Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 2.–14.10.2020

2

Í vinnslu

  • 15.10.2020–24.11.2021

3

Samráði lokið

  • 25.11.2021

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-206/2020

Birt: 2.10.2020

Fjöldi umsagna: 4

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Drög að frumvarpi til laga um þjóðkirkjuna (heildarlög)

Niðurstöður

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 9. mars 2021 og var samþykkt sem lög frá Alþingi 13. júní 2021. Lögin tóku gildi 1. júlí 2021.

Málsefni

Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga sem fela í sér aukið sjálfstæði þjóðkirkjunnar og einföldun alls lagaumhverfis um hana,

Nánari upplýsingar

Tilefni frumvarps þessa er viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, sem undirritaður var 6. september 2019, um endurskoðun á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi. Með samningnum er m.a. stefnt að auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum. Í samræmi við samninginn hefur Alþingi samþykkt breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, og fleiri lögum sem tengjast launamálum presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar, sbr. lög nr. 153/2019. Jafnframt voru samþykkt lög um niðurlagningu nokkurra sjóða kirkjunnar, sbr. lög nr. 95/2020, til að uppfylla ákvæði viðbótarsamningsins um breytt fyrirkomulag og einföldun á greiðslum þeim sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði. Með samningnum fylgdi viljayfirlýsing þar sem meðal annars er fyrirhugað að fulltrúar þjóðkirkjunnar og ríkisins fari yfir gildandi lög um þjóðkirkjuna með það að markmiði að einfalda regluverk hennar. Á grundvelli þeirrar viljayfirlýsingar hefur frumvarp það sem hér er kynnt verið unnið af fulltrúum þjóðkirkjunnar og dómsmálaráðuneytisins og samþykkt á kirkjuþingi 2020 - 2021. Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný lög um þjóðkirkjuna, en brott falli lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997.

Endurskoðun þjóðkirkjulaga hefur staðið yfir í langan tíma á vegum kirkjunnar eða allt frá árinu 2007. Byggir hún einkum á þeirri þróun sem orðið hefur frá því sett voru rammalög um þjóðkirkjuna með lögum nr. 78/1997 er kirkjuþingi var fært ákvörðunarvald í ríkara mæli um skipan mála í kirkjunni, sérstaklega um hin ytri mál. Hefur töluverð reynsla þannig verið byggð upp í starfi kirkjuþings og innri stjórnsýsla kirkjunnar verið að breytast og eflast á þessum tíma. Við þá endurskoðun laga um þjóðkirkjuna sem nú er kynnt hefur að miklu leyti verið byggt á þeirri vinnu sem fram hefur farið á vegum kirkjuþings. Hugað hefur verið sérstaklega að ákvæðum sem leitt gætu til enn meira sjálfstæðis þjóðkirkjunnar og hvernig færa mætti fleiri ákvæði úr lögum í starfsreglur frá kirkjuþingi.

Frumvarp það sem hér er birt hefur að geyma heildarlög um þjóðkirkjuna þar sem fram komi grunnreglur um starfsemi og verkefni hennar. Það felur í sér mikla einföldun á gildandi regluverki um þjóðkirkjuna sem kveðið er á um í lögum. Ráðgert er að flest ákvæði í gildandi lögum er varða innra starf þjóðkirkjunnar og skipulag hennar falli brott og um þau mál verði einungis fjallað á kirkjuþingi og hjá öðrum kirkjulegum stjórnvöldum. Er þannig áformað að kirkjuþing kveði í auknum mæli á um fyrirkomulag flestra mála þjóðkirkjunnar í starfsreglum. Miða breytingarnar að því að lýsa þjóðkirkjunni enn frekar en áður sem sjálfstæðu trúfélagi.

Meðal helstu breytinga sem frumvarpið felur í sér eru að brott verði felld úr lögum ákvæði um að forseti Íslands skipi biskup Íslands og vígslubiskupa, kjörgengi til biskupsembættis, ákvæði um biskupsþjónustuna, ákvæði um þjónustu presta og djákna og um val á prestum og ýmis ákvæði um skipan og störf kirkjuþings og um kirkjuráð. Lagt er til að brott falli ákvæði um fastanefndir kirkjunnar, um prestastefnu, prófasta og vígslubiskupa, um héraðsnefndir og héraðsfundi og um safnaðarfundi og sóknarnefndir, auk þess sem felld verði brott ákvæði um úrskurðar- og áfrýjunarnefnd, sem m.a. fjalla um meint agabrot. Kveðið er á um að kirkjuþing hafi fjárstjórnarvald þjóðkirkjunnar, nema lög kveði á um annað, og marki stefnu í sameiginlegum málum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningu hennar.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Dómsmálaráðuneytið

postur@dmr.is