Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 9. mars 2021 og var samþykkt sem lög frá Alþingi 13. júní 2021. Lögin tóku gildi 1. júlí 2021.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 02.10.2020–14.10.2020.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.11.2021.
Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga sem fela í sér aukið sjálfstæði þjóðkirkjunnar og einföldun alls lagaumhverfis um hana,
Tilefni frumvarps þessa er viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, sem undirritaður var 6. september 2019, um endurskoðun á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi. Með samningnum er m.a. stefnt að auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum. Í samræmi við samninginn hefur Alþingi samþykkt breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, og fleiri lögum sem tengjast launamálum presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar, sbr. lög nr. 153/2019. Jafnframt voru samþykkt lög um niðurlagningu nokkurra sjóða kirkjunnar, sbr. lög nr. 95/2020, til að uppfylla ákvæði viðbótarsamningsins um breytt fyrirkomulag og einföldun á greiðslum þeim sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði. Með samningnum fylgdi viljayfirlýsing þar sem meðal annars er fyrirhugað að fulltrúar þjóðkirkjunnar og ríkisins fari yfir gildandi lög um þjóðkirkjuna með það að markmiði að einfalda regluverk hennar. Á grundvelli þeirrar viljayfirlýsingar hefur frumvarp það sem hér er kynnt verið unnið af fulltrúum þjóðkirkjunnar og dómsmálaráðuneytisins og samþykkt á kirkjuþingi 2020 - 2021. Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný lög um þjóðkirkjuna, en brott falli lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997.
Endurskoðun þjóðkirkjulaga hefur staðið yfir í langan tíma á vegum kirkjunnar eða allt frá árinu 2007. Byggir hún einkum á þeirri þróun sem orðið hefur frá því sett voru rammalög um þjóðkirkjuna með lögum nr. 78/1997 er kirkjuþingi var fært ákvörðunarvald í ríkara mæli um skipan mála í kirkjunni, sérstaklega um hin ytri mál. Hefur töluverð reynsla þannig verið byggð upp í starfi kirkjuþings og innri stjórnsýsla kirkjunnar verið að breytast og eflast á þessum tíma. Við þá endurskoðun laga um þjóðkirkjuna sem nú er kynnt hefur að miklu leyti verið byggt á þeirri vinnu sem fram hefur farið á vegum kirkjuþings. Hugað hefur verið sérstaklega að ákvæðum sem leitt gætu til enn meira sjálfstæðis þjóðkirkjunnar og hvernig færa mætti fleiri ákvæði úr lögum í starfsreglur frá kirkjuþingi.
Frumvarp það sem hér er birt hefur að geyma heildarlög um þjóðkirkjuna þar sem fram komi grunnreglur um starfsemi og verkefni hennar. Það felur í sér mikla einföldun á gildandi regluverki um þjóðkirkjuna sem kveðið er á um í lögum. Ráðgert er að flest ákvæði í gildandi lögum er varða innra starf þjóðkirkjunnar og skipulag hennar falli brott og um þau mál verði einungis fjallað á kirkjuþingi og hjá öðrum kirkjulegum stjórnvöldum. Er þannig áformað að kirkjuþing kveði í auknum mæli á um fyrirkomulag flestra mála þjóðkirkjunnar í starfsreglum. Miða breytingarnar að því að lýsa þjóðkirkjunni enn frekar en áður sem sjálfstæðu trúfélagi.
Meðal helstu breytinga sem frumvarpið felur í sér eru að brott verði felld úr lögum ákvæði um að forseti Íslands skipi biskup Íslands og vígslubiskupa, kjörgengi til biskupsembættis, ákvæði um biskupsþjónustuna, ákvæði um þjónustu presta og djákna og um val á prestum og ýmis ákvæði um skipan og störf kirkjuþings og um kirkjuráð. Lagt er til að brott falli ákvæði um fastanefndir kirkjunnar, um prestastefnu, prófasta og vígslubiskupa, um héraðsnefndir og héraðsfundi og um safnaðarfundi og sóknarnefndir, auk þess sem felld verði brott ákvæði um úrskurðar- og áfrýjunarnefnd, sem m.a. fjalla um meint agabrot. Kveðið er á um að kirkjuþing hafi fjárstjórnarvald þjóðkirkjunnar, nema lög kveði á um annað, og marki stefnu í sameiginlegum málum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningu hennar.
Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
f.h. sambandsins
Valgerður Rún Benediktsdóttir
ViðhengiÞað er sérstakt að þetta frumvarp komi fram þegar að umræðan um nýju stjórnarskrána er í hámæli. Núna hafa 31.000 manns skrifað undir áskorun um að tillögur nýju stjórnarskrárinnar verði samþykktar, í þeim tillögum kaus meirihluti þjóðarinnar á móti aðskilnaði ríkis og kirkju.
Það er þó tímabært að skoða hvernig íslenska þjóðkirkjan starfar í dag, hvort að hún sé evangelísk lútersk kirkja, sem boði og þjóni samkvæmt þeim trúarlegu játningum, sem hún var grundvölluð á. Þær eru: Postullega trúarjátningin, Níkeujátningin, Aþanasíusarjátningin, Hin óbreytta Ágsborgarjátning frá 1530 og fræði Lúters hinum minni.
Þessi trúarlegu játningarrit, voru grundvöllur íslensku þjóðkirkjunnar og þeirrar kærleiksríku kristni, sem var innblástur og hornsteinn íslensks menningararfs sem tengist kristni, í bókmenntum, tónlist og myndlist og hafði einnig rík áhrif á íslenskt tungumál, og uppbyggingu velferðarkerfisins. Það er því mikilvægt að þekkja kristnina út frá þessum játningaritum, til að geta orðið læs á íslenskan menningararf og sögu þjóðarinnar. Játningarritin gefa einnig skilning og læsi á vestrænum menningararfi og þeim stórkostlegu listaverkum, tónlist og bókmenntum sem listasagan geymir.
Í fyrstu grein af drögum frumvarpsins, er kveðið á um að hið nýja trúfélag, þjóðkirkjan á Íslandi, muni verða evangelísk lútersk þjóðkirkja, sem byggi á eftirfarandi játningarritum: Postullegu trúarjátningunni, Níkeujátningunni, Aþanasíusarjátningunni, Hinni óbreyttu Ágsborgarjátningu frá 1530 og Fræðum Lúters hinum minni.
Það væri gott ef satt reyndist, en því miður byggja fáir embættismenn íslensku þjóðkirkjunnar sína boðun og predikanir um Guð, á þessum trúarjátningum. Það heyrist meira frá talsmönnum annarrar trúarhreyfingar, sem virðist vera ráðandi innan íslensku þjóðkirkjunnar. Þessi trúarhreyfing er pólitísk sértrúarhreyfing, sem starfar út frá kenningum „Progressive Christianity“ sértrúarhreyfing sem á ekkert skylt við þau játningarrit, sem íslenska þjóðkirkjan var byggð á, og nýja trúfélagið þjóðkirkjan á Íslandi segist ætla að byggja á.
Fyrsta grein frumvarpsins:
"Um 1. gr. Í þessu ákvæði er kveðið á um trúfræðilega stöðu þjóðkirkjunnar, að hún sé hin evangeliska lúterska þjóðkirkja á Íslandi eins og mælt hefur verið fyrir í stjórnarskrám frá árinu 1874. Kenningar þjóðkirkjunnar á Íslandi, sem evangelisk lúterskrar kirkju, eru reistar á grundvelli eftirtalinna játningarrita: 1. Postullegu trúarjátningunni. 2. Níkeujátningunni. 3. Aþanasíusarjátningunni. 4. Hinni óbreyttu Ágsborgarjátningu frá 1530. 5. Fræðum Lúters hinum minni. Lagt er til að heiti þjóðkirkjunnar, sem í núgildandi lögum er ritað íslenska þjóðkirkjan, verði breytt í þjóðkirkjan á Íslandi eins og kveðið er á um í stjórnarskránni.
Samkvæmt stjórnarskránni er hin evangelisk lúterska kirkja þjóðkirkja á Íslandi. Það skilur hana frá öðrum kristnum kirkjudeildum. Sífellt fjölgar kristnum trúfélögum á Íslandi og þess vegna þarf að skilgreina að það sé einmitt hin evangeliska lúterska kirkja sem er þjóðkirkja á Íslandi. Orðalagið í núgildandi lögum á evangelísk lúterskum grunni er ekki í samræmi við stjórnarskrárákvæðið né heldur heimssamtök lúterskra kirkna, sem þjóðkirkjan er aðili að. Þar að auki getur orðalagið leitt til þeirrar mistúlkunar að þessi grunnur beri með sér eitthvað annað en það sem gerir þjóðkirkjuna að evangelisk lúterskri kirkju, nefnilega hinar sameiginlegu játningar og grundvallarrit evangelisk lútersku kirknanna í heiminum, en þær eru ráðandi í kirkjuskipaninni allri. Þá er enn fremur lagt til að fellt verði brott hugtakið sjálfstætt trúfélag eins og nú er í gildandi lögum þar sem litið er svo á að óþarft sé að taka það fram vegna þess að réttur þjóðkirkjunnar á Íslandi til sjálfstæðis telst vera nægjanlega varinn í stjórnarskránni."
Meðfylgjandi er umsögn Vantrúar.
fyrir hönd Vantrúar,
Hjalti Rúnar Ómarsson
Viðhengi Viðhengi14. október 2020
Samráðsgátt stjórnvalda
Umsögn um frumvarp til laga um þjóðkirkjuna (heildarlög) frá dómsmálaráðherra.
Umsögn þessi lýtur einkum að eftirfarandi:
a) Niðurfellingu 12. og 13. gr. l. nr. 78/1997 um úrskurðar- og áfrýjunarnefndir.
b) Niðurfellingu 4. gr. l. nr. 78/1997, um umsjón ráðuneytis með störfum þjóðkirkjunnar.
c) Skilgreiningu í greinargerð á „innri“ og „ytri“ málefnum þjóðkirkjunnar.
d) Óskýrt orðalag í 13. gr. frumvarpstexta.
e) Almennri umsögn um forsendur nýrrar löggjafar
Úrskurðar- og áfrýjunarnefndir þjóðkirkjunnar – 12. og 13. gr. l. nr. 78/1997:
Í núgildandi lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar er sérstaklega kveðið á um úrskurðar- og áfrýjunarnefndir þjóðkirkjunnar. Er um þær fjallað í 12. og 13. gr. gildandi laga. Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpsdrögum er hins vegar hvergi að finna sérstök ákvæði um þessar nefndir og er ekki annað sjá en að það verði eftirleiðis alfarið í höndum kirkjuþings og biskups Íslands, samanber 8. og 10. gr. í drögunum, að skilgreina umgjörð þeirra, valdsvið og viðfangsefni.
Með umsögn þessari er þeirri brýnu athugasemd komið á framfæri að miklu varðar að umræddar nefndir, áfrýjunar- og úrskurðarnefnd, fái að ljúka þeim málum, sem þegar liggja á borði þeirra, á grundvelli núgildandi laga. Er til þess að líta að umfangsmikil og alvarleg mál eru til meðferðar í umræddum nefndum þar sem m.a. kvartað er undan brotlegri framgöngu kirkjuyfirvalda, s.s. biskups Íslands og kirkjuráðs. Eru málin rekin á grundvelli 1. mgr. 12. gr. núgildandi laga um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 en á grundvelli 5. mgr. 12. gr. þeirra sömu laga hefur kirkjuþing sett starfsreglur um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar nr. 730/1998, með síðari breytingum. Er mikilvægt að benda á að þótt 5. mgr. 12. gr. laga um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar heimili kirkjuþingi að setja nánari ákvæði um úrskurðarnefnd þá nær sú heimild ekki til þess að kirkjuþing setji í starfsreglur ákvæði sem takmarka störf hennar. Í þessu sambandi er rétt að benda á úrskurði áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar í málum nr. 1/2018 og 2/2018, en eftirfarandi áherslu er að finna í úrskurðarorðum nefndarinnar í báðum málum:
,,Lögin skilgreina því hina lögvörðu hagsmuni af úrlausn um mál þannig að sá sem verður fyrir meintu broti eigi rétt á því að fá úr því skorið hvort ásökun hans sé á rökum reist.“
Þá skal jafnframt undirstrikað að í athugasemdum við það ákvæði, sem varð að 12. gr. núgildandi laga nr. 78/1997 um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, kemur fram að skort hafi á að í lögum væri;
,,…kveðið á um hvernig skuli fjallað um meint aga- og siðferðisbrot innan íslensku þjóðkirkjunnar, svo og um lausn ágreiningsmála…..Lagt er til að sett verði á fót sérstök nefnd, úrskurðarnefnd, sem fjalli um mál af þessu tagi.“
Þar sem það eru núgildandi lög sem „skilgreina...hina lögvörðu hagsmuni af úrlausn um mál“ telur undirritaður að leggja verði áherslu á að umræddum nefndum gefist sá kostur að ljúka meðferð framlagðra kvartana á grundvelli núgildandi laga enda hefur þeim málum ekki síður verið beint til umræddra nefnda á grundvelli núgildandi laga en starfsreglna. Mætti t.d. leysa þetta með bráðabrigðaákvæði þess efnis að núgildandi lög gildi áfram um nefndirnar við meðferð framkominna mála og yrði þannig komið í veg fyrir réttaróvissu.
Umsjón ráðuneytis með störfum þjóðkirkjunnar - 4. gr. l. nr. 78/1997:
Á héraðsfundi Vesturlandsprófastsdæmis, sem haldinn var í Stykkishólmi hinn 28. apríl 2019, var með tilvísan til 4. gr. l. nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar samþykkt samhljóða að vísa til dómsmálaráðuneytis erindi varðandi niðurlagningu Saurbæjarprestakalls. Eftirfarandi er að finna í fundargerð héraðsfundar frá umræddum fundi:
Næstur tók til máls sr. Óskar Ingi Ingason. Hann hóf máls á 20 máli Kirkjuþings og lýsti þeirri skoðun að þar hafi farið fram ólöglegur gjörningur. Þá bar hann fram eftirfarandi ályktun.
Héraðsfundur Vesturlandsprófastsdæmis, haldinn í Stykkishólmi 28. apríl 2019, beinir þeirri ósk til ráðherra þess, er fer með eftirlit með málefnum íslensku þjóðkirkjunnar, sbr. 4 gr. laga nr 78/1997, að fram fari athugun ráðuneytisins á því hvort meðferð 20. máls kirkjuþings 2018 hjá þjóðkirkjunni og stofnunum hennar hafi verið í samræmi við lög og gildandi starfsreglur er kirkjuþing hefur sett með heimild í 59. rein laganna.
Óskar fundurinn eftir því að ráðuneytið grípi til viðeigandi ráðstafana reynist meðferð málsins hafa farið í bága við heimildir laga og gildandi starfsreglur á forsendu þeirra.
Greinargerð: Í 4. gr. þjóðkirkjulaga, nr. 78/1997, segir. Að ráðuneytið „hafi umsjón með því að þjóðkirkjan og stofnanir hennar fari að lögum´´.
Í 50. gr. laganna segir: „ Kirkjuþing setur starfsreglur skv. 59 gr. um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma. Í umræddum starfsreglum skulu m.a vera reglur varðandi skiptingu kirkjusóknar og sameiningu sókna og um sóknamörk svo og niðurlagningu kirkju eða tilfærslu.
Í samræmi við 59. gr. laganna hefur Kirkjuþing sett „starfsreglur um skipulag kirkjunnar í héraði, nr. 1026/2007“.
Í 3., 4. og 9. gr. starfsreglnanna er mælt fyrir um meðferð tillagna um breytingar á skipan sókna, prestskalla og prófastsdæma á vettvangi Þjóðkirkjunnar.
Greinagerðinni fylgir umsagnir héraðsfundar um tillögur um breytta skipan prestakalla í héraði á sumri 2018 hvað varðar sameiningar Borgar-, Hvanneyrar-, Reykholts- og Stafholtsprestakalla, dagsett 10. september 2018 og um 20. mál kirkjuþings 2018, dagsett 21. febrúar 2019, ásamt greinagerð. Ekki var leitað umsagnar sóknarnefndar Garðaprestakalls né fjallaði biskupafundur um málið.
Þessi ályktun var einnig samþykkt samhljóða.
Þessi samþykkt héraðsfundarins var send dómsmálaráðuneytinu þar sem málið er nú, einu og hálfu ári síðar, enn til meðferðar en undirritaður fregnaði fyrir skemmstu að þjóðkirkjan hefði ekki enn orðið við beiðni ráðuneytisins um að leggja fram gögn vegna málsins. Telur undirritaður afar mikilvægt að einróma samþykkt héraðsfundarins verði ekki gerð áhrifalaus og hún látin daga uppi eingöngu vegna nýrrar lagasetningar. Mætti t.d. með bráðabirgðaákvæði tryggja að ráðuneytið sinnti áfram umsjón sinni með þjóðkirkjunni, samkvæmt 4. gr. l. nr. 78/1997, vegna mála sem beint er til hennar áður en að gildistöku nýrra laga kemur. Þar fyrir utan telur undirritaður mikilvægt - t.d. vegna áframhaldandi tengsla ríkis og kirkju og ákvæðis í stjórnarskrá um þjóðkirkjuna - að umrædd lagagrein ætti að halda sér óbreytt því af fenginni reynslu má ljóst vera að þjóðkirkjan á oft mjög erfitt með að standa rétt að málsmeðferð og ákvarðanatökum.
Skilgreiningar á „innri“ og „ytri“ málefnum þjóðkirkjunnar – Uppbygging frumvarpsdraganna:
Í greinargerðinni með frumvarpsdrögunum er víða að finna aðgreiningu í „innri“ og „ytri“ málefni þjóðkirkjunnar. Má skilja sem umrædd aðgreining í „innri“ og „ytri“ málefni ráði miklu er kemur að uppbyggingu hins nýja frumvarps. Kemur það beinlínis fram orðalagi greinargerðarinnar, eins og t.d. þar sem segir „lagt er til að flest ákvæði í gildandi lögum er varða innra starf þjóðkirkjunnar og skipulag hennar falli brott og verði því einungis fjallað um þau mál á kirkjuþingi og hjá öðrum kirkjulegum stjórnvöldum.“ Þá segir t.d. í athugasemdum með 8. gr. frumvarpsdraganna að ástæða þess að ekki sé getið um kirkjuráð í frumvarpstexta sé sú að „starfsemi kirkjuráðs heyrir til innri málefna kirkjunnar.“ Undirritaður telur að hér sé rík ástæða til að stalda við og huga að þessari aðgreiningu í frumvarpsdrögunum. Er ekki að sjá sem hún byggi á fordæmum eða fyrri skilningi, auk þess sem hún er ekki allskostar rétt en benda má á að vitaskuld lýtur starfsemi kirkjuráðs ekki síður að ytri málefnum kirkjunnar en þeim innri.
Í „Álitsgerð um vald- og verksvið kirkjuþings og kirkjuráðs,“ sem unnin var af lögfræðingunum Eiríki Tómassyni og Þorgeiri Örlygssyni og lögð var fram þann 20. ágúst 1999, er nokkrum sinnum vikið að „innri“ og „ytri“ málefnum þjóðkirkjunnar samanber eftirfarandi í álitsgerð þeirra:
„Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 48/1982 sagði orðrétt um kirkjuþing: „Kirkjuþing þjóðkirkjunnar fjallar um sameiginleg málefni þjóðkirkjunnar að eigin frumkvæði og leysir úr þeim málum, sem til þingsins er vísað af hálfu biskups, kirkjuráðs, Alþingis og kirkjumálaráðherra.“ Í 13. gr. laganna var ennfremur að finna svofellt ákvæði: „Kirkjuþing hefir ráðgjafaratkvæði og tillögurétt um öll þau mál, er kirkju, klerkastétt og söfnuði landsins varða og heyra undir svið löggjafarvaldsins eða sæta úrskurði forseta Íslands. – Það hefir og rétt til að gera samþykktir um innri málefni kirkjunnar, guðsþjónustu, helgisiði, skírn, fermingar, veitingu sakramenta og önnur slík. Þær samþykktir eru þó eigi bindandi, fyrr en þær hafa hlotið samþykki prestastefnu og biskups.“
Þá er í 3. kafla álitsgerðarinnar, sem ber yfirskriftina Tvíþætt viðfangsefni þjóðkirkjunnar, að finna aðgreininguna „veraldleg stjórnsýsla“ og „andleg málefni.“ Má þar glöggt greina að hin andlegu málefni samsvara hinum innri málefnum og að veraldleg stjórnsýsla telst til hinna ytri málefna. Um þetta má nánar lesa í eftirfarandi hluta álitsgerðarinnar, sem undirritaður leyfir sér að setja hér fram:
„Það, sem einkennir þjóðkirkjuna og greinir hana frá öðrum stofnunum ríkisins, er að hún hefur sérstöku hlutverki að gegna. Í 1. mgr. 1. gr. þjkl. segir að þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni. Þessum grundvelli er lýst þannig í áliti starfsháttanefndar þjóðkirkjunnar, sem lagt var fyrir prestastefnu árið 1977, að samkvæmt evangelísk-lúterskum skilningi sé kirkjan „söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er réttilega boðað og sakramentin eru réttilega um hönd höfð“, sbr. 7. gr. Ásborgarjátningarinnar frá árinu 1530. Þjóðkirkjan er því í senn trúarsamfélag og mannlegt félag.
Með skírskotun til þessa má skipta viðfangsefnum þjóðkirkjunnar í grófum dráttum í tvennt, þ.e. annars vegar í „andleg málefni“ og hins vegar í „veraldlega stjórnsýslu“. Svo virðist sem lög nr. 78/1997 taki að verulegu leyti mið af þessari tvískiptingu þar sem biskupi, biskupafundi og prestastefnu er fyrst og fremst ætlað stýra og fjalla um „kirkjuleg málefni“, sbr. 10., 19. og 3. mgr. 28. gr. þjkl. Kirkjuþingi og kirkjuráði er aftur á móti falið að annast „hina veraldlegu stjórnsýslu“, sbr. 20., 23., 24., 26. og 27. gr. laganna.
Þessi tvískipting er þó hvergi nærri skýr. Í fyrsta lagi er erfitt að greina á milli „hinna andlegu málefna“, svo sem kristnihalds og kenningar kirkjunnar, og „hinnar veraldlegu stjórnsýslu“ á borð við fjárhagslega umsýslu og starfsmannahald. Í öðru lagi er biskupi ekki aðeins ætlað að hafa tilsjón með kristnihaldi og kenningu kirkjunnar, heldur er svo fyrir mælt í 2. mgr. 6. gr. þjkl. að hann fari með „yfirstjórn þjóðkirkjunnar“ ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum og í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna að hann hafi m.a. tilsjón með „starfi hennar í landinu“. Biskup er forseti kirkjuráðs „og hefur ákvörðunarvald um einstök mál, nema þau heyri undir önnur stjórnvöld þjóðkirkjunnar“, sbr. 2. og 3. málsl. 1. mgr. 10. gr. Í 3. mgr. 20. gr. þjkl. er kirkjuþingi síðan með áþekkum hætti ætlað að gera samþykktir um kenningarleg málefni og fleiri atriði sem hljóta að teljast til „hinna andlegu málefna“ þjóðkirkjunnar. Í 2. mgr. 20. gr. er þó tekið fram að málefni, er varða kenningu kirkjunnar og agavald, heyri undir biskup. Að lokum fer kirkjuráð með framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar samkvæmt 24. gr. og 1. mgr. 26. gr. þjkl. Þannig verður ákvörðunum kirkjulegra stjórnvalda, sem heyra undir lögsögu ráðsins, skotið til þess til endanlegrar úrlausnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. Þó eru undanskildar ákvarðanir úrskurðar- og áfrýjunarnefnda samkvæmt 12. og 13. gr. þjkl., svo og ákvarðanir biskups samkvæmt 11. gr. þjkl. og ákvarðanir hans um kenningu kirkjunnar, sbr. 10., 19., 20. og 28. gr. laganna.
Eftir því sem unnt er að skilja á milli „hinna andlegu málefna“ þjóð-kirkjunnar og „hinnar veraldlegu stjórnsýslu“ hennar má segja að kirkjan sé algjörlega sjálfráð um fyrri þáttinn. Í samræmi við það hefur gjarnan verið talað um „hin innri“ og „hin ytri“ málefni hennar. Þannig verður t.d. ákvörðunum, sem lúta að kristnihaldi og kenningu kirkjunnar einvörðungu, hvorki skotið til kirkjumálaráðherra né þær bornar undir hina almennu dómstóla. Í þeim svörum, sem á eftir fara, verður því fyrst og fremst fjallað um „hina veraldlegu stjórnsýslu“ þjóðkirkjunnar.”
Af því sem hér hefur verið sagt um uppbyggingu frumvarpsdraganna og skilgreiningu þess á „innri“ og „ytri“ málefnum kirkjunnar má glöggt sjá að ekki er um hefðbundna aðgreiningu að ræða. Er hin nýja framsetning í raun villandi.
Um 13. gr. frumvarpstexta og greinargerðina með henni:
Með umsögn um 13. grein frumvarpsdraga vill undirritaður fyrst og fremst benda á óskýrt orðalag. Í síðustu málsgreininni segir orðrétt:
„Starfsreglur, samþykktir og ályktanir, sem kirkjuþing hefur sett í gildistíð laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum, halda gildi sínu, eftir því sem við á, þar til kirkjuþing hefur fellt þær niður, breytt þeim eða samþykkt nýjar starfsreglur, þó eigi síðar en 31. desember 2021.”
Undirritaður telur fullkomlega eðlilegt að í greininni sé minnst á starfsreglur með þeim hætti sem gert er en telur ótækt að talað sé um „samþykktir“ og „ályktanir“ í samhenginu. Er niðurlag greinarinnar einnig óljóst þannig að ekki verður fyllilega ráðið hvað eigi að vera fram komið „eigi síðar en 31. desember 2021.“ Þarf að skerpa á hugsuninni sem málsgreininni er ætlað að fanga og virðist fyrst og fremst lúta að áframhaldandi gildi starfsreglna eftir að ný lög verða komin til sögunnar.
Almennt:
Sjá má á frumvarpsdrögunum að forsendur þeirra eru aukið sjálfstæði þjóðkirkjunnar, lýðræði og jafnræði, ásamt einföldun regluverks. Má skilja að með auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar muni regluverk hennar verða einfaldara og skilvirkara. Undirritaður telur hins vegar ástæðu til að ætla að regluverkið verði flóknara, ómarkvissara og almennt óvandaðra. Einnig er ástæða til að óttast að sérhagsmunir og stundarsjónarmið ryðji sér til rúms með skaðlegum afleiðingum. Er undirritaður þeirrar skoðunar að með auknu sjálfstæði tapist mikilvægt aðhald sem ekki hvað síst felst í núgildandi löggjöf um þjóðkirkjuna.
Einnig er mikilvægt aðhald að finna í annarri löggjöf, s.s. stjórnsýslulögum, en í greinargerðinni með frumvarpsdrögunum er sérstaklega tekið fram að stjórnsýslulög muni ekki gilda um þjóðkirkjuna. Verður að harma þá ráðstöfun verði hún að veruleika. Er full ástæða til að vara við slíkri breytingu, sem býður mörgum hættum heim sem felast í ógagnsæi, svo sem óheiðarlegum og óvönduðum vinnubrögðum. Þá mun afnám umræddrar tengingar við stjórnsýslulög hafa í för með sér að erfitt mun reynast að fylgjast með hvernig þjóðkirkjan heldur í heiðri “grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis,” sbr. ákvæði 5. gr. frumvarpstextans.
Þá telur undirritaður ástæðu til að hafa áhyggjur af lýðræðinu innan þjóðkirkjunnar en þátttaka á lýðræðisvettvangi hennar er jafnan dræm, þrátt fyrir mikinn fjölda “félagsmanna.” Þar sem þjóðkirkjunni er með frumvarpinu fært áður óþekkt sjálfdæmi um málefni sín er sú hætta fyrir hendi að hún verði ofurseld öflum og aðstæðum, t.d. pólitískum og/eða trúarlegum tískustraumum, sem með tiltölulega lítilli fyrirhöfn geta lagt hana undir sig. Geta afleiðingarnar sem hægast orðið þær að sjálfstæðið, sem þjóðkirkjan þráir svo mjög, verði henni fjötur um fót og til þess fallið að svipta hana trausti og trúverðugleika.
Undirritaður vill að lokum segja að hann telur að framkomin frumvarpsdrög hafi hvorki fengið nægjanlegan undirbúning né þá kynningu innan þjóðkirkjunnar sem þörf er á. Um mjög umfangsmiklar lagabreytingar er að ræða sem eiga eftir að koma mörgum í opna skjöldu. Er hætt við að ný lög verði þjóðkirkjunni ekki til styrkingar eða stuðnings heldur muni þau þvert á móti grafa undan henni. Telur undirritaður að hér þurfi að standa mun betur að undirbúningi en raun ber vitni. Er í raun ekkert sem kallar með hraði á nýja heildarlöggjöf og gildir hér hið fornkveðna: Festina lente!
Kópavogi 14. október 2020,
Kristinn Jens Sigurþórsson,
Kt. 160461-2259