Samráð fyrirhugað 29.09.2020—13.10.2020
Til umsagnar 29.09.2020—13.10.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 13.10.2020
Niðurstöður birtar 27.11.2020

Áform um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (Skattalegir hvatar vegna starfsemi til almannaheilla - þriðji geirinn)

Mál nr. 203/2020 Birt: 29.09.2020 Síðast uppfært: 27.11.2020
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Sex umsagnir bárust og voru þær almennt mjög jákvæðar. Tekið var tillit til framkominna athugasemda að nokkru leyti við gerð draga að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (Skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla), sbr. mál nr. 239/2020 á samráðsgátt stjórnvalda, sjá nánar hér: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2828

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 29.09.2020–13.10.2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 27.11.2020.

Málsefni

Áform um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld með það að markmiði að efla og styrkja starfsemi þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann.

Þeir lögaðilar sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Mikil vinna og óeigingjarnt starf, sem oft á tíðum er unnið í sjálfboðavinnu, fer fram hjá hinum ýmsu félögum og stofnunum í landinu, til hagsbóta fyrir hagsmuni og réttindi tiltekinna hópa eða samfélagið í heild sinni. Vegna þessa hafa ýmsir skattalegir hvatar í gegnum tíðina verið lögfestir til handa þeim aðilum sem starfa til almannaheilla, s.s. mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, björgunarsveitir o.fl.

Í skýrslu starfshóps sem skilaði tillögum sínum til fjármála- og efnahagsráðherra þann 29. janúar sl. kemur meðal annars fram að alþjóðlegur samanburður hafi leitt það í ljós að víðast hvar í nágrannaríkjum okkar séu skattalegir hvatar vegna starfsemi til almannaheilla víðtækari en hér á landi. Þetta eigi bæði við um skattalega hvata fyrir gefendur vegna fjárframlaga eða annarra framlaga til slíkrar starfsemi og þiggjendur þeirra framlaga sem um ræðir og starfa til almannaheilla. Tækifæri séu því til þess að víkka út skattalega hvata fyrir þau félög sem teljast til almannaheilla. Þá taldi starfshópurinn einnig rétt að samhliða því að útvíkka núverandi skattalega hvata væri rétt að leggja til lögfestingu á nýjum skattalegum hvötum til að stuðla enn frekar að eflingu þeirrar mikilvægu starfsemi þeirra lögaðila í þriðja geiranum, (s.s. félaga og félagasamtaka), sem starfa til almannaheilla.

Vegna þessa er nú talið nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld með það að markmiði að auka skattalega hvata fyrir starfsemi til almannaheilla og framlaga til slíkrar starfsemi.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Slysavarnafélagið Landsbjörg - 12.10.2020

Hjálagt fylgir umsögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 13.10.2020

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um áform um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (Skattalegir hvatar vegna starfsemi til almannaheilla – þriðji geirinn).

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa haft ofangreint mál til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við ráðuneytið:

Samtökin lýsa yfir ánægju sinni með fyrirhugaðar breytingar á lögum í þeim tilgangi að skapa skattalegan hvata fyrir lögaðila og einstaklinga til að styrkja og efla starfsemi almannaheillafélaga. Barnaheill fagna þeirri viðurkenningu sem birtist í umfjöllun ráðuneytisins um málið, að starfsemi almannaheillafélaga sé samfélagslega mikilvæg og þakka fyrir hana.

Barnaheill styðja þær hugmyndir sem fram eru komnar um breytingar á lögum og um þær leiðir sem lagðar eru til. Samtökin hvetja þó ráðuneytið til að stíga skrefinu lengra í því að veita almannaheillafélögum undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts, með því að undanskilja alfarið, ekki einungis tímabundið, hvers kyns sölu á varningi eða þjónustu almannaheillafélaga frá greiðslu virðisaukaskatts þar sem gera má ráð fyrir að sala sem fram fer á vegum almannaheillafélaga sé gerð í fjáröflunartilgangi en ekki í hagnaðarskyni.

Barnaheill hvetja til þess að málið fái vandaða meðferð og leggja sitt af mörkum til að styðja við að það fái framgang.

Barnaheill vinna að bættum réttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Hagsmunasamtök heimilanna - 13.10.2020

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Ungmennafélag Íslands - 13.10.2020

Meðfylgjandi er umsögn UMFÍ.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Jónas Guðmundsson - 13.10.2020

Reykjavík 12. október 2020

Skattamál almannaheillasamtaka: Umsögn Almannaheilla um boðað frumvarp

Umsögn um: Áform um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (Skattalegir hvatar vegna starfsemi til almannaheilla – þriðji geirinn). Mál nr. 24 á þingmálaskrá fjármála- og efnahagsráðherra.

Það er Almannaheill að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni að hér eru boðuð áform um að létta sköttum og gjöldum af íslenskum almannaheillasamtökum. Almannaheill hafa margoft á undanförnum árum ítrekað það álit sitt að brýnt sé að styrkja skattalega stöðu almannaheillasamtaka í landinu. Þau hafa löngum búið við mun erfiðara skattaumhverfi en almannaheillasamtök í samanburðarlöndunum. Afleiðingin er sú að íslensk samtök eru fjárhagslega veikari og ver undirbúin til að takast á við óleyst samfélagsleg málefni og samfélagsleg áföll en efni standa til.

Þetta kemur t.d. berlega í ljós nú þegar veirufaraldur herjar á landsmenn. Almannaheillasamtök, sem vinna gegn ýmsum afleiðingum faraldursins, s.s. fátækt, kvíða, sjálfsvígshættu, hungri, vanheilsu, atvinnuleysi, sorg og ótta standa mörg fjárhagslega höllum fæti til að sinna hlutverki sínu af krafti og hafa sjálf orðið fyrir áföllum í faraldrinum. Íslensk stjórnvöld hafa ekki séð sér fært að veita almannaheillasamtökum umtalsverðarn stuðning við þessar aðstæður—þau hafa veitt nokkra styrki vegna nýrra verkefna og þjónustu sem samtökin takast á hendur vegna hins bága ástands. Þessi veika staða félaganna getur orðið samfélaginu dýrkeypt. Þó skattabreytingar bæti ekki skaðann í bráð gera þær almannaheilla¬samtök betur búin undir næstu áföll og undir áframhaldandi glímu við þann veruleika sem við blasir. Hið sama myndi sterkari lagaleg staða almannaheillasamtaka gera, en samtökin hafa beðið eftir samþykkt frumvarps til laga á Alþingi um félög til almannaheilla um nokkurra ára skeið. Örugg skattaleg og lagaleg umgjörð er mikilvæg undirstaða fyrir það samfélagslega starf sem almannaheillasamtökin vinna.

Þær tillögur um skattabreytingar sem boðaðar eru í þessum “áformum um frumvarp till laga” eru byggðar á skýrslu ráðherraskipaðrar nefndar sem skilaði áliti fyrr á þessu ári. Tillögurnar marka viss tímamót og munu, ef þær verða að lögum, bæta verulega skattalega stöðu samtaka sem vinna að almannaheill. Mestum tíðindum sæta heimildir til handa einstaklingum til að lækka skattgreiðslur sínar með því að beina styrkjum til viðurkenndra almannaheillafélaga. Slík skattaleg hvatning til fólks um að styrkja félög til góðra verka er í sumum öðrum löndum talin verðmætust allra skattaívilnana sem þarlend félög búa við, eins og bent var á í áliti Almannaheilla í samráðsgátt fyrir um ári síðan (umsögn send 30. ágúst 2019).

Í frummati sem hér liggur ennfremur fyrir á áhrifum breytinganna kemur fram að breytingarnar muni létta um 2ja milljarða álögum af almannaheillasamtökum á ári hverju. Nokkuð skortir á að þessi upphæð sé sett í samhengi: hvað vegur þessi lækkun mikið í heildarskattgreiðslum almannaheillasamtaka í landinu? Og ekki síður: hvaða samtökum kemur lækkunin helst til góða? Nauðsynlegt er að fá fram nánari greiningu á hvernig þessar nýju ívilnanair koma fram hjá einstökum flokkum eða tegundum

almannaheillasamtaka; þetta er nauðsynlegt að fá fram vegna þess að almannaheillasamtök búa við mjög ólíkar aðstæður og hafa ólíka stöðu. Greinargerð af þessu tagi þyrfti að fylgja með boðuðu frumvarpi til laga.

Þó ljóst sé að lögin sem hér eru boðuð muni breyta miklu um rekstur íslenskra almanna¬heillasamtaka, þá munu þau ekki tæma óskalista Almannaheilla og skyldra aðila varðandi þróun skattalegs umhverfis almannaheillastarfs; boðuð lög munu heldur ekki brúa að fullu það bil sem er á milli íslenskra almannaheillasamtaka og sambærilegra samtaka í samanburðarlöndunum í skattalegum efnum.

Sérstaklega þarf í framhaldinu að skoða greiðslur almannaheillasamtaka á innskatti virðisaukaskatts, sem vega nú þyngra en aðrar skattgreiðslur í útgjöldum íslenskra almannaheillasamtaka samkvæmt könnun sem Almannaheill hafa gert—mörg sambærileg samtök í nágrannalöndunum eru undanþegin þessum skatti.

Almannaheill lýsa sig reiðubúin til frekara samráðs við stjórnvöld um útfærslu breytinga á skattaumhverfi íslenskra almannaheillasamtaka.

f.h. Almannaheilla, samtaka þriðja geirans

¬¬¬¬¬¬¬¬¬¬¬¬__________________________________________

Jónas Guðmundsson formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Heimili og skóli-landssamtök foreldra - 13.10.2020

Heimili og skóli - landssamtök foreldra fagna viðleitni til að bæta skattaumhverfi aðila sem starfa að almannaheillum og styrkja þar með starfsemi lögaðila sem falla undir þriðja geirann. Almannaheillasamtök á Íslandi hafa lengi búið við mun erfiðara skattaumhverfi en almennt gerist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og því ánægjulegt að nú standi til að breyta því. Mikilvægt er að einstaklingum standi til boða að lækka skattgreiðslur sínar með því að styrkja félög sem starfa að almannaheillum og felst í því mikilvæg hvatning og viðurkenning á störfum aðila þriðja geirans.

Áhugavert væri þó að sjá nánari útlistun á því hvernig þessar aðgerðir munu koma til með að gagnast mismunandi félagasamtökum eða flokkum almannaheillasamtaka en aðstæður þeirra eru mjög mismunandi, til að mynda hvað varðar sjóði og eignir. Mögulega myndu aðgerðir tengdar innskatti virðisaukaskatts eða aðgerðir sem fælu í sér að félög sem eru á almannaheillaskrá væru undanþegin greiðslu á tryggingagjaldi gera meira fyrir mörg félög sem ekki búa yfir digrum sjóðum eða eignum. Því er mikilvægt að fá ítarlegri greiningu á hvernig þær breytingar og ívilnanir sem fram koma í frumvarpinu munu hafa áhrif hjá mismunandi flokkum almannaheillasamtaka.

Sem fyrr segir fagna Heimili og skóli - landssamtök foreldra framtakinu en óska jafnframt eftir frekari skoðun og ítarlegri greiningu á áhrifum aðgerða fyrir mismunandi samtök í þriðja geiranum með möguleika á viðbótum.