Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 24.9.–6.10.2020

2

Í vinnslu

  • 7.10.2020–5.1.2021

3

Samráði lokið

  • 6.1.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-197/2020

Birt: 24.9.2020

Fjöldi umsagna: 2

Drög að reglugerð

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Drög að reglugerð um öryggi net- og upplýsingakerfa veitenda stafrænnar þjónustu

Niðurstöður

Niðurstaða málsins var í stuttu máli sú að tvær umsagnir bárust, sem tekið var tillit til eins og kostur var. Reglugerð nr. 1255/2020, um öryggi net- og upplýsingakerfa veitenda stafrænnar þjónustu, var birt í Stjórnartíðindum 16. desember 2020.

Málsefni

Til umsagnar eru drög að reglugerð um öryggi net- og upplýsingakerfa veitenda stafrænnar þjónustu, með vísan til laga nr. 78/2019 um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.

Nánari upplýsingar

Lög nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, tóku gildi 1. september sl. Þau taka m.a. mið af netöryggistilskipun Evrópusambandsins (NIS-tilskipunin). Ráðuneytið birtir nú til umsagnar drög að reglugerð, sem fela í sér nánari útfærslu á 7. og 8. gr. laganna, að því er varðar veitendur stafrænnar þjónustu sem er önnur tveggja tegunda mikilvægra innviða í skilningi laganna. Þegar hefur öðlast gildi sambærileg reglugerð, nr. 866/2020, um rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu.

Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að því að tryggja samfellda virkni og áfallaþol veitenda stafrænnar þjónustu í skilningi laga nr. 78/2019, sem starfrækja skýjavinnsluþjónustu, netmarkað eða leitarvél á netinu, með því að kveða nánar á um lágmarkskröfur til umgjarðar og rekstrar net- og upplýsingakerfa þeirra, ekki síst í þágu almannahagsmuna. Ennfremur að tryggja samhæfð viðbrögð við ógnum og atvikum. Í II.-V. kafla eru lágmarkskröfum til áhættustýringarumgjarðar og viðbúnaðar gerð skil. Þá eiga ákvæði VI. kafla að stuðla að samræmdri framkvæmd laga nr. 78/2019.

Í maí-júní sl. voru til umsagnar í Samráðsgátt drög að reglugerð sama efnis, sem ætlað var að ná til beggja tegunda mikilvægra innviða (sjá mál nr. 111/2020). Lög nr. 78/2019 gera þó að nokkru marki greinarmun á veitendum stafrænnar þjónustu annars vegar og rekstraraðilum nauðsynlegrar þjónustu hins vegar. Að loknu samráðsferli var niðurstaða ráðuneytisins að þær yrðu tvær og tók áðurnefnd reglugerð nr. 866/2020, um öryggi net- og upplýsingakerfa rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu, gildi við birtingu í Stjórnartíðindum 4. september sl.

Við undirbúning reglugerðardraganna var m.a. horft til framkvæmdareglugerðar framkvæmdastjórnar (ESB) 2018/151 um reglur vegna framkvæmdar NIS-tilskipunarinnar að því er veitendur stafrænnar þjónustu varðar sérstaklega, sbr. einkum 18. gr. reglugerðardraganna.

Í þingsályktun nr. 32/149 um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019-2033 greinir m.a. það markmið að örugg fjarskipti og upplýsingatækni verði ein meginstoð hagsældar á Íslandi, studd af öflugri öryggismenningu og traustri löggjöf. Áhættustýring netöryggis byggist á verklagi um áhættugreiningu og samhæfðu verklagi við mótun á öryggisstefnum og viðbragðsáætlunum. Komið verði á skipulagi á vernd mikilvægra innviða og þjónustu, m.a. með skilgreiningu viðeigandi lágmarksviðmiða netöryggis.

Í þingsályktun nr. 31/149 um fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019-2023 eru skilgreind verkefni til að ná markmiði um örugg fjarskipti. Setning reglugerða um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða er liður í að auka vernd þeirra með regluverki, samvinnu um skipulag netöryggis, úttektum, æfingum og prófunum. Mikilvægt er að meta árangur á þessu sviði reglulega og fylgja nauðsynlegum umbótum eftir.

Frestur til að skila umsögnum um drög að reglugerð um öryggi net- og upplýsingakerfa veitenda stafrænnar þjónustu er til og með 6. október 2020.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa stafrænna samskipta