Samráð fyrirhugað 06.10.2020—20.10.2020
Til umsagnar 06.10.2020—20.10.2020
Niðurstöður í vinnslu frá 20.10.2020
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku (verðlagshækkun jöfnunargjalds raforku)

Mál nr. 208/2020 Birt: 06.10.2020
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Orkumál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (06.10.2020–20.10.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Með frumvarpinu er lögð til verðlagshækkun á jöfnunargjaldi raforku, frá upptöku þess 2015. Frumvarpið er, ásamt sérstöku framlagi á fjárlögum, liður í aukinni jöfnun dreifikostnaðar raforku í dreifbýli.

Frá upptöku jöfnunargjalds raforku árið 2015 hefur kostnaður við dreifingu raforku haldið áfram að aukast í dreifbýli umfram kostnað í þéttbýli. Þörf fyrir aukið framlag til jöfnunar dreifikostnaðar raforku hefur því vaxið jafnt og þétt á síðustu fimm árum. Ýmsar ástæður liggja þar að baki. Hefur þessi þróun leitt til hækkana á gjaldskrám í dreifbýli sem leitt hefur til þess að munurinn á dreifikostnaði í dreifbýli og þéttbýli vaxið að nýju, eins og var fyrir 2015. Að óbreyttu mun sú þróun halda áfram næstu 4 til 5 ár.

Í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 er vakin athygli á þessari þróun og kemur þar fram að í samræmi við stefnu stjórnvalda um jöfnun orkukostnaðar á landsvísu, sé í útgjaldaramma málefnasviðs 15 (orkumál) gert ráð fyrir auknum framlögum til jöfnunar dreifikostnaðar raforku sem nemur 730 m.kr. á ári. Er þar annars vegar um að ræða 13% verðlagshækkun á jöfnunargjaldi raforku (130 m.kr.) og hins vegar framlag úr ríkissjóði upp á 600 m.kr. Þessi áform koma jafnframt fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021.

Í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2021-2025 kemur fram að verði þessi áform um 730 m.kr. aukningu að veruleika fari hlutfall jöfnunar, á samanburði á kostnaði við dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli, úr núverandi 49% í 85% á árinu 2021.

Í samræmi við stefnu stjórnvalda um jöfnun orkukostnaðar á landsvísu, eins og hún kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og sem sjálfstætt markmið í málefnasviði 15 í fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025, er með frumvarpi þessu lagt til að tilsettu markmiði um aukna jöfnun dreifikostnaðar verði náð með samspili tveggja leiða. Annars vegar að hækka jöfnunargjald raforku til samræmis við verðlagsbreytingar frá því að gjaldið var tekið upp (13% hækkun). Og hins vegar með framlagi til jöfnunar dreifikostnaðar á fjárlögum (600 m.kr.).

Með frumvarpinu er því lögð til uppfærsla á jöfnunargjaldinu til samræmis við verðlagsbreytingar frá 2015. Þ.e. að það hækki um 13%. Sem þýðir að það verði 0,34 kr á hverja kílóvattstund vegna forgagnsorku (í stað 0,30 kr.) en 0,11 kr. á hverja kílóvattstund vegna skerðanlegrar raforku (í stað 0,10 kr.).

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Sveitarfélagið Skagafjörður - 20.10.2020

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar mikilvægu skrefi sem felst í frumvarpi um aukið framlag til jöfnunar dreifikostnaðar raforku á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Mikilvægt er að þessi framlög aukist verulega samhliða því sem unnið verði að því að tryggja afhendingaröryggi raforku og átaki í þrífösun rafmagns á landinu öllu.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggur mikla áherslu á þörf er á að ganga enn lengra í þessa átt og að unnið verði markvisst að því að ná fullum jöfnuði á kostnaði við dreifingu raforku á milli dreifbýlis og þéttbýlis og að lögum verði breytt í því skyni.

Fyrir hönd byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar,

Sigfús Ingi Sigfússon,

sveitarstjóri