Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 24.9.–8.10.2020

2

Í vinnslu

  • 9.10.2020–13.9.2021

3

Samráði lokið

  • 14.9.2021

Mál nr. S-196/2020

Birt: 24.9.2020

Fjöldi umsagna: 11

Áform um lagasetningu

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hagskýrslugerð og grunnskrár

Áform um frumvarp til laga um stafrænt pósthólf

Niðurstöður

Alls bárust ellefu umsagnir, frá Grafíu, stéttarfélagi í prent- og miðlunargreinum, Hagsmunasamtökum heimilanna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þjóðskrá Íslands og frá fimm einstaklingum. Helst snéru athugasemdirnar að rafrænni auðkenningu og aðgengi fatlaðra og aldraðra einstaklinga að pósthólfinu. Farið yfir þær umsagnir og ábendingar sem bárust og þau atriði sem þörfnuðust skýringa hafa verið skýrð betur í greinargerð með drögum að frumvarpi til laga um stafrænt pósthólf sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda 23.11.2020 sem mál nr. 253/2020.

Málsefni

Með frumvarpi til laga um birtingu gagna í stafrænu pósthólfi er gert ráð fyrir að heimila stjórnvöldum að senda gögn til einstaklinga og lögaðila með stafrænum hætti. Sú aðferð að senda gögn á vegum hins opinbera með rafrænum hætti mun hafa sömu réttaráhrif og þegar bréf er í dag sent á lögheimili viðkomandi.

Nánari upplýsingar

Í stefnulýsingu ríkisstjórnarinnar, dags. 30. nóvember 2017, kemur m.a. fram að byggja skuli upp stafræna þjónustugátt þar sem landsmenn geti á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt þeim erindum sem beinast að stjórnvöldum og er ísland.is vísir að því. Á fundi ríkisstjórnar í maí 2018 var staðfest sú stefna að árið 2020 skuli stafræn þjónusta verða megin leið samskipta á milli hins opinbera, almennings og fyrirtækja. Þá segir enn fremur í þingsályktun nr. 22/150 frá 29. janúar 2020 að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að stórefla vinnu er varðar tæknilega innviði Stjórnarráðsins.

Með frumvarpi laga um birtingu gagna í stafrænu pósthólfi er gert ráð fyrir að heimila stjórnvöldum að senda gögn til einstaklinga og lögaðila með stafrænum hætti. Meginmarkmið fyrirhugaðs frumvarps er að lagaheimild sé til staðar svo einstaklingar sem hafa íslenska kennitölu og lögaðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá eigi sitt pósthólf. Sú aðferð að senda gögn á vegum hins opinbera með rafrænum hætti mun hafa sömu réttaráhrif og þegar bréf er í dag sent á lögheimili viðkomandi. Þegar gögn hafa verið gerð aðgengileg í pósthólfi viðtakanda teljast gögnin þar með hafa verið komið á framfæri við viðtakanda.

Með áformum að frumvarpi er verið að auka þjónustu við almenning og fyrirtæki þar sem stefnt er að því að hægt verði að nálgast öll skjöl frá stjórnvöldum á einum stað sem leiðir til einföldunar, aukins hagræðis og tímasparnaðar fyrir samfélagið í heild.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa stjórnunar og umbóta

fjr@fjr.is