Samráð fyrirhugað 28.09.2020—09.10.2020
Til umsagnar 28.09.2020—09.10.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 09.10.2020
Niðurstöður birtar 19.11.2020

Drög að frumvarpi til laga um Tækniþróunarsjóð

Mál nr. 201/2020 Birt: 28.09.2020 Síðast uppfært: 19.11.2020
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 28.09.2020–09.10.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 19.11.2020.

Málsefni

Með frumvarpi þessu eru ákvæði um Tækniþróunarsjóð flutt í sérlög þar sem til stendur að fella brott lög nr. 75/2007 þar sem kveðið er á um Tækniþróunarsjóð í II. kafla.

Aðaltilgangur frumvarpsins er sá að flytja ákvæði um sjóðinn í sérlög svo tryggður sé lagagrundvöllur undir starfsemi hans.

Þá felst í frumvarpinu einnig að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og félags- og barnamálaráðherra munu setja á fót samkeppnissjóð um byggingar- og mannvirkjarannsóknir. Sjóðurinn verður fjármagnaður sameiginlega af ráðuneytunum og áherslur sjóðsins munu einkum snúa að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Með stofnun slíks sjóðs er leitast við að opna opinbert styrkjaumhverfi fyrir fleiri aðila úr háskólasamfélagi og atvinnulífi og stuðla að auknu samstarfi við erlenda rannsóknaaðila. Þá verður sérstakt fagráð byggingarrannsókna sett á fót tímabundið sem verður ráðgefandi um fagleg málefni við úthlutanir til byggingarannsókna. Fagráðið skal skipað til tveggja ára, þ.e. til áranna 2021-2023. Gert er ráð fyrir að á þeim tíma muni framtíðarsýn sjóðsins skýrast frekar og framtíðarfyrirkomulag hans verði útfært en lagt er upp með að ábyrgð á rannsóknum og prófunum í byggingariðnaði flytjist til félagsmálaráðuneytis enda heyrir málefnasvið mannvirkja þar undir.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landsvirkjun - 06.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn Landsvirkjunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Valdimar Össurarson - 08.10.2020

Tækniþróunarsjóður gegnir lykilhlutverki í stuðningsumhverfi nýsköpunar hérlendis, og er raun sú grein ríkissjóðs sem styðja skal tækniþróun í landinu. Lagagrunnur hans er því forsenda þess að við getum nýtt okkar auðlindir og mannafla; staðið jafnfætis öðrum þróuðum þjóðum í lífskjörum; byggt grunn undir framleiðsluiðnað sem atvinnugrein og nýtt íslenskt hugvit til að ná markaðsforskoti á heimsvísu í einstökum greinum.

Fé til tækniþróunar hérlendis hefur hingað til verið langtum minna en hjá öðrum þróuðum ríkjum. Íslensk stjórnvöld hafa á síðustu árum bætt örlítið úr og veitt auknu fé í þennan mikilvæga málaflokk, en stendur þó illa í alþjóðlegum samanburði. Nánast allt þetta fé til tækniþróunar hefur runnið í Tækniþróunarsjóð. Slíkt einstreymi er þó varasamt, og væri á ýmsan hátt rökréttara að deila því í meira mæli á einstakar greinar tækniþróunar; jafnt til að hindra óeðlilega valdþjöppun; sporna gegn fordómum og mæta ólíkum þörfum. Tala ég þar af langri reynslu af samskiptum við samkeppnissjóði og annað „stuðningskerfi nýsköpunar“.

Hér eru sett sérlög um Tækniþróunarsjóð (TÞS) en hann hefur til þessa verið hluti af heildarlögum nr 75/2007 um opinberan stuðning við tækniþróun, nýsköpun og atvinnuþróun. Slík sérgreining er í sjálfu sér ekki óeðlileg, og er jafnvel til þess fallin að auðvelda stjórnun og einfalda síðari breytingar. Eftir sem áður er það á ábyrgð Alþingis að sjá til þess að samræmis sé gætt í allri lagasetningu er nýsköpun varðar.

Aðrar breytingar sem verða með niðurfellingu laga 75/2007 munu hafa mun verri áhrif og alvarlegri, en það er niðurlagning opinberrar ráðgjafastofnunar í þágu nýsköpunar; þ.e. þess hlutverks sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur verið ætlað að sinna, og undirbúa það undir einkavæðingu. Ekki er að sjá að neinar haldbærar lausnir séu boðaðar í þess stað. Mun ég á öðrum stað gera athugasemdir í þeim efnum.

Ég geri athugasemdir við eftirfarandi greinar þessa frumvarps um Tækniþróunarsjóðs:

1. Í 1. grein er fjallað um hlutverk sjóðsins. Þó ýmislegt mætti þar finna að orðalagi er einkanlega eitt atriði sem er algerlega óviðunandi og samræmist alls ekki vandaðri stjórnsýslu. Í staflið b segir að það verði m.a. hlutverk Tækniþróunarsjóðs að „styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og eiga aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar“. Þetta tvennt fer alls ekki saman. TÞS er samkeppnissjóður og hlýtur sem slíkur að þurfa að vera óháður og hlutlaus matsaðili umsókna í sjóðinn. Ef TÞS á sjálfur aðild að verkefni sem sækir um stuðning í samkeppni við verkefni annarra, er TÞS ekki lengur óvilhallur matsaðili heldur beinn hagsmunaaðili. Má ætla að það ógildi allar matsniðurstöður umsókna. Sama gildir þó verkefni með eignaraðild TÞS sæki ekki um stuðning í samkeppni við aðra; einungis sú staðreynd að TÞS á í samkeppni við aðra umsækjendur um framgang verkefna ógildir allar matsniðurstöður TÞS.

Vanhæfi af þessu tagi hefur komið upp varðandi Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem hafði sömu heimildir, og af því hef ég bitra reynslu. Mitt verkefni; Valorka ehf, gerði samstarfssamning við NMí um sérfræðiráðgjöf. Varla var blekið þornað á þeim samningi þegar NMÍ fór í samkeppni við Valorku með umsóknum í samkeppnissjóði, þar sem NMÍ vann auðveldan sigur með sínum ríkisstyrktu mótframlögum og annarri ríkisstyrktri aðstöðu. Samkeppniseftirlitið reyndist vanmáttugt að taka þeim málum, en benti á að fara með málið fyrir Evrópudómstól. Ég gerði það ekki þá, en mun ekki hika við að fara þá leið ef íslensk stjórnvöld ætla enn á ný að bjóða upp á spillingu af þessu tagi, sem bitnar á hugvitsfólki og frumkvöðlum. Vænti ég þess þó að Alþingi samþykki ekki ólög af þessu tagi. Eignaraðild að fyrirtækjum á ekki að vera hlutverk TÞS.

2. Í 1.gr d-lið er að finna örlitla vísbendingu um að TÞS muni ætlað að styrkja verkefni hugvitsmanna og frumkvöðla, þrátt fyrir að allt yfirbragð laganna virðist sniðið að þörfum stofnana, háskóla og stórfyrirækja. Í ljósi reynslunnar er full þörf á því að um þetta hlutverk; stuðning við frumkvöðlaverkefni á byrjunarstigi, verði mótaður sérstakur sjóður með sérstaka fjárveitingu og sérstaka stjórnun sem mótuð er í samráði við hugvitsfólk; hvort sem það apparat starfar innan TÞS eða ekki. Það hefur gefist mjög illa fyrir lítil verkefni hugvitsmanna og frumkvöðla að þurfa að keppa við stór verkefni sem drifin eru áfram af stórum stofnunum; háskólum og fyrirtækjum í rekstri. Með því móti hafa fjöldamörg verkefni verið kæfð í fæðingu, sem ella hefðu getað orðið atvinnu- og verðmætaskapandi fyrir íslenskt þjóðfélag. Hér þarf virkan aðskilnað sjóða, og best er að hann sé tryggður í lögum.

3. Í 3.gr er fjallað um stjórn TÞS. Þar er greinilega ætlunin að viðhalda þeirri einokun útvaldra stórra hagsmunaaðila sem verið hefur og halda frumkvöðlum og hugvitsfólki frá allri umfjöllun og ákvarðanatöku um helstu hagsmunamál sín. Hugvitsfólk og frumkvöðlar hafa með sér tvenn landssamtök sem starfa á lýðræðislegum grunni; Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN. Þessi félög hafa lengi unnið að hagsmunamálum hugvitsfólks, sem m.a. TÞS á að þjóna. Félögin hafa ítrekað bent stjórnvöldum á ýmsa vankanta í lagasetningu og framkvæmd í stjórnkerfi nýsköpunar sem hindra framgang nýsköpunarverkefna. Lítið sem ekkert hefur verið hlustað á þessar ábendingar félaganna, sem þó eiga uppruna hjá þolendum og hugvitsfólki. Félögunum hefur markvisst verið haldið frá allri aðild að stjórnum, nefndum og ráðum sem stjórnvöld skipa í til að stýra málefnum stuðningsumhverfisins. Einkum hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra gengið hart fram gegn hugvitsfólki og frumkvöðlum í þessu efni og markvisst gengið fram með fordómum. Má þar margt til nefna; t.d. skipun í stýrihóp til mótunar nýlegrar nýsköpunarstefnu. Jafnframt hefur ráðherra lagst gegn öllum fjárveitingum af opinberu fé til þessara félaga, og þannig reynt að eyðileggja starfsemi þeirra.

Hér leggur ráðherra enn einu sinni til að félög hugvitsfólk verði útilokuð frá stjórnun stofnunar sem gegnir veigamiklu hlutverki í stuðningsumhverfi nýsköpunar. Hugvitsfólki er ekki ætlaður einn einasti fulltrúi í sex manna stjórn TÞS. Hinsvegar er Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins ætlaður sinn fulltrúinn hvor. Slík ráðstöfun er algerlega fráleit. Bæði þessi félög eru fyrst og fremst hagsmunasamtök fyrirtækja í fullum rekstri. Þau hafa því ekki augljósa hagsmuni af því að hérlendis sé stutt við verkefni sem eiga uppruna hjá einstaklingum; utan fyrirtækja. Hinsvegar hafa þau augljósa hagsmuni af því að stutt sé við verkefni sem eiga uppruna í fyrirtækjum innan þeirra raða, eða geta aukið hagnað þeirra aðildarfélaga. Þessir hagsmunaaðilar; SA og SI hafa haft einokunaraðstöðu varðandi alla stjórnun nýsköpunarumhverfisins í allmarga áratugi. Afleiðingin blasir hvarvetna við: Verkefnum hugvitsfólks er markvisst haldið niðri; þau eiga þess engan kost að þroskast og koma þjóðinni að því gagni sem orðið gæti með óspilltri stjórnun.

Spilling af þessu tagi; þar sem hagsmunaaðilum er sköpuð ævarandi staða til eiginhagsmunagæslu í opinberum sjóðum, hefur of lengi haldið nýsköpun niðri. Ég vænti þess að Alþingi hafi dug til að breyta þessum fyrirætlunum ráðherra og skapi SFH og KVENN réttmætan sess í stjórnun málefna á sínu sviði; þjóðinni til heilla.

4. 4.gr fjallar um fagráð, en ætlast er til að Vísinda- og tækniráð skipi í þau. Um þetta hef ég sömu athugasemdir og um stjórn. Lýðræðislegum félögum hugvitsfólks og frumkvöðla hefur markvisst verið haldið utan VT-ráðs og meinað um fulltrúa þar. Þeir sem þar sitja hafa stundað grimma hagsmunagæslu í þágu sinna umbjóðenda og því hefur félögunum aldrei verið skipaður fulltrúi í fagráðum; hvorki hjá TÞS né nokrum öðrum þeim sjóði sem ber að styrkja nýsköpun. Getur þetta ekki talist annað en grímulaus spilling í umgengni um opinbert fé.

5. 5.gr. fjallar um úthlutunarstefnu TÞS. Hún „skal fylgja áherslum Vísinda- og tækniráðs“. Þar sem hugvitsfólki er meinað um aðild að VT-ráði; fagráðum og stjórn TÞS, er augljóst að úthlutunarreglur TÞS munu ekki taka mið af þörfum almennra frumkvöðla og verkefna þeirra. Þetta hefur enda verið reyndin. Ekki nóg með það, heldur hefur TÞS beinlínis lagt einstök verkefni stjórnarfólks SFH og KVENN í einelti og synjað þeim um styrki án röksemda. Umboðsmaður Alþingis hefur hingað til reynst eina haldreipi hugvitsfólks gegn þessari spillingu, og hefur ítrekað gert samkeppnissjóði afturreka með slíka starfshætti. Engin merki sjást þó um að Alþingi vilji færa starfshættina til betri vegar.

Hér er ekki að sjá neinar tilraunir til að bæta úr þessum ágöllum Tækniþróunarsjóðs, sem þó dregur til sín megnið af því almannafé sem ráðstafað er í nafni nýsköpunar.

6. Neðanmáls í frumvarpinu, og laust við allt samhengi þess, er ákvæði til bráðabirgða. Þar er ráðherra gert skylt að skipa „fagráð byggingarannsókna“ sem starfi 2021-2023 og sé „stjórn Tækniþróunarsjóðs til ráðgjafar um fagleg málefni við úthlutun hagnýtra byggingarannsókna“. Þetta ákvæði er gjörsamlega úr öllu samhengi við frumvarpið og líkist helst einhverri innsláttarvillu við samningu þess. Ekkert annað í frumvarpstextanum eða heiti hans gefur til kynna þennan laumufarþega eða skýrir þörfina á því að gera einum þætti nýsköpunar hærra undir höfði en öðrum. Hér er strax vegið að því hlutleysi sem TÞS þarf að geta risið undir. Verði þessi laumufarðþegi að lögum með öðru misgáfulegu í þessu frumvarpi þarf a.m.k. að breyta yfirskrift laganna. Fella þarf þetta úr frumvarpsdrögunum og; ef ástæða er til; setja sérstök lög um þessar byggingarannsóknir.

7. Margt mætti segja um greinargerðina sem frumvarpinu fylgir, en öll er hún rituð til að fegra frumvarpssmíðina. Ástæða er til að gera athugasemdir við tölulið 6; þar sem segir að ekki hafi þótt ástæða til að skoða samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Fráleitt er að halda því fram að lög þurfi ekki að skoða með tilliti til þessara þátta. Eins og ég hef bent á hér að framan er ærin ástæða til að ætla að ákvæði frumvarpsins brjóti í bága við stjórnarskrá, að því er lýtur að jafnræði. Þá er einnig ástæða til að ætla að skipan í stjórnir brjóti í bága við alþjóðasamninga um spillingu, og vísa ég aftur til minna ábendinga.

8. Það er fullkomlega rangt sem haldið er fram í greinargerðinni, varðandi 3.gr frumvarpsins, að uppbygging stjórnar sé þannig að hún hafi sterk tengsl við nánasta faglega umhverfi sitt. Þau tengsl eru ekki fyrir hendi meðan einu hagsmunasamtökum hugvitsfólks er haldið utan stjórnar og fagráða.

Ég vænti þess að Alþingi taki tillit til framangreindra athugasemda og samþykki frumvarpið ekki án nauðsynlegra lagfæringa.

Valdimar Össurarson

Formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna og framkvæmdastjóri Valorku ehf.

Afrita slóð á umsögn

#3 SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu - 09.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um drög að frumvarpi til laga um Tækniþróunarsjóð.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Samtök ferðaþjónustunnar - 09.10.2020

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að frumvarpi til laga um Tækniþróunarsjóð.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Með góðum kveðjum

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Arkitektafélag Íslands - 09.10.2020

Arkitektafélag Íslands, gerir athugasemdir við drög að frumvarpi til laga um tækniþróunarsjóð, mál nr. 201/2020.

Hér koma athugasemdir um greinagerð við frumvarpið.

Í greinagerð um frumvarpið eru kynnt áform um að setja á fót sérstakan samkeppnissjóð um byggingar-og mannvirkjarannsóknir. Það er fagnaðarefni að styrkja eigi þetta mikilvæga efni en gríðarlegir fjármunir liggja í mannvirkjum hér á landi, hjá hinu opinbera, fyrirtækjum sem og almenningi í landinu. En það er ekki nóg að stunda rannsóknir. Niðurstöður rannsóknanna þurfa að vera aðgengilegar og þeim þarf að miðla. Við lýsum áhyggjum okkar yfir því að ekki virðist vera búinn til neinn miðlægur staður til að tryggja að rannsóknir séu samfelldar, aðgengilegar og til að styðja undir það mikilvæga markmið að búa til betri byggingar og betra byggt umhverfi fyrir okkur öll.

Við viljum einnig lýsa vonbrigðum okkar yfir því að ekki hafi verið leitað til breiðari hóps fagaðila í samráðinu fyrir frumvarpið. Fjallað er um rannsóknir í byggingariðnaði nær eingöngu út frá tæknilegum rannsóknum og framförum í efnisnotkun og byggingartækni en hér er þörf á að horft sé til nýsköpunar og rannsókna í skipulagi borga, innviða, samfélagslegra rýma auk heimilis og atvinnuumhverfi. Það hefði verið mikill kostur ef leitað hefði verið til breiðari hóps sérfræðinga til að ná utan um það og þá með skýrari og betri nálgunum okkur öllum til góðs.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Halla Helgadóttir - 09.10.2020

Umsögn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Samtök iðnaðarins - 09.10.2020

Góðan dag,

meðfylgjandi er sameiginlega umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins um drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðnings við nýsköpun og drög að frumvarpi til laga um Tækniþróunarsjóð, mál nr. 201 og 202/2020.

Virðingarfyllst,

Björg Ásta Þórðardóttir,

yfirlögfræðingur Samtaka iðnaðarins

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins - 13.10.2020

Viðhengi