meðgöngu og fæðingu (og brjóstagjöf) er misjöfn eftir konum. Ég kalla eftir því að frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof taki mið af þessum reynsluheimi kvenna.

Stuðningsmenn þessa frumvarps, og ekki síst jafnrar skiptingar orlofsins, hafa kynnt það sem mikið framfaraskref á sviði kynjajafnréttis, ekki síst m.t.t. stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þau sem ekki styðja jafna skiptingu tólf mánaða orlofs hafa því fengið á sig þann stimpil að styðja ekki jafnrétti kynjanna eða vera fórnarlömb úreltra hugmynda um kynin og foreldrahlutverkið. Það er engan veginn svo að eina femíníska afstaðan til fæðingarorlofs foreldra sé að skipta orlofsmánuðunum tólf hnífjafnt á milli foreldra, og það er ekki vanvirðing við feður að benda á þörf margra mæðra fyrir lengra orlof en þetta frumvarp úthlutar þeim. Í mínum augum myndi frumvarp í anda kynjajafnréttis hvetja til jafnrar orlofstöku (t.d. með hlunnindum eins og tíðkast í Svíþjóð) en viðurkenna þörf fjölskyldna til að haga þessu eftir aðstæðum hverju sinni, og styðja foreldra og börn þeirra eftir fremsti megni hver svo sem veruleiki þeirra er.

Ég tek fram að ég styð að hvoru foreldri um sig verði eyrnarmerktur réttur til fæðingarorlofs, t.d. 3-4 mánuðir. Eins gæti ég hugsað mér jafna og lítt sveigjanlega skiptingu orlofsins ef heildartími orlofs væri mun lengri, t.d. 24 mánuðir. Það er ekkert neikvætt við það að feður fái sex mánaða orlof, en ég get engan veginn stutt frumvarp sem getur ekki boðið slíkt nema takmarka tíma móður í fæðingarorlofi við sama mánaðafjölda; reynslan sýnir að mæður þurfa oft meira en það eftir að barn fæðist, og fyrir því eru gildar ástæður.

Þetta frumvarp lítur framhjá því að börn er ólík og þarfnast þess að foreldrar þeirra hafi ráðrúm og sveigjanleika til að haga orlofstöku eftir því sem hentar barninu best. Þetta frumvarp bregst fátækum foreldrum og láglaunafólki, með því að endurskoða ekki þá tilhögun að skerða laun allra um 20% á orlofstímanum, óháð því hvort fólk var á forstjóralaunum eða lágmarkslaunum fyrir fæðingu barns. Það bregst börnum sem ekki eiga foreldra sem falla inn í þann þrönga ramma sem löggjafinn telur æskilegan. Það bregst fjölskyldum með því að senda þau skilaboð að mikilvægara sé að foreldrar komist sem fyrst aftur á vinnumarkað eftir að barn fæðist í heiminn heldur en að hlúa að heilsu og velferð barns og fjölskyldunnar allrar með nærgætni, víðsýni og umburðarlyndi fyrir fjölbreytileika að leiðarljósi. Fæðingarorlof er ekki vinnumarkaðsmál – það er fyrst og fremst velferðarmál barna, og heilsu barna og foreldra þarf að raða framar á forgangslistann en því markmiði að jafna hlut kynjanna á vinnumarkaði.

Afrita slóð á umsögn

#249 Katrín Harðardóttir - 07.10.2020

Það er að bera í bakkafullan lækin að telja upp það sem mætti fara betur í þessu frumvarp, enda er ég sammála svo til hverju einasta atriði sem hér hefur komið fram. Ég má þó til með að bæta við að það er eins og blaut tuska í andlitið að komast að því, eftir að hafa verið á nánasarorlofi þar sem ógerningur er að fá metna saman verktakavinnu og launþegavinnu, að einungis 80% af launum maka eru metin upp í orlof, og að auki er reikningurinn af meðaltali launa svívirðilegur. Hvernig í ósköpunum datt fólki í hug að hækka hámarksþakið, en borga einungis 80% af lægri launum? Þesssi orlofssjóður er í raun fátækragildra, og með þessu frumvarpi er vont gert verrra, með þessari forræðishugsun hvað varðar tíma foreldra. Enn ein plastrósin í hnappagat úlfa í sauðagæru sem kunna ekki mun á mannréttindum, kvenfrelsi og jafnrétti.

Afrita slóð á umsögn

#250 Q - félag hinsegin stúdenta - 07.10.2020

Fæðingar- og foreldraorlof eru einstaklega mikilvæg bæði fyrir nýbura og foreldra þeirra. Jafnari skipting orlofs er lögð til í frumvarpinu, en sú þróun skapar góðan grundvöll fyrir jafna ábyrgð foreldra í lífi og uppeldi barns frá fyrstu stundu. Þó frumvarpið heimili ekki skiptingu orlofsins algjörlega eftir því hvað hentar hverri fjölskyldu fyrir sig, þá fækka ekki þeir mánuðir sem foreldrar hafa nú þegar til að skipta sín á milli. Lenging fæðingar- og foreldraorlofsins er jákvætt skref sem Q – félag hinsegin stúdenta stendur með.

Við gerð lagafrumvarpa er mikil áhersla lögð á orðanotkun. Rétt er að orðaval gæti skilnings á Íslenskum lögum og nái utan um allan þann hóp sem þau eiga við Í frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof er ítrekað gefið í skyn að einungis konur geti orðið þungaðar, með því að taka fram að þungaði einstaklingurinn sem frumvarpið nær til sé kona. Það viðhorf viðheldur ramma kynjakerfisins sem útilokar margar hinsegin fjölskyldur, þar sem foreldrarnir falla ekki undir kynjatvíhyggju samfélagsins. Fólk af öllum kynjum getur orðið þungað, kynvitund fólks er alls konar og ekki háð kyneinkennum fólks. Tillaga Q – félags hinsegin stúdenta er að talað sé um þungað foreldri eða barnshafandi foreldri þar sem það inngildir öll þunguð foreldri.

Virðingarfyllst,

Stjórn Q - félags hinsegin stúdenta

Afrita slóð á umsögn

#251 Gísli Freyr Brynjarsson - 07.10.2020

Lenging fæðingarorlofs er eitthvað sem er löngu tímabært og því ber að fagna. Hins vegar má setja stór spurningamerki við tillögurnar í þessu frumvarpi af nokkrum ástæðum.

I. Aukning bundinna úthlutaðra mánaða til foreldra

I.I Foreldrar í sambúð

Hlutfallsleg nýting feðra á fæðingarorlofi er ekki nægilega há af ýmsum ástæðum. Ástæðan fyrir því er augljóslega ekki sú að feður fái of fáa mánuði úthlutað og því er sérstakt að verið sé að fjölga þeim.

Á heimilum þar sem feður þéna meira af einhverjum ástæðum, og í einhverjum tilvikum þéna vel yfir hámarksgreiðslum, er t.d. alveg ljóst að aukning á tíma sem þeir fá úthlutað mun ekki leiða til hærri nýtingar á orlofi. Er því búið ad "eyða" þeim mánuðum, sem þeir ekki nýta, til einskis og fyrir það líður barnið þar sem það fær styttri tíma með foreldrum sínum og heimilið, í annaðhvort lægri mánaðartekjum, ef móðir dreyfir greiðslum, eða í hærri greiðslum til dagvistunarúrræða, ef þau yfir höfuð standa einhvers stadar til boða fyrir 7 mánaða gömul börn, því dagvistun er yfirleitt ekki niðurgreidd af bæjarfélögum fyrr en við eins árs aldurs barns.

Að skapa heimilinu óstöðugleika og neyða það í tekjumissi (sem íslensku fædingarorlofs-reglurnar gera) kemur því beint niður á barninu og fjölskyldunni.

Nú eru vissulega heimili þar sem mædur þéna betur en feðurnir og vilji foreldra er ad faðirinn sé heima med barnið og eru þau heimili undir sama hatti því þau geta ekki ráðstafað mánuðum móðurinnar eins og þau kjósa.

I.II Foreldrar ekki í sambúð

Málið getur horft öðruvísi vid foreldrum sem ekki eru í sambúð. Þar geta verið önnur sjónarmid, svosem að barnið eyði tíma með og tengist báðum foreldrum til jafns og öfugt. Aftur er vandamálið að foreldrarnir hafa ekki frelsi til ad ákveða í sameiningu, eða í sitthvoru lagi, hvernig orlofi þeirra er skipt.

I.III Lausnin

Til að koma á móts vid báða þessa hópa og vinna að meira jafnrétti ætti að úthluta hvoru foreldri 6 mánudi fyrir sig en leyfa "handhafa" orlofs ad framselja mánuði (a.m.k. 4, helst alla) yfir til barnsföður/barnsmóður. Þar með gætu foreldrar alfarið ráðið því hvernig orlofinu skuli háttað og um leið kemur það í veg fyrir að foreldrar sem ekki eru í sambúð fái tækifæri til að tengjast og annast barn sitt á jöfnum grundvelli.

Þannig nálgumst við munstur, sem hefur oft verið talað um, þar sem foreldrar fá þrjá mánuði hvor og geta svo leyst það innbyrðis hvernig restinni er skipt (í þessu tilviki 6 mánuðir).

II. Stytting á tökutíma orlofs úr 24 mánuðum í 18

II.I Minna frelsi foreldra

Þessa styttingu tel ég vera afturför þar sem aftur er verið að skerða frelsi foreldra til ad taka sjálf ákvörðun um það hvernig þeir vilja haga sínu orlofi.

Ástæður fyrir því að foreldrar geta ekki tekid sitt fæðingarorlof á ákveðnum tíma geta verid margar, t.d. álagstímar í starfi, foreldri nýbyrjað í nýrri vinnu og ein stærsta ástæðan er að það er algengt að börn fái ekki leikskólapláss fyrr en við 24 mánaða aldur og þá þarf alltaf ad dekka einhvern tíma í orlof á milli 18 og 24 mánaða aldurs.

II.II Lausnin

Halda tökutímanum í 24 mánuðum.

III. Jafnrétti vs réttur barns og fjölskyldu

Það að hampa frumvarpinu sem jafnréttismáli og líta á fæðingarorlof sem jafnréttismál er að mínu mati ekki rétt. Líta skal heldur á fæðingarorlof sem rétt barnsins til þess að umgangast foreldra sína á fyrstu mánuðum og árum lífs síns. Þar kemur inní réttur foreldra til ad haga orlofinu eins og þau telja að best sé fyrir barnið og sína fjölskyldu án þess að þurfa að hafa áhyggjur af verulegum tekjumissi eða jafnvel algjörum tekjuskorti ef dagvistun er ekki tryggð á fyrsta ári barnsins.

Að mínu mati væri afnám 80% reglunnar á launum og afnám/veruleg hækkun á 600.000kr. launaþakinu mun betri leið til jafnréttis. Mætti þar setja upp t.d. þrepakerfi, eins og gert er með tekjuskatt, eða hækka þakið rausnarlega til þess að mæta launaskriði sem orðið hefur á mörgum stöðum í samfélaginu undanfarin ár.

IIII. Lokaorð

Fjölskyldumynstur og heimilisaðstæður geta verið mjög ólíkar í tilviki hvers barns fyrir sig og því er best að mæta með eins miklum sveigjanleika og mögulegt er.

Jafnréttissjónarmiðum er best mætt með hærri greiðslum og með minni tekjuskerðingu til foreldra.

Afrita slóð á umsögn

#252 Sandra Dís Dagbjartsdóttir - 07.10.2020

Þessi 18m tími til ad taka orlof er of stuttur.

Skiptingin à réttinum þarf að vera frjàlsari fyrir hag barnsins og foreldra þess.

Allar konur ættu að eiga rétt à viðbôtar 1m í orlof fyrir fæðingu eins og er í Danmörku ôhàð réttinum eftir fæðingu. Fàrànlegt að vinnuveitandinn borgi þetta sem veikindadaga og konur þurfi ad knýja fram veikindavottorð eða konur séu að pína sig til að vinna fram à síðustu stundu og mæta þreyttar í fæðingu með tilheyrandi afleiðingum.

Það þarf að tryggja öllum foreldrum sambærilegan rétt úr þessum sjóð þó þau séu að koma úr nàmi, séu í nàmi eða séu að koma úr fæðingarorlofi með fyrra barn. Það er kerfislega ósanngjarnt að þeir sem eignast ekki barn eftir excel skali geti lent í svona gloppum og þar með djúpri fàtæktargildru og stressi sem því fylgir fyrir barn og fjölskyldur. Það er þekkt að annað foreldrið hellir sér út í vinnu og hittir varla barnið til að reyna ad redda peningamàlunum. og àstandið versnar til muna ef foreldrid er einstætt sem lendir í þessu.

Afrita slóð á umsögn

#253 Hrönn G. Guðmundsdóttir - 07.10.2020

(sent aftur vegna mistaka í fyrri sendingu)

Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof gera ráð fyrir að fæðingarorlof verði lengt úr tíu í tólf mánuði og að hvort foreldri um sig eigi rétt á sex mánuðum. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að markmið þessarar jöfnu skiptingar sé að gera báðum foreldrum kleift að annast barn sitt án þess að því fylgi röskun hvað varðar atvinnuþátttöku hvors um sig. Þar kemur einnig fram að sú staðreynd að mæður hafi hingað til nýtt sameiginlega réttinn (þ.e. sína þrjá auk þeirra þriggja sameiginlegu) gefi tilefni til að afnema þennan rétt, enda muni konur áfram nýta hann og vinna þar með gegn eigin hag á vinnumarkaði. Eins er nefnt að starfshópurinn telur að hnífjöfn skipting orlofsins muni mögulega hafa jákvæð áhrif á fæðingartíðni – sem er afar forvitnileg ályktun og byggir á gögnum frá Norðurlöndunum þar sem stefna sem „miðar að jafnrétti kynjanna“ hefur haft áhrif á fæðingartíðni, en þess má geta að í Svíþjóð er sveigjanleiki fæðingarorlofskerfisins ákaflega mikið meiri en þess kerfis sem þetta frumvarp boðar.

Við lestur á frumvarpinu og greinargerðinni vakna ýmsar spurningar og vangaveltur um undirliggjandi forsendur og viðhorf löggjafans um þessi mál, ekki síst vegna þess að frumvarpið hefur verið kynnt sem mikið framfaraskref á sviði kynjajafnréttis.

Í fyrsta lagi: Er það vilji og afstaða löggjafans að allar mæður eigi að fara til fullrar vinnu eigi síðar en sex mánuðum eftir barnsburð? Telur löggjafinn að þetta sé móður fyrir bestu og að hún eigi helst ekki að hafa val um annað? Ég sé ekki hvernig hægt er að styðja jafna skiptingu orlofsins án þess að svara þessum spurningum játandi. Ef þetta er vilji löggjafans, þá lítur hann kerfisbundið framhjá þeirri staðreynd að mjög margar konur hafa ekki heilsu til fullrar vinnu svo skömmu eftir barnsburð, ýmist vegna kvilla tengdum meðgöngu og fæðingu eða vegna þess að störf þeirra eru líkamlega krefjandi og það gæti jafnvel hægt á bata þeirra eða hreinlega valdið þeim skaða að fara of snemma til vinnu. Oft eru þessi störf einnig láglaunastörf, s.s. störf við ræstingar, á leikskólum eða við aðhlynningu aldraðra og veikra, sem gerir konum í þessari stöðu enn erfiðara um vik. Sem dæmi má nefna að kona getur glímt við grindargliðnun svo mánuðum skiptir eftir fæðingu. Sú kona gæti kannski átt auðvelt með að snúa til baka til vinnu sem krefðist ekki mikils líkamlegs erfiðis, en væri það henni fyrir bestu að fara t.d. að sinna líkamlega erfiðum þrifum og ræstingum eða vinnu á leikskóla með tilheyrandi álagi á stoðkerfi?

Í öðru lagi: Telur löggjafinn að það sé öllum börnum fyrir bestu að mæður þeirra (ef þær taka fyrstu sex mánuðina) fari að vinna fulla vinnu utan heimilis þegar þau eru sex mánaða og mörg hver rétt að byrja að fá fasta fæðu? Ég sé ekki hvernig hægt er að styðja jafna skiptingu orlofsins án þess að svara þessari spurningu játandi eins og þeim fyrri. Það blasir við að hér er ekki verið að taka tillit til ólíkra þarfa þeirra sem frumvarpið ætti helst að vernda, þ.e. barna. Sum börn eru engan veginn tilbúin til að skiljast við móður sex mánaða gömul (jafnvel þó að aðilinn sem taki við umönnun þess að mestu sé faðir þess), og sú staðreynd ætti að nægja sem rök fyrir meiri sveigjanleika en þetta frumvarp boðar.

Í greinargerðinni er nokkuð mikið gert úr því að mæður hafi hingað til nýtt sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs og látið í veðri vaka að þetta sé óæskilegt, af ástæðum sem tengjast stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Hver sem vill hlýtur að sjá að ein af ástæðum þess að konur hafa hingað til nýtt sameiginlega réttinn af orlofsmánuðunum er þessi: Eyrnarmerktur orlofstími þeirra hefur verið alltof stuttur, bæði fyrir þær og börn þeirra. Það er beinlínis rökvilla að álykta sem svo að úr því að mæður hafi að mestu nýtt þessa þrjá sameiginlegu mánuði hingað til muni þær áfram nýta allan sameiginlegan rétt foreldra sé heildarorlofstími lengdur. Ástæður þess að konur taka meirihlutann af sameiginlega réttinum þarf greinilega að skoða betur og löggjafinn hreinlega getur ekki leyft sér þá óvísindalegu röksemdafærslu sem sjá má í greinargerðinni. Sem dæmi má nefna að það samræmist illa ráðleggingum varðandi brjóstagjöf að móðir hverfi til fullrar vinnu við þriggja mánaða aldur barns.

Umfjöllun um líkamlega og andlega heilsa kvenna eftir meðgöngu og fæðingu (og brjóstagjöf ef hún er til staðar) er að mestu leyti látin liggja á milli hluta í þessu frumvarpi og alls ekki lögð til grundvallar á nokkurn hátt þegar skiptingin á orlofsmánuðunum er rökstudd. Það er væntanlega með vilja og kemur reyndar ekki mjög á óvart, enda er umræða um líkama kvenna og það hlutskipti þeirra að ganga með og fæða börn gjarnan stimpluð sem gamaldags eðlishyggja sem ekki eigi upp á pallborðið árið 2020. Í rökstuðningi með 7. gr. er heldur ekki fjallað um ólíkar þarfir barna á þessum aldri, en það atriði eitt og sér ætti að kalla eftir sveigjanleika í kerfinu. Undanfarna daga hafa safnast sögur foreldra úr fæðingarorlofi inn á hóp á Facebook sem heitir Frásagnir foreldra og fagfólks af fæðingarorlofi. Þær sögur bera margar hverjar vitni um það hve líkamleg reynsla af meðgöngu og fæðingu (og brjóstagjöf) er misjöfn eftir konum. Ég kalla eftir því að frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof taki mið af þessum reynsluheimi kvenna, og að tækifærið verði nýtt nú þegar lengja á orlofið til að tryggja betur að konur geti hugað að líkamlegri og andlegri heilsu sinni eftir barnsburð.

Stuðningsmenn þessa frumvarps, og ekki síst jafnrar skiptingar orlofsins, hafa kynnt það sem mikið framfaraskref á sviði kynjajafnréttis, ekki síst m.t.t. stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þau sem ekki styðja jafna skiptingu tólf mánaða orlofs hafa því fengið á sig þann stimpil að styðja ekki jafnrétti kynjanna eða vera fórnarlömb úreltra hugmynda um kynin og foreldrahlutverkið. Það er engan veginn svo að eina femíníska afstaðan til fæðingarorlofs foreldra sé að skipta orlofsmánuðunum tólf hnífjafnt á milli foreldra, og það er engan veginn vanvirðing við feður að benda á þörf margra mæðra fyrir lengra orlof en þetta frumvarp úthlutar þeim. Í mínum augum myndi frumvarp í anda kynjajafnréttis hvetja til jafnrar orlofstöku (t.d. með hlunnindum eins og tíðkast í Svíþjóð) en viðurkenna þörf fjölskyldna til að haga þessu eftir aðstæðum hverju sinni, og styðja foreldra og börn þeirra eftir fremsti megni hver svo sem veruleiki þeirra er.

Ég tek fram að ég styð að hvoru foreldri um sig verði eyrnarmerktur réttur til fæðingarorlofs, t.d. 3-4 mánuðir. Eins gæti ég hugsað mér jafna og lítt sveigjanlega skiptingu orlofsins ef heildartími orlofs væri mun lengri, t.d. 24 mánuðir. Það er ekkert neikvætt við það að feður fái sex mánuði með barninu sínu, en ég get engan veginn stutt frumvarp sem getur ekki boðið slíkt nema takmarka tíma móður í fæðingarorlofi við sama mánaðafjölda; reynslan sýnir að mæður þurfa oft meira en það eftir að barn fæðist, og fyrir því eru gildar ástæður.

Þetta frumvarp lítur framhjá því að börn er ólík og þarfnast þess að foreldrar þeirra hafi ráðrúm og sveigjanleika til að haga orlofstöku eftir því sem hentar barninu best. Þetta frumvarp bregst fátækum foreldrum og láglaunafólki, með því að endurskoða ekki þá tilhögun að skerða laun allra um 20% á orlofstímanum, óháð því hvort fólk var á forstjóralaunum eða lágmarkslaunum fyrir fæðingu barns. Það bregst börnum sem ekki eiga foreldra sem falla inn í þann þrönga ramma sem löggjafinn telur æskilegan. Það bregst fjölskyldum með því að senda þau skilaboð að mikilvægara sé að foreldrar komist sem fyrst aftur á vinnumarkað eftir að barn fæðist í heiminn heldur en að hlúa að heilsu og velferð barns og fjölskyldunnar allrar með nærgætni, víðsýni og umburðarlyndi fyrir fjölbreytileika að leiðarljósi. Fæðingarorlof er ekki vinnumarkaðsmál – það er fyrst og fremst velferðarmál barna, og heilsu barna og foreldra þarf að raða framar á forgangslistann en því markmiði að jafna hlut kynjanna á vinnumarkaði.