Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 23.9.–7.10.2020

2

Í vinnslu

  • 8.10.2020–12.1.2021

3

Samráði lokið

  • 13.1.2021

Mál nr. S-195/2020

Birt: 23.9.2020

Fjöldi umsagna: 253

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjölskyldumál

Frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof

Niðurstöður

Niðustaða málsins í stuttu máli er sú að frumvarpið tók talsverðum breytingum eftir samráðið sem má finna í endanlegu frumvarpi. Þá var það mat ráðuneytisins að sú tilhögun á skiptingu fæðingarorlofsréttar milli foreldra sem lögð er til í frumvarpinu sé til þess fallin að koma til móts við þau ólíku sjónarmið sem fram koma í framangreindum umsögnum auk þess að vera í samræmi við markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof um að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Málsefni

Félagsmálaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að nýjum heildarlögum um fæðingar- og foreldraorlof ásamt skilabréfi samstarfshóps sem vann að heildarendurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.

Nánari upplýsingar

Í tilefni þess að árið 2020 eru tuttugu ár liðin frá gildistöku laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof skipaði félags- og barnamálaráðherra samstarfshóp í september 2019 sem hafði það hlutverk að vinna að heildarendurskoðun laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldaorlof. Formaður samstarfshópsins var skipaður án tilnefningar og var hann jafnframt fulltrúi félags- og barnamálaráðherra í hópnum en auk hans áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun. Samkvæmt skipunarbréfi var hlutverk samstarfshópsins að endurskoða lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof í heild sinni og vinna að frumvarpi þess efnis. Jafnframt var gert ráð fyrir að í frumvarpinu yrði kveðið á um lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Er það í samræmi við stefnu stjórnvalda þess efnis að efla fæðingarorlofskerfið en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er meðal annars gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur. Hópurinn hefur nú lokið störfum og unnið að gerð frumvarps þar sem meðal annars hafa verið útfærðar þær efnislegu breytingar sem hópurinn leggur til að gerðar verði á lögunum. Í tillögum hópsins eru lagðar til ýmsar breytingar á gildandi lögum, bæði á formi og efni og því leggur hópurinn til að lagt verði fram frumvarp til nýrra heildarlaga.

Í frumvarpinu eru helstu breytingarnar sem lagðar eru til á gildandi lögum eftirfarandi:

Skýrsla um stöðu Fæðingarorlofssjóðs og nýtingu réttinda innan kerfisins.Lagt er til að Vinnumálastofnun verði skylt að gefa árlega út skýrslu um stöðu Fæðingarorlofssjóðs og hvernig nýtingu réttinda foreldra innan kerfisins er háttað.

Skipting fæðingarorlofs/fæðingstyrks á milli foreldra. Lagt er til að skipting fæðingarorlofsréttar verði sem jöfnust á milli foreldra þannig að foreldrar geti nýtt sex mánuði hvort um sig en þó verði heimilt að framselja einn mánuð á milli foreldra sé þess óskað í því skyni að koma til móts við aðstæður fjölskyldna.

Heildarlengd tímabils til nýtingar á rétti foreldra til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks. Lagt er til að stytt verði það tímabil sem foreldrar hafa til þess að nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs/fæðingarstyrks. Samkvæmt gildandi lögum er þetta tímabil 24 mánuðir en lagt er til að það verði stytt í 18 mánuði. Er það meðal annars lagt til með það að markmiði að foreldrar nýti orlofið fyrstu mánuðina í lífi barns þegar það þarf á mikilli umönnun foreldra að halda. Þá er lagt er uppi með það að foreldrar nýti rétt sinn til fæðingarorlofs á því tímabili frá því að barn fæðist og þangað til því býðst dagvistun. Fram til ársins 2009 höfðu foreldrar 18 mánuði til þess að nýta rétt sinn til orlofs en árið 2009 var þessi tími lengdur í 36 mánuði. Með lagabreytingum árið 2012 var þetta tímabil stytt í 24 mánuði en í frumvarpinu er lagt til að hann verði færður aftur til fyrra horfs.

Yfirfærsla fæðingarorlofs/fæðingarstyrks milli foreldra í tengslum við barnalög og barnaverndarlög. Lagt er til að frekari heimildir til yfirfærslu réttinda til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks milli foreldra þegar annað foreldrið getur ekki af nánar tilgreindum ástæðum nýtt rétt sinn innan kerfisins. Er í fyrsta lagi um að ræða þegar ekki hefur reynst mögulegt að feðra barn samkvæmt barnalögum fyrir sýslumanni eða dómara. Þessari tillögu er meðal annars ætlað að koma til móts við aðstæður foreldra þegar sannarlega einungis eitt foreldri er til staðar. Í öðru lagi er um að ræða þau tilvik þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili samkvæmt lögum um nálgunarbann og/eða brottvísun. Lagt er til að í framangreindum tilvikum færist réttur til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks til hins foreldrisins á fyrstu 18 mánuðum barnsins. Er hér um að ræða sambærileg sjónarmið og eru í gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof hvað varðar fangelsisvist, sjúkdóma eða afleiðingar slyss.

Réttur til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks vegna andvanafæðingar eða fósturláts. Í gildandi lögum er sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig til fæðingarorlofs/fæðingastyrks þrír mánuðir vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu en ef um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sameiginlegan rétt í tvo mánuði. Lagt er til að í staðinn fyrir sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs/fæðingastyrks eftir fósturlát verði um sjálfstæðan rétt hvors foreldris um sig að ræða.

Tilkynning til atvinnurekanda um töku fæðingarorlofs. Samkvæmt gildandi lögum ber foreldrum að láta vinnuveitanda vita hafi þeir í hyggju að nýta sér rétt til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks með að lágmarki átta vikna fyrirvari fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Hins vegar er ekki er kveðið á um tímafresti og framkvæmd ef starfsmaður tilkynnir fyrst um töku fæðingarorlofs eftir að barn er fætt. Lagt er til að tilkynning til vinnuveitanda skuli einnig berast með átta vikna fyrirvara ef fyrsta tilkynning um töku fæðingarorlofs kemur eftir að barn er fætt. Í þeim tilvikum geti vinnuveitandi þó frestað töku fæðingarorlofsins um nokkrar vikur ef nauðsyn ber til en þó er gert ráð fyrir tilteknum undantekningum frá því, svo sem ef foreldri hyggst nýta sér rétt sinn í kjölfar veikinda barns.

Tölulegar upplýsingar um nýtingu foreldraorlofs. Lagt er til að afrit af tilkynningum til vinnuveitenda um nýtingu á rétti til foreldaorlofs verði skilað til Vinnumálastofnunar svo unnt verði að fá tölulegar upplýsingar um nýtingu foreldra á þeim rétti en engar slíkar upplýsingar eru til í dag.

Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir tilteknum breytingum á gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof meðal annars með það að markmiði að koma til móts við álit Umboðsmanns Alþingis, sem gert hefur ýmsar athugasemdir við lögin á undanförnum árum. Þá hafa verið lagðar til orðalagsbreytingar, ásamt breytingum á uppsetningu laganna með það að markmiði að auka á skýrleika laganna.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa vinnumarkaðar og starfsendurhæfingar

frn@frn.is