Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum nr. 77/2019 var lagt fram á Alþingi í nóvember 2020. Frumvarpið var svo samþykkt með breytingum 11. maí 2021, sjá lög nr. 39/2021. Umfjöllun um niðurstöður samráðs um frumvarpið er að finna í greinargerð þess.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 24.09.2020–08.10.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 16.09.2021.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á umferðarlögum, nr. 77/2019, með síðari breytingum sem meðal annars er ætlað að lagfæra vankanta á gildandi umferðarlögum, koma í veg fyrir aukna stjórnsýslubyrði og kostnað borgara, einfalda ferli við veitingu tiltekinna undanþága frá reglum, einfalda ferli ríkisaðila við að innheimta gjald fyrir notkun stöðureita, skýra orðalag tiltekinna lagaákvæða og þá er frumvarpið þáttur í innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/631 frá 17. apríl 2019 um að setja staðla um koltvísýringslosun nýrra fólksbifreiða og nýrra léttra atvinnuökutækja og um niðurfellingu reglugerða (EB) nr. 443/2009 og (ESB) nr. 510/2011.
Frumvarpið skiptist í 13 greinar, auk gildistökuákvæðis. Lagðar eru til breytingar á 14 greinum gildandi umferðarlaga nr. 77/2019. Breytingarnar sem lagðar eru til eru eftirfarandi:
1. Hámarksökuhraði í vistgötu verði 15 km á klst. í stað 10 km á klst. og bann við lagningu ökutækja í vistgötu látið taka til allra skráningarskyldra ökutækja,
2. Veghaldara verði veitt sérstök heimild til að leyfa akstur íbúa um göngugötur til og frá lóð þeirra. Sama eigi við um íbúa nærliggjandi gatna ef aðgengi að bifreiðastæðum þeirra er aðeins frá göngugötu.
3. Skýrt komi fram að bann við stöðvun og lagningu ökutækis á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjólarein eða hjólastíg auk umferðareyja, grassvæða og svipaðra staða taki ekki aðeins til vélknúinna ökutækja, heldur allra skráningarskyldra ökutækja, Þ.m.t. skráningarskyldra eftirvagna.
4. Í stað þess að ráðherra setji í reglugerð ákvæði um skipun og hæfi trúnaðarlæknis Samgöngustofu, setji ráðherra í reglugerð ákvæði um störf og hæfi trúnaðarlæknis stofnunarinnar.
5. Í stað þess að sérstaklega sé tekið fram í umferðarlögum hver veiti ökunema námsheimild, verði það ákveðið með reglugerð.
6. Ráðherra verði veitt heimild til að undanskilja tiltekin ökutæki skráningarskyldu með reglugerð, að því gefnu að sérstakar ástæður mæli ekki gegn því.
7. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verði veitt heimild til að leggja gjald á framleiðendur ökutækja sem ekki uppfylla viðmið um hámarks útblástur koltvísýrings.
8. Í stað þess að leita skuli samþykkis veghaldara þegar Samgöngustofa veitir undanþágu frá reglum um stærð og þyngd ökutækja þegar brýn nauðsyn þykir vegna sérstakra flutninga, skuli umsækjandi um undanþágu afla umsagnar viðkomandi veghaldara.
9. Ráðherra geti heimilað ríkisaðila að sjá um innheimtu gjalds fyrir notkun stöðureita sem ríkisaðili hefur umsjón með.
10. Heimilt verði að beita sektum ef hjólreiðamaður brýtur gegn ákvæðum um undanþáguheimildir fyrir hjólreiðamenn.
11. Ákvæði um að heimilt sé að beita þann viðurlögum sem stjórnar hjóli eða hesti eða reynir að stjórna hjóli eða hesti sé hann undir svo miklum áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna að hann geti ekki stjórnað hjólinu eða hestinum örugglega verði skýrt.
12. Hámark sekta sem heimilt er að beita fyrir refsiverð brot gegn umferðarlögum verði ákveðið í sektarreglugerð ráðherra en ekki í umferðarlögum.
13. Skýrt komi fram að ábyrgð á greiðslu gjalds vegna brota gegn tilteknum ákvæðum um stöðvun eða lagningu ökutækis í þeim tilvikum sem ökumaður sem framdi brot er hvorki eigandi né umráðamaður ökutækisins og gjald er ekki greitt innan tiltekins frests hvíli almennt, auk eiganda, á umráðamanni ökutækis þegar við á.
er ekki rétt að hnykkja á því að merktir reiðstígar séu eingöngu fyrir ríðandi umferð, ekki hjólandi eða vélknúin ökutæki? Mætti ekki setja inn sektarákvæði gagnvart því að hjóla eða vera á vélknúnu ökutæki á merktum reiðstíg?
kveðja
Kristín Bjarnadóttir
Ég vildi gjarnan að heimild til að sekta hjólreiðamenn sem sýna gangandi og akandi vegfarendum ekki tillitssemi næði einnig til tillitsleysi gagnvart ríðandi umferð og að ákvæði í umferðarlögunum yrði þá eftirfarandi:
Heimilt verður að sekta hjólreiðamenn sem ekki sýna gangandi- akandi eða ríðandi vegfarendum tillitssemi.
Einnig varði það sektum ef menn hjóla eða reyna að hjóla eða stjórna eða reyna að stjórna hesti undir áhrifum áfengis eða vímuefna.
Þar er átt við tillitssemi gagnvart gangandi vegfarendum á gangstétt, göngustíg og göngugötum, gagnvart ökumönnum á götum þar sem þeim er heimilt að hjóla á miðri götu, einnig gagnvart ríðandi umferð á skilgreindum og merktum reiðstígum.
Mikið er orðið um að reiðhjól, fjallahjól, séu á skilgreindum og merktum reiðstígum í og við þéttbýlisstaði og á reiðvegum milli landshluta, hross eiga það til að fælast illilega reiðhjól sem að þeim koma á mikilli ferð, oft við blindar aðstæður.
Í athugasemdum við 6. gr. frumvarps um breytingu á umferðarlögum nr. 77/2019 er vísað í slysatölur sem Samgöngustofa tók saman að beiðni ráðuneytisins. Sú samantekt er ekki talin sýna rétta mynd.
Sé litið til bókana í málaskrá lögreglu, sem reyndar eru ekki mjög ítarlegar, má sjá að á árinu 2019 og það sem af er árinu 2020 hafði lögregla að minnsta kosti 18 sinnum afskipti af ökumönnum ökutækja sem drógu eftirvagna í flokki I. Í langflestum tilfellum var ljósabúnaður í ólagi eða alveg óvirkur. Í slysi sem varð sumarið/haustið 2020 losnaði óskráður eftirvagn aftan úr þegar beyslið gaf sig. Eftirvagninn rann yfir á öfugan vegarhelming og þar út af veginum og gjöreyðilagðist. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef eftirvagninn hefði t.d. lent framan á bifreið, hvað þá bifhjóli. Það er brýnt öryggisatriði að eftirvagnar séu skráningar- og skoðunarskyldir til að reglubundið eftirlit með m.a. með hjóla-, tengi- og ljósabúnaði, rétt eins og núna er með t.d. ferðavagna.
Það er ljóst að að málin eru margfalt fleiri en sjá má í málaskrá lögreglu. Þegar afskipti eru höfð af ökumönnum sem draga eftirvagna í flokki I er alls óvíst að eftirvagnarnir séu skráðir í málið þar sem þeir bera ekki skráningarmerki, þrátt fyrir að vera skráningarskyldir frá síðustu áramótum.
Það var mjög góð nýbreytni sem sett var inn í umferðarlög nr. 77/2019, að allir eftirvagnar skyldu vera skráningarskyldir. Það á að vinna áfram að skráningar- og skoðunarskyldu, rétt eins og gert var með ferðavagna fyrir allnokkrum árum. Það er skref aftur á bak að breyta þessum ákvæðum.
Að lokum má velta því upp af ef ákveðið er að falla frá skráningarskyldu eftirvagna í flokki I þá hlýtur að vera rökrétt að falla frá skráningarskyldu tjaldvagna sem flestir ef ekki allir eru undir 750 kg að heildarþyngd. Sama regla hlýtur að eiga að gilda um öll tengitæki með sömu eiginleika, að þessu leyti hvað heildar-þyngd varðar.
Vinsm. finnið athugasemdir í viðhengi.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Bílgreinasambandsins um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum nr. 77/2019.
Fyrir hönd Bílgreinasambandsins.
María Jóna Magnúsdóttir
ViðhengiMeðfylgjandi er sameiginleg umsögn Samtaka atvinnulífsins og SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um drög að frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum.
ViðhengiHér er tækifæri til að skerpa á lögum um létt bifhjól í flokki 2. Þar falla t.d. hjólin sem Pósturinn notar til að bera út bréfpóst á höfuðborgarsvæðinu. Einni falla þarna undir öflugri rafhjól með sveifarmótor og rafskellinöðrur- og vespur.
Þessi tæki mega fara í 45 km/klst hraða, en eru að sama skapi bönnuð á hjóla- og göngustígum. Þetta gerir það að verkum að sá sem fer t.d. frá Árbæ í Skeifuna þarf að vera innan um umferð bíla og stærri flutningabíla. Þarna er stórhætta á ferð þar sem ökumaður á léttu bifhjóli getur ekki fylgt þessari umferð. Þarna er öruggasta úrræðið að ökumaður fari frekar um hjólastíga og stilli hraða sínum í hóf, rétt eins og bifreið í 30km götu mundi gera.
Tillagan mín er einföld: Gerum undanþágur á banni við notkun léttra bifhjóla í flokki 2 á hjólastígum þar sem hjólastígar liggja meðfram umferð þar sem skiltahraði er 60km eða hærri. Annað úrræði væri að fela sveitarfélögum umboð til að stýra aðgangi og tilhögun á stíganeti sínu.
Tillögur lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu varðandi frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum.
ViðhengiSkerpa á lögum um létt bifhjól í flokki 2.
Þessi tæki mega fara í 45 km/klst hraða, en eru að sama skapi bönnuð á hjóla- og göngustígum. Þetta gerir það að verkum að þessi hjól eru ónothæf, ekki þorir maður út á Miklubraut/Kringlumýrarbraut á þeim. Þarna er öruggasta úrræðið að ökumaður fari frekar um hjólastíga og stilli hraða sínum í hóf, rétt eins og bifreið í 30km götu mundi gera.
Gerum undanþágur á banni við notkun léttra bifhjóla í flokki 2 á hjólastígum þar sem hjólastígar liggja meðfram umferð þar sem skiltahraði er 60km eða hærri.
Fella eftirfarandi úr 43. grein enda mjög óljóst og alls ekki til bóta samkvæmt minni reynslu. Betra að hjóla varlega framhjá fólki en að dingla bjöllu: "Hann skal gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir."
Fella eftirfarandi úr 79. grein:
"Barn yngra en 16 ára skal nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar." Það er ekki gott og "meikar ekki sens" að börn og fullstálpaðir unglingar séu ólöglegir á reiðhjólum án hjálma. Unglingar vilja helst ekki hjóla með hjálm og að banna þeim að hjóla án hjálms er ekki gott til að auka hjólreiðar. Það á alltaf að hvetja til hjólreiða frekar en að nota bíl. Börn nota yfirleitt alltaf hjálm, foreldar vilja það, og óþarfi að hafa þetta í lögum. Enda eru engin viðurlög að mér vitandi við að hjóla hjálmlaus og því tilgangslaus lög.
Góðan dag.
Meðfylgjandi er umsögn Skattsins.
ViðhengiUmsögn frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar
ViðhengiÁgæti viðtakandi,
Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum.
Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.
Með góðum kveðjum
F.h. SAF
Gunnar Valur Sveinsson
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
f.h. sambandsins
Valgerður Rún Benediktsdóttir
ViðhengiTek undir með Jökli Sólberg hér að ofan. Það eykur hvorki öryggi hjólandi né akandi að banna rafhjól í flokki 2 að vera á göngu- og hjólastígum. Eins og staðan er núna eiga þessi rafhjól sem komast ekki hraðar en 45 km/klst. að vera á Miklubrautinni og Kringlumýrarbrautinni en ekki stígunum þar við hliðina. Það er í einu orði sagt stórhættulegt fyrir alla vegfarendur. Þessu þarf að breyta.
Sigurður Haukur
Góðan dag.
Meðfylgjandi er umsögn SFF.
Virðingarfyllst,
Margrét Arnheiður Jónsdóttir
ViðhengiUmsögn frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda um drög að frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum nr. 77/2019. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 14 greinum umferðarlaga sem tóku gildi um síðustu áramót. Stjórn FÍB styður eða gerir ekki athugasemdir við flest ákvæðin í frumvarpinu. FÍB gerir alvarlegar athugasemdir við þriðju tilraun samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á þessu ári að fella út skráningar- og skoðunarskyldu léttra eftirvagna. FÍB telur niðurfellinguna ganga þvert á markmið umferðarlaga um að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi.
ViðhengiLegg til að bætt verði við 3.gr. heimild ökutækja í ferðaþjónustu fatlaðra til að stöðva ökutæki, þrátt fyrir bann við því í stæðum þau sem eru sérmerkt fötluðum og þar sem bannað er að stöðva eða leggja, til að hleypa farþegum og aðstoða þá án þess að sektað verði fyrir brot. Ljóst er að fjöldi fyrirtækja m.a. leigubílar eru að þjónusta fatlaða einstaklinga, með allskonar fötlun og þurfa að stöðva við aðstæður þar sem ófatlaðir einstaklingar þurfa ekki. Í dag er engin undanþága fyrir þessi ökutæki einungis fyrir þá einstaklinga sem eru á eigin bíl með sérmerki sem gefin eru út á þá.
Meðfylgjandi er umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum mál nr. 198/2020.
Viðhengi